Þjóðarrétturinn rýkur út

| .

Sala á þjóðarréttinum lambakjöti hefur verið góð í sumar og salan í júní sú besta frá árinu 2010. Ýmislegt kemur til, eins veðurblíða og gott gengi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, en mest munar þó líklega um markaðsátak gagnvart erlendum ferðamönnum að mati Þórarins Inga Péturssonar, formanns Landssamtaka sauðfjárbænda að því er fram kemur í frétt RÚV um málið. Um sextíu veitingastaðir um allt land eru með í átakinu en ekki var reiknað með sjáanlegum árangri fyrr en á næsta ári. Mikil söluaukning varð á þjóðarréttinum á fyrsta ársfjóðungi þessa árs, en þá seldist 25,1% meira lambakjöt en á sama tíma í fyrra eins og lesa hefur mátt m.a. á síðum Bændablaðsins. Þá eru birgðir minni nú en vanalega um þetta leiti árs.

Þjóðarrétturinn í öndvegi á Héraði

| .

Í dag innsigluðu Guðjón Rúnar Þorgrímsson, matreiðslumaður á Icelandair hóteli á Héraði og Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Markaðsráðs kindakjöts samstarf Icelandair hótelana og Markaðsráðs á Austurlandi. Þeir nutu liðsinnis Sigrúnar Blöndal, formanns Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, við að setja upp skjöld með merki Markaðsráðs á veitingastað Icelandair hótelsins á Egilsstöðum.

Bændur fá ríflegan styrk til jafnréttisrannsókna

| .

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra afhenti styrki úr Jafnréttissjóði Ísland við hátíðlega athöfn í Iðnó á kvenréttindadaginn 19. júní. Verkefnið „Úttekt á stöðu kvenna í sauðfjárrækt“ fékk 2.500.000 kr. úr sjóðnum. Þetta er samstarfsverkefni Landssamtaka sauðfjárbænda og RIKK – Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla íslands. Áður hefur verið gerð frumrannsókn undir sama heiti og lesa má skýrslu fyrsta hluta hér. Niðurstaða hennar varð til þess að sett var inn sérstakt jafnréttisákvæði í nýgerða búvörusamninga.

Áætlað er næsta hluta verkefnisins ljúki með ítarlegri skýrslu seint á árinu 2017 en markmið rannsóknarinnar er að kortleggja hvar hindranir fyrir framgangi kvenna innan sauðfjárræktar liggja og koma með tillögur að kerfisbreytingum sem leiða til úrbóta og aukins jafnréttis innan greinarinnar með tilheyrandi ávinningi fyrir samfélagið í heild.

Þetta er í fyrsta sinn sem styrkir eru veittir úr Jafnréttissjóði Íslands en sjóðurinn var stofnaður í fyrra í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Tæplega 100 milljónum króna var úthlutað til 42 verkefna að þessu sinni en sjóðurinn nýtur framlaga af fjárlögum í fimm ár, til ársloka 2020. Hér má lesa frétt af vef félags- og húsnæðisráðuneytisins um úthlutunina.

Þjóðarréturinn í öndvegi á Akureyri

| .

Samstarf Icelandair hótels Akureyri og Markaðsráðs kindakjöts var formlega innsiglað í hádeginu á föstudaginn. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda og Sigrún Björk Jakobsdóttir hótelstjóri settu upp skjöld upprunamerki Markaðsráðs á hótelinu.

Ljósmyndir: Þórhallur Jónsson/Pedromyndir 

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar