Sauðfé fer fækkandi

| .

Í nýjum tölum Búnaðar­stofu Matvæla­stofnunar kemur fram að ásett sauðfé í landinu á síðastliðnum vetri var 475.893 skepnur. Er þetta örlítil fjölgun frá fyrra ári en sýnir samt gríðarlega fækkun sauðfjárstofnsins á síðustu 35 árum.

Á árinu 1981 var sauðfé í landinu 794.097 skepnur, en fór síðan ört fækkandi fram til 1992 þegar talan var komin niður í 487.545. Þá varð lítils háttar aukning og fjölgaði sauðfé á tveim árum, eða til ársloka 1994 í 499.335 skepnur. Það er jafnframt mesti fjöldi sauðfjár í landinu allar götur síðan. Aðeins tvisvar sinnum hefur stofninn náð því að komast í 490.000 síðan 1994, en það var 1998 og 1999.

Í dag telst sauðféð í landinu eins og fyrr segir vera 475.893 skepnur. Þar af eru 377.861 ær. Hrútar og sauðir (geldir hrútar) eru 11.939. Þá eru lambgimbrar 77.636 talsins og lambhrútar eru 8.457.

bændablaðið á

Mesta sauðfjáreldið er á Norðurlandi

Langflest sauðfé er á Norðurlandi, eða 183.775 fjár og þar af er drjúgur hluti fjárins í Húnavatnssýslum. Þar á eftir kemur Suður- og Suðausturland, þ.e. frá Ölfusi og austur að Höfn í Hornafirði með 96.956 fjár. Vesturland fylgir þar fast á hælana með 91.703 skepnur.

Sauðfé hefur fækkað mikið á Vestfjörðum en þar eru nú samkvæmt tölum MAST 44.737 kindur. Á Austfjörðum hefur fækkun sauðfjár líka orðið mikil og eru þar nú 54.932 skepnur. Fæst er sauðfé þó á höfuðborgarsvæðinu þar sem einungis eru 2.989 fjár.

Aðeins 1,4 skepnur á íbúa

Á árinu 1981 voru 794.097 vetrarfóðraðar kindur í landinu, eða um 3,5 sauðkindur á hvern einasta landsmann. Á árinu 2016 var sauðfjárstofninn kominn í 475.893 skepnur, eða um 1,4 kindur á hvern íbúa.

Ljóst er að sauðfé hefur því fækkað gríðarlega á undanförnum áratugum eða um hartnær helming að höfðatölu fjárins og enn meira sem hlutfall af íbúafjölda.

 

Fréttin birtist fyrst í bændablaðinu 

Whole Food: Aukin kraftur í sölu á íslenskum vörum

| .

Bandaríska verslunarkeðjan Whole Foods hefur selt íslenkar vörur í all mörg ár við góðan orðstír. Keðjan sérhæfir sig í sölu á lífrænum, vistvænum og siðlegum matvörum. Viðskiptavinum er boðið upp á íslenskt salt, súkkulaði, osta og bleikju, að ógleymdu lambakjöti. Í fyrra seldust um 190 tonn af lambakjöti en í hitteðfyrra voru tonnin 203. Mikil ánægja er með íslenska búskaparhætti og íslenska lambakjötið hjá Whole Foods. Í viðtali við Bændablaðið segir Joe Wood kjötinnkaupastjóri að verslunarkeðjan ætli að auka söluna í ár og stefni á 230 tonna sölu. Fyrirtækið stefni á sérstaka mánaðarlanga markaðsherferð með íslensku vörurnar í haust. Hér má lesa frétt Bændablaðsins í heild sinni. 

Fræðslufundur um nýtingu sauða- og geitamjólkur

| .

Fullyrða má að ónýtt sóknarfæri liggi í nýtingu sauða- og geitamjólkur hér á landi. Áhugi fyrir mjöltum og vinnslu úr mjólkinni er til staðar, enda möguleikarnir kannski meiri en nokkru sinni áður að bjóða heimaunnar landbúnaðarvörur nú þegar landið okkar er svo vinsæll áningarstaður ferðamanna. Þá er ekki vanþörf á því að skoða alla möguleika sem kunna að vera fyrir hendi í því að auka verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði.
Fyrirhugað er að halda fræðslufund fyrir þá sem hafa hug á því að hefja mjaltir og vinnslu á afurðum úr sauða- og geitamjólk. Markmið fundarins er að kynna fólki hvaða aðstaða þarf að vera fyrir hendi, hvaða kröfur eru gerðar til aðstöðunnar og að hverju þarf að huga áður en farið er af stað í slíkt verkefni.
Á fundinum mun Sveinn Rúnar Ragnarsson, bóndi í Akurnesi, greina frá reynslu þeirra bænda í Akurnesi af framkvæmd sauðamjalta. Óli Þór Hilmarsson hjá MATÍS mun fjalla um þær kröfur sem gerðar eru til vinnslunnar samkvæmt núgildandi reglugerðum. Þá mun Sigtryggur Veigar Herbertsson, bútækni ráðunautur RML, fjalla um aðstöðu við mjaltir.
Fundurinn er haldinn af Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins í samstarfi við Landsamtök sauðfjárbænda og Geitfjárræktarfélag Íslands. Fundurinn verður haldinn á Hvanneyri föstudaginn 23. júní frá kl. 13:00 til 17:00. Þátttaka er öllum opin og ekkert skráningargjald en þátttakendur verða að skrá sig fyrir fram. Skráning fer fram í gegnum heimasíðu RML (sjá hnapp á heimasíðu) eða í síma 516-5000. Skráningu lýkur mánudaginn 19. júní.
Nánari upplýsingar veitir Eyþór Einarsson, sauðfjárræktarráðunautur hjá RML (ee@rml.is / 516-5014).

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar