Um 700 tonnum meira á lager en æskilegt væri

| .

Útlit er fyrir að um 1.300 tonn af lambakjöti verði til 1. september. Þetta er um 700 meira en æskilegt væri og í samræmi við það sem fram kom á vef Landssamtaka sauyðfjárbænda í lok júlí. Þetta jafngildir því nánast að mánaðarsala sé til á lager þegar nýtt kjöt kemur á markað. Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda fór yfir stöðuna á Rás 1 í morgun. Smellið á myndina til að skoða betur. 

Markaðsráð hefur uppfyllt upplýsingaskyldu sína samkvæmt samkeppnislögum

| .

Framkvæmdastjóri Markaðsráðs kindakjöts sendi forstjóra Samkeppniseftirlitsins tölvubréf í dag þar sem því er komið skilmerkilega á framfæri að Markaðsráð situr ekki á neinum gögnum í tengslum við undanþágubeiðni sem ráðið sendi til eftirlitsins fyrr í sumar og hefur því uppfyllt upplýsingaskyldu sína í samræmi við 1. mgr. 19. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.

Þær upplýsingar sem Markaðsráð byggir undanþágubeiðni sína á eru opinberar og komnar frá Hagstofu Íslands, Matvælastofnun, Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins eða sambærilegum aðilum. Að öðru leyti er byggt á mati forystumanna bænda og sláturleyfishafa á stöðu greinarinnar og hugsanlegri atburðarás ef ekki verður brugðist við. 

Hér að neðan má lesa bréfið í heild sinni. 

Frá_Markaðsráði_kindakjöts_04082017.pdf

Lækkun afurðaverðs til bænda veldur vonbrigðum

| .

Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda lýsir vonbrigðum sínum með áform sláturleyfishafa um verulegar lækkanir á afurðaverði til bænda í haust. Samtökin hafa skilning á erfiðri stöðu afurðastöðva en óttast alvarlegar afleiðingar lækkunar fyrir sveitir landsins þar sem sauðfjárrækt er hryggjarstykkið í afkomu og grundvöllur byggðafestu.

Um tveir þriðju hlutar framleiðslunnar fara á innanlandsmarkað og þar hefur sala aukist að undanförnu. Á sama tíma hefur útflutningur dregist saman og verðmæti hans minnkað verulega. Þeir erfiðleikar sem nú blasa við sauðfjárrækt á Íslandi eru meiri en sést hafa um áratuga skeið. Sala og framleiðsla á lambakjöti er frjáls og tækifæri til inngripa því takmörkuð.

Frá því á vormánuðum hafa Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands átt í viðræðum við atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um viðbrögð við yfirvofandi vanda. Því miður hefur ekki fengist viðunandi niðurstaða enn sem komið er en viðræður eru í gangi á milli þessara aðila um aðgerðir.

Bændur og afurðastöðvar verða að skoða sín mál af fullri alvöru. Hvarvetna verður að leita leiða til hagræðingar og aðlaga framleiðsluna að markaðnum. Sauðfjárbændur eru reiðubúnir til samstarfs um aðgerðir sem raunverulega bæta stöðu bænda og íslenskra sveita til framtíðar. Í slíku samstarfi reynir á vilja afurðastöðva til breytinga, velvilja og kjark stjórnvalda og síðast ekki síst á samstöðu bænda.

Fyrir hönd stjórnar Landssamtaka sauðfjárbænda,

Oddný Steina Valsdóttir formaður.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar