Námskeið um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu

| .

Matvælastofnun heldur undirbúningsnámskeið fyrir þá sem hafa sótt um aðild að gæðastýrði sauðfjárframleiðslu en krafist er að þátttakendur í gæðastýrði sauðfjárrækt sæki slíkt námskeið. Vakin er athygli framleiðenda sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu á búi sínu að umsóknum skal skila eigi síðar en 20. nóvember ár hvert.
Staður og tími
Kirkjubæjarklaustur þann 14. júní á Hótel Klaustri, að Klausturvegi 6 kl. 10:30 – 16:30.
Tilkynna þarf þátttöku eigi síðar en 9. júní n.k. í síma 530-4800 eða með tölvupósti á netfangið mast@mast.is. Ekki er um sérstakt námskeiðsgjald að ræða en þátttakendur greiða sjálfir fyrir veitingar.

Á námskeiðinu verður:
farið yfir lagalegan grundvöll gæðastýringar og stjórnsýslu tengdri gæðastýrðri sauðfjárrækt.
farið ítarlega yfir reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu nr. 1160/2013, með síðari breytingum, þar sem áhersla er lögð á að skýra alla liði reglugerðarinnar fyrir þátttakendum
fjallað um landnýtingu og landbótaáætlanir.
farið yfir reglugerð um merkingar búfjár nr. 916/2012, með síðari breytingum.
farið yfir reglugerð um velferð sauðfjár og geitfjár nr. 1066/2014.
farið yfir reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt nr. 1151/2016.
fjallað um skýrsluhald í sauðfjárrækt, uppbygginu þess og grundvallaratriði sem standa þarf skil á við þátttöku í skýrsluhaldi.
farið yfir notkun á forritinu Jörð.
farið í grundvallaratriði varðandi sauðfjárbúskap, fóðrun og hirðingu sauðfjár.

*Miðað er við að hámarksfjöldi á hvert námskeið sé 20 manns. Ef þátttaka er ekki næg áskilur Matvælastofnun sér þann rétt að fella niður námskeiðið og færa staðsetningu þess.

Ráðstefna: Baráttan gegn sýklaónæmi

| .

Sýklalyfjaónæmi er ein helsta ógn sem steðjar að lýðheilsu, matvælaöryggi og framþróun í heiminum í dag samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Dauðsföll af völdum fjölónæmra baktería hafa aukist og er áætlað að sýkingar af völdum sýklalyfjaónæmra baktería valdi nú þegar um 700.000 dauðsföllum í heiminum á hverju ári, þar af 25.000 í Evrópu. Hver er staða sýklalyfjaónæmis á Íslandi og í Evrópu og hvernig má verjast frekari aukningu á lyfjaónæmum bakteríum? Matvælastofnun og Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) boða til ráðstefnu um baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi mánudaginn 15. maí 2017 kl. 13:30 – 16:30 í fyrirlestrarsal Íslenskrar erfðagreiningar að Sturlugötu 8 í Reykjavík.

Samhliða aukinni notkun sýklalyfja í heiminum, ekki síst í landbúnaði, koma stöðugt fram nýjar kynslóðir ofurbaktería. Þetta eru bakteríur sem hafa þróað ónæmi fyrir einu, mörgum eða jafnvel öllum sýklalyfjum á markaði. Afleiðingin er sú að sýkingum í mönnum og dýrum fjölgar sem ekki er hægt að vinna bug á með sýklalyfjum. Haldi þessi þróun áfram án aðgerða er áætlað að árið 2050 verði dauðsföll af völdum sýklalyfjaónæmra baktería um 10 milljónir árlega á heimsvísu.

Ráðstefnan er haldin í tilefni af heimsókn sendinefndar EFSA til Íslands. Á ráðstefnunni mun forstjóri EFSA segja frá Matvælaöryggisstofnun Evrópu og hvernig stuðla megi að auknu matvælaöryggi með evrópskri samvinnu. Sérfræðingur stofnunarinnar mun fara yfir stöðu sýklalyfjaónæmis í matvælum, dýrum og mönnum í Evrópu og fjalla um leiðir til að lágmarka notkun sýklalyfja í landbúnaði. Þá munu sóttvarnalæknir og yfirdýralæknir greina frá sýklalyfjaónæmi á Íslandi og niðurstöðum íslensks starfshóps sem falið var að leggja fram tillögur um varnir gegn sýklalyfjaónæmi hérlendis. Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér að neðan.

Ráðstefnan fer fram á ensku og er öllum opin, þátttakendum að kostnaðarlausu. Skráning fer fram á netfanginu mast@mast.is. Skráningarfrestur er til og með 11. maí. Taka þarf fram nafn, fyrirtæki/samtök/stofnun og netfang við skráningu.

Ítarefni
Dagskrá á íslensku

Fundargerð aðalfundar komin á netið

| .

Nú er hægt er að nálgast fundargerð aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda 2017. Hana má finna undir flipanum aðalfundir hér fyrir ofan, eða með því að smella hér

Núverandi staða varnarhólfa

| .

Eins og flestir búfjáreigendur vita er landinu skipt upp í 26 varnarsvæði með svokölluðum varnarlínum sem ýmist eru girðingar eða náttúrulegar hindranir. Til að auðvelda eftirlit eru mismunandi litir hafðir á eyrnamerkjum í sauðfé eftir því hvaða varnarhólfi það tilheyrir.

Samkvæmt núgildandi reglugerðum og lögum er ekki heimilt að flytja lifandi jórturdýr milli varnahólfa, þ.e.a.s. yfir varnarlínur nema sótt sé um leyfi hjá Matvælastofnun. Varnarlínurnar gegna mikilvægu hlutverki í aðgerðum sem lúta að upprætingu sjúkdóma á borð við riðuveiki og garnaveiki. Sömuleiðis geta varnarlínurnar haft mikla þýðingu við að stemma stigu við útbreiðslu nýrra smitsjúkdóma.

Sjúkdómastaða sauðfjár með tilliti til riðu og garnaveiki er misjöfn á milli varnarsvæðanna og jafnvel innan sama svæðis og gilda því mismunandi reglur um flutninga á lifandi jórturdýrum frá og innan þessara svæða. Ef riðuveiki greinist á bæ er varnarsvæðið talið sýkt í 20 ár frá næstu áramótum þess árs sem síðasta tilfelli er staðfest. Ósýkt varnarsvæði eru svæði þar sem riða hefur ekki greinst síðastliðin 20 ár.

Á fjórum varnarsvæðum á landinu hefur aldrei greinst riða og eru þetta einu svæðin sem flytja má líflömb frá, yfir varnarlínur, með leyfi frá Matvælastofnun. Hvorki er leyfilegt að flytja líffé inn í þessi líflambasöluhólf né á milli þeirra til að verja þau eftir fremsta megni gegn smitsjúkdómum. Á ósýktum svæðum eru engar takmarkanir settar á flutninga með lifandi fé milli hjarða innan svæðanna. Ekki má hinsvegar flytja fé yfir varnarlínur. Til að kaupa líflömb inn á ósýkt varnarsvæði þarf að sækja um leyfi til Matvælastofnunar, sbr. reglugerð nr. 550/2008 um flutning líflamba milli landsvæða, með síðari breytingum.

Á sýktum svæðum eru allir flutningar á fé milli hjarða innan svæðanna og frá þeim (yfir varnarlínur) bannaðir, sbr. reglugerð nr. 651/2001. Til að kaupa líflömb inn á sýkt varnarsvæði þarf að sækja um leyfi til Matvælastofnunar. Sé fé flutt án leyfis yfir varnarlínur eða innan sýktra svæða er fénu lógað og getur brotið varðað sekt og jafnvel brottfellingu úr gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Línubrjótum er lógað skv. ákvæðum reglugerðar. Ef garnaveiki eða riða greinist taka í gildi ákveðnar takmarkanir varðandi flutning á gripum, búfjáráburði og heyi, heykögglum, hálmi, túnþökum, gróðurmold, ull, tækjabúnaði og jarð- og heyvinnslutækjum.

Ef garnaveiki greinist er óheimilt að:
Láta til lífs sauðfé, geitur eða nautgripi frá bænum í tíu ár frá síðustu greiningu eða vanrækslu á bólusetningu. Bæir sem taka við jórturdýrum frá garnaveikibæjum í andstöðu við þetta ákvæði teljast garnaveikibæir jafn lengi og sá bær sem gripirnir eru frá. Flytja af garnaveikibæjum búfjáráburð og hey, heyköggla, hálm, túnþökur og gróðurmold af landi sem húsdýraáburður hefur verið borinn á eða jórturdýr gengið á. Flytja ull frá garnaveikibæjum óunna á aðra bæi.Flytja af garnaveikibæjum tæki sem hafa verið notuð til moksturs, flutnings, dreifingar eða niðurplægingar á húsdýraáburði á garnaveikibæjum nema fullnægjandi sótthreinsun hafi farið fram.Flytja af garnaveikibæjum jarð- og heyvinnslutæki nema fullnægjandi þrif hafi farið fram.

Ef riða greinist er óheimilt að:
Flytja milli bæja innan sýktra svæða og áhættusvæða hvaðeina, sem getur borið smitefni milli staða, svo sem hey, heyköggla og hálm, húsdýraáburð, túnþökur og gróðurmold nema með leyfi héraðsdýralæknis og að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:a. hey sé allt í plöstuðum stór-böggum eða rúllu, b. þökur séu aðeins notaðar ásvæðum þar sem sauðfé kemst ekki að. Flytja ull á milli bæja nema með leyfi héraðsdýralæknis.Flytja fjárklippur, markatengur, lyfjadælur og annan tækjabúnað, sem óhreinkast hefur af fé eða hugsanlega smitmengast á annan hátt á sýktu svæði, til nota í landbúnaði á ósýktu svæði, án vottorðs frá héraðsdýralækni um að fullnægjandi sótthreinsun hafi átt sér stað.

Athugið að aðilar sem fara milli sóttvarnarsvæða, sýktra svæða, áhættusvæða eða ósýktra svæða, með tækjabúnað til landbúnaðarstarfa skulu fá leyfi héraðsdýralæknis og vottorð um að fullnægjandi sótthreinsun hafi átt sér stað. Þessi tæki og önnur sem óhreinkast af sauðfé á sýktum svæðum skulu sótthreinsuð samkvæmt fyrirmælum héraðsdýralæknis að lokinni notkun á hverjum stað/jörð.

Lesa má nánar um þessar takmarkanir í reglugerðum um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar nr. 651/2001 og í reglugerð um garnaveiki og varnir gegn henni nr. 911/2011.

Hér verður farið yfir stöðu sérhvers hólfs miðað við stöðuna í dag.

1. Landnámshólf
Bólusett við garnaveiki. Síðasta riðutilfelli á Breiðabólstað árið 2003. Riðusýkt hólf að hluta, til 31. desember, 2023 að því gefnu að engin ný tilfelli komi upp.
Sýkt svæði:
Sveitarfélögin Ölfus, Hveragerði og Árborg og Grafningur í Grímsnes- og Grafningshreppi.

2. Vesturlandshólf
Bólusett við garnaveiki. Hreint hólf með tilliti til riðu.

3. Snæfellsneshólf
Bólusett við garnaveiki. Hreint hólf með tilliti til riðu. Líflambasöluhólf.

4. Dalahólf
Hætt að bólusetja við garnaveiki árið 2011. Hreint hólf með tilliti til riðu.

5. Vestfjarðarhólf eystra
Ekki bólusett við garnaveiki. Hreint hólf með tilliti til riðu. Líflambasöluhólf.

6. Vestfjarðarhólf vestra
Ekki bólusett við garnaveiki. Hreint hólf með tilliti til riðu.

7. Miðfjarðarhólf
Ekki bólusett við garnaveiki. Hreint hólf með tilliti til riðu.

8. Vatnsneshólf
Bólusett við garnaveiki. Síðasta riðutilfelli á Neðra-Vatnshorni árið 2015. Riðusýkt til 31. desember, 2035 að því gefnu að engin ný tilfelli komi upp.

9. Húnahólf
Bólusett við garnaveiki. Síðasta riðutilfelli á Kambhóli árið 2007. Riðusýkt til 31. desember, 2027 að því gefnu að engin ný tilfelli komi upp.

10. Skagahólf
Bólusett við garnaveiki. Síðasta riðutilfelli á Stóra-Gröf ytri árið 2016. Riðusýkt til 31. desember, 2036 að því gefnu að engin ný tilfelli komi upp.

11. Tröllaskagahólf
Bólusett við garnaveiki. Síðasta riðutilfelli í Dæli árið 2009. Riðusýkt hólf að hluta, til 31. desember, 2029 að því gefnu að engin ný tilfelli komi upp.
Sýkt svæði:
Dalvíkurbyggð norðan Hámundarstaða.

12. Grímsey
Ekki bólusett við garnaveiki. Hreint hólf með tilliti til riðu.

13. Eyjafjarðarhólf
Bólusett við garnaveiki. Hreint hólf með tilliti til riðu.

14. Skjálfandahólf
Bólusett við garnaveiki í Skútu­staðahreppi. Síðasta riðutilfelli á Lóni árið 1999. Riðusýkt hólf að hluta, til 31. desember, 2019 að því gefnu að engin ný tilfelli komi upp.
Ósýkt svæði:
Skútustaðahreppur, Engidalur og Lundarbrekka og bæir þar fyrir sunnan.
Sýkt svæði:
Önnur svæði í hólfinu.

15. Norðausturhólf
Bólusett við garnaveiki í Jökuldal og Jökulsárhlíð austan (sunnan) Smjörfjallalínu. Síðasta riðutilfelli á Brú árið 1997. Riðusýkt hólf að hluta, til 31. desember, 2017 að því gefnu að engin ný tilfelli komi upp. Líflambasölusvæði í N-Þingeyjarsýsluhluta hólfsins.
Sýkt svæði:
Jökuldalur og Jökulsárhlíð austan (sunnan) Smjörfjallalínu.

16. Héraðshólf
Bólusett við garnaveiki. Síðasta riðutilfelli í Heiðarseli árið 1997. Riðusýkt til 31. desember, 2017 að því gefnu að engin ný tilfelli komi upp.

17. Austfjarðarhólf
Ekki bólusett við garnaveiki. Síðasta riðutilfelli Hátún/Ós árið 1997. Riðusýkt til 31. desember, 2017 að því gefnu að engin ný tilfelli komi upp.

18. Suðurfjarðarhólf
Bólusett við garnaveiki í Breið­dals­hreppi austan Breiðdals­ár. Síðasta riðutilfelli á Gilsárstekk árið 2005. Riðusýkt til 31. desember, 2025 að því gefnu að engin ný tilfelli komi upp.

19. Suðausturlandshólf
Bólusett við garnaveiki. Hreint með tilliti til riðu.

20. Öræfahólf
Ekki bólusett við garnaveiki. Hreint með tilliti til riðu. Líflambasöluhólf.

21. Eyjafjalla- og Vestur Skaftafellssýsluhólf
Ekki bólusett við garnaveiki. Hreint með tilliti til riðu.

22. Rangárvallahólf
Bólusett við garnaveiki. Hreint með tilliti til riðu.

23. Hreppa-, Skeiða- og Flóahólf
Bólusett við garnaveiki. Síðasta riðutilfelli Hurðabak árið 2010. Riðusýkt til 31. desember, 2030 að því gefnu að engin ný tilfelli komi upp.

24. Biskupstungnahólf
Ekki bólusett við garnaveiki. Síðasta riðutilfelli í Gýgjar­hólskoti árið 2004. Riðusýkt til 31. desember, 2024 að því gefnu að engin ný tilfelli komi upp.

25. Grímsnes- og Laugardalshólf
Bólusett við garnaveiki. Hreint með tilliti til riðu.

26. Vestmannaeyjar
Ekki bólusett við garnaveiki. Hreint með tilliti til riðu.

Ítarefni má lesa inni á www.althingi.is og www.reglugerd.is.
Lög nr. 25/1993 um dýrasjúk­dóma og varnir gegn þeim
Reglugerð nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar, með síðari breytingum
Reglugerð nr. 911/2011 um garnaveiki og varnir gegn henni, með síðari breytingum
Reglugerð nr. 550/2008 um flutning líflamba milli landsvæða
Sigrún Bjarnadóttir,
dýralæknir sauðfjár- og nautgripasjúkdóma

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar