Haustfagnaður FSD

| .

Hinn árlegi hausfagnaður Félags sauðfjárbænda Dalasýslu verður haldinn 20-21. október 2017.

FSD

Föstudagur 20. október

Kl. 12:00 Lambhrútasýning og opin fjárhús að Rauðbarðaholti, Hvammssveit.

Að Rauðbarðaholti mæta til leiks best dæmdu lambhrútar úr norðurhluta Dalasýslu þar sem mönnum gefst kostur á að líta þá. Einnig verður keppt um fallegasta gimbrarlambið norðan girðingar.

Íþróttahúsið að Laugum í Sælingsdal – Sviðaveisla / Hagyrðingakvöld / Dansleikur                                                                                                                          Kl. 19:30 Húsið opnar. Borðhald hefst 20:00.

Sviðaveisla samkvæmt venju eins og undanfarin ár.

Hagyrðingar verða: Ágúst Marinó Ágústsson, Sauðanesi, Dagbjartur Dagbjartsson, Hrísum, Pétur Pétursson, Akureyri og Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Reykjavík. Veislustjóri og stjórnandi verður Karl Ágúst Úlfsson. Að loknu hagyrðingakvöldi munu Vandræðaskáld vera með skemmtiatriði.

Um dansleikinn sér hljómsveitin BLAND.  16 ára aldurstakmark er á dansleik.

Miðapantanir á sviðaveisluna fara fram hjá Jóni Inga í Þurranesi, helst með tölvupósti thurranes@gmail.com eða í síma 867-7286 frá 11. október til og með 17. október. Aðgangseyrir er 7.000 kr. Hægt er að kaupa aðeins miða á ballið á 2.500 kr. Hægt verður að greiða og sækja pantaða miða á sviðaveisluna í verslun KM þjónustunnar fimmtudaginn 19. október frá kl 15:00 til 17:00.

Hótelið á Laugum verður opið í tengslum við sviðaveisluna. Bókanir eru á laugar@umfi.is. Hægt verður að bóka sig inn frá klukkan 14:00 á föstudeginum. Útskráning fyrir klukkan 12:00 á laugardeginum. Gisting með morgunmat í tvíbýli kostar 19.000 kr en einbýli 13.500 kr. Önnur gisting er svefnpokapláss með morgunmat  á 4.500 kr. í tvíbýli og 5.500 kr. í einbýli. Uppábúið rúm í tvíbýli á heimavist skólans er á 14.000 kr. Staðfesting og greiðsla fyrir herbergi er í síðasta lagi 15. október.

Laugardagur 21. október

Kl. 10:00 Lambhrútasýning og opin fjárhús að Hlíð í Hörðudal.

Að Hlíð mæta til leiks best dæmdu lambhrútar úr suðurhluta Dalasýslu þar sem mönnum gefst kostur á að líta þá. Einnig verður keppt um fallegasta gimbrarlambið sunnan girðingar.

Reiðhöllin opnar kl.13:00

Kl. 13:00 Fyrirtæki kynna þjónustu sína

Nokkur fyrirtæki verða með bása í reiðhöllinni og kynna þjónustu sína þar.

Kl. 14:00 Íslandsmeistaramótið í rúningi

Þar leiða saman klippur sínar helstu rúningsmenn landsins. Nú er bara að spýta í lófana, brýna kambana, skrá sig og það kemur í ljós hvar þú stendur meðal rúningsmanna?

Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þann besta.

Skráningar þurfa að berast í síðasta lagi 18. október til Valbergs í síma 894-0999 eða á netfangið valbergs@mi.is

Úrslit og verðlaunaafhending verða að keppni lokinni.

Kl. 14:30

Konur úr héraði verða með sýningu á ullarvinnslu og hægt verður að taka í rokk og kemba!

Sirkus Íslands verður á svæðinu og með skemmtiatriði í hléi rúningskeppninnar.

Kvenfélagið Þorgerður Egilsdóttir verður með veitingasölu í reiðhöllinni.

Kl.18:30  í Dalabúð grillveisla og verðlaunaafhending

Bestu lambhrútarnir í Dalasýslu verða verðlaunaðir, verðlaunaðar verða bestu ærnar úr árgangi 2012. Aðgangseyrir 2.500 kr. á mann, en frítt fyrir 14 ára og yngri í fylgd með forráðamönnum.

Kl. 00:00 Dalabúð                                                                                                                         

Hefðbundinni dagskrá Haustfagnaðar lýkur með stórdansleik þar sem hljómsveitin Sóldögg munu sjá um að halda uppi fjörinu langt fram eftir nóttu.

Aðgangseyrir 3000 kr. 16 ára aldurstakmark.

Hlökkum til að sjá ykkur - Góða skemmtun!

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu.

Munum að klæða okkur eftir veðri. Ullin yst sem innst, það er allra best.

Ertu búinn að sækja um jarðræktarstyrki og landgreiðslur?

| .

Frestur til að sækja um jarðræktarstyrki og landgreiðslur rennur út 20. október.

Ganga þarf frá lögbundnu skýrsluhaldi í Jörð.is áður en hægt er að sækja um styrki.

Sótt eru um styrki rafrænt inn á Bændatorginu.  Sótt er um í sitthvoru lagi jarðræktarstyrk og landgreiðslur.

Þeir sem hafa heimild til að nýta land á fleiri en einu landnúmeri þurfa að ganga frá rafrænni umsókn fyrir hvert landnúmer.

 Picture1

Jarðræktarstyrkur er greiddur út á nýrækt og endurræktun á túnum, kornrækt og ræktun annarra fóðurjurta og útiræktun á grænmeti. Heimilt er að greiða stuðning vegna ágangs álfta og gæsa á ræktarlöndum bænda.

Landgreiðslur eru greiddar út á allt ræktað land sem er uppskorið til fóðuröflunar. Ekki er greitt út á land sem eingöngu er nýtt til beitar. Skilyrði fyrir greiðslum er að til sé viðurkennt túnkort fyrir spildur sem sótt er um framlög fyrir og spildurnar séu uppskornar á því ári þegar framlag er greitt enda liggi fyrir uppskeruskráning.

Ekki er hægt að fá jarðaræktarstyrk og landgreiðslur fyrir sömu spildu á sama ári.

Meðalverð dilkakjöts 2017

| .

Hér er birtur samanburður á meðalverði dilkakjöts 2017 milli afurðastöðva og samanburður verða árið 2016.  Árið 2016 var meðalverðið 543 kr/kg og er í ár (eftir breytinga á verðskrá KS og SKVH) 360 kr/kg sem er 31,5% verðlækkun millí ára.  Sláturfélag Suðurlands borgar hæðsta meðalverðið 415 kr/kg.  Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að verð til bænda eru algjörlega óásættanleg og rétt að ítreka eftirfarandi samþykkt frá aukafundi LS.

Aukafundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 19. september 2017 skorar á sláturleyfishafa að endurskoða afurðaverð til bænda nú þegar.  Í ljósi nýrra upplýsinga um birgðir telur fundurinn ekki ástæðu fyrir allt að 35% afurðaverðslækkun. Framkomin afurðaverð eru algjör forsendubrestur fyrir rekstri sauðfjárbúa.

LS _ Afurðaverð til bænda 2017.pdf

 LS Afurðaverð til bænda 2017

Héraðssýning lambhrúta á Snæfellsnesi 2017

| .

Fyrri sýningin fer fram föstudaginn 13.október á Haukatungu Syðri 2 í Kolbeinsstaðarhreppi og hefst kl 20:30.

Áframhald fer framm laugardaginn 14.október í Tungu Fróðarhreppi Snæfellsbæ og hefst kl 13:00.

Á þeirri sýningu verða veitingar í boði geng vægu gjaldi til að fá aðeins upp í kostnað sýningarinnar.

Það verður sem sagt 500 kr á mann ef menn vilja gæða sér á kræsingum og kaffi og að sjálfsögðu

verður frítt fyrir börn.

Það verður svo áfram lambahappdrættið sem vakti mikla stemmingu og skemmtun. Þeir sem hafa áhuga á að

krækja sér í miða þá mun miðinn kosta 1000 kr. Vegleg verðlaun í boði.

Engin posi verður á staðnum.

Verðlauna afhending verður svo að lokinni sýningu í Tungu Fróðarhreppi  fyrir báðar sýningarnar.

Allir velkomnir og áhugafólk um sauðfjárrækt auðvitað kvatt til að mæta með sína gripi og sjá aðra

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar