Tilkynning frá FSÁ

| .

Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Árnessýslu verður haldinn í Þingborg miðvikudagskvöldið 8. mars kl. 20.30.

Ræðum framtíð félagsstarfs á umbrotatímum og venjuleg aðalfundarstörf. Væntanlegir eru gestir frá LS og Búnaðarsambandi Suðurlands.

Stjórnin.

BÍ og SGS gefa út sameiginlega yfirlýsingu vegna sjálfboðaliða

| .

Fréttin birtist fyrst á heimasíðu Bændablaðsins.

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og Starfsgreinasambands Íslands hafa skrifað undir sameiginlega yfirlýsingu vegna sjálfboðaliða á vinnumarkaði. Samtökin árétta að það er andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í almenn störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja og lögbýla. Báðir aðilar eru sammála um mikilvægi þess að fara eftir leikreglum á vinnumarkaði en ekki eru gerðar athugasemdir við þau störf sjálfboðaliða sem byggi á langri venju og sátt hefur verið um, s.s. um störf í smalamennskum og réttum. Yfirlýsingin hljóðar svo í heild sinni:

„Samtök á vinnumarkaði hafa axlað sameiginlega ábyrgð á uppbyggingu vinnumarkaðarins og réttindum og skyldum sem þar gilda. Markmið samtaka atvinnurekenda og launafólks er að tryggja áfram samkeppnishæfan vinnumarkað þar sem aðilar vinnumarkaðarins semja um laun og önnur starfskjör í kjarasamningum. Þeir bera þá skyldu að fylgja því eftir að farið sé að leikreglum á vinnumarkaði.

Það er sameiginlegt viðfangsefni aðila að stuðla að því að fyrirtæki og lögbýli í framleiðslu eða þjónustu, greiði laun og starfskjör í samræmi við kjarasamninga og lög hér á landi.

Ef kjarasamningar eru ekki virtir grefur það undan starfsemi annarra og spillir forsendum eðlilegrar samkeppni og dregur úr ávinningi alls samfélagsins af traustu og heilbrigðu atvinnulífi.

Í því ljósi telja Starfsgreinasamband Íslands og Bændasamtök Íslands mikilvægt að sameiginlegur skilningur gildi á vinnumarkaði um störf sjálfboðaliða.

Samtökin árétta að það er andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í almenn störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja og lögbýla. Um þessi störf gilda ákvæði kjarasamninga, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks. Launafólk hefur sinnt þessum störfum og verður því ekki skipt út fyrir sjálfboðaliða. Samningar við einstaklinga um lakari kjör en kjarasamningar kveða á um eru ógildir.

Sjálfboðaliðastörf eiga sér hins vegar langa sögu og eru mikilvæg þeim aðilum sem vinna í þágu almannaheilla að góðgerðar-, menningar- eða mannúðarmálum. Sjálfboðaliðastörf eiga sér einnig langa sögu í afmörkuðum verkum í landbúnaði með vinnuframlagi vina og ættingja í mjög skamman tíma t.d. í göngum og réttum. Ekki eru gerðar athugasemdir við þau störf sjálfboðaliða enda byggi þau á langri venju og sátt hefur verið um.“

Undir yfirlýsinguna skrifuðu Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ og Björn Snæbjörnsson, formaður SGS.

Seinkun greiðsluáætlunar sauðfjárbænda

| .

Birting á áætlun um stuðningsgreiðslur til sauðfjárbænda árið 2017 sem liggja átti fyrir þann 15. febrúar hefur tafist. Samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarstofu MAST verður áætlunin tilbúin í dag og geta bændur nálgast hana á bændatorgi BÍ seinna í dag eða um helgina. Áætlunin verður sömuleiðis send út bréfleiðis til bænda eftir helgi. Áætlunin á að innihalda áætlaðar beingreiðslur, gæðastýringarálag og ullarnýtingargreiðslur. Svæðisbundinn stuðningur er ekki inn í áætluninni en hann á að bætast við hana um næstu mánaðamót og verðu hún þá uppfærð hjá þeim sem fá slíkan stuðning. Athugið að geymslugjald er ekki lengur greitt en fjárveitingar til gæðastýringar innifela nú þá fjármuni. 

Beingreiðslur vegna fyrstu tveggja mánaða ársins voru greiddar 1. febrúar síðastliðin. Í næstu viku verður það sem eftir stendur af af heildargreiðslu samkvæmt áætluninni fyrir janúar og febrúar greitt út. Þann 1. mars mun síðan venjuleg greiðsla berast samkvæmt ársáætluninni fyrir einn mánuð.

Lamb Inn fær upprunaviðurkenningu frá LS

| .

Fréttin birstist fyrst á vefsíðu bændablasðis, bbl.is

Lamb Inn á Öngulsstöðum hefur fengið sérstaka upprunaviðurkenningu Landssambands sauðfjárbænda og var fyrsti veitingastaðurinn á landsbyggðinni til að hljóta þessa viðurkenningu og sá þriðji í röðinni á landsvísu.

Um er að ræða nýtt markaðsátak sauðfjárbænda þar sem tilgangurinn er að ná til erlendra ferðamanna og sýna þeim hversu afurðir íslensku kindarinnar séu framúrskarandi hreinar og góðar.

Sambandið afhendir öllum þeim sem vinna ekta íslenskar afurðir úr sauðfé sérstakt upprunamerki sem prýða mun veggi veitingastaða og sömuleiðis þess fatnaðar sem framleiddur er hér á landi úr íslenskri ull. Ekki dugar að láta prjóna „íslensku“ lopapeysuna í Kína eða öðrum löndum. Þetta er afrakstur stefnumörkunar í markaðssókn sauðfjárafurða.

Skilar sér í hollu kjöti sem rómað er fyrir bragðgæði

Í texta með viðurkenningunni má finna þetta: Íslenskt sauðfé er alið á sjálfbæran hátt í óspjallaðri náttúru og lömbin sem fæðast á vorin reika sjálfala á fjöllum yfir sumarið, drekka móðurmjólk og éta næringarríkan fjallagróður. Þetta skilar sérlega hollu kjöti sem er rómað fyrir bragðgæði. Lagskipt ullin af íslenska fénu fyrirfinnst hvergi annars staðar og lopaklæði og gærur hafa haldið hita á þjóðinni í óblíðri íslenskri veðráttu í meira en þúsund ár. Stofninn kom til landsins með landnámsmönnum og er óspilltur og einstakur. Bændur eru vörslumenn landsins og búa enn á fjölskyldubúum eins og forfeður þeirra en hafa tileinkað sér það besta úr nútíma tækni og vísindum. Féð er alið á vistvænan hátt undir ströngustu reglum um dýravelferð, án aðskotaefna, erfðabreytts fóðurs eða hormónagjafar. Íslenskt sauðfé er nátengt landinu, menningu þjóðarinnar, siðum og tungumáli og lambakjöt er sannarlega þjóðarréttur Íslendinga. Aðeins ekta íslenskar afurðir bera þetta upprunamerki sem endurspeglar þennan sannleik og gildi íslenskra sauðfjárbænda.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar