Lækkun afurðaverðs til bænda veldur vonbrigðum

| .

Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda lýsir vonbrigðum sínum með áform sláturleyfishafa um verulegar lækkanir á afurðaverði til bænda í haust. Samtökin hafa skilning á erfiðri stöðu afurðastöðva en óttast alvarlegar afleiðingar lækkunar fyrir sveitir landsins þar sem sauðfjárrækt er hryggjarstykkið í afkomu og grundvöllur byggðafestu.

Um tveir þriðju hlutar framleiðslunnar fara á innanlandsmarkað og þar hefur sala aukist að undanförnu. Á sama tíma hefur útflutningur dregist saman og verðmæti hans minnkað verulega. Þeir erfiðleikar sem nú blasa við sauðfjárrækt á Íslandi eru meiri en sést hafa um áratuga skeið. Sala og framleiðsla á lambakjöti er frjáls og tækifæri til inngripa því takmörkuð.

Frá því á vormánuðum hafa Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands átt í viðræðum við atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um viðbrögð við yfirvofandi vanda. Því miður hefur ekki fengist viðunandi niðurstaða enn sem komið er en viðræður eru í gangi á milli þessara aðila um aðgerðir.

Bændur og afurðastöðvar verða að skoða sín mál af fullri alvöru. Hvarvetna verður að leita leiða til hagræðingar og aðlaga framleiðsluna að markaðnum. Sauðfjárbændur eru reiðubúnir til samstarfs um aðgerðir sem raunverulega bæta stöðu bænda og íslenskra sveita til framtíðar. Í slíku samstarfi reynir á vilja afurðastöðva til breytinga, velvilja og kjark stjórnvalda og síðast ekki síst á samstöðu bænda.

Fyrir hönd stjórnar Landssamtaka sauðfjárbænda,

Oddný Steina Valsdóttir formaður.

Hugmyndabanki

| .

Í kjölfar samþykktar frá síðasta aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda hefur verið settur einfaldur hugmyndabanki á vef samtakanna. Þar er hægt að koma að hugmyndum og ábendingum til Landssamtakanna, Icelandic lamb eða sláturleyfishafa varðandi félagsmál, sölu- og markaðsstarf og vöruþróun.

Smellið hér eða á myndina til að leggja fram hugmyndir.

Góð innanlandssala en krísa í útflutningi

| .

Sala á kindakjöti innanlands jókst um 5,2% í fyrra eftir nokkur samdráttarár í röð. Það sem af er ári hefur innanlandssalan gengið vel. Samkvæmt tölum Matvælastofnunnar jókst sala á kindakjöti á öðrum ársfjórðungi um 16,6% miðað við sama tímabil í fyrra. Ef eingöngu er horft til dilkakjöts var söluaukningin 13,2%. Helsta skýringin er aukin sala til erlendra ferðamanna. Um tveir þriðju hlutar framleiðslunnar eru seldir innanlands og þetta er því lang verðmætasti markaðurinn fyrir íslenskt kindakjöt.

Erlendir ferðamenn
Erlendum ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað mikið frá hruni. Til að byrja með hafði þessi fjölgun ekki áhrif á sölu á kindakjöti sem dróst saman flest árin, en eftir að ráðist var í sérstakt markaðsverkefni í til að ná til ferðamannanna hefur staðan breyst. Nú setja um 100 íslenskir veitingastaðir lambakjöt í öndvegi í samstarfi við Icelandic lamb. Öflug verðlaunaherferð á samfélagsmiðlum hefur vakið verðskuldaða athygli og notendur miðlanna hafa séð myndbönd og auglýsingar frá Icelandic lamb um 7,5 milljón sinnum.

Útflutningur
Útflutningur á kindakjöti dróst saman um 5,1% í fyrra en þá voru flutt út um 2.800 tonn til 19 landa fyrir tæpa tvo milljarða króna. Þetta var annað samdráttarárið í röð en útflutningurinn dróst saman um 14,4% í hitteðfyrra. Helstu ástæðurnar eru sviptingar á alþjóðlegum mörkuðum sem meðal annars má rekja til Úkraínudeilunnar, lokun Noregsmarkaðar, fall breska pundsins og mikil styrking íslensku krónunnar. Ráðist var í sérstakar aðgerðir í vetur og vor til að bregðast við þessu ástandi og hefur það borið nokkurn árangur. Mikilvægt er að aðgreina þann útflutning sem fer inn á sveiflukennda heimsmarkaði og þann hluta þar sem kjötið er selt sérstaklega sem íslenskt. Slíkir markaðir halda sínu miklu betur við þessar aðstæður en eru enn sem komið er ekki nema brot af heildarútflutningi. Miklar vonir eru bundnar við ýmis ný verkefni í Japan, Evrópu og Bandaríkjunum en það tekur tíma og staðfestu að byggja upp slíka betur borgandi markaði. Eins og staðan er nú treystir greinin mikið á ódýrari afsetningarmarkaði og erfiðleikar þar valda birgðasöfnun.

Birgðir
Birgðir í árslok 2016 voru um 6.700 tonn sem var um 7,5% aukning frá áramótunum á undan. Þetta eru um 1.300 tonnum meiri áramótabirgðir en voru fyrir 10 árum. Um mitt þetta ár voru birgðirnar um 2.600 tonn sem er 12,9% meira en á sama tíma í fyrra. Það er því útlit fyrir að birgðir við upphaf sláturtíðar verði 700 til 1.000 tonnum meiri en æskilegt væri. Misjafnt er milli afurðastöðva hversu miklar birgðirnar eru og samsetning þeirra er jafnframt óhagstæð því þær samanstanda að mestu af lærum og frampörtum en jafnvægi er í hryggjum og slögum.

Horfur í haust
Forystumenn bænda hafa frá því í vetur átt í viðræðum við stjórnvöld um hvernig bregðast skuli við stöðunni. Erfiðlega hefur gengið að ná samkomulagi um aðgerðir sem taka á vandanum. Viðræðurnar halda þó áfram. Sú undarlega staða blasir því við að þrátt fyrir mikla innanlandssölu og mikinn árangur í markaðssetningu gagnvart erlendum ferðamönnum eru alvarlegar blikur á lofti varðandi afurðaverð haustsins.

Svavar Halldórsson
Framkvæmdastjóri Icelandic lamb ehf. og Markaðsráðs kindakjöts

Skilafrestur á vorbók

| .

Skila þarf vorbók til Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins RML (ekki MAST eins og misritaðist í síðasta fréttabréfi LS) fyrir 20. ágúst. Undanfarin ár hefur kynbótamat fyrir frjósemi verið unnið áður en útsending haustbóka fer fram. Ljóst er að slíkt mun ekki nást í ár. Matið verður ekki reiknað fyrr en í lok ágúst og miðað verður við að taka gögnin út þegar skilafrestur vorgagna er liðinn. Því er ljóst að uppfært kynbótamat fyrir frjósemi verður ekki klárt fyrr en í byrjun september og notendum aðeins aðgengilegt gegnum Fjárvís þegar það verður klárt.
 

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar