Skýrsla Byggðastofnunar um stöðu sauðfjárræktar haustið 2017

| .

Fréttatilkynning af vef Stjórnarráðs Íslands]

Byggðastofnun hefur skilað samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra greiningu á stöðu sauðfjárræktar og sauðfjárbænda sem hann óskaði eftir í sumar. Óskaði ráðherra eftir mati á stöðunni á svæðum þar sem kinda- og lambakjötsframleiðsla er mikilvæg landsbyggðinni og mati á áhrifum mikillar lækkunar á afurðaverði sem fulltrúar bænda hafa spáð fyrir um.

Tillögum Byggðastofnunar í skipt í þrjá flokka:

  • Aðgerðir vegna lausafjárvanda
  • Aðgerðir til að ná jafnvægi á markaði
  • Aðrar aðgerðir

Tillögur vegna lausafjárvanda eru þær að kannaðir verði möguleikar á því að ríkið leggi til fjármuni sem lán eða styrki til að mæta lækkun afurðaverðs haustið 2016 og nú í haust. Byggðastofnun skoði mál einstakra viðskiptavina og vinni með þeim að úrlausn. Einnig er lagt til að Byggðastofnun kanni þörf á endurfjármögnun lána sauðfjárbænda.

Tillögur til að ná jafnvægi á markaði snúast um að við fækkun sauðfjár verði horft til byggðasjónarmiða og í því sambandi til tillagna stofnunarinnar um svæðisbundinn stuðning við þau svæði sem eru háðust sauðfjárrækt sem atvinnugrein. Einnig að til að jafna framboð og eftirspurn á innanlandsmarkaði og minnka birgðir verði komið á tímabundinni útflutningsskyldu að ákveðnu hlutfalli og að aukinn verði byggðastuðningur við sauðfjárrækt í formi býlisstuðnings á skilgreindum svæðum.

Aðrar aðgerðir sem lagðar eru til varða stuðning við sauðfjárbændur á skilgreindum svæðum til að koma sér upp aukabúgreinum, svo sem ferðaþjónustu, heimavinnslu afurða og fleira og að ráðist verði í sérstakt kolefnisjöfnunarverkefni í samvinnu við sauðfjárbændur í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þannig verði sauðfjárframleiðslan kolefnisjöfnuð og meira til með því að draga úr losun og auka bindingu til dæmis með skógrækt, endurheimt votlendis og uppgræðslu.

Hér má nálgast skýrsluna

Úrlausn fyrir sauðfjárbændur þolir enga bið

| .

Yfirlýsing frá Bændasamtökum Íslands og Landssamtökum sauðfjárbænda

Fulltrúar Landssamtaka sauðfjárbænda (LS) og Bændasamtaka Íslands (BÍ) hafa síðustu vikur og mánuði leitað lausna ásamt stjórnvöldum á aðsteðjandi rekstrarvanda sauðfjárbænda. Ekki þarf að fjölyrða um áhrif allt að 35% lækkunar á afurðaverði sem sláturleyfishafar kynntu bændum í ágústmánuði. Þau eru alvarleg og fjöldi bænda sér fram á verulega erfiðleika í sínum rekstri ef fram heldur sem horfir.
Þann 4. september síðastliðinn kynnti landbúnaðarráðherra tillögur um aðgerðir til að leysa vanda sauðfjárbænda. Samtök bænda lýstu því strax yfir að margt væri hægt að taka undir hjá ráðherra en tóku jafnframt skýrt fram að tillögurnar leystu ekki vandann að fullu.
Þriðjudaginn 19. september hafa Landssamtök sauðfjárbænda boðað til aukafundar þar sem til stendur að ræða tillögur ráðherra og álykta um framhaldið. Markmið fulltrúa bænda er að koma fram með lausnir sem taka á þeim bráðavanda sem stéttin stendur frammi fyrir.
Nýjustu vendingar í þjóðmálunum og sú staðreynd að núverandi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er fallin setja málið í uppnám. Samtök bænda leggja þunga áherslu á að lausnum fyrir sauðfjárbændur verði ekki frestað. Málið þolir enga bið.
Það er mikilvægt að Alþingi setji málefni sauðfjárbænda á dagskrá svo fljótt sem unnt er og taki tillit til þeirra athugasemda sem bændur munu leggja fram við framlagðar tillögur fráfarandi landbúnaðarráðherra. Skjót og farsæl úrlausn mun eyða óvissu og tryggja að ekki verði hrun í stétt sauðfjárbænda.
Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands beina þeim skilaboðum til sinna félagsmanna að ekkert er í hendi um aðgerðir fyrr en Alþingi hefur tekið afstöðu til málsins. Forystufólk BÍ og LS rær að því öllum árum að ná farsælli lendingu með stjórnvöldum sem allra fyrst. Tilfinning þess er að víðtækur hljómgrunnur sé fyrir því í öllum stjórnmálaflokkum að bregðast við.

Birgðastaða við upphaf sláturtíðar

| .

Birgðir af kindakjöti síðasta árs þann 1. september 2017 voru 1.063 tonn.  Á sama tíma í fyrra voru brigðirnar 1.262 tonn. Birgðir við upphaf sláturtíðar eru því 16,6% minni á en í fyrra.*

Frá þessum birgðum munu dragast 500 til 600 tonn áður en nýtt kjöt kemur að fullu á markað en sala á innanlandsmarkaði er um 560 tonn á mánuði að meðaltali. Umframbirgðir af kjöti frá sláturtíðinni haustið 2016 verða því um 500 tonn þegar upp er staðið eða rétt tæplega eins mánaðar sala. Þessar birgðir eru um 5% af heildarframleiðslunni sem er um 10 þúsund tonn ári.

 

Erfiðar ytri aðstæður

Undanfarinn misseri hefur íslensk sauðfjárrækt tekist á við lokun Noregsmarkaðar, afleiðingar Úkraínudeilunnar, tæknilega lokun Rússlandsmarkaðar, fall breska pundsins vegna Brexit og hátt gengi íslensku krónunnar. Áætlað er að markaðir fyrir 1.500 til 2.000 tonn af kjöti hafi lokast eða laskast verulega.

Markaðsstarf skilar aukinni sölu innanlands

Sala innanlands jókst í fyrra um 331 tonn eða 5,2% Fyrstu átta mánuði þessa árs jókst innanlandssalan  um 369 tonn eða 9,6%. Samanlögð aukning á sölu innanlands er því um 700 tonn frá ársbyrjun 2016. Helstu ástæður þessa er markaðssetning gagnvart erlendum ferðamönnum með samstarfi við um 100 veitingastaði og öflugri herferð á samfélagsmiðlum.

Sérstakt markaðsátak hefur skilað árangri.

Aðgerðir sem gripið var til síðasta vetur í tengslum við sérstakt markaðsátak sem Alþingi lagði 100 milljóna króna aukafjárveitingu inn í hafa skilað sölu upp á um 850 tonn. Að auki hefur samstarfsverkefni í Japan skilað sér í um 170 tonna sölu og útlit er fyrir metár í sölu til Bandaríkjanna.

Áfram ástæða til aðgerða

Samanlagt nemur aukin innanlandssala, Japansverkefnið og sérstaka átaksverkefnið um 1.720 tonnum Þannig hefur því tekist með samstilltum aðgerðum að forða því að hér myndist verra ástand. Þrátt fyrir góðan árangur af markaðsstarfi og sérstökum aðgerðum sem gripið var til vegna erfiðra utanaðkomandi aðstæðna þarf enn að gera betur. Breska pundið er enn lágt, Rússlands- og Noregsmarkaðir enn lokaðir og gengi krónunnar enn hátt. Því er nauðsynlegt að halda áfram því árangursríka starfi sem unnið hefur verið á undanförnum misserum í samvinnu bænda, afurðastöðva, stjórnvalda og Icelandic lamb. 

 

*Leiðrétt er fyrir aukna framleiðslu í ágúst mánuði vegna meiri slátrunar fyrir Bandaríkjamarkað. Framleiðsla í ágúst 2016 var 104 tonn en 229 tonn í ágúst 2017.

Aukafundur LS verður haldinn 19. september

| .

Boðað er til aukafundar Landssamtaka sauðfjárbænda, 19. september nk. á ráðstefnusviði Hótel Sögu.

Á fundinum verður farið yfir tillögur að aðgerðum vegna erfiðrar stöðu í sauðfjárrækt.

Fundurinn verður settur kl. 11:00 og líkur klukkan 17:30.

Dagskrá verður kynnt síðar

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar