Kolefnisjöfnun íslenskrar sauðfjárræktar

| .

Í dag klukkan 14.00 var haldinn kynningarfundur á vegum Landssamtaka sauðfjárbænda, Icelandic lamb og Umhverfisráðgjafar Ísland þar sem kynnt var skýrsla um Losun gróðurhúsalofttegunda frá sauðfjárbúum á Íslandi og aðgerðir til að draga úr losun.

Kolefnisjöfnun íslenskrar sauðfjárræktar er framsækið umhverfisverkefni sem hefur sjálfstætt umhverfis- og loftslagsgildi en getur einnig að hluta eða í heild verið hluti af framlagi Íslands á alþjóðlegum vettvangi.

Í skýrslunni Losun gróðurhúsalofttegunda frá sauðfjárbúum á Íslandi og aðgerðir til að draga úr losun leggja sérfræðingar Umhverfisráðgjafar Íslands ehf. mat á kolefnislosun íslenskrar sauðfjárræktar og benda á raunhæfar leiðir til jöfnunar með minnkun losunar eða mótvægisaðgerðum.

Skýrsla Umhverfisráðgjafar Íslands var unnin fyrir Landssamtök sauðfjárbænda í samræmi við stefnumótun sem samþykkt var á aðalfundi samtakanna 30.-31. mars 2017 þar sem segir að stefna skuli að kolefnisjöfnun greinarinnar eins fljótt og kostur er.

26102017 Skýrsla Umhverfisráðgjafar Íslands um kolefnisfótspor sauðfjárræktarinnar.pdf

Aðgerðaáætlun um kolefnisjöfnun íslenskrar sauðfjárræktar.pdf

Könnun meðal sauðfjárbænda um uppgræðslu og skógrækt.pdf

Góð sala í september

| .

Það er ánægjulegt að sjá hvað sala innanlands var góð í september samhliða sterkum útflutningi.  Þessi góða innanlandssala ber þess merki að íslenskir neytendur vilja sjá öfluga sauðfjárrækt á Íslandi.  Fyrstu 9 mánuði ársins er 6% söluaukning í lambakjöti samanborið við sama tímabil 2016. 

Sala á öðru kjöti hefur líka verið afar góð það sem af er á þessu ári.  Það er 26% söluaukning fyrstu 9 mánuði ársins samanborið við sama tímabil 2016. 

Útflutningurinn fór ekki vel af stað í upphafi árs en ljóst er að þær sértæku aðgerðir sem farið var í til að efla útflutning skiluðu sér.  Einkum með sterkum útflutningi í maí og águst.  Þá fer útflutningur fyrr í gang nú í haust en árin áður og er fyrstu 9 mánuði ársins búið að flytja út 40% meira kjöt en á sama tímabili 2016. 

Mánaðarleg sala lambakjöts

LS___Mánaðarleg_sala___2017.09.pdf

// Unnsteinn

Námskeið um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu 23. nóvember

| .

Viljum vekja athygli á því að MAST heldur undirbúningsnámskeið á Sauðárkrók 23. nóvember fyrir þá sem sótt hafa um aðild að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu.

Þeir sem óska eftir því að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu á búi sínu geta enn sótt um.  Þeir þurfa þá að bregðast hratt við því umsóknarfresturinn rennur út 20. nóvember.

Hér má finna nánari upplýsingar um námskeiðið.

Haustfagnaður FSD

| .

Hinn árlegi hausfagnaður Félags sauðfjárbænda Dalasýslu verður haldinn 20-21. október 2017.

FSD

Föstudagur 20. október

Kl. 12:00 Lambhrútasýning og opin fjárhús að Rauðbarðaholti, Hvammssveit.

Að Rauðbarðaholti mæta til leiks best dæmdu lambhrútar úr norðurhluta Dalasýslu þar sem mönnum gefst kostur á að líta þá. Einnig verður keppt um fallegasta gimbrarlambið norðan girðingar.

Íþróttahúsið að Laugum í Sælingsdal – Sviðaveisla / Hagyrðingakvöld / Dansleikur                                                                                                                          Kl. 19:30 Húsið opnar. Borðhald hefst 20:00.

Sviðaveisla samkvæmt venju eins og undanfarin ár.

Hagyrðingar verða: Ágúst Marinó Ágústsson, Sauðanesi, Dagbjartur Dagbjartsson, Hrísum, Pétur Pétursson, Akureyri og Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Reykjavík. Veislustjóri og stjórnandi verður Karl Ágúst Úlfsson. Að loknu hagyrðingakvöldi munu Vandræðaskáld vera með skemmtiatriði.

Um dansleikinn sér hljómsveitin BLAND.  16 ára aldurstakmark er á dansleik.

Miðapantanir á sviðaveisluna fara fram hjá Jóni Inga í Þurranesi, helst með tölvupósti thurranes@gmail.com eða í síma 867-7286 frá 11. október til og með 17. október. Aðgangseyrir er 7.000 kr. Hægt er að kaupa aðeins miða á ballið á 2.500 kr. Hægt verður að greiða og sækja pantaða miða á sviðaveisluna í verslun KM þjónustunnar fimmtudaginn 19. október frá kl 15:00 til 17:00.

Hótelið á Laugum verður opið í tengslum við sviðaveisluna. Bókanir eru á laugar@umfi.is. Hægt verður að bóka sig inn frá klukkan 14:00 á föstudeginum. Útskráning fyrir klukkan 12:00 á laugardeginum. Gisting með morgunmat í tvíbýli kostar 19.000 kr en einbýli 13.500 kr. Önnur gisting er svefnpokapláss með morgunmat  á 4.500 kr. í tvíbýli og 5.500 kr. í einbýli. Uppábúið rúm í tvíbýli á heimavist skólans er á 14.000 kr. Staðfesting og greiðsla fyrir herbergi er í síðasta lagi 15. október.

Laugardagur 21. október

Kl. 10:00 Lambhrútasýning og opin fjárhús að Hlíð í Hörðudal.

Að Hlíð mæta til leiks best dæmdu lambhrútar úr suðurhluta Dalasýslu þar sem mönnum gefst kostur á að líta þá. Einnig verður keppt um fallegasta gimbrarlambið sunnan girðingar.

Reiðhöllin opnar kl.13:00

Kl. 13:00 Fyrirtæki kynna þjónustu sína

Nokkur fyrirtæki verða með bása í reiðhöllinni og kynna þjónustu sína þar.

Kl. 14:00 Íslandsmeistaramótið í rúningi

Þar leiða saman klippur sínar helstu rúningsmenn landsins. Nú er bara að spýta í lófana, brýna kambana, skrá sig og það kemur í ljós hvar þú stendur meðal rúningsmanna?

Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þann besta.

Skráningar þurfa að berast í síðasta lagi 18. október til Valbergs í síma 894-0999 eða á netfangið valbergs@mi.is

Úrslit og verðlaunaafhending verða að keppni lokinni.

Kl. 14:30

Konur úr héraði verða með sýningu á ullarvinnslu og hægt verður að taka í rokk og kemba!

Sirkus Íslands verður á svæðinu og með skemmtiatriði í hléi rúningskeppninnar.

Kvenfélagið Þorgerður Egilsdóttir verður með veitingasölu í reiðhöllinni.

Kl.18:30  í Dalabúð grillveisla og verðlaunaafhending

Bestu lambhrútarnir í Dalasýslu verða verðlaunaðir, verðlaunaðar verða bestu ærnar úr árgangi 2012. Aðgangseyrir 2.500 kr. á mann, en frítt fyrir 14 ára og yngri í fylgd með forráðamönnum.

Kl. 00:00 Dalabúð                                                                                                                         

Hefðbundinni dagskrá Haustfagnaðar lýkur með stórdansleik þar sem hljómsveitin Sóldögg munu sjá um að halda uppi fjörinu langt fram eftir nóttu.

Aðgangseyrir 3000 kr. 16 ára aldurstakmark.

Hlökkum til að sjá ykkur - Góða skemmtun!

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu.

Munum að klæða okkur eftir veðri. Ullin yst sem innst, það er allra best.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar