Lambakjöt hefur lækkað um nærri fimmtung í verði

| .

Íslenskir neytendur borga nú 18,3% lægra raunverð fyrir lambakjöt en þeir gerðu árið 2008. samkvæmt tölum frá Hagstofunni hækkaði verð á mat og drykk á Íslandi um 46,1% en almennt verðlag um 42,9% frá ársbyrjun 2008 og til 1. apríl 2017. Verð á lambakjöti hækkaði hins vegar mun minna á því tímabili, eða um 24,6%.

Þar sem lambakjötið hefur ekki fylgt verðbólgu hefur það í raun lækkað í verði um 18,3% sé miðað við almennt verðlag og um 21,5% sé miðað við aðra matvöru. Á sama tímabili hafa laun hækkað 72,4% eða um 29,5% að raunvirði. Kjötbiti sem áður tók klukkustund að vinna fyrir fæst nú fyrir 43 mínútna vinnu. Þetta þýðir að hægt er að kaupa 39,5% meira íslenskt lambakjöt fyrir tímakaupið nú en fyrir 9 árum.

verð1
verð2
  verð3

Fyrirlestur Carlo Petrini

| .

Carlo Petrini einn af stofnenndum Slow Food samtakanna og formaður þess frá upphafi heldur fyrirlestur á Háskólatorgi þann 23. maí næstkomandi í sal HT 101. Carlo hefur margsinnis fengið viðurkenningar fjölmiðla (einn af 100 mikilvægustu persónum heims og European Hero hjá Time Magazine 2004, einn af þeim 50 einstaklingum sem gætu bjargað heiminum í The Guardian 2008). Hann ferðast um heim allan til að deila skilaboðum um að við sem neytendur, erum í raun sam-framleiðendur, og að maturinn okkar á að vera góður (mannréttindi en ekki forréttindi), ómengaður og sanngjarnt verð skapist fyrir framleiðandann jafnt sem neytandann.Mikilvæg skilaboð frá þessum hugjónarmanni sem hefur heillast að því hvað við höfum þegar gert á landinu.
Facebook viðburð fyrir fyrirlesturinn má finna hér

Icelandic Lamb tilnefnt til Emblu verðlaunanna

| .

Verkefni Markaðsráðs kindakjöts, Icelandic Lamb hefur hlotið tilnefningu til Embluverðlaunanna 2017. Embluverðlaunin eru norræn matarverðlaun á vegum Samtaka norræna bændasamtaka sem haldin verða í fyrsta sinn í ár. Verðlaunin verða veitt í Kaupmannahöfn 24. ágúst á ráðstefnu danska Umhverfis- og matvælaráðuneytisins "Better Food for more people" sem haldin verður í tengslum við Copenhagen Cooking. Verðlaununum er ætlað að hampa því sem skarar fram úr í hinu norræna eldhúsi: hráefni, matvælum, framleiðsluaðferðum og fólkinu á bak við allt saman. Markmiðið með Embluverðlaununum er að deila þekkingu og reynslu og vekja athygli á norrænum mat. Icelandic Lamb hlaut tilnefningu í flokkinum Kynningarherferð/Blaðamennska, en þau verðlaun eru veitt einstaklingi, miðli eða útgáfu sem ber út hróður norrænar matarmenningar. Alls eru sjö verðlaunaflokkar en þeir eru ásamt tilnefndum fulltrúum frá Íslandi:

Hráefnisframleiðandi
Friðheimar. Tómataframleiðsla, veitingastaður og ferðaþjónusta. Vefsíða: www.fridheimar.is
Matur fyrir marga
Eldum rétt. Heimsending á uppskriftum og hráefni til eldunar. Áhersla á minni matarsóun og heilbrigðara líferni. Vefsíða: www.eldumrett.is
Matur fyrir börn og ungmenni
Vakandi. Rakel Garðarsdóttir og Hrefna Rós Sætran fyrir barnamat sem unninn er úr íslenskum hráefnum. Vefsíða: www.vakandi.is
Matarfrumkvöðull
Pure Natura ehf. Framleiðsla á bætiefnum úr íslenskum hráefnum; innmat og villtum jurtum. Vefsíða: www.purenatura.is
Matvælaiðnaðarmaður
Saltverk. Saltframleiðsla á Reykjanesi á Vestfjörðum sem nýtir jarðhita og fornar vinnsluaðferðir. Vefsíða: www.saltverk.is
Mataráfangastaður
Siglufjörður. Gamli síldarbærinn byggir á sögu og tengir hana við vandaða afþreyingu, fjölbreyttan matvælaiðnað og frábæra matsölustaði. Vefsíða: www.visittrollaskagi.is og www.sild.is
Kynningarherferð / Matarblaðamennska
Icelandic Lamb. Markaðsfærsla og vörumerkjaþróun á afurðum íslensku sauðkindarinnar. Vefsíða: www.icelandiclamb.is

Í dómnefndinni sátu þau Guðrún Tryggvadóttir, bóndi í Svartárkoti, Bjarni Gunnar Kristinsson, matreiðslumeistari í Hörpu og Brynja Laxdal, verkefnastjóri hjá Matarauði Íslands. Landssamtök Sauðfjárbænda óska Markaðsráði og starfsmönnum Icelandic Lamb innilega til hamingju með tilnefninguna.

Námskeið um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu

| .

Matvælastofnun heldur undirbúningsnámskeið fyrir þá sem hafa sótt um aðild að gæðastýrði sauðfjárframleiðslu en krafist er að þátttakendur í gæðastýrði sauðfjárrækt sæki slíkt námskeið. Vakin er athygli framleiðenda sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu á búi sínu að umsóknum skal skila eigi síðar en 20. nóvember ár hvert.
Staður og tími
Kirkjubæjarklaustur þann 14. júní á Hótel Klaustri, að Klausturvegi 6 kl. 10:30 – 16:30.
Tilkynna þarf þátttöku eigi síðar en 9. júní n.k. í síma 530-4800 eða með tölvupósti á netfangið mast@mast.is. Ekki er um sérstakt námskeiðsgjald að ræða en þátttakendur greiða sjálfir fyrir veitingar.

Á námskeiðinu verður:
farið yfir lagalegan grundvöll gæðastýringar og stjórnsýslu tengdri gæðastýrðri sauðfjárrækt.
farið ítarlega yfir reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu nr. 1160/2013, með síðari breytingum, þar sem áhersla er lögð á að skýra alla liði reglugerðarinnar fyrir þátttakendum
fjallað um landnýtingu og landbótaáætlanir.
farið yfir reglugerð um merkingar búfjár nr. 916/2012, með síðari breytingum.
farið yfir reglugerð um velferð sauðfjár og geitfjár nr. 1066/2014.
farið yfir reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt nr. 1151/2016.
fjallað um skýrsluhald í sauðfjárrækt, uppbygginu þess og grundvallaratriði sem standa þarf skil á við þátttöku í skýrsluhaldi.
farið yfir notkun á forritinu Jörð.
farið í grundvallaratriði varðandi sauðfjárbúskap, fóðrun og hirðingu sauðfjár.

*Miðað er við að hámarksfjöldi á hvert námskeið sé 20 manns. Ef þátttaka er ekki næg áskilur Matvælastofnun sér þann rétt að fella niður námskeiðið og færa staðsetningu þess.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar