Kokkur ársins krýndur á lagardaginn

| .

Klúbbur matreiðslumeistara velur Kokk ársins 2017 laugardaginn 23. september í Hörpu. Í vikunni fór fram undankeppni og þeir fimm sem keppa til úrslita um titilinn Kokkur ársins 2017 eru:

  • Víðir Erlingsson                               Bláa Lónið
  • Rúnar Pierre Heriveaux                 Grillið Hótel Saga
  • Garðar Kári Garðarsson                Deplar Farm / Strikið
  • Hafsteinn Ólafsson                           Sumac Grill + Drinks
  • Bjarni Viðar Þorsteinsson               Sjávargrillið

Ljósmynd: Sigurjón Sigurjónsson.

Úrslitakeppnin sjálf fer fram að deginum en um kvöldið er hátíðarkvöldverður þar sem úrslitin verða kunngjörð. Þar verður lambakjöt að sjálfsögðu í öndvegi. Kokkur ársins 2017 verður krýndur um kl: 23:00 af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.

Í dag, föstudag 22. september, fer einnig fram í Hörpu nemakeppni í matreiðslu og framreiðslu þar sem verða valdir keppendur fyrir norðurlandakeppni 2018. Opið hús fyrir áhugasama að fylgjast með nemakeppninni kl: 12-19.

Sjá nánar með því að smella hér. 

 

 

Skýrsla Byggðastofnunar um stöðu sauðfjárræktar haustið 2017

| .

Fréttatilkynning af vef Stjórnarráðs Íslands]

Byggðastofnun hefur skilað samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra greiningu á stöðu sauðfjárræktar og sauðfjárbænda sem hann óskaði eftir í sumar. Óskaði ráðherra eftir mati á stöðunni á svæðum þar sem kinda- og lambakjötsframleiðsla er mikilvæg landsbyggðinni og mati á áhrifum mikillar lækkunar á afurðaverði sem fulltrúar bænda hafa spáð fyrir um.

Tillögum Byggðastofnunar í skipt í þrjá flokka:

  • Aðgerðir vegna lausafjárvanda
  • Aðgerðir til að ná jafnvægi á markaði
  • Aðrar aðgerðir

Tillögur vegna lausafjárvanda eru þær að kannaðir verði möguleikar á því að ríkið leggi til fjármuni sem lán eða styrki til að mæta lækkun afurðaverðs haustið 2016 og nú í haust. Byggðastofnun skoði mál einstakra viðskiptavina og vinni með þeim að úrlausn. Einnig er lagt til að Byggðastofnun kanni þörf á endurfjármögnun lána sauðfjárbænda.

Tillögur til að ná jafnvægi á markaði snúast um að við fækkun sauðfjár verði horft til byggðasjónarmiða og í því sambandi til tillagna stofnunarinnar um svæðisbundinn stuðning við þau svæði sem eru háðust sauðfjárrækt sem atvinnugrein. Einnig að til að jafna framboð og eftirspurn á innanlandsmarkaði og minnka birgðir verði komið á tímabundinni útflutningsskyldu að ákveðnu hlutfalli og að aukinn verði byggðastuðningur við sauðfjárrækt í formi býlisstuðnings á skilgreindum svæðum.

Aðrar aðgerðir sem lagðar eru til varða stuðning við sauðfjárbændur á skilgreindum svæðum til að koma sér upp aukabúgreinum, svo sem ferðaþjónustu, heimavinnslu afurða og fleira og að ráðist verði í sérstakt kolefnisjöfnunarverkefni í samvinnu við sauðfjárbændur í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þannig verði sauðfjárframleiðslan kolefnisjöfnuð og meira til með því að draga úr losun og auka bindingu til dæmis með skógrækt, endurheimt votlendis og uppgræðslu.

Hér má nálgast skýrsluna

Úrlausn fyrir sauðfjárbændur þolir enga bið

| .

Yfirlýsing frá Bændasamtökum Íslands og Landssamtökum sauðfjárbænda

Fulltrúar Landssamtaka sauðfjárbænda (LS) og Bændasamtaka Íslands (BÍ) hafa síðustu vikur og mánuði leitað lausna ásamt stjórnvöldum á aðsteðjandi rekstrarvanda sauðfjárbænda. Ekki þarf að fjölyrða um áhrif allt að 35% lækkunar á afurðaverði sem sláturleyfishafar kynntu bændum í ágústmánuði. Þau eru alvarleg og fjöldi bænda sér fram á verulega erfiðleika í sínum rekstri ef fram heldur sem horfir.
Þann 4. september síðastliðinn kynnti landbúnaðarráðherra tillögur um aðgerðir til að leysa vanda sauðfjárbænda. Samtök bænda lýstu því strax yfir að margt væri hægt að taka undir hjá ráðherra en tóku jafnframt skýrt fram að tillögurnar leystu ekki vandann að fullu.
Þriðjudaginn 19. september hafa Landssamtök sauðfjárbænda boðað til aukafundar þar sem til stendur að ræða tillögur ráðherra og álykta um framhaldið. Markmið fulltrúa bænda er að koma fram með lausnir sem taka á þeim bráðavanda sem stéttin stendur frammi fyrir.
Nýjustu vendingar í þjóðmálunum og sú staðreynd að núverandi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er fallin setja málið í uppnám. Samtök bænda leggja þunga áherslu á að lausnum fyrir sauðfjárbændur verði ekki frestað. Málið þolir enga bið.
Það er mikilvægt að Alþingi setji málefni sauðfjárbænda á dagskrá svo fljótt sem unnt er og taki tillit til þeirra athugasemda sem bændur munu leggja fram við framlagðar tillögur fráfarandi landbúnaðarráðherra. Skjót og farsæl úrlausn mun eyða óvissu og tryggja að ekki verði hrun í stétt sauðfjárbænda.
Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands beina þeim skilaboðum til sinna félagsmanna að ekkert er í hendi um aðgerðir fyrr en Alþingi hefur tekið afstöðu til málsins. Forystufólk BÍ og LS rær að því öllum árum að ná farsælli lendingu með stjórnvöldum sem allra fyrst. Tilfinning þess er að víðtækur hljómgrunnur sé fyrir því í öllum stjórnmálaflokkum að bregðast við.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar