Print

Hagsmunagæsla sauðfjárbænda

| .

Að gefnu tilefni langar okkur aðeins að fara yfir helstu verkefni LS undanfarna mánuði. Snemma í vor hófu samtökin samtal við stjórnvöld um stöðu greinarinnar. Gerðu grein fyrir horfum og lögðu til leiðir til að taka á ástandinu með það að markmiði að forða stjórnlausu hruni. Við höfum allan tíman varað við því samfélagslega og efnahagslega tjóni sem því myndi fylgja ef ekkert yrði að gert. Fram á síðustu stundu fráfarandi ríkisstjórnar beittu samtökin sér til þess að málum væri stýrt til farsælli leiðar. LS og BÍ unnu þétt saman í þessu ferli.

 Aukafundur Landssamtaka sauðfjárbænda ályktaði um stöðuna og lagði línur um framhaldið. Þessum ályktunum hafa samtökin fylgt eftir. Bæði í samtölum við sláturleyfishafa og pólitíkina. Við höfum á hverjum tíma reynt eftir fremsta megni að leggja mat á stöðu á markaði og með hvaða hætti við getum beitt okkur gagnvart afurðaverði. Varðandi bráðaaðgerðir leggjum við áherslu á að komið verði til móts við rekstrartjón án tafar, aukafundur ályktaði um 650 milljónir í þann farveg. Einnig er mikilvægt að komið verði á eðlilegri, tímabundinni sveiflujöfnun gagnvart markaði til að taka heilstætt á vandanum. Þó þessi samtöl hafi ekki farið fram á öldum ljósvakans, fóru þau engu að síður fram. Aðildarfélög samtakanna hafa ekki látið sitt eftir liggja og skorað á afurðastöðvar sinna svæða að gera betur.

Þá höfum við nýtt tímann undanfarnar vikur til að undirbúa samtal við ný stjórnvöld um framhaldið. Frá í vor höfum við lagt ríka áherslu á það við ráðuneytið að farið yrði í úttekt á afurðageiranum. Við höfum haldið áfram að þrýsta á að þeirri vinnu sé flýtt eftir að ríkisstjórnin sprakk. Það hefur verið sett upp áætlun varðandi slíka úttekt og miðað við hana ættu niðurstöður að liggja fyrir í vor. Það er mjög mikilvægt að fá góða greiningu á þessu ferli frá bónda til verslunar. Þarna er bráðnauðsynlegt að allir hagræðingarmöguleikar séu nýttir og að strúktúr þessa ferils sé þannig að allir geti við unað. Það er ekki eðlilegt að á sl ári hafi bændur á íslandi fengið 83% af heimsmarkaðsverði- þegar verð til bænda var 542 kr/kg og hefur þó sigið verulega á ógæfuhliðina eftir það. Það er einhver veruleg skekkja í þessari mynd og þá skekkju verðum við að greina og laga.

Þá höfum við látið vinna úttekt á markaðsíhlutun í landbúnaði hjá ríkjum innan OECD. Sú vinna mun klárlega nýtast okkur í samtalinu í framhaldi. Við höfum einnig verið að skoða hvernig halda megi betur utan um haggögn í sauðfjárrækt en það er einn þáttur sem hefur ekki verið sinnt undanfarin ár en gefur okkur engu að síður mjög mikilvægar upplýsingar til að meta stöðuna og árangur af aðgerðum.

Eftir aðalfundinn í vor var einnig farið á fullt við að meta kolefnisspor sauðfjárræktar í samræmi við stefnumótun íslenskra sauðfjárbænda til 2027 sem menn geta nálgast inn á saudfe.is Eftirfylgni og kynning á skýrslunni sem lögð var fram í lok október er í fullum gangi. Kolefnisjöfnun greinarinnar er eitt af metnaðarfullum markmiðum sem sett eru fram í stefnumótuninni. Þar eru fleiri markmið sem snúa að því að styrkja samkeppnishæfni framleiðslunnar, efla fagmennsku og fá staðfestingu á þeim gæðum sem við höfum fram að færa. Íslenskir sauðfjárbændur hafa einnig sótt um sérstaka skráningu á afurðarheiti samkvæmt nýju íslensku kerfi og von er á niðurstöðu um það fljótlega. Lambið yrði þá fyrsta íslenska varan sem fengi slíka skráningu. Í kjölfarið sækjum við svo um alþjóðlega afurðaheitavernd á íslenska lambið með tilliti til uppruna og sérstöðu. Allar fínustu vörur í hillum sælkerabúða í Evrópu eru með slíka vottun og í þann hóp viljum við komast með lambið okkar. Erfðabreytt fóður hefur þegar verið bannað í sauðfjárrækt á Íslandi. Nú þegar er íslenska sauðkindin skráð í Bragðörk hinna virtu alþjóðlegu Slow Food samtaka á grundvelli erfðafræðilegs fjölbreytileika sem nýtur líka verndar samkvæmt alþjóðlegum samningi Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur verið aðili að frá 1992. Við erum með einstök náttúruverðmæti í höndunum þar sem íslensku landnámskynin eru og því fleiri og meiri viðurkenningar sem við fáum á sérstöðunni, þeim mun betur mun okkur vegna.

Þar fyrir utan hefur eins og ávalt heilmikill tími farið í yfirlegu yfir reglugerðum og hinum ýmsu og fjölbreyttu erindum sem detta inn á okkar borð. Fyrir utan eftirfylgni með öðrum ályktunum frá aðalfundi 2017.

Allt frumkvæði sauðfjárbænda til að vinna að okkar hagsmunum er mikilvægt. Hinn almenni bóndi er mikilvægur talsmaður og getur lagt sitt á vogarskálarnar, það telur allt í þessu. Það er mikið verk fyrir höndum til að rétta af stöðu greinarinnar, sem á svo mikið inni. Það verk vinnur enginn einn og án virkrar grasrótar mega forystumenn sér lítils. Allt liðsinni og allar uppbyggilegar ábendingar og bríningar eru vel þegnar og raunar bráðnauðsynlegar til að okkur takist að lyfta því grettistaki sem fyrir okkur liggur.

Með góðri kveðju

Stjórn og framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar