Print

Áhugaverðar skýrslur frá Landbúnaðarháskóla Íslands

| .

Fyrir þá sem eru orðnir uppiskroppa með lesefni nú um jólin er rétt að benda á tvær afar áhugaverðar skýrslur sem komu út á árinu á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands. 

Góðar skýrslur

 

"Misjafn sauður í mörgu fé"- greining á áhrifaþáttum haustþunga lamba í gagnasafni Hestbúsins 2002-2013

Meginmarkmið þessa verkefnis var að skilgreina breytileika í lífþunga lamba að hausti út frá upplýsingum um lömbin og mæður þeirra. Notað var gagnasafn frá tilraunabúi LbhÍ á Hesti sem nær yfir 12 ára tímabil, árin 2002-2013, og inniheldur upplýsingar um 9938 lömb. Greind voru áhrif ýmissa breyta á fæðingarþunga, vaxtarhraða fyrri hluta sumars og vaxtarhraða síðari hluta sumars. Kyn lamba og burður (einlembingur, tvílembingur, o.s.frv) hafa mikil áhrif á fæðingarþungann. Tvævetlur fæða léttari lömb en eldri ær. Stórar ær (miðað við janúarþunga) fæða heldur þyngri lömb en þær sem minni eru. Þungaaukning á meðgöngu hefur jákvæð áhrif á fæðingarþunga, og ær sem eru meðalfeitar (holdastig 3) í mars eru líklegri til að fæða þung lömb heldur en þær sem eru annað hvort magrari eða feitari.

Fæðingarþungi hefur áhrif á vaxtarhraða bæði beint og óbeint. Lamb sem er fætt stórt, hefur meiri getu til að innbyrða mjólk heldur en lítið lamb. Vaxtarhraðinn fer líka eftir því hve mörg lömb ganga undir ánni, og hrútar vaxa hraðar en gimbrar. Burður lambanna (einlembingur, tvílembingur, o.s.frv) hefur hins vegar engin áhrif á vöxt seinni hluta sumars, og lítil fyrri hluta sumars. Lömb sem ganga undir fósturmóður vaxa lítið eitt hægar (~3%) en lömb sem ganga undir blóðmóður fyrri hluta sumars, en síðari hlutann er ekki neinn munur þar á.

Áhrif holdafars ánna rétt fyrir burð á vaxtarhraða lamba vara alveg fram á síðari hluta vaxtarskeiðs lambanna. Þegar búið er að leiðrétta fyrir áhrifum þunga og holdastiga eru eru sérstök áhrif af aldri ánna merkilega lítil á vaxtarhraða þeirra lamba sem þær ganga með, og raunar ekki til staðar síðari hluta sumarsins. Vaxtarhraði lamba undir elstu (6+) ánum er þó slakastur og bestur er hann hjá 3-4 vetra ánum, fyrri hluta sumars.

Munur besta og lakasta framleiðsluárs er um 10% á vaxtarhraða fyrri hluta sumars, en um 15% á vaxtarhraða síðari hluta sumars. Sömuleiðis er það athyglisvert hve miklu meiri vaxtarhraðinn er fyrri hluta sumarsins (meðaltal 289,7 g/dag) en seinni hlutann (meðaltal 217,8 g/dag).

Næsta skref er að búa til úr þessum greiningum reiknilíkan sem nýta má til að lýsa breytileika í haustþunga lamba á íslensku sauðfjárbúi. Það mætti svo nota til að meta hversu mikinn hluta lambanna, ef einhvern, er ástæða til að bata sérstaklega fyrir slátrun. Einnig mætti nota það til að endurskipuleggja tilhleypingar, ráðstöfun fósturlamba og fleira.

Verkefnið var styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins (þróunarfé sauðfjárræktar)

Hér má nálgast skýrsluna

Áhrif aldurs áa, þunga, holda og framleiðsluára á frjósemi áa- greining á gagnasafni Hestbúsins 2002-2013

Gagnasafnið sem notað var í verkefninu innihélt upplýsingar um 5558 afurðaár áa á Hestbúinu á 12 ára tímabili, 2002-2013. Meðal þess sem niðurstöður tölfræðigreininga leiddu í ljós var að fyrir hver 3 kg sem meðalærin er þyngri í nóvember, má reikna með að frjósemi fari upp um 0,02 fædd lömb á hverja á sem ber. Fyrir hver 3 kg sem ærin þyngist frá nóvember fram í desember, má líka búast við að frjósemi fari upp um 0,02 fædd lömb á hverja á sem ber. Meðalfjöldi fæddra lamba eftir hverja á sem bar var 1,96, fyrir allt gagnasafnið.

Áhrif aldurs ánna voru töluverð, tvævetlur sýndu minnsta frjósemi (1,86) en mestu frjósemi sýndu 5 og 6 vetra ær (2,04). Minnst var frjósemin framleiðsluárið 2002, eða 1,89 lömb á hverja borna á, en mest framleiðsluárið 2005, eða 2,04 lömb á hverja borna á.

Þar sem sömu ærnar koma fyrir endurtekið í gagnasafninu mátti taka einstaklingsáhrif mæðra með í tölfræðigreininguna, og voru þau sem vænta mátti umtalsverð.

Hér má nálgast skýrsluna

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar