Aukaaðalfundur 2015

Aukaaðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda

Bændahöllinni við Hagatorg

27. nóvember 2015

Fundurinn var settur í fundarsalnum Kötlu II á 2. hæð Radisson BLU Hótels Sögu þann 27. nóvember 2015 kl. 11:12.

DAGSKRÁ:

  1. Fundarsetning, kosning embættismanna 

 

Þórarinn Ingi Pétursson formaður LS setti fundinn. Hann lýsti tildrögum fundarins, fjögur aðildarfélög hefðu beðið um að haldinn yrði slíkur fundur, einnig væri meiningin að upplýsa fulltrúa um gang viðræðna við ríkisvaldið um gerð nýs búvörusamnings.

Hann lagði fram eftirfarandi tillögu um starfsmenn fundarins:

Fundarstjórar: Aðalsteinn Jónsson, Klausturseli og Sigríður Jónsdóttir, Arnarholti.

Skrifarar: Íris Þórlaug Ármannsdóttir, Kjalvararstöðum og Stefán Halldór Magnússon, Þverá.

Fundarritari: Sigurður Kristjánsson.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Fundarstjórar tóku þá við stjórn fundarins og Aðalsteinn Jónsson fór yfir nokkur atriði í upphafi, boðun fundarins og fleira en aðalfundir færu með æðsta vald samtakanna og einnig væri í samþykktum tilgreint hverjar ástæður væru til boðunar framhalds- eða aukaaðalfunda. Mál skyldu vera komin til fundar sem þessa 2 vikum fyrir fundinn, ef fram kæmu tillögur þyrfti að leita afbrigða ef taka ætti slíkar tillögur fyrir. Hann gat þess einnig að litið væri svo á að nú væri uppfyllt sú skylda að halda formannafund árlega, því allir formenn væru fulltrúar á fundi sem þessum. Engar athugasemdir komu fram við þessar skýringar fundarstjóra.

Tillaga var gerð um að kjörbréfanefnd yrði skipuð eftirfarandi: Atli Már Traustason formaður, Gísli Geirsson og María Dóra Þórarinsdóttir.

Samþykkt athugasemdalaust.

Jóhann Ragnarsson fékk leyfi fundarstjóra til að ávarpa fundinn. Hann ræddi um óvirk félög innan samtakanna. Eitt félag taldi hann að hefði ekki haldið aðalfundi í einhver ár en sendi samt sem áður fulltrúa á fundi LS. Jóhann taldi að ef slíkir fulltrúar kæmu á fundinn en væru ekki kjörnir árlega í sínum félögum, væru þeir ekki gildir fulltrúar á fundinum og beindi því til kjörnefndar að fara vandlega yfir kjörbréf.

 

 

  1. Skýrsla Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri: Markmið og forsendur sauðfjárræktarsamnings – Vífill Karlsson dósent og ráðgjafi

 

Vífill ræddi um skýrslu sem nefnd var „Kindur á krossgötum“ og sagði frá mati á nýliðun og brotthvarfi úr sauðfjárrækt í landinu. Ungir bændur féllu frekar út úr búskap en þeir sem hefðu verið starfandi bændur í einhvern tíma. Nettónýliðun (nýliðun – brotthvarf) ykist eftir því sem lengra drægi frá höfuðborgarsvæðinu. Meiri nýliðun væri í sauðfjárrækt en mjólkurframleiðslu. Meira brotthvarf meðal yngri bænda en miðaldra sagði hann geta tengst því hvernig stuðningskerfinu við greinina væri háttað og/eða því að bændur sætu lengi á jörðum. Þegar unnið var að skýrslunni sagði hann að reynt hefði verið að finna svokallað besta verð, þar sem hagnaður greinarinnar væri mestur, miðaður við framleiðslukostnað og tekjur af kjötsölu, sem breyttist með verði, þannig að eftir því sem verðið yrði hærra, því minni yrði eftirspurnin. Þegar skoðuð voru áhrif verðs á kindakjöti á eftirspurn, eitt og sér, þá virtist verðið hafa lítil áhrif á eftirspurnina. Eftirspurn eftir lambakjöti taldi hann vera mun háðari verði á öðru kjöti en verðinu á lambakjötinu sjálfu. Niðurstöðurnar urðu að eftir því sem ráðstöfunartekjur heimila yrðu hærri virtist eftirspurn eftir lambakjöti ekki vaxa mikið, lambakjöt væri því ekki vera nema í mjög litlum mæli verðteygið. Hann taldi allnokkra stærðarhagkvæmni vera í greininni. Besta verð væri 12,5% hærra en verðið til bænda nú. Það næðist með því að draga úr framleiðslunni. Árið 1993 var lambakjöt ódýrasta kjötið á markaðnum en nú er það dýrara en svína- og alifuglakjöt. Neysla þess minnkaði úr um 30 kg í um 20 kg á íbúa á tímanum sem skoðaður var (um 1993-2013).

Norðurlöndin og Norður-Ameríka sagði hann að virtust mikilvægustu markaðirnir fyrir lambakjöt en verðteygni væri mjög lítil í Evrópu og Asíu þannig að þar væri ef til vill hægt að selja á háu verði. Skynsamlegt kynni að vera að nota ferðamanninn til að stækka markaðinn, flytja orðspor kjötsins út með honum. Líklega væri sú markaðssetning áhrifamest í tengslum eða samstarfi við veitingahús. Kindakjöt sagði Vífill vera 5% af heimsmarkaði með kjöt en viðskipti milli landa með það væru í meiri vexti en viðskipti með flestar aðrar kjöttegundir. Þrátt fyrir tiltölulega mesta hækkun verðs á lambakjöti hefði þróunin verið þessi að undanförnu. Kindakjöt sagði hann vera dýrasta kjötið á heimsmarkaði. Útflutningur á íslensku kindakjöti hefði þrefaldast frá 2002 en mest af því væri flutt út í gegnum milliliði og ekki endilega markaðssett sem íslenskt, þó það ætti að líkindum að gefa betra verð. Draga ætti úr framboði á heimamarkaði, vinna að ímyndarmálum, hætta að keppa á jafningjagrunni við annað kjöt og stefna að meiri útflutningi.

Hann taldi ástæður fyrir miklum stuðningi við íslenskan landbúnað ekki endilega settar fram á skýran hátt.

Bændur sem hefðu keypt greiðslumark á síðustu árum myndu tapa miklu ef beingreiðslurnar yrðu lagðar niður og vera kynni að grípa þyrfti til ákveðinna aðgerða til að sporna við slíku. Vera kynni að grípa þyrfti til sérstakra aðgerða fyrir nýliða í tengslum við breytingar á stuðningskerfinu.

Fundarstjóri gaf leyfi til spurninga til framsögumanns.

Spurningar:

Erlendur Ingvarsson ræddi um að ef til vill færi það alls ekki saman að draga úr framleiðslu og tengja stuðningsgreiðslurnar um leið við framleitt magn. Spurði hvernig gengi að verja stuðningskerfið ef þetta væri stefnan.

Sigurður Þór Guðmundsson þakkaði erindið og sagði hugmyndafátækt í umræðunni. Spurði hvort einhverjar hugmyndir væru til í þá átt að færa greiðsluheimildirnar milli bænda án þess að þær væru eigngerðar.

Jóhann Ragnarsson tók undir með Erlendi og Sigurði um mótsagnir í hugmyndum að breytingum. Taldi það að stuðningurinn væri þannig að hann vildi eigngerast í hverri mynd sem hann væri, t.d. í Evrópu væri landverð geysihátt vegna þess að stuðningurinn þar væri greiddur út á land. Aðeins ein leið væri til að koma í veg fyrir að ríkisstuðningur eigngerðist, hún væri sú að afþakka hann.

Jóhann Ágústsson spurði um stuðning við jaðarbyggðir og hvar ætti að draga mörk við slíkar skilgreiningar og hvaðan peningar til slíkra styrkja ættu að koma.

Sindri Sigurgeirsson taldi mikilvægt að staða greinarinnar væri metin og framtíðarsýn skoðuð. Spurði hvort það væri skilningur RHA að það að sækja fram á erlendum mörkuðum og draga um  leið úr framboði á innanlandsmarkaði væri leið sem stofnuninni sæi til að ná hærra verði til bænda.

Vífill Karlsson sagðist helst ekki gera greinarmun á framboði og framleiðslu og sagði aðalatriðið að eitthvað minna væri til sölu en sölumagn væri ekki næmt fyrir verðbreytingum en magnið sem kæmi á markað hefði á hinn bóginn mikil áhrif á verðið. Hann styngi upp á að minnka framboð lambakjöts á innanlandsmarkaði um 5-6% frá því sem verið hefði. Markaðir í öðrum löndum ættu að geta tekið við meira magni fljótlega, en þó ef til vill ekki alveg strax. Mikil tækifæri væru á erlendum mörkuðum og mikilvægt að ná að láta ferðamannastrauminn styðja sig við markaðssetningu erlendis. Sagðist hefði viljað fá meiri tíma til að skoða styrkjakerfið. Krafan um að auka ekki styrki til landbúnaðar fæli í sér að ef greiðslurnar væru færðar yfir í gripagreiðslur, þá yrði að setja þak á greiðslurnar og undirbúa kerfisbreytingarnar vel. Útfærsla væri ekki einföld, vinna þyrfti með þetta á þann veg að stutt yrði við greinina og nýliðun gerð auðveldari. Beingreiðslukerfið eins og það væri núna, þyrfti að leggja af, það væri skoðun hans. Hann lýsti því að málefni jaðarbyggða hefði þurft að skoða betur en tími hefði verið til við skýrslugerðina, sauðfjárrækt væri plássfrek og nauðsynlegt væri að styðja jaðarbyggðir þar sem í dreifðustu byggðunum væri mjög erfitt að sækja aðra atvinnu. Af sjálfu leiddi að það væri auðveldara þegar þéttbýliskjarni væri í grenndinni.

 

  1. Yfirferð kjörbréfa - kynning fulltrúa

Gísli Geirsson lýsti því að kjörbréfanefnd hefði farið yfir kjörbréf fulltrúa og að ekki hefði verið gerð athugasemd við þau. Hann las upp nöfn rétt kjörinna fulltrúa og bað þá að standa upp jafnótt og hann læsi nöfn þeirra.

Mættir fulltrúar voru eftirfarandi:

 

 

  1. 12:22 Hádegishlé

  

 

  1. 13:00 Markaðsmál og framtíðarsýn - Svavar Halldórsson framkvæmdastjóri LS

Svavar fór yfir stöðuna og byrjaði á verðmyndun afurða sauðfjárræktarinnar. Heildsöluverð á skrokk væri nú um 14.000 kr. og hlutur bóndans um það bil 70% af því. Hann taldi sauðfjárbændur þurfa að marka sér ákveðna sérstöðu, meiri en verið hefði. Sauðfjárræktin ætti sér ákveðna stöðu í hugum landsmanna og hin menningarlega tenging við lambakjötið væri ótvíræð. Hann ræddi um 3 lykilatriði varðandi markaðssetninguna, vöru, sögu (innihélt 8 atriði hjá Svavari - fjölskyldubú, menningu, hreinleika, gæði, dýravelferð, fagmennsku, sjálfbærni og fjölbreytni) og markaði. Hann sýndi nýtt upprunamerki sem nota á til að auðkenna sauðfjárafurðir framleiddar hér á landi og verður sett upp á veitingastöðum sem verða í samstarfi við samtökin um sölu og kynningu á lambakjöti. Markhópnum eða mögulegum kaupendum sauðfjárafurða skipti hann í þrjá hluta, Íslendinga á Íslandi, útlendinga (ferðamenn) á Íslandi og síðan útlendinga í útlöndum. Hann ræddi síðan um leiðir til að markaðssetja lambakjöts fyrir ferðamenn. Markaðsathugun hefði farið fram, leitað hefði verið að samstarfsaðilum og nú væri orðið til samstarf við Icelandair, valda veitingastaði, Handprjónasambandið og Rammagerðina og einnig við leiðsögumenn. Hann sagði samstarfið eiga að gefa af sér útgáfu kennslu- og handbókar, kynningu í matseðlum veitingastaða og í því að til yrði kynningarbæklingur.

Svavar sagði frá því að nýja upprunamerkið ætti einnig að nota sem vörumerki á erlendum mörkuðum. Hann fór yfir það sem væri í undirbúningi í því að breyta ímynd lambakjöts frá Íslandi. Auðveldast væri að bera niður þar sem menningarþröskuldur væri lágur (menningarmunur Íslands og markaðssvæðisins tiltölulega lítill), kaupgeta mikil, neytendameðvitund sterk og þar sem Íslandsferðir væru algengar. Evrópa og Norður-Ameríka væru þau svæði sem uppfylltu þessi skilyrði best.

Hann lýsti því að hugmyndir væru uppi um að stofna sölufyrirtæki til að sækja fram á erlendum mörkuðum, í líkingu við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, og einnig að opna þjónustuskrifstofu. Á nýjum mörkuðum ætti að leggja áherslu á beina sölu og gæði og hreinleika. Hann lýsti einnig hugmyndum um breytingar á Markaðsráði kindakjöts. Hann lagði áherslu á að ekki ætti að bíða eftir því að kaupmenn bæðu um ódýran próteingjafa, heldur finna fólk sem væri tilbúið til að kaupa gæðavöru.

Fundarstjóri gaf leyfi til spurninga.

Erlendur Ingvarsson þakkaði Svavari erindið, ræddi um að lambakjötið væri þjóðarréttur Íslendinga og spurði síðan hvernig Svavar liti á það hvort það væri sanngjörn meðferð á skattfé að draga úr innanlandsframboði og styrkja í staðinn útflutning.

Sigvaldi Ragnarsson bauð Svavar velkominn til starfa fyrir bændur. Sagði bændur ekki hafa velt allt of mikið fyrir sér gæða-  og markaðsmálum í tengslum við sauðfjárslátrun og sölu lambakjöts. Benti á að sinna þyrfti eftirspurn eftir hinum ýmsu vörum, ýmsir vandlátir keyptu alls ekki kjöt nema vita nákvæmlega hvernig vöru þeir fengju í hendurnar. Ræddi um erfðabreytt efni í fóður, vildi huga fljótt að því að koma í veg fyrir að erfðabreytt efni væru í fóðri sem gefið væri sauðfé. Lýsti því að fyrsta veitingahúsið sem ætti að fá nýja upprunamerkið, væri Hótel Saga. Bjóða ætti sem allra mest af innlendum matvælum á Sögu. Markaðsmál væru langtímaverkefni. Spurði hversu mikið væri mögulegt að auka sölu á erlendum mörkuðum á næstu 10 árum.

Birgir Arason þakkaði Svavari erindið og bauð hann velkominn til starfa fyrir sauðfjárbændur. Lýsti hrifningu sinni á þeirri mynd sem Svavar hefði dregið upp. Kynna ætti gæði varanna sem framleiddar væru hérlendis og ekki ætti að skipta sér of mikið af innflutningi matvæla. Leist vel á nýja upprunamerkið. Ræddi um gistiheimili í Eyjafirði, Lamb-Inn, sem auglýsti sögu og matarmenningu og þar væri lambakjöt alltaf á boðstólum. Þetta félli ferðamönnum vel í geð. Sagði suma trúa því að gefa ætti ferðamönnum að borða eitthvað sem þeir væru vanir heimanað frá sér en það væri ekki rétt stefna í markaðsmálum.

Guðrún Ragna Einarsdóttir þakkaði Svavari erindið. Sagðist fyllast bjartsýni við að heyra svona framsetningu og væri ánægð með nýja upprunamerkið. Sagði eiga að bjóða ferðafólki mat framleiddan á þeim slóðum sem það væri að ferðast um. Markaðssetningin hefði verið misgóð undanfarin ár. Lýsti heimsókn ferðamanna í fjárhúsin heima hjá henni, þar sem þeir gátu upplifað rúning og fengið frásögn heimamanna af því hvernig sauðfjárbúskapurinn gengi fyrir sig. Taldi svona heimsóknir vera af hinu góða, ef sauðfjárbændur vildu opna fjárhúsin sín og segja frá framleiðslunni og lífinu, þá væri það ánægjulegt og gæti verið öflug kynning fyrir greinina.

Svavar Halldórsson þakkaði viðtökurnar. Sagði matarferðamennsku mest vaxandi grein ferðaþjónustu í veröldinni. Við ættum að vera að selja sögu en ekki kjöt. Umbúðir skiptu miklu máli í markaðssetningu, fínar umbúðir breyttu upplifun kaupandans. Hann taldi rétt að hafa nýja upprunamerkið á ensku en ekki íslensku, einfaldlega vegna þess að líklegast væri að það seldi betur þannig. Ekki ætti endilega að eyða miklum kröftum í að tala niður innflutning, heldur ætti að leggja áherslu á að vekja athygli á gæðum þeirra vara sem sauðfjárbændur framleiddu. Sagði að 3-5 ár tæki að byggja upp viðskiptasamband og það traust sem til þess þyrfti. Afhendingaröryggi væri falið í því að það sem lofað væri, stæðist, alltaf, þó það væri ekki nema í nokkrar vikur á ári. Sagði frá því að velt hefði verið upp þeirri hugmynd að hætta að nota erfðabreyttar vörur í fóður fyrir sauðfé eða jafnvel banna þær, það tryggði aðgang að mörkuðum fyrir heilnæmar vörur. Ræddi hvernig ætti að réttlæta fyrir þjóðinni að sauðfjárræktin fengi stuðning til að stunda útflutning. Sagði sauðfjárbændur eiga að segja við ríkið að þeir vildu stunda sjálfbæra landnotkun og tryggja dýravelferð og það væri þjóðin tilbúin til að styrkja. Það sem bændur segðust ætla að gera yrði síðan að standast, vera satt, til að þjóðin og ríkisvaldið tryði bændum og væri tilbúið að styðja við þess háttar búskaparhætti. Þeir búskaparhættir væru með þeim heilnæmustu sem til væru í hinum vestræna heimi. Skattborgararnir væru einnig til í að styðja það að halda við byggð í landinu. Það gæti styrkt sjálfsmynd þjóðarinnar að styrkja heilnæma búskaparhætti.

Kaffihlé var tekið um kl. 14:25

Dagskrá hófst aftur kl. 14:33.

 

  1. Viðræður um nýja sauðfjársamninga – Þórarinn Ingi Pétursson, Einar Ófeigur Björnsson og Sindri Sigurgeirsson

Sindri Sigurgeirsson lýsti því að þrátt fyrir stuttan tíma hefði samninganefndinni þótt mikilvægt að halda kynningarfundi í hverju héraði og nú með LS. Áherslurnar hefðu verið mótaðar með ályktun búnaðarþings nr. 28/2015, ályktun aðalfundar LK, ályktun aðalfundar LS og samningsmarkmið SG að leiðarljósi. Viðmiðin hefðu tekið einhverjum breytingum og nú vildi nefndin leita álits bænda. Nú væri komið í ljós að sennilega yrði ekki unnt að afgreiða alla búvörusamningana undir einum hatti, hið lagalega umhverfi byði ef til vill ekki upp á það. Atkvæðagreiðsla um alla samningana í einu þyrfti líklega meiri undirbúning og því yrðu að líkum greidd atkvæði um hvern samning fyrir sig. Í viðræðunum hefðu viðmið eitthvað breyst með tímanum. Best hefði verið ef náðst hefði að ganga frá samningunum fyrir jól en fyrir lægi að það tækist því miður ekki. Hann fór yfir skipan samninganefndarinnar í sumar en í henni hefðu verið Sindri Sigurgeirsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Einar Ófeigur Björnsson, Þórhallur Bjarnason, Sigurður Loftsson, Þórarinn Ingi Pétursson og Gunnar Þorgeirsson. Fulltrúar ríkisins væru Sigurgeir Þorgeirsson, Ólafur Friðriksson, Þórhallur Arason og Rebekka Hilmarsdóttir.

Áherslur ríkisins sagði hann hafa verið að stefna til almennari stuðningsforma, óháðra búgreinum, sníða hefði átt af ýmsa galla, efla landbúnaðinn til framtíðar, t.d. með því að opna möguleika til nýtingar nýrra tækifæra, leggja áherslu á byggðafestu, sjálfbæra landnýtingu, gera nýliðun auðveldari, gera stuðninginn hlutlausari og eyða stuðningsformi sem fæli í sér að nýir bændur þyrftu að kaupa sig inn í viðkomandi grein. Sagði að það sem kynnt hefði verið á bændafundunum undanfarið, væri það sem búið væri að ná samkomulagi um milli samningsaðila. Tollasamningurinn sem hefði verið gerður í sumar, hefði valdið erfiðleikum í viðræðunum því búið hefði verið að „læsa“ prósentu (hlutfall) tolla og krónutölu tolla inni í milliríkjasamningum og engin áhrif hefði verið hægt að hafa á þá hluti, nema hvað varðaði tolla á mjólkurafurðir. Ekki væri á borðinu að gera fleiri búgreinasaminga, nema ef til vill varðandi geitur. Sérstakar viðræður yrðu um stuðning vegna fjárfestinga vegna breyttra aðbúnaðarreglna. Miklar umræður hefðu verið um greiðslur út á land en ekki hefði náðst niðurstaða. Í samningsdrögunum væru hins vegar klausur um að veita meira fé í þann jarðræktarpakka sem til væri þegar. Samið hefði verið um 10 ára gildistíma samningsins. Gólf og þak skyldi vera á stuðningsgreiðslum. Efla ætti lífræna ræktun. Útfæra skyldi búgreinasamningana þrjá en mikil vinna væri þar eftir. Þeir sem væru með mjög fátt fé fengju að öllum líkindum engin framlög í gegnum komandi samning. Stefnt væri að því að þeir sem fengju stuðning þyrftu að hafa búrekstur á lögbýli og vera með virðisaukaskattsnúmer. Búnaðarlagasamningurinn væri alveg eftir. Greiðslumark sem gengi kaupum og sölum, myndi heyra sögunni til. Stuðningur myndi færast í afurða- eða gripagreiðslur. Alveg væri eftir að semja um fjárhæðir. Samninganefndin hefði farið fram á að fá fjárveitingar til nýrra verkefna, t.d. til eflingar nautakjötsframleiðslu, verkefnis um aukið virði sauðfjárafurða og fleiri hluta. Nefndin þyrfti að vera tilbúin að sækja aukin framlög til hins nýja samnings, eftir því sem mögulegt væri. Viðtökur bænda myndu stjórna því hvernig nefndin ynni áfram. Komið hefði fram að efasemdir væru meðal bænda um gripagreiðslurnar, menn hefðu áhyggjur af landnýtingarþætti gæðastýringarinnar, hafa þyrfti á hreinu hvernig samskiptin við Landgræðsluna ættu að vera í framtíðinni. Setja ætti ef til vill markmið um að ná ákveðnum mörkuðum og verði fyrir afurðirnar inn í samninginn.

Þórarinn Ingi Pétursson kynnti samningsdrög þau sem fyrir lágu og samkomulag hefði verið um að kynna. Búið var að dreifa til fundarmanna helstu áhersluatriðum varðandi sauðfjársamninginn. Þórarinn minnti á ályktun fundar LS um að draga skyldi úr vægi greiðslumarks um 10% á samningstímanum. Einnig benti hann á umræðu í ályktuninni um eflingu gæðastýringarinnar. Einnig ræddi hann fleira sem fram kom í ályktuninni, t.d. um ullarnýtingu, svæðisbundinn stuðning og fleira.

Síðan kynnti hann markmiðin í samningsdrögunum, að efla sauðfjárrækt, auðvelda nýliðun, bæta afkomu bænda, styrkja byggðir, auka sjálfbærni, viðhalda náttúrulegum framleiðsluháttum og tryggja dýravelferð. Hann dró einnig fram að endurskoða ætti samninginn tvívegis á gildistímanum. Greiðslumark ætti að leggja af í þrepum og sækja fram á erlendum mörkuðum. Samningstíminn yrði 10 ár, heildarstuðningur ætti að hækka, hefja ætti átak í aukningu virðis sauðfjárafurða, efla fjárfestingarstuðning, styðja græn verkefni og fleira. Megintilgangurinn væri að efla sjálfbæra sauðfjárrækt og ábyrga landnýtingu og styrkja búsetu. Liðka ætti fyrir nýliðun. Ef landnýtingarþátturinn væri ekki í lagi, þá myndi almenningur missa tiltrú á því sem sauðfjárbændur væru að gera.

Vægi beingreiðslna ætti að minnka úr 52% í 42% á tímanum og allur beinn stuðningur væri skilyrtur þannig að enginn fengi stuðning nema vera í gæðastýringu. Gæðastýringin ætti að verða hið almenna viðmið, allt skýrsluhald skyldi vera rafrænt. Skilgreining álagsgreiðslna gæðastýringarinnar yrðu óbreyttar en hlutfall þeirra af stuðningnum breyttist, yrði 35% fyrri hluta samningstímans en hækkaði í 54% við lok samningstímans. Greiða skyldi álag á alla framleiðslu á búum sem væru í gæðastýringu. Greiða mætti mishátt álag á einstaka flokka kjöts. Gripagreiðslurnar ætti að greiða á vetrarfóðraðar ær og gimbrar sem væru skráðar í fjárvís.is. Þessi stuðningur yrði 30% af heildarstuðningnum við lok samningstímans. Greiða mætti hærri gripagreiðslur til nýliða. Hann ræddi um landnýtingarþátt gæðastýringarinnar, koma ætti á sívirku mats- og vöktunarkerfi til að meta beitarþol og tryggja þannig sjálfbæra landnýtingu greinarinnar. Vinna skyldi þetta í samhengi við opinberar stofnanir. Endurskoða ætti svæðisbundinn stuðning, geymslugjald ætti að fella niður, ákvæði varðandi ullarnýtingu yrði óbreytt, jarðræktarstuðning ætti að auka. Nýliðunarstuðning, fjármagn til rannsókna og grænna verkefna þyrfti að skilgreina sérstaklega og til þeirra hluta færi eyrnamerkt fjármagn. Þórarinn taldi þurfa að berjast á enn fleiri vígstöðvum en þessum til að efla þjónustu við fólk og efla lífsgæði á jaðarsvæðum. Þórarinn ræddi nánar um nokkur hinna nýju verkefna sem áður voru nefnd og sagði eftir að semja um útfærslu og fjárveitingar til þeirra. Þórarinn lýsti síðan hugmyndunum um hvernig fjármagnið væri fært úr beingreiðslum á greiðslumark, yfir í gripagreiðslur.

Einar Ófeigur Björnsson fór yfir hvaða áhrif breytingarnar á samningnum gætu haft á ákveðnar gerðir búa en forsendurnar sem hann lagði til grundvallar voru að heildarfjöldi fjár í landinu breyttist lítið sem ekkert og framleiðslan í landinu sömuleiðis. Hann tók dæmi af búi með 700 fjár með 1000 ærgilda greiðslumark en bú í þeirri stöðu myndi halda stöðu sinni ef afurðaverð til bænda hækkaði um 25% á tímabilinu og innlagðir dilkar væru 1,35 eftir vetrarfóðraða kind. Ef þær forsendur stæðust ekki, þá lækkuðu tekjur bús af þessari stærð. Bú með 500 ærgilda greiðslumark og 500 vetrarfóðraðar kindur myndi einnig halda hlut sínum í tekjum við svipaðar forsendur og hið fyrra. Bú þar sem væri margt fé en lítið greiðslumark, yrði ef til vill rekstrarhæft eftir breytingarnar, og það staðfesti að kerfisbreytingin sem fælist í samningsdrögunum væri árangurstengd. Efla skyldi markaðssókn og stækka þyrfti kökuna sem til skiptanna væri. Að líkindum þætti ýmsum mikil framleiðsluaukning geta komið í kjölfar þessara breytinga. Hann taldi það ekki einhlítt að niðurstaðan yrði sú. Ef til vill þyrfti greinin á því að halda að einhverjir væru bjartsýnir og vildu fjölga fé og auka framleiðsluna. Standa þyrfti saman að því að halda byggð í landinu. Sauðfjárrækt um allt land styddi við vöxt í ferðaþjónustunni.

Fundarstjórar opnuðu mælendaskrá kl. 15:27 og tilkynntu að ræðutími væri takmarkaður.

Sigurður Jónsson fór yfir söguna og lýsti hvernig bændum hefðu á tímabili verið tryggðar tekjur fyrir kjöt sem ekki hefði verið neytt í landinu. Árið 1980 hefði verið hætt að greiða útflutningsbætur og við það hefðu bændur orðið að flytja umframframleiðslu á erlendan markað á eigin kostnað. Þegar framleiðslutakmarkanirnar voru settar á, hefðu runnið upp erfiðir tímar fyrir marga bændur. Þá hefði innanlandsneyslan á kindakjöti verið um 11.800 tonn. Hann velti fyrir sér til hvers það leiddi að greiða gripagreiðslur, án tillits til þess hvort viðkomandi gripir skiluðu framleiðslu eða ekki. Hann ræddi um breytingarnar á kerfinu eftir þjóðarsáttarsamningana en 1992 hefðu verið teknar upp beingreiðslur. Stuðningurinn hefði átt að miðast við 50% af framleiðslukostnaði og eingöngu skyldi greiða út á kjöt sem neytt væri á Íslandi. Því hefði verið stílbrot þegar gæðastýringin var tekin upp að greitt væri jafnt á alla framleiðslu og þar væru á vissan hátt á ferðinni útflutningsbætur. Ef til vill gæti verið hættulegt að færa stóran hluta af stuðningnum yfir á útflutning og tryggja skyldi stuðning á Alþingi við nýjar stuðningsleiðir, áður en samningnum yrði lokið. Sagði að eðlilegt væri að 64 ára reglan félli niður. Því greiðslumarki sem þar losnaði, ætti að skipta milli þeirra aðila sem í greininni væru. Í nýjum samningi mættu ekki vera nein ákvæði sem hvettu til aukningar framleiðslu. Síðastliðið haust hefðu ákveðnir erlendir markaðir lokast. Hafa ætti þak á því sem bændur fengju greitt. Lækka ætti greiðslurnar ef menn næðu ekki að framleiða 18.2 kg á hvert ærgildi. Miðað við afkomu afurðastöðvanna yrðu flestar þeirra sem ekki hefðu styrk af fleiri rekstrargreinum komnar í greiðsluþrot innan fárra ára og þangað yrðu auknir peningar ekki sóttir.

Birgir Ingþórsson þakkaði kynningu á samningsdrögum þeim sem lægju fyrir, alltaf yrðu einhverjar breytingar, það væri eðlilegt. Fannst nokkuð bratt að færa allar stuðningsgreiðslur yfir í að greiða út á framleiðslu. Ekki hefði verið pólitískur vilji til að greiða eingöngu á framleitt magn. Erfitt gæti verið að verja það að greiða niður kjöt sem flytja ætti út. Sleppa hefði átt að sýna glærur þær sem Einar Ófeigur hefði sýnt, ekki væru nokkrar forsendur til að meta þessa hluti eins og þar hefði verið gert. Atburðir eins og lokun Rússlandsmarkaðar hefðu mikil áhrif á útflutning kjöts frá Íslandi. Hann benti á að stærsti hluti þeirra sem leituðu eftir því að kaupa kjöt, ætluðu aldrei að borga það. Það gæti verið erfitt að verja að greiða stuðning á kíló (magn) og það væri framleiðsluhvetjandi. Benti á að bú sem væru t.d. með um 1000 ærgilda greiðslumark og um 700 fjár á fóðrum, væru einu búin sem telja mætti rekstrarhæf í landinu eins og væri. Sagði fjölskyldubúin vera styrkleika í sauðfjárræktinni. Skuldsetning á sauðfjárrækt færi vaxandi og fjármagn væri allt of dýrt.

Jóhann Pétur Ágústsson sagði sér finnast með ólíkindum að ekki hefði verið boðað til þessa fundar fyrr en eftir að búið hefði verið að kynna drögin víða um land, það væri ólíðandi. Hann spurði til hvers samtökin störfuðu. Hópur til að móta samningsmarkmið hefði verið með þau í undirbúningi í heilt ár. Í þeim hópi hefðu verið nokkrir stjórnarmenn en þeir hefðu síðan lagt markmiðin sem til hefðu orðið, frá sér. Formaður hefði sagt sér að ástæðulaust væri að halda formannafund aðildarfélaganna því fátt væri að frétta. Síðan hefði hann sjálfur séð fundargerð frá stjórnarfundi LS og þar væri getið um plagg um samningsdrögin, sem komið hefði fram á þeim fundi, en það plagg hefði ekki verið lagt fram, hann óskaði eftir því að fá að sjá það. Hann lýsti því að miðað við samningsdrögin misstu sumir bændur um 30% af þeim stuðningi sem þeir hefðu haft og þær tekjur væru færðar til þeirra sem minna hefðu. Svo virtist sem bændur á jaðarsvæðum yrðu skornir við trog. Hann óskaði eftir að stjórnin gerði grein fyrir starfi sínu í tengslum við undirbúning búvörusamningsins.

Erlendur Ingvarsson tók undir orð Jóhanns og velti fyrir sér hvernig samningsgerð færi fram. Í vetur hefðu verið samþykkt samningsmarkmið fyrir samtökin en þeim hefði ekki verið farið eftir. Aðalágreiningsmálið væri eitt, beingreiðslurnar. Þær væru stuðningur við greinina, en hann byggi ekki á jaðarsvæði og hefði því ekki séð ástæðu til þess að kaupa greiðslumark til viðbótar. Hann sagði megintilganginn að styðja við þá bændur sem ekki gætu sótt sér vinnu annað. Ef lánakjör og vextir væru í lagi í landinu, þá væri ekki verið að ræða um þetta hér. Fullt væri af spurningarmerkjum á leiðinni til þeirrar sýnar sem Svavar hefði dregið upp. Erlendur taldi dýrt að koma á vöktun á landi, hann treysti ekki þeim stofnunum sem líta ættu eftir nýtingu landsins. Ef þær stofnanir hentu bændum út úr gæðastýringunni, þá væri rekstrargrundvöllur búanna horfinn. Hann lýsti því að varhugavert væri að fella beingreiðslurnar út.

Sigurður Þór Guðmundsson spurði á hvaða vegferð samtökin væru og sagði það fyrsta sem í hug sinn hefði komið hefði verið að láta framleiðsluhömlur aldrei koma yfir sauðfjárbændur aftur. Spurði hvernig væri komið fyrir sauðfjárræktinni ef aldrei hefði verið tekin upp framleiðslustýring. Vildi aldrei aftur fá höft og hömlur í greininni. Lýsti því að hann hefði tæmt alla veðhæfni jarðarinnar sinnar við að kaupa greiðslumark. Sagði fortíðina ekki skipta máli. Hugmyndir um nýjan samning væru komnar fram. Framleiðsluhvati leiddi gjarna til verðlækkunar en sagðist hugsi yfir því hverjir myndu ætla að auka framleiðsluna. Flestir væru að framleiða það sem þeir treystu sér til. Sagðist vita af mörgum sem væru að fara að hætta. Grundvallaratriði væri ef breytt væri í gripagreiðslur og framleiðslutengdar greiðslur, þá ætti að miða við 3-5 ára meðalframleiðslu, það hægði á framleiðsluhvatanum og drægi úr sveiflum.

Jóhann Ragnarsson lýsti því að þegar hann hefði séð samningsdrögin hefði sig rekið í rogastans. Samninganefnd í umboði stjórnar LS hefði lagt til að bæta kjör þeirra lakar settu með því að rýra kjör þeirra betur settu. Samtökin væru fyrir alla, líka þá betur settu. Lýsti því að miklar áhyggjur væru meðal bænda í Strandasýslu af hugsanlegri kerfisbreytingu og gæti áfallið orðið talsvert fyrir bændur í sýslunni. Velta bænda með 20 millj. kr. gæti lækkað um 3,4 millj. ef ekki næðist fram sú hækkun á kjötverði sem nefnd væri í drögunum. Óskaði Svavari velfarnaðar í starfi og þakkaði honum erindið. Sagðist hafa heyrt mörg fleiri svona erindi þar sem talað hefði verið af eldmóði um möguleika til markaðssóknar. Hann taldi framtakið Sauðburð í beinni hafa verið frábært framtak stjórnar LS, vildi að það kæmist til skila. Sagði stuðninginn í garðyrkjunni eignfærast, því stuðningurinn væri hluti af veltu garðyrkjustöðva og hækkaði verð á stöðvunum. Sagði of bratt farið í samningsdrögunum og gripagreiðslur væru letjandi fyrir góða búskaparhætti, hefði alltaf verið á móti þeim. Ef til vill ætti frekar að greiða hluta gripagreiðslnanna út á sláturlömb, t.d.1/3 út á vetrarfóðraðar ær og 2/3 út á sláturlömb. Sagði fullorðin hjón í nágrenni sínu vera að selja jörðina sína. RML, sem væri í eigu Bændasamtakanna, hefði verið fengin til að gera rekstraráætlun fyrir aðilann sem ætlaði að kaupa. Örfáum dögum eftir að áætlunin hefði verið gerð, kæmu tillögur sem kipptu grundvellinum undan mögulegum búrekstri kaupandans. Bændur hefðu haft val um kaup eða sölu greiðslumarks, en það að ætla sér að draga taum hluta bænda en bera hagsmuni hins hópsins fyrir borð væri ólíðandi.

Böðvar Sigvaldi Böðvarsson sagðist hafa setið í hópnum sem bjó til samningsmarkmið LS en ekki hefði liðið langur tími þar til stjórn LS samþykkti nýtt plagg sem tengdist samningaviðræðunum og það hefði ekki enn verið sýnt. Stjórnin hefði ekki haft neitt umboð til þess. Viðræðurnar um samninginn væru komnar of langt án umboðs. Boða hefði átt til fundar áður og sækja nýtt umboð til samningsviðræðna ef breyta ætti um stefnu. Hann taldi skuldsetta bændur, sem töpuðu 17% af heildartekjum skv. fyrirliggjandi gögnum, fara fljótt á hausinn ef samningsdrögin sem nú lægju fyrir, yrðu samþykkt. Hann lýsti því að enginn sem hann hefði spurt í hópnum sem bjó til samningsmarkmiðin, hefði viljað taka upp gripagreiðslur en nú væri búið að samþykkja að færa yfir 30% af stuðningi við greinina yfir í gripagreiðslur. Sagðist koma fram með eftirfarandi tillögu og fór fram á nafnakall við atkvæðagreiðslu um hana:

Aukafundur LS haldinn á Hótel Sögu föstudaginn 27. nóvember 2015 leggur til að útdeiling fjármuna verði með svipuðu sniði og verið hefur í núverandi samningi en í samningslok verði greiðslumark lagt niður. Til þess að svo megi verða þarf aukið fjármagn inn í samninginn og skal þeim fjármunum ásamt þeim sem til falla vegna ónýttra beingreiðslna verða útdeilt til þeirra aðila sem minnstan ríkisstuðning hafa miðað við gæðastýrða framleiðslu.

Böðvar Sigvaldi Böðvarsson

Böðvar sagðist leggja til að engu yrði kollvarpað næstu 10 ár en að samningstímanum liðnum yrði greiðslumarkið lagt niður. Sagði að ríkið þyrfti að borga fyrir það ef það vildi leggja greiðslumarkskerfið niður. Vildi að lokað yrði á framsal með greiðslumark eftir um það bil 3 ár. Ekki ætti að koma aftan að mönnum með svona skömmum fyrirvara, lyfta þyrfti upp þeim sem lakast hefðu það en ekki taka það af öðrum.

Gunnar Þórarinsson þakkaði fyrir erindi þau sem fram hefðu komið fyrr um daginn, allir yrðu að leggjast á árarnar með Svavari í framtíðinni. Spurði varðandi rétthafa stuðningsgreiðslna, hvernig væri með þá sem byggju á 2-3 jörðum. Fengju þeir eingöngu stuðning út á jörðina sem þeir byggju á. Spurði einnig hvað það þýddi að endurskoða gæðastýringuna. Enn fremur spurði hann um gripagreiðslurnar, hvort þær ættu að vera 30 eða 32 %. Sagði gripagreiðslur kolranga aðferð til að dreifa fjármunum. Spurði hvernig ætti að líta eftir þessu, auðvelt væri að svindla á svona kerfi, eftirlitið yrði afskaplega dýrt. Sagðist ekki hafa breytt um skoðun á þessu, greiða ætti út á framleiðsluna því hægt væri að vera með fjölda fjár en framleiða lítið. Taldi að gripagreiðslurnar drægju úr hvatanum sem þyrfti að vera til að framleiða á hagkvæman hátt. Tók undir með Sigurði Þór, nota ætti sveiflujöfnun við að reikna út framleiðsluna sem greiða ætti út á hjá hverjum og einum. Sagðist vilja setja þak á hversu miklar greiðslur hver framleiðandi fengi. Dreifa ætti framleiðslunni sem víðast um landið.

Oddný Steina Valsdóttir þakkaði fram komin erindi. Sagðist skilja að spurningarmerki væri sett við það sem fram hefði komið í fundargerð stjórnar LS en það væri ef til vill byggt á misskilningi. Taldi eðlilegt að bera það undir stjórn ef hugmyndir væru komnar fram um að breyta einhverjum áherslum í samningaviðræðunum. Á þeim tíma hefði verið talað um býlisstuðning, hún væri hrifnari af þeirri leið en hreinum gripagreiðslum. Ekki hefði verið um nýtt samningsplagg frá hendi stjórnar að ræða, heldur nýjar áherslulínur sem lagðar hefðu verið til í ljósi stöðunnar. Sagðist hafa talið þessa áherslubreytingu þó vera möguleika til þess að komast nær samningsmarkmiðum samtakanna en hugmynd ríkisfulltrúanna um greiðslur út á land gerði. Varðandi tímasetninguna á fundinum sagði hún rétt að formannafundi hefði verið frestað enda hefði ekki legið neitt fyrir um það hvort fulltrúar ríkisins myndu fallast á það sem samninganefndin hefði lagt fram. Nauðsynlegt hefði þó þótt að halda formannafund til að meta viðbrögð við mögulegri niðurstöðu samninga, sú staða hefði einfaldlega ekki verið uppi í byrjun nóvember. Ræddi um þróun greinarinnar. Neyslan hefði dregist saman um 1/3 á 20 árum og skoða þyrfti stöðuna í því ljósi. Greinin velti 11 milljörðum og hækka þyrfti afurðaverð þannig að meira væri til skiptanna. Taldi skynsamlegt að nýta tækifærið þegar ríkið vildi styðja við markaðssókn. Sagði þurfa að verja dreifbýlið en enn fækkaði fólki þar. Ekki væri langt síðan undirboð hefði þekkst á erlendum mörkuðum. Sagði endurskoðunarákvæðin í samningsdrögunum nauðsynleg. Skildi ótta við framleiðsluaukningu. Taldi stuðla í gæðastýringu eftir sláturtíma og stuðla á gripagreiðslur eftir fjölda, koma til greina til að stemma stigu við offramleiðslu.

Aðalsteinn Jónsson sagði fulltrúa af Norður- og Norðausturlandi hafa séð samningsdrögin fyrir 1-2 dögum og á því svæði væri staðan sú að bændur hefðu vart enn haft tíma til að átta sig á þeim. Taldi hins vegar nauðsynlegt að ræða kosti þeirra og galla. Þakkaði Svavari fyrir framlag hans til fundarins. Aðalmálið væri hvernig tækist að markaðssetja afurðir þær sem af sauðfénu yrðu til. Bændur yrðu að vera ákveðnir í markaðssetningu, afurðastöðvar bænda væru í erfiðri stöðu. Einingarnar væru of margar og afurðastöðvarnar berðust um sama hilluplássið og stæðu í undirboðum hver fyrir annarri. Kalla mætti stuðninginn við sauðfjárræktina útflutningsbætur ef greitt væri á framleitt magn. Íslendingar væru alltaf að keppa við niðurgreiddar vörur frá öðrum löndum. Ræddi um þak og gólf á stuðningsgreiðslur og sagði að hvort tveggja þyrfti að vera. Taldi að í gæðastýringunni hefði verið gerð krafa um að farið yrði að græða upp ákveðin svæði á gosbeltinu, sem erfitt væri eða ómögulegti að græða upp. Samskiptin við Landgræðsluna hefðu verið í ýmsum tilfellum erfið enda væri sú stofnun að berjast fyrir sínum hlut eins og fleiri. Sagðist vera umboðslaus til að samþykkja eða hafna samningsdrögunum vegna of skamms tíma til undirbúnings.

Sigvaldi Ragnarsson lýsti því að bændur um norðaustanvert landið hefðu séð samningsdrögin fyrst daginn áður og sterkara hefði verið að ná að ræða við bændur heima fyrir áður en til þessa fundar hefði komið. Sagðist vera umboðslaus til að samþykkja eða hafna samningsdrögunum í ljósi þess. Sagði erfitt að segja hvaða bú væru rekstrarhæf og hver ekki, aðstæður væru svo misjafnar, skuldsetning hefði þar mest áhrif. Taldi bændur eystra ekki almennt hafa verið neikvæða í garð samningsdraganna við allra fyrstu sýn. Sagðist hafa samþykkt samningsmarkmiðin sem borin hefðu verið undir aðalfundinn í vor. Sagði það ef til vill hefði verið styrk fyrir stjórn LS að halda formannafund, þó fátt hefði verið tilbúið til skoðunar þá. Sagði stöðu sveitanna víða slæma, byggð léti enn undan síga á mörgum svæðum, víða væru brothættar byggðir eystra. Fjársterkir aðilar hefðu keypt upp jarðir og væru jafnvel til í að leyfa fólki að búa á þeim en þrátt fyrir þann möguleika væri erfitt fyrir margan að fjármagna kaup á ríkisstuðningi og öðru því sem til þyrfti við að hefja búskap. Velti fyrir sér hvort framleiðsluaukning yrði í kjölfar nýs samnings, taldi það ekki einhlítt. Sagði marga bændur slátra beint af fjalli og taldi ekki eiga að greiða jafnmiklar gæðastýringargreiðslur á alla flokka, greiða ætti hærra álag á betri flokkana og beita þeim þannig til ákveðinnar gæðastýringar.

Birgir Arason þakkaði framsöguerindin og þakkaði þeim sem í samningaviðræðunum stæðu að vera þó komnir þetta á leið sem raunin væri. Sagði núverandi ráðherra landbúnaðarmála alltaf hafa talað fyrir breytingum á stuðningskerfi landbúnaðarins og því kæmi sú krafa ríkisins um breytingar sem fram væri komin, sér ekki á óvart. Taldi sauðfjárbændur þurfa að horfa fram á veginn. Nú virkaði kerfið einmitt þannig að í sumum tilfellum væri greitt fyrir að framleiða ekki, sumir keyptu ær af nágrönnum sínum til að eiga nógu margar ær til að fá greiðslurnar. Sagði ljóst að einhverjir töpuðu á kerfisbreytingu á borð við þá sem tillögurnar gerðu ráð fyrir og einhverjir græddu. Ef ekki mætti breyta neinu, þá yrði ef til vill bókstaflega að segja sumum bændum að þeir væru ekki velkomnir í stéttina. Sagðist hrifinn af markaðsátakinu sem Svavar hefði kynnt og einnig sæmilega sáttur við fram komna tillögu og spurði hver samningsstaða sauðfjárbænda væri yfirleitt, gagnvart ríkinu.

Smári Borgarsson þakkaði fram komin erindi og sérstaklega erindi Svavars. Sagði ýmislegt gott í samningsdrögunum og annað ekki eins gott. Sagði menn tala stundum eins og bændur væru að semja við sjálfa sig og láta eins og þeir gætu einir ráðið því hvernig fjármununum til þessara mála væri skipt. Spurði hver samningsstaða sauðfjárbænda gagnvart ríkinu væri. Ræddi um dreifðar byggðir og velti fyrir sér hvort aðallega væri hér verið að tala um byggðavanda en ekki sauðfjárrækt. Spurði hvort sauðfjárbændur ættu að bera uppi byggð í landinu. Sagðist ekki hafa séð samningsdrögin fyrr en í dag og benti á það að núverandi landbúnaðarráðherra hefði alltaf talað fyrir breytingum á stuðningi ríkisins við sauðfjárræktina. Ræddi um landbótaáætlanir, sagðist hafa staðið í landbótum síðan árið 2000 og að landgræðslufulltrúinn sem hann hefði verið í samskiptum við, hefði líklega aldrei farið um grónu svæðin á jörð sinni en oft um hin. Taldi þurfa að standa í ístaðinu gagnvart Landgræðslunni en ekki mætti heldur slaka á í því að ástunda sjálfbæra sauðfjárrækt.

Fundurinn fluttur úr fundarsalnum Heklu í Sunnusal á 1. hæð Hótels Sögu kl. 17:00.

Fundarstjóri bar undir fundinn hvort taka ætti tillögu Böðvars Sigvalda til afgreiðslu og var það samþykkt.

Jón Kristófer Sigmarsson taldi afkomu sláturleyfishafanna ekki allt of góða, afurðastöðvarnar þyrftu að hugsa um sig. Taldi bratt farið í breytingar í nýju samningsdrögunum. Sagði enga framleiðslustýringu fólgna í nýja kerfinu sem lagt væri til en hún hefði verið í því eldra. Markaðurinn yrði látinn ráða ef samningsdrögin fengju að ráða. Sagði þau fela í sér draumsýn hagfræðinga þeirra sem ynnu fyrir landbúnaðarráðuneytið en þeir hugsuðu eingöngu um hag neytenda. Líkur væru á því að verð héldist lágt á innanlandsmarkaðnum. Vonaði að vel tækist til í markaðssókn erlendis, þar væri eini vaxtarsprotinn sem sauðfjárbændur gætu nýtt sér. Sagði tollasamningana sem ríkisstjórnin hefði nýlega gert hafa mikil áhrif á stöðu á kjötmarkaðnum, verð á lambakjöti væri nú ákveðið í verslunum og bændur fengju afganginn. Sagði fáa Íslendinga vilja greiða fyrir afurðir úr lífrænni ræktun. Taldi beitarskóga ekki álitlega leið til nýtingar lands.

Atli Már Traustason þakkaði fram komin erindi og ræddi um gagnrýni á störf stjórnarinnar. Sagði átakið í markaðsmálunum forsendu þess að tillögurnar í samningsdrögunum gengju upp. Skýra stefnu þyrfti að hafa um það hvernig menn vildu endurskoða samninginn árið 2019. Sagði eiga að nýta allan samningstímann til að lækka greiðslumarkið. Ræddi um landnýtingarmálin og taldi helst þurfa að taka út beitarþol allra jarða. Verið gæti að land sem allt væri gróið væri í afturför en verr gróið land hins vegar í framför.

Jóhann Ragnarsson tók undir með þeim sem vildu fá að sjá plaggið sem samþykkt hefði verið í stjórn LS fyrir skömmu, því ætti að dreifa á fundinum. Sagði ríkið hafa keypt útflutningsskylduna á 300 milljónir á sínum tíma. Vildi láta meta hvað kostaði að leggja niður greiðslumarkskerfið. Var ekki sammála því að bændur semdu við sjálfa sig, taldi samninganefndina um búvörusamninga hafa gefið of mikið eftir að af samningsmarkmiðum þeim sem hefðu verið samþykkt á síðasta aðalfundi LS. Spurði hvort stjórn samtakanna hefði lagt þau markmið til hliðar strax eftir fyrsta fund með samninganefnd ríkisins. Taldi skynsamlegt að gera samningana fyrir hverja búgrein fyrir sig. Fagnaði því að svæðisbundni stuðningurinn væri kominn inn í samningsdrögin og ef til vill væri það leið til að ná betri samningum við ríkisvaldið, að draga byggðasjónarmiðin inn í viðræðurnar af meiri þunga. Byggðunum hrakaði víða stöðugt, fólkinu hefði fækkað svo á ákveðnum svæðum að ekki væri lengur möguleiki að halda uppi þjónustu sem verið hefði þar fyrir 25 árum síðan. Sagði að flestir skuldsettustu sauðfjárbændurnir væru nýbyrjaðir að búa, þeir væru einnig viðkvæmastir fyrir breytingunum og þeim þyrfti að hlúa að.

Sigurður Þór Guðmundsson taldi Bændasamtökin nánast eina málsvara þeirra sem byggju í dreifbýli. Sagði bændur þurfa að þora að samþætta stuðning við landbúnaðinn, rekstur RML og rekstur þekkingarmiðstöðva í dreifbýlinu og nýta þau tækifæri sem þar fælust. Sagði ágætt fólk í samninganefndinni um búvörusamningana og það gerði sitt besta þar. Taldi tillögu Böðvars Sigvalda góðra gjalda verða. Sagðist ekki vilja láta skerða framlög til einstakra bænda.

 Lagði fram eftirfarandi tillögu:

Aukaaðalfundur Landssamtaka Sauðfjárbænda í nóvember 2015 telur brýnt að til að sátt náist um þá kerfisbreytingu, sem Ríkið hefur krafist á nýjum sauðfjársamningi að þeirri tekjuskerðingu sem mörgum er gert að sæta verði skipt á milli ríkis og bænda. Því verður að setja fram kröfu um 1000 milljóna viðbót í samninginn, sem í upphafi samningsins renni til þeirra sem njóti minnsts stuðnings en verði síðan deilt sem mótvægi við þá tekjuskerðingu sem verður vegna aflagningar greiðslumarks.

Sigurður Þór Guðmundsson

Fundarstjóri bar undir fundinn hvort taka ætti tillögu Sigurðar Þórs til afgreiðslu og var það samþykkt.

Einar Ófeigur Björnsson sagði jaðar byggðar hafa færst til frá því sem verið hefði fyrir nokkrum árum. Ef sókn næðist í sauðfjárræktinni gæti svo farið að hinar dreifðustu byggðir efldust. Tók undir að vafasamt gæti verið að koma fram með markmið um verðhækkanir. Ætlunin hefði verið að sýna fram á hvað verð til bænda þyrfti að hækka til þess að bændur héldu sínum hlut eftir sem áður ef tillögurnar yrðu að veruleika. Fulltrúar ríkisins myndu ekki semja um að halda áfram með óbreytt kerfi. Lagði til að tillaga Sigurðar Þórs um að leita eftir meira fjármagni í samninginn yrði samþykkt en tillaga Böðvars felld.

Þórhildur Þorsteinsdóttir tók undir orð Oddnýjar Steinu og Atla Más um störf stjórnar samtakanna. Lýsti því að plaggið sem lagt hefði verið fram á fundi stjórnar LS hefði verið vinnuplagg en ekki formleg samningsmarkmið. Tók undir áhyggjur af landnýtingarþætti gæðastýringarinnar, hún yrði að virka. Bratt væri farið í breytingu kerfisins, byggðina þyrfti að verja, ríkið og sveitarfélögin ættu jafnvel að koma enn meira að þeim þætti. Spurði um afstöðu ungra bænda í salnum. Taldi mikilvægt að leggja áherslu á að efla markaðsstarf.

Ólafur Benediktsson vildi semja fyrir hverja búgrein fyrir sig. Sagðist ekki hafa séð tillögurnar fyrr en daginn áður og sagðist ekki geta greitt atkvæði á eftir vegna þess að hann hefði ekki getað rætt við félagsmenn sína um tillögurnar. Vildi frekar býlisgreiðslur en gripagreiðslur. Sagði landnýtingaráætlanir og gæðastýringarmál þurfa að vera í lagi ímyndar greinarinnar vegna og gott væri einnig í því samhengi að geta girt af vegina. Spurði hvort reiknað hefði verið út hvernig drögin hefðu áhrif á mismunandi svæði. Velti fyrir sér hvers vegna sláturfé væri ekið landið þvert og endilangt, framhjá sláturhúsum, verðmunur afurða væri hverfandi og því væri slíkt óþarft. Ræddi um jaðarsvæði og tók dæmi um bónda sem væri nýbyrjaður að búa, hann hefði ákveðið að hætta vegna þess að sá sem leigði honum jörð, hann tæki allar beingreiðslurnar og rekstrargrundvöllur búsins væri enginn.

Sigvaldi Ragnarsson sagði landnýtingarmálin hafa verið rædd ítarlega en algert skilyrði væri að skrifa ekki undir samning nema reglur um landnýtingarþátt gæðastýringarinnar væru alveg á hreinu og að þar væru hagsmunir sauðfjárbænda ekki fyrir borð bornir. Taldi nauðsynlegt að fleiri aðilar en t.d. Landgræðslan kæmi þar að málum, einhver þyrfti að tala máli bænda í þessu samhengi. Sagði byggðamálin sér hugleikin, fleira væri byggðastuðningur en þetta sem hér væri um fjallað. Það að standa vel að skólamálum og mokstri og viðhaldi á vegum væru stór atriði í viðhaldi byggðar. Spurði hvort ekki ætti að sækja eftir auknu fjármagni í samninginn vegna byggðastuðnings. Ræddi um fjárfestingarstuðning og beitarskóga og sagði að bestu sauðburðarhús og skýli Fljótsdælinga væru 20-25 ára gamlir lerkiskógar, annað hentaði að styrkja á öðrum svæðum. Í þessa hluti þyrfti að fá meira fjármagn.

Sigríður Jónsdóttir undraðist þá framsetningu hins opinbera að framleiðslustýringarkerfi sauðfjárræktarinnar væri ómögulegt, því sem þar væri að, mætti breyta. Taldi að það sem núverandi landbúnaðarráðherra ætti við þegar hann ræddi um að fella niður greiðslumarkskerfið, tengdist mjólkurframleiðslunni en ekki sauðfjárbændum. Kerfi framleiðslustýringar í mjólk og kindakjöti væri ekki sambærilegt því mjólkurframleiðendur hefðu getað samið um afurðaverð en sauðfjárbændur hefðu hins vegar verið á frjálsum markaði. Eina stýringin í samningsdrögunum, fyrir utan lágt verð, væri ofbeit. Spurði hvort búa ætti til ofbeit í landinu til þess að hrekja fólk úr greininni. Taldi óboðlegt að gæðastýring yrði enn stærri hluti af stuðningskerfinu meðan Landgræðslan stæði ekki í stykkinu varðandi gæðastýringuna. Taldi að Matvælastofnun (MAST) myndi verða látin sjá um eftirlitið með gripafjölda í tengslum við gripagreiðslur og þeirri stofnun treysti hún ekki og hún gæti ekki samþykkt samningsdrögin meðan gæðastýringarmálin væru í þeirri stöðu sem þau væru. Sagði að stuðningur við sauðfjárbúskap væri stuðningur við dreifða byggð, sauðfjárrækt væri hryggjarstykkið í dreifbýlinu. Sauðfjárbændur yrðu að geta gert kröfur ef þeir vildu halda áfram að vera til.

Oddný Steina Valsdóttir ræddi landnýtingarmálin og lagði til að sauðfjárbændur hefðu aðkomu að því hvernig sjálfbærni landsins yrði metin í tengslum við gæðastýringuna. Ekki væri hægt að verja gagnvart neytendum að slaka á kröfunum um sjálfbærni. Eftirlitið með þeim hlutum mætti ekki verða að ógurlegu bákni, erfitt væri að meta allar jarðir nema á löngum tíma. Sauðfjárræktin ætti ekki ein að bera ábyrgð á landgræðslu og landbótum. Ræddi einnig um byggðamálin, þau yrði að setja á oddinn og ef til vill mætti einmitt sækja þar meira fé inn í samninginn. Ræddi einnig um markaðsmálin.

Davíð Sigurðsson þakkaði stjórn störf hennar og taldi nú vera möguleika á því að auðvelda nýliðun í greininni. Sagðist ekki sjá að beingreiðslukerfið sem nú gilti væri hvati til að standa vel að rekstri sauðfjárbúa.

Guðmundur Steinar Björgmundsson þakkaði hreinskiptnar umræður á fundinum. Sagði þær nauðsynlegar. Sagðist fyrst hafa séð hugmyndirnar að samningnum fyrir 2 dögum, en taldi fullbratt farið í breytingarnar. Vildi að endurskoðunin eftir 4 ár yrði notuð til þess að endurmeta stöðuna virkilega, farið yrði yfir stöðu markaðsmála þá og gera þyrfti ráð fyrir því að á þeim tímapunkti þyrfti að breyta samningnum verulega. Þakkaði þann skilning sem fólk sýndi þeim sem byggju á jaðarsvæðum. Skilningur væri nú á því að verja þyrfti byggðir og knýja þyrfti á að fá sem allra mest fé til þeirra hluta. Þegar heilsársbúseta legðist af, þá hyrfi þekking á aðstæðum og landinu. Berjast þyrfti fyrir þessi svæði, enginn vissi hver yrði að jaðarbónda næst.

Guðrún Ragna Einarsdóttir sagðist hafa verið í starfshóp þeim sem búið hefði til samningsmarkmið þau sem samþykkt hefðu verið á síðasta aðalfundi LS. Fulltrúarnir í hópnum hefðu rætt um býlisstuðning en nú væri lítið sem ekkert um hann rætt. Ræddi um beingreiðslurnar og gat þess að bændur eystra hefðu lítinn tíma haft til að skoða samningsdrögin. Sagði fyrrnefndan starfshóp hafa reynt að sníða annmarkana af greiðslumarkskerfinu. Spurði hvort velt hefði verið upp hvort vilji væri til þess að kaupa þá aðila út úr greininni sem vildu fara út úr henni. Taldi ólíklegt að sjávarútvegurinn tæki því þegjandi að láta taka af sér kvótann, án bóta.

Sindri Sigurgeirsson þakkaði umræðurnar og sagðist skilja að tillögurnar kæmu misjafnlega niður á bændum. Þakkaði jafnframt hreinskilnina í umræðunni. Sagði þurfa að hugsa til framtíðar þegar verið væri að fjalla um rekstrarumhverfi greinarinnar til lengri tíma. Mikið af tímanum hefði farið í að fjalla um niðurfellingu beingreiðslnanna. Sláturleyfishafar þyrftu að geta unnið saman að markaðssetningu erlendis og það að markaðssetja undir einu vörumerki væri nýtt í markaðssetningu á lambakjöti. Sagði ekki hafa verið látin af hendi nein vinnugögn úr samningsferlinu nema skjalið sem hér lægi fyrir og skjal sem lagt hefði verið fyrir fund hjá LK. Benti á að plaggið sem beðið hefði verið um að yrði birt núna, væri einfaldlega skjalið sem birt hefði verið fyrr í dag, það hefði reyndar tekið einhverjum breytingum í vinnuferlinu. Taldi eðlilegt að kallað hefði verið eftir fundi með stjórn LS nýlega. Býlisstuðningurinn sem hefði verið í samningsmarkmiðum LS hefði í raun falið í sér þrepaskiptar gripagreiðslur. Sú hugmynd hefði þróast með þeim hætti sem raun bæri vitni því erfitt hefði reynst að útfæra hina upphaflegu tillögu. Taldi það sem hér væri til umræðu væri stuðningur sem nýttist hinum dreifðu byggðum í landinu. Sagði ákveðinn skort á byggðastefnu í landinu en Bændasamtökin væru stöðugt að vinna að margs konar byggðatengdum málum. Sagðist hafa verið hissa á því að svæðisbundinn stuðningur hefði ekki verið með í samningsmarkmiðum LS en taldi sig finna að á fundinum væri stuðningur við að halda honum inni í samningnum. Sagði að framsal greiðslumarks yrði frjálst fyrstu árin en þegar tekið yrði fyrir það, þá félli ásetningsskyldan niður. Sagði samið um réttindi til ríkisstuðnings í samningi ríkisins og sauðfjárbænda.

Báðar tillögurnar sem lágu fyrir fundinum, tillaga Böðvars Sigvalda og tillaga Sigurðar Þórs voru teknar til afgreiðslu. Tillögurnar eru birtar í sinni upphaflegu mynd í fundargerðinni á þeim tíma sem þær komu fram.

Böðvar Sigvaldi Böðvarsson kvaddi sér hljóðs og dró tillögu sína til baka og lagði til að tillaga Sigurðar yrði samþykkt en bað um nafnakall um þá tillögu.

Einar Ófeigur Björnsson taldi eðlilegt að fjallað yrði um báðar tillögurnar. Sagði að ef fyrri tillagan yrði samþykkt þyrfti vart að mæta á samningafundi. Á tillögunum væri talsverður munur. Lýsti því yfir að hann væri tilbúinn að fara sem samninganefndarfulltrúi með tillögu Sigurðar á fundi með fulltrúum ríkisins. Hvatti fulltrúa til að samþykkja þá tillögu.

Sigurður Þór Guðmundsson sagði það ekki rétt sem hefði verið kallað frammí, að Einar Ófeigur hefði samið tillöguna sína.

Jóhann Ragnarsson fagnaði tillögu Sigurðar Þórs og studdi hana. Var ánægður með að nafnakall yrði viðhaft við afgreiðslu hennar, þá gætu bændur áttað sig á því hvernig fulltrúarnir á fundinum hefðu greitt atkvæði. Sagði fundinn leggja mikla áherslu á að styrkja stöðu þeirra sem verst stæðu í greininni með því að samþykkja tillöguna.

Gunnar Þórarinsson taldi ekki rétt að halda því fram fyrri tillagan væri dregin til baka á þeirri forsendu að tillögurnar fjölluðu báðar um það sama. Á tillögunum væri talsverður munur. Í tillögu Sigurðar Þórs fælist ekki að halda greiðslumarkskerfinu við, hún fjallaði um að leita eftir meira fjármagni til þess að draga úr áhrifum væntanlegrar kerfisbreytingar. Með fyrri tillögunni væri lagt til að viðhalda núverandi kerfi en hann sæi ekki að það fælist í síðari tillögunni.

Sigvaldi Ragnarsson taldi sig ekki hafa haft umboð frá bændum eystra til að samþykkja tillögu sem byndi hendur samninganefndarinnar en sagði tillögu Sigurðar Þórs ekki binda hendur þeirra sem þar sætu. Eitt stingi þó í augu, í tillögunni rætt um fasta fjárhæð og stakk upp á því að inn í tillöguna væri bætt „að minnsta kosti“ og væri tillagan því þannig:

Aukaaðalfundur Landssamtaka Sauðfjárbænda í nóvember 2015 telur brýnt að til að sátt náist um þá kerfisbreytingu, sem Ríkið hefur krafist á nýjum sauðfjársamningi að þeirri tekjuskerðingu sem mörgum er gert að sæta verði skipt á milli ríkis og bænda. Því verður að setja fram kröfu um að minnsta kosti 1000 milljóna viðbót í samninginn, sem í upphafi samningsins renni til þeirra sem njóti minnst stuðnings en verði síðan deilt sem mótvægi við þá tekjuskerðingu sem verður vegna aflagningar greiðslumarks.

Sigurður Þór Guðmundsson

Fundarstjóri lagði fyrir fundinn að breyta tillögu Sigurðar Þórs til samræmis við það sem Sigvaldi Ragnarsson hefði lagt til.

Samþykkt samhljóða að leggja tillöguna fram með áorðinni breytingu.

Síðan var gengið til nafnakalls.

Atkvæði féllu þannig:

Albert Guðmundsson                                    já

Eyjólfur Ingvi Bjarnason                               já

Hermann Karlsson                                         já

Kjartan Jónsson                                             já

Jóhann Pétur Ágústsson                                já

Guðmundur Steinar Björgmundsson                        já

Jóhann Ragnarsson                                        já

Guðbrandur Björnsson                                  já

Sigurður Jónsson                                            já

Ólafur Benediktsson                                     sat hjá

Böðvar Sigvaldi Böðvarsson                         já

Gunnar Þórarinsson                                       já

Birgir Ingþórsson                                           farinn

Gísli Geirsson                                                 farinn

Jón Sigmarsson                                              farinn

Guttormur Stefánsson                                    já

Smári Borgarsson                                           já

Stefán Magnússon                                         já

Birgir Arason                                                 já

Hákon B. Harðarson                                      já

Sæþór Gunnsteinsson                                    já

Árni Þorbergsson                                           já

Halldór Árnason                                            já                                           

Einar Ófeigur Björnsson                                já

Sigurður Þór Guðmundsson                          já

Sigvaldi Ragnarsson                                      já

Aðalsteinn Jónsson                                        já

Guðrún Ragna Einarsdóttir                           já

Guðrún Agnarsdóttir                                     já

Guðmundur Valur Gunnarsson                     farinn

Gunnar Sigurjónsson                                     já                                

Ármann Guðmundsson gerði grein fyrir atkvæði sínu. Hann sagðist ekki hafa getað haldið fund með baklandi sínu vegna þess hversu seint hann hefði fengið fundargögnin og því hefði hann ekki umboð til að taka afstöðu og sæti því hjá.

Fanney Ólöf Lárusdóttir                               já

Ólafur Þorsteinn Gunnarsson                        sat hjá

Erlendur Ingvarsson                                      já

Ragnar M. Lárusson                                      já

Baldur Björnsson                                           já

Ágúst Ingi Ketilsson                                     já

Sigríður Jónsdóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu. Sagði dónaskap og yfirgang að bjóða upp á það við núverandi stöðu að auka vægi gæðastýringarinnar og gæti hún því ekki samþykkt neitt sem gæti verið skilið sem stuðningur hennar við þann gerning og því sæti hún hjá.

Geir Gíslason                                                 já

María Dóra Þórarinsdóttir                              já

Davíð Sigurðsson                                          já

Jón Eyjólfsson                                               sat hjá

Íris Þórlaug Ármannsdóttir                            já

Þóra Sif Kópsdóttir                                        já

Niðurstaðan varð sú að 36 samþykktu og 5 sátu hjá, 4 voru farnir til að ná áður bókaðri heimferð, því fundinum hafði seinkað og náðu þeir því ekki að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

Tillagan því samþykkt.

Fundarstjóri flutti fulltrúum boð frá formanni samtakanna um að þeir færu yfir greinargerð um fjármögnun samtakanna.

Þórarinn Ingi Pétursson þakkaði hreinskiptnar umræður og gagnlegan fund. Hann svaraði gagnrýni á seina fundarboðun með því að þrátt fyrir takmarkaðan tíma hafi verið valið að boða til þessa fundar frekar en halda engan fund um málið á þessu stigi. Sagði sitt sýnast hverjum en greinin stæði á tímamótum. Erfitt væri fyrir bændur nútímans að taka ákvarðanir um umhverfi sauðfjárbænda framtíðarinnar. Sagði ekki tíma til þess að svara öllum ábendingum sem fram hefðu komið á fundinum en sagði stjórnina taka fram komnar ábendingar með sér inn í áframhaldandi viðræður. Hrósaði Svavari fyrir eldmóðinn í pistli hans fyrr um daginn. Sagði að ef bændur tryðu ekki sjálfir á verkefnin, þá gætu þeir ekki farið fram á að aðrir tryðu á þau heldur. Sagðist sannfærður um að það sem Svavar hefði sagt, væri framkvæmanlegt ef því væri fylgt eftir af sannfæringu. Sannarlega hefði eitthvað áunnist í markaðssetningu íslenskra búvara, t.d. í Bandaríkjunum. Endurskoðun samningsins árið 2019 væri gríðarlega mikilvæg og þá þyrftu bændur að gæta hagsmuna sinna. Þakkaði fundarstjórum og starfsmönnum fundarins störf þeirra og sleit síðan fundi.

Fundi slitið kl. 18:37.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar