Print

Fagráðsfundur 26. janúar 2011

Fundur í fagráði í sauðfjárrækt, haldinn 26. janúar 2011, í Norðursal BÍ
Fagráðið kom saman til símafundar sem hófst um kl. 10 miðvikudaginn 26. janúar. Í fundarsal BÍ voru mætt Emma Eyþórsdóttir, Jón Viðar Jónmundsson og Sigurður Eyþórsson. Á heimaslóð voru hins vegar Jóhannes Sigfússon, Oddný Steina Valsdóttir, Sigurður Þór Guðmundsson og Þórarinn Pétursson.

Vegna veikinda Fanneyjar Ólafar Lárusdóttur hefur LS tilnefnt Oddný Steinu til setu í fagráðinu fram til aðalfundar LS.  Fyrsta mál fundarins var því að velja nýjan formann fagráðsins í stað Fanneyjar og var Þórarinn Pétursson valinn í það hlutverk..

Byrjað var á að yfirfara stöðu vegna styrkveitinga síðustu tveggja ára. Nýjar verklagsreglur fagráðsins hafa verið staðfestar þannig að nú verður auglýst eftir umsóknum með umsóknarfresti til 1.apríl og síðan gert ráð fyrir annarri auglýsingu umsókna með umsóknarfresti 1. nóvember. Ljóst er að talsvert af þróunarfé er orðið bundið „föstum verkefnum“ og fékk fagráðið nú til kynningar samkomulag LS og Landgræðslu ríkisins sem undirritað var 3. nóvember 2010. Samkomulagið gerir ráð fyrir sameiginlegu átaki þessara aðila í landbótaverkefnum og skal samkvæmt því varið 5 milljónum króna af þróunarfé á ári til þessa verkefnis sem hlutur LS til þess.

1.        Lögð voru fram gögn um hugmyndir um stuðning við lífrænan landbúnað. Það er álit starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem skilað var 28. september sl. og einnig samningur ráðuneytisins og BÍ frá 29. desember, „Samningur um styrk til þróunar lífræns landbúnaðar á Íslandi“. Nokkrar umræður urðu um málið, en þrátt fyrir að sérstök ákvæði hafi verið um stuðning við þennan málaflokk af þróunarfé í núverandi sauðfjársamningi hefur aldrei komið nein umsókn til fagráðsins á þessu sviði. Einnig var bent á að meta verði hversu vel sundurgreining á hluta framleiðslu frá gæðastýrðri framleiðslu falli að þeirri framleiðsluímynd sem þar er verið að byggja upp. Fulltrúar LS töldu eðlilegt að þessu máli yrði vísað til umfjöllunar á aðalfundi LS áður en ákvörðun væri tekin um að fastbinda tilgreinda upphæð af þróunarfénu slíkum stuðningi.

2.        Teknar voru til umfjöllunar umsóknir um styrk sem borist hafa til fagráðsins frá því að fundur var haldinn í desember. Þar sem fundur er ráðgerður í apríl þegar auglýstum umsóknaferli lýkur var ákveðið að vísa sumum verkefnum  til afgreiðslu þar.

a.         Umsókn frá Landbúnaðarháskólanum undir heitinu „Grastegundir fyrir sauðfé“. Hér er um að ræða verkefni til fleiri ára og var afgreiðslu þess vísað til næsta fundar.

b.        Umsókn frá Landbúnaðarháskólanum undir heitinu „Afkvæmarannsóknir hrúta á Hesti“. Verkefnisstjórar Emma Eyþórsdóttir og Eyjólfur K. Örnólfsson. Formi búrekstrar á skólanum hefur verið breytt. Við það falla kröfur á greiðslur vegna alls kostnaðar, sem tengist ákveðnum verkefnum unnum við búið á þau. Því er sótt um styrk vegna framkvæmdar ræktunarstarfsins þar sem hefur verið um áratuga skeið viss grunnur í ræktunarstarfinu í landinu þar sem afkvæmarannsóknirnar eru miðpunkturinn. Fagráðið mælti með styrk upp á 1 milljón króna til þess verkefnis á árinu 2011 (S.Þ.G. greiddi atkvæði á móti með þeim rökstuðningi að þetta væri hluti af því að reka tilraunabú og ætti því að falla undir rekstur Landbúnaðarháskólans).

c.        Umsókn frá Landbúnaðarháskólanum til rannsóknarverkefnis undir heitinu „Fóðrun áa á meðgöngu“. Verkefnisstjóri er Jóhannes Sveinbjörnsson. Þetta verkefni er ákveðið framhald af verkefni undir sama verkheiti sem veittur var styrkur til fyrir nokkrum árum. Fyrir liggur mjög vel unnin tilraunaáætlun, en tilraun er ráðgert að framkvæma á Hesti nú síðla vetur. Fagráðið metur að hér sé um áhugavert verkefni að ræða. Sótt er um styrk að upphæð 2,5 milljónir króna. Þar sem lokaskýrslu vegna fyrsta hluta verkefnisins hefur ekki verið skilað leggur fagráðið til að endanlegri afgreiðslu verði frestað þar til henni hefur verið skilað.

d.        Umsókn frá landbúnaðarháskólanum vegna nemendaverkefnis undir heitinu „Nýting búfjáráburðar á sauðfjárbúum“. Verkefnisstjóri er Þóroddur Sveinsson. Hér er um að ræða nemendaverkefni við skólann þar sem aflað verður upplýsinga um umfang og nýtingu á búfjáráburði á fjárbúum. Með síhækkandi áburðarverði verður nýting búfjáráburðar aukið hagsmunamál bænda. Fagráðið leggur því áherslu á að verkefnið verði nýtt til hins ítrasta til að stuðla að betri nýtingu þessara verðmæta. Samþykkt var að mæla með að til þessa verkefnis væri veittur styrkur að upphæð 1,2 milljónir króna.

e.        Lagðar fram frekari upplýsingar vegna umsóknar frá BÍ vegna verkefnisins „Sauðfjárhagur“ sem fjallað var um síðasta fundi, en þar var bent á að beina verkefninu markvisst til aðila sem fá nýliðunarstyrk.  Fagráðið telur að markmið og framkvæmd séu enn mjög almenn. Margir fagráðsmenn betu á þann feikilega mun sem væri á veltu sauðfjár- og kúabúa og lýstu efasemdum vegna þess um yfirfærslu verklags á milli greinanna í slíkum verkefnum mundu skila væntum árangri. Líklegri til árangurs séu því verkefni með skýrar skilgreind markmið gagnvart afmörkuðum verkefnum. Fagráðið mælir því ekki með styrkveitingu til þessa verkefnis.

f.        Umsókn frá Búnaðarsambandi Austurlands um styrk vegna námskeiðahalds fyrir sauðfjárbændur. Umsjónamenn eru ráðunautar búnaðarsambandsins undir forystu Guðfinnu Hörpu Árnadóttur. Lögð er fram sundurliðuð nákvæm áætlun um þá þætti sem námskeiðahaldinu er ætlað að fjalla um. Þar er markvisst miðað að því að þátttakendur nýti gögn úr eigin búrekstri í vinnu á námskeiðinu. Fagráðið telur að hér sé um mjög áhugavert verkefni að ræða, sem líklegt sé að mæti þörfum hvers þátttakenda mjög vel. Frekari miðlun á verkefninu til annarra landssvæða er því mjög brýn og mikilvæg. Fagráðið mælir með að til verkefnisins verði veittur styrkur að upphæð 1 milljón krónur og því sem er umfram umsókn verði varið til miðlunar verkefnisins til annarra svæða.

g.        Tvær umsóknir frá Þórarni Lárussyni ásamt ýmsum fylgiskjölum voru lagðar fram. Báðum umsóknunum er það sameiginlegt að þeim er beint bæði til fagráðs í nautgriparækt og fagráðs í sauðfjárrækt. Annað verkefið er „Heimafóðurverkefnið – átak til athafna“, en hitt „Áburðaráætlunargerð, einkum fyrir P og K, út frá efnahlutföllum í heysýnum“. Báðum verkefnunum er það sammerkt að markmið þeirra virðast mjög víðfeðm og ekki nákvæmlega skilgreind. Bókun afgreiðslu er hér eins og gengið var frá henni eftir fund í fagráði í nautgriparækt með hliðsjón af umfjöllun þar.

Heykögglunarverkefnið er í eðli sínu mjög víðtækt þróunarverkefni verði því hleypt af stokkunum og þarfnast því áreiðanlega nákvæmari áætlunargerðar áður en til þess kæmi. Fagráðið mælir ekki með styrkveitingu að svo stöddu en bendir umsækjanda á að huga að umsókn fyrir einstaka verkþætti nákvæmar skilgreinda en í fyrirliggjandi umsókn.

Að mati fagráðsins virðast ýmsir þættir í áburðaráætlunarverkefninu aftur á móti vera verkefni sem virðast falla beint að starfsskyldum Landbúnaðarháskólans vegna úrvinnslu gagnasafna á hans vegum. Fagráðið mælir því ekki með styrkveitingu til þessa verkefnis.     

h          Umsókn frá Sauðfjársæðingastöð Suðurlands til endurnýjunar á einu af ómtækjum stöðvarinnar. Framleiðnisjóður landbúnaðarins hafði frá upphafi stutt kaup búnaðarsambandanna á ómsjám og viðhaldi þeirra. Vegna mikillar þýðingar þessara mælinga í ræktunarstarfinu telur fagráðið mikilvægt að styðja þetta áfram. Samþykkt var að styrkur færi samt ekki yfir 50% af kostnaðarverði og ekki yfir 500 þúsund kr. í heild. Því er mælt með styrk að upphæð 449.100 kr. samkvæmt þessari umsókn.

3.        Lagt fram bréf frá Eiríki Blöndal þar sem kynnt eru drög að samkomulagi Landbúnaðarháskólans og BÍ um vinnu við og áframhaldandi þróun BLUP kynbótamats fyrir ýmsar búgreinar. Þessir útreikningar hafa verið á höndum Ágúst Sigurðssonar og Þorvaldar Árnasonar hjá háskólanum frá því að þeir hófust. Samkomulagið gerir ráð fyrir að á þessu áru verði hafist handa við að yfirfæra allan hugbúnað yfir í alþjóðlegt hugbúnaðarumhverfi. Jafnframt verði myndaður samstarfshópur aðila um frekari þróun verkefnisins.

Farið er fram á að fagráðin komi að sérstökum átaksverkefnum vegna þessa. Hugmyndir í sambandi við þau mál sem snúa að sauðfjárræktinni lágu fyrir fundinum. Fagráðið lýsir yfir því eðlilegt sé að styrkir til verkefnisins komi í formi sérstakra umsókna vegna þess.

4.        Fulltrúar LS greindu frá áhuga á því að koma á ráðstefnu í tengslum við aðalfund LS árið 2012 til að fjalla um ræktunarmarkmið í sauðfjárrækt. Leitað var eftir að fagráðið tilnefndi fulltrúa í vinnuhóp til að móta dagskrá slíkrar ráðstefnu. Fagráðið lýsti ánægju sinni með þessa hugmynd og tilnefni Emmu, Jón Viðar og Sigurð Þór í vinnuhóp til að ganga frá dagskrá ásamt fulltrúum frá LS.

Þar sem ýmsir fundarmenn voru tímabundnir var fundi lokið laust eftir kl. 12 og nokkrum málum sem ekki hafði unnist tími til að fjalla um frestað til næsta fundar í apríl.