Fundargerð formannafundar 2011

Fundargerð formannafundar Landssamtaka sauðfjárbænda 2011.  Fundurinn var haldinn í húsnæði ferðaþjónustunnar að Bakkaflöt í Skagafirði, 19. nóvember 2011.

Formannafundur Landssamtaka sauðfjárbænda

Bakkaflöt, 19. nóvember 2011 kl. 13.00

 

Þetta gerðist

Til fundarins voru mættir fulltrúar 16 aðildarfélaga af 19, fulltrúar í laganefnd LS, stjórnarmenn og framkvæmdastjóri. Fulltrúa vantaði frá félagi sauðfjárbænda á Snæfellsnesi, deild sauðfjárbænda í Bsb. Kjalarnesþings og deild sauðfjárbænda í Bsb. Austurlands. 

1. Fundarsetning og kosning starfsmanna

Sindri Sigurgeirsson formaður LS setti fund og tilnefndi Atla Má Traustason og Birgi Arason sem fundarstjóra og Sigurð Eyþórsson sem fundarritara. Ekki komu fram fleiri tillögur og tóku þeir því til starfa.

2. Störf stjórnar LS
Sindri Sigurgeirsson formaður fór yfir störf stjórnar samtakanna undanfarna mánuði.   Hann ræddi m.a. söluþróun, útflutning, markaðsverkefni, úttekt á kindakjötsmati sem fram fór í nýliðinni sláturtíð, nýskipan dýralæknamála og stöðu gæðastýringarinnar. Þá fór hann yfir fundi með Landgræðslunni, MAS og ráðherra . Ennfremur fjallaði hann um fund í framkvæmdanefnd búvörusamninga fyrir skömmu þar sem meintur kjötskortur í sumar kom til umræðu og rætt nokkuð um hvort hækka ætti ásetningshlutfall til að bregðast við því. Nefndin telur það eina tækið sem hún getur enn ákvarðað um til að hafa áhrif á framleiðslu, en ákvað þó engar breytingar. Nánar var síðan fjallað um fjölmiðlafárið tengt greininni sl. sumar undir lið 5 á dagskránni. Sindri kom síðan inn á markaðsverkefni sumarsins og nefndi að illa hefði gengið að fá bændur til að taka þátt í þeim. 

Nokkrar umræður urðu að loknu erindi Sindra: Þar var m.a. spurt um hvort til stæði að breyta eitthvað framkvæmd á landnýtingarþætti gæðastýringar og hvað annað væri þar verið að skoða, hugsanleg áhrif breytinga á ásetningshlutfalli ef til þeirra kæmi, horfur í útflutningi, framkvæmd kjötmats og hvað teldust eðlileg frávik milli sláturhúsa. Þá var rætt talsvert um breytingar sem urðu á dýralæknaþjónustu þann 1. nóv. sl. Fundarmenn höfðu áhyggjur af því að hið nýja fyrirkomulag myndi þýða bæði aukinn kostnað og verri þjónustu. Ekki lægi fyrir hvað nákvæmlega fælist þeim þjónustusamningum sem MAST hefur gert. Fram kom að ekki væri vænlegt til árangurs að óska eftir sjálfboðaliðum til markaðsverkefna, heldur ætti að óska eftir því að einstök félög sæu um að útvega fólk í ákveðin verkefni. Ítrekað var að MK greiðir ferðakostnað vegna þátttöku í verkefnum utan heimabyggðar.
Til máls tóku: Erlendur Ingvarsson, Þorvaldur Þórðarson, Einar Ófeigur Björnsson, Böðvar Sigvaldi Böðvarsson, Böðvar Baldursson, Jón Kristófer Sigmarsson, Páll Eggertsson og Atli Már Traustason.

SS varaði við því að kjötmatsúttektin væri notuð til að bera húsin saman. Hún væri til þess að skoða samræmi erlendu matsmannana við húsmat og matsmenn MAST og ekki annað. Hann taldi horfur í útflutningi tvísýnar vegna efnahagsástands í Evrópu, a.m.k. til skamms tíma litið. Velta mætti fyrir sér ýmsu varðandi gæðastýringunna s.s. endurskipulagningu á skráningum, ytri ásýnd bæja og fleiri umhverfisþætti. Ekkert hefur útfært eða rætt efnislega varðandi landnýtingarþáttinn eða hlutverk Landgræðslunnar. Að lokum hvatti hann fundarmenn til að koma erindum eða umkvörtunum til MAST formlega á framfæri við stofnunina í gegnum tengilinn „hafa samband“ á heimasíðu stofnunarinnar. Með þeirri aðferð fara öll erindi í formlegt ferli sem ekki er víst að gerist með öðrum aðferðum. 

3. Ráðstefna í Englandi.

Oddný Steina Valsdóttir sagði frá ráðstefnunni „Sheep breeders round table“ sem hún sótti f.h. LS í byrjun nóvember sl. Flestir gesta komu frá Bretlandi og rætt var m.a. um ræktunarmál, en þar í landi er greint á milli ræktunarbúa sem rækta kynbótagripi og kjötframleiðenda sem rækta eingöngu sláturgripi en stunda ekki markvisst kynbótastarf sjálfir. Farið var yfir stöðu markaðsmála og ræktunarmálin m.a. notkun DNA greininga, innleiðingu skýrsluhalds og fleira því tengt. DNA greiningar eru að ryðja sér til rúms í sauðfjárræktinni en þær eru lengra komnar í nautgriparækt. Víðtækar rannsóknir þarf til að geta nýtt þessa aðferð.

Í umræðum var m.a. rætt um áhrif bötunar á kynbótaeinkunnar, kostnað við DNA greiningar og samanburð á greininni hér og í Bretlandi þar sem nánast allir sauðfjárbændur hérlendis sinna kynbótastarfi, en greinin skiptist ekki í stofnræktar- og sláturgripabú.

Til máls tóku: Guðmundur Valur Gunnarsson, Sindri Sigurgeirsson og Helgi Haukur Hauksson 

4. Áfangaskýrsla laganefndar

Einar Ófeigur Björnsson formaður laganefndar LS fór yfir vinnu nefndarinnar til þessa. Nefndina skipa auk hans þau Erlendur Ingvarsson, Þórhildur Þorsteinsdóttir, Sigvaldi Ragnarsson og Jóhann Pétur Ágústsson. Nefndin hefur komist að samkomulagi um að leggja til ýmsar breytingar s.s. um nefndaskipan á aðalfundi, formannafundi og nokkur fleiri atriði. Hinsvegar er ekki samkomulag um tillögu varðandi breytingar á fyrirkomulagi stjórnarkjörs, en nefndin á að skila lokatillögu til aðalfundar LS í mars nk. Ábendin hefur jafnframt komið frá stjórn um að skoða hvort ekki sé ástæða til að leyfa þeim sem rækta sauðfé á lögbýlum að gerast félagar þó þeir eigi færri en 50 kindur.

 

Málið var rætt ítarlega, einkanlega hvað varðar mögulegar útfærslur á stjórnarkjöri. Mismunandi viðhorf komu fram umhvort halda bæri áfram kjördæmaskipulagi í einhverri mynd eða leggja það af, hvort viðkomandi kjördæmi ætti að ljúka kosningunni í sínum hópi en ekki aðalfundurinn allur, hvaða áhrif einstakar útfærslur hefðu á samsetningu stjórnar o.s.frv. Rætt var einnig um fyrirkomulag kjörs á varamönnum, lengd kjörtímabils (1-3 ár), hámarkslengd stjórnarsetu, vægi atkvæða, hugsanlegar reglur um framboðsfrest og fleira þessu tengt. Til viðbótar var rætt um hvað aðalfundur ætti að vera mikið opinn, en ýmsir hafa efasemdir um að senda hann út á netinu. Rætt var einnig um tímasetningu aðalfundar og formannafundar, en sumir telja nóvember of seint, en fundurinn var færður þegar farið var að halda haustfundi LS í ágúst.

Til máls tóku: Erlendur Ingvarsson, Sindri Sigurgeirsson, Böðvar Sigvaldi Böðvarsson, Ármann Guðmundsson, Guðbrandur Björnsson, Einar Ófeigur Björnsson, Böðvar Baldursson, Jóhann Ragnarsson, Sigvaldi Ragnarsson, Oddný Steina Valsdóttir, Jóhann Pétur Ágústsson, Þorvaldur Þórðarson, Þórhildur Þorsteinsdóttir, Þórarinn Pétursson, Birgir Arason og Þorsteinn Logi Einarsson. Einar Ófeigur lauk síðan umræðunni, en nefndin vinnur nú málið áfram fram að aðalfundi.

5. Fjölmiðlar félagsstarf o g fleira

Sindri Sigurgeirsson fór ítarlega yfir atburði sumarsins sem tengdust útgáfu viðmiðunarverðs og meintum kjötskorti. M.a kom fram að 400 fréttir eða greinar sem tengjast sauðfjárrækt birtust frá 15. júlí-15. september en undir venjulegum kringumstæðum eru þær 70-80 á mánuði. Sindri fór yfir til hvaða aðgerða hefði verið gripið t.d. að 66 fréttir/greinar með svörum talsmanna greinarinnar birtust á áðurnefndu tímabili, en alls 114 það sem af er ári.   Raunverð lambakjöts til bænda hækkaði um rúm 17% á endanum en annað kindakjöt tvöfaldaðist í verði. Sindri ræddi síðan aðkomu félaganna að þessum málum og þakkaði nokkrum félögum sérstaklega öflugt starf. Í fjölmiðlafárinu í kjölfarið hefði hann þó viljað að heyra frá fleirum, þó eðlilegt væri að formaður sæi að mestu leyti um að koma fram út á við. Hver og einn gæti þó alltaf komið á framfæri athugasemdum við fjölmiðla vegna fréttaflutnings eins og sumir gerðu einmitt í sumar.   Rétt væri hinsvegar að ræða ítarlega hvernig best væri að standa að útgáfu viðmiðunarverðsins, ef halda ætti fram útgáfunni yfirleitt og eins hvernig skynsamlegast væri að taka á málum eins og umræðu sumarsins, þegar og ef slíkt gerðist aftur.

Miklar umræður urðu um málið. Forystumenn LS fengu hrós fyrir frammistöðuna í sumar. Aðferðafræði við útgáfu viðmiðunarverðs þyrfti þó að skoða frá grunni og e.t.v. hvíla útgáfuna eða hætta henni. Einnig kom þó fram vilji til að halda útgáfu áfram. Það skapar t.d. rugling, jafnvel meðal bænda sjálfra, að verið sé að tala um hækkanir út frá viðmiðunarverði fyrra árs en ekki raunverði, því ekki er alltaf ljóst við hvað er átt. Viðmiðunarverð og raunverð hafa ekki fallið saman frá 2007 og bilið eykst ár frá ári. Spurning er alltaf um hvaða framsetningu á að nota s.s. hlutfallslegar hækkanir eða krónutölur og hvað við ættum helst að bera okkur saman við. Afurðastöðvar blönduðu sér lítt í málið og oft var haldið fram að 25% hækkun til bænda þýddi sambærilega hækkun í smásölu. Mörgu öðru var ranglega haldið fram t.d. að allir bestu bitarnir væru fluttir út en innannlandsmarkaðurinn fengi bara lakara kjöt.   Umræðan var talin hafa haft slæm áhrif á bændur, þó vissulega hefði hún vakið athygli á greininni og lambakjöti. Ímyndin væri löskuð. Möguleg viðbrögð til framtíðar litið væru t.d. að tengjast neytendum betur beint með fleiri kynningum og/eða sambærilegu starfi. Setja ætti jafnvel kröfur á einstök félög að þau sinntu einhverju markaðsstarfi t.d. með því að nota grillvagninn. Bent var á jákvæð verkefni eins og nýja matreiðsluþætti um lambakjöt á ÍNN og kjotbokin.is á vegum MATÍS. Varðandi kjötskortsumræðuna þá var bent á að e.t.v. hefði mátt bjóða fjölmiðlum í birgðageymslur sláturleyfishafa til að sýna fram á að birgðir væru til skv. skýrslum. Mikilvægt væri að formenn fengju sendar upplýsingar með skipulegum hætti til að þeir væru betur undirbúnir til að taka þátt í umræðu á sínum vettvangi. Ef til vill væri líka rétt að boða helstu andstæðinga til beinna viðræðna og skiptast á skoðunum milliliðalaust. Fram kom einnig sú skoðu að hin harkalegu viðbrögðu mætti rekja til andstöðu bænda við aðild að ESB.

Til máls tóku: Böðvar Sigvaldi Böðvarsson, Jón Kristófer Sigmarsson, Erlendur Ingvarsson, Einar Ófeigur Björnsson, Sigvaldi Ragnarsson, Þorsteinn Logi Einarsson, Birgir Arason, Þorvaldur Þórðarson, Ármann Guðmundsson, Þórarinn Pétursson, Jóhann Pétur Ágústsson, Jón Egill Jóhannsson, Páll Eggertsson, Böðvar Baldursson, Guðmundur Valur Gunnarsson og Atli Már Traustason.

SS þakkaði góðar umræður og hlý orð til forystu LS. Hann sagði það sína skoðun að hætta ætti útgáfu viðmiðunarverðs a.m.k. að sinni. Hann greindi einnig frá því að lagt hefði verið fram erindi til verðlagsnefndar búvöru um að farið yrði að nýju að halda skipulega við og birta verðlagsgrundvöll í sauðfjárrækt. Með því fengist fram staðlað mat á þróun aðfangaverðs sem skipti verulegu máli þegar kæmi að verðlagningu afurða. Hann taldi rétt að tækla umræðuna frekar með jákvæðum sóknarhug heldur en að nota alla orkuna í að svara þeim sem vilja tala greinina niður. Við þyrftum að nota hvert tækifæri sem okkur byðist til að tala máli greinarinnar og alltaf að vera tilbúin til að kynna hana fyrir þeim sem vilja fræðast.

6. Önnur mál

a) Formannafundur 2012
Ármann Guðmundsson greindi frá því að félagið í A-Skaftafellssýslu byðist til að standa að skipulagningu formannafundar 2012 í Hornafirði.

b) Tilkynning formanns
Sindri Sigurgeirsson formaður LS tilkynnti fundinum að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs á aðalfundinum í mars nk.

Hann þakkaði síðan fundarmönnum þátttökuna og félagi sauðfjárbænda í Skagafirði fyrir undirbúninginn og sleit fundi að því loknu. 

Að fundi loknum var farið í heimsókn að Syðra-Skörðugili og Syðri-Hofdölum undir leiðsögn Agnars Gunnarssonar á Miklabæ.   Þegar komið var til baka var kvöldverður að Bakkaflöt.

 

Fleira ekki rætt

Fundi slitið

Fundargerð ritaði Sigurður Eyþórsson


Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar