Fundargerð formannafundar 2012

Fundargerð formannafundar Landssamtaka sauðfjárbænda 2012.  Fundurinn var haldinn að Smyrlabjörgum í Suðursveit 10. nóvember  2012.

 

Formannafundur Landssamtaka sauðfjárbænda

Smyrlabjörgum Suðursveit, 10. nóvember 2012 kl. 13.00

Þetta gerðist

Til fundarins voru mættir fulltrúar 14 aðildarfélaga LS  af 19, stjórnarmenn og framkvæmdastjóri.

1. Fundarsetning og kosning starfsmanna

Þórarinn Pétursson formaður LS setti fund og tilnefndi Ármann Guðmundsson sem fundarstjóra og Sigurð Eyþórsson sem fundarritara.  Ekki komu fram fleiri tillögur og tóku þeir því til starfa.

2. Störf stjórnar LS
Þórarinn Pétursson formaður LS, fór yfir störf stjórnar samtakanna undanfarna mánuði.   Hann ræddi m.a. söluþróun, útflutning og verðlag á mörkuðum.  Þá ræddi hann óveðrið norðanlands í september og viðbrögð við því, umræðu í kjölfar myndarinnar „Fjallkonan hrópar á vægð" sem og mynd LS sem dreift var á svipuðum tíma.  Einnig nefndi hann vinnu vegna framlengingar búvörusamninga,  breytingar á fyrirkomulagi ullarviðskipta og önnur verkefni sem komið hafa á borð stjórnarinnar.

Þá ræddi hann haustfundaferð samtakanna og taldi rétt að endurskoða það fyrirkomulag í ljósi lakrar aðsóknar í ágúst sl.  E.t.v. væri ekki rétt að vera með haustfundi ár hvert og í staðinn mætti halda formannafund í ágúst eins og áður tíðkaðist.

3. Aukabúnaðarþing

Einar Ófeigur Björnsson stjórnarmaður í LS fór yfir starf aukabúnaðarþings 29. október sl.   Meginverkefni þess var að ræða lokatillögur að endurskipulagningu leiðbeiningaþjónustu í landbúnaði.  Þingið samþykkti tillögurnar.

4. Landnýtingarnefnd

Oddný Steina Valsdóttir, varaformaður LS fór yfir starf landnýtingarnefndar sem hún starfar í fyrir hönd samtakanna, en þar sitja einnig fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.  Nefndin hyggst skila skýrslu og tillögum í lok þessa mánaðar þar sem settar verða fram hugmyndir um framtíðarskipulag landnýtingar.

5. Áfangaskýrsla gæðastýringarnefndar

Helgi Haukur Hauksson formaður gæðastýringarnefndar og Atli Már Traustason fulltrúi í nefndinnni fóru yfir starf nefndarinnar hingað til og þær tillögur sem nefndin er með í vinnslu til breytinga á reglugerð um gæðastýringu.

Fundarmenn ræddu ítarlega einstök atriði tillagnanna einkanlega ákvæði um umhverfisþætti (ásýndi búanna), ákvæði um skýrsluhald og ákvæði um landnýtingu.  Allir viðstaddir tóku til máls.  Nefndarmenn tóku sjálfir saman ábendingar úr umræðunni sem nýttar verða í frekara starfi, en samþykkt aðalfundar LS 2012 gerir ráð fyrir að nefndin skili lokaskýrslu sinni til aðalfundar LS 4.-5. apríl 2013.

6. Ímyndarmál

Þórarinn Pétursson formaður ræddi ímyndarmál samtakanna og kynnti SVÓT greiningu sem hann hafði fengið aðila ótengdan greininni til að gera á starfi sauðfjárbænda.   Fundarmönnum var því næst skipt í þrjá hópa sem var ætlað að ræða eftirfarandi punkta.

-          Erum við á réttri leið?

-          Áherslur næstu mánaða

-          Helstu styrkleika

-          Helstu veikleika

Að loknu fundarhléi kynntu Atli Már Traustason, Einar Ófeigur Björnsson og Helgi Haukur Hauksson niðurstöður hvers hóps fyrir sig.

7. Önnur mál

Rætt var um breytingar á ullarviðskiptum ástæður breytinganna sem eru einkanlega þær að nýr kaupandi vill koma inn á markaðinn og þá var óhjákvæmilegt að breyta fyrirkomulaginu.  Mikilvægt væri þó að standa vörð um innlenda ullarvinnslu.

Rætt var um tímasetningar haustfunda og formannafundar.  Margir vildu  fremur hafa formannafundinn fyrr, en jákvætt væri að hafa hann víða um land þrátt fyrir að etv. væri þægilegast að hafa hann í Rvík.

Rætt var um lyfjamál.  Áhyggjuefni er að Keldur hafa hætt framleiðslu á garnaveikibóluefni og það sem býðst í staðinn er margfalt dýrara.    Grennslast þarf fyrir um framtíðaráætlanir á Keldum.

Rætt var um fyrirliggjandi frumvörp um dýravelferð og búfjárhald.  Áhyggjuefni er ef eftirlit og tilsvarandi kostnaður á að verða enn umfangsmeira enn fyrr.  Samt sem áður verða vera til skýr og raunhæf úrræði til að taka á vandamálum sbr. áralanga erfiðleika við að taka á Stórhólsmálinu.

Rætt var um gæðamál og vörumeðferð.  Mikilvægt er að rekja sem nákvæmast þegar að vandamál koma upp til að auðvelda greiningu og þá úrbætur.

Rætt var um óveðrið nyrðra og starf LS tengt því.  Ánægjulegt að efnt hefði verið til söfnunar en vinna þyrfti faglega að úthlutun fjármunannna.

Allir fundarmenn tóku þátt í umræðum undir þessum lið

Formaður þakkaði síðan fundarmönnum góðar umræðurog deild sauðfjárbænda í Bsb. A-Skaftafellssýslu fyrir undirbúninginn og sleit fundi að því loknu. Um kvöldið tóku fundarmenn þátt í bændahátíð A-Skaftfellinga að Smyrlabjörgum.

Fleira ekki rætt

Fundi slitið

Fundargerð ritaði Sigurður Eyþórsson

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar