Fundargerð formannafundar 2013

Fundargerð formannafundar Landssamtaka sauðfjárbænda 2013.  Fundurinn var haldinn að Smáratúni í Fljótshlíð 9. nóvember 2013.

 

 

 

Formannafundur Landssamtaka sauðfjárbænda

Smáratúni í Fljótshlíð, 9. nóvember 2013 kl. 10.00

Þetta gerðist

Til fundarins voru mættir fulltrúar 15 aðildarfélaga LS  af 19, allir stjórnarmenn og framkvæmdastjóri.  Fulltrúar félaga sauðfjárbænda á Snæfellsnesi, Dalasýslu, Suðurfjörðum og deildar sauðfjárbænda í Bsb. Austurlands boðuðu forföll.

1. Fundarsetning og kosning starfsmanna

Þórarinn Pétursson formaður LS setti fund og tilnefndi Erlend Ingvarsson sem fundarstjóra og Sigurð Eyþórsson sem fundarritara.  Ekki komu fram fleiri tillögur og tóku þeir því til starfa.

2. Störf stjórnar LS
Þórarinn Pétursson formaður LS, fór yfir störf stjórnar samtakanna undanfarna mánuði.   Hann ræddi m.a. söluþróun, útflutning og verðlag á mörkuðum, markaðstarfið innanlands, endurskoðun gæðastýringarreglugerðar og aðbúnaðarreglugerðar, árferðið sl. vetur og fleira.

Þá ræddi hann afurðaverð haustsins og fór yfir rökstuðning stjórnar LS fyrir því að gefa ekki út viðmiðunarverð á liðnu hausti.  Þórarinn svaraði síðan fyrirspurnum að lokinni framsögu.

3. Starf og ímynd LS.

Þórhildur Þorsteinsdóttir stjórnarmaður í LS fór yfir samtekt á svörum við spurningalista sem félögunum var sendur fyrir fundinn, sem snérist um að fara yfir styrkleika og veiklega í starfi LS og félaganna. 

Ítarlegar umræður urðu að lokinni framsögu m.a. kom fram ánægja með starfrækslu grillvagnsins og samstarfið við Meistarafélag kjötiðnaðarmanna, þó vekja mætti meiri athygli á því hverjir stæðu þar að baki.  Fram komu áhyggjur af RML þ.e. að kostnaður við þjónustuna myndi hækka of mikið, en einnig kom fram að fyrirtækið væri enn að mótast og ekki rétt að draga of víðtækar ályktanir ennþá.  Vilji var til þess að LS sækti meira fram s.s. með því að bjóða upp á kynningar í grunnskólum.  Einnig kom fram áhugi á meira faglegu starfi s.s. fagráðstefnum fyrir bændur, frekara fræðslustarfi og fleira tengt ræktunarstarfi.  Skiptar skoðanir voru um hugmyndir að endurskipulagningu sæðingastarfsemi sem komu fram í samantektinni. Þá komu fram ábendingar um að saudfe.is væri óeðlilega þung í hleðslu og ýmsar hugmyndir um hvernig bæta mætti síðuna.  Svörin og ábendingarnar í umræðunni verða teknar til frekari skoðunar í stjórn LS.

Hádegishlé

4. Stuðningskerfið.

Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri LS flutti erindi um stuðningskerfi við sauðfjárrækt í ESB, Bandaríkjunum og Noregi.  Hann fór yfir helstu atriði sem kerfin byggja á í viðkomandi löndum og hvernig þeim er beitt.  Sauðfjárrækt er á öllum svæðunum ekki stór atvinnugrein og kerfin ekki byggð utan um greinina sérstaklega eins og raunin er hér, en eftir sem áður er víðtækt almennt stuðningskerfi sem sauðfjárbændur og aðrir bændur geta nýtt sér.

Þórarinn Pétursson formaður LS fór síðan yfir samantekt á svörum við spurningalista sem félögin höfðu fengið sendan samhliða spurningum um starf og ímynd LS.  Þar var spurt um hvernig gengið hefði að uppfylla markmið núverandi sauðfjársamnings, helstu kosti hans og galla og framtíðarsýn eftir að honum lýkur.

Miklar umræður urðu að loknum framsögum. Þar var m.a. rætt um möguleg áhrif hækkunar ásetningshlutfalls úr 0,6 í 0,65 sbr. samþykkt síðasta aðalfundar.  Rætt var einnig um viðskipti með greiðslumark og verðlagningu þess.  Fram kom að verðið væri orðið hátt og eðlilegt væri að horfa þyrfti til annarrar útfærslu þegar samningnum lyki t.d. frekari framleiðslutengingar – að greiðslur fengjust fyrir að framleiða mat.   Ekki mætti þó fara út í neinar kollsteypur, en fyrsta skrefið væri að móta hvert við vildum stefna þegar yfirstandandi samningi lýkur í árslok 2017.  Velta mætti fyrir sér hvernig við vildum skipuleggja stuðninginn ef það væri verið að byggja hann upp frá grunni núna. 

Nýliðunarstyrkir voru taldir hafa komið vel út og  ýttu m.a. undir að gengið væri formlega frá ættliðaskiptum.  Mikilvægt væri að bændur nýttu kosningarétt sinn um samningana þegar það er í boði – það styrkir þá verulega í sessi.  Undirstrika þyrfti enn frekar að stuðningurinn þýðir lægra matvælaverð.  Erlendu markaðirnir skipta miklu máli en greinin er alltaf viðkvæm fyrir umræðu um að flutt séu út matvæli sem njóta opinbers framleiðslustuðnings, þrátt fyrir að nægt framboð sé innanlands, utan þess sem gerðist sumarið 2011. Vekja þyrfti meiri athygli á því að við flytjum inn verulegt magn matvæla með opinberum stuðningi erlendis frá og e.t.v. reyna að meta það. Svörin og ábendingarnar í umræðunni verða teknar til frekari skoðunar í stjórn LS.

5. Gæðastýringarreglugerð

Oddný Steina Valsdóttir varaformaður LS fór nánar yfir stöðu á endurskoðun gæðastýringarreglugerðarinnar.  Vinnan er á lokastigi og atvinnuvegaráðuneytið er búið að leita umsagnar hjá umhverfisráðuneyti auk þess sem bæði Landgræðslan og MAST hafa skilað inn sínum viðhorfum.  LS þarf að skila umsögn um núverandi drög í næstu viku og fyrir liggur að gera þarf veigamiklar athugasemdir við nokkur atriði.  Þau er öll að finna í landnýtingarkaflanum.

6. Sheep breeders round table 2013

Helgi Haukur Hauksson og Atli Már Traustason kynntu ráðstefnuna „Sheep breeders round table 2013 – Transforming data into profit“ sem þeir sóttu á vegum LS um sl. mánaðamót.  Ráðstefnan var haldin í Nottingham í Bretlandi og fjallaði aðallega um hvernig bæta mætti rekstur búanna s.s. með markvissari ræktun og skipulagðari gagnasöfnun.  Þá er einkum horft til genaræktunar (e. Genomic selection) og þeirra möguleika sem hún býður upp á.

Kaffihlé.

7. Önnur mál

Rætt var um árshátíð LS.  Fram kom áhugi á að byrja dagskrána fyrr í ljósi þess að dansleikir á Hótel Sögu geta bara staðið til kl. 2. 

Fram komu athugasemdir við Fjárvís, en margir hafa lent í vandræðum við að slá inn gögn þegar það þarf að gera í fjárhúsum því netsamband er þar afar ótryggt.  Nauðsynlegt væri að leysa þetta sem allra fyrst.

Rætt var um kjötmat.  Litlar athugasemdir komu fram við áherslubreytinguna í haust um að auka vægi framparts, en enn koma fram athugasemdir um að samræmi sé ekki nógu gott.  Hugmyndir um innleiðingu á rafrænu kjötmati eru í biðstöðu núna því ekki er samstaða meðal sláturleyfishafa um málið.  Þá var einnig bent á að það skorti verklagsreglur um meðferð X og XX skrokka þ.e. um hvað mikið væri eðlilegt að fjarlægja vegna einstakra galla.  Ekki væri samræmi í þeirri vinnu.

Farið var yfir breytt fyrirkomulag ullarviðskipta þ.e. að nú ber að skrá innlegg til Ístex í gegnum Bændatorgið og jafnframt liggja fyrir greiðsludagsetningar allt fram á næsta haust.

Formaður þakkaði síðan fundarmönnum góðar umræður, félagi sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu fyrir undirbúninginn og sleit fundi að því loknu. Fyrir liggur boð frá Félagið sauðfjárbænda í S-Þingeyjarsýslu um að halda næsta formannafund haustið 2014.  Að loknum fundi var farið í heimsókn í fjárhúsin að Teigi í Fljótshlíð og um kvöldið var sameiginlegur kvöldverður í Smáratúni.

Fleira ekki rætt

Fundi slitið

Fundargerð ritaði Sigurður Eyþórsson

 

 

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar