Fundargerð formannafundar 2014

Fundargerð formannafundar Landssamtaka sauðfjárbænda 2014.  Fundurinn var haldinn á Narfastöðum í Reykjadal, 1. nóvember 2014.

Formannafundur Landssamtaka sauðfjárbænda

Haldinn að Narfastöðum í S-Þingeyjarsýslu, 1. nóvember 2014 kl. 11.00

Mætt voru:  Davíð Sigurðsson frá Fsb. Borgarfirði, Brynjar Hildibrandsson frá Fsb. Snæfellsnesi, Þórarinn B. Þórarinsson frá Fsb. Dalasýslu, Jóhann Pétur Ágústsson frá Fsb. Vestfjörðum, Jóhann Ragnarsson frá Fsb. Strandasýslu, Ólafur Benediktsson frá Fsb. V-Húnavatnssýslu, Jón Kristófer Sigmarsson frá Fsb. A-Húnavatnssýslu, Ásta Guðbjörg Einarsdóttir frá Fsb. Skagafirði, Birgir Arason frá Fsb. Eyjafirði, Sæþór Gunnsteinsson frá Fsb. í S-Þingeyjarsýslu, Einar Ófeigur Björnsson frá Dsb. í Bsb. N-Þingeyjarsýslu, Guðrún Agnarsdóttir frá Fsb. á Héraði og Fjörðum, Guðmundur Valur Gunnarsson frá Fsb. Suðurfjörðum, Fanney Ólöf Lárusdóttir frá Fsb. V-Skaftafellssýslu

Forföll boðuðu fulltrúar Fsb. í Árnessýslu, Rangarvallasýslu og Vopnafirði auk fulltrúa Dsb. í Bsb. Kjalarnesþings og Dsb. í Bsb. A-Skaftafellssýslu.

Fundinn sóttu einnig stjórn og framkvæmdastjóri  LS: Þórarinn Ingi Pétursson, Oddný Steina Valsdóttir, Þórhildur Þorsteinsdóttir, Atli Már Traustason, Böðvar Baldursson og Sigurður Eyþórsson.

Ennfremur sátu fundinn eftirtaldir fulltrúar í nefnd LS um nýjan sauðfjársamning: Böðvar Sigvaldi Böðvarsson, Einar Guðmann Örnólfsson og Guðrún Ragna Einarsdóttir (auk annara fulltrúa í nefndinni sem þegar hefur verið gerð grein fyrir)

Dagskrá:

Þórarinn Pétursson formaður LS setti fund og tilnefndi Böðvar Baldursson sem fundarstjóra og Sigurð Eyþórsson sem fundarritara. Þeir voru samþykktir athugasemdalaust

1. Störf stjórnar LS

Þórarinn Pétursson gerði grein fyrir störfum stjórnar frá aðalfundi og þróun á mörkuðum fyrir sauðfjárafurðir.  Þá kynnti hann hugmyndir um hlutabréfakaup bænda í Ístex, en unnið hefur verið að útfærslu hugmynda þess efnis að undanförnu.  Þá kynnti hann einnig hugmynd að samstarfsverkefni með háskólanum á Akureyri um rannsókn á byggðalegri þýðingu sauðfjárræktar.

Ítarleg umræða fór fram um hlutabréfakaup í Ístex í framhaldinu.  Fundarmenn tóku jákvætt í hugmyndirnar og enginn mælti gegn þeim.  Fram komu hugmyndir um hvort ekki væri skynsamlegra að stofna sérstakt félag til að halda utan um hlutabréfaeign bænda í Ístex og einnig kom fram ábending þess efnis að mögulega ætti að vera hægt að leggja meira í hlutabréfakaup en 27% af ullarinnleggi, ef einhverjir bændur hefðu hug á því.

Á fundinum var jafnframt spurt eftir hugmyndum stjórnar um fjármögnun samtakanna, þegar og ef tekna af búnaðargjaldi nýtur ekki lengur við.  Verið er að vinna að slíkum tillögum á vegum BÍ en slík vinna er ekki í gangi innan LS, enn sem komið er.

Þá var rætt nokkuð um ákvörðun um hækkun ásetningshlutfalls, en ráðherra ákvað að hækka hlutfallið úr 0,65 í 0,7 nú í haust, þrátt fyrir að aðalfundur LS 2014 hefði ályktað um annað.  Með þeirri samþykkt var horfið frá fyrri stefnu aðalfundar 2013 um að hlutfallið ætti að hækka úr 0,6 í 0,75 á tímabilinu 2013-15.  Gagnrýnt var að kynning ákvörðuninarinnar hefði verið ónóg og spurt hvernig stjórn hefði fylgt samþykkt aðalfundarins eftir.

2. Áfangaskýrsla nefndar LS um nýjan sauðfjársamning

Að loknu matarhléi var fundarmönnum skipt í fimm hópa sem allir ræddu skýrsluna í heild.  Hóparnir störfuðu í 90 mínútur og kynntu að því loknu niðurstöður sínar.

Þátttakendur í umræðunni: Þórarinn Pétursson, Oddný Steina Valsdóttir, Atli Már Traustason, Þórhildur Þorsteinsdóttir, Böðvar Baldursson, Einar Ófeigur Björnsson, Böðvar Sigvaldi Böðvarsson, Ásta Guðbjörg Einarsdóttir, Guðmundur Valur Gunnarsson, Jón Kristófer Sigmarsson, Einar Guðmann Örnólfsson, Ólafur Benediktsson, Jóhann Ragnarsson, Þórarinn B. Þórarinsson, Jóhann Pétur Ágústsson, Birgir Arason og Sæþór Gunnsteinsson.

Allir fundarmenn tóku þátt í hópastarfinu á undan.

Að loknum þessum lið þakkaði formaður LS góðar umræður og sagði nefnd samtakanna um nýjan sauðfjársamning mundi nú taka framkomna punkta til skoðunar.  Samantekt úr umræðunni á fundinum verður tekin til umfjöllunar í nefndinni.

Fleira ekki rætt
Fundi slitið
Fundargerð ritaði Sigurður Eyþórsson

Að loknum fundi var farið í skoðunarferð sem skipulögð var af félagi sauðfjárbænda í S-Þingeyjarsýslu.  Í kjölfarið var svo sameiginlegur kvöldverður

Fylgiskjal

Samantekt hópastarfs á formannafundi 1. nóv. 2014 um áfangaskýrslu nefndar LS um nýjan sauðfjársamning og umræðu á fundinum í kjölfarið

Almenn atriði

 • Tölur um fjármagn væru  ótímabærar og hugmyndir um samingstíma væru taldar misraunhæfar.
 • Athugasemdir voru gerðar um að ekki væri horft nægilega til framtíðar í skýrslunni og fjallað um mögulega þróun eða æskilega þróun.  Hugsa hefði mátt út frá því hvað vilji væri til að gera ef enginn samningur væri í gildi.  Byrja með autt blað og hræðast ekki hugarflugið.
 • Gagnrýnt var að í skýrslunni væru engir sölupunktar gagnvart viðsemjandanum og því væri ekki líklegt að mikill árangur næðist á grundvelli hennar.  Ráðherra málaflokksins þyrfti líka að selja samningin bæði í ríkisstjórn, á Alþingi og gagnvart almenningi.  Samningsafstaðan ætti að taka mið af því.
 • Líka var gagnrýnt að nefndin hefði ekki metið nægilega kosti og galla núverandi samnings, eins og samþykkt aðalfundar 2014 fjallar um.
 • Stuðningur við að takmarka greiðslur við sauðfjárrækt á lögbýlum en einnig kom fram hugmynd um að takmarka þær við þá sem hefðu vsk númer.
 • Þá var gerð athugasemd um að samningurinn ætti að byggja upp eina stétt þar sem að allir hefðu haft sömu möguleika á að vinna með kerfi núverandi samnings
 • Ekki ætti að steypa alla í sama mót.  Sauðfjárrækt geti líka vel verið stuðningur við aðra starfsemi, sem er ekki neikvætt. 
 • Sóknarfæri gæti falist í sömu framleiðslu með færri gripum. 
 • Veltan greinarinnar í heild eru um 10 milljarðar á ári. Helsta leiðin til  auka tekjur á bú er annað hvort að fækka bændum eða auka tekjur.  Leiðin til að auka tekjur gæti helst verið að auka sölu á lambakjöti til erlendra borgara hvort sem er hérlendis til ferðamanna eða erlendis. Erfiðara gæti orðið að sækja meira fjármagn til innlendra neytenda og/eða skattgreiðenda.

Almennar beingreiðslur

 • Skiptar skoðanir voru framleiðsluskyldu og afskriftir greiðslumarks..  Með afskriftum er átt við að hlutfall fjármuna til beingreiðslna sé smá saman minnkað en ekki að fjöldi ærgilda verði smá saman lækkaður.  Þá kom fram hugmynd að hugsanlega ætti að vera nóg að uppfylla framleiðsluskyldu t.d. í tvö ár af hverjum þremur. Það er þá til þess að mæta áföllum sem kunna að verða.  Einnig kæmi til greina að innleiða framleiðsluskyldu í áföngum á samningstímanum.
 • Bent var á að framleiðsluskylda gæti haft áhrif á sláturtíma og seinkað enn vilja bænda til að koma með fé til slátrunar í byrjun sláturtíðar.  Fram kom hugmynd að fé sem kemur snemma til slátrunar gætti e.t.v. vegið meira s.s. hvert kíló sem lagt er inn í ágúst vægi til dæmis sem (1.5 kg) upp í framleiðsluskyldu.
 • Nægir framleiðsluhvatar væru í núverandi samningi og ekki ætti að auka þá, það bitnaði mest á minni framleiðendum – einnig var lýst andstæðum sjónarmiðum þess efnis að sem mest af greiðslunum ættu að greiðast út á framleiðslu.
 • Sjónarmið komu fram um að greiðslumark ætti að miðast við innanlandssölu hverju sinni, en einnig að var lýst andstöðu við þær hugmyndir.

Gæðastýring

 • Vilji er til að efla gæðastýringuna og auka vægi hennar í nýjum samningi. Gæta þyrfti þó að því að hún yrði ekki of framleiðsluhvetjandi.
 • Fram komu áhyggjur af landnýtingarþætti gæðastýringar.  Leiðir til að taka á ágangi væru ekki nægilega skýrar og virkuðu illa. Sumsstaðar væri land orðið ofnýtt.  Við næðum ekki nægilega utan um aðferðir við að meta land og beitarþol þess.  Ýmsar aðferðir eru til en oft mjög mannfrekar og þ.a.l. mjög kostnaðarsamanar.  Mestu skipti í sauðfjárbúskap að hafa aðgang að nægu landi, því auðvelda væri að útvega tún og húsakost. 
 • Halda ætti framleiðslu utan gæðastýringar sér.
 • Eftirlit þyrfti að vera betra
 • Leggja aukna áherslu á styrkja góða búskaparhætti og ásýnd búanna
 • Fram kom áhugi á að greiða gæðastýringu á alla kjötframleiðslu búa sem eru með, en um það er ekki samstaða.

Ullarnýting

 • Stuðningur er við að halda þessu áfram en greiðslurnar þurfa að ýta undir aukna verðmætasköpun og skoða mætti þætti eins og hreinleika ullar.

Geymslugjald

 • Fjármuni ætti að færa annað t.d. á gæðastýringu
 • Bent á að skv. samþykkt aðalfundar 2010 hefði verið vilji til að færa þessa fjármuni yfir á gæðastýringu þegar sláturleyfishafar vildu ekki lengur taka við þeim.

Ónýttar beingreiðslur

 • Fjármuni ætti að færa annað t.d. á gæðastýringu
 • Einnig hugmynd um að dreifa þeim á aðrar beingreiðslur sbr. mjólkursamning.

Markaðsmál

 • Tryggja ætti fast fjármagn til markaðsmála.  Mynda til dæmis sjóð sem hægt væri að sækja um til ákveðinna verkefna.
 • Þó bent á að sú leið að láta sláturleyfishafa sækja um framlög til markaðsmála hefði ekki reynst vel.

Svæðisbundinn stuðningur

 • Fjármuni ætti að færa annað t.d. á gæðastýringu
 • Endurskoða þarf forsendurnar að baki ef verkefnið á að halda sér.
 • Hugmynd um býlisgreiðslur á öll bú yfir t.d. 200 vf. kindum.  Styrkja samfélagslegar stoðir sauðfjárræktar.  Fjármunir sem færðir verða af beingreiðslum með fyrningu gætu t.d. nýst í þetta og/eða fjármunir sem nú fara í geymslugjald.  Þetta gæti reynst ágætur sölupunktur gagnvart hinu opinbera. 
 • Hugsanlegt væri að afmarka þennan stuðning við einhverja fjarlægð frá þéttbýli eða svæði þar sem ekki væri raunhæft að sækja aðra vinnu, en margvísleg vandamál gætu komið upp víð útfærsluna.

Beingreiðslur 64 ára regla

 • Fjármuni ætti að færa annað t.d. á gæðastýringu
 • Enginn stuðningur við að halda þessu áfram inni.

Nýliðun

 • Efla þarf þennan þátt t.d. með því að víkka út styrkina

Þróunarverkefni

 • Stuðningur við að halda þeim áfram inni

Jarðrækt

 • Ekki auka þennan þátt.  Jafnvel heppilegra að hafa hann allan í búnaðarlagasamningi svo hann sé á einum stað en ekki þremur eins og nú.

Önnur verkefni

 • Þörf er á faglegri útttekt á áhrifum sauðfjárræktar á byggð. Sýna betur fram á þýðingu greinarinnar í samfélagi sveitanna.
 • Styrkir til framkvæmda
 • Engar tillögur um breytingar á fyrirkomulagi framsals greiðslumarks.
 • Ekki lagt til að sett verði magn- eða  fjármagnslega bundið þak eða gólf á stuðning.
 • Bæta aðgengi að fjármagni og bæta lánskjör s.s. vegna jarðakaupa.
 • Gæta að innri jöfnuði s.s. þeirri stöðu sem jafnar flutningskostnað sláturfjár þó það sé ekki inn í samningnum.  

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar