Fundargerð formannafundar 2016

Fundargerð formannafundar Landssamtaka sauðfjárbænda 2016.  Fundurinn var haldinn að Birkimel á Barðaströnd 26. ágúst 2016. Fara má beint á ályktun fundarins vegna afurðaverðs með því að smella hér.

Formannafundur Landssamtaka sauðfjárbænda

Haldinn að Birkimel á Barðaströnd föstudaginn 26. Ágúst 2016       kl. 10.00

Mætt voru:  Gísli Guðjónsson frá Fsb. Borgarfirði, Þóra Sif Kópsdóttir frá Fsb. Snæfellsnesi, Jóhann Pétur Ágústsson frá Fsb. Vestfjörðum, Jóhann Ragnarsson frá Fsb. Strandasýslu, Ólafur Benediktsson frá Fsb. V-Húnavatnssýslu, Birgir Ingþórsson frá Fsb. A-Húnavatnssýslu, Merete Rabölle frá Fsb. Skagafirði, Birgir Arason frá Fsb. Eyjafirði, Sæþór Gunnsteinsson frá Fsb. í S-Þingeyjarsýslu, Einar Ófeigur Björnsson frá Dsb. í Bsb. N-Þingeyjarsýslu, Guðrún Ragna Einarsdóttir frá Fsb. á Héraði og Fjörðum, María Dóra Þórarinsdóttir frá Dsb í Bsb. Kjalarnesþings, Erlendur Ingvarsson Fsb. Rangárvallarsýslu og Ágúst Ingi Ketilson Fsb. Árnessýslu.

Forföll boðuðu fulltrúar Fsb. í Dalasýslu, Suðurfjörðum, V- Skaftafellssýslu og Vopnafirði auk fulltrúa Dsb. í Bsb. A-Skaftafellssýslu.

Fundinn sóttu einnig stjórn og framkvæmdastjóri  LS: Þórarinn Ingi Pétursson, Oddný Steina Valsdóttir, Þórhildur Þorsteinsdóttir, Atli Már Traustason, Böðvar Baldursson og Svavar Halldórsson..

Dagskrá:

Jóhann Pétur Ágústsson bauð fundarmenn velkomna f.h Vestfirðinga.

Þórarinn Pétursson formaður LS setti fund og tilnefndi Jóhann Pétur Ágústsson sem fundarstjóra og Þórhildi Þorsteinsdóttur sem fundarritara. Þau voru samþykkt athugasemdalaust

1. Staða búvörusamninga, afurðarverð, markaðsmál og ullarmál.

Þórarinn Pétursson gerði grein fyrir stöðu búvörusamninga. Þeir eru enn fyrir atvinnuveganefnd alþingis en von stæði til að þeir kæmu til 2. umræðu fljótlega eftir helgina.

Svavar Halldórsson fór yfir þróun á sölu, bæði innanlands og útflutning á fyrsta helming ársins. Sala á kindakjöti hefur verið góð undanfarin misseri og ár, en samkvæmt tölum Matvælastofnunar jókst sala á kindakjöti 2012 til 2014 en dróst lítillega saman 2015. Á fyrsta ársfjórðungi 2016 varð hins vegar 25,1% söluaukning. Í júní jókst salan um 5,6% miðað við sama mánuð árið á undan og birgðir eru minni en á sama tíma í fyrra. Landssamtök sauðfjárbænda gáfu út vel rökstutt viðmiðunarverð í lok júlí. Þau telja hæfilegt að afurðaverð hækki um 12,5% sem er í samræmi við þriggja ára áætlun sem sett var fram í fyrra. Svavar kom einnig inná röksemdir afurðastöðva vegna þeirrar verðlækkunar sem þær eru búnar að boða, sem eru búnar að gefa út verð. En þær eru helstar miklar launahækkanir, heilsöluverð stendur í stað, slæmar horfur á útflutningsmörkuðum og styrking á gengi króunnar og háir vextir. Einnig fór framkvæmdastjóri yfir markaðsmálin, sýnileg söluaukning hefur verið á lambakjöti inn á veitingastaðina, fleiri og fleiri staðir eru komnir með merkið og farnið að hafa lambakjöt í öndvegi. Hægt hefur verið aðeins á markaðsátakinu á meðan búvörusamningurinn er enn óafgreiddur frá alþingi. En ljóst þykir að sú töf sem hefur verið á afgreiðslu hans hefur ekki verið markaðsstarfinu til framdráttar.

Þórarinn Ingi fór yfir stöðuna á ullarmarkaði. Fór hann yfir stuðlana í ullarviðskiptunum og tillögu stjórnar á breytingu á þeim sem eru tiltölulega vægar. Tillagan snýst um að lækka H II úr 1,05 í 0,9 og hækka M I úr 1,1 í 1,2. Aðrir stuðlar yrðu óbreyttir.

Opnað var fyrir umræður og urðu miklar umræður.

Jóhann Ragnarsson: ræddi um útkomin afurðaverð, varaði við að láta reiðina bitna á afurðarsölufyrirtækjunum, hagsmunir okkar og þeirra fara saman, sökin kannski ekki eingöngu bara þeirra, markaðurinn væri bara ekki betri. Það væri viðbúið að þær væri sveiflur á markaði. Hvatti til vandaðar umræðu og lýsti yfir að fundurinn í dag yrði að láta eitthvað frá sér um málið. Kom inná  búvörusamningana, það væri ljóst að alþingi treysti sér ekki til að afgreiða samninganna án breytinga. Það væri ljóst að þeir hefðu verið illa unnir frá bændahliðinni. Ræddi um skýsluna sem sauðfjárbændur á Vestfjörðum og Ströndum hefðu fengið RML til að vinna um áhrif samningsins á þeim svæðum. Kom inn á fréttatilkynningu sem var frá félaginu á ströndum sem fékkst ekki birt á heimasíðu samtakanna. Gagnrýndi framkvæmdastjóra LS og taldi að ólík sjónarmið yrðu að fá að koma fram. Ef einhverjir hefðu ekki verið sammála því sem þar stóð hefðu þeir getað komið með andsvar. Fór yfir forsögu samningana, 7-manna nefndina og gagnrýndi stjórn LS hvernig hefði verið haldið á málum eftir aðalfund 2015. Menn yrðu að geta treyst samtökunum.

Erlendur Ingvarsson; Spurði um markaðsmál, sölu til veitingastaða hvort um merkjanlega aukningu væri að ræða. Ræddi um ullarmál, um að allir gætu gert betur í sambandi við  frágang og flokkun á henni. Ræddi um afurðarverðið, þetta væru slæm tíðindi en hefðu getað verið verri. Góð þróun þegar staðgreiðsla afurðarverðs kom á. Ræddi um búvörusamningana, þegar þeir verða komnir í fullt gildi þá verða svona breytinar sársaukafyllri. Verð myndu hækka og lækka á samningstímanum það væri alveg ljóst. Varaði við að detta ekki í þá gryfju að fara á benda á hvort annað, það væri slæmt þegar bændur dyttu í þann gírinn. Kom inn á umræðuna á facebook sem væri ekki alltaf málefnaleg. Hafgræðingarkrafa á afurðarstövarnar væri eitthvað sem bændur yrðu að halda á lofti.

Svavar Halldórsson; svaraði Jóhanni Ragnarssyni vegna ummæla hans um framkvæmdastjóra og ritskoðun. Hafnaði þeim ummælum. Sagðist bera ritstjórnarlega ábyrgð á því sem væri birt á heimasíðu samtakanna. Ræddi um viðtal sem var við Jóhann Ragnarsson í útvarpsþættinum Speglinum. Þar hefði verið komið mjög óheppilega að orði og væri í raun að egna saman bændum af mismunandi svæðum. Sagði að afurðastöðvar yrðu að standa í lappirnar gagnvart bændum. Menn finndu að það væri aukning á veitingastöðum í sölu lambakjöts en það væri ekki komnar neinar mælanlegar tölur ennþá en þær kæmu. Það væri hins vegar ljóst eins og áður sagði að tafir á markaðsmálum hefðu kostað greinina peninga.

Merete Rabölle: Sagði bændur verða að standa saman og vera málefnaleg í allri umræðu. Sagði að í Sviss keypti ríkið alla umfram framleiðslu og sendi til þróunarlanda. Ræddi um ullarverð og það yrði að vera meiri mundur á milli flokka. Jafnframt yrði að  gera kröfu á vandað gæðamat hjá Ístex þegar ull er endurmetin. Hún kvaðst hrifin af því sem væri að gerast í markaðsmálunum.

Einar Ófeigur Björnsson: ræddi um afurðarverð og að vanda þyrfti alla umræðu þar um. Afurðarstöðvarnar væru ekki óvinir okkar. Það þyrfti að ná fram hækkunum á markaði. Varðandi búvörusamningana þá væri það morgunljóst að ríkið gerði ákveðnar kröfur sem væri marg oft búið að koma fram. Í upphafði hefði ríkið komið með þær kröfur að um 3 ára samning yrði og að beingreiðslur færu út á þeim tíma. Jafnframt gerði ríkið kröfu um ákveðin vatnshalla. Fór síðan aðeins yfir þá vinnu sem samninganefndin fór í. Sagðist ekkert endilega bjartsýnn á að samningarnir færu í gegnum alþingi.

Jóhann Ragnarsson: fordæmdi vinnubrögð RML og BÍ vegna Strandaskýrslunnar. Svaraði Svavari og þau ummæli sem hann hefði haft í Speglinum. Svavar hefði ekki farið með rétt mál þar, hann hefði sagt að sér finndist sérkennilegt að stuðningurinn sé fluttur af svæðum sem lifa eingöngu á sauðfjárrækt yfir á svæði sem væru hvað viðkvæmust. Að sínu viti væri gæðastýringin vita gagnlaus, það væri verið að nýta afréttir sem ætti ekki að vera að nýta og við yrðum að fara að hugsa öðruvísi. Okkur vantaði í raun ekki fleiri sauðfjárbændur.

Birgir Ingþórsson: Þakkaði fyrir góð erindi. Sagðist hafa reiknað með lækkun á afurðaverði en boðaðar lækkanir væru mun meiri en hann hefði reiknað með. Gagnrýndi stjórn LS, það hefði engan tilgang með að hringja í sláturleyfishafa, fundarhöld væru árangursríkari. Kom inn á búvörusamningana, þar hefðu allir verið óundirbúnir, bæði ríkið og bændur. Sagði erfitt að eiga við samningaviðræður þegar ljóst væri að markmið næðust ekki fram. Það væri greinilegt að ráðherra hefði haft lítið bakland, það sýndi sig nú á vinnubrögðum alþingis. Þetta væri vond staða, pólitíkin væri búin að valda skaða og væri orðin of mikil inn í bændaforystunni. Ræddi um ullarmál, bændur gætu gert betur hvað varðar flokkun. Kom með spurninguna hverjir eru bændur, það væru engin rök fyrir að styrkja þá sem væru litlir. 63% bænda væru með innan við 200 kindur. Hvert ætti stuðningurinn í raun að fara, ef við ætlum að hafa þetta sem atvinnugrein. En verkefni fundarins í dag væri hvernig væri hægt að snúa við afurðarverðinu.

Birgir Arason; þakkar fyrir heimboðið og erindin. Ræddi afurðarverð og ullarverð. Sagði útkomin afurðaverð mikil vonbrigði. Ef þetta héldi svona áfram myndi það kalla á skipulagðan niðurskurð á bændastétt sem væri slæmt því sauðfjárrækt væri lífæð margra sveita. Munurinn á milli H I og H II væri of lítill. Menn vera að fara að hugsa um þetta sem verðmæti og að það mætti ver allt að helmingsmunur á 1 og 2 flokki í ullinni

Oddný Steina Valsdóttir: Ræddi um að það hefði ekki náðs samstaða um að hafa „gólf“ á stuðningi vegna umræðu um hverjir ættu að njóta stuðnings. Sú umræða hefði oft komið upp en í nýjum samningi væri stuðningur takmarkaður við vsk nr. eða þá sem stæðu í rekstri. Öll togstreita á milli svæða væri óheppileg og það hefði fokið í hana að lesa viðtal við Jóhann Pétur á Vísi fyrr í sumar. Fannst hann gefa í skyn a bændum væri ekki treystandi fyrir beitilandi. Hún sagðist skilja umræðuna í sambandi við jaðarbyggðir. Hún hefði ekki farið í umræðuna opinberlega um skiptingu greiðslumarks á milli aldurhópa en sú greining væri til. Stuðningur væri hlutfallslega  meiri við eldri bændur sem gæti að hluta til skýrt mun milli svæða, þ.e. að ásetningshlutfall væri hærra þar sem nýliðun hefði orðið meiri. Ræddi um markaðsmál og afurðarverð. Skilur reiði fólks en vandinn liggur í samningum á milli afurðarstöðva og verslunar. Það væri ekki rétt að mönnum væri sama hvernig  beitarmálum væri háttað, gæðastýringin ætti fullan rétt á sér en það væri nauðsynlegt að koma á vöktun lands. Vöktun ætti einnig að geta nýst til beitarstjórnunar á algrónum svæðum.

Umræðum frestað og tekið matarhlé. 

Umræðum framhaldið:

Svavar Halldórsson: ræddi um að það væri óþolandi að vera sakaður um ritskoðunartilburði. Það væri jafnalvarlegt og að vera sakaður um þjófnað. Fór fram á afsökunarbeiðni frá Jóhanni Ragnarssyni.

Þóra Sif Kópsdóttir: þakkar fyrir heimboðið, það væri gaman að koma heim, en hún væri frá Patreksfirði. Ræddi um afurðarverðið, rökin væru engin að sækja hækkunina í þessa átt heldur ætti að snúa sér í vasa verslunarinnar. Kom inn á umræðuna sem varð vegna samninganna. Þá út frá sjónarmiði þeirra sem eru með mikinn ríkisstuðning og þeirra sem eru með lítinn stuðning eins og á sínu svæði. Það væri gríðarlegt áfall fyrir bændur á Snæfellsnesi ef þessi verðlækkun yrði að veruleika. Það væri ljóst að einhverjir myndu hætta á svæðinu. Aðalmál þessa fundar væri að finna leiðir til að snúa afurðarverðinu við. Kom að því hverjir teldust alvöru bændur. Sá sem á 70 rollur er alveg jafn mikilvægur og sá sem á 1000 kindur í litlum samfélögum. Þurfum að passa að naga ekki í lappirnar á þeim litlu.

Ólafur Benediktsson: þakkar fyrir heimboðið og framsögur. Sagðist skilja umræðuna um mismundandi áhrif á svæði, en í raun væri þetta stuðningur við niðurgreiðslur á lambakjöti til neytenda. Umræða um þetta í dag væri galin, þetta væri búið og gertog þegar búið að samþykkja samningana meðal bænda. Aðalmálið í dag væri boðuð verðlækkun til bænda. Hvað myndi LS gera í því ef einhver félagsmaður fær ekki slátrað í haust, það mun engin færa sig á milli húsa. Flutningur á sláturfé væri galin, keyrt framhjá mörgum sláturhúsum. Ræddi um markaðsmál, það væru allir komnir með snjallsíma, hvatti menn til að vera duglegir að taka myndir ef eitthvað athugavert sæist í kjötborðunum í búðum. Úthaldið mætti ekki bresta í markaðsmálunum. Ræddi um sumarslátrun á Hvammstanga, meðalþyngd væri enn sem komið væri 16,1 kg, fín gerð og það væri nóg framboð að sláturlömbum sem væri vel.

Einar Ófeigur Björnsson: ræddi um ullarmál. Ístex hefði verið beðið um það fyrir tveim árum að senda bændum jákvæð skilaboð um frágang og flokkun. Ræddi um snoðrúning, nauðynlegt væri að taka snoðkápuna af að hausti ef menn taka ekki snoð af að vori. Sagðist ekki geta setið undir því að bændaforystan hefi komið illa undirbúninn að samningaborðinu, ríkið hefði komið illa undurbúið, hefðu lagt fram einungis 2 minniblöð á öllu þessu samningsferli sem bæði gengu út á að leggja af greiðslumarkskerfið, en ferlið taldi rúmlega 40 fundi. Það væri greinilegt að fjármálaráðherra hefði ekki haft umboð frá sínum flokki. Ræddi um beitarmál, auðvitað hefðu þessi mál verið rædd og m.a ætti að koma á vöktun.

Erlendur Ingvarsson: það er alltaf sársaukafullt þegar afurðarverð lækkar og enn meira þegar búvörusamningar væru kominir í fullt gildi. Það væri í raun komin forsendubrestur nú þegar. Hvað væri til ráða. Það hefði átt að hlutsta á sauðfjárbændur um 10%-20% niðurtröppun á greiðslumarkinu.

Ágúst Ingi Ketilsson; þakkar fyrir framsöguerindin og heimboðið. Sagði það aldrei gott að tala saman í gegnum fjölmiðla, bændur yrðu að standa saman. Sagðist ekki hafa trú á því að fé myndi fjölga amk ekki á sínu svæði, hefur heyrt um menn sem ætli að hætta. Það væri meira upp úr ferðaþjónustunni að hafa. Hefði heyrt að eitt herbergi gæfi eins og ca 80 ær. Ræddi um merkingar á kjöti, yrðu að vera á erlendu tungumáli líka. Umræðan um landbúnað væri oft ömurleg og röng. Þurfum að snúa umræðunni við, hætta að tala um stuðning og styrki heldur um niðurgreiðslu. Sagðist vera stuðningsmaður þess að byggð væri alls staðar. Það væru allir jafnmikilvægir í sveitum landsins, litlir sem stórir.

Jóhann Ragnarsson; sagðist hafa gleymt að þakka fyrir heimboðið en gerði það hér með. Það væri hollt fyrir alla að koma  á þetta harðbýla svæði. Sagði Þóru hafa hitt naglann á höfðuð, megum ekki missa neinn úr samfélaginu.Í raun mætti segja að hvert svæðið væru lítil hagkerfi. Hefur áhyggjur af þessum svæðum þar sem fólk hefur ekki tök á annari vinnu. Það væri ljóst að það hefði ekki verið neinn vilji hjá forystunni til að framfylgja ályktun LS. Ræddi um að innan afurðastövðanna ynni fagfólk sem þyrfti að treysta og ekki mætti mynda gjá á milli afurðastöðva og bænda. það þyrfti nýja nálgun á samstarfi við afurðastöðvarnar. Sauðfjárræktin væri byggðarmál hjá alþingismönnum. Hann hefði gert sér grein fyrir því að núverandi kerfi væri ekki gallalaust og hefði alveg sætt sig við að ganga eitthvað lengra en ályktun LS gekk út á. En það væri ljóst að menn væru ekki að sjá þessa hluti fyrir eins og samninganefndin gerði. Samningsmarkiðin væru brostin og óvissan væri slæm og erfitt að fóta sig í þessum rekstri, sérstaklega hjá þeim sem væru að byrja búskap. Samningurinn mynda auka á áhættusækni- m.a geymslu á lömbum- sauðburður fyrr á vorin og fjöldun á fé.

Guðrún Ragna Einarsdóttir: þakkar fyrir heimboðið og erindin. Lýsti yfir vonbrigðum sínum með að vera ekki upplýst betur um hvað væri í gangi með samninginn. Er verið að pakka honum saman í 3 ár. Hverjar væri þessar breytingar sem atvinnuveganefnd væri að boða. Menn væru missáttir á sínu svæði, en það væri ljóst að menn hefði samþykkt 10 ára samning en ekki 3 ára. Talað væri um 2,5% hækkun afurðaverðs fram að endurskoðun, hvað væri í raun verið að tala um. Ræddi um að sláturleyfishafar hafa verið að hagræða og eru að reyna að hagræða en stundum væru það bændur sjálfir sem stæðu í veg fyrir hagræðingu. Ræddi um að allir hefði átt von á lækkun afurðarverðs en ekki svona mikið. Ræddi landnýtingarmál. Sér finndist að allir ættu að skila inn áætlunum. Það væri rétt hjá Birgi Ingþórssyni að ríkið hefði ekki komið með sterkt bakland inn í viðræðurnar. Ræddi hverjir ættu að fá ríkisstuðning, þeir sem væru með undir 200 kindum ættu ekki að fá stuðning en þeir væru vissulega mikilvægir í sveitum landsins. Nýliðun væri erfið, allt snerist þetta um pólitík.

Jóhann Pétur Ágústsson; þakkar fyrir erindin. Ræddi um hvernig menn fara vel undirbúnir í samningaviðræður. Það væru skiptar skoðanir um samninginn. Nú værum við stödd á svokallaðri jaðarbyggð. Hann hefði gjanan viljað að Borgfirðingar og Snæfellingar hefðu látið gera sambærilega úttekt á áhrifum samningsins á þau svæði. Tilkynningar sláturleyfishafa eiga ekki að koma á óvart, verð í páskaslátrun gefa yfirleitt línurnar fyrir komandi haust. Eigum ekki að hjóla í verslunina óhugsað.  Veit til þess að verslanir á Ísafirði voru lambakjötslausar í 5. daga rétt fyrir verlsunarmannahelgina.

Einar Ófeigur Björnsson; Tók undir það sem sagt hafi verið um jaðarsvæði, þekkti vel til á slíkum svæðum. Aðgerðir vegna jaðarsvæða ættu hins vegar ekkert eingöngu heima í sauðfjársamningi og BÍ gæti ekki samið sérstaklega fyrir einstaka svæði. Sagði haustverð 2015 liggja til grunndvallar verðþróun við endurskoðun 2019,  enda það verð sem var í gildi við undirritun samningsins.Sagði margt benda til að forsendubrestur yrði fyrir nýjum samningum við endurskoðun og ef svo yrði gæti umræðan allt eins farið að snúast um að fækka bændum. Vegna spurninga frá Guðrúnu Rögnu um áliti atvinnuveganefndar á samningnum sagði Einar ekki um að ræða neina breytingu á greinum sem snúa að gildistíma samningsins. Ef breyta eigi efnisatriðum hafi verið sagt að það þýði að setjast þurfi aftur að samningaborðinu og þá væntanlega að kjósa aftur. Fari samningar hins vegar ekki í gegn núna er hætt við að ferlið lendi allt á byrjunarreit.   

Þórarinn Ingi Pétursson: viðurkenndi varðandi búvörsamninga að það væri eflaust hægt að sjá atriði sem betur mættu fara þegar horft væri til baka varðandi samningagerðina, það ferli væri hins vegar búið og gert. Taldi niðurstöður fundarmanna varðandi ullina þær að auka verðmun á milli flokka og stjórn myndi skila inn tillögum þess efnis til stjórnar BÍ þ.e.a.s vegna stuðlana. Ræddi nauðsyn þess að koma upplýsingum um flokkun og frágang til bænda fyrir haustið. Ræddi að menn teldu að verið væri að hjóla of mikið í sláturleyfishafana en hann teldi það ekki vera.  Það væri búið að ræða við stjórnir allra fyrirtækjanna, funda og koma okkar málflutningi varðandi viðmiðunarverðið á framfæri. Það kom stjórnarmönnum LS á óvart þessi mikla lækkun. Sagðist alfarið hafna því að það væri verið að fara fram úr sjálfum sér.Raunverulegi vandinn væri sá að hækkun hefur ekki orðið sl 3-4 ár á markaði. Neytendur hafa ekki þurft að borga meira fyrir kg út úr búð. Sláturleyfishafar tala um söluaukningu í sömu setningu og þeir boða lækkun á verði, honum finndist það skrítinn málflutningur. Verðlækkun til okkar hefði í raun keðjuverkandi áhrif á allan kjötmarkað. Það hafa margir talað um samstöðu og fundurinn þarf að koma með einhverja ályktun og kastaði fram drögum að ályktun frá stjórn.

Birgir Ingþórsson; Tillagan að mörgu leyti ágæt, þurfum að taka nokkuð stíft til orða en þurfum að benda á fákeppni innan smásölunnar. Þetta er grafalvarleg staða.

Einar Ófeigur Björnsson: Nauðsynlegt að senda eitthvað frá okkur en er hugsi um orðalag. Ígrunda þarf tillöguna betur.

Jóhann Ragnarsson: þurfum að vera raunsæ og það blasir við okkur að við erum ekki að fá fram 12,5% hækkun í haust. Við verðum að taka á okkur hluta af því tapi sem var árið 2015 í rekstri þessara stöðva. Sammála því að fundurinn sendi eitthvað frá sér en þurfum að vera raunsæ.

Birgir Arason: Vill að verðið út á markaði verði hækkað og að fundurinn sendi eitthvað frá sér.

Erlendur Ingvarsson: alveg ljóst að eitthvað verður að koma frá fundinum. Viðmiðunarverð er komið út og vanhugsað að bakka út úr þeirri staðreynd, taldi það veikja ályktunina ef bakkað yrði frá því sem þegar hefur verið gefið út..

Þórarinn Ingi Pétursson: Við verðum að standa fast á okkar.

Guðrún Ragna Einarsdóttir: Ekki hægt að bakka út úr útgefnu viðmiðunarverði. Erum hagsmunasamtök bænda ekki sláturleyfishafa. Breyta þarf fyrirliggjandi ályktun hvað varðar orðalag.

Merete Rabölle: eitthvað þarf að koma frá okkur, er kannski betra að ræða við sláturleyfishafa.

Jóhann Ragnarsson: væri ágætt ef stjórnarmenn kæmu upp og skýrðu rökstuðninginn á bakvið viðmiðunarverðið. Gengið vinnur á móti okkur. Ekki hægt að ganga á móti viðmiðunarverði stjórnar en fannst of hátt skotið.

Einar Ófeigur Björnsson: við eigum ekki að bakka út úr viðmiðunarverði sem búið er að gefa út. En það er ekki hægt að senda þessa ályktun eins og hún stendur. %-tölur eru oft svolítið hættulegar.

Böðar Baldursson: við verðum að fylgja viðmiðunarverðinu eftir.

Guðrún Ragna Einarsdóttir: 12,5% er of hátt en við verðum að standa við þetta en hafa ályktunina hnitmiðaða.

Þóra Sif Kópsdóttir: Það er ekki bannað að græða var sagt í sjónvarpi einu sinni. Hún styður að fara fram með þessa tillögu en orðalagið er ekki gott. Er kannski einhver möguleiki á að komast að samkomulagi við verslunina?  Þurfum einnig að skýra okkar stöðu gagnvart neytendum. Gengur ekki upp að fá 10% lækkun, megum bara ekki láta það yfir okkur ganga. Þurfum að taka þátt í umræðum í fjölmiðlum, útskýra hvaða verð bændur þurfa.

Erlendur Ingvarsson: Menn tala um árangur með ályktuninni, segir það er alveg sama hvað kemur frá okkur það skilar okkur engu, skulum alveg átta okkur á því í hvaða stöðu við erum.

Birgir Ingþórsson: Lágmarkið sem bændur þurfa er 12,5% við getum ekki bakkað út úr því sem komið er. Við megum ekki gefa okkur strax. Þurfum að benda á hækkun til verslunar. Gerði sér strax ljóst að viðmiðunarverð næðist aldrei.

Oddný Steina Valsdóttir: þakkar fyrir heimboðið og erindin. Kom inn á að það hafi verið skiptar skoðanir við framsetningu viðmiðunarverðs, rætt hefði verið um 5,6% hækkun sem væri þá vísitöluleiðrétting afurðaverðs sl tveggja ára en það hafi þótt lágt í ljósi hækkana annara stétta í þjóðfélaginu. 12,5% hafi verið niðurstaðan sem sé í samræmi við markmið um 25% hækkun sem sett var til þriggja ára við útgáfu viðmiðunarverðs í fyrra, það muni þá nást á næstu tveimur árum. 12,5% hafi líka verið í samræmi við hækkun launavísitölu sl. 12 mánaða. Samtal við sláturleyfishafa með eftirfylgni á útgefnu viðmiðunarverði hefur verið óvenju mikið þetta haust. Eina vonin eru þeir sláturleyfishafar sem eiga eftir að gefa út verð, að þeir fari ekki sömu leið.

Einar Ófeigur Björnsson: umræðan um að það þurfi að fækka fé um þriðjung kemur, bara spurningin um hvenær. Þá þarf að nálgast þá umræðu málefnalega.

Gísli Guðjónsson: styður tillöguna. Sláturleyfishafar vita upp á sig sökina, ekki langt síðan að þeir hvöttu til fjölgunnar á fé.

Að lokum var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Formannafundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Birkimel á Barðaströnd 26. ágúst 2016, krefst þess að sláturleyfishafar virði það viðmiðunarverð sem samtökin gáfu út þann 28. júlí í samræmi við skýra heimild 8. gr. búvörulaga nr. 99/1993. Fundurinn álítur viðmiðunarverð samtakanna vera það lágmark sem bændur verða að fá. Yfirlýsingar tiltekinna sláturleyfishafa og tilkynningar um lækkun afurðaverðs eru óskiljanlegar á meðan innanlandssala eykst, ferðamönnum fjölgar, vextir fara lækkandi, efnahagshorfur eru góðar og heimsmarkaðsverð á lambakjöti er á uppleið.Stjórnir og stjórnendur afurðastöðva dragi þær tafarlaust til baka áður en óafturkræf áhrif koma fram í íslenskri sauðfjárrækt og sveitum landsins. Fundurinn skilur erfiðar aðstæður sláturleyfishafa sem þurfa að kljást við fákeppni á smásölumarkaði, launaskrið og kostnaðarhækkanir. Fundurinn hafnar hins vegar ásetningi fyrirtækjanna að velta fortíðarvanda, kostnaðar- og launahækkunum eingöngu yfir á bændur.

Fundurinn skorar á þá sláturleyfishafa sem ekki hafa enn gefið út verskrár að virða lögmætt og hófstillt viðmiðunarverð Landssamtaka sauðfjárbænda.

2. Breytingar á félagskerfi, rafræn gæðastýring og fríðindakort

Þórarinn Ingi Pétursson fór yfir þær breytingar sem þarf að gera á samþykktum LS til að geta farið að rukka inn félagsgjald. Aðalfundur LS mun gera tillögu að árgjaldi  fyrir hvert ár. Litlar breytingar þarf að gera. En rætt er um að rukka inn búsgjald. Stjórnin búin að koma vinnu við rafræna gæðastýringu af stað og fríðindakort verður sent út til félagsmanna fyrir árið 2017. Það er verið að rukka búnaðargjald af bændum sem er fyrirframgreiðsla upp í álagningu 2016. Hvað gerist svo í framhaldinu er ekki alveg vitað ennþá en í öllu falli er gengið út frá því að samtökin þurfi að fjármagna sig með félagsgjöldum strax á næsta ári. Stjórn mun vinna áfram að þessum málum og leggja þetta fullmótað fyrir aðalfund LS 2017.

Nokkur umræða varð um innheimtu félagsgjalds og búsgjald. Bent var á að hægt væri að setja hámarksfjölda félaga á hvert bú til að koma í veg fyrir smölun en í dag væru sárfá dæmi um fleiri en 3 félagsmenn með sama heimilisfang.

3. Önnur mál:

Sæþór Gunnsteinsson; þakkar fyrir fundinn, fannst þetta málefnalegur fundur.

Erlingur Ingvarsson; þakkar fyrir fundinn. Málefnalegur fundur.

Jóhann Ragnarsson; þakkar fyrir fundinn. Hann kom sér á óvart, var málefnalegur og góður.

Einar Ófeigur Björnsson; þakkar fyrir fundinn. Þetta mun verða sinn síðasti formannfundur.

Birgir Arason: þakkar fyrir góðan fund. Þetta mun vera sinn síðasti formannafundur þar sem hann er að ganga úr stjórn félagsins í Eyjafirði. Þakkar samferðamönnum sínum í samtökunum. En um leið býður hann formannafundi 2017 að vera í Eyjafirði.

Ólafur Benediktsson: þakkar fyrir góðan fund og hælir grillvagni samtakanna.

Merete Rabölle: þakkar fyrir fundinn en veltir fyrir sér framtíðinni varðandi félagskerfið.

Birgir Ingþórsson; þakkar fyrir góðan fund.

María Dóra Þórarinsdóttir; þakkar fyrir móttökurnar og góðan fund, getur því miður ekki komið með í ferðina á eftir.

Jóhann Pétur Ágústsson; býður fundarmönnum og mökum í morgunkaffi heim að Brjánslæk daginn eftir.

Þórarinn Ingi Pétursson: þakkar fyrir góðan fund. Þetta hafi verið mjög góður fundur, allir formenn tekið til máls. Nú þurfum við að standa saman, nú blási á móti en sauðfjárbændur standi það af sér. Með þeim orðum sleit formaður Landssamtaka sauðfjárbænda fundi


Fundi slitið 
Fundargerð ritaði Þórhildur Þorsteinsdóttir

Að loknum fundi var farið í skoðunarferð sem skipulögð var af félagi sauðfjárbænda á Vestfjörðum.  Í kjölfarið var svo sameiginlegur kvöldverður

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar