Print

Fundargerð formannafundar 2008

Fundargerð formannafundar Landssamtaka sauðfjárbænda.  Fundurinn var haldinn í Gíslaskála í Bláskógabyggð, föstudaginn 22. ágúst 2008.  

Formannafundur Landssamtaka sauðfjárbænda

Gíslaskála í Bláskógabyggð, 22. ágúst 2008

Jóhannes Sigfússon (JS) formaður LS setti fundinn að loknum undanúrslitaleik Íslendinga og Spánverja á Ólympíuleikunum í Beijing. Mættir voru fulltrúar 16 af 19 aðildarfélögum LS auk þriggja stjórnarmanna í LS og framkvæmdastjóra.

Hann tilnefndi Sindra Sigurgeirsson og Þórarinn Inga Pétursson sem fundarstjóra og Sigurð Eyþórsson sem ritara.  Ekki bárust athugasemdir við það og tóku þeir þegar til starfa.

1. Störf stjórnar

JS ræddi störf stjórnar samtakanna frá aðalfundi í apríl sl.  Viðmiðunarverð var gefið út í framhaldi af aðalfundinum með samþykktri 98 kr. hækkun.  Til greina kom að hækka það aftur nú fyrir sláturtíð en það var niðurstaða stjórnar að gera það ekki.  Útflutningsskylda var ákveðin 28% í byrjun síðasta mánaðar eftir sömu forsendum og venja er.  Birgðir eru meiri, aðallega vegna minni útflutnings.

Hann sagði sláturleyfishafa rangtúlka sauðfjársamning með því að halda fram það væri verið að færa peninga milli þeirra og bænda.  Birgðahald og markaðsfé er 311 m. kr. á þessu ári en á að lækka um 150 m. kr. á gildistíma samningsins í heild. Engin lækkun er á milli 2007 og 2008. Gæðastýringargreiðslur eru jafnframt að hækka en það átti m.a. að koma á móti því að útflutningsskyldan fellur niður á næsta ári.  Sé það svigrúm nýtt nú verður það ekki gert aftur á næsta ári.

            Enginn vildi byrja á því að gefa út afurðaverðskrá nú í haust en Norðlenska gerði það þó á endanum og í kjölfarið fylgdi Fjallalamb.  JS ræddi síðan stöðu sína sem formaður LS og stjórnarformaður Fjallalambs.  Hann minnti á að hann hefði gengt stöðunni hjá Fjallalambi frá stofnun fyrirtækisins og þegar hann var kjörinn formaður LS hefði hann strax tekið fram að hann hygðist starfa áfram fyrir Fjallalamb.  Gagnrýnin hefði alltaf verið einhver en hún hefði verið frá báðum vængjum, einnig frá sláturleyfishöfum - enda þýddi þetta að hann hefði ýmsar upplýsingar um starfsemi þeirra sem annars væru ekki auðfengnar.

Stjórn LS ályktaði um afurðaverðið sl. mánudag og vakti það talsverða athygli og fjallað hefur verið heilmikið um samþykktina í fjölmiðlum.  Það verður þó að gæta að því að Samkeppniseftirlitið virðist vera með samtök bænda undir sérstakri smásjá og því verður að stíga varlega til jarðar.  E.t.v. væri mögulegt að beita sér fyrir einhverjum hliðaraðgerðum vegna hás vaxtakostnaðar afurðalána.  Ósamið er um vaxta- og geymslugjöld.  Nefnt hefur verið að hugsanlega mætti breyta þeim greiðslum í geymslugjöld eingöngu og greiða þá út fyrr en áður. Það myndi létta á fjármagnskostnaðinum. Örugglega er erfitt að koma út nauðsynlegum hækkunum á kjöti í smásölu.  Menn telja að hann þoli ekki meira en 10-12% nú og tala jafnframt um minni framlegð á lambakjöti.

JS fór svo yfir niðurstöður umsókna um nýliðunarstyrki.  Alls bárust 38 umsóknir og voru 22 samþykktar.  Það gengu því um 20 mi. kr. út en greiddar voru kr. 4.000 í styrk á hvern grip, þó að teknu tilliti til kaupverðs.  16 umsóknum var hafnað, flestum vegna þess að of langt var liðið vegna þess að kaup fóru fram eða að umsækjendur höfðu áður verið handhafar beingreiðslna í sauðfé. 

JS fór einnig yfir samþykktir aðalfundar sem tengjast sláturtíðinni og stöðu þeirra sem og afgreiðslur fagráðs. Um meðferð lambakjöts við slátrun:  Matís ætlar að gera úttekt á því nú í sláturtíðinni.  Um snyrtingu á skrokkum í sláturhúsum: Styrkur hefur verið veittur til Yfirkjötmatsins til að auka samræmingu og eftirlit milli húsanna. Um fituflokkun kjöts: Fagráð samþykkti að leita eftir samstarfi við Eyþór Einarsson frá Skörðugili um framhald málsins en hann hefur verið að rannsaka það.

            JS sagði svo að fara þyrfti yfir kostnað vegna gærumála.  Kostnaður við gæruvinnslu er of hár en útflutningsverðmæti þeirra var um 100 mi. kr. árið 2007.  Ekkert af því skilar sér til bænda þar sem að aðeins eitt sláturhús greiðir þeim eitthvað fyrir þær.

Að lokum ræddi JS málefni Bjargráðasjóðs. Fyrir liggur að hann verður lagður niður.  Óljóst er hvernig verður með tryggingaverndina.  Sjóðurinn á mikið eigið fé en sauðfjárbændur eiga þó ekki inneign.  Mikilvægt væri að einhver tryggingavernd gegn stóráföllum yrði áfram fyrir hendi.

Sigurður Eyþórsson (SE) framkvæmdastjóri LS tók síðan til máls:

SE ræddi sölumálin.  Sala innanlands hefur verið svipuð og 2007 en útflutningur meira en helmingi minni, sem kæmi á óvart í ljósi mikils gengisfalls krónunnar.  Júlí var mjög góður innanlands og 21% betri en 2007 en júní var aftur lakari.  Ný markaðsherferð hefur verið í gangi að fullu frá því í byrjun júní s.s. með nýjum auglýsingum í blöðum og sjónvarpi, nýrri heimasíðu og fleiri birtingum en áður.

Rekstur Ístex hefur gengið mun betur en í fyrra, ekki síst út af áðurnefndu gengisfalli krónunnar.  Útlit er fyrir mun betri afkomu miðað við það sem fyrir liggur.

SE ræddi að lokum vinnu vegna rekstrargrunns fyrir sauðfjárbú.  Gamla verðlagsgrundvelli sauðfjárafurða er enn haldið við af Hagstofunni en margar forsendur hans eru orðnar úreltar.  Hækkun hans frá júní 2007-júní 2008 var rúm 17%.  SE og Sindri Sigurgeirsson eru að vinna að málinu.  Bent hefur verið á að notendur dkBúbótar geta sent inn nafnlaus gögn inn í gagnagrunn hjá BÍ og uppúr þeim er einfalt að vinna rekstrarúttektir byggðar á raungögnum.  Innsending er afar einföld en gerð er krafa um upplýst samþykki. Fáist sauðfjárbændur til að taka betri þátt í að senda inn gögn væri þar kominn grunnur að nýjum verðlagsgrundvelli byggðum á raungögnum.    

Almennar umræður:


Birgir Ingþórsson (BI): Þakkaði skýrslur JS og SE. Nú væri uppi  erfiðasta staða í sauðfjárræktinni frá upphafi.  Hann taldi kostnaðaraukningu á árinu 135-140 kr. /kg á sínu búi.  Mikið bil væri á milli verðskráa sláturleyfishafa og bænda.  Fækkun bænda væri fyrirsjáanleg og þá sláturhúsa í framhaldinu.  Bændur verða að hafa eitthvað út úr þessu til að halda áfram rekstri.  Verslunin stýrði markaðnum - þar þyrfti öflugra samkeppniseftirlit.  Líkur væru á talsverðri fækkun haustið 2009 þar sem menn vilja nýta heyin frá því í sumar.  Sagðist hafa orðið var við veðköll frá bönkunum eftir að afurðaverðskrár fóru að birtast (óskað væri eftir viðbótartryggingum og/eða að innlegg sé greitt beint til banka en ekki inn á reikning bónda).   Nefndi að bændur fengju ekki greitt neitt fyrir ýmsar afurðir s.s. innmatur, gærur og hausa.  Afurðalánin væru þó auðvitað dýr eins og annað fjármagn í landinu.  Betri fréttir væru þó af ullinni.   Birgir taldi ekki rétt að nota bókhaldsleiðina í gegnum dkBúbót sem SE nefndi.  Taldi að það ætti að nota módel með fyrirfram ákveðnum stærðum og vildi að það yrði tilbúið í febrúar.  Að lokum lýsti hann þeirri afstöðu að stjórnarmenn LS ættu ekki að sitja  í stjórnum afurðasölufyrirtækja

Böðvar Sigvaldi Böðvarsson (BSB):  Taldi það ósvífni þegar sumir sláturleyfishafar haldi því fram að bændur fái þær hækkanir sem L.S. lagði til með viðmiðunarverðinu í vor og leggja þá saman boðaðar verðhækkanir sínar og 300 milljónirnar sem bætast við álagsgreiðslupottinn í haust samkvæmt nýjum samningi. Sú upphæð lá fyrir þegar viðmiðunarverðið var gefið út og það er ótækt að sláturleyfishafar séu að hringla sama eigin verðskrám og ríkisstuðningnum.  Enda ljóst að ef bændur ná ekki jafn góðum samningi við ríkið næst þá munu sláturleyfishafar ekki bæta skaðann.

Hvatti menn til að pressa á sína sláturleyfishafa með verðin og benti á möguleikana á því að flytja féð sjálfir.  Efaðist um bókhaldsleiðina vegna rekstrargrunnsins.  Það væri erfitt að finna hrein sauðfjárbú þar.  Óskaði eftir því að fundargerðir formannafunda yrðu birtar á heimasíðu samtakanna.

Erlendur Ingvarsson (EI): Taldi framkomna afurðahækkun of litla.  Taldi að JS hefði átt að beita sér fyrir því að Fjallalamb gæfi út fyrstu verðskrána.  Nefndi einnig að ástæða væri til þess að gera skoðanakönnun meðal sauðfjárbænda um hvað þeir ætluðu sér að gera í ljósi framkomins afurðaverðs s.s. hvort menn ætluðu að draga saman eða hætta.

Einar Ófeigur Björnsson (EÓB): Taldi þróun í greininni afar slæma.  Engum hækkunum hefur verið komið út á markaðinn frá sl. vori og þar til nú. Eina vopnið sem við höfum er vaxta- og geymslugjaldið og við þurfum að nota það. Sagði um rekstrargrunninn að eðlileg gögn frá sauðfjárbændum eru vandfundin - þ.e. frá hreinum búum. 
Hann lýsti áhyggjur af búnaðargjaldinu vegna fyrirhugaðrar niðurlagningar Bjargráðasjóðs.  Ekki væri einfalt að leggja af Bjargráðasjóðshluta búnaðargjaldsins þar sem hann er afar misjafn eftir greinum. Tvísýnir tímar væru framundan - LS og BÍ þurfa að velta alvarlega fyrir sér stöðunni.

Þóra Sif Kópsdóttir (ÞSK): Vildi beita vaxta og geymslugjaldinu.  Kominn væri tími til að sláturleyfishafar standi með okkur því við höfum oft staðið með þeim. Spurði af hverju væri lítið sem ekkert flutt út - en enginn sláturleyfishafi væri til svara.  Tekjur sauðfjárbænda væru undir skattleysismörkum.

Sigríður Jónsdóttir (SJ): Spurði um hvar fundargerð aðalfundar væri á saudfe.is eða hvort hún væri komin þar inn.

Birgir Arason (BA): Las upp ályktun stjórnar Fsb. við Eyjafjörð sem er svohljóðandi:

"Sú hækkun afurðaverðs sem fram er komin hjá Norðlenska, er undir þeim væntingum sem sauðfjárbændur áttu von á samkvæmt samþykkt aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda síðast liðið vor. Þessi hækkun dugar varla meira en fyrir 1/3 af þeim kostnaðarhækkunum sem nú þegar eru komnar fram hjá sauðfjárbændum frá haustinu 2007. Þessar gríðarlegu verðhækkanir á aðföngum, hafa orðið til þess að afkoma sauðfjárbænda er komin yfir þolmörk.

Stjórn F.S.E. hefur fullan skilning á þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin og telur að fara verði varlega og horfa til framtíðar fyrir bændur og afurðarstöðvar eigi þessar atvinnugreinar að lifa þær þrengingar af sem nú dynja yfir. Komast verður upp úr þeirri gryfju að verslanir ráði nær eingöngu för í verðlagningu á afurðum bænda. Samstaða allra er mjög mikilvæg um þessar mundir eigi þessi atvinnustarfssemi ekki að fara í þrot, með skelfilegum afleiðingum fyrir landsbyggðina og raunar þjóðina alla.

Stjórn F.S.E. skorar því á stjórnvöld að legga sitt af mörkum til að koma rekstrarumhverfi atvinnugreinarinnar í viðunandi horf  t.d. með því að fjármagnskostnaði fyrirtækja og heimila verði komið í vitrænt ástand."

Birgir taldi að við þyrftum að stíga varlega til jarðar og ættum að vinna með afurðastöðvunum að lausn vandans.  Minnti á matvælafrumvarpið og lagði áherslu á að það ætti ekki að fara í gegn

Sindri Sigurgeirsson (SS): Lýsti sig ósammála Birgi Arasyni um viðhorf gagnvart sláturleyfishöfum.  Hann fór yfir hagnað þeirra 2007 og sagði þá þurfa að standa með okkur núna.  Við þyrftum alltaf að vera með á hreinu hvaða hagsmuni væri verið að verja hverju sinni. Ræddi vaxta- og geymslugjöldin og einnig vangaveltur formanns BÍ um sauðfjárræktina í nýlegri grein í Bændablaðinu.  Varðandi rekstrargrunninn sagði hann að grunnurinn þyrfti að vera byggður á alvöru gögnum svo tekið yrði mark á honum.

Einar Guðmann Örnólfsson (EGÖ): Sagði ekki veita af jákvæðari umræðum á fundinum.  Við værum að framleiða sterka markaðsvöru, salan væri ágæt þó við ættum í barningi um verðið. Við þyrftum að hugsa jákvætt og minnti á að Kjölur tæki enda. Spurði um hversvegna dregist hefði að senda erindi til landbúnaðarráðuneytisins um staðfestingu útflutningsskyldu.

JS tók til máls og svaraði fyrirspurnum: Ræddi geymslugjöldin.  E.t.v. væri hægt að semja við hvern og einn sláturleyfishafa gegn því að þeir gerðu ákveðnar söluáætlanir en óljóst er hvað heimilt er að gera í því efni með tilliti til samkeppnislaga.  Hann rakti svo afurðaverð til bænda erlendis sem SE hefur tekið saman.  Þau eru langhæst í Noregi en annarsstaðar yfirleitt svipuð eða hærri en hérlendis. Tók undir að það væri ósvífin umræða að tala um tilfærslu peninga í sauðfjársamningi.  Þetta væri samningsfé sem væri tilkomið til að mæta hugsanlegri afurðaverðslækkun vegna niðurfellingar útflutningsskyldu. 

SE tók til máls og svaraði fyrirspurnum.  Hann tók undir orð SS varðandi það að rekstrargrunnur þyrfti að byggja á raungögnum.  Fór einnig yfir misskilninginn sem varð þess valdandi að erindi BÍ um staðfestingu útflutningsskyldu var sent seint.

Þá var gert kaffihlé.

Að loknu kaffihléi hélt Baldvin Jónsson (BJ) erindi um útflutning og markaðsstöðu kindakjöts.  Hann nefndi m.a. við þyrftum að hugsa jákvætt og horfa á markaðsstöðu landsins í heild. Hver væri markaðsstaða þess og framleiðsluvara þess. Í hverju felast verðmætin? Taldi að samvinna íslenskra matvælaframleiðenda þyrfti að vera meiri.  Gott starf hefur verið unnið t.d með Food and Fun og fleiru og tækifærin eru fjölmörg.  Fólk vildi kaupa íslenska framleiðslu.

Vandræðin eru oft á þann veg að fyrirtækin hér heima trúa ekki á vörurnar. Skrítið að standa alltaf í sömu sporum þrátt fyrir allt starfið.  Saga útflutningsins er skrykkjótt og sama baslið á hverju hausti. Gera þarf áætlanir sem hægt er að treysta. Taldi bændur þurfa að hafa miklu meiri aðkoma að rekstri sláturhúsanna.  Hver væri t.d. árangurinn af úreldingarbótunum.  Allir kostnaðarliðir eiga að vera ljósir t.d. hvað kostar nákvæmlega að slátra lambi.  Við ættum sérstöðu, við þurfum að varðveita auðlindir okkar og eigum mörg sóknarfæri. Hann hefði óbilandi trú á vörum íslensks landbúnaðar en við yrðum að stjórna ferlinu í heild. Afurðastöðvarnar deildu of mikið og ynnu lítið saman að útflutningi.  Hann sagði að vel væri hægt að selja meira til Bandaríkjanna en aldrei hefði verið kostur á að fá nóg kjöt héðan.

Sigurður L. Hall (SLH) tók síðan til máls: Sagði enga kjötafurð í heiminum er jafngóða og flott íslensk lambakjöt og bar það saman við japanska Kobe nautakjötið. Hvatti menn áfram. 

Almennar umræður og fyrirspurnir

Þorsteinn Kristjánsson (ÞK): Þakkaði  erindin Spurði um hvort að vandamálið væri helst lítil afkastageta sláturhúsanna.  Það mætti sjá fyrir sér 10 þúsund tonna framleiðslu þar sem 30% yrði flutt út í gegnum sérstaka útflutningsmiðstöð en 70% á innanlandsmarkað. 

BA:Verslunin stýrir verðinu á smásölumarkaði.  Spurði hvort við þyrftum ekki hreinlega að ræða við aðila þar eins og t.d. Bónus.  Ítrekaði að matvælafrumvarpið yrði til tjóns.  Spurði um verðlagningu á útflutningskjöti á Bandaríkjamarkað og hvernig það kjöt væri unnið.

BI: Taldi að við þyrftum að vera niður á jörðinni með útflutninginn en sagðist samþykkur útflutningsmiðstöð. Efaðist um að metnaðarfullar áætlanir gætu gengið eftir.  Kostnaður væri hár vegna mikillar vinnslu í skamman tíma og þ.a.l. ekki næg framlegð.

BSB: Spurði hvers vegna væri áhuginn á útflutningi ekki meiri - hvað væru menn að fá út úr þessu.

SLH: Lýsti innihaldi lamb packs sem eru að fara á Bandaríkjamarkað og hvernig þeir nýttust.

SJ: Ræddi samband bænda, sláturhúsa og verslana og taldi það ekki í nægilega góðum farvegi.

EÓB: Sagði að sóknarfærin fyrir landbúnaðinn væru ekki hér heldur erlendis

Þakkaði BJ fyrir mikla trú á verkefnið og landbúnaðinn í heild

JS: Þakkaði BJ fyrir dugnaðinn og þrautseigjuna.  Sterkari samstaða væri nauðsyn.  Mjólkuriðnaðurinn er í betri stöðu með nánast allt sitt í einu fyrirtæki. Slagsmálin væru of mikil innbyrðis í okkar grein.

BJ: Þakkaði góð orð og svaraði fyrirspurnum. Menn þyrftu að sýna meira sjálfstraust og  nálgast neytendur meira. Nefndi dæmi um bein tengsl í gegnum bændamarkaði og stakk upp á því að skipuleggja sambærilegar kynningar og í USA hérlendis.  Bændurnir kynna í búðunum sjálfir, kynnast neytendum og kjötiðnaðarmönnum o.fl.

Minnti aftur á sérstöðuna og bar saman Ísland og Nýja-Sjáland.  Innflutningur á búvöru er bannaður þangað - og hart tekið á brotum - vegna þess að menn vilja varðveita sérstöðu sína. Ný verðmæti yrðu ekki síst til með viðskiptavild. Þakkaði svo aftur fyrir að fá að koma og halda erindi.
 

Að þessu loknu sleit SS fundi
Fleira ekki rætt

Fundi slitið

Fundargerð ritaði Sigurður Eyþórsson.