Fundargerðir stjórnar LS

6. fundur - 7. desember 2013 - Stjórn LS


Fundur stjórnar Landssamtaka sauðfjárbænda,
Hraunsnef í Borgarfirði, 7. desember 2013 kl. 10.00

Mætt: Þórarinn Ingi Pétursson (ÞP), Atli Már Traustason (AT),  Þórhildur Þorsteinsdóttir (ÞÞ), Oddný Steina Valsdóttir (OV) og Helgi Haukur Hauksson (HH).
Að auki: Sigurður Eyþórsson (SE).

Dagskrá:

1. Fréttir af öðrum fundum

a) Fagráð 11. nóvember

            OV sagði frá fundinum.  Mestur tími fór í að ræða forritaþróun.  Fram kom að tölvudeild BÍ vinnur að áætlun um þróun á Lamb.is fyrir árið 2014.  Áætlunin á að vera tilbúin um áramót og þar á m.a. að liggja fyrir fjármagns- og mannaflaþörf til að koma forritinu í fulla notkun árið 2015.  Einnig er verið að vinna greiningu á því hvaða stefnu á að taka varðandi aðlögun að snjalltækjum.  Fram kom einnig að Eyjólfur Ingvi Bjarnason hefur tekið að sér f.h. RML að vinna að forritaþróun í sauðfjárrækt með tölvudeildinni.

b) Formannafundur BÍ 12. nóvember
            ÞP sagði frá fundinum.  Meginefni hans var annarsvegar erfðabreytt matvæli en haldin voru erindi sem leiddu fram mismunandi sjónarmið í málinu enda er Búnaðarþingi 2014 ætlað að marka stefnu um efnið.  Hugmyndir hafa verið innan LS um greinin marki þá stefnu að hætta notkun fóðurs sem inniheldur erfðabreytt hráefni.  Slíkt er tiltölulega einfalt þar sem kjarnfóðurnotkun er mjög takmörkuð i greininni, en engin ákvörðun hefur verið tekin enn. 
            Hinsvegar var á formannafundinum fjallað um starf vinnuhóps um félagskerfi landbúnaðarins sem er að störfum.  Fundarmenn töldu áfangaskýrslu hópsins þarfnast mun meiri skoðunar og ræddu ítarlega hugmyndir um breytingar á félagskerfi BÍ og LS, ásamt hugmyndum um fjármögnunarleiðir.  SE var falið að útvega skýrslu Sambands garðyrkjubænda um endurskoðun á félagskerfi þeirra, en hún var lögð fram í fyrra.  SE var einnig falið að óska eftir áliti Elíasar Blöndal lögfræðings BÍ á nokkrum hugmyndum varðandi fjármögnun.  Dæmi eru um að sauðfjárbændur erlendis fjármagni sameiginleg verkefni með ýmiskonar gjaldtöku af framleiðslu, en því fylgir ekki endilega félagsaðild

c) MAST 28. nóvember
            ÞP sagði frá fundinum þeir SE sóttu hann ásamt fulltrúum BÍ og LK. Frá MAST sátu fundinn þau Jón Gíslason, Sigurborg Daðadóttir og Sigurður Örn Hansson.  MAST boðaði til fundarins í kjölfar stjórnsýsluendurskoðunar Ríkisendurskoðunar sem lauk í október.  Ræddar voru leiðir til að bæta samskipti aðila og kom fram ríkur vilji til þess af hálfu allra sem fundinn sátu. Á fundinum var talsvert rætt um fyrirkomulag búfjáreftirlits sem MAST tekur við um næstu áramót.  Stofnunin hyggst ekki breyta fyrirkomulaginu verulega á næsta ári, en ætlunin er síðan að áhættuflokka allt eftirlit (þ.m.t. gæðastýringareftirlit) og samræma það þ.e. að öllu eftirliti hjá bændum sé til dæmis sinnt af sama aðila í sömu heimsókn.

d) Gæðastýringarreglugerð 28. nóvember
            ÞP og OV sögðu frá fundi í ANR sem haldinn var til að fara yfir fyrirliggjandi reglugerðardrög.  Reglugerðin er á lokastigi.  Tekið hefur verið tillit til innsendra athugasemda LS, en frekari breytingar hafa verið gerðar í kjölfar þess. Nýtt flokkunarkerfi fyrir mat á landi þarfnast frekari skýringa.  Búið er að boða fund þann 10. des til að fara yfir það mál sérstaklega og þær athugasemdir sem útaf standa.

e) MK 6. desember
            ÞP sagði frá fundinum.  Þar var verið  að ræða fjárhagsramma 2014 og áætlanir um markaðsstarf á komandi ári.  OV lýsti áhuga á að stjórn LS kæmi meira að mótun áherslna í markaðsstarfi, einkanlega erlendis og reyndi að beita sér fyrir frekari samvinnu við skipulagningu þeirra verkefna.

f) Aðbúnaðarreglugerð 6. desember
            ÞP sagði frá fundinum.  Nefnd um nýja aðbúnaðarreglugerð fyrir sauðfé og geitur er að ljúka störfum.  Hún mun skila til ANR sem síðan sendir drögin út til umsagnar eftir sína yfirferð.  LS munu því fá reglugerðina til formlegrar umsagnar síðar og einnig BÍ.

2. Starfið framundan

a) Starf og ímynd LS sbr. umræðu formannafundar
            ÞÞ reifaði málið.  Mat félaganna á starfi LS hefði að jafnaði verið gott. Jákvæð reynsla væri af því að senda félögunum úrlausnarefni fyrir formannafund og ástæða væri til þess að gera það aftur að ári.  Það hefði gert fundinn markvissari en áður.  Mikilvægt væri að stjórnarmenn sæktu aðalfundi félaganna vel og e.t.v. væri ástæða til að biðja um þau um að hafa samráð um dagsetningar til að spara ferðakostnað, en það var gert með góðum árangri fyrr á þessu ári.  Þá var einnig jákvæð reynsla af heimsóknum stjórnar til að kynna sér greinina á einstökum svæðum.  Það ætti ekki að takmarka við að þar hefðu orðið áföll eins og heimsóknin kalsvæðin fyrr á þessu ári. Þá kom einnig til umræðu að stjórnarmenn skrifuðu á saudfe.is, en ein af niðurstöðum félaganna var að fleiri en formaður og framkvæmdastjóri þyrftu að vera sýnilegir talsmenn.  Fundarmenn tóku undir áherslur ÞÞ.  Ákveðið var að stefna að heimsókn stjórnar á Vestfirði á árinu 2014 en ekki er búið að ræða við forsvarsmenn félaganna þar.

b) Starfsumhverfi sbr. umræðu formannafundar
            ÞP reifaði málið.  Góðar umræður urðu málið á formannafundi og skilaboðin eru skýr þess efnis að leita eigi nýrra leiða þegar núverandi sauðfjársamningur rennur út í árslok 2017.  Ákveðið að stefna stjórnarfund í Rvík þann 13. janúar 2014 til að ræða málið ítarlega.  SE falið að athuga hvort Daði Már Kristófersson getur komið á fundinn til viðræðna. Síðan er stefnt að því að óska eftir því að félögin taki málið til umræðu á aðalfundum sínum á næsta ári.

c) Sauðamjólkurverkefni
            HH reifaði málið.  Minnisblað hefur borist frá RML en verið er að bíða eftir gögnum frá MATÍS.  Ekki er búið að taka ákvarðanir um endanlega útfærslu, eða huga að fjármögnun.  HH óskaði eftir að verða leystur undan verkefnisstjórn í málinu vegna anna.  Ákveðið að OV tæki við því frá áramótum.

d) Rafrænt kjötmat og önnur kjötmatsmál
            AT reifaði málið.  Ekkert hefur breyst varðandi það að sláturhúsin eru ekki  sammála um að fara í verkefnið og það er því allt í bið.  Kjötmatsráð MAST hefur aðeins haldið einn fund og ekki liggur fyrir nein formleg athugun á því hvernig gekk að framfylgja nýjum áherslum í liðinni sláturtíð.

e) Sérblað með Bændablaðinu
            Ákveðið var að fresta hugmyndinni um óákveðinn tíma.

f) Ályktanir 2013 og staða verkefna í stefnumótum.
            Farið var yfir samþykktir aðalfundar 2013 og stöðu verkefna í stefnumótun LS til 2015. Eftirfarandi var bókað:

3. Varnarlínur
            Stjórn LS samþykkti neðangreinda bókun vegna málsins.

Undanfarin ár hefur mikið skort á að viðhaldi sauðfjárvarnargirðinga hafi verið sinnt á ásættanlegan hátt. Vonir stóðu til þess að sú staða væri breytt þegar tryggðar voru 40 m. kr. til slíkra viðhaldsverkefna á árinu 2013 með því að ráðstafa eftirstöðvum verðmiðlunarsjóðs kindakjöts til að gera þar átak..  Verðmiðlunarsjóður var byggður upp af framleiðendum á sínum tíma.  Innheimtu var hætt árið 2006, en eftirstöðvarnar voru í vörslu BÍ.   Samkomulag um þessa ráðstöfun var undirritað 24. apríl 2013 af Steingrími J. Sigfússyni þáv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Sindra Sigurgeirssyni formanni Bændasamtaka Íslands og Sigurði Jóhannessyni þáv. formanni Landssamtaka sláturleyfishafa. Með samkomulaginu voru eftirstöðvar sjóðsins tæmdar.  Matvælastofnun fékk fjármunina greidda í kjölfarið.  Stofnunin annaðist verkefnið sumarið 2013 og gekk það skv. áætlun.  Samkomulaginu fylgdi jafnframt viljayfirlýsing, undirrituð af ráðherra sama dag, þar sem segir m.a.: „Ráðuneytið mun beita sér fyrir því að gerð verði áætlun um þörf endurnýjunar varnargirðinga til næstu 5 ára að teknu tilliti til þeirra fjármuna og endurnýjunar sem gerð verður á árinu 2013.  Þá lýsir ráðuneytið stuðningi sínum við tillögu Matvælastofnunar til fjárlaga fyrir árið 2014, en þar er gert ráð fyrir að veitt verði 35,5 m. kr. framlag vegna varnargirðinga til að hefta útbreiðslu sauðfjársjúkdóma“.

Eftir því sem næst verður komist  er ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum til viðhalds varnargirðinga í fjárlögum 2014, þvert á framangreint samkomulag og viljayfirlýsingu.   Landssamtök sauðfjárbænda mótmæla harðlega þessari framkomu stjórnvalda og krefjast leiðréttingar.  Það er hart ef ekki er hægt að treysta því að stjórnvöld standi við undirritað samkomulag við ráðherra sem bændur gerðu í góðri trú.

6. Um sauðfjársæðingar
            Ákveðið að halda fund með forsvarsmönnum sæðingastöðvanna fljótlega eftir áramót

9. Um gjaldtöku fyrir ráðgjafaþjónustu í landbúnaði
            Fyrir liggur að gjaldskrá RML hefur ekki hækkað en innheimt er fyrir fleiri þætti en áður. Stjórnin telur að fara verði vel yfir rekstur RML strax og fyrsta heila starfsári félagsins lýkur um áramótin.

16. Um merkjaeftirlit í sláturhúsum
            Ákveðið að ítreka málið við sláturleyfishafa, en vandamálið er misalvarlegt eftir einstökum sláturhúsum, alveg frá því að vera nánast ekkert og upp í veruleg vandamál.

3. Fjármál
Rætt var um fjárhagsstöðu LS.  Horfur eru á að rekstur verði samræmi við áætlanir þ.e. að hann verði um það bil á núlli.

4. Önnur mál
a) ÞP greindi frá hugmyndum BÍ um nýtt form á setningu Búnaðarþings 2014.  Hugmyndir eru um að setningin verði í Hörpu, laugardaginn 1. mars. og verði samtvinnuð kokkakeppni Food and fun 2014.  Ætlunin er að opna dagskrána almenningi og sýna hvað landbúnaðurinn hefur upp á að bjóða, nokkurskonar „dagur landbúnaðarins“.  Fundarmenn töldu hugmyndirnar jákvæðar.

b) ÞP greindi frá fundi sem hann átti með bændum á Austurlandi vegna tjóns er þeir urðu fyrir þar í haust.  Þar fórst nokkurt fé í fönn.  Tjón varð ekki á mörgum bæjum en það varð sumsstaðar verulegt.  Unnið er að því að þeir bændur fái tjón sitt bætt úr Bjargráðasjóði.

Fleira ekki rætt

Fundi slitið

Fundargerð ritaði Sigurður Eyþórsson

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar