Print

Markaðssjóður sauðfjárafurða

Tekið er við umsóknum um styrki í tölvupósti á netfangið sjodur@saudfe.is til 1 apríl. Umsókn skal fylgja eftirfarandi:

  1. Listi yfir þá sem eiga aðild að verkefninu
  2. Yfirlit um tilgang og markmið verkefnis, þ.m.t. rökstuðningur fyrir því hvernig það fellur að markmiðum sem tilgreind eru í 2. gr. og hvernig verkefnið mun koma til með að gagnast íslenskri sauðfjárrækt.
  3. Tímaáætlun verkefnisins og upplýsingar um helstu áfanga þess.
  4. Fjárhagsáætlun verkefnisins í heild.
  5. Upplýsingar um hvernig niðurstöður verkefnisins verða kynntar eða nýttar.

VERKLAGSREGLUR

Markaðssjóðs sauðfjárafurða

um styrki til stuðnings við nýsköpun, vöruþróun kynningar- og markaðsstarf

 1. gr

Markaðssjóður kindakjöts er sérstakur sjóður undir Markaðsráði kindakjöts. Ráðið er stjórn sjóðsins. Framkvæmdastjóri ráðsins er framkvæmdastjóri sjóðsins.

2. gr.

Reglur þessar fjalla um ráðstöfun hluta fjármuna samkvæmt 15.2. gr. í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 19. febrúar 2016. Samkvæmt ákvörðun Markaðsráðs kindakjöts frá 9. september 2016 skal verja 10 mkr. á ári af upphæð til verkefnisins Aukið virði sauðfjárafurða í Markaðssjóð sauðfjárafurða vegna nýsköpunar, vöruþróunar, kynningar- og markaðsstarfs á árunum 2017, 2018 og 2019. Markaðsráð tekur ákvörðun um hversu stór hluti af verkefninu Aukið virði sauðfjárafurða rennur í sjóðinn til þriggja til fimm ára í senn, en hún má þó aldrei vera hærri en 10% af heildarverkefninu. Heimilt er að setja inn í sjóðinn fjárfrasmlög annars staðar frá.

3. gr.

Markaðsráð kindakjöts annast vörslu umræddra fjármuna, auglýsir eftir umsóknum og úthlutar styrkjum samkvæmt reglum þessum fjórum sinnum á ári. Frestur til að skila inn umsóknum rennur út 10. janúar, 10. apríl, 10. júlí og 10. október ár hvert. Umsóknir um styrki skal senda til Markaðsráðs kindakjöts sem úthlutar styrkjum á grundvelli ákvarðana ráðsins. Framkvæmdastjóri Markaðsráðs sér um útgreiðslu styrkjanna í samræmi við ákvarðanir ráðsins.

4. gr.

Markaðsráð kindakjöts metur þær umsóknir sem sjóðnum berast og varða úthlutun samkvæmt reglum þessum. Styrkhæf eru þau verkefni sem talin eru styrkja íslenska sauðfjárrækt og falla undir það að teljast nýsköpun, vöruþróun, kynningar- eða markaðsstarf.

5. gr.

Styrkþegar geta verið einstaklingar, hópar, félög, samtök, rannsóknarstofnanir, háskólar eða fyrirtæki. Umsóknum skal skila til sjóðsins í samræmi við leiðbeiningar sem verða aðgengilegar á vefsvæði sjóðsins.

Umsókn skal fylgja eftirfarandi:

  1. Listi yfir þá sem eiga aðild að verkefninu
  2. Yfirlit um tilgang og markmið verkefnis, þ.m.t. rökstuðningur fyrir því hvernig það fellur að markmiðum sem tilgreind eru í 2. gr. og hvernig verkefnið mun koma til með að gagnast íslenskri sauðfjárrækt.
  3. Tímaáætlun verkefnisins og upplýsingar um helstu áfanga þess.
  4. Fjárhagsáætlun verkefnisins í heild.
  5. Upplýsingar um hvernig niðurstöður verkefnisins verða kynntar eða nýttar.

6. gr.

Áður en styrkur er greiddur skal umsækjandi staðfesta að fjármögnun verkefnisins í heild hafi verið tryggð. Greiða má samþykktan styrk í hluta eða heild á undirbúningsstigi, þegar verkefni er sannarlega hafið eða þegar því er lokið samkvæmt ákörðun Markaðsráðs hverju sinni.

7. gr.

Markaðsráð skal meta í hverju tilfelli hvort verkefnið getur að hluta eða í heild tengst eða gagnast í öðrum verkefnum Markaðsráðs. Ráðið má gera afnot af efni eða niðurstöðum að skilyrði fyrir styrkveitingu. Fela má framkvæmdastjóra að semja um slíkt.

8. gr.

Heimilt er að færa ráðstöfunarfé sjóðsins á milli úthlutana eða ára eins og þurfa þykir. Þó má ekki ráðstafa fjármunum næsta árs á eftir.

9. gr.

Sjóðurinn skal skila yfirliti um fjárhagsstöðu sína og starfsemi árið á undan fyrir 10. janúar hvert ár. Skal það yfirlit sent til Bændasamtaka Íslands, Landssamtaka sauðfjárbænda, Landssamtaka afurðastöðva og atvinnuvegaráðuneytisins. Markaðsráð getur ákveðið hvort yfirlitið er birt opinberlega að hluta eða í heild.

10. gr.

Leggist starfsem sjóðsins af skal gera hann upp og eignir hans renna í jöfnum hlutföllum til Bændasamtaka Íslands, Landssamtaka sauðfjárbænda og Landssamtaka afurðastöðva.

11. gr.

Reglum þessum getur einungis meirihluti Markaðsráðs kindakjöts breytt.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar