Print

Innsendar ályktanir

Félags sauðfjárbænda í Rangárvallarsýslu
Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Rangárvallarsýslu

Skorar á stjórn L.S að beita sér fyrir því að allt íslenskt kindakjöt ´verði auðkennt sem íslenskt (merki,logo)frá sláturleyfishöfum og kjötvinslum í verslunum. Einnig sé gerð krafa um að upprunaland kjötvöru sé greinilega skráð.

Greinagerð:

Með auknum innflutningi á kjöti er nauðsinlegt að neytendur séu upplýstir um uppruna þeirra kjötvöru sem er í boði í verslunum og íslenskt kjöt greinilega auðkennt svo neytandinn geti haft upplýst val.

Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu
Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu haldinn í Dalabúð 20. mars 2007 skorar á frambjóðendur sem ná kjöri við alþingiskosningar vorið 2007 að vinna að því að setja í lög heimild landbúnaðarráðherra til að taka upp útflutningsskyldu dilkakjöts ef í óefni stefnir á kjötmarkaði.

Deild sauðfjárbænda í Austur-Skaftafellssýslu
Aðalfundur Deildar sauðfjárbænda í Austur-Skaftafellssýslu, haldinn á Hrollaugsstöðum 28.02.2007 samþykkir að beina því til aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda að sem fyrst verði farið að vinna í að koma á skipulagi við útflutning á dilkakjöti eftir að ráðherraábyrgð á útflutningsskyldu lýkur.

Félag sauðfjárbænda í V.-Hún
Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í V.-Hún. haldinn í Víðihlíð 16/3 2007 samþykkir að beina því til aðalfundar LS 2007 og Fagráðs í sauðfjárrækt að breytt verði útreikningum á afurðarstigi fyrir mjólkurlagni ánna, þannig að það gefi eins rétta mynd og mögulegt er af raunverulegri mjólkurlagni en lágmarki áhrif mismunandi meðferðar lamba að hausti.

Greinagerð:

Eins og afurðastigið er reiknað núna er leiðrétt töluvert mikið fyrir burðartíma en hins vegar mjög lítið fyrir sláturtíma. Þar sem sláturtími hefur lengst í báða enda á síðustu árum koma afurðarstigseinkunnir bændum að litlum notum eins og þær eru reiknaðar út. Lömbin sem slátrað er snemma að hausti skila mæðrum sínum litlu hærri afurðareinkunn en þau lömb sem bötuð hafa verið fram í október-nóvember til að ná sama þunga. Því fá mjólkurlagnar ær sem eiga lömb með góðan vaxtarhraða litlu hærri einkunn en þær sem skila slökum lömbum sem þyngjast vel á góðri beit eftir að þau eru tekin undan.

Aðalfundur félags suðfjárbænda í Vestur Húnavatnssýslu haldinn í Víðihlíð 16. mars 2007 samþykkir eftirfarandi tillögu til aðalfundar L.S.

Aðalfundur L.S. skorar á framkvæmdanefnd búvörusamninga að bæta kjötmatsflokkunum U4 og E4 við þá flokka sem falla undir gæðastýringarálag.

Greinargerð;

Ekki verður séð að fyrrnefndir flokkar séu síðri framleiðsluvara en flokkar eins og O1, O3, O3+ og R3+  svo dæmi séu tekin.

Þá hafnar fundurinn algerlega þeim hugmyndum sem viðraðar hafa verið að  á suma flokka verði greitt gæðastýringarálag á ákveðnum árstímum en ekki öðrum.

Félag sauðfjárbænda í Strandasýslu
Vegna kröfu embættis yfirdýralæknis um gerð merkja í ásett sauðfé: Skorar aðalfundur F.S.S haldinn í Sævangi 22. mars 2007 á stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda að sjá til þess að þau merki sem bændum er gert skylt að nota séu þannig úr garði gerð að bændur hafi full not af þeim. Stafagerð er ekki góð, verið að nota gráa stafi er sjást illa.

Merkin eru mjög skítsækin. Til voru á markaði merki sem voru vel læsileg úr fjarlægð og söfnuðu ekki drullu á sig.

Aðalfundur F.S.S. bendir á að arfgreining á, verndandi / hlutleysi /  og eða áhættu arfgerðar gegn riðu er vaxandi þáttur í baráttunni við riðuna. Kostnaður vegna greiningar er óeðlilega hár eða 4000 kr. á sýni. Því skorar aðalfundur F.S.S. á stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda að leita leiða til lækkunar á kostnaði.

Félag sauðfjárbænda í Skagafirði
Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Skagafirði haldinn að Löngumýri  27. mars 2007 skorar á stjórn LS að skoða sem fyrst áhrif vegna niðurfellingar útflutningsskyldu á íslenskan kjötmarkað.

Greinagerð:

Samkvæmt nýgerðum samningi ríkisins við sauðfjárbændur mun útflutningsskylda falla niður 1.júní 2009. Óljóst er hvaða áhrif þetta muni hafa á innanlandsmarkað og markaðsstarf erlendis og þar af leiðandi á skilaverð til framleiðenda.   

Sauðfjárbændadeildar BSNÞ
Aðalfundur Sauðfjárbændadeildar BSNÞ samþykkir að beina  því til LS að skora á sláturleyfishafa að greiða sérstaklega fyrir innmat og gærur á komandi hausti. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja að bændur geri sér sem best grein fyrir verðmæti afurða sinna á hverjum tíma

Félag sauðfjárbænda í Suður-Þingeyjarsýslu
Tillaga 1
Aðalfundur F.S.S.Þ. haldinn að Ýdölum 29. mars 2007 leggur til eftirfarandi breytingar við endurskoðun landnýtingarhluta gæðastýringar.

1. Krafa um landbótaáætlanir sveitarfélaga eða einstaklinga sé því aðeins gerð að ekki sé fyrir hendi beitargnótt á afréttum/heimalöndum miðað við þann fjárfjölda er þar gengur.

2. Að liðnum þeim tíma, sem núverandi landbótaáætlunum einstaklinga  er ætlað að gilda verði þær hluti af verkefninu “Bændur græða landið” þar sem bændur og Landgræðslan starfa  óþvingað saman að landgræðslu. Jafnframt verði stefnt að því að þessu verkefni sé ætlað tiltekið framlag á fjárlögum ár hvert.

3. Landbótaáætlanir sveitarfélaga verði á sama hátt gerðar að óþvinguðum samstarfsverkefnum sveitarfélaganna og Landgræðslunnar.

Tillaga 2
Aðalfundur F.S.S.Þ. haldinn að Ýdölum 29. mars 2007 krefst þess að Aðfangaeftirlitið birti opinberlega niðurstöður úr efnagreiningum á áburði hjá hverjum og einum áburðarinnflytjanda

Í fréttahlekk á heimasíðu Aðfangaeftirlits, má lesa að árið 2004 voru tekin 31 sýni úr innfluttum áburði frá nokkrum innflytjendum, þar af reyndust 8 sýni ekki standast uppgefið efnainnihald á áburðarsekkjum.

Í frétt árið 2005 segir að það ár hafi verið tekin 45 sýni, úr áburði og þar af stóðu 10 sýni ekki uppgefin efnagildi.

Engin frétt um sýnatökur hafa verði settar á vef Aðfangaeftirlitsins fyrir árið 2006.

Sýni úr áburði eru tekin þegar hann kemur til landsins og niðurstöður þeirra efnagreininga hafa ekki legið fyrir fyrr en bændur hafa að meginhluta borið á þann áburð sem þeir hafa keypt. Það er óviðunandi.

Því er í raun verið að hlunnfara þá bændur sem lenda í því, óafvitandi, að kaupa vöru sem ekki stenst það efnainnihald sem skráð er á áburðarpokana og þeir eru að greiða fyrir.

Það er því réttmæt krafa okkar bænda að Aðfangaeftirlitið flýti sýnatöku og birti niðurstöður efnagreininga hið fyrsta svo ljóst sé hvort sá áburður sem bændur eru að kaupa uppfylli lágmarkskröfur um efnainnihald og hver flytur hann inn.

Tillaga 3
Aðalfundur F.S.S.Þ. haldinn að Ýdölum 29. mars 2007 lýsir áhyggjum af áformuðu afnámi útflutningsskyldu dilkakjöts árið 2009. Óhjákvæmilegt virðist að útflutningi dilkakjöts verði haldi áfram eftir að útflutningsskylda verður afnumin og felur L.S. að leita allra leiða til að sá útflutningur leggist jafnt á alla framleiðendur dilkakjöts.

Félag sauðfjárbænda á Héraði og í fjörðum
Tillaga 1
Aðalfundur LS 2007 beinir því til sláturleyfishafa að huga sem fyrst að sameiginlegu skipulagi á útflutningi kindakjöts eftir árið 2008, sem miðist að því að útflutningsþörfin jafnist niður á sláturleyfishafa.  Leitast verði við að hafa útflutninginn sem jafnastan milli ára til að viðhalda mörkuðum erlendis og koma í veg fyrir birgðasöfnun innanlands.

Tillaga 2
Aðalfundur LS 2007 leggur til að greiddar verði álagsgreiðslur á gæðaflokka R4, U4 og E4 af dilkum sem slátrað er í júlí, ágúst og september.

Greinargerð:

Þar sem vinna er að hefjast við endurskoðun reglugerðar um gæðastýrða framleiðslu sauðfjárafurða er umhugsunarefni hvernig dregin eru mörk milli gæðaflokka í álagsgreiðslum.  Að því gefnu að innleggsverð allra gæðaflokka lambakjöts sé nú orðið í réttu hlutfalli við kröfur vinnsluaðila og neytenda, þar sem R4 er sem dæmi um 40% lægra en R2, er spurning hvort ástæða sé til að verðfella t.d. R4 að auki í álagsgreiðslum sem svarar 60% innleggsverðs til viðbótar.  (R2 gefur bóndanum 360 kr. innleggsverð + 135 kr. í álagsgr. næsta ár = 495 kr/kg, en R4 gefur 220 kr. í innlegg og 0 í álagsgr.)

Tillaga 3
Aðalfundur LS 2007 leggur til að gæðahandbókin verði gefin út í dagbókarformi ár hvert og aukin verði valkvæðni varðandi beitarskráningu og fóðrun.

Tillaga 4
Aðalfundur LS 2007 beinir því til BÍ að myndaður verði starfshópur sem vinni að auknum leiðbeiningum um fóðrun sauðfjár,  einkum varðandi prótein, steinefni, snefilefni og vítamín.

Greinargerð:

Með breyttri heyverkun á síðari árum og stórfelldri hækkun á verði fiskimjöls nýverið, sem talið er að verði varanleg, hafa forsendur breyst varðandi fóðrun sauðfjár, og vísbendingar hafa aukist um að skortur efna eins og selen og E vítamíns geti verið valdur að ýmsum kvillum eins og fósturdauða eða líflitlum lömbum.  Bændur verða að leita annarra leiða en fiskimjölsgjafar til að tryggja rétt jafnvægi ýmissa efna í fóðrun.  Setja þyrfti því saman uppskrift að a.m.k. einni steinefnablöndu sem hæfði til að gefa sauðfé með heyi sem hefði meðalgildi af steinefnum, snefilefnum og vítamínum.  Þá væri þörf á leiðbeiningum um áhrif forþurrkunar rúlluheys til að draga úr þörf fyrir annað prótein en það sem fæst úr heyi.

Félag sauðfjárbænda í Snæfells-og Hnappadalssýslu
Tillaga 1
Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Snæfells-og Hnappadalssýslu haldin að Breiðabliki 4 apríl 2007 beinir því til stjórnar Ls. Að láta skoða hvort ekki sé enn svigrúm til að breyta tölvuforritinu Fjárvís .is þannig að bændur geti unnið í því án þess að vera nettengdir hverju sinni.

Tillaga 2
Aðalfundur Félagssauðfjárbænda í Snæfells-og Hnappadalssýslu haldin að Breiðabliki 4 apríl 2007 samþykkir eftirfarandi tillögu til aðalfundar Ls. Aðalfundur Ls. Skorar á landbúnaðarráðherra að sjá til þess að aðbúnaður búfjár sé í samræmi til gildandi lög og reglugerðir.

Tillaga 3
Aðalfundur Félagssauðfjárbænda í Snæfells-og Hnappadalssýslu haldin að Breiðabliki 4 apríl 2007 mótmælir því harðlega að sauðfjárbændur séu látnir greiða atkvæði (samþykkja) sauðfjársamning og síðan fáí alþingi að ráðskast með hann og breyta að vild sinni.

Tillaga 4
Aðalfundur Félagssauðfjárbænda í Snæfells-og Hnappadalssýslu haldin að Breiðabliki 4 apríl 2007 skorar á stjórn Ls. Að standa fast á rétti bænda gangvart Þjóðlendunefnd og kvika hvergi fyrir þeim ræningjaflokkum sem um landið fara í nafni ríkisstjórnarflokkana til að ræna bændur réttmætum eignum sínum.

Tillaga 5
Aðalfundur Félagssauðfjárbænda í Snæfells-og Hnappadalssýslu haldin að Breiðabliki 4 apríl 2007 beinir því til stjórnar LS að skoða þáttöku á matvælasýningunni Salone del Gusto sem er haldin er annðhvert ár á Ítalíu.

Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Tillaga 1
Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Árnessýslu, haldinn að Borg í Grímsnesi, 3. apríl 2007, skorar á fjárveitingavaldið að tryggja nægt fjármagn til viðhalds sauðfjárveikivarnalína. Miklu skiptir að dreifingarsvæði sauðfjársjúkdóma verði ekki stækkuð með því að vanrækja eða leggja niður varnarlínur. Einnig er mjög brýnt að verja hreinu svæðin með öllum tiltækum ráðum.

Tillaga 2
Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Árnessýslu, haldinn að Borg í Grímsnesi, 3. apríl 2007, lýsir áhyggjum sínum af fyrirkomulagi og kostnaði vegna dýrarannsókna. Svo virðist sem Tilraunastöðin að Keldum taki ekki lengur við skepnum til rannsóknar nema með úrskurði dýralæknis og að bóndi skuli greiða fyrir rannsóknina að fullu. Sá kostnaður er margfalt ærverð. Verði þessi háttur hafður á til frambúðar, er ljóst að mjög mun draga úr vilja manna til að grafst fyrir um dauðaorsök einstakra skepna á búum sínum. Mun það efalaust koma niður á baráttunni gegn smitsjúkdómum.

Félag sauðfjárbænda í Eyjafirði
Tillaga 1
1. Aðalfundur FSE,haldinn 3.apríl 2007,telur að það dragist óhóflega að Ístex greiði bændum fyir ullarinnlegg.Fundurinnbeinir því til BÍ að þeir fjármunir sem ætlaðir eru til ullarframleiðslunnar í sauðfjársamningi við ríkið,verði greiddir beint til bænda þegar ullarmat liggur fyrir.

Tillaga 2
2.Aðalfundur FSE,haldinn3.apríl 2007, beinir því til L.S að halda aðalfund sinn eins og áður var til skiptis í landsfjórðungunum og stefna að því sama með árshátíð sauðfjárbænda.


Tillaga frá Félagi sauðfjárbænda í Árnessýslu
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Hótel-Sögu, 12.-13. apríl 2007, mælist til þess við yfirvöld að starfshættir og stjórnsýsla Landbúnaðarstofnunar verði tekin til athugunar af til þess bærum aðilum.

Landbúnaðarstofnun ber að vinna eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993 eins og öðrum stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Vandséð er að þannig hafi verið unnið hjá stofnuninni við málsmeðferð vegna riðuniðurskurðar undanfarin ár. Má þar sérstaklega nefna leiðbeiningarskyldu stjórnvalds,  ákvæði um málshraða og ákvæði um jafnræði í lagalegu tilliti.

Greinargerð:

Dæmi eru um að ekki hafi verið gengið frá samningum um niðurskurð við bændur fyrr en löngu eftir niðurskurðinn, þó að ágreiningsefni hafi ekki verið uppi.

Ef gögn hefur vantað, til að unnt væri að ganga frá eða framfylgja samningum, hefur Landbúnaðarstofnun (áður Embætti yfirdýralæknis) í mörgum tilfellum látið hjá líða að veita upplýsingar um það eða afla þeirra gagna að eigin frumkvæði.

Landbúnaðarstofnun hefur ítrekað dregið að ganga frá útreikningum og greiðslum til bænda þó að öll gögn hafi legið fyrir.

Útlit er fyrir að bændum hafi verið mismunað verulega við samningsgerð og fullnustu samninga.

Töluverð brögð eru að því að bréfum og öðrum erindum sem send hafa verið til Landbúnaðarstofnunar sé ekki svarað innan tilskilins tíma og mánuðir líða eða jafnvel allt að ár, án þess að svör berist eða gerð sé grein fyrir afdrifum mála.

Þar sem Landbúnaðarstofnun fer með almannafé, er handhafi stjórnvalds og fer með breiðan flokk málefna sem varða landbúnað, skiptir miklu fyrir alla sem starfa að landbúnaðarmálum að stofnunin verði starfi sínu vaxin og njóti trausts og virðingar innan bændastéttar sem utan. Þar sem fyrrgreind vandkvæði hafa vakið stórar spurningar um starfshæfni þessarar mikilvægu stofnunar, telur fundurinn tímabært að fram fari opinber rannsókn á stjórn og starfsháttum Landbúnaðarstofnunar.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar