Print

Afgreiðsla ályktana

Tillaga 1 Þjóðlendumál

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu lýsir fullum stuðningi við ályktanir sem Bændasamtök Íslands hafa látið frá sér um þjóðlendumál. Fundurinn hvetur stjórn BÍ til að beita sér af fullri hörku í þessu máli hér eftir sem hingað til

Framsögumaður Fanney Ólöf Lárusdóttir

Samþ. samhljóða

Tillaga 2 Landbúnaðarstofnun
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Hótel-Sögu 12. - 13. apríl 2007, mælist til þess við Alþingi að starfshættir og stjórnsýsla Landbúnaðarstofnunar verði tekin til athugunar af til þess bærum aðilum.

Landbúnaðarstofnun ber að vinna eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993 eins og öðrum stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Vandséð er að þannig hafi verið unnið hjá stofnuninni við málsmeðferð vegna riðuniðurskurðar undanfarin ár. Má þar sérstaklega nefna leiðbeiningarskyldu stjórnvalds,  ákvæði um málshraða og ákvæði um jafnræði í lagalegu tilliti.

Greinargerð:
Dæmi eru um að ekki hafi verið gengið frá samningum um niðurskurð við bændur fyrr en löngu eftir niðurskurðinn, þó að ágreiningsefni hafi ekki verið uppi.

Ef gögn hefur vantað, til að unnt væri að ganga frá eða framfylgja samningum, hefur Landbúnaðarstofnun (áður Embætti yfirdýralæknis) í flestum eða öllum tilfellum látið hjá líða að veita upplýsingar um það eða afla þeirra gagna að eigin frumkvæði.

Landbúnaðarstofnun hefur ítrekað dregið að ganga frá útreikningum og greiðslum til bænda þó að öll gögn hafi legið fyrir.

Bændum hefur verið mismunað verulega við samningsgerð og fullnustu samninga.

Töluverð brögð eru að því að bréfum og öðrum erindum sem send hafa verið til Landbúnaðarstofnunar sé ekki svarað innan tilskilins tíma og mánuðir líða eða jafnvel allt að ár, án þess að svör berist eða gerð sé grein fyrir afdrifum mála.

Þar sem Landbúnaðarstofnun fer með almannafé, er handhafi stjórnvalds og fer með breiðan flokk málefna sem varða landbúnað, skiptir miklu fyrir alla sem starfa að landbúnaðarmálum að stofnunin verði starfi sínu vaxin og njóti trausts og virðingar innan bændastéttar sem utan. Þar sem fyrrgreind vandkvæði hafa vakið stórar spurningar um starfshæfni þessarar mikilvægu stofnunar, telur fundurinn tímabært að fram fari opinber úttekt á stjórn og starfsháttum Landbúnaðarstofnunar.

Framsögumaður Sigríður Jónsdóttir

Samþ. samhljóða

Í tillögu 3 var borinn upp hver liður sérstaklega

Tillaga 3 Gæðastýring, reglugerð
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu samþykkir eftirfarandi tillögu vegna endurskoðunar á reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og gæðahandbók

 1. Staðfesting gæðastýringar og gjalddagar:
  a.    Staðfesting gæðastýringar skal liggja fyrir eigi síðar en 30. júní.
  b.    Fyrsta álagsgreiðsla skal vera 15. júlí og verður allt að 35% af álagsgreiðslu síðasta árs. Tekið skal mið af breytingum á sauðfjáreign. Gjalddagi fyrir framleiðslu í janúar til október verði 25. nóvember. Gjalddagi fyrir framleiðslu í nóvember skal vera 20. desember.
  c.     Lokauppgjör ársins skal fara fram fyrir 5. febrúar.
  Samþ. samhljóða
 2. Umsóknarfrestur og námskeið:
  a.    Nýjar umsóknir hafi borist fyrir 1. desember vegna framleiðslu næsta árs. Tekið skal tillit til þess þegar ábúendaskipti verða á jörðum.
  b.    Umsækjandi eða fulltrúi hans hafi sótt eins dags námskeið sem boðið skal upp á árlega.
  Samþ. samhljóða
 3. Greitt verði álag á alla gæðaflokka dilkakjöts nema vöðvaflokk P og fituflokk 5.
  Samþ. 20 með og 12 móti
 4. Gæðahandbók, skýrsluhald og landnotkun
  a.    Eftirfarandi skráningar verði áfram með svipuðu sniði:
        1)    Viðurkennt skýrsluhald í sauðfjárrækt þar sem síðasti skiladagur haustbókar er 1. febrúar.
        2)    Skrá áburðarnotkun. Felld verði út skylduskráning á magni búfjáráburðar.
        3)    Uppskeruskráning
        4)    Skrá lyfjakaup
        5)    Skrá lyfjanotkun. Í fjárbók verði hópskráning á sérblað og einstaklingslyfjagjöf hjá viðkomandi grip.
        6)    Landnýting. Sé ekki nægjanlegt beitiland fyrir hendi þarf að gera áætlun um úrbætur. Þær geti verið fyrir einstakar eða margar jarðir. Refsiákvæði þurfa að bitna á þeim einstaklingum sem brotlegir eru án þess að snerta aðra sem að vikomandi áætlun standa. Nánari útfærslu þarf að vinna í samráði við Landgræðslu ríkisins.
  b.    Eftirfarandi skráningar verði í breyttri mynd:
        1)    Grunnupplýsingar verði uppfærðar eftir því sem við á.
        2)    Beitarskráning. Fyrirkomulag beitar verður hluti af grunnupplýsingum.
        3)    Aðstæður 1-A og 2-A verða grunnupplýsingar.
        4)    Atburðaskráning verði valskráning
        5)    Fóðurkaup og fóðrun. Skráð verði gróffóðurkaup og heildarfóðurnotkun á búinu.
    Samþ. með meginþorra atkv. gegn 2
 5. Umsjón og eftirlit með gæðastýringu
  a.    Framkvæmdanefnd búvörusamninga  hefur ein vald til að taka framleiðendur inn í gæðastýringuna sem og vísa þeim úr henni.
  b.    BÍ hafa umsjón með eftirtöldum þáttum.
         1)    Halda skrá yfir þátttakendur. Það eru þeir sem uppfylla skilyrði gæðahandbókar, búfjáreftirlits, landnýtingar og skýrsluhalds.
         2)    Koma eyðublöðum til þátttakenda, í síðasta lagi í desember vegna skráningar næsta árs.
         3)    Auglýsa skiladaga í tíma, minna á skráningar, upplýsa um áætlaðar álagsgreiðslur á hverju ári og fleira sem tengist gæðastýringunni.
        4)    Upplýsi bændur ef breytingar verða á reglugerðum tengdum sauðfjárbúskap, t.d. með stuttum greinum í Bændablaðinu.
  Samþ. samhljóða
  Framsögumaður Fanney Ólöf Lárusdóttir

Tillaga 4 Merkja Ísl. framleiðslu
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu felur stjórn L.S að beita sér fyrir því að allt íslenskt kindakjöt verði auðkennt sem íslenskt (merki,logo)frá sláturleyfishöfum og kjötvinnslum í verslunum. Einnig sé gerð krafa um að upprunaland kjötvöru sé greinilega skráð. Eðlilegt er að allar íslenskar landbúnaðarafurðir séu auðkenndar með sama merkinu.

Greinargerð:
Með auknum innflutningi á kjöti er nauðsynlegt að neytendur séu upplýstir um uppruna þeirra kjötvöru sem er í boði í verslunum og íslenskt kjöt verði greinilega auðkennt svo neytandinn geti haft upplýst val.

Framsögumaður Guðrún Stefánsdóttir

Samþ. samhljóða

Tillaga 5 Útflutningur
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu felur stjórn L.S. að hefja nú þegar viðræður við sláturleyfishafa um undirbúning að skipulegri nýtingu útflutningsmarkaða fyrir kindakjöt, eftir að opinberri ákvörðun um útflutningsskyldu lýkur 2009.

Framsögumaður Karl Kristjánsson
Samþ. samhljóða

Tillaga 6 Uppgjör mismunandi afurða
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu skora á sláturleyfishafa að birta uppgjör um framlegð mismunandi afurða, þar með talið gæru, sláturs, og mismunandi verðflokka kindakjöts á komandi hausti. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja að bændur geri sér sem best grein fyrir verðmæti afurða sinna á hverjum tíma.

Framsögumaður Jóhannes Sveinbjörnsson
Samþ. samhljóða

Tillaga 7 Nýliðunarstyrkur
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu samþykkir að fela stjórn L.S. að útfæra reglur um nýliðunarstyrki samkvæmt eftirfarandi drögum.

Skilyrði fyrir nýliðunarstyrkjum

 • Að viðkomandi einstaklingur eða lögaðili hafi ekki áður rekið sauðfjárbú í eigin nafni.
 • Að viðkomandi eigi eða leigi lögbýli til búreksturs og hafi lögheimili þar.
 • Að ábúandi sé eigandi lögaðila að meirihluta, eða ráði sannanlega yfir meirihluta atkvæða.
 • Að viðkomandi leggi fram vottorð frá viðkomandi sveitarfélagi um að hann sé að hefja búskap.
 • Að viðkomandi sé þátttakandi í gæðastýringu.
 • Að fyrir liggi búrekstraráætlun til þriggja ára, samþykkt af héraðsráðunaut.
 • Að fyrir liggi kaupsamningur bústofns þar sem kemur fram verð og fjöldi.
 • Greitt verði framlag á að hámarki 500 kindur til handa sama aðila. Ef keyptar eru færri en 100 kindur fæst ekki framlag.

Gerður verði samningur um nýliðunarframlag. Þar skal koma fram að nýliðunarframlag fyrnist á fimm árum. Láti handhafi að framlagi af búskap á samningstímanum skal semja um skil á hlutfallslegum eftirstöðvum.

Greinagerð

Í nýjum samningi um starfskilyrði í sauðfjárrækt er í grein 4.5 kveðið á um nýliðun. Orðrétt segir:

“ Til nýliðunar í stétt sauðfjárbænda verði varið 35 m.kr., m.a. í formi styrkja til bústofnskaupa, bæði til frumbýlinga og við ættliðaskipti á bújörðum.”

Framsögumaður Lárus Sigurðsson

Samþ. samhljóða

Tillaga 8 Mjólkurlagni
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu beinir því til Fagráðs í sauðfjárrækt að leggja meiri áherslu heldur en verið hefur á mjólkurlagni og frjósemi í kynbótastarfinu. Einni verði það skoðað hvort hægt sé að taka tillit til arðsemi við útreikning afurðarstigs ánna.

Framsögumaður er Gunnar Þorgeirsson
Samþ. samhjlóða

Tillaga 9 Merki f. sauðfé
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu beinir því til stjórnar LS að kanna hjá  framleiðendum eða innflutningsaðila merkja fyrir sauðfé hvort litasamsetning merkjanna geti verið þannig að álestur verði sem auðveldastur.

Framsögumaður er Baldvin Björnsson
Samþ. samhljóða

Tillaga 10 Kostnaður við greiningu riðu arfgerðar
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu beinir því til stjórnar LS að leita leiða til að lækka kostnað fjáreigenda vegna greiningar riðu arfgerðar sérstaklega á þeim bæjum sem selja líffé til fjárskipta.

Framsögumaður er Halla Steinólfsdóttir
Samþ. samhljóða

Tillaga 11 Efnagreining áburðar
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu krefst þess að Landbúnaðarstofnun birti í Bændablaðinu niðurstöður úr efnagreiningum á áburði hjá hverjum og einum áburðarinnflytjanda svo fljótt sem kostur er.

Greinagerð.
Í fréttahlekk á heimasíðu Aðfangaeftirlits, má lesa að árið 2004 voru tekin 31 sýni úr innfluttum áburði frá nokkrum innflytjendum, þar af reyndust 8 sýni ekki standast uppgefið efnainnihald á áburðarsekkjum.

Í frétt árið 2005 segir að það ár hafi verið tekin 45 sýni, úr áburði og þar af stóðu 10 sýni ekki uppgefin efnagildi.

Engar upplýsingar hafa borist eftir að Aðfangaeftirlitið flutti til Landbúnaðarstofnunar 2006.

Sýni úr áburði eru tekin þegar hann kemur til landsins og niðurstöður þeirra efnagreininga hafa ekki legið fyrir, fyrr en bændur hafa að meginhluta borið á þann áburð sem þeir hafa keypt. Það er óviðunandi.

Því er í raun verið að hlunnfara þá bændur sem lenda í því, óafvitandi, að kaupa vöru sem ekki stenst það efnainnihald sem skráð er á áburðarpokana.

Það er því réttmæt krafa okkar bænda að Landbúnaðarstofnun flýti sýnatöku og birti niðurstöður efnagreininga hið fyrsta svo ljóst sé hvort sá áburður sem bændur eru að kaupa uppfylli lágmarkskröfur um efnainnihald og hver flytur hann inn.

Framsögumaður er Vagn H. Sigtryggsson
Samþ. samhljóða

Tillaga 12 Fóðrun sauðfjár - leiðbeiningar
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu beinir því til BÍ að unnið verði að auknum leiðbeiningum um fóðrun sauðfjár, einkum varðandi prótein, steinefni, snefilefni og vítamín.

Greinargerð:
Með breyttri heyverkun á síðari árum og stórfelldri hækkun á verði fiskimjöls nýverið, sem talið er að verði varanleg, hafa forsendur breyst varðandi fóðrun sauðfjár, og vísbendingar hafa aukist um að skortur efna eins og selen og E vítamíns geti verið valdur að ýmsum kvillum eins og fósturdauða eða líflitlum lömbum.  Bændur verða að leita annarra leiða en fiskimjölsgjafar til að tryggja rétt jafnvægi ýmissa efna í fóðrun.  Setja þyrfti því saman uppskrift að a.m.k. einni steinefnablöndu sem hæfði til að gefa sauðfé með heyi sem hefði meðalgildi af steinefnum, snefilefnum og vítamínum.  Þá væri þörf á leiðbeiningum um áhrif forþurrkunar rúlluheys til að draga úr þörf fyrir annað prótein en það sem fæst úr heyi.

Framsögumaður er Gísli Geirsson
Samþ. samhljóða

Tillaga 13 Háhraðatengingar
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu skorar á stjórnvöld að tryggja að allir landsmenn sitji við sama borð varðandi háhraðatengingu svo að sauðfjárbændur beri ekki aukakostnað vegna fjárvís.is eða annarra forrita.

Framsögumaður er Þóra Sif Kópsdóttir
Samþ. samhljóða

Tillaga 14 Dýrarannsóknir, framkvæmd og kostnaður
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu lýsir áhyggjum sínum af fyrirkomulagi og kostnaði vegna dýrarannsókna. Svo virðist sem Tilraunastöðin að Keldum taki ekki lengur við skepnum til rannsóknar nema með úrskurði dýralæknis og að bóndi skuli greiða fyrir rannsóknina að fullu. Sá kostnaður er margfalt ærverð. Verði þessi háttur hafður á til frambúðar, er ljóst að mjög mun draga úr vilja manna til að grafast fyrir um dauðaorsök einstakra skepna á búum sínum. Mun það efalaust koma niður á baráttunni gegn smitsjúkdómum. Einnig beinir aðalfundur því til stjórnar að sjá til þess að greiningum á heilasýnum vegna riðu verði hraðað.

Framsögumaður er Erlendur Ingvarsson
Samþ. samhljóða

Tillaga 15 Aðbúnaður og fóðrun búfjár
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu skorar á stjórn LS að hún hlutist til um að tekið verði á því samkvæmt hörðustu viðurlögum ef sannanleg dæmi koma upp um að aðbúnaður og fóðrun búfjár sé stórlega ábótavant

Flutningsmaður Grétar Jónsson
Samþ. samhljóða

Tillaga 16 Sauðfjárveikivarnarlínur
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu skorar á fjárveitingavaldið að tryggja nægt fjármagn til viðhalds sauðfjárveikivarnalína. Miklu skiptir að dreifingarsvæði sauðfjársjúkdóma verði ekki stækkuð með því að vanrækja eða leggja niður varnarlínur. Einnig er mjög brýnt að verja hreinu svæðin með öllum tiltækum ráðum.

Flutningsmaður Guðbrandur Hannesson
Samþ. samhljóða

Tillaga 17 Aðalfundur - staðsetning
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu beinir því til stjórnar LS að kanna möguleika á því að aðalfundir samtakanna verði skipt á landsfjórðungana eins og áður var og stefna að því sama með árshátíð sauðfjárbænda.

Flutningsmaður Guðbrandur Hannesson
Felld, 8 með og 17 móti

Tillaga 18 Stefnumótun
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. – 13. apríl 2007 á Hótel Sögu beinir því til stjórnar LS og BÍ að hafa forgöngu um að mótuð verði, í tengslum við gæðastýringu í sauðfjárrækt, framtíðarstefna fyrir íslenskan sauðfjárbúskap með sjálfbæra þróun, góða búskaparhætti og umhverfisvernd að leiðarljósi.

Flutningsmaður Ragnhildur Sigurðardóttir
Samþ. 17 með og 3 móti 

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar