Print

Setningarræða formanns

Setning aðalfundar L.s. árið 2007

Enn á ný erum við , fulltrúar sauðfjárbænda í landinu, komnir saman til að halda aðalfund. Fyrr en okkur varir er enn eitt ár runnið í tímans haf. Minnir okkur vel á það að tími er ef til vill það eina sem við nútímafólkið eigum ekki nóg af, það sem við sóum hvað mest í lífi okkar. Hver ónotuð stund, hvert ónotað tækifæri, er eitthvað sem er glatað og kemur aldrei aftur. Sem betur fer oftast eitthvað sambærilegt, en aldrei sama augnablikið.

Segja má að tíminn frá síðasta aðalfundi hafi verið nokkuð viðburðaríkur hvað sauðfjárbændur varðar. Nýr sauðfjársamningur, sem gilda á til ársins 2013 er í höfn og hefur verið staðfestur af Alþingi. Hvað sem um hann má segja að öðru leyti, er þó afar mikilvægt fyrir sauðfjárræktina að fá svo tímanlega upp á borðið þá framtíðarsýn  sem í honum felst.

Umræða um matarverð á Íslandi hefur verið mikil og áberandi og að manni finnst oft á tíðum nokkuð ósanngjörn og slagorðakennd  hvað landbúnaðinn varðar. Tollar á innfluttar landbúnaðarafurðir hafa verið lækkaðir og uppi krafa sterkra afla í þjóðfélaginu um frekari lækkanir, með ófyrirséðum afleiðingum. Og þó þær tollalækkanir sem þegar hafa tekið gildi muni trúlega ekki ógna sauðfjár-framleiðslunni beint, hvað innflutning á kindakjöti varðar, munu þær leiða til harðari samkeppni á kjötmarkaðinum í heild sinni. Samfara þessu stigu þó stjórnvöld mjög jákvætt skref með lækkun matarskattsins úr 14%  í 7%.

Umræða um landnýtingu og meðferð lands hefur verið nokkur.  Einnig hefur verið þung umræða um eignarhald á landi, og ekki að ástæðulausu. Ég held að bændur á Íslandi, ásamt ráðamönnum þjóðarinnar, verði að fara að taka þessi mál til gagngerrar skoðunar eigi menn ekki að fljóta sofandi að feigðarósi. Algjörlega skipulagslaus framvinda í þessum efnum, þar sem peningahyggja og sýndarmennskuþörf auðmanna ráða allri för, mun smátt og smátt þrengja að hefðbundnum landbúnaði og því byggðamunstri sem við sjáum í dag. Á ákveðnum svæðum er þegar uppi sú staða að landbúnaður hefur hvorki fjárhagslegt bolmagn né greiðslugetu til að taka þátt í þessum leik.

Ég fæ ekki  annað séð, en það stjórnvald sem getur með þjóðlendulögum gert  þinglýst eignarlönd manna upptæk geti kinnroðalaust sett reglur um að eignarhaldi á landi fylgi ákveðnar kvaðir um notkun og búsetu. Eflaust munu margir telja þessar vangaveltur forpokaðan hugsunarhátt og svartsýnisraus. “Ei veldur sá er varar” var líka einhvern tíman sagt.

Hvað umræðu um meðferð lands og landnýtingu varðar á ég við ótrúlega öfgafullar skoðanir og rangfærslur á síðum dagblaðanna, sem betur fer ekki margra einstaklinga,  um landeyðingu af völdum sauðfjárbeitar. Skoðanir settar fram af þvílíkri vanþekkingu og óvild að því er virðist, að manni hreinlega blöskrar. Allir sem til þekkja vita, að í þessum efnum hefur orðið gríðarleg breyting á undanförnum árum. Fyrir það fyrsta hefur sauðfé í landinu fækkað um helming frá 1978 og samfara því hefur vetrarbeit nánast lagst af. Þá er fé að öllu jöfnu mun skemmri tíma í afrétt en áður var og víðast beitt að mestu á ræktað land á haustin. Síðan er landnýtingarþáttur gæðastýringarinnar ákveðinn stimpill á það að landi sé ekki misboðið með óhóflegri beit. Þessu öllu til viðbótar hafa bændur svo í mjög vaxandi mæli komið að margsháttar uppgræðslu og landbótaverkefnum í samvinnu við Landgræðsluna, m.a. gegnum verkefnið Bændur græða landið. Þannig eru bændur, víða með góðri þátttöku sveitarfélaga, orðnir öflugasta liðssveit Landgræðslunnar við landgræðslu og landbætur og mætti halda því meira á lofti en gert er.

Það liggur í hlutarins eðli, er samgróið starfi sauðfjárbóndans, að vernda og verja afréttarlöndin og friðhelgi þeirra, en jafnframt nýta þau með skynsamlegum hætti.

Fylkja sér í sveit þeirra  sem vilja varðveita hreinleika og ásýnd íslenskrar náttúru. En þá verðum við líka að ganga á undan með góðu fordæmi. Gæta þess að umgengni okkar sjálfra um land sé til fyrirmyndar og eins og við viljum að hún sé hjá öðrum.

Ég held til að mynda að notkun alls konar torfæruhjóla við smalamennskur sé orðin verulega umhugsunarverð a.m.k. á því svæði sem ég þekki best til á. Og hygg að svo sé víðar farið. Ekki svo að skilja að slík tæki eigi ekki rétt á sér við ákveðnar aðstæður við smalamennskur, en mjög auðvelt að misnota þau líka. Ef við á annað borð höfum skömm á landskemmdum af völdum utanvegaaksturs þurfum við að gæta þess að kasta ekki grjóti úr glerhúsi.

Góðir fundarmenn. Hver er framtíð sauðfjárbúskapar á Íslandi í dag? Eru sauðfjárbændur stétt manna sem hægt og bítandi eldist og gengur úr sér? Erum við á allra næstu árum að sjá æ fleiri skörð koma í “lífbeltið græna”? sem Kristján heitinn Eldjárn orðaði svo meistaralega. Eru kjör og starfsskilyrði sauðfjárbænda þannig að þetta liggi einfaldlega í hlutarins eðli? Það vona ég svo sannarlega ekki. Þvert á móti finnst mér það andstætt allri rökhugsun, andstætt allri þróun og áherslum sem nútíminn leggur á hollustu og hreinleika matvæla, framleiddum  undir sjálfbærri þróun, að sauðfjárrækt á Íslandi eigi ekki lífvænlega framtíð. En þá verðum við sauðfjárbændur líka að trúa á málstaðinn sjálf. Verðum líka að halda á lofti öllum jákvæðu þáttunum við starf sauðfjárbóndans sem erfitt er að meta til fjár. Ef við gerum það ekki gera það engir aðrir.

Ég tel reyndar að nýleg skoðanakönnun B.Í. um viðhorf almennings á Íslandi til landbúnaðar staðfesti á þægilega óvæntan hátt, þvert ofaní alla matarverðsumræðuna,  að þjóðin er vel meðvituð um  hvílík forréttindi það eru að búa í einu allra hreinasta, ómengaðasta og besta landi heimsins til matvælaframleiðslu.

Að svo mæltu vona ég  að við megum eiga hér góðan og starfsaman fund, sem  efli samkennd sauðfjárbænda og auki þeim bjartsýni fram á veginn.

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda árið 2007 er settur.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar