Print

Skýrsla stjórnar til aðalfundar L.s. árið 2007

Frá síðasta aðalfundi hefur stjórn L.S. haldið 9 stjórnarfundi, þ.a. 2 símafundi. Þetta eru fleiri stjórnarfundir en oft hefur verið, enda unnið að gerð nýs sauðfjárssamnings nær allt starfsárið. Hann er eðlilega lang viðamesta og mikilvægasta málefni stjórnar á árinu og það sem mestur tími og vinna fór í. Nú hefur þessi samningur verið samþykktur með afgerandi meirihluta greiddra atkvæða sauðfjárbænda og einnig af Alþingi. Hann mun því marka starfsumhverfi sauðfjárbænda, innan þeirra þátta sem hann nær til, árin 2008 – 2013. 

Segja verður eins og er að gerð þessa samnings var engan veginn auðvelt viðfangsefni og tók lengri tíma en að reiknað var með, en náðist þó að ljúka honum með nokkrum fyrirvara eins og að var stefnt. Að hálfu bænda sátu þrír stjórnarmenn L.S. í samninganefndinni, auk tveggja stjórnarmanna B.Í. Þessi hópur vann mjög vel og náið saman allt samningaferlið og var samheldinn gagnvart fulltrúum ríkisins. Það tel ég tvímælalaust hafa styrkt stöðu okkar sauðfjárbænda við samningsgerðina.
Ekki verður fjallað efnislega um samninginn í þessari skýrslu, en útfærsluatriði sem honum tilheyra, s.s. endurskoðun reglugerðar um gæðastýringu og setning reglna um nýliðunarstuðning eru til meðferðar hér á fundinum. Þá er það eitraða eplið í þessum samningi, sem ég kalla svo, en það er afnám útflutningsskyldunnar. Enginn getur sagt fyrir um í dag, með neinni vissu, til hvers sú aðgerð muni leiða. Svo mikið er þó víst að í ljósi þessara breyttu aðstæðna er lífsnauðsyn fyrir sauðfjárræktina að hefjast þegar handa við að finna þessum málum farveg sem tryggir svo sem hægt er að ekki komi til 
birgðasöfnunar sem leiði til offramboðs á innanlandsmarkaði og verðhruns. 
Framkvæmdastjóraskipti urðu hjá L.S. á árinu. Özur Lárusson, sem um árabil hefur gegnt starfinu með ágætum kaus að láta af því og hætti hjá samtökunum þann 1. sept. Þann 12. september var svo ákveðið að ganga til samninga við núverandi framkvæmdastjóra Björn Elíson, sem hóf störf þann 1. október. Um leið og við þökkum Özuri fyrir einkar góð samskipti gegnum árin bjóðum við Björn velkominn til starfa og væntum góðs af hans vinnuframlagi fyrir sauðfjárræktina. 
Á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar,sem haldinn var þann 25. apríl voru allar tillögur síðasta aðalfundar teknar til meðferðar og þeim markaður sá farvegur sem vænlegastur þótti. Á stjórnarfundi í nóvember var svo aftur ákveðin frekari eftirfylgni í þeim tilfellum sem litlu hafði miðað. Nú er það svo að oft er erfitt að leggja mælistiku á hverju einstakar tillögur fá áorkað, jafnvel þótt þær hafi veruleg áhrif á þá umræðu sem í gangi er á hverjum tíma.
Tillaga 2.1.um kostnaðarhækkun sem hlaust af breyttri löggjöf um innheimtu þungaskatts var send til stjórnar B.Í. Þar hefur þessu máli ítrekað verið fylgt eftir í viðræðum við fjármálaráðuneytið, en illa gengið að ná lendingu, þó réttur bænda til þessara fjármuna sé í raun ekki véfengdur. Síðasta Búnaðarþing fjallaði einnig um málið og lagði til að reyna til þrautar að fjárhæðin skyldi í það minnsta renna til Lífeyrissjóðs bænda.
Tillaga 2.2. um mótmæli við hækkun raforkuverðs. Þessi tillaga var einnig send til stjórnar B.Í þar sem raforkumálin eru til sífelldrar skoðunar undir pressu frá öllum búgreinum.
Tillaga 2.3. um þátttöku sláturleyfishafa í kostnaði vegna örmerkja í sláturlömbum var rædd við þá og ljóst að verulegur áhugi er á málinu, enda ætti almenn örmerking lamba að geta sparað þeim vinnu og tryggt öryggi til muna. Þegar eru í gangi tilraunir í þessa veru og áhugavert að fylgjast grannt með þeim.
Tillaga 2.4. um að stjórn L.S. verði meira áberandi í fjölmiðlum og gagnvart sauðfjárbændum og efli tengslin við aðildarfélögin og fylgist með uppbyggingu á nýrri vefsíðu B.Í. Hvað alla fjölmiðlaumræðu varðar held ég nú að hægara sé um að tala en í að komast. Hins vegar réðu Bændasamtökin fagaðila til að vakta alla fjölmiðlaumræðu og leggja á ráðin um hverju ætti að bregðast við og þá hvernig. Þetta hefur þótt reynast vel, m.a. í umræðu um tollalækkanir og matarverð á Íslandi.
Stjórn hefur talsvert skoðað vefsíðumál samtakanna og lét nokkra aðila gera tilboð í vefsíðugerð. Á stjórnarfundi 22. febrúar var svo ákveðið að koma á koppinn heimagerðri vefsíðu til að byrja með, hannaðri af framkvæmdastjóra okkar, en hann hefur talsverða reynslu og þekkingu í þessum efnum. Mun hann gera fundinum grein fyrir hvernig málin standa.
Tillaga 2.5. um að koma á samstarfi við systursamtök í nágrannalöndunum var sett í skoðun en niðurstaðan sú að engin slík sambærileg hagsmunasamtök væri að finna.
Tillaga 2.6. um bætt aðgengi að háhraðatengingum var send stjórn B.Í. Nýjustu fregnir herma að nú hylli loks undir verulegt átak í þessum efnum.
Tillaga 3.1. um að skora á L.B.H.Í. að láta gera kennslubók í sauðfjárrækt var send Rektor og Háskólaráði og er vinna við gerð bókarinnar þegar hafin.
Tillaga 3.2. um að efla rannsóknir á sviði sauðfjárræktar með vinnuhagræðingu og hagkvæmni að leiðarljósi var send sömu aðilum og einhver skriður kominn á þau mál.
Tillaga 3.3. um að heimila endurnýtingu eyrnamerkja úr sláturlömbum án sérstakra umsókna var send yfirdýralækni og síðan rædd á fundi sem stjórn fékk með honum um það mál og fleiri. Tilslökun fékkst í málinu til fyrra horfs.
Tillaga 3.4. tilmæli um að fylgjast áfram með framkvæmd merkingareglugerðar. Þau mál voru einnig rædd á áðurnefndum fundi með yfirdýralækni og ýmsum athugasemdum og ábendingum komið á framfæri.
Tillaga 3.5. um að efla búnaðarnám og gera það eftirsóknarvert fyrir ungt fólk var send L.B.H.Í.
Tillaga 3.6. um að unnið verði að viðunandi lausnum varðandi skýrsluhald í sauðfjárrækt þar til allir hafa fengið ásættanlega nettengingu var send stjórn B.Í. 
Tillaga 4.1-2. um samræmingu á kjötmati og fitusnyrtingu dilkaskrokka í sláturhúsum og þrengingu leyfilegra frávika kjötmatsmanna var send Stefáni Vilhjálmssyni, fagsviðsstjóra kjötmats. Einnig voru kjötmatsmál rædd áfram við Stefán bæði á vettvangi stjórnar L.S. og Markaðsráðs. S.l. haust var svo gert átak til aukins samræmis í kjötmati milli sláturhúsa og einstakra kjötmatsmanna með auknu eftirliti og leiðbeiningum yfirkjötmatsins. einnig voru leyfileg frávik kjötmatsmanna þrengd. Stefán kom svo á fund hjá Markaðsráði nú nýverið og fór yfir hvernig kjötmat hefði gengið s.l. haust og hverju þetta átak hefði skilað. Fram kom að áhugi er á að halda þessu áfram næsta haust og bæta úr þeim ágöllum sem fram komu m.a. skilum á matsupplýsingum frá sláturhúsum.
Tillaga 4.3. um að leitast við að halda skinnaiðnaði og verkþekkingu sem honum tengist í landinu. Nú hefur tækjum og húsnæði Skinnaiðnaðar á Akureyri endanlega verið fargað. Á Sauðárkróki er hins vegar enn til staðar aðstaða og tæki til sútunar, lambsgærur sútaðar fyrir sérhæfðan innanlandsmarkað og vilji fyrir hendi til að halda því áfram. 
Tillaga 5.1. um úrbætur vegna óviðunandi vinnubragða við gerð samninga og uppgjör vegna riðuniðurskurðar. Tillagan var send yfirdýralækni og málið rætt á fundi með honum.
Tillaga 5.2. um breytingar á útreikningum tjónabóta Bjargráðasjóðs. Settur hefur verið á laggirnar starfshópur skipaður fulltrúum frá Samb. ísl. sveitarfélaga, félagsmálaráðuneyti, B.Í. og Bjargráðasjóði til að yfirfara lög og reglur um Bjargráðasjóð og stöðu hans. Sá hópur hefur að vísu ekki enn hafið formlega störf. Á fundi með framkvæmdastjóra sjóðsins s.l. haust kom fram að staða sauðfjárræktarinnar í B deild sjóðsins er orðin neikvæð og ekkert annað hægt að gera en hækka sjálfsábyrgðir í tjónum að óbreyttu
Tillaga 5.3. um nauðsyn þess að ná fram verulegum hækkunum á afurðarverði umfram verðlagsþróun. Viðmiðunarverð var ákveðið 5.júlí eftir þó nokkurt streð og heilabrot. Þrátt fyrir einbeittan ásetning stjórnar um að tryggja sauðfjárbændum meiri verðhækkun en fólst í því viðmiðunarverði sem gefið var út, eða 10% hækkun á dilkakjöti, 17% á fullorðnu og 220 kr. á kg. fyrir útflutning, varð niðurstaðan sú að lengra yrði ekki komist með það tryggt að viðmiðunarverð héldi sem lágmarksverð.
Þá var og gengið út frá því að yfirborganir yrðu ekki minni en verið hefur. Lagt var að stjórn að taka verð á gærum og innmat inn í viðmiðunarverðið og jafna kostnaði við flutning sláturfjár á móti. Þessu var hafnað af stjórn, en vel flestir sláturleyfishafar gerðu þetta eigi að síður. Þessi verðlagsmál, ásamt ósk sláturleyfishafa um afnám heimtökuréttar og fl. voru mikið rædd á formannafundi sem haldinn var síðsumars að Laugum í Sælingsdal. Þau eru enn uppi á borðinu og gott fyrir stjórn að fá fram skýran vilja frá sínu baklandi í þeim efnum.
Tillaga 5.4. um búgreinaskiptingu á gulum stuðningi og tryggingu fyrir að útflutningsþörf sé uppfyllt var send Samninganefnd sauðfjársamnings, enda laut hún alfarið að honum.
Tillaga 6.1. um heildstæða úttekt á dýralæknakostnaði var send öðrum búgreinasamböndum og áréttuð síðar. Nú er fyrirhugaður fundur með yfirdýralækni og LK um málið.
Tillaga 6.2. um að stjórnvöld tryggi fjármagn til viðhalds og endurnýjunar á sauðfjárveikivarnarlínum var send landbúnaðarráðuneyti og landbúnaðarnefnd Alþingis, en hjá Landbúnaðarstofnun er nú til meðferðar skýrsla starfshóps um endurskoðun allra þessara mála.
Tillaga 6.3. um að athuga þörf á endurskoðun laga um afréttarmál, fjallskil og fl.
Þessi mál eru nú til skoðunar hjá Má Péturssyni lögfræðingi B.Í. 
Tillaga 6.4. um að skipuleggja og kynna betur ullarsöfnun í samráði við bændur var send til Ístex og þessi mál rædd og yfirfarin á fundi með fulltrúum þeirra 23. nóv.
Tillaga 6.5. um viðbrögð við fuglaflensu var send Yfirdýralækni.
Þá hefur verið hlaupið í sem stystu máli yfir tillögur síðasta aðalfundar og afdrif þeirra síðan og skal nú aðeins víkja að fleiru.
Tillaga um 10% útflutningsskyldu var gerð á fundi Markaðsráðs 25. apríl. Sú tillaga byggði á söluspá fyrir sumarið, sem síðan ekki stóðst að fullu, og ljóst að hefði tillagan verið gerð 2 mánuðum síðar hefði hún orðið eilítið hærri. Hvað þetta ár varðar er ljóst að útflutningsprósentan mun hækka verulega og hafa útreikningar og spár bent til allt að 25% útflutningsskyldu í haust. Einnig er afar mikilvægt nú að stefna að lágmarks birgðum í ljósi væntanlegs afnáms útflutningsskyldunnar. Staðan á afsetningu útflutningskjöts frá síðasta hausti er hins vegar sú að það er þegar nær allt farið úr landi og a.m.k. einn sláturleyfishafi kominn verulega framúr sinni útflutningsskyldu. Ekkert er nema gott um það að segja og hefur Markaðsráð nú ákveðið að hækka mörk sláturleyfishafa til að flytja út umfram skyldu verulega.
Útflutningur til Bandaríkjanna hefur verið nokkuð í umræðunni eins og oft áður og einnig til meðferðar hjá stjórn L.S. Þá hefur yfirlýsingaþörf einstakra aðila í fjölmiðlum um þetta verkefni gengið úr hófi. Þó er nokkuð víst að áframhaldandi hvalveiðar munu setja þetta verkefni í verulegt uppnám, jafnvel koma því fyrir kattarnef. Að hvalveiðum undanskildum er ljóst að fullur áhugi er til staðar hjá fulltrúum Whool Foods keðjunnar að halda þessari markaðssetningu áfram. 


Fulltrúar þeirra voru hér á landi í byrjun mars til að fara yfir stöðuna og var þá rætt við fleiri sláturleyfishafa um aðkomu að verkefninu. Ég vænti þess að Baldvin Jónsson muni gera nánari grein fyrir stöðu mála hér á eftir, enda best til þess bær. Það er fyrst og síðast eldmóður og áhugi hans sem hefur opnað íslenskum landbúnaðarvörum dyr að hágæðamarkaði í Bandaríkjunum. Það má best líkja honum við harðskeyttan forustusauð sem fer í moldbyl á undan hjörðinni á hvaða forað sem er. En þá þarf líka að gæta þess að slitni ekki sundur.
Innanlandssala kindakjöts dróst saman um 3,2% á árinu 2006 og framleiðslan um 1,1%. Búast má við svipaðri framleiðslu í haust eins og haustið 2006 þar sem ásetningur er mjög svipaður milli ára. Hins vegar hafa kannanir sem Björn , framkvæmdastjóri okkar hefur gert staðfest það sem marga hefur grunað að munurinn á afurðaverði til bóndans og verði til neytandans út úr búð hefur vaxið mikið á síðasta ári og hefur ekki hlutfallslega verið meiri síðan 1995.
Árlegur ullarsamningur við Ístex var endurnýjaður 23. nóvember. Þar var samið um 2,7% meðaltalsverðhækkun á alla ullarflokka. Rekstur og fjárhagsleg staða Ístex er í járnum og ljóst að fyrirtækið má ekki við miklum áföllum. Það er þó mikilvægt að bændur stuðli að því að Ístex geti áfram afsett ullina með svipuðum hætti og verið hefur undanfarin ár. 
Rannsóknarverkefni um orsakir fósturdauða og dauðfæddra lamba var kynnt hér á síðasta aðalfundi. Þetta vandamál hefur verið afar hvimleitt og að því er virðist vaxandi með ári hverju. Þá staðfestir fósturtalning í vetur að veruleg brögð eru að dauðum fóstrum, alla vega í gemlingum. Síðar hér á fundinum mun verða kynnt hvað kom út úr rannsókninni s.l. vor. Þá hefur Fagráð samþykkt að styrkja verkefnið áfram sem forgangsverkefni.
Góðir fundarmenn. Það er alltaf álitamál við samantekt svona skýrslu hverju skal halda til haga og hverju ekki. Engu verður heldur gerð tæmandi skil í svo stuttu máli. Þó hefur eftir bestu getu verið reynt að drepa á það helsta og sakni menn einhvers, eða telji nánari skýringa þörf, munum við stjórnarmenn reyna að greiða úr því eftir bestu getu.
Að lokum þakka ég sauðfjárbændum, meðstjórnarmönnum og framkvæmdastjórum fyrir góð og ánægjuleg samskipti.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar