Print

Ræða frkstj. Markaðsráðs

Fundarstjórar, aðalfundarfulltrúar, góðir gestir.

Sauðkindin hefur haldið lífi í Íslendingur allt frá landnámi. Við værum ekki hér sem sjálfstæð þjóð ef sauðkindarinnar hefði ekki notið við. Þetta finnst mér gleymast stundum í umræðunni. Það er nú samt þannig að þó okkur finnist við litla athygli fá og okkar sjónarmið fái lítinn skilning þá sýnir könnun sú sem kynnt var á búnaðarþingi aðra sögu. Íbúar þessa lands vilja íslenskan landbúnað – svo einfalt er það.

Eins og formaðurinn kom inná áðan þá ætla ég að segja ykkur frá nýjum vef Landssamtakanna. Slóðin inná vefinn er fyrir okkur auðlærð eða sauðfe.is. Inni á þessum vef verða birtar fréttir og upplýsingar sem snúa að sauðfjárræktinni. Þetta verður einnig vettvangur allra sauðfjárbænda til að koma með innlegg í þá umræðu sem á sér stað hverju sinni. Ákveðið var að fara af stað með einfaldan heimasmíðaðan vef og geta þá kannað viðtökur sem og til að fá fram sjónarmið um hvað skuli vera á vef eins og þessum. Eftir að nýr vefur bændasamtakanna lítur dagsins ljós, væntanlega síðar á þessu ári verður það skoðað að vefur LS verði færður inní það viðmót og þá úrfærslu sem þar verður. Fram að þeim tíma er gott að geta verið búin að átta sig á hvað við viljum með heimasíðunni og hvernig við viljum nota hana. Vill ég nota tækifærið og óska hér með eftir greinum, fréttum og öðru því efni sem erindi á inná þessa heimasíðu. Einnig eru allar ábendingar vel þegnar um hvað má betur fara, hvað vantar eða hverju er ofaukið. Það er í raun okkar allra að halda heimasíðunni lifandi og áhugaverðri með því efni sem þangað ratar inn.

Ef síðan er skoðuð núna þá sést hlekkur á hægri kanti sem vísar beint inná efni sem snýr að þessum aðalfundi. Þarna er hægt að sjá dagskránna, ályktanirnar og ræður. Síðan munu koma þarna inn myndir frá fundinum.

Nú langar mig að víkja að Markaðsráði.

Til þess að sauðfjárrækt verði stunduð áfram á landinu þá þarf að selja afurðirnar og er það eitt af megin verkefnum Markaðsráðs kindakjöts.

Árið 2006 dróst salan á lambakjöti saman um 3,2% á meðan framleiðslan dróst saman um 1,1%. Samdráttur í sölu um 3,2% er 276 tonn sem er umtalsvert þegar búið er að setja kíló í stað prósentu. Fyrstu tveir mánuðir ársins fara af stað með heldur minni sölu en árið á undan. Sala í mars er ekki komin en mun skila sér inn á allra næstu dögum og þá verðu hægt að fylgjast með hver hún var inni á nýja vefnum okkar.

Þessi samdráttur í sölunni ásamt því að útflutningsskyldan var ákveðin heldur lág á síðasta ári gerir það að útflutningsskylda næsta árs stefnir í að verða allt að 25%. Að sjálfsögðu spilar inní þá ákvörðun, þegar hún verður tekinn, sú staðreynd að útflutningsskylda fellur niður frá og með 1. júní 2009. Það er alveg ljóst að stefna þarf að lágmarks birgðum í upphafi sláturtíðar 2009 og verður að vanda sérstaklega ákvörðun um útflutningsskylduna fyrir þetta og næsta ár.

Á síðasta fundi Markaðsráðs var ákveðið að heimila sláturleyfishöfum að flytja út verulega meira á þessu ári en þeirra skylda væri og að þessi umframútflutningur kæmi til frádráttar útflutningsskyldu næstu sláturtíðar. Er þetta gert þar sem flestir sláturleyfishafar eru búnir að uppfylla sýna útflutningsskyldu en markaðirnir úti vilja meira kjöt. Með það í huga að útflutningsskyldan muni hækka umtalsvert og að það stefnir í að nægt kjöt verði til var þessi ákvörðun tekin. Einnig spilar þar inní að hættulegt kann að vera að svelta okkar bestu markaði erlendis. Þeir markaðir sem byggðir hafa verið upp á undanförnum árum geta horfið ef þeim er ekki sinnt. Það hefur sennilega sjaldan eða aldrei verið mikilvægara að viðhalda þeim mörkuðum sem best gefa í útflutningi.

Hvernig á svo að selja lambakjötið erlendis? Mín skoðun er sú að rétta leiðin er að selja það út frá sérstöðu þess. Sérstöðu þess sem náttúruafurð. Við vitum að þetta er sú aðferð sem farin hefur verið í Bandaríkjunum hjá Baldvini Jónssyni og Áformi og þetta er einnig aðferðin sem farin hefur verið í Danmörku. Hugsanlega þarf að beita þessum sömu aðferðum á fleiri stöðum.

Ég nefndi Bandaríkin og þá sölu sem þar hefur farið fram. Í ár verða væntanlega nokkur þáttaskil í þeim útflutningi. Möguleiki er á að fleiri en Norðlenska komi að þeim markaði og er það allt í skoðun á þessari stundu. Einnig er viss hætta á að sá markaður einfaldlega loki á íslenskt lambakjöt ef hvalveriðum verður haldið áfram. Það er töluverð óvissa eins og þið heyrið en ég tel rétt að halda áfram með það starf sem þar hefur verið unnið ef það reynist nokkur kostur.

Þó svo að útflutningur samkvæmt lagboði falli niður þá verður að flytja áfram út lambakjöt. Lambakjötið er eina kjötið á íslandi sem á einhverja raunhæfa möguleika til að seljast erlendis. Samkeppnin fer klárlega harðnandi á næstu árum og er þá skemmst að minnast breytingar á innflutningstollum á kjöti. Nákvæmlega hvernig landslagið mun líta út á næstu árum getur ekki nokkur maður sagt til um. Hitt er hægt að segja til um með næsta öruggum hætti – landslagið mun breytast. Það eina sem hægt er að gera er að vera sem best í stakk búin til að mæta breytum aðstæðum.

Okkar mikilvægast markaður er og verður innanlandsmarkaðurinn og honum ber að sinna eins vel og kostur er. Í allri umræðunni um erlenda markaði megum við ekki gleyma því sem er næst okkur og því sem skiptir okkur mestu máli.

Klippikallinn – talsmann lambsins þekkjum við öll en hann var kynntur til sögunnar á síðast landsfundi. Þessum klippikalli er ætlað að ná til unga fólksins sérstaklega. Nú á hann eins  árs afmæli og af því tilefni er verið að mæla frammistöðu hans. Niðurstöður þeirra mælinga liggja fyrir síðar í þessum mánuði og mun þá verða ákveðið með framhaldið.

Ef horft er til lengri framtíðar þá þykir mér ólíklegt að sauðfjárbændum fjölgi mikið. Einnig þykir mér ólíklegt að framleiðslan aukist umtalsvert. Á móti kemur að Íslendingum fjölgar ár hvert. Það verða sífellt fleiri munnar til að borða það lambakjöt sem er framleitt. Við verðum hinsvegar að passa uppá að þau börn sem eru að alast upp í dag þekki og vilji borða lambakjöt. Ef okkur tekst það þá er hægt að selja allt það sem er framleitt. Eftir 30 ár þá verðum við Íslendingar 50 þúsund fleiri en í dag. Ef við höldum áfram að borða sama magn á ári hver maður þá dugir ekki núverandi framleiðsla.

Ágætu fundargestir,

Við þurfum að vanda okkur á næstu mánuðum og árum. Ef við gerum það og berum til þess gæfu að vinna saman þá eru sauðfjárbændum allir vegir færir.

Íslenskur landbúnaður er það sem Íslendingar vilja.

Björn Elíson
Framkvæmdastjóri
Markaðsráðs kindakjöts 

Starfsemi Markaðsráðs kindakjöts.
Markaðsráð kinda kjöts er samstafsvettvangur Landsamtaka sauðfjárbænda, Landsamtaka sláturleyfishafa og Bændasamtaka Íslands.  Í ráðinu sitja fyrir hönd LS. Jóhannes Sigfússon sem er jafnframt formaður ráðsins og S.Sindri Sigurgeirsson.  Fyrir hönd sláturleyfishafa Steinþór Skúlason og Sigmundur Ófeigsson.  Fyrir hönd Bændasamtaka Ísland Gunnar Sæmundsson.  Framkvæmdastjóri í 60% starfi er Björn Elíson.

Markmið ráðsins er að vinna að markaðs- og sölumálum á kindakjöti, aðallega innanlands og er það gert með beinum auglýsingum frá Markaðsráði.  Ráðið fylgist með söluþróun á kindakjöti, kemur að ákvörðun um útflutningshlutfall, álagsgreiðslna utan hefðbundins sláturtíma, samstarfsverkefnum varðandi þróun á vörum framleiddum úr kindakjöti ásamt öðrum málum sem eru sameiginleg sauðfjárbændum og sláturleyfishöfum.

Markaðsráð hefur staðið að auglýsingum allt árið bæði í sjónvarpi útvarpi, blöðum, tímaritum og veraldarvefnum, gefið út uppskriftarbæklinga ofl.  Einnig heldur ráðið úti uppskriftarvef fyrir lambakjöt og er slóðin www.lambakjot.is

Tekið úr rekstrarreikningi ársins 2006

Tekjur Markaðsráðs

     2006                             2005
kr. 39.997.160,-          kr. 45.232.235,-

Gjöld Markaðsráðs

     2006                             2005
kr. 34.852.367,-          kr. 45.280.925,-

Þar af eru gjöld vegna auglýsinga og styrkja árið 2006
kr. 29.724.971,-

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar