Print

Fundargerð birt

Fundargerð aðalfundar LS þann 10.-11. apríl 2008.  Fundurinn var haldinn á Hótel Sögu.

Hér er líka hægt að nálgast Word skjal með fundargerðinni.
doc fundargerdadalfundur2008 02/05/2008,10:50 300.00 Kb

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda
Bændahöllinni við Hagatorg

10. - 11. apríl 2008

Aðalfundurinn var settur í fundarsalnum Stanford á 2. hæð Hótels Sögu, kl. 13:00 þann 10. apríl.  Fulltrúar höfðu áður komið saman til hádegisverðar í Skrúð á Hótel Sögu.

Fimmtudagur 10. apríl
1. Fundarsetning og kosning embættismanna fundarins
Jóhannes Sigfússon, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, setti fundinn og bauð landbúnaðarráðherra. aðalfundarfulltrúa og gesti velkomna. Hann fór yfir ástandið á íslenskum markaði og fjallaði um fyrirhugaðar hugmyndir til að verjast afkomuhruni íslenskra sauðfjárbænda. Hann ræddi um rannsókn Samkeppniseftirlitsins á samtökum bænda en þeim beri þó skylda til að verja hagsmuni bænda. Þannig snúast alþjóðasamningar um að viðhalda núverandi skipulagi og veita bændum tækifæri til að verjast. Hann gagnrýndi hugmyndir um lækkun eða niðurfellinga tolla á innfluttum landbúnaðarvörum og fór yfir alvarlegar afleiðingar gagnvart bændum í landinu og þeirra sem starfa við úrvinnslu landbúnaðarvara, ef slíkt næði fram að ganga. Hann ræddi um nýja sauðfjársamninga sem gengu í gildi í ársbyrjun 2008 og sagði mikils virði að það hafi verið gengið frá þeim samningum fyrir sauðfjárbændur í landinu. Hann gagnrýndi hækkun áburðarverðs og sagði hana koma afar illa við sauðfjárræktina. Í ljósi núverandi stöðu telur stjórn LS mikilvægt að viðmiðunarverð verði gefið út eins fljótt og unnt er. Mikilvægt sé að þeir sem beri ábyrgð í þessum málum axli hana og verji hagsmuni þeirra sem eiga allt sitt undir því. Benti á að sá sem ekki vonast eftir sigri eða því að ná fram sínum markmiðum hefur þegar tapað. Traustur sauðfjárbúskapur er ómæld hagsbót fyrir land og þjóð og ekki má gleyma að landbúnaður er hluti sögu þjóðarinnar. Erlend skuldasöfnun kemur öllum illa og bitnar á þeim sem síst skyldi. Því sé mikilvægara nú en ella að standa vörð um stórkostlegar auðlindir til sjávar og sveita. Þannig sé keppikefli að ná á sjálfbæran hátt að framleiða holl og góð matvæli sem að öll þjóðin hefur aðgang að. Jóhannes fór að lokum með frumsamið ljóð sem nefnist Vornótt heima og segist óska þess að aðalfundurinn takist vel og verði öllum til framdráttar. Hann lagði síðan fram tillögu um að fundarstjórar á aðalfundinum yrðu Aðalsteinn Jónsson og Sigríður Jónsdóttir. Það var samþykkt samhljóða.  Setningarræða Jóhannesar er birt í heild sinni á vef LS – saudfe.is

Aðalsteinn Jónsson tók þá við fundarstjórn, bauð alla fundargesti velkomna og þakkaði það traust sem honum og Sigríði væri sýnt. Hann lagði fram tillögu um að fundarritarar yrðu Agnar Gunnarsson og Þóra Sif Kópsdóttir. Einnig að tölvuritari verði Inga Guðrún Kristjánsdóttir. Það var samþykkt samhljóða.  Hann lagði jafnframt til að fulltrúar í kjörbréfanefnd yrðu Halldóra Björnsdóttir, Ragnar Þorsteinsson og Örn Bergsson, og sá síðastnefndi yrði jafnframt formaður nefndarinnar.  Það var samþykkt samhljóða. Hann fór svo yfir dagskrá fundarins.

 

2. Ávörp gesta

a) Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Ráðherra sagði það ánægjulegt að vera kominn á aðalfund sauðfjárbænda. Landbúnaðurinn hefur tekið miklum breytingum á síðastliðnum árum, þannig hafi stækkun og fækkun búa tekið við í sífellt tæknivæddara samfélagi sem hefur einnig fært landbúnaðinn nær þéttbýli. Að sama skapi hafi nýjar greinar landbúnaðarins orðið virkari líkt og t.d. skógrækt. Hann sagði mikinn árangur hafa náðst með hagræðingu, en samt sem áður sé t.d. sláturkostnaður hér á landi tiltölulega hár. Hann sagði að íslenskir neytendur vildu kaupa íslenska búvöru og framleiðslu. Því sé mikilvægt að íslenskir bændur gæti að því að merkja afurðir sínar vel. Sjaldan hafi verið brýnna en núna að ná fram sem hagkvæmastri nýtingu og að vel sé farið yfir arðsemi ólíkra þátta. Samþykkt nýs sauðfjársamnings hafi verið mjög brýn, en markmiðin með honum hafi m.a. verið að efla sauðfjárrækt sem atvinnugrein, bæta afkomu sauðfjárbænda, að stuðla að nýliðun í hópi sauðfjárbænda, styrkja búsetu í dreifbýli ásamt því að stuðla að framþróun í sauðfjárrækt. Nýmæli hafi verið í samningnum, þ.e. hærri framlög til ýmissa þátta, samtals upp á 300 milljónir króna. Undanfarið hefur verið unnið að innleiðingu samningsins. Nýi samningurinn gerir ráð fyrir að aukin vinna færist til Landssamtaka sauðfjárbænda, þar á meðal birgða- og markaðsstarf. Árið 1994 tók EES samningurinn gildi. Með tilkomu nýrrar matvælalöggjafar Evrópusambandsins er mikilvægt að Íslendingar færi sína löggjöf í átt að samræmdri löggjöf sambandsins. En mikilvægt hafi verið að viðhalda ákveðnum ákvæðum í lögunum, líkt og t.d. undanþága gagnvart innflutningi lifandi dýra. Þannig getum við krafist sérstakrar salmonelluvottunar og eftirlits. Hann ítrekaði að mikilvægt væri að lögfesta nýjar breytingar til að fylgja löggjöf Evrópusambandsins, þar sem Evrópa sé lang mikilvægasta útflutningssvæði okkar hvort sem um er að ræða fisk, kjöt eða mjólkurvörur. Ef við gerðum það ekki værum við að setja útflutningsvörur okkar útaf markaðnum. En þessi breyting kveður ekki á um breytingar á tollum. Hann taldi nauðsynlegt að geta þess að íslenskum stjórnvöldum bæri að greiða leið íslenskum útflutningsvörum. Hann fjallaði í því samhengi um löggjöf um hreinlæti í sláturhúsum til að tryggja möguleika á útflutningi. Hvað sem þessu líði þá sé mikilvægt fyrir alla að fylgst verði með því að ekkert verði gefið eftir þegar kemur að heilnæmi og gæðum á innfluttri vöru. Það væri alls ekki ætlunin að tefla íslenskum aðstæðum í tvísýnu með innfluttum vörum. Hann sagðist  ekki hræðast samanburðinn þegar kemur að innflutningi, þar sem íslenskt lambakjöt stenst allan samanburð við innfluttar vörur. Hann ræddi um merkingar á íslenskum vörum og sagði þá leið sem grænmetisbændur hafi sameinast um og farið eftir með íslensku fánalitunum í merki sínu vera skynsama og sagðist telja að merkið hafi gefist þeim vel. Hann sagði landbúnaðarráðuneytið hafa fullan hug á að vinna með Bændasamtökunum að slíkum merkingum fyrir aðrar landbúnaðarvörur sé áhugi fyrir hendi. Hann greindi frá því að hann muni gera að tillögu sinni að 1. maí falli niður tollar á öllum fóðurvörum, tímabundið til næstu áramóta. Ráðherra sagði að lokum samkeppnisstöðu landbúnaðarins óhjákvæmilega koma til með að þróast á næstu árum, en sagðist jafnframt hafa mikla trú á íslenskum landbúnaði í þeim efnum.
Ávarp ráðherra er birt í heild á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins – sjavarutvegsraduneyti.is

b) Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands
Haraldur gagnrýndi í ræðu sinni að landbúnaðarframleiðendum sé gjarnan stillt upp á móti markaðnum sem verði til þess að varpa skugga á umræðu þeim í hag. Gæði matvöru byggja á frumframleiðslu og gæði og heilnæmi séu einkunnarorð íslenskra bænda. En íslenskir bændur megi ekki loka augunum fyrir því að það sé margt sem betur megi fara, t.d. í umhverfismálum. Þannig sé umhirðu rúlluplasts of oft ábótavant, þó svo að flestir bændur fari eftir settum reglum í þessum málum. Hann ítrekaði að það sé alls ekki sjálfgefið að bændum sé stillt upp gegn neytendum og taldi það afar neikvætt. Í þessarri umræðu sé alltof algengt að milliliðir sem ákvarði verð til verslana og söluaðila gleymist og verði útundan í allri umræðu. Það væri staðreynd að framleiðendur og neytendur verði aldrei á eitt sáttir þegar að kemur að verði en það sé eðli markaðslögmálanna. Hann ræddi matvælalöggjöf ESB og sagði hana hafa mikil áhrif á íslenskan landbúnað. Það eina sem standi eftir óbreytt séu tollar og magninnflutningskvótar. Ýmsir veikleikar eru á frumvarpinu varðandi það að heimila innflutning á erlendri landbúnaðarvöru, þannig sé t.d. ekki nógu skýrt kveðið á um hver staða bænda sé. Lögin fela í sér ýmsar breytingar og bjóða ýmsum hættum heim, t.d. með hugsanlegum innflutningi á kamfýlóbakter- og salmonellusmitaðri vöru. Þessi hugsanlega breytingu kæmi til með að veita íslenskum landbúnaði aðhald, því til að auka samkeppni verður flutt inn vara frá löndum þar sem verðið er hvað lægst en að sama skapi skapast þá hvað mest hætta á fyrrnefndum bakteríum. Hann taldi mikilvægt svo að íslenskir bændur geti staðið jafnfætis öðrum í samkeppni að þá verði góð dýralæknisþjónusta tryggð öllum, óháð búsetu. Jafnframt taldi hann fullkomlega óeðlilegt að innfluttar vörur bæru ekki eðlilegt tollverð. Hann gagnrýndi mótsagnir ráðherra ríkisstjórnarinnar og sagði ekki hægt að sjá að allir ráðherrarnir tilheyrðu sömu ríkisstjórninni. Í framhaldi af því gagnrýndi hann stefnu Samfylkingarinnar, en nái hugmyndir þar á bæ fram að ganga kemur það til með að kollvarpa allri íslenskri framleiðslu á alifugla- og svínakjöti. Hann sagði formann Samflylkingarinnar leyfa sér að tala með mjög óábyrgum hætti til bænda. Segir landbúnaðarráðherra hafa stigið fram og lýst stefnu sinni og á það hlusti bændur, en þegar að aðrir ráðherrar tala í ólíkar og allt aðrar áttir ýti það undir óöryggi meðal bænda. Það væri áhyggjuefni að þurfa að treysta á slík stjórnvöld og ennfremur sé það erfitt að eiga allt sitt undir þeim. Nú þegar bændur standi frammi fyrir verulegri lækkun tolla á innfluttri vöru þá væri það afar mikilvægt að Landssamtök sauðfjárbænda taki þessa umræðu. Íslenskur landbúnaður sé sterkur og hafi afskaplega mikla sérstöðu, það ættu þær eftirlegukindur sem halda að landbúnaðurinn sé að verða á eftir að hafa í huga. En mikilvægt væri að bændur séu tilbúnir að aðlaga sig að breyttum aðstæðum.

c) Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs
Jón þakkaði tækifærið til að fá að ávarpa þingið og skilaði kveðju frá VG. Hann sagðist sjá í því pólitíska litrófi sem við stöndum í núna sé tekist á um margt og þar á meðal afkomu sauðfjárræktarinnar. Þannig hafi sauðfjárræktin tekið á sig hagræðingu og nýjar kröfur. Því má segja að bændur hafi virkilega tekið sig á líkt og margar aðrar atvinnugreinar í landinu. Hann sagðist telja það verulegt afturhvarf aftur til fortíðar þegar kæmi að vörugæðum að leyfa innflutning á erlendum kjötvörum og sérstaklega hráum kjötvörum. Nú væri skynsamlegt að fá að heyra þau rök sem urðu til þess á sínum tíma, fyrir um það bil 10 til 15 árum, að innflutningur á erlendri kjötvöru var ekki heimilaður. Jón taldi að með þessum hugmyndum væri verið að stefna íslenskum búfénaði í hættu, en hingað til hafi verið tollar og löggjöf til varnar slíkum innflutningi. Í allri þessari umræðu gleymist sérstaða okkar sem skapast hefur með því að hingað til hafi hrá kjötvara ekki verið flutt inn til landsins. Þessi sérstaða okkar á að vera okkur hvatning til að efla og styrkja okkar eigin innviði. Hann ræddi mikilvægi þess að allir hafi aðgengi að tryggum dýralækningum og eins mikilvægi þess að landbúnaðurinn hafi aðgang að landi og náttúrulegum auðlindum til þess að halda áfram að dafna. Hann sagði að lokum VG standa innilega með íslenskri sauðfjárrækt á þessum umbrotatímum.

Að loknum ávörpum gesta var boðið upp á fyrirspurnir til landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.

Guðrún Stefánsdóttir
Guðrún sagði mikilvægt að staðið verði við sauðfjársamninginn, sem nýlega hafi tekið gildi. Sagði niðurfellingu útflutningskyldu hafa verið gerða að kröfu ríkistjórnarinnar en ekki sauðfjárbænda. Mikið væri talað um matvælaöryggi í heiminum í dag, en þrátt fyrir það sé sífellt verið að ýta undir óöryggi á meðal bænda.  Komið hafi verið til móts við mjólkurbændur og nú þurfi að gera slíkt hið sama gagnvart sauðfjárbændum. Þær heilbrigðiskröfur sem lagðar eru á íslenska bændur séu með því hæsta sem gerist í heiminum og slíkar kröfur kosti mikla fjármuni úr vösum bænda. Því sé illskiljanlegt að nú skuli eiga að fara að flytja inn vörur frá löndum þar sem sambærirlegar kröfur eru ekki gerðar. Það komi óhjákvæmilega til með að skekkja samkeppnisstöðu íslenskrar vöru. Mikilvægt væri að land sé ekki falt undir sumarbústaðslóðir sé áhugi fyrir hendi að stunda búskap á því. Slík þróun, líkt og hefur viðgengist undanfarið, býður upp á að sú hætta skapist að ekki verði nóg ræktunarland til staðar á endanum. Við núverandi stöðu séu horfur fyrir sauðfjárbændur ekki nægilega lífvænlegar.

Einar Kristinn Guðfinnsson, landbúnaðarráðherra svaraði fyrirspurnum.
Ráðherra sagðist ekki eiga þurfa að svara hvort að staðið verði við sauðfjársamninginn. Hann hafi verið samþykktur og undir hann hafi verið skrifað sem þýði það að allur vilji sé til þess að standa við hann. Sú umræða sem fari fram núna, t.d. í fjölmiðlum, sé í þá átt að hann telji það mikilvægt að minnt sé á það afdráttarlaust að ríkisstjórnin ætlar sér að standa við samninginn. Nú gangi miklar breytingar yfir okkar þjóðfélag og því sé mikilvægt fyrir greinina að hafa fast land undir fótum. Hann viðurkenndi að niðurfelling útflutningsskyldu hafi verið að kröfu ríkisvaldsins og þetta hafi orðið niðurstaðan.  Við þær aðstæður sem nú séu uppi að sé erfitt að breyta því. Samt sem áður sé þetta mál sem ekki sé hægt að líta fram hjá. Hér væri um að ræða breytingu í starfsumhverfi landbúnaðarins, en þetta eigi ekki að þurfa að raska því. Hann sagði ekki verða komist hjá að innleiða matvælalöggjöf ESB og því þurfi að vinna eftir henni. Hún nær yfir allar greinar og hverskonar matvælaframleiðslu og hjá því verði ekki komist. Það væri misskilningur að ekki verði gerðar sambærilegar kröfur og hér til þeirrar vöru sem flutt verði til landsins. Þó svo að við getum alltaf haft efasemdir um að rétt vinnubrögð séu viðhöfð. En þá höfum við ákveðin úrræði til að bregðast við eftir, teljum við að gæðin séu ekki fullnægjandi, en til að grípa til þeirra þá verður rökstuddur grunur að búa að baki. Ef að upp kemur einhver ástæða til að ætla að ekki sé staðið nægjanlega vel að framleiðslu þá getum við gripið til aðgerða. Mikið hafi verið rætt um land að undanförnu og notkun á landi bænda sé að breytast mikið með tímanum. Fleiri þættir séu að koma inn í, svo sem skógrækt og hestaíþróttir svo eitthvað sé nefnt. Því sé eðlilegt að velta því fyrir sér hvort að æskilegt sé að breyta skipulagslögum og nefnd hefur verið skipuð til að gera úttekt á málinu. Þær breytingar sem eru að verða, verðskuldi það að farið sé ítarlega yfir þessi mál. Hann sagðist vona að hann hefði svarað með fullnægjandi hætti þeim fyrirspurnum sem til hans var beint.  Að lokum þakkaði ráðherra fyrir sig og óskaði fundarmönnum góðs og málefnalegs aðalfundar.

3. Matvælastofnun og sauðfjárbændur
Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir, flutti erindi fyrir hönd Matvælastofnunar en Jón Gíslason forstjóri stofnunarinnar forfallaðist á síðustu stundu.
Halldór kynnti í upphafi nýja skammstöfun stofnunarinnar, MAST, ásamt nýrri heimasíðu mast.is. Fram að samþykkt nýrra laga hafi starfsemin sem hér um ræðir heyrt undir Landbúnaðarstofnun. Eftir samþykkt laganna hafi fleiri stofnanir verið sameinaðar sem komi saman að Matvælastofnun. Hann kynnti starfsemi og ólík svið innan Matvælastofnunar. Þannig væri það til dæmis dýraheilbrigðissvið sem færi með eftirlit heima á búunum. Svo væri annað svið sem fari með úrvinnslu, dreifingu og sölu matvæla almennt. MAST starfar eftir nýju löggjöfinni, fyrir utan það sem er unnið af heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna. Í Reykjavík er starfandi skrifstofa sem fer yfir útflutningsmál. Halldór ræddi um starfsleyfisskyldu sauðfjárbænda sem fylgir nýrri löggjöf ESB. 14 héraðsdýralæknar hafi verið starfandi út um allt land en það breytist með nýrri löggjöf og fækkar þeim þá niður í 6. Þessi löggjöf sem verið er að tala um hefur átt sér nokkurn aðdraganda og það hafi verið krafa Evrópusambandsins frá því að við gengum í EES að við myndum taka þetta yfir að fullu. Krafan væri að við hættum að starfa eftir þessum undanþágum sem að við höfum haft. Hann ræddis síðan landamærastöðvar vegna fyrirhugaðs innflutnings á kjötvörum. Frumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi sem væntalega verður afgreitt fyrir vorið, samkvæmt ákvæðum EES samningsins. Í löggjöfinni fælust ekki breytingar á tollum, hvorki magn- né verðtollum. Strax hafi verið gerð krafa um að lifandi dýr væru ekki þar inni vegna okkar sérstöðu og við því var orðið. Starf Matvælastofnunar væri m.a. að sjá til þess að þær vörur sem verði hér á borðstólum séu ekki af lakari gæðum en innlend vara og standa vörð um hagsmuni íslenskra matvælaframleiðenda. Hann sagði þá hugsun að öllum líkindum vera gagnkvæma, þ.e. að líkt og við efumst um vörur sem fluttar verði hér inn, að þá efast aðrir um kosti og gæði vara frá öðrum löndum og þetta eigi við þau lönd sem að okkar vara sé flutt til líkt og annarsstaðar. En útflutningur allra landa væri undir eftirliti hjá eftirlitsstofnun EFTA. Líkt og eftirlit með lyfjagjöf heima á búunum. En aukið eftirlit er eitthvað sem að við þurfum að standa klár á til að geta byggja upp og viðhalda trúverðugleika á okkar útflutningsvörum. Halldór ræddi síðan um varnarlínur og varnarhólf og allan rekstur þeirra, ekki síst um kaup og sölu á líflömbum sem kom fyrst til vegna riðuniðurskurðar. Með tímanum hafi orðið vaxandi þungi á því að fleiri fengju að kaupa sér líflömb, aðrir en þeir sem þurftu að skera niður vegna riðu. Reglur vegna þessa hafa verið endurskoðaðar undanfarið og fundurinn væri ágætur vettvangur til að fara yfir þessi mál. Mikilvægt sé að líflambasölusvæðin verði betur skilgreind. Hann fór yfir hólfin fyrir hvert líflambasölusvæði. Óskir hafa komið frá fleiri svæðum um að geta hafið sölu á líflömbum. Halldór kynnti tillögu að ferli sem MAST leggur til um efnið, en ítrekaði að þetta væri ekki fullmótuð tillaga og enn sé verið að vinna að henni. Mikilvægt væri að reglur um sölusvæði líflamba verði rýmkaðar og að sama skapi verði rýmkað töluvert hverjir geta keypt líflömb. Þá gæti áhugasamir bændur sett sig í samband við þá sem hafa leyfi til að selja líflömb. Sumir telja að verið sé að gera óþarflega miklar reglur um þetta ferli, en reynslan hefur kennt að þetta þarf allt að vera vel skilgreint og gegnsætt öllum til hagsbóta. Þannig þurfi þeir sem fá leyfi Matvælastofnunar til að selja líflömb að standast ákveðin skilyrði, þ.a.m. er gerð krafa á um að riða hafi aldrei komið upp á svæðinu t.d. landsvæði varnarhólfs sem afmarkast af náttúrulegum hindrunum sem mynda farartálma eða hindrun á samgangi sauðfjár, að bærinn sé á líflambasölusvæði og að upplýsingar um sjúkdóma, lyfjagjöf og sníkjudýrameðhöndlun liggi fyrir. Verið væri að endurskoða þessi mál öll og óskaði Halldór eftir spurningum og athugasemdum í umræðum á eftir. Að lokum sagði Halldór frá því að þau sýni sem tekin voru síðastliðið haust í sláturhúsunum til greiningar á riðu hafi verið rannsökuð núna fyrir síðastliðin áramót, sem væri mjög jákvætt. Nú búi Matvælastofnun yfir betri tækjum og tólum til úrvinnslu sýna sem hafi flýtt fyrir úrvinnslu og greiningu gagna. Ekki væri hægt að afsaka það sem kom upp á síðastliðnu ári þegar greining sýna var framkvæmd alltof seint og tilkynna hafi þurft bónda um jákvæð sýni á þeim tíma sem að hann var að keyra fé sitt á fjall.

Fyrirspurnir og athugasemdir um erindi Halldórs Runólfssonar

Erlendur Ingvarsson
Erlendur fór yfir bréf sem honum barst, frá Matvælastofnun, þegar að sýni frá honum hafði verið rannsakað. Bréfið var ódagsett og ekki var gefið upp úr hvaða dýri sýnið var. Af þessum upplýsingum að dæma lægi ljóst fyrir að rekjanleiki til grips sé ekki til staðar. Hann velti því fyrir sér að hvað hefði orðið ef að sýnið hefði verið jákvætt og veltir því þá fyrir sér einnig hvernig það bréf hefði verið útlítandi.

Þorsteinn Kristjánsson
Spurði nánar út í starfsleyfisskyldu sem Halldór ræddi um.

Sigurður Jónsson
Spurði um línur á milli varnarhólfa og viðhald og eftirlit með þeim. Hann viti til þess að bændur hafi leyft sér að klippa á girðingar til þess að koma fé á betra beitiland. Þetta væri afar brýnt mál sérstaklega þar sem gerst hefur að þurft hafi að skera niður fé vegna búfjárssjúkdóma, líkt og riðu, vegna þessa. Því sé afskaplega mikilvægt og þarft að vinna betur í þessu og taka þetta mál traustum tökum, ekki hvað síst nú þegar leyfður verður innflutningur á hráu kjöti þá vex hætta á að áður óþekktir búfjársjúkdómar berist til landsins.

Gunnar Þórarinsson
Spurði nánar út í líflambasvæðin. Hann kæmi úr Húnavatnssýslu og þar hafi verið eitt hólf tilgreint, það er Miðfjarðarhólf. Spurði hvort það komi til greina að fjölga hólfunum.

Guðrún Stefánsdóttir
Sagði bændur hafa fengið hótunarbréf frá sýslumanni ef að vantað hafi eyrnamerki í örfá lömb. Spurði hvort ekki sé gert ráð fyrir því að einhver afföll geti orðið og merki dottið úr. Sagðist hafa orðið vör við ansi mikla hótunargleði og óskar eftir því að fá að vita hvort að svona sé þetta á fleiri stöðum.

Lárus Sigurðsson
Sagði yfirdýralækni hafa talað um starfsleyfi fyrir sauðfjárbændur og hann hafi tekið sem dæmi að slíkt væri gert hjá kúabændum. Þar sem hann afhendi sín dýr lifandi þá spyrði hann sig hvort að lömbin séu orðin matvæli þá. Annað væri ef að hann væri með heimaslátrun og sendi frá sér kjötvöruna beint. Á að á sama tíma og verið sé að fækka dýralæknisumdæmunum og færa dýralæknana fjær sauðfjárbændum, þá sé sífellt verið að gera harðari kröfur um gæði matvæla. Ákveðin þversögn fælist í þessu öllu saman. Það sé mannúðarsjónarmið að ekki þurfi að sækja slíka grundvallarþjónustu um allt of langan veg.

Guðbrandur Sverrisson
Sagðist telja að varnarlínum hafi ekki verið sinnt sem skyldi og fé færi alltof auðveldlega yfir þær. Það fari svo eftir vegalengdum hversu langt féð nær að komast og hvort að það eigi afturkvæmt lifandi. Þar sem það eiga að vera mörk á söluheimildum að þá hljóti að þurfa að halda þessum línum við. Fjármagn til viðhalds á línunum hafi verið mjög af skornum skammti.. Eins þurfi að gera átak í því að hreinsa upp girðingar sem liggja meira og minna niðri, víðs vegar um landið. Það væri alltof algengt að þessi girðingamál séu í ólestri og slíkt eigi ekki að þekkjast.

Birgir Arason
Þakkaði fyrir þau erindi sem flutt hafa verið. Spurði út í starfsleyfisskyldurnar sem Halldór ræddi um. Hann sagðist þekkja til varðandi mjólkursöluleyfin í kúabúskapnum Þar þurfi að uppfylla skilyrði um gæði vatns og tilheyrandi sýnatökur á og jafnframt borga vatnseftirlitsgjald árlega. Spyr Halldór hvort hann telji þetta gjald verða sett á í kjölfarið á sauðfjárbúskapinn og hvort að það komi til með að þurfa að greiða þessi gjöld fyrir dýr sem aldrei fara inn í hús og eru úti allt sitt líf líkt og lömbin sem fara til slátrunar að hausti. Spurði út í rekjanleika dýra sem er slátrað og ítrekaði að þessi kerfi verði að virka ef að það er verið að setja þau upp á annað borð. Það nægi ekki að setja þau aðeins upp vegna stjórnsýslunnar, heldur þurfi þau einnig að virka í notkun. Hann væri hlynntur varnarlínum sem að henta aðstæðum í mismunandi sveitarfélögum, en þessar girðingar væru víða í afar bágbornu ástandi. Spyr hvort einhver ábyrgð sveitarfélaga sé í gildi og hvort að svo verði áfram. Bændur þurfi að lifa við það að verktakar fari um allt land og á milli varnarlína með sín tæki og tól án þess að þau séu sótthreinsuð. Spurði hvort að eitthvað hafi verið hugsað út í að taka á vinnubrögðum þessara verktaka í landbúnaði.

Halldór Runólfsson svaraði fyrirspurnum
Halldór þakkaði fyrirspurnirnar. Erlendur Ingvarsson hafi farið yfir bréf sem honum hafi borist frá Matvælastofnun. Halldór sagðist ekki skilja hvernig bréfið hafi komist í gegnum kerfið án þess að hafa verið dagsett og tilvísun hafi vantað í kindina sem sýnið var tekið úr. Þetta væru mistök sem hægt væri að læra af en starfsfólk Matvælastofnunar sé enn að komast inn í þetta ferli og taki gjarnan við öllum ábendingum. Sagðist gera ráð fyrir því að þetta verði bætt og komi til með að batna með reynslunni. Varðandi starfsleyfin séu þær kröfur sem þegar eru gerðar í sambandi við gæðastýringu og lyfjagjafir grunnur sem hægt verði að byggja á. Halldór sagðist vonast til að þetta verði í samræmi við það sem annarsstaðar gerist, vonandi væru allir með góðar skráningar nú þegar í sínum landbúnaði og því þurfi þetta ekki mikið að breytast. Sigurður Jónsson og fleiri hafi minnst á varnarlínur. Nefnd hafi verið skipuð og hún fór yfir girðingar og hólf, og almennt yfir sauðfjárveikivarnir.  Ekki hefur fengist nægt fjármagn í viðgerðir, þar sem forgangsröðun hefur hægt á slíkum viðgerðum. Eins hefur verið farið yfir það hvort að allar línur þurfi að halda sér. En því miður hefur ekki gengið nógu hratt að fara yfir þá vinnu sem að nefndin skilaði af sér. Ákveðið var að ákveðnum girðingum þyrfti að halda við og vonandi hafi það verið gert almennilega undanfarin ár. Því mikilvægt væri að halda girðingunum við og að hólfin verði til framtíðar, vonandi verður það þannig að hægt verði að bæta fleirum við eftir því sem fram líða stundir. Halldór ræddi um áhættu í kjölfar aukins innflutnings. Ákveðnar mótvægisaðgerðir verði settar af stað til að okkar góða staða í búfjársjúkdómum verði ekki fyrir borð borin. Miðfjarðarhólf hafi verið skoðað og fleiri svæði komi til greina, en hann getur ekki svarað því nú hvað verður nákvæmlega í þessum efnum. Guðrún Stefánsdóttir hafi fjallað um svokölluð hótunarbréf, líkt og hún kallaði þau, og spurði hvort að Suðurland væri sérstaklega í gjörgæslu þegar að kæmi að þeim málum. Nokkrir bændur hafi átt langt í land þegar kom að því að merkja fé með samræmdum eyrnarmerkjum. Því var farið í það með hæfilegum þrýstingi að fá úrbætur og það hafi verið gert. Þegar dýr hafa komið í sláturhús ómerkt, þá hafa þau verið tekin frá og skráð niður. Þessar upplýsingar séu allar skráðar niður í gagnagrunn. Þegar að þetta kemur upp þá fái bændur góðlátlega ábendingu um að merkja fé sitt betur. En ef að það kemur til þess að þetta brot á reglugerðinni kemur upp aftur, þá berst sama bónda annað bréf. Verði ekki úrbætur að því loknu þá berst bóndanum þriðja bréfið og það er þá nokkuð strangara, enda sé ljóst að viðkomandi ætli sér ekki að fylgja þeim ábendingum sem fram hafa komið. Þessi ferill muni verða unninn áfram og það sé verið að vega og meta hvað geti talist eðlileg afföll og þá séu gerðar ráðstafanir þegar eitthvað kemur upp sem ekki getur talist eðlilegt. En sé eitthvað undir eðlilegum mörkum telur hann að ekkert alvarlegt sé viðhaft í slíkum tilvikum. Lárus Sigurðsson spurði hvort hugmyndir um starfsleyfi sauðfjárbænda falli undir hugtakið matvælaframleiðendur. Þetta sé vegna þess að bændur þurfi að standa skil á rekjanleika og það sé fylgst með því hvernig þeir fari eftir þessum rekjanleika. Þá kannski fyrst og fremst til að geta rekið hvort að það sé lyfjaleifar að finna í dýrunum. Varðandi dýralæknaþjónustu sé mikilvægt að óháðir einstaklingar verði fengnir í eftirlit með þessum málum svo ekki komi upp hagsmunaárekstrar. Að baki breytinga á embætti dýralækna sé alveg sama hugsun í gangi og áður, það er að tryggja bændum jafnt í þéttbýli sem dreifbýli alla eðlilega þjónustu. Í lögunum séu skýr ákvæði sem fjalli um það að landbúnaðarráðherra skuli sjá til þess að öllum sé tryggð þjónusta dýralækna óháð búsetu o.fl. Þannig hafi t.d. héraðsdýralæknir á Austurlandi ákveðnum skyldum að gegna gagnvart Norrænu. Guðbrandur Sverrisson hafi talað um varnarlínur. Að öllum líkindum verði Kollafjarðarlína látin standa, en það sé hörmulegt að heyra af því að menn hafi farið í að klippa á línur og hleypa fé í gegn. Bitrulína er ein af þessum grunnlínum sem við ætlum okkur að halda við. Halldór sagðis vera sammála því að það þurfi að hreinsa betur upp leifar af gömlum línum. Ef að ákveðið er að fella niður línur, kemur það í hlut landbúnaðarráðuneytisins að hafa samband við sveitarfélög og athuga hvort þau sjái hag sinn í því að halda línunni. Ef að svo er ekki þá er það ráðuneytisins að hreinsa og rífa upp línurnar og því miður er það með þetta eins og annað að þegar farið er að forgangsraða þá verða gjarnan hlutir líkt og þessir útundan. Segist vona að settir verði auknir peningar í þetta verkefni. Birgir Arason talaði um starfsleyfi og rekjanleika afurða, ásamt merkingum. Talaði um að það yrði að tryggja að þessir hlutir virki séu þeir settir á, Halldór sagðist sammála þessum punkti Birgis. Birgir hefði einnig talað um varnarlínur og hver bæri ábyrgðina á þeim. Það er á ábyrgð Matvælastofnunar að fylgjast með þessu verkefni með þeim peningum sem veittir eru til þess. Svo væri það á ábyrgð Alþingis að stýra fjárveitingum. Óskað hafi verið eftir að fá peninga í þessi mál en nægilega miklir hafi ekki fengis. Varðandi verktaka í landbúnaði séu í gildi lög sem fjalla um hreinsun á verkfærum og búnaði sem nýtt eru í slíka vinnu og farið er með yfir sóttvarnarlínur. Þessi lög hafi verið í gildi í nokkuð langan tíma og vonandi fari verktakar eftir þeim. Halldór hvatti menn til að fara eftir þessum lögum, en eftirlitið með þessu er mjög erfitt vegna þess að það eru einfaldlega ekki til menn til að hafa eftirlit með þessu á hverri brú. Ástandið hjá okkur í sjúkdómamálum búfjár er með því besta sem gerist í heiminum og mikilvægt  er að verja það og viðhalda því. Halldór sagðist vona að hann hafi náð að svara sem flestum fyrirspurnum með nægilega skýrum hætti og spurði Viktor Pálsson hvort hann vildi bæta einhverju við.

Viktor Pálsson, forstöðumaður stjórnsýslusviðs Matvælastofnunar
Viktor fjallaði um merkingar búfjár og lýsti ferlinu sem á sér stað áður en bændum berast þessi svokölluðu hótunarbréf vegna skorts á eyrnamerkjum. Til MAST berist töluvert af ábendingum varðandi þessi mál og í heildina hafi verið send hátt í tvö þúsund bréf til bænda varðandi rangrar eða ónógar merkingar. Alltaf geti komið upp mistök, alveg eins hjá þeim líkt og hjá öðrum. Í tengslum við umrædd bréf, þá séu þau þrjú í heildina. Í fyrsta bréfi komi fram að verði ekki bætt úr eyrnamerkingu þá verði haft samband við sýslumann. Virðist bóndi ekkert hafa gert til að bæta ástandið þá berst honum annað bréf, aðeins harðorðara. Berist Matvælastofnun svar þar sem kemur fram að um sé eðlileg afföll að ræða og aðeins hafi vantað hafi merki í tvö lömb af fimmhundruð, þá er tekið mark á svarinu sem borist hefur og ekkert frekar aðhafst. Berist ekkert svar og ástandið batnar ekki heldur þá er málinu vísað til lögreglu í þriðja sinn  sem slíkt kemur upp. Nokkur mál hafa farið til lögreglu og eru þar til rannsóknar. En yfirleitt hafi Matvælastofnun borist svör við fyrri bréfum þar sem komi fram skýringar og þá hafi verið fallið frá málunum.

Fyrirspurn úr sal:
Guðrún Stefánsdóttir
Spurði hvort að ekki sé hægt að biðja frekar um upplýsingar í þessum bréfum í stað þess að orða þau með hótunum. Eins líka hvort það sé ekki tímaeyðsla og óþarfi að senda út bréf þegar um er að ræða eðlileg afföll sem geti alltaf orðið.

Viktor Pálsson svaraði:
Menn verði að horfa í eigin barm. Þetta séu reglur sem búið sé að setja og því þurfi að fylgja þeim. Ekki sé hægt að velja hvaða reglum maður ætli að fylgja og hverjum ekki. Þær séu til þess að fara eftir þeim. Ítrekaði það sem Halldór fjallaði um hér á undan að sniðugt væri að gera líkt og gert sé í Evrópu. Það er að merkja í bæði eyrun og þá minnka verulega líkur á afföllum merkja og að mál komi upp þar sem þarf að senda bréf til bænda.

 

4. Skýrsla kjörbréfanefndar og kynning fulltrúa
Örn Bergsson, formaður kjörbréfanefndar fór yfir álit nefndarinnar. Hann greindi frá því að kjörbréfanefnd hefði yfirfarið kjörbréfin og geri ekki athugasemdir við þau. Örn las upp nöfn réttkjörinna fulltrúa á þinginu og bað viðkomandi um að standa upp um leið og nafn þeirra væri lesið. Listi yfir fulltrúa er hér að neðan

Félag Nafn Bær 
Dsb. í Bsb. Austur-Skaftafellssýslu Ármann Guðmundsson Svínafelli 
Dsb. í Bsb. Austur-Skaftafellssýslu Örn Bergsson Hofi 
Dsb. í Bsb. Austurlands Grétar Jónsson Einarsstöðum 
Dsb. í Bsb. Kjalarnesþings Guðbrandur Hannesson Hækingsdal 
Dsb. í Bsb. Norður-Þingeyjarsýslu Einar Ófeigur Björnsson Lóni 
Dsb. í Bsb. Norður-Þingeyjarsýslu Jóhannes Sigfússon Gunnarsstöðum 
Dsb. í Bsb. Vestfjarða Jóhann Pétur Ágústsson Brjánslæk 
Dsb. í Bsb. Vestfjarða Þorvaldur H. Þórðarson Stað Situr föstudag
Dsb. í Bsb. Vestfjarða Halldóra Ragnarsdóttir Brjánslæk Varamaður – situr fimmtudag
Fsb. í Austur-Húnavatnssýslu Birgir Ingþórsson Uppsölum 
Fsb. í Austur-Húnavatnssýslu Gísli Geirsson Mosfelli 
Fsb. í Austur-Húnavatnssýslu Jón Kristófer Sigmarsson Hæli 
Fsb. í Árnessýslu Margrét Ingjaldsdóttir Þjórsárnesi Situr föstudag
Fsb. í Árnessýslu Kjartan Lárusson Feney Varamaður – situr fimmtudag
Fsb. í Árnessýslu Sigríður Jónsdóttir Arnarholti 
Fsb. í Borgarfirði Baldvin Björnsson Skorholti 
Fsb. í Borgarfirði Einar Guðmann Örnólfsson Sigmundarstöðum 
Fsb. í Borgarfirði Jón Eiríkur Einarsson Mófellsstaðakoti 
Fsb. í Dalasýslu Ásmundur Daðason Lambeyrum 
Fsb. í Dalasýslu Halla Steinólfsdóttir Ytri-Fagradal 
Fsb. í Dalasýslu Kjartan Jónsson Dunki 
Fsb. í Eyjafirði Birgir Arason Gullbrekku 
Fsb. í Eyjafirði Guðmundur Skúlason Staðarbakka 
Fsb. á Héraði og Fjörðum Aðalsteinn Jónsson Klausturseli 
Fsb. á Héraði og Fjörðum Baldur Grétarsson Kirkjubæ 
Fsb. á Héraði og Fjörðum Þorsteinn Kristjánsson Jökulsá 
Fsb. í Rangárvallasýslu Erlendur Ingvarsson Skarði 
Fsb. í Rangárvallasýslu Guðrún Stefánsdóttir Hlíðarendakoti 
Fsb. í Rangárvallasýslu Oddný Steina Valsdóttir Butru 
Fsb. í Skagafirði Agnar Gunnarsson Miklabæ 
Fsb. í Skagafirði Halldóra Björnsdóttir Ketu 
Fsb. í Skagafirði Smári Borgarsson Goðdölum 
Fsb. í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu Albert Guðmundsson Heggstöðum 
Fsb. í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu Gísli Þórðarson Mýrdal 
Fsb. í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu Þóra Sif Kópsdóttir Ystu-Görðum 
Fsb. í Strandasýslu Guðbrandur Björnsson Smáhömrum 
Fsb. í Strandasýslu Guðbrandur Sverrisson Bassastöðum 
Fsb. í Strandasýslu Sigurður Jónsson Stóra-Fjarðarhorni 
Fsb. á Suðurfjörðum Lárus H. Sigurðsson Gilsá 
Fsb. í Suður-Þingeyjarsýslu Ketill Tryggvason Hallgilsstöðum 
Fsb. í Suður-Þingeyjarsýslu Ragnar Þorsteinsson Sýrnesi 
Fsb. í Suður-Þingeyjarsýslu Vagn H. Sigtryggsson Hriflu 
Fsb. í Vestur-Húnavatnssýslu Gunnar Þórarinsson Þóroddsstöðum 
Fsb. í Vestur-Húnavatnssýslu Júlíus Guðni Antonsson Auðunnarstöðum 
Fsb. í Vestur-Skaftafellssýslu Fanney Ólöf Lárusdóttir Kirkjubæjarklaustri 
Fsb. í Vestur-Skaftafellssýslu Jónas Erlendsson Fagradal 
Stjórn LS Þórarinn Ingi Pétursson Laufási Án atkvæðisr.

Kjörbréfanefnd taldi þessa fulltrúa alla vera réttkjörna á aðalfund. Einnig var greint frá því að Þórarinn Ingi Pétursson fulltrúi í stjórn LS sitji fundinn.

Fundi frestað vegna kaffihlés kl. 15:30

Fundur settur aftur kl. 16:00

5. Skýrsla stjórnar LS
Jóhannes Sigfússon, formaður LS kynnti skýrslu stjórnar.
Skýrslan lá prentuð fyrir fundinum og er auk þess birt á vef LS – saudfe.is

5.1. Skýrsla fulltrúa LS í stjórn Ístex
Sigurður Eyþórsson, varaformaður stjórnar Ístex kynnti skýrslu sína.
Skýrslan lá prentuð fyrir fundinum og er auk þess birt á vef LS – saudfe.is

5.2. Skýrsla framkvæmdastjóra Markaðsráðs
Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Markaðsráðs kindakjöts kynnti skýrslu sína.
Skýrslan lá prentuð fyrir fundinum og er auk þess birt á vef LS – saudfe.is

5.3. Reikningar LS
Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri LS, kynnti reikninga samtakanna.
Reikningarnir lágu fyrir fundinum áritaðir og endurskoðaðir.  Það vantaði þó áritun Þorvaldar Þórðarsonar varamanns Sindra Sigurgeirssonar í stjórn en hann komst vegna ófærðar ekki í tíma til að árita þá.  Rekstrarniðurstaðan var 1.4. milljóna hagnaður. Tekjur voru um 11.5 m. kr.að meðtöldum fjármagnstekjum en gjöld alls um 10 milljónir. Hækkun gjalda frá 2006 skýrist af mikilli vinnu í kringum sauðfjársamninga og á tímabili voru tveir framkvæmdastjórar á launum á sama tíma. Langtímaskuldir eru engar en skuldir um áramót voru aðallega vegna ógreiddra launa.  Eigið fé er alls tæpar 22.5 milljónir.

Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

Birgir Ingþórsson
Þakkaði formanni og framkvæmdarstjóra fyrir sínar skýrslur sem voru ágætlega greinagóðar. Greinilegt sé að mikil vinna felist í þessum störfum og segist vera fullviss um að þeir leggi sig alla fram og þetta sé í raun meiri vinna en nokkur geri sér grein fyrir. Sauðfjárbændur hafi sjaldan staðið frammi fyrir jafn miklum breytingum á sínum aðstæðum og hafi verið nú á nýliðnu ári. Það sé kvíði í fólki og segir það er  áhyggjuefni. Hann sagðist vita um bændur sem hafi jafnvel ekki keypt áburð, því þeir séu ekki vissir hvort þeir hafi bolmagn til þess. Þess vegna sé mikilvægt að samtökin gefi út viðmiðunarverð sem fyrst, jafnvel þó svo að það verði miklar breytingar fram á haust. Því eins og staðan sé nú þá séu margir í mikilli óvissu varðandi sína framtíð. Mikilvægt er að koma mjög skýrum skilaboðum frá þessum fundi. Það sé mikilvægt að fá töluvert miklar hækkanir núna í haust til að geta haldið okkar starfsvettvangi. Hlutverk þeirra sem sitja þennan fund er fyrst og fremst að vera metnaðarfull og koma skýrum skilaboðum frá fundinum. Betra væri að koma fram hækkunum, þó svo að það komi fram í minnkaðri sölu. Því annars sé ekki víst að það geti allir haldið áfram. Eins þarf að gera sláturleyfishöfum það ljóst að þeir verði að borga nokkuð mikið hærra verð nú í haust en það síðasta. Birgir taldi sauðfjárbændur geta lært ýmislegt af síðustu samningum kúabænda, þar sem þeir náðu fram töluverðri hækkun. Þeir voru heppnir með tímasetningu, t.d. hefði það verið verra fyrir þá að þurfa að tilkynna um þessa breytingu núna eins og staða krónunnar er í dag. Sauðfjárbændur þurfa að vinna eftir þessum samningnum sem tók gildi í byrjun árs. Í samningnum er kveðið á um að það megi endurskoða útflutningsskylduna. En númer eitt, tvö og þrjú akkúrat núna sé að fá hærra verð hjá afurðarstöðvunum. Þrátt fyrir allt þurfum við að vera bjartsýn.

Sigurður Jónsson
Tók undir með Birgi varðandi það sem hann sagði um kjaramálin. Taldi samningana frá því í fyrra hafa verið glannalega. En nú sé ósk allra að viðmiðunarverð fyrir næsta haust verði gefið út sem fyrst. Hækkanir á aðföngum auðvelda kröfu um hærra afurðaverð. Nú sé viðurkennt af öllum í hvaða stöðu sauðfjárbændur séu, því þurfi að setja fram verð sem hentar okkur, standa með því og svo kemur í ljós hvernig samningarnir verða sem nást. Vildi brýna menn til þess að gera sér almennilega grein fyrir því hverjar hækkanirnar eru sem þeir horfa fram á núna. Þar er á meðal hækkað verð á fóðurbæti, áburði, olíu, plasti og rafmagni. Horfa verður á hvað allar þessar hækkanir þýða fyrir sauðfjárbændur í kröfu um hækkað afurðaverð. Ítrekaði að tíminn sem er til stefnu sé ekki svo langur og því geta menn ekki leyft sér að sitja lengi þegjandi. Hann gagnrýndi rýrnun á góðu kjöti í sláturhúsum og hroðvirknislega meðferð á skrokkum og sýndi  ljósmyndir máli sínu til stuðnings.

Einar Ófeigur Björnsson
Einar tók undir með síðustu ræðumönnum um nauðsyn á hækkunum. Spurðist fyrir um nefnd sem stofnuð var og átti að vinna rekstrargrunn fyrir sauðfjárbú. Hann lagði til að ef að sú nefnd hafi ekki hafið störf að þá verði annað fólk sett í hana. Því þessi vinna sem nefndin átti að vinna sé gríðarlega mikilvæg.

Gunnar Þórarinsson
Gunnar tók undir það sem Birgir og aðrir höfðu sagt. Ítrekaði mikilvægi þess að þegar að LS setur fram viðmiðunarverð, að þá verði litið til allra þeirra þátta sem hækkað hafa nú að undanförnu. Óeðlilegt væri hvernig einstakir kjötmatsflokkar eru verðlagðir, hann myndi vilja sjá meiri breidd og að betri gæðaflokkar yrðu hækkaðir umfram aðra. Þannig væri hægt að hækka vöðvaverðið og lækka fituna í kostnaði. Hann taldi að viðmiðunarverðið sem LS gaf út í fyrra þurfi að endurmeta og skoða hvers vegna einn flokkur er hærri en annar. Telur R3 eiga að vera 10-20 krónum dýrari en O2. Ef að sláturleyfishafarnir geti borgað þetta verð fyrir O2, þá geti þeir einnig haft hærra verð á fleiri flokkum. Sérstaklega þar sem sláturleyfishafarnir eru líka að fá mjög hagkvæmt verð fyrir fituna. Skorar á stjórn LS að hugleiða og setjast vel yfir verðflokkana áður en þeir gefa út næsta viðmiðunarverð.

Ragnar Þorsteinsson
Þakkaði stjórninni fyrir hennar góðu störf á árinu. Þakkaði einnig framkvæmdastjóra fyrir vel unnin störf og þá sérstaklega fyrir það frábæra framtak að koma á fót heimasíðu fyrir samtökin. Ragnar lýsti yfir ánægju sinni með heimasíðuna.  Markaðssetningu á dilkakjötinu sé ábótavant. Þannig virðist harkan vera meiri í hvíta kjötinu og honum finnst auglýsingar frá þeim framleiðendum hafa verið mun meira áberandi. Framkvæmdastjóri hafi þó gefið greinagóð svör við því hvers vegna ekki hafi verið auglýst meira. Vildi vita hvað mikið fé Markaðsráð hafi til ráðstöfunar á hverju ári fyrir auglýsingakostnað. Alltaf sé sama vandamálið með Ístex, en það sé ekki annað hægt en að taka því og vona aðeins að hægt verði að sigla þessu skipi áfram án stöðugrar hræðslu við að það sökkvi. Hann velti fyrir sér hvort kvótar falli út í kjölfar frjálsa flæðisins. Ánægjulegt væri að það sé til eitt sauðfjárbændafyrirtæki hér á landi, þ.e. LS, sem að skilaði hagnaði, það sé nóg að við höfum áhyggjur af eigin reikningum. Það yrði að segjast eins og er og það er að þessi rekstur er þannig að hann er ekki að skila okkur tekjum og flest erum við þannig að við erum að vinna annað utan heimilis til að hafa í okkur og á. Þetta virðist bara vera svona skemmtilegt og þess vegna höldum við þessu áfram, en ekki vegna peninganna svo mikið er víst.

Guðrún Stefánsdóttir
Þakkaði skýrslu stjórnar og störf framkvæmdastjóra LS. Spurði út í hvernig hugmyndin um íslensku fánaröndina hafi verið útfærð fyrir framleiðsluvörur sauðfjárbænda. Benti á að ef að bændur fái ekki 25-30% verðhækkanir nú í haust, þá verði ekkert eftir. Spurði út í verndartolla og hvort ekki þurfi að afnema verndarstuðning þegar frjálst flæði á innfluttri kjötvöru hefst. Sagði gæðastýringu í sauðfjárrækt nú vera í hættu vegna fjárskorts Landbótasjóðs og mikilvægt sé að henni verði viðhaldið.

Kjartan Jónsson
Spurði um útflutningsskylduna. Hvort að það sé möguleiki fyrir sauðfjárbændur að vera með hana eða án hennar? Sagðis ekki vera búinn að mynda sér skoðun á henni. En það sé eðlilegt að velta því fyrir sér hvort að það felist svo rosalega mikil hætta í því að hætta við hana. Áhyggur af niðurfellingu hennar hljóta að vera ákveðið vantraust á sláturleyfishafa, þetta þýði í raun það að bændur haldi það að þeir séu ekki að vinna vinnuna sína. Tekur undir með Sigurði Jónssyni varðandi hversu alvarlegt það sé hversu mikil rýrnun verði á góðu kjöti í sláturhúsum, sér virðist allt rifið og slitið í þessum stóru sláturhúsum. Það sé gjörsamlega forkastanlegt hversu mikil rýrnun verði oft á kjöti. Afskaplega mikilvægt sé ef að viðmiðunarverð verði gefið út núna strax að tryggja verðgildi þess fram á haust vegna þessa óvissutíma sem nú sé í efnahagsmálum. Verðið síðasta haust hafi verið of lágt. Sérstaklega þegar horft er til þess hversu mikinn hagnað sláturleyfishafar sýndu á síðasta starfsári.


Jón Kristófer Sigmarsson
Ræddi verðlagsmál og hækkanir og spurði hver sé óvinurinn. Benti á að flestir sem sitji fundinn séu í stjórn einhvers sláturfélags. Mikilvægara sé að einbeita sér að birgjunum og verslunum. Það sé samt sem áður staðreynd að sauðfjárbændur þurfi um 30% hækkun í haust. Bað fólk um að beina sjónum sínum að því að það sé verið að tala upp verðið út úr búðunum en ekki til bændanna. Ef að miðað sé við 1050 til 1100 krónur á kílóið út úr búð, þá sé 110 krónur raunverðið. Segist hafa reiknað út hækkun upp í 371 krónur, sem þýði 38% aukningu sem samsvari þá 103 krónum til bænda. Telur það vera sniðugara að tala um hækkun út úr búð í þessari umræðu, þar sem það eru oft kaupmenn sem taki gjarnan ansi stóra bita af hækkunum.

Örn Bergsson
Byrjaði á að þakka fyrir góðar skýrslur og þakkaði stjórn LS vel unnin störf á liðnu ári. Bað stjórnina um að kynna sér frumvarp til skipulagslaga sem var nýlega lagt fram á Alþingi. Nái þetta frumvarp fram að ganga þá sé verið að taka hluta af skipulagsvaldinu af sveitarfélögunum og færa yfir til umhverfisráðherra. Í greinargerðinni með frumvarpinu er lögð sérstök áhersla á hálendi íslands og þar á meðal svæði sem nú í dag er gert ráð fyrir að heyri undir sumarbeit búfjár á hálendinu. Nái frumvarpið fram að ganga skapast mikil hætta fyrir marga, því með samþykktinni væri verið að færa afskaplega mikið vald til umhverfisráðherra sem getur allt í einu bannað beit á ýmsum svæðum. Taldi mikilvægt fyrir LS að vera á varðbergi gagnvart þessu frumvarpi.

Guðbrandur Björnsson
Tók undir að hér væri vettvangurinn til að ræða okkar kjör.. Vill að það verði unnið í nefndunum gott starf í þessum efnum. Spurði hvernig sé unnið að því að skipa í nefndir á fundinum. Því í nefndirnar vantaði oft fólk úr mörgum svæðum. Mikilvægt væri að reyna að lágmarka þann ágreining sem orðið gæti í nefndunum og það væri best gert með því að gæta að jafnri dreifingu fólks af öllu landinu í sem flestum nefndum. Með því tækist að skapa jafnvægi á milli landssvæða þegar að málin eru tekin þar fyrir.

Gunnar Þórisson
Þakkaði skýrslur stjórnar og sagðist vera nokkuð ánægður með reikningana. En miðað við allar verðhækkanir gæti þetta farið að breytast, því sé mikilvægt að taka tillit til gengi krónunnar og verðbólgu þegar að farið verður að vinna að viðmiðunarverði. Telur afar mikilvægt að tekin verði upp gæðastýring fyrir innfluttar vörur líkt og við innlendar vörur.

Kjartan Lárusson
Þakkaði stjórninni og framkvæmdastjóra LS fyrir vel unnar skýrslur. Sagðist sammála Birgi um að mikilvægt sé að stíga óhrædd fram og óska eftir raunhækkunum í takt við þær hækkanir sem hafa orðið á aðföngum. Ræddi fitufellingu á skrokkum. Segir þyngri skrokka þola meiri fitu en holdlausa skrokkar. Ræddi um hálendisfrumvarpið og segir það hræðilegt ef að það nái fram að ganga. Mikilvægt sé að LS taki afstöðu gegn frumvarpinu og láti í sér heyra. Það megi ekki gerast að skipulagið á þessu landsvæðum verði tekið af sveitarfélögunum og fært í hendur á umhverfisráðuneytinu.

Guðmundur Skúlason
Þakkaði stjórn og framkvæmdastjórum fyrir vel unnin störf í þágu LS. Hrósaði heimasíðunni og sagði mikilvægt fyrir samtökin að eiga slíkt málgagn. Ræddi verðlagsmál. Sauðfjárbændur þurfa miklar hækkanir í haust. Við höfum verið með þeim tekjulægstu hingað til og þurfum því miklar hækkanir. Spurði stjórnina hvort að hún sé búin að gera sér grein fyrir því hvert raunverulegt viðmiðunarverð verði að vera til að koma til móts við allar hækkanirnar allt í kring. Bendir á að ansi langt sé fram á haust og viðmiðunarverð sem yrði sett hér á fundinum núna gæti verið orðið óraunhæft miðað við gengi krónunnar og verðbólgu innan nokkurra mánuða. Þó væri mikilvægt að varast það að koma með einhver háværar kröfur. Sent verði frá þessum fundi hver hækkunarþörfin sé í dag, miðað við núgildandi aðstæður og vona að stjórnvöld komi eitthvað inn í þá umræðu. Benti á að gengisfallið hjálpi til þegar að kemur að útflutningi. Ræddi svo fjarskiptamál í dreifbýli. Hann hefði prófað að fara á internetið kvöldið áður á hótelherberginu sínu og sótt forrit. Þetta sama forrit hafi tekið hann 30 mínútur að sækja heima hjá sér. En í gær var hann aðeins um 50 sekúndur að sækja það á internettenginu hótelsins.

Jóhannes Sigfússon, formaður LS svaraði fyrirspurnum
Sagðist sammála þeim sem tekið hafa til máls og rætt mikilvægi þess að ýta strax út hækkunarhugmyndum. Benti jafnframt á að sölusamningar fram í tímann séu enn í gildi sem kunni að hamla því að hægt verði að hækka verðið jafn mikið og vilji fundarins standi til. Lagði til að keyrt verði núna strax á 10% hækkun, svo að höggið verði minna í haust. Greindi frá því að nefnd sem stofnuð hafi verið til að framkvæma kostnaðarúttekt fyrir sauðfjárbú hafi ekki náð að starfa líkt og vonir voru bundnar til. Fyrir aðalfundinn hafi formaður nefndarinnar haft samband við sig og afsakað hversu litlu hafi verið komið í verk. Jafnframt baðst hann undan því að þurfa að sitja áfram í nefndinni. Ræddi hvernig eigi að verðleggja einstaka kjötmatsflokka og sagði LS leggja höfuðáherslu á viðmiðunarverðið í heild. Hvernig þetta skiptist á milli flokka hefur oft verið rætt við sláturleyfishafa. Þetta snýst miklu meira um það fyrir okkur að ná ásættanlegu verði, en þeir sem að selja vöruna að lokum hafa þetta í hendi sér. Sem dæmi má taka að þá sé Noregsmarkaður mjög strangur. Hann taki ekki R3, heldur aðeins R3- og O2. Sagðist játa það að markaðssetningu hafi verið mjög ábótarvant og of lítið hafi verið auglýst. Segist telja að Sigurður Eyþórsson hafi rökstutt það mál mjög vel og útskýrt hvers vegna klippikarlinn hafi verið sleginn af. Persónulega sagðist hann hafa verið mjög feginn að losna við karlinn og hlakki til að sjá afurð þeirrar vinnu sem hafi verið í gangi núna að undanförnu í samvinnu við HN markaðssamskipti. En sú auglýsingastofa sé mjög reynslumikil þegar að kemur að því að hanna auglýsingar á þessu sviði, því bindi hann miklar vonir við afraksturinn þegar að hann lítur dagsins ljós. Benti á að þessi evrópuinnleiðing ríkistjórnarinnar komi ekki til með að hafa mikil áhrif á innflutning til Noregs. Ræddi um Landbótasjóð og mikilvægi þess að tryggja honum fjármagn. Mikilvægt er að hugleiða það hvernig við förum í það að kynna verðhækkanirnar út á við, en alþjóð veit af því að við verðum að hækka okkar viðmiðunarverð, aðstæðurnar kalla á hækkanir. Söluaðilar munu aldrei hækka verð vegna þess að við þurfum meira, þeir hækka verðið hjá sér eftir að við höfum klárað okkar hækkanir. En það er mjög mikilvægt að hugsa út í það hvernig við kynnum þessa hækkun og segja má að kúabændur hafi farið alveg meistaralega frá kynningum á verðhækkunum hjá sér. Ræddi um fyrirliggjandi frumvarp til skipulagsmála. Segir frumvarpið fela í sér stórvarasama breytingu. Stjórn LS hefur ekki fengið þetta frumvarp í hendur til umsagnar, en mun vissulega bregðast við því. Ræddi gagnrýni sem barst á það hvernig var skipt í nefndir á aðalfundinum. Aðferðin sé  þannig að fólk haldist oftast í nefndum sem það hefur setið í áður og fólk sitji þar áfram, nema það óski eftir öðru. Reynt er að verða við öllum óskum. Alls ekki eigi að vera að blanda neinni landspólitík í nefndastörfin. Heldur sé mikilvægt að fólkið í nefndunum starfi saman sem ein heild óháð búsetu. Ræddi að lokum hækkunarþörfina og greindi frá að stjórn samtakanna muni leggja hér fram tillögu og þá skýrist við þessi mál aðeins betur í kjölfarið.

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri LS svaraði fyrirspurnum
Þakkaði fyrir góð orð í sinn garð varðandi heimasíðumálin og óskaði eftir efni frá fleiru fólki. Sér hafi borist nokkrar greinar og skemmtilegar myndir, t.d. af uppbyggingu eða úr fjárhúsum og þetta séu myndir sem fólk hafi gaman af að skoða. Gaman væri einnig að fá t.d. útlistanir frá fólk varðandi hvað gengur vel í búskapnum, ef að fólk á eitthvað slíkt hjá sér þá er um að gera að senda það inn. Útskýrði betur nokkrar tölur úr reikningum Markaðsráðs, þannig hafi t.d. tekjur síðasta árs verið um 40 milljónir en árið áður, 2006, voru tekjurnar um 43 milljónir. Því séu tekjur síðasta árs ekki óeðlilega miklar, ef að eitthvað er þá eru þær minni en frá árinu áður. Auglýsingatengd gjöld  hafi haldist nokkuð jöfn undanfarin ár. Þannig fari á bilinu 29 til 30 milljónir árlega í beinan auglýsingakostnað. Sagði nokkurn hagnað hafa verið af ráðinu, sem sé ekki ástæða til að hafa. En segist jafnframt gera ráð fyrir því að rekstur þessa árs verði  með nokkru tapi, enda ekki ástæða til annars. Segir allt haldast í hendur í þessum efnum, t.d. hafi það bein áhrif á okkur hvernig birgjar auglýsa, hvað þeir séu að gera og svo öfugt. Nú hafi verið lögð áhersla á að allar íslenskar búvörur verði seldar með sama merki. Því var MATÍS fengið til að þróa hverjir megi nota þetta merki, því virði merkja felst í því að neytendur geti treyst því. Í þessum efnum var farin svokölluð grunnhráefnisleið. Stundum hefur verið farin sú leið að ef að 80% vörunnar sé unnin á viðkomandi stað þá megi nota merkið. Okkar leið sé að allt grunnhráefni íslenskt til að mega bera merkið. En það þarf þá að vera samræmi og vinnsluaðilar verða að sameinast um að nota merkið, en ekki bara sumir. Þetta samræmi er afar mikilvægt til að merkið nái að verða gildandi á markað. Það ætti svo að geta verið komið í gagnið núna í haust, ef að allt fer sem horfir. Það stefnir allt í stóraukinn innflutning og því er afar jákvætt að taka upp samræmt merki fyrir landbúnað í heild sinni.

Því næst bar fundarstjóri  upp reikninga LS til samþykktar og voru þeir samþykktir samhljóða

6. Mál lögð fram og vísað til nefnda
Fyrir fundinum lá tillaga stjórnar LS að skiptingu fulltrúa í nefndir ásamt tillögu að því hvaða mál skyldu ganga til hverrar skv. þeim númerum sem tillögurnar hafa í gögnum sem lágu fyrir fundinum.  Breyta þurfti tillögunni vegna þess að ekki voru allir fulltrúar mættir sem hún gerði ráð fyrir en hún var samþykkt samhljóða í neðangreindri mynd. Jafnframt var samþykkt að vísa málum til nefndar skv. framlagðri tillögu stjórnar LS þar um fyrir utan það að mál 9 var að tillögu fundarstjóra flutt frá allsherjarnefnd til markaðs- og kjaranefndar.
Allsherjarnefnd
Fanney Ólöf Lárusdóttir, formaður
Agnar Gunnarsson
Albert Guðmundsson
Ásmundur Daðason
Birgir Ingþórsson
Guðmundur Skúlason
Jóhann Pétur Ágústsson
Kjartan Jónsson
Smári Borgarsson
Sigríður Jónsdóttir
Mál nr: 1, 14, 26, 31, 33, 38, 43, 44, 50 og 51.

Fagnefnd
Gísli Geirsson, formaður
Aðalsteinn Jónsson
Baldvin Björnsson
Birgir Arason
Júlíus Guðni Antonsson
Gísli Geirsson
Halla Steinólfsdóttir
Halldóra Björnsdóttir
Oddný Steina Valsdóttir
Sigurður Jónsson
Vagn H. Sigtryggsson
Þóra Sif Kópsdóttir
Mál nr: 2, 3, 4, 5, 16, 17, 18, 20, 22, 28, 29, 30, 41, 42, 47, 48 og 49.

Umhverfisnefnd
Guðbrandur Hannesson, formaður
Grétar Jónsson
Guðbrandur Björnsson
Einar G. Örnólfsson
Kjartan Lárusson
Margrét Ingjaldsdóttir
Gísli Þórðarson
Þorvaldur H. Þórðarson
Halldóra Ragnarsdóttir
Mál nr: 6, 11, 21, 27, 32 og 46.


Markaðs og kjaranefnd
Lárus H. Sigurðsson, formaður
Einar Ófeigur Björnsson
Ármann Guðmundsson
Guðrún Stefánsdóttir
Jón Kristófer Sigmarsson
Jónas Erlendsson
Ragnar Þorsteinsson
Þorsteinn Kristjánsson
Erlendur Ingvarsson
Baldur Grétarsson
Örn Bergsson
Mál nr. 7, 8, 9, 12, 13, 15, 19, 23, 24, 25, 34, 35, 36, 37, 39, 40, 45 og 52.

Fjárhagsnefnd
Gunnar Þórarinsson, formaður
Guðbrandur Sverrisson
Ketill Tryggvason
Jón Eiríkur Einarsson
Mál nr. 10.

Skv. reglum LS þarf aðalfundur að samþykkja sérstaklega fyrirtöku mála sem koma ekki hafa borist stjórn 2 vikum fyrir aðalfund.   Fyrir aðalfundi lágu 49 mál sem bárust í tíma og dreift var í fundargögnum.  Listi með málum og málsnúmerum er sem fyrir fundinum lágu er birtur á vef LS – saudfe.is

Sigríður Jónsdóttir óskaði eftir að fá að leggja fram mál og las upp tillögu fyrir fundinn. Þar er lagt til að starfshættir Matvælastofnunar verði teknir til endurskoðunar í ljósi nýfallins álits Umboðsmanns Alþingis vegna máls 4917/2007. Sigríður benti á Jóhannes hefði skýrt málið í skýrslu stjórnar. Fundurinn samþykkti samhljóða að taka málið fyrir og vísa til allsherjarnefndar. Það fékk númerið 50 skv. ákvörðun fundarstjóra.

Jóhannes Sigfússon kynnti síðan tvær tillögur sem koma frá stjórn LS. Annars vegar er um að ræða tillögu um tollamál og hins vegar tillögu um viðmiðunarverð.

Tillaga um tollamál
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda varar eindregið við hugmyndum stjórnvalda um tollalækkanir á svína- og kjúklingakjöti.  Verði tollar felldir niður á þessum kjöttegundum mun það skapa mikið uppnám á innlendum kjötmarkaði í öllum greinum, auk þess að stefna fjölda starfa í úrvinnsluiðnaði í hættu.  Þessi aðgerð mun því einnig koma niður á sauðfjárbændum og íslenskum landbúnaði almennt þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.  Aðalfundurinn vísar til ályktunar nýliðins Búnaðarþings um kjaramál og lýsir yfir fullum stuðningi við þær aðgerðir sem þar eru lagðar til.

Tillaga um útgáfu viðmiðunarverðs.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 felur stjórn LS að gefa sem fyrst út viðmiðunarverð sem hækki verð á dilkakjöti til sauðfjárbænda um 27% frá reiknuðu meðaltalsverði á dilkakjöti allra sláturleyfishafa haustið 2007.  Verð fyrir útflutning og kjöt af fullorðnu hækki að lágmarki jafnmikið hlutfallslega.


Jóhannes greindi frá því  framkvæmdastjóri, LS hafi að undanförnu verið að vinna að viðmiðunarverði til að leggja fram á fundinum. Í þessari tölu sem Sigurður hafi tekið saman sé tekið tillit til hækkunar á áburði, olíu og fjárhagskostnaði. Ef að tekið væri tillit til 9% hækkunar á verðlagsvísitölu, væri talan kannski önnur. Jóhannes benti jafnframt á að beingreiðslur frá ríkissjóði væru verðtryggðar og álagsgreiðslur vegna gæðastýringar hækka líklegast um 60 krónur á kíló. Samt sem áður sé mikið vatn órunnið til sjávar fram á haustið og því sé vel hugsandverðinu. að hafa fyrirvara á viðmiðunarverðinu. En það að ná þessari hækkun fram sem hér um ræðir væri afskaplega mikið framfaraskref og óvíst sé um hvort möguleiki væri á að ná fram meiru. Þessi hækkun ætti að þýða um 20% hækkun á heildsöluverði frá sláturleyfishafa.

Fundurinn samþykkti samhljóða að taka þessar tillögur fyrir.  Að tillögu fundarstjóra var tillögu um tollamál vísað til allsherjarnefndar og fékk hún númerið 51.  Tillögu um viðmiðunarverð var vísað til markaðs- og kjaranefndar og fékk hún númerið 52

Fundi var nú frestað til kl. 11.00 á föstudag.  Nefndastörf voru á dagskrá að loknum kvöldverði og aftur í fyrramálið kl. 8.00.

Föstudagur 11. apríl
Fundur var settur kl. 11:00

7. Afgreiðsla mála
Afgreiðsla mála hófst á tillögum frá allsherjarnefnd

Mál frá allsherjarnefnd
Agnar Gunnarsson kynnti tillögu 1.1 um nýliðunarstyrki

Tillagan var samþykkt samhljóða umræðulaust. Fundurinn samþykkti síðar um daginn að taka afgreiðslu málsins upp aftur og er endanleg samþykkt birt undir þeim lið.

Sigríður Jónsdóttir kynnti tillögu 1.2 og meðfylgjandi greinargerð

1.2. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 skorar á Matvælastofnun að endurskoða verkferla varðandi framkvæmd reglugerðar um merkingu búfjár númer 289/2005.

Greinargerð:
Fjöldi ábendinga hefur borist frá bændum um bréf frá Matvælastofnun, þar sem bændum hefur verið hótað meðferð hjá sýslumanni ef vantað hefur eyrnamerki í lömb í sláturhúsi. Teljum við að hér fari Matvælastofnun offari þar sem það er þekkt að gripir hafi glatað merki á sláturbíl eða í sláturrétt. Lágmarksfrávik (td. 2-3% af heildarfjölda fjár af bæ) frá reglugerð gæti komið í veg fyrir óþægindi og óþarfa rannsókn á eðlilegum afföllum merkja.

Umræður:
Júlíus Guðni Antonsson hvatti til þess að þetta mál og tillaga um endurskoðun á starfsemi Matvælastofnunar yrðu sameinuð.

Guðrún Stefánsdóttir var andvíg því að málin yrðu sameinuð

Sigríður Jónsdóttir frsm. var einnig andvíg því að sameina málin.

Tillagan var samþykkt samhljóða að loknum umræðum.

Jóhann Pétur Ágústsson kynnti tillögu 1.3

1.3. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 samþykkir að beina því til stjórnar að aðalfundur verði haldinn eigi síðar en fyrstu helgina í apríl. Jafnframt samþykkir fundurinn að stjórn LS tilkynni framvegis á aðalfundum hvar og hvenær aðalfundur næsta árs verði haldinn.

Umræður:
Einar Ófeigur Björnsson taldi tillöguna ganga heldur langt.

Tillagan var samþykkt með 13 atkvæðum gegn 11 að loknum umræðum.

Fanney Ólöf Lárusdóttir kynnti tillögu 1.4

1.4. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 fagnar framkomnum hugmyndum um áburðarframleiðslu hér á landi.

Umræður:
Guðrún Stefánsdóttir: Taldi tillöguna ágæta en segja þó lítið.  Það þyrfti að kanna málið frekar og skerpa á tillögunni.

Birgir Ingþórsson: Benti á að hvorki LS né ríkið myndu byggja áburðarverksmiðju en hættulaust væri að segja okkar skoðun á málinu.

Tillagan var samþykkt samhljóða að loknum umræðum.

Fanney Ólöf Lárusdóttir kynnti tillögu 1.5

1.5. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 telur algerlega óviðunandi að uppfærslur á dk-Búbót til skattframtalsgerðar berist notendum forritsins jafn seint og verið hefur undanfarin ár. Fundurinn krefst þess að uppfærsla til skattauppgjörs verði tilbúin jafnhliða uppgjöri vegna virðisaukaskatts þar sem þá liggja fyrir allar upplýsingar frá skattayfirvöldum um gerð framtala.

Tillagan var samþykkt samhljóða umræðulaust

Ásmundur Daðason kynnti tillögu 1.6

1.6. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008  beinir því til stjórnar LS að láta meira á sér bera í opinberri umræðu um sauðfjárrækt. Til að gera LS að öflugri hagsmunaaðila þá er mikilvægt að samtökin séu virt og láti á sér bera á opinberum vettvangi. Á þetta hefur nokkuð skort á undanförnum árum og er því beint til stjórnar LS að taka þennan þátt til ítarlegrar skoðunar. Fundurinn fagnar því þó hversu virk vefsíðan saudfe.is er orðin og hvetur umsjónarmann hennar til frekari uppbyggingar.

Tillagan var samþykkt samhljóða umræðulaust

Sigríður Jónsdóttir kynnti tillögu 1.7
1.7. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 mælist til þess við Alþingi að starfshættir og stjórnsýsla Matvælastofnunar, dýraheilbrigðissvið, (áður Landbúnaðarstofnun) verði tekin til athugunar af til þess bærum aðilum, í ljósi álits Umboðsmanns Alþingis frá 7. apríl 2008 um mál nr. 4917/2007.

Tillagan var samþykkt samhljóða umræðulaust

Fanney Ólöf Lárusdóttir kynnti tillögu 1.8 þar sem varað er við hugmyndum um tollalækkanir á svína og kjúklingakjöti.

Umræður:

Guðmundur Skúlason: Benti á að það vanti dagsetningu og ártal á hausinn á tillögunni.

Júlíus Guðni Antonsson: Spurði hvort það sé ekki æskilegt að vara við hugmyndum almennt, en ekki bara hugmyndum stjórnvalda líkt og komi fram í tillögunni. Þannig vörum við almennt við þessum hugmyndum. Vildi breyta tillögunni í þá veru.

Birgir Ingþórsson: Benti á að hér sé verið að vísa til umræðu og hugmynda sem hafa komið undanfarið og fyrst og fremst sé verið að vísa þessu til stjórnvalda þar sem þau taka endanlega ákvörðun um þessar breytingar. Sagðist því ekki sjá ástæðu til að breyta textanum.

Jóhannes Sigfússon: Studdi þá hugmynd að orðið stjórnvöld verði fellt út úr textanum. Með því sé ekki verið að segja neitt til um hver eigi hugmyndina né hvaðan hún komi

Tillögunni var vísað aftur til nefndar að tillögu fundarstjóra

Fanney Ólöf Lárusdóttir kynnti tillögu 1.9 um fjármagn í Landbótasjóð.

Umræður:

Tillagan var ný frá nefnd og því var fyrst borið upp hvort taka mætti hana fyrir.  Það var samþykkt samhljóða.

Júlíus Guðni Antonsson: Benti á að fjárveitingavaldið væri hjá alþingi og hjá fjármálaráðherra en ekki umhverfisráðherra.  Lagði til að orðunum alþingi og verði bætt við framanlega í línu tvö, fyrir framan orðið umhverfisráðherra.  Sú breytingatillaga var samþykkt og síðan tillagan sjálf í svohljóðandi mynd.

1.9. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 skorar á Alþingi og umhverfisráðherra að auka fjármagn í Landbótasjóð í 45 milljónir króna til að hann geti úthlutað fjármagni í þær landbótaáætlanir sem bændur og Landgræðsla ríkisins hafa gert sín á milli.

Tillagan var samþykkt samhljóða með áorðinni breytingu.

Þá voru tekin fyrir mál frá fagnefnd

Halldóra Björnsdóttir kynnti tillögu 2.1 um skýrsluhald yfir árangur sæðinga.

Umræður:

Agnar Gunnarsson: Lagði til að orðinu og verði bætt við fyrir framan fjórða síðasta orð í lok tillögunnar. Þá muni standa- og þannig fengin full skil

Lárus Sigurðsson: Sagði vel hafa verið haldið utan um það fyrir austan, hvernig sæðing gengur undan hverjum hrút. En niðurstöður úr sæðingum sé ekki hægt að fá úr skýrslum hjá BÍ

Fanney Ólöf Lárusdóttir: Tillagan tók breytingum í nefnd. En áherslupunkturinn hér sé að haldið verði saman sæðingaskýrslum á aðgengilegan hátt.

Guðrún Stefánsdóttir: Spurði um vinnulag við skráningar.

Oddný Steina Valsdóttir: Benti á að einfalt sé að koma sæðingarskýrslu inn í fjarvis.is og þar með yrðu þær afar aðgengilegar.

Vagn Sigtryggsson: Benti á að minnst sé á árangur sæðinga í tillögunni. En til að unnt sé að mæla árangur þá þurfi að vera full skil á skýrslum.

Erlendur Ingvarsson: Ítrekaði orð Oddnýjar, varðandi það að einfalt væri að koma sæðingarskýrslum inn í fjárvís.is. Með allri þeirri tölvukunnáttu sem sé í dag, þá ætti það að vera flestum aðgengilegt.

Guðmundur Skúlason: Sagði sér ekki lítast nógu vel á þessa tillögu og þær upplýsingar sem hér sé verið að kalla á. Upplýsingarnar eru ekki komnar nógu langt til að hægt sé að vinna fyllilega úr þeim. Benti á að flestir séu farnir að færa árangurinn inn á fjárbækurnar á fjárvís.is. Langbestu aðferðina telji hann vera þá sem viðhöfð sé nú á Austurlandi. Ef að menn skiluðu ekki þessum blöðum um árangur, þá fengju þeir ekki sætt næst. Því það sé mjög mikilvægt að þessar upplýsingar séu aðgengilegar fyrir næsta fengitíma því það eru alltaf einhverjir hrútar sem er þá hægt að sneiða hjá vegna þess að þeir hafa ekki sýnt fram á nægjanlega góðan árangur árið áður.

Gunnar Þórarinsson: Taldi nauðsynlegt að laga fjarvis.is að þessu nýja kerfi, svo þar komi fram hvaða ær eru að ganga upp og eins með sæðingarnar. Til þess þurfi aðeins tvær eða þrjár skráningar, þ.e. að ærin hafi verið sædd og að það hafi gengið upp. Telur mikilvægt að boðið verði upp á fleiri möguleika og fjölbreytni inn á fjarvis.is. Þá ættu að liggja fyrir nokkuð góðar upplýsingar

Gísli Geirsson: Veitti nefndinni forstöðu og þau beina þessari tillögu til fagráðs. Telur í góðu lagi að þessar upplýsingar komi inn í fjarvis.is til að upplýsingarnar komist til skila og verði aðgengilegar. Lagði til að tillögunni verði ekki breytt

Tillögunni var vísað aftur til nefndar að tillögu fundarstjóra í samráði við formann nefndarinnar.

Þóra Sif Kópsdóttir kynnti tillögu 2.2 um meðferð á lambakjöti við slátrun.

Umræður:

Agnar Gunnarsson: Taldi ekki fara nægjanlega vel í greinargerðinni með tillögunni að tala aðeins um skrokkinn í stað skepnunnar.

Tillögunni var vísað aftur til nefndar að tillögu fundarstjóra

Oddný Steina Valsdóttir kynnti tillögu 2.3

2.3. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því til Bændasamtaka Íslands og sauðfjársæðingastöðvanna að auka framboð á hrútum á sauðfjársæðingastöðvunum sem gefa mikinn fallþunga , mjólkurlagnar og frjósamar dætur.

Tillagan var samþykkt samhljóða umræðulaust

Gísli Geirsson kynnti tillögu 2.4 um könnun á bragðgæðum lambakjöts.

Umræður:

Jóhannes Sigfússon: Spurði hvort að menn geri sér grein fyrir því hvað þeir séu að samþykkja hér. Þetta væru útgjöld sem skiptu milljónum. Spurði einnig hvað ætti að taka inn í umrædda könnun. Ætti að fara að meta bragðgæði lambakjöts út frá t.d. hálendisgróðri, láglendisgróðri, mýrlendi og jafnvel hvönn. Ef að menn eru fyrst og fremst að hugsa um kálbeit, þá eigi bara að taka það skýrt fram. Benti jafnframt á það að séu margar rannsóknir á áhrifum kálbeitar og leggur til að byrjað verði á að lesa og fara yfir þessar fyrri þær sem fyrir liggja áður en hafist verður handa við nýjar.

Guðrún Stefánsdóttir: Sagðist hafa ætlað að benda á það líkt og Jóhannes að það hafa verið gerðar margar rannsóknir á áhrifum kálbeitar á lömb. Hvatti til þess að þessar upplýsingar verði settar inn á saudfe.is svo þær verði aðgengilegri til lesturs. Minnti á að með heimasíðunni sé komið tækifæri til að gera aðgengi að rannsóknarniðurstöðum læsilegra þeim sem búa á landsbyggðinni og eiga erfiðara með að verða sér út um fræðilegar heimildir af þessum toga.

Birgir Ingþórsson: Lagði fram tillögu um frávísun. Umfangið væri alveg hrikalegt og hann sagðist ekki sjá gagnsemina gagnvart bændum með þessu. Líkt og aðrir hafi bent á hér á undan þá sé hægt að læra af fyrri rannsóknum.

Þar sem frávísunartillögur ber að afgreiða strax og án umræðu skal tekið fram að mælendaskrá um tillögu 2.4 var ekki tæmd þegar frávísunin var tekin til afgreiðslu. Frávísunartillaga Birgis var borin undir fundinn og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Tillögunni var vísað frá.

Fundi frestað vegna hádegishlés kl. 12:00

Fundur settur aftur kl. 13.00

Fundarstjóri bauð Þorvald Þórðarson fulltrúa frá  deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Vestfjarða, velkominn á aðalfundinn en hann komst ekki fyrr vegna ófærðar.

Sigurður Jónsson kynnti tillögu 2.5

2.5. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því til stjórnar LS og Markaðsráðs kindakjöts að gera nýtt samkomulag við afurðastöðvar varðandi snyrtingu og léttingu skrokka í sláturhúsum, þar sem fallið verði frá því að náraband sé skorið af skrokkum fyrir vigtun.  Að öðru leyti er brýnt að fullt samræmi sé milli sláturleyfishafa um vinnulag við snyrtingu.

Umræður:

Lárus Sigurðsson: Spurði hvernig þetta hafi komið upp á sínum tíma, þ.e. hvort að þetta hafi verið á milli LS og sláturleyfishafa. Honum finnst ekki vera samræmi á milli staða með þetta. Sagðist jafnframt ekki treysta sér til að samþykkja tillöguna eins og hún er sett fram án þess að vita nákvæmlega hvernig þetta er. Spurði hvort að það sé ekki vafasamt að vera að væla yfir að eitthvað sé skorið af sem teljist varla til matar. Taldi rétt að breyta orðalagi tillögunnar

Þorsteinn Kristjánsson: Fór yfir nokkur atriði úr reglugerð tengd þessu máli.

Kjartan Jónsson: Barðist einu sinni við þetta sama, þ.e. afskurð. Segir að kjötmatsformaður hafi átt að setja vinnureglur um afskurð, en það hafi ekki verið gert. Því hafi aldrei verið settar fram samræmdar vinnureglur í þessum efnum.

Sigurður Jónsson, framsögumaður svaraði fyrirspurnum: Hann ræddi reglugerðina sem þetta vinnulag byggir á. Þá hafi hækillinn verið skorinn af. Við erum líka búin að verðfella skrokka þannig að við erum að fá miklu minna fyrir feita skrokka núna. En þessi snyrting sem hér um ræðir er svo yfirgengileg að eina ráðið væri að hætta við hana. Hann sagði menn hafa haft mörg ár til að vinna eftir þessu og núna 6-7 árum eftir að þetta samkomulag var gert, hafa vinnureglur ekki enn verið samræmdar og ekki von á að það verði gert úr þessu.

Jóhannes Sigfússon: Sagði málið vera af tvennum toga. Síðasta samkomulag var um banakringlu og náraband og inn í það var tekin nokkurra ára deila um  vatnsléttingu. Það eiga að vera til staðar reglur um þetta. Annað mál er svo og mjög alvarlegt og það er að sumir sláturleyfishafar virðast ekki fara eftir þessum reglum. Það er mál yfirkjötmatsins að snyrtingin sé í samræmi við gildandi reglur. Lagði til að það verði gert átak í því núna í haust að fylgjast með því að reglum verði framfylgt. Taldi það ennfremur vera lýti á skrokk þegar búið sé að skera af honum nárabandið.

Erlendur Ingvarsson: Benti á að eitt atriði hefur breyst frá því sem var eftir að hraðinn fór að vera svona mikill í sláturhúsunum sem er að hroðvirknisleg vinnubrögð hafa aukist.

Sigurður Jónsson, framsögumaður tillögunnar
Eftir að þetta mál, sem tillagan byggir á, kom upp sl. haust (sbr. ljósmyndir sem hann sýndi fundarmönnum) hafi hann orðið var við afskaplega margar óánægjuraddir tengdar þessu málefni. Fólki hafi ekki þótt þetta nógu gott, en veit að það er útilokað að fá bættan skaða sem það hafi orðið fyrir vegna þessa. Mjög mikilvægt væri þessi tillaga nái fram að ganga þar sem svona vinnubrögð verða að teljast ótæk.

Tillagan var samþykkt samhljóða að loknum umræðum.

Vagn Sigtryggsson kynnti tillögu 2.6

2.6. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 hvetur til markvissari vinnubragða í áframhaldandi rannsóknum á fósturdauða hjá sauðfé.

Tillagan var samþykkt samhljóða umræðulaust

Baldvin Björnsson kynnti tillögu 2.7

2.7. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því til stjórnar LS að hún beiti sér fyrir því að rannsóknir verið hafnar að nýju á áburðarþörf  túna, efnainnihaldi og nýtingu búfjáráburðar og einnig á efnainnihaldi heyja með tilliti til snefilefna svo unnt sé að greina þörf á viðbótagjöf

Umræður:

Sigríður Jónsdóttir: Benti á að það séu til ógrynni af rannsóknum á áhrifum áburðar, en telur að ekki séu til margar rannsóknir um efnagreiningu innihalds áburðar. Telur að rannsóknir á efnagreiningu heys vera í ólestri. Taldi hluta af tillögunni vera óþarfan, en hinn helminginn afar þarfan.

Guðrún Stefánsdóttir: Taldi að eðlilegt væri þessar tillögur séu að koma fram hér á þessum vettvangi. Taldi að kannski sé eðlilegt að það komi fram í tillögunni að niðurstöðurnar séu okkur ljósar. Nú sé hægt að setja þær upplýsingar á netið ásamt leiðbeiningum yfir hvar efnið sé að finna.

Einar G. Örnólfsson: Skýrði afstöðu Borgfirðinga varðandi tillöguna og vísar þar til verðhækkana á áburði. Telur þær niðurstöður tilrauna sem fyrir liggja vera orðnar gamlar og þarft sé bæði að framkvæma nýjar rannsóknir ásamt því að dusta rykið af fyrri rannsóknum. Einnig um þurfi að skoða búfjáráburðinn, athuga þurfi hversu mikil áburðarefni séu í okkar skít og hversu gagnlegur hann sé. Sama gildi um greiningar á heysýnum.

Tillagan var samþykkt samhljóða að loknum umræðum.

Halla Steinólfsdóttir kynnti tillögu 2.8. Sagði frá því að tillagan væri sett saman úr tveimur fyrri tillögum, númer 41 og 42, frá Dalamönnum.

2.8. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því til stjórnar LS að ítreka við afurðastöðvar að vandað verði til aflestrar og innsláttar á númerum á sláturfé.

Umræður: Ábending kom úr sal varðandi málfarsvillu í texta.

Tillagan var samþykkt samhljóða að loknum umræðum.

Birgir Arason kynnti tillögu 2.9 um mat á ullargæðum haustlamba.

Umræður:

Guðbrandur Sverrisson: Sagðist vilja hafa flekkótta féð með í tillögunni. Bendir á að litaafbrigðin þurfa að hafa sitt vægi og ekki sé rétt að mismuna. Svo sé álitamál að fella ull í stigum aðeins eftir litum.

Sigríður Jónsdóttir: Fagnaði tillögunni. Sagði það hafa viðgengist að mislitt fé sé dregið niður í mati. En það sé inn í ræktunarmarkmiðum greinarinnar að ýta undir litaflóruna. Þetta snúist aðeins um nokkrar krónur, en litamismunur er verðmæti í sjálfu sér. Sagði það vera jafn mikilvægt að þróa góðan hvítan lit og fallegan mórauðan lit og mikilvægt sé að viðhalda litafjölbreytninni. Sagði þetta vera stigun sem að vinnur gegn ræktunarmarkmiðum og tók undir með síðasta ræðumanni.

Halldóra Björnsdóttir: Bar fram breytingatillögu. Vill láta setja mislitt í stað orðanna: mórauð, grá og svört, í þriðju línu.

Grétar Jónsson: Tók undir tillögu Halldóru.

Erlendur Ingvarsson: Gerði að tillögu sinni að einfalda málið með því að allar kindur fengju 8 fyrir ull.

Guðbrandur Sverrisson: Sagðist ekki vera hlynntur því að fjallað væri aðeins um mislitt fé. Því mórautt né svart sé ekki mislitt. Lagði fram breytingartillögu um að með það að markmiði að litir hafi ekki áhrif á stigagjöf, komi í stað orðanna: mórauð, grá og svört, í þriðju línu.

Tillögunni var vísað aftur til nefndar að tillögu fundarstjóra

Júlíus Guðni Antonsson kynnti tillögu 2.10

2.10. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því  til fagráðs í sauðfjárrækt að leiðrétta útreikninga á mjólkurlagni ánna, þannig að tekið sé mið af raunverulegri mjólkurlagni en áhrif haustbötunar lamba á þá einkunn lágmörkuð.

Umræður:

Birgir Ingþórsson: Sagði tillöguna vera ágæta að mörgu leyti. En spurði hvernig menn ætli að framkvæma hana. Telur ekki ráðlegt að leggja fram til samþykktar óframkvæmanlega tillögu. Hann sjái a.m.k. enga leið til að framkvæma hana Tók þó fram að hér væri ekki um frávísunartillögu að ræða.

 

Gunnar Þórarinsson: Sagði mikilvægt að skoða ekki aðeins vöxt lambsins, heldur líka mjólkurgetu móðurinnar. Ekki að það sé aðeins lífþungi sem að gildi, heldur einnig tölur við fyrstu vigtun. Þannig sé verið að leita leiða til að auka mjólkurlagnina. Hægt sé að finna leiðir til að bæta þennan þátt. Þetta er einn liðurinn í því að finna góða einstaklinga sem skila ám sem mjólka vel.

Tillagan var samþykkt með 17 atkvæðum gegn 14 að loknum umræðum.

Sigurður Jónsson kynnti tillögu 2.11 um breytingar á fituflokkun dilkakjöts. Hann bað fundarmenn um að samþykkja eða fella tillöguna, en óskaði eftir að hún ekki send aftur í nefnd.

2.11.  Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því til fagráðs í sauðfjárrækt að kanna hvort ekki sé ástæða til breytinga á fituflokkun kjöts þannig að tekið sé tillit til skrokkþunga við fitumælingu.

Umræður:

Agnar Gunnarsson: Óskaði eftir því að tillagan yrði felld, segir að við séum með alveg nógu feitu kjöti á markað. Þetta er reglugerð sem að við vinnum eftir. Ný tækni skiptir ekki svo miklu í þessum efnum.

Jóhann Pétur Ágústsson:Taldi að með nútímatækninni sé ekki stórmál að breyta þessu og vildi að málið yrði skoðað betur en alls ekki vísað frá né fellt.

Þorvaldur Þórðarson: Sagðist ekki vera hrifinn af tillögunni sem vildi samt ekki láta vísa henni í nefnd aftur. Lagði til að í stað orðsins skrokkþunga verði í staðinn sett:  holdfyllingar, aftarlega í þriðju línu.

Guðmundur Skúlason: Lýsti yfir stuðningi við málflutning Agnars. Spurði um hvort að það hafi verið gerðar nákvæmar rannsóknir á þessu áður. Sagði núverandi fyrirkomulag vera í nokkuð góðu lagi og við ættum ekki að vera að hræra í því.

Guðbrandur Sverrisson: Sagðist styðja tillöguna. Fitumælingin sé það sem að deilan snýst um að miklu leyti. Hún er nú óháð stærð skrokkanna og mælingin fer alltaf fram á sama stað sem er ekki sanngjarnt.

Einar Ófeigur Björnsson: Sagðist ekki vita hvort að hann væri með eða á móti tillögunni. Spurði hvort að það sé ekki verið að styðjast við sömu tækni hér á landi og notast sé við í Evrópu þ.e. þau lönd sem okkar útflutningur fer til.

Birgir Ingþórsson: Lýsti andstöðu við tillöguna vegna þess sem Einar talaði um hér á undan. Við værum með samræmt kerfi og það skipti máli vegna útflutnings. Sagðist ósammála Guðbrandi. Fituna eigi að mæla á sama stað og það sé tekið tillit til stærðar.

Oddný Steina Valsdóttir: Taldi sig fara rétt með að erlendis sé þessi mæling ekki notuð. Ræddi um að mikilvægt sé að fituhlutfallið sé skoðað nánar á stærri og smærri skrokkum. Það þurfi ekki endilega að þýða að meiri fita sé á stærri skrokk, einungis vegna stærðarinnar.

Sigurður Jónsson: Sagði Oddnýju fara með rétt mál. Þessi mæling sé hvergi annarsstaðar notuð í Evrópu en á Íslandi. Þessi mæling sé til þess að finna áætlað fituhlutfall. Ítrekaði að í tillögunni væri verið að fjalla um að málið verði skoðað, en ekkert verið að ákveða.

Jóhannes Sigfússon: Benti á að það væri allt í lagi að farið verði í að skoða þessi mál og segist telja að með því verði hægt að fá í hendurnar heilmiklar upplýsingar, sem hugsanlega segja okkur gagnlega hluti, verði farið í það að skoða þær nánar. Sagðist velta því fyrir sér að kannski væri það einmitt tilfellið að hlutfall af fitu í stóru skrokk sé jafnvel minna heldur en á litlum skrokk. Hvatti til að málið yrði skoðað

Því næst var breytingatillaga Þorvaldar Þórðarsonar borin upp.  Hún var felld með 7 atkvæðum gegn 28.  Tillaga 2.11. var því lögð fyrir fundinn í óbreyttri mynd.

Tillagan var samþykkt með 33 atkvæðum gegn 3 að loknum umræðum.

Tillaga 2.9 var nú lögð fyrir fundinn á ný eftir yfirferð nefndar.

Birgir Arason kynnti breytingar nefndarinnar.
Nefndin leggur til að ályktunin endi svona “... til að afstýra því að litur hafi áhrif á stigun þrátt fyrir að ullargæði séu í lagi.” Þessi setning komi í stað þeirrar sem fyrir er “til að afstýra því að mórauð, grá og svört lömb falli í stigum þrátt fyrir að ullargæði séu í lagi”.

2.9. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 skorar á stjórn LS að láta endurskoða ullarmat á lifandi haustlömbum til að afstýra því til að afstýra því að litur hafi áhrif á stigun þrátt fyrir að ullargæði séu í lagi.

Tillagan var samþykkt samhljóða umræðulaust

Allsherjarnefnd óskaði eftir því við fundinn að afgreiðsla tillögu 1.1. um nýliðunarstyrki yrði tekin upp og tillagan tekin fyrir aftur.  Fundurinn samþykkti samhljóða að verða við því.

Agnar Gunnarsson kynnti breytingatillögu nefndarinnar sem felst í því að síðasta setning greinargerðar verði stytt um helming og tillagan hljóði þá svo:

1.1. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 beinir þeim tilmælum til stjórna L.S. og  B.Í að við endurskoðun á reglum um nýliðunarstyrk til handa sauðfjárbændum verði sú breyting gerð að veitt verði framlag vegna  fjölgunar á bústofni og gildi þá einu hvort um kaup eða ásetning af eigin stofni er að ræða.

Greinargerð:
Það verður að teljast mjög óeðlilegt að  greiða aðeins styrki vegna kaupa á bústofni en ekki vegna fjölgunar af eigin stofni.
Frumbýlingur sem kaupir t.d. 300 kindur á fyrsta ári og fjölgar svo um 100 á ári næstu tvö ár með ásetningi af eigin stofni ætti ekkert síður að fá styrk vegna þeirrar fjölgunar en sá sem slátrar öllum sínum lömbum og  kaupir fé annars staðar.  Er það okkar mat að þeir einstaklingar sem uppfylla skilyrði til að teljast nýliðar eigi að fá styrk vegna sannanlegrar fjölgunar á sínum bústofni og yrðu búfjáreftirlitsskýrslur sá grunnur sem farið yrði eftir.  Tilgangur með stuðningi við frumbýlinga hlýtur að vera sá að styðja við þá af fremsta megni.

Tillagan var samþykkt samhljóða umræðulaust
Þá voru tekin fyrir mál frá umhverfisnefnd

Grétar Jónsson kynnti tillögu 3.1 um gæðaeftirlit með innfluttum matvælum.

Umræður:

Jóhannes Sigfússon: Spurði hvað menn ættu við hér með matvæli. Spurði hvort að LS eigi að fara að líta eftir öllum matvælum, spyr hvort að það sé ekki réttara að tala bara um kjöt.

Lárus Sigurðsson: Benti á að framanlega í línu tvö, á eftir LS, standi “þeir”. Spurði hvort að það séu ekki líka konur í stjórninni.

Guðbrandur Sverrisson: Sagðist vera í sjálfu sér sammála tillögunni en svo er alltaf spurning hvaða ráðum er hægt að beita. Benti á að bændum hérlendis séu settar töluverðar skorður við framleiðslu. Við eigum að gera þær kröfur að sú vara sem komi hér inn til landsins sé framleidd eftir sömu stöðlum og viðmiðunum sem okkur eru sett í innlendri framleiðslu. Setti fram til umhugsunar hvort að það verði ekki að kveða skýrara að orði.

Guðbrandur Hannesson: Benti á að tillöguninni sé beint til stjórnar LS sem á að fylgjast með framvindu eftirlits sem fjallað er frekar um í 3.4. Stjórnin ætti að framfylgja því að Matvælastofnun sé að vinna sín verk, rétt og vel, það virðist ekki vera vanþörf á. Það væri verið að auka eftirlitsiðnaðinn og fylgjast verði með að það sé í lagi.

Aðalsteinn Jónsson: Tók undir málflutning fyrri ræðumanna. Fannst ekki nógu hart að orði kveðið og vill skerpa á tillögunni.

Grétar Jónsson: Tók undir með þeim sem hafa talað. Það hafi komið upp í nefndinni hvernig ætti að orða tillöguna og hvort ætti að tala um kjötvörur eða almennar matvörur.
Lagði til að breytt verði úr: “þeir” í “hún” sbr. ábendingu Lárusar. Eins verði orðinu “matvæla”,  breytt í “kjötvara” sbr. ábendingu Jóhannesar.

Gunnar Þórisson: Sagði það vera lágmarkskröfu okkar að innflutta kjötið verði unnið eftir sömu kröfum og stöðlum og innlend vara. Verðum að krefjast þess að það verði framleitt a.m.k. á sömu forsendum og okkar kjöt.

Einar Ófeigur Björnsson: Taldi þó svo að mönnum þyki ósiður að vísa tillögum til baka í nefndir, þá sé þess þörf núna. Lagði til að tillögunni yrði vísað aftur til nefndar.

Tillögunni var vísað aftur til nefndar að tillögu fundarstjóra og Einars Ófeigs Björnssonar.

Guðbrandur Hannesson kynnti tillögu 3.2 um bótagreiðslur fyrir lambhrúta sem slátrað er vegna þess að þeir fara yfir varnarlínur.

Umræður:

Agnar Gunnarsson: Spurði um hversu margir hrútar þetta eru á ári og hversu mikið fjármagn er verið að ræða um.

Júlíus Guðni Antonsson: Sagðist ekki hafa neinar forsendur til að svara til um hversu marga hrúta sé verið að ræða. En eðlilegt sé að bæta bónda upp þennan missi. Það hefur verið mikill misbrestur á því að þetta hafi verið bætt og greitt. Bætur fáist ekki nema með eftirgangsmunum. Lagði til að nýtt orð yrði fundið í stað orðsins “sauðfjárveikivarnir” í tilögunni einnig í tillögu 3.3. þar sem sama orð kæmi fram

Guðbrandur Hannesson flutningsmaður svaraði spurningum: Greindi frá því að tveir hrútar hafi komið úr þjóðgarðinum á Þingvöllum. Þeim var ekið heim yfir varnarlínu. Bóndinn á þeim stað lét keyra hrútana þá beint til slátrunar. Matvælastofnun ætti að greiða þetta strax. Taldi jákvætt að koma fram með þessa tillögu og vekja máls á efninu.

Gunnar Þórisson: Sagðist vita til þess að erfiðlega hafi gengið að fá greiddar bætur við þessar aðstæður.

Fundarstjóri bar fram tillögu um að orðið “Matvælastofnun” komi í stað orðsins “sauðfjárveikivarnir”, framanlega í annarri línu. Það var samþykkt samhljóða.

Tillagan var því lögð fyrir fundinn í svohljóðandi mynd:

3.2. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 skorar á Matvælastofnun að greiða bætur fyrir lambhrúta sem færðir eru til slátrunar vegna línubrots eftir venjulega sláturtíð.

Greinargerð:
Matvælastofnun hefur ekki bætt tjón bænda þegar lambhrútar hafa verið færðir til slátrunar vegna línubrota eftir hrútadag en það að geta ekki geymt hrútinn og slátrað honum síðan er sannarlega skaði fyrir viðkomandi bónda.

Tillagan var samþykkt með áorðinni breytingu með öllum greiddum atkvæðum gegn einu.

Guðbrandur Björnsson kynnti tillögu 3.3. Gerði um leið tillögu sinni að síðasta orði í greinagerð, verði breytt úr sjúkdómum í smitsjúkdómum.

Jóhannes Sigfússon: Benti á að einnig sé hægt að notast við orðið búfjársjúkdómar. Guðbrandur kvaðst sammála því að nota það og breytti tillögu sinni í þá veru.

Guðrún Stefánsdóttir: Spurði hvort að það verði ekki að koma fram undir hvern tillagan heyri og til hverra henni er beint.

Sigríður Jónsdóttir: Benti á að sauðfjárveikivarnir séu ekki bara nafn á stofnun sem hefur liðið undir lok. Telur orðalagið standa fyllilega undir sínu og telur ekki þurfa að bæta orðinu Matvælastofnunar inn í stað orðsins sauðfjárveikivarna.

Breytingatillaga Guðbrands var því næst borin upp og samþykkt samhljóða. Tillagan í heild var því lögð fyrir fundinn í svohljóðandi mynd:

3.3. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 krefst þess að varnarlínum sauðfjárveikivarna verði haldið við samkvæmt lögum þar um. Fundurinn skorar á Alþingi og ríkisstjórn að tryggja nægt fjármagn til þess.

Greinargerð:
Það er mikið hagsmunamál fyrir sauðfjárbændur að útbreiðsla sauðfjársjúkdóma sé heft með varnargirðingum. Þá styðja öruggar varnargirðingar við bakið á sauðfjárbændum við að útrýma búfjársjúkdómum.

Tillagan var samþykkt samhljóða með áorðinni breytingu.

Grétar Jónsson kynnti tillögu 3.4

3.4 Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 skorar á Matvælastofnun að slaka hvergi á í vörnum gegn búfjársjúkdómum á Íslandi.

Tillagan var samþykkt samhljóða umræðulaust

Þá voru tekin fyrir mál frá Markaðs- og kjaranefnda

Einar Ófeigur Björnsson kynnti tillögu  4.1

4.1. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008, felur stjórn LS að gefa sem fyrst út viðmiðunarverð, sem hækki verð á öllu dilkakjöti til sauðfjárbænda að lágmarki um 98 kr. á kg frá reiknuðu meðalverði sláturleyfishafa haustið 2007. Verð fyrir kjöt af fullorðnu hækki að lágmarki hlutfallslega jafn mikið.

Greinargerð:
Kostnaðarhækkanir frá síðasta hausti hafa verið gríðarlegar, samkvæmt útreikningum LS.
Nægir þar að nefna:
• Áburður 64 kr. á kg
• Olía 14 kr. á kg.
• Fjármagnskostnaður 20 kr. á kg.
Þá er ótalin hækkunarþörf sem er til staðar vegna verðbólgu og annarra kostnaðarhækkana.

 


Umræður:

Birgir Ingþórsson: Tók undir með nefndinni, framsetningin er vel hugsuð og mun skynsamlegra sé að ræða krónutölur heldur en prósentur. Gæti þó vel hugsað sér meiri hækkun. En það þurfi líka að passa sig á að setja ekki eitthvað fram sem að sláturleyfishafar muni ekki ljá máls á. Við erum samt ekki að standa í sömu sporum og síðasta haust t.d. vegna launa, það er verið að gera kjarasamninga og það er ágætt að nefna það líka. Við erum að tala um þörf til að mæta rekstrarkostnaði. Leggur til að bætt verði inn orðinu “launa” í greinargerð, í síðustu línu fyrir aftan vegna.

Guðrún Stefánsdóttir: Greindi frá því að þau ræddu líka launin í nefndinni, þegar tillögurnar voru teknar fyrir. Niðurstaðan varð að sleppa þessum launalið í tillögunni, því inni í rekstrarkostnaði væru líka laun.

Guðmundur Skúlason: Taldi að með þessari tillögu sé komið fram það sem að hann óttaðist, þetta sé hvorki fugl né fiskur. Það gangi ekki að koma til svona fundar og vera ekki með allar tölur á hreinu. Það sem þurfi að koma frá þessum fundi er svar við hver sé hækkunarþörfin svo að við stöndum á sléttu. Við verðum að leggja af stað með það til að komast yfir ána og drukkna ekki í henni miðri. Sagði margt hægt að læra af síðustu kjarabaráttu kúabænda, þessir liðir sem tilgreindir eru í greinagerðinni eru það sem stóð í verkalýðshreyfingunni í baráttu þeirra.. Við þurfum að byrja á að setja fram staðreyndirnar og sláum svo af. Hann sagðist greiða atkvæði með þessari tillögu, þrátt fyrir að telja hana þjóna litlum tilgangi.

Júlíus Guðni Antonsson: Efast ekki um að það séu eins margar skoðanir hér inni yfir um þessa ályktun og við erum mörg hér inni. Lagði til að sleppt yrði að telja fram fjármagnskostnaðinn hér, heldur láta standa laun. Benti á baráttu kúabænda, sem rök fyrir því. Launþegar skilja að það þurfa allir sín laun. Við þurfum ekki að rökstyðja að það hafi orðið miklar hækkanir, það skilja allir. Við ættum að segja strax að við gerum okkur grein fyrir því að við getum aldrei náð fram allri hækkuninni en við þurfum að fá okkar þó svo að það þýði þó nokkra hækkun. Taldi það orka tvímælis að tala um fjármagnskostnað akkúrat núna. Því það séu mjög margir sem standa frammi fyrir því núna að fá það ekki heldur bætt.

Einar Örnólfsson: Taldi tillöguna koma fallega og vel út og sagði hana vera vel unna. En tekur samt sem áður undir með öðrum ræðumönnum um að við viljum ekki drukkna í ánni. Sagðist gjarnan vilja sjá hærra verð og taldi að við ættum að stíga skrefið eins langt og við þurfum. Það eigi að halda inni orðinu fjármagnskostnaður. Við eigum einnig að halda inni öllum sundurliðunum til að gera fólki skýra grein fyrir því að þetta er það sem við þurfum til að hafa í okkur og á. Berjum fram nógu stóra hækkun og rökstyðjum hana með nógu mörgum liðum. Sagðist treysta stjórn LS fyllilega til að vinna þetta mál.

Sigurður Jónsson: Sagðist efast um að það væri rétt á þessu stigi málsins að láta liðina fylgja með. Þurfum fyrst að reikna dæmið til enda og reikna hvern lið fyrir sig. Sleppa því að nefna launakostnaðinn, þó við vitum að launakostnaðurinn okkar sé alltaf afgangsstærð. Stjórnin þarf að vanda mjög til verka að finna út hvern lið fyrir sig og meta þá hvaða kostnaður hún telji rétt að sé birtur.

Þorsteinn Kristjánsson: Sagði þetta náttúrulega mál málanna sem að sé verið að ræða núna. Taldi að við séum svolítið í gamla tímanum með þá hugsun þegar að við vorum að vinna þetta út frá kostnaðargrundvelli, sem er eins og kúabændur geri ennþá. Þurfum að beina sjónum að því hversu mikið þrír stærstu kostnaðarliðirnir hafa hækkað. Þurfum að taka afstöðu til þess, þar sem að stjórnin tók þá afstöðu að láta aðalfundinn fjalla um málið. Þurfum að passa okkur á að skjóta ekki yfir markið, heldur finna verð sem sláturleyfishafar og markaðurinn þoli og skoða einnig hversu mikið annað kjöt á markaðnum mun hækka. Mælti með því að tillagan verði samþykkt. Kúabændur mættu andstöðu við að fjármagnskostnaður yrði tekinn inn en það var þó gert.

Ásmundur Daðason: Sagði tillöguna vera mjög skilmerkilega uppsetta og þannig sé mjög klókt að setja upp krónutöluna. Þegar að áburðarverð var birt þá fór allt af stað og í kjölfarið hóf Sigurður Eyþórsson þessa útreikninga. Gagnrýndi að verð á öllum kostnaðarliðum skuli ekki hafa legið fyrir þegar að fundurinn hófst og að stjórnin hafi ekki unnið þá vinnu fyrir hann. Sagði að vara verði sig á því hvernig umræðan komi til með að fara fram og þá sérstaklega gagnvart fjölmiðlum. Þeir séu farnir að leyfa sér að taka óspart á bændum og sömuleiðis á öllum hækkunum. Taldi að aðferðir kúabænda verði að nýta til eftirbreytni, en þeir hófu umræðuna snemma og bjuggu alla undir hækkanir með góðum fyrirvara.

Fundi frestað vegna kaffihlés kl. 15:00
Fundur settur aftur kl. 15:30

Umræðu um tillögu 4.1 framhaldið

Birgir Arason: Taldi það gott fyrir fundinn að hafa þetta fyrir framan sig þó svo það sé sjálfsagt hægt að deila um það sem standi í tillögunni í allan dag. Var ekki endilega á því að þessi greinargerð þurfi að fylgja með, heldur sé jafnvel gagnlegra að hún sé aðeins notuð sem vinnuplagg hér á fundinum. Við þurfum öll að standa saman á bak við stjórnina. Standa þétt að baki hennar í þessari vinnu sem að fram fer og þeim aðgerðum sem hún er að fara út í. Einnig sé mikilvægt að allir gangi sáttir héðan af fundinum. Ítrekaði að greinargerðin þyrfti ekki fara út fyrir fundinn, heldur sé þetta aðeins viðmiðunarplagg til að vinna eftir.

Guðmundur Skúlason: Minntist aðeins á það sem Þorsteinn ræddi um, að við værum enn í gamla tímanum. Kannski værum við enn  í gamla tímanum en við þurfum enn að lifa og við þurfum afkomu. Við verðum að reyna að átta okkur á því hver þörfin er til hækkana. Hann sagðist treysta stjórninni fullkomlega til að vinna að þessu máli í þágu allra innan LS. 

Birgir Ingþórsson: Lagði til að greinargerð tillögunnar yrði felld niður.

Einar Ófeigur Björnsson, framsögumaður: Vildi benda Guðmundi Skúlasyni á aðra tillögu sem segði það sama og hann vildi koma til skila. Sagði það slæmt að við séum ekki með útreiknaðar tölur til að vinna hér eftir. En nauðsynlegt væri að gefa út viðmiðunarverð núna. Tímasetningin væri rétt og það sé skilningur gagnvart hækkunum núna í þjóðfélaginu. Við þurfum að koma af fundinum sem ein heild. Laun eru kostnaður og það var rætt um það í nefndinni hvort það ætti að nefna þau sérstaklega. Það tekur þó nokkurn tíma að reikna út þessar forsendur og það er vinna sem þarf að fara nú strax í að loknum aðalfundi. Það er svo langt síðan að þessi framreikningur hefur farið fram og kannski var verðið í fyrra ekki nógu hátt. Við verðum að passa okkur á að skjóta ekki of hátt yfir markið með viðmiðunarverði, það höfum við gert áður og það skaðaði okkur.
Ítrekaði að þetta sé vinna sem þurfi að fara í núna strax. Það er önnur hlið á okkar tekjum og hún snýr að ríkinu

Breytingatillaga Birgis Ingþórssonar um greinargerðin félli niður var því næst tekin fyrir.  Hún var felld með 8 atkvæðum gegn 14.  Birgir dró þá síðari breytingatillögu sína til baka um breytingu á greinargerðinni.  Tillaga 4.1 var því lögð fyrir fundinn óbreytt frá því hún kom frá nefnd.

Tillagan var samþykkt samhljóða að loknum umræðum

Þorsteinn Kristjánsson kynnti tillögu 4.2.

Sigríður Jónsdóttir: Lagði til breytingartillögu. Að tekinn verði í burtu textinn: “lagaákvæðis sem afnemur útflutningsskyldu”, og í staðinn komi: “lagaákvæðis um útflutningsskyldu”

Halldóra Björnsdóttir: Sagðist ekki vera alveg sátt við tillöguna og brá þegar að hún heyrði að viðhalda ætti útflutningsskyldunni. En svo eftir að hafa heyrt talað um hærra skilaverð í Noregi en á Íslandi, hafi hún orðið tvístígandi í málinu. Sagði það merkilegt að í sauðfjársamningnum sem nýleg tóku gildi sé engin krafa um það að tryggja kjöt á innanlandsmarkað. Taldi óráðlegt að hrófla við samningnum, þar sem blekið hafi varla þornað. Heyrðist í gær að ráðherra væri ekkert alltof ánægður með þetta sjálfur.

Breytingatillaga Sigríðar Jónsdóttur var því næst tekin fyrir og samþykkt samhljóða.  Tillaga 4.2. var því lögð fyrir fundinn í svohljóðandi mynd:

4.2. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008, skorar á landbúnaðarráðherra að fresta um tvö ár gildistöku lagaákvæðis um útflutningsskyldu, sem taka á gildi 1. júní 2009.

Greinargerð:
Vegna gríðarlegra breytinga  á rekstrarumhverfi landbúnaðarins sem orðið hafa á síðustu mánuðum, telur fundurinn nauðsynlegt að halda inni um sinn ákvæði um útflutningsskyldu. Einnig eru fyrirhugaðar lagabreytingar sem munu hafa veruleg áhrif á kjötmarkaðinn. Afnám útflutningskyldu á dilkakjöti veldur uppnámi á kjötmarkaði við þessar aðstæður.
Tillagan var samþykkt með áorðinni breytingu með 29 atkvæðum gegn 6.

Guðrún Stefánsdóttir kynnti tillögu 4.3.

4.3. Aðalfundur Landssamtaka Sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008, skorar á ríkisstjórn Íslands að lækka gjöld og skattaálögur á díselolíu, og vera sjálfri sér samkvæm í að draga úr koltvísýringslosun í samræmi við Kyoto samþykktina.

Greinargerð:
Íbúar á landsbyggðinni þurfa að sækja þjónustu um langan veg, jafnvel um erfiða fjallvegi. Díselbílar eru taldir menga minna en bensínbílar.   Lækkun á verði díselolíu væri mikið hagsmunamál allra íbúa landsbyggðarinnar og stuðlaði einnig að notkun díselbíla sem myndi draga úr koltvísýringslosun.

Tillagan var samþykkt samhljóða umræðulaust

Baldur Grétarsson kynnti tillögu 4.4

4.4. Aðalfundur Landssamtaka Sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008, leggur áherslu á að þegar svigrúm gefst til ullarverðshækkanna, verði aukin verðmunur á milli haust- og vetrarrúinnar ullar svo hvati fáist til bættrar meðferðar og flokkunar á ull.

Umræður:

Kjartan Jónsson: Vildi nota tækifærið til að láta vita að honum líst vel á tillöguna og styður hana.

Tillagan var samþykkt að loknum umræðum með öllum greiddum atkvæðum gegn 2.

Erlendur Ingvarsson kynnti tillögu 4.5
4.5. Aðalfundur Landssamtaka Sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008, beinir því til stjórnar LS að láta gera verðmyndunargrunn fyrir rekstur sauðfjárbúa.

Birgir Ingþórsson: Fagnaði tillögunni. Sagði þetta hafa verið sitt hjartans mál frá því að hann hóf að starfa með þessum samtökum. Það sé mál bændasamtakanna að vinna þetta mál. Þetta væri gríðarleg vinna og þarf ekki endilega að kalla á jákvæð viðbrögð. En þegar að þetta var gert hjá kúabændum varð allt vitlaust fyrst í stað en fólk var fljótt að jafna sig. Það verður einnig að fara út í það að gera vinnumælingar. Þetta er ferli sem tekur langan tíma og mikla vinnu. En tölur Hagþjónustunnar nýtast okkur því miður mjög lítið. Það verður bara að fara og afla upplýsinga frá mönnum beint. Það þarf að vanda þessa vinnu  og hún er mikil og þess vegna er mikilvægt að fá Bændasamtökin með í verkið.

Ásmundur Daðason; Benti á að við værum á aðalfundi sauðfjárbænda, en ekki kúabænda. Segist þó styðja tillöguna.

Tillagan var samþykkt samhljóða að loknum umræðum

Lárus Sigurðsson tók til máls og gerði grein fyrir málum sem markaðs- og kjaranefnd tók fyrir en afgreiddi ekki sérstaklega. Tillögu nr. 20 um söfnun á ull í Eyjafirði var vísað til nefndarinnar frá fagnefnd. Nefndin taldi ekki ástæðu til að hafa frekari málabúnað um hana og hvatti frekar til að hún verði skoðuð innan stjórnar félags Eyfirðinga. Sagði að sér blöskraði algjörlega tillögufarganið hér á þessum fundi og þyrði að fullyrða að sumar þessara tillaga hefðu ekkert inn á fundinn að gera. Við hefðum margt þarfara að ræða á honum.

Þá voru tekin fyrir mál frá fjárhagsnefnd

Gunnar Þórarinsson kynnti tillögu 5.1

5.1. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl mælir með því að stjórn LS taki þátt í ferðakostnaði fulltrúa sauðfjárbænda á matvælasýninguna Salone del gusto sem verður haldin í október á Ítalíu.

Greinargerð:
Matvælasýningin Salone del gusto er haldin annað hvert ár á Ítalíu. Samtökin Slow food standa að sýningunni sem er fjölsótt og vekur mikla athygli um allan heim. Árið 2006 fóru þrír fulltrúar sauðfjár- og geitabænda frá Íslandi á sýninguna og nú í ár bjóða skipuleggjendur fleiri fulltrúum að koma og kynna það sem við erum að gera. Þeir borga uppihald en eftir stendur kostnaður við ferðir. Þátttaka í sýningu af þessu tagi opnar nýja möguleika fyrir markaðssetningu íslenskra landbúnaðar afurða erlendis.

Tillagan var samþykkt  umræðulaust með 17 atkvæðum gegn 11.

Gunnar Þórarinsson kynnti tillögu 5.2

5.2: Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl samþykkir að þóknun til formanns skuli vera kr. 70.000 á mánuði frá og með aprílmánuði 2008.

Tillagan var samþykkt samhljóða umræðulaust

 

 

 


Gunnar Þórarinsson kynnti tillögu 5.3

    
5.3: Fjárhagsáætlun 2008   
  2008  2007
Tekjur   
Búnaðargjald 7.700.000  7.690.332
Framleiðsluráðssjóður 3.000.000  2.851.790
Vaxtatekjur 1.000.000  911.522
Aðrar tekjur 4.500.000  4.643.892
  16.200.000  16.097.536
    
Gjöld   
Laun og launatengd gjöld 9.000.000  11.075.335
Skrifstofu- og stjórnunarkostn. 4.000.000  3.577.313
Annar kostnaður 250.000  37.691
  13.250.000  14.690.339
    
(Tap)/Hagnaður 2.950.000  1.407.197

Tillagan var samþykkt samhljóða umræðulaust

Þá var tekin fyrir endurskoðuð tillaga 1.8 frá allsherjarnefnd

Fanney Ólöf Lárusdóttir kynnti tillöguna og gerði grein fyrir breytingum nefndarinnar.

1.8. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 varar stjórnvöld eindregið við hugmyndum um tollalækkanir á svína- og kjúklingakjöti.  Verði tollar lækkaðir á þessum kjöttegundum mun það skapa mikið uppnám á innlendum kjötmarkaði í öllum greinum, auk þess að stefna fjölda starfa í úrvinnsluiðnaði í hættu.  Þessi aðgerð mun því einnig koma niður á sauðfjárbændum og íslenskum landbúnaði almennt þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.  Aðalfundurinn vísar til ályktunar nýliðins Búnaðarþings um kjaramál og lýsir yfir fullum stuðningi við þær aðgerðir sem þar eru lagðar til.


Tillagan var samþykkt samhljóða umræðulaust

 


Þá var tekin fyrir endurskoðuð tillaga 2.1 frá fagnefnd

Halldóra Björnsdóttir kynnti tillöguna

2.1 Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því til BÍ að sæðingaskýrslur séu framvegis skráðar í Fjárvís.

Tillagan var samþykkt  umræðulaust með öllum greiddum atkvæðum gegn einu.

Þá var tekin fyrir endurskoðuð tillaga 2.2. frá fagnefnd.

Þóra Sif Kópsdóttir kynnti tillöguna

Umræður:

Þorsteinn Kristjánsson: Benti á að orðið aflífun er tvítekið í greinagerðinni, bæði í miðri línu tvö og svo aftur í kringum miðja þriðju línu.

Þóra Sif Kópsdóttir: Lagði til að tekið verði út orðið “við aflífun” í miðri þriðju línu greinagerðarinnar. 

Breytingatillaga Þóru Sifjar var samþykkt samhljóða. Tillaga 2.2. var því lögð fyrir fundinn í svohljóðandi mynd.

2.2.  Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því til stjórnar LS að gerð verði ítarleg úttekt á meðferð lambakjöts við slátrun, þá sérstaklega við aflífun og kælingu.

Greinargerð:
Fundurinn telur nauðsynlegt að könnuð verði hugsanleg áhrif þessara tveggja þátta á gæði kjötsins. Þegar skepnan er aflífuð með rafmagni er hætt við að skrokkar nái ekki að blóðrenna nægilega og eins er hætt við kæliherpingu með of snöggri kælingu eða frystingu.  Grunur er um að fyrrgreindir þættir geti spillt gæðum kjötsins.

Tillagan var samþykkt samhljóða að loknum umræðum

Fanney Ólöf Lárusdóttir gerði grein fyrir málum frá allsherjarnefnd sem nefndin ákvað að afgreiða ekki. Ákveðið var að leggja ekki fram tillögur 26 og 44.

Þá var tekin fyrir endurskoðuð tillaga 3.1 frá umhverfisnefnd

Grétar Jónsson kynnti tillöguna en hún er verulega breytt.

 


Umræður:

Ásmundur Daðason: Sagði tillöguna vera góðra gjalda verða. En það eina sem að hún kemur inn á er að það sé verið að sporna gegn innflutningi á dilkakjöti. En það sem þurfi kannski frekar að hafa meiri áhyggjur af akkúrat núna sé innflutningur á hráu alifugla- og svínakjöti og mikið áhyggjuefni sé hvernig rekjanleiki þeirrar vöru verði. Segist telja tillöguna vera betri án greinagerðarinnar.

Einar Ófeigur Björnsson: Taldi þetta vera kostulegan texta og botnar ekki í honum nema að litlu leiti, en leggur samt til að tillagan verði samþykkt.

Guðbrandur Sverrisson: Taldi þessa tillögu vera lakari en þá fyrri. Þarna sé verið að reyna að binda leyfið við einhverja framleiðslu. Telur miklu betra að halda sig við gömlu tillöguna.

Baldur Grétarsson: Taldi ábendinguna hjá Ásmundi hafa verið mjög þarfa. En samt sem áður telji hann þessa tillögu vera betri en þá fyrri. Taldi æskilegt að hún haldi sér án greinagerðar og lagði til að hún félli niður.

Birgir Ingþórsson: Taldi óráðlegt að sleppa greinagerðinni. Lagði til að hún yrði orðuð þannig að hægt sé að rekja lömb til móður. Það sé ekki skylda að vera í skýrslugerð, þó svo það sé skylda að eyrnamerkja féð. Þannig að það sé spurning hvort að það sé hægt að fullyrða þetta fyrir alla bændur.

Guðbrandur Hannesson: Taldi greinagerðina vera þarfa ádeilu, einnig sýndi hún líka fram á á hvaða sviðum við stöndum Evrópusambandinu framar

Ásmundur Daðason: Lagði fram breytingartillögu sem endurorðar greinargerðina.

Grétar Jónsson, framsögumaður: Sagðist vel geta fallist á báðar hugmyndir, þ.e. fella alveg niður greinagerðina eða þá að breyta henni í þá veru líkt og Ásmundur nefndi

Þá var tekin fyrir breytingatillaga Baldurs Grétarssonar um að fella greinargerðina niður.  Tillagan var felld með 13 atkvæðum gegn 19.

Þá var tekin fyrir breytingatillaga Ásmundar Daðasonar. Með henni kæmi greinargerðin til með að hljóma eftirfarandi. “Gerðar eru meiri heilbrigðiskröfur til innlendrar framleiðslu heldur víða erlendis. Það er nauðsynlegt að jafnræðis sé gætt og innflutningur lúti sömu kröfum og innlend framleiðsla.”.  Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu.

Tillaga 3.1. var því lögð fyrir fundinn í svohljóðandi mynd:

3.1. Aðalfundur LS, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 krefst þess að leyfi til innflutnings á hráu kjöti sé bundið sömu skilyrðum í framleiðslu og innlend framleiðsla.

Greinargerð
Gerðar eru meiri heilbrigðiskröfur til innlendrar framleiðslu heldur víða erlendis. Það er nauðsynlegt að jafnræðis sé gætt og innflutningur lúti sömu kröfum og innlend framleiðsla.

Tillagan var samþykkt samhljóða með áorðinni breytingu að loknum umræðum

8. Önnur mál:

Oddný Steina Valsdóttir: Lagði til að nefndarskipan liggi fyrir nokkrum dögum fyrir fund. Það myndi skila sér í upplýstari og gagnlegri umræðu á fundinum sjálfum.

Sigurður Jónsson: Sagði að deginum hafi verið eytt í að afgreiða aragrúa af málum. Lagði  til að kvóti yrði settur á hverja nefnd og að hún megi skila að hámarki frá sér þremur til fjórum málum. Málafjöldinn sé alveg þarflaus því fundurinn sé ekki að skila okkur neinu og fáar samþykkta hans grípa athygli annarra utan þessa hóps.

9. Kosningar
Fulltrúi Vesturlands í stjórn LS, Sindri Sigurgeirsson, hafði lokið sínu kjörtímabili ásamt varamanni sínum Þorvaldi H. Þórðarsyni.

Fundarhlé var gert meðan fulltrúar Vestlendinga undirbjuggu tillögu að stjórnarmönnum.

Kjartan Jónsson kynnti tillögu að stjórnarmönnum Vesturlands í LS 2008-2011. Þeir leggja til að Sindri Sigurgeirsson verði aðalmaður í stjórn LS og Þorvaldur H. Þórðarson verði varamaður eins og var á síðasta kjörtímabili.  Ekki bárust fleiri tillögur og eru þeir því sjálfkjörnir í stjórn LS til næstu þriggja ára.

Fundarstjóri kynnti tillögu að endurskoðanda og skoðunarmönnum til eins árs.  Tillaga er um að endurskoðandi verði sem áður Eymundur Sveinn Einarsson hjá Endurskoðun og ráðgjöf hf. Skoðunarmaður verði Gunnar Þórisson og Albert Guðmundsson til vara. 

Tillagan var samþykkt samhljóða umræðulaust.

Fundarstjóri lagði til að fundargerð yrði send fulltrúum í tölvupósti þegar hún lægi fyrir og þeim gefin vika til að gera athugasemdir.  Það var samþykkt samhljóða

Dagskrá var þá tæmd og fundarstjórar þökkuðu því næst fyrir fundinn og gáfu Jóhannesi Sigfússyni orðið til að slíta honum.

Jóhannes Sigfússon: Ræddi það að senda út nefndarskipan með góðum fyrirvara að þá þurfi stjórn LS að sama skapi að fá nöfn fulltrúa með góðum fyrirvara. Síðustu nöfnin skiluðu sér til að mynda fáum dögum fyrir aðalfundinn í þetta skiptið. Varðandi takmörkun á tillögum, þá ráðlagði hann að farið yrði varlega í slíkum málum. Það sé
lýðræðislegur réttur félaga að senda inn tillögur og erfitt sé að skerða þann rétt. Taldi að hér hafi farið fram málefnalegur og fundurinn góður, þrátt fyrir erfiðar aðstæður sem komnar séu upp hjá sauðfjárbændum. Hann sagði störf stjórnar LS hafa verið virt sem skyldi. Auðvitað greindi okkur á um ýmsa hluti, en starf okkar er að vinna fyrir sauðfjárbændurna í landinu. Hann sagðist vona að fundargestir hafi átt góðar stundir á fundinum og óskaði öllum góðrar skemmtunar á árshátíð LS í kvöld

Hann þakkaði að starfsmönnum fundarins, fundarstjórum og riturum fyrir gott starf og  sömuleiðis framkvæmdarstjóra LS  fyrir gott starf og góðan undirbúning.

Jóhannes óskaði að lokum fundarmönnum góðrar heimferðar og sagði fundinum slitið.

Fundargerð ritaði Inga Guðrún Kristjánsdóttir.
Yfirfarið af Sigurði Eyþórssyni.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar