Print

Sauðfjárbændur vilja sanngjarnt verð

| .

Sala á íslensku lambakjöti hefur verið góð að undanförnu og síðustu tólf mánuði, frá 1. júlí að telja, hefur verið 6% söluaukning frá sama tímabili árið á undan. Salan hefur aukist jöfnum skrefum síðustu ár eins og meðfylgjandi graf ber með sér. Sameiginlegt markaðsstarf bænda og afurðarstöðva, stöðugt framboð, aukinn ferðamannastraumur og vakning hjá íslenskum neytendum um gæði og hollustu íslenska lambakjötsins hafa skipt þar sköpum. Allt bendir til þess að þjóðarrétturinn lambakjöt sé í sókn. 

Myndin sýnir sölu á kindakjöti í þúsundum tonna. Um 400 tonnum meira seldist sl. 12 mánuði frá 1. júlí 2015 að telja en sl. 12 mánuði frá 1. júlí 2014 að telja. 

Mun hærra verð til bænda í Evrópu

Afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda er með því allra lægsta í Evrópu. Oft munar tugum prósentna. Franskir bændur fá t.a.m. um 60% hærra verð en þeir íslensku. Eftirfarandi listi sýnir kílóverð á lambakjöti til bænda í nokkrum Evrópulöndum í íslenskum krónum.

Á myndinni er sýnt meðalverð í fyrra sem var 604 kr. pr. kg til íslenskra bænda. Allar tölurnar sýna verð til bænda án opinberra styrkja.

Milliliðir fá tvöfalt meira en bændur

Hærra verð til bænda í Evrópu þýðir hins vegar ekki að verð til neytenda sé nauðsynlega hærra. Bændur í Evrópu fá einfaldlega stærri hluta af útsöluverðinu til sín. Í Bretlandi fá bændur t.d. á milli 50% og 60% af endanlegu útsöluverði í sinn hlut.

 Í dæmi 1 er miðað við meðalverð til bænda 2014 (604 kr. kg) og verðmælingu Hagstofu Íslands á lambahrygg (2.136 kr. kg). Í dæmi 2 er er miðað við meðalverð til bænda 2014 (604 kr. kg) og verð á ófrosnu og ókrydduðu lambalæri úr verðkönnun Landssamtaka sauðfjárbænda.

Algengt er að íslenskir bændur fái sem nemur á bilinu 25% til 41% af endanlegu útsöluverði. Þegar tekið hefur verið tillit til 11% virðisaukaskatts þýðir þetta að milliliðir; sláturhús, kjötvinnslur og verslanir taka á bilinu 49% til 65% af endanlegu útsöluverði á lambakjöti til sín. Í einstaka tilfellum fá bændur ekki nema um tíunda hluta af smásöluverði sauðfjárafurða. Hér er ekki verið að fjalla um kryddaða eða unna vöru. Landssamtök sauðfjárbænda gerðu verðkönnun í sex verslunum á höfuðborgarsvæðinu miðvikudaginn 27. júlí. Þetta voru Hagkaup, Bónus, Nettó, Krónan, Víðir og Melabúðin. Kannað var verð á ófrosnum lærum og hryggjum. Samkvæmt henni var meðalkílóverð á lambalæri 1.807 kr. kg. Landssamtök sauðfjárbænda telja það varla geta talist sanngjörn viðskipti að milliliðir, sem sumir hverjir skila milljarða hagnaði, taki til sín svo stóran hluta af verðinu. Þetta fyrirkomulag er hvorki neytendum né bændum til hagsbóta.

Sanngjörn viðskipti

Sauðfjárbúskapur er hryggjastykkið í búsetu, atvinnulífi og menningu í hinum dreifðu byggðum. Sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu er forsenda þess að búskapurinn blómstri. Síðasta hálfa árið hefur launavístala hækkað um rúm 9% og almennt verðlag um rúm 5%. Íslensk sauðfjárbú eru fjölskyldufyrirtæki og verð á afurðum hefur bein áhrif á laun bænda. Sauðfjárbændur telja eðlilegt að þeir fái sannvirði fyrir framleiðslu sína og telja sanngjarnt að raunlaun þeirra fylgi almennri launaþróun í landinu. 

Verð til bænda er fjórðungi of lágt

Verðmyndun á kindakjöti á Íslandi er flókin. Grunnverð í algengasta flokki (R3) sem bændum er boðið fyrir komandi haustslátrun samkvæmt útgefnum verðskrám stóru sláturhúsanna er kr. 572 fyrir hvert kíló.* Meðalverðið sem greitt var í fyrra var kr. 603,7 á kíló.** Útlit er því fyrir að það standi í stað eða jafnvel lækki á sama tíma og sala eykst og og framboð stendur í stað eða minnkar. Landssamtök sauðfjárbænda telja að afurðarverð sé a.m.k. fjórðungi of lágt. Nauðsynlegt er að hefja leiðréttinguna strax í haust. ***

Mikil tækifæri eru til aukinnar verðmætasköpunar í íslenskri sauðfjárrækt. Farsæl vöruþróun, hagræðing og aukin útflutningur inn á kröfuharða markaði skipta þar sköpum. Sanngjarnari skipting framleiðsluverðmætisins á milli bænda og milliliða er þó alger höfuðforsenda þess að öflug sauðfjárrækt blómstri hér á landi. 

Leiðrétting í áföngum á þremur árum

Landssamtök sauðfjárbænda telja ekki boðlegt að afurðarverð til bænda hér á landi sé langt undir meðaltali í Evrópu. Samtökin vilja vinna með afurðarstöðvum, sem flestar eru reyndar í eigu bænda, að því að leiðrétta skiptingu afurðarverðsins í áföngum á næstu þremur árum samkvæmt eftirfarandi tillögu:

  • Haustslátrun 2014 – meðalverð: 604 kr. **
  • Haustslátrun 2015 – meðalverð: 677 kr.
  • Haustslátrun 2016 – meðalverð: 719 kr.
  • Haustslátrun 2017 – meðalverð: 762 kr.

*Sláturfé getur fallið í meira en 30 flokka eftir aldri, kyni, gæðum, fituhlutfalli o.s.frv. Hér er miðað við flokkinn R3 sem er algengasti flokkur sláturlamba (kr. 572 pr. kg). Að auki greiða sum sláturhús tímabundið álag til að stýra því hvenær fé kemur til slátrunar. **Meðaltalskílóverð að öllu þessu virtu haustið 2014 var 603,7 kr. Verð til bænda er ekki sundurgreitt eftir bitum eða hlutum lambsins. Miðað við 16,2 kg lamb fengust í fyrra að meðaltali kr. 9.780 (603,7x16,2). Þetta verð innifelur, allt kjöt, gærur, innmat o.s.frv. ***Sú leiðrétting samsvarar u.þ.b. launa- og verðlagsþróun undanfarinna mánaða og missera. 

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar