Print

Nokkur orð um endurskoðun sauðfjársamnings

| .

Nú stendur yfir kosning um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar. Endurskoðun samningsins átti að fara fram árið 2019 en var flýtt um eitt ár í ljósi erfiðrar stöðu sauðfjárbænda.  Það er óhætt að segja að samningurinn sem var undirritaður í 19. febrúar 2016 og byrjað að starfa eftir 1. Janúar 2017 hafi ekki fengið mikinn byr í seglin.  Hann var umdeildur frá upphafi og tók þar að auki gildi  á sama tíma og hér varð stjórnlaust hrun í afurðaverði og algjör brestur í afkomu bænda. Það er ekki ætlunin að rekja hér þær aðgerðir sem LS hefur unnið að frá því að aðstæður á erlendum mörkuðum fóru að gefa eftir haustið 2016 með tilheyrandi falli á afurðaverði.  Reyndar hafði sú þróun þegar komið fram árið 2015 en hún beit ekki bændur fyrr en afurðaverð haustið 2016 komu fram.
Á aðalfundi samtakana vorið 2018 voru lagðar þær megin línur sem lagt var upp með í samningaviðræðum við ríkið.  Samningaviðræðurnar hófust í ágúst og lauk í desember.  Samkomulag um endurskoðun sauðfjársamnings var síðan undirrituð 11. Janúar 2019.  Samkomulagið er nú búið að kynna fyrir bændum og þessa dagana stendur yfir atkvæðagreiðsla um það. Hér á eftir verður farið yfir helstu liði samkomulaginu og nokkur atriði sem upp hafa komið á fundum og samtölum við bændur síðustu daga.

Aðlögunarsamningar

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er stefnan sett á aðlögunarsamninga sem nýja kynslóð búvörusamninga svo vitnað sé í orðalagið. Samninganefnd bænda féllst á þessa leið enda nokkuð keimlík þeim fækkunarhvötum sem Landssamtök sauðfjárbænda hafa talað fyrir frá vorinu 2017 og í samræmi við ályktun 1.1. frá aðalfundi LS 2018.
Markmið aðlögunarsamninga er að stuðla að jafnvægi í framleiðslu með því að heimila þeim bændum sem vilja reyna fyrir sér í annarri starfsemi að nýta hluta ríkisstuðnings til nýrra verkefna um ákveðin tíma gegn því að þeir hætti framleiðslu eða fækki fé. 

Hvers vegna er ekki meira svigrúm til að gera aðlögunarsamninga?

Samninganefnd bænda lagði áherslu á að aðlögunarsamningar í sauðfjársamningi gætu ekki falið í sér botnlausa fækkunarhvata. LS hefur frá því haustið 2017 talað fyrir aðgerðum sem stuðla að samdrátt í framleiðslunni. Horft hefur verið til þess að jafnvægispunktur í framleiðslu dilkakjöts væri um 8.200 tonn miðað við núverandi markaði eða um 1.000 tonn frá þeirri framleiðslu sem var haustið 2017.  Hvað fjárfjölda varðar liggur því jafnvægispunkturinn nærri 425 þúsund fjár eða um 10% færra fé en var á búfjárskýrslum 1. janúar 2017. Samkvæmt nýjustu tölum um fjölda búfjár frá Matvælastofnun var heildar ásetningur síðastliðið haust 435 þúsund kindur (endanlegar ásetningstölur liggja ekki fyrri).  Miðað við þá niðurstöðu verður mögulegt að gera aðlögunarsamninga á árinu 2019 fyrir um 10 þúsund fjár. Þá skal tekið fram að ráðherra hefur möguleika á að opna á frekari fækkun fjár ef markaðsaðstæður kalla á það. Sú ákvörðun skal liggja fyrir í lok árs.

Nánari útfærsla í reglugerð

Í Viðauka I í samkomulaginu er fjallað nánar um fyrirkomulagi aðlögunarsamninga.  Fyrir liggur að nánari útfærsla á fyrirkomulagi samninga verður útlistuð í reglugerð og verklagsreglum sem unnið verður eftir við úthlutun.  Sú vinna fer ekki í gang fyrr en samningarnir hafa verið samþykktir.  Það er engin takmörkun á því í hvers konar verkefni aðlögunarsamningar ná yfir.  Komi til þess að það þurfi að takmarka fjölda samninga þá munu verkefni sem tengjast sauðfjárafurðum hafa forgang.  Framleiðnisjóður landbúnaðarins mun hafa það hlutverk að fjalla um þær umsóknir sem berast og setja verklagsreglur og forgangsraða við úthlutun.

Endurskoðun á skiptingu fjármagns í samningnum

Eitt af megin markmiðum LS í samningaviðræðum við ríkið var að fylgja eftir samþykktri tillögu frá aðalfundi sem byggir á ákvæðum í samningnum um að stöðva skuli niðurtröppun beingreiðslna með hliðsjón af þróun afkomu í greininni.  Um þessar breytingar hefur mikið verið rætt enda mikill munur á þeim áhrifum sem endurskoðunin hefur á bændur eftir stöðu þeirra í samningnum.

Mest umræða um stöðvun á niðurtröppun beingreiðslna

Í núverandi samningi er skýrt ákvæði um að niðurtröppun beingreiðslna skuli endurskoðað ef ekki næðist 7,5% aukning í heildarverðmætasköpun frá gildistöku samnings.  Hins vegar var ekki skilgreint nánar hvað felst í slíkri endurskoðun.  Það hefði kannski verið betra að skilgreina hvaða breytingar myndu verða á skiptingu greiðslna milli liða ef markmið samningsins næðust ekki.  Aukafundur LS ályktaði í september 2017 í þá veru að niðurtröppun greiðslumarks skildi stöðvuð, sú ályktun fékk eitt mótatkvæði. Það var síðan eitt af hlutverkum aðalfundar LS vorið 2018 að álykta um það hvernig staðið skyldi að endurskoðun á niðurtröppun beingreiðslna.  Með þá niðurstöðu og skýrt umboð fóru samtökin til viðræðna við ríkið um endurskoðun á samningnum.

Dregið úr framleiðsluhvata

RML setti á vefinn hjá sér reiknivél þar sem bændur geta borið saman stöðu sína í núverandi samningi og endurskoðuðum samningi.  Sú reiknivél er mikilvægt verkfæri til að greina stöðu hvers og eins gagnvart núverandi samningi og endurskoðun.  Forsendur þessara útreikninga eru fjölbreyttar og sú niðurstaða sem reiknivélin gefur er nokkuð einfölduð mynd af raunveruleikanum.  Þetta þarf að hafa í huga þegar dregnar eru upp ályktanir út frá niðurstöðum hennar.  Eitt af því sem t.d. má sjá í reiknivélinni er að þeir sem hafa góðar afurðir koma, í ákveðnum tilfellum, verr út úr endurskoðuðum samningi.  Það er fyrst og fremst vegna þeirra breytingar sem gerðar eru á samningnum sem miða að því að draga úr framleiðsluhvata hans.  Núverandi samningur hefur verið einna mest gagnrýndur einmitt fyrir það að vera framleiðsluhvetjandi.  Við þeirri gagnrýni er brugðist með þessum hætti og þá þarf ekki að koma á óvart að ávinningur þess að auka framleiðslu hvort sem er með því að fjölga eða auka afurðir er minni í tillögu endurskoðunarinnar en í núgildandi samning.  Hér ber að hafa í huga að eitt af megin markmiðum endurskoðunarinnar er að stuðla að hækkun afurðaverðs til bænda sem auðvitað kemur þeim sem hafa góðar afurðir mest til bóta.

Markaður með greiðslumark

Markmið þess að setja á markað með greiðslumark er einkum tvíþætt. Í fyrsta lagi að jafna með kerfisbundnum hætti stöðu fólks gagnvart greiðslumarkseign. Í annan stað mun slíkur markaður halda niðri verði á greiðslumarki. Þannig mun greiðslumark sem losnar vera stýrt til þess hóps bænda sem minnst greiðslumark hefur miðað við fjárfjölda. Sem viðbrögð við stöðvun á niðurtröppun greiðslumarks taldi samninganefnd bænda mikilvægt að setja viðskipti með greiðslumark inn í þennan feril með þessi tvö markmið að leiðarljósi en ljóst má vera að stöðvun á niðurtröppun greiðslumarks leiðir til hærra verðs á greiðslumarki á frjálsum markaði.

Framleiðslujafnvægi

Framleiðslujafnvægi er verkfæri sem gerir okkur kleift að takast á við sveiflur á mörkuðum í framtíðinni. Hefðum við haft þennan farveg fyrir fjármagn undanfarin tvö ár leikur enginn vafi á að við hefðum virkjað þetta ákvæði. Af þessum lið verður hægt að ráðstafa fjármagni til markaðsfærslu. Síðastliðin tvö ár hefur markaðsráð stýrt markaðsátaki á erlendum mörkuðum sem snerist um að koma verðminni skrokkhlutum í verð og opna fyrir markaði erlendis. Þetta átak er sambærilegt við nokkuð stórtækar aðgerðir Evrópusambandsins til að bregðast við kreppu á mörkuðum með landbúnaðarvörur í kjölfar viðskiptabanns á Rússland. Verkefnið skipti sköpum til að opna á nýja markaði og takast á við birgðastöðuna sem hér var og olli gríðarlegum þrýstingi á öll verð. Þá verður einnig hægt að nýta fjármagn af framleiðslujafnvægi til að borga sláturálag á ær og hvetja þannig til fækkunar fjár. Þetta eru kannski þær meginaðgerðir sem við horfum til að geti virkað til að takast á við sveiflur á mörkuðum í gegnum samningana. Gert er ráð fyrir að ónýttum beingreiðslum skuli ráðstafað á þennan lið. Fjármagn vegna ónýttra beingreiðslna mun lækka verulega strax á næsta ári en þó verður mögulegt að nýta fjármagn af þeim ærgildum sem þegar hafa verið innleyst af ríkinu. Þá er ekki síður mikilvægt að hægt verður að færa yfir á þennan lið af öðrum liðum ef aðstæður kalla á slíkt. Að hafa farveginn til staðar er gríðarlega mikilvægt því sagan segir okkur að ekki er gott að þurfa að stóla á sértækar aðgerðir til að bregðast við stöðu á mörkuðum.

Ásetningshlutfall

Í samkomulaginu er gerð sú breyting að nú verður hægt að hreifa ásetningsskyldu til eftir markaðsaðstæðum, þó aldrei niður fyrir 0,5. Ákvörðun um það skal liggja fyrir í síðasta lagi 15. September. Stjórnvöld lögðu mikla áherslu á að ásetningsskylda skildi lækkuð í 0,5. Það var því samkomulagsatriði að að lækka ásetningsskyldu niður í 0,6 en ákvarða mætti um hlutfallið með tilliti til markaða. Það er vissulega fólgin nokkur þversögn í því að lækka ásetningshlutfallið en leggja samhliða fyrir markmið og aðgerðir til að jafna stöðu fólks innan greinarinnar. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að stofnsetning markaðs með greiðslumark mun koma í veg fyrir að framleiðendur geti keypt sig niður í 0,6 en þeir sem það kjósa munu geta fækkað niður í það hlutfall.

Að lokum

Landssamtök sauðfjárbænda hafa lagt áherslu á að fækkunarhvatar, í því ástandi sem nú ríkir, séu vandmeðfarnir. Margt bendir til þess að við séum þegar farin að nálgast markaðsjafnvægi. Of mikill samdráttur framleiðslu myndar skortsástand á markaði, það er augljóst. Aldrei í íslandssögunni hefur verið meiri hætta á því að innlend framleiðsla á kjöti gefi eftir á kostnað innflutnings, sú markaðshlutdeild verður ekki svo auðveldlega unnin til baka. Þá hefur aldrei í íslandssögunni verið meiri hætta á að jarðir verði í stórum stíl keyptar upp af auðmönnum íslenskum og erlendum með tilheyrandi eftirgjöf landbúnaðar, sú staða verður ekki auðveldlega unnin til baka. Landssamtök sauðfjárbænda hafa lagt mikinn þunga í aðgerðir sem tempra áhrif á markaðinn. Allt frá vorinu 2017 hafa samtökin viljað ná fram aðgerðum til sveiflujöfnunnar á markaði ásamt hæfilegum fækkunarhvötum. Þannig væri unnið að því að ná jafnvægi frá báðum endum. Því miður höfum við ávalt mætt þeim sjónarmiðum frá stjórnvöldum sem með málaflokkinn fara að þau hafa verið áfram um aðgerðir sem hvetja til fækkunar fjár en barátta okkar fyrir aðgerðum til sveiflujöfnunnar á markaði í hvaða mynd sem er hefur verið svo til árangurslaus hingað til. Þó hefur lengi legið fyrir að slíkar aðgerðir væru líklegastar til að styðja við afkomu bænda og forða stjórnlausu hruni og eftirgjöf. Í samkomulaginu er þó bókun þar sem samningsaðilar lýsa sameiginlegum skilningi á mikilvægi hagræðingaraðgerða í afurðageiranum. Það er mikilvægt að allir sem að koma leggist á eitt um að ná fram aðgerðum í þá veru.
Stjórn LS leggur nú endurskoðaðan samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar fyrir dóm bænda.  Endurskoðunin er niðurstaða samningaviðræðna milli ríkis og bænda.  Inn í slíkar viðræður er farið með skýrar áherslur um samningsmarkmið.  Það er síðan eðli samningaviðræðna að þar þarf að leita málamynda, gefa eftir í ákveðnum málum til að ná öðrum fram. 
Stjórn LS leggur endurskoðaðan samning fyrir dóm bænda fullviss um að fylgt hafi verið eftir þeim lýðræðislegu ákvörðunum sem félagsmenn hafa tekið og ekki síður að samkomulagi komi til með að styrkja íslenska sauðfjárrækt til framtíðar –  og bæta úr þeim göllum sem fram eru komnir á núverandi samning.  Það verða ekki allir sáttir með niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Hver og einn metur samninginn út frá sínum forsendum en það er líka mikilvægt að horfa til greinarinnar í heild og hafa í huga að eitt af þeim markmiðum sem lagt var upp með er að samningurinn stuðli að því að jafna stöðu bænda gagnvart opinberum stuðningi.  Þangað þarf greinin að komast því að ytri aðstæður knýja okkur til að þétta raðirnar. 

Við hvetjum bændur til að kynna sér ýtarlega efni samkomulagsins og láta sína skoðun í ljós með þátttöku í kosningunni.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar