Print

Frábær árshátíð

| .

gudni.jpgHátt í 300 manns mættu á árshátíð LS á föstudaginn. Árshátíðin var haldin í Súlnasal Hótel Sögu. Árshátíðarnefndin sem skipuð var Jóni Sigmari Sigmarssyni Desjamýri, Sigríði Jónsdóttur Arnarholti, Þóru Sif Kópsdóttur Ystu-Görðum og Agnari H. Gunnarssyni Miklabæ á hrós skilið fyrir sitt framlag.  Hvert og eitt kom með skemmtiatriði frá sínum landshluta sem gladdi og kætti árshátíðargesti. Hægt er að skoða pistill sem Sigríður flutti hérna fyrir neðan.   Veislustjóri var Gísli Einarsson og má segja að hann hafi farið á kostum. Auk bænda víðsvegar af landinu komu góðir gestir einnig á fundinn og skemmtu sér með sauðfjárbændum. Fleiri myndir frá árshátíðinni eru væntanlegar.

Í tilefni af Árshátíð Landssamtaka sauðfjárbænda í Bændahöllinni, 13. apríl 2007.

Heiðraða samkoma.
Gaman er nú að sjá svo marga gesti hingað komna til veislu þessarar.
Vandséð er hvernig þessi stóri hópur verður ávarpaður svo við hæfi sé, því jafnan er misjafn sauður í mörgu fé.
Kosningar nálgast og menn eru miskunnarlaust dregnir í dilka sem  aldraðir, öryrkjar, framsóknarmenn eða aðrir sem eitthvað geta.
Alltaf er verið að sortera fólk. Á þorrablótum grípa skemmtinefndir jafnvel til þess örþrifaráðs að flokka mannfólkið í karla og konur og flytja þá minni karla og minni kvenna.

Nú er örvænting skemmtinefndar einmitt komin á það stig og ég ætla að flytja minni sauðfjárbænda.
Það verður ekki mikill vandi, því allir Íslendingar, sem eitthvað hefur verið um talandi, fyrr eða síðar, hafa verið sauðfjárbændur.
Bjó ekki Grettir með Hösmaga sinn í Drangey?
Systir Jónasar sat lömb og spann ull.
Gísli, skærasta sjónvarpsstjarna allra tíma, bjó sauðfjárbúi í Uppsölum.

Og við, kæru félagar, erum lifandi sönnun þess að lífsmáti sauðfjárbóndans á framtíð fyrir sér.

Í nútíma þjóðfélagi hraða og gróðahyggju verður peningum ekki komið í lóg á fljótlegri eða öruggari hátt en með því að leggja stund á sauðfjárrækt.

Sjúkdómarnir offita og iðjuleysi, sem þjaka annan almenning, leggjast ekki á sauðfjárbændur. Þeir haldast tággrannir og léttfættir allt fram í síðbúið andlátið.

Og þegar tískuhúsin eru komin í þrot, berast ferskir straumar frá kvíaveggnum. Eilíflega smartur klæðnaður fjárbóndans, kútþófin lopapeysa og rifnar gallabuxur, kemst alltaf aftur í tísku.

Auk þessara jákvæðu áhrifa á fjárhag, heilsu og fatastíl, hefur sauðfjárbúskapur einnig áhrif á geðslag og framkomu iðkandans. Bændablaðið hefur gefið út eftirfarandi leiðbeiningar um hina réttu hegðun:     

(Fjallskilareglugerðin hin nýrri eftir Sigurbjörn Kristjánsson frá Finnsstöðum í Ljósavatnshreppi.)

Smölun er oft þeim manni um megn
sem má ekki þola storm né regn.
Best er að sérhver búandþegn
sé bálreiður haustið út í gegn.

Þú skalt æða yfir storð
aldrei tala hlýlegt orð.
Svipurinn þarf að minna á morð
ef menn ætla að smala á annað borð.

Hendi skal upp á móti hönd
þá heima eru smöluð lönd.
Orðin þá ekki valin vönd
vestur á Glámu og Barðaströnd.

Ef rekstur kemur, þú reiðast átt,
rífast um bæði stórt og smátt.
Tvístr'onum, öskra og hrópa hátt,
en hirð'ann bara ef það er fátt.

Er réttinni safnið rennur nær,
reynir á þol og fimar tær.
Hver sem þá verður ekki ær
ætti ekki að teljast gangnafær.

Þar hafið þið það.

Helsti vandi okkar stéttar er vitanlega að halda fólki utan við hana. Og ég er auðvitað alsæl að bera tignarheiti sauðfjárbónda en ....  

.... svo hugsaði ég líka á húsunum í gær

meðan henti ég garðann á
hvað það getur verið verið erfitt að eiga margar ær
sem allskonar kvilla fá.
Þegar rollurnar fá drullu
þykir Dungal allra best
en þó drepast bara fjölmargar úr pest.
Já mikið bölvað basl er það
að braska við landbúnað.
Rollur komast í voða
rollur drepast úr doða
svo láta þær lömbum úr sér
og leggjast í afveltu þar og hér.

(Úr lengri brag eftir Magnús Björgvinsson frá Klausturhólum í Grímsnesi.)

Þetta starf er ekki á allra færi, en auk þess að vera vel að sér og prýðilega verki farinn er sauðfjárbóndinn afar myndarlegur, eins og dæmin sanna.

Hvar getur að líta snöfurlegri knapa en bóndann sjálfan með hesta sína, búinn til fjallferðar? (Þetta er að morgni dags, áður en hann hefur drukkið sig fullan).

Draumar húsfreyjunnar rætast þegar hún sér bónda sinn bera við hlíðarbrún, (hann er of langt í burtu til að hún heyri í honum), haustsólin skín og fjárhópar renna um hjalla.

Getur einhver hugsað sér dásamlegra líf?

Heill sé sauðfjárbændum og heill sé þeim vísnaskáldum sem ég rændi til að skrifa þennan pistil.
Sigríður Jónsdóttir, Arnarholti Biskupstungum.


Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar