Fundargerð aðalfundar 1999

 

Landssamtök sauðfjárbænda

Aðalfundur á Hótel Sögu

7.-8. desember 1999

FUNDARGERÐ

1.       Setning

Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Aðalsteinn Jónsson, setti fundinn. Sagði hann m.a.:

Þróun landbúnaðar á Íslandi hefur verið mjög hröð á síðustu árum. Mikil fækkun framleiðenda hefur átt sér stað og tilfærsla á búsetu fylgt í kjölfarið. Framleiðsla á svínakjöti og kjúklingum hefur færst í mjög auknum mæli nær höfuðborgarsvæðinu, í stórar einingar svo jaðrar við að kalla megi iðnað en ekki landbúnað. Sama þróun er að eiga sér stað í mjólkurframleiðslunni. Þarf kannski ekki nema 200 bændur til að framleiða alla mjólk í landinu og er hagkvæmnin orðin það mikil að hægt er að stórminnka opinberan stuðning?

    

Þessi fundur stendur frammi fyrir tillögugerð um það hvert skuli stefna í íslenskri sauðfjárrækt. Ætlum við að gefa þeirri þróun lausan taum sem er á fullri ferð í öðrum búgreinum? Viljum við sjá tvö-þrjú stórbú í hverri sauðfjárræktarsveit eða ætlum við að flytja sauðfjárframleiðsluna á örfá afmörkuð svæði eins og aðra kjötframleiðslu í landinu. Fyrir liggja tillögur bæði frá Byggðastofnun og Lífskjaranefnd um framtíðarlausn á vanda sauðfjárræktar. Þessir aðilar hafa báðir skilað skýrslu frá síðasta aðalfundi LS. Í báðum þessum skýrslum er vikið mjög að vanda sauðfjárræktar á Íslandi, þ.e. tekjuleysi eigenda búanna, auk þess sem skilgreint er nákvæmlega hversu mjög hefur dregið úr opinberum framlögum til landbúnaðar hér á landi síðasta áratug, á sama tíma og launaskrið hefur verið afar mikið hjá öðrum þegnum samfélagsins og ekki hefur dregið jafnhratt úr stuðningi til landbúnaðar í nágrannaríkjum okkar.

Fundurinn þarf að vanda afgreiðslu þeirra mála sem fyrir honum liggja. Framtíð greinarinnar byggist á því að opinberum stuðningi verði varið með þeim hætti að greinin nái að þróast. Hún komist út úr þeirri umræðu að sauðkindin hafi étið gróðurþekju landsins og komi í veg fyrir að mögulegt sé að endurheimta hana. Siðferði í  framleiðsluaðferðum er mjög nauðsynlegt og rekjanleiki vörunnar til upprunans þarf að vera fyrir hendi, ásamt staðfestingu á að við séum með lyfjalausa, ómengaða framleiðslu. Framleiðsla sauðfjárafurða í sátt við landið er stærsta framtíðarhagsmunamál íslenskrar sauðfjárræktar.

2. Starfsmenn fundarins

     Formaður lagði fram tillögu um starfsmenn fundarins og voru þær samþykktar:

     Fundarstjórar

            Finnbogi Leifsson

            Eyjólfur Gunnarsson

Fundarritarar

            Björn Birkisson

            María G. Líndal

            Björn Þ. Björnsson

     Kjörbréfanefnd

            Guðbrandur Hannesson

            Sigurður Jónsson

            Haraldur Sveinsson

3. Skýrslur og ársreikningur

a)    Skýrsla stjórnar

Formaður LS flutti skýrslu stjórnar og fjallaði um störf stjórnarinnar frá síðasta aðalfundi. (Sjá Skýrslu stjórnar).

b)    Skýrsla búnaðarþingsfulltrúa

Arnór Karlsson, búnaðarþingsfulltrúi LS, flutti skýrslu varðandi Búnaðarþing, Verðlagsnefnd landbúnaðarafurða og Ístex hf. (Sjá Skýrlsu stjórnar).

c)    Ársreikningur 1998

Gjaldkeri samtakanna, Ásbjörn Sigurgeirsson, gerði grein fyrir endurskoðuðum ársreikningum LS fyrir árið 1998.

4. Ávörp gesta

            a)  Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra ávarpaði fundinn. Hann lýsti ánægju sinni með að sjá hversu margir ungir fulltrúar væru á fundinum, þ.e. yngri en hann sjálfur.

Nýr samningur væri í vinnslu og kvaðst hann því ekki geta rætt hann efnislega á þessum fundi. Ráðuneytismenn eru sammála um að ljúka þurfi samningagerð sem fyrst. Telur ráðherra sauðfjárræktina vera grundvöll byggðar víða um land.  Afkoma sauðfjárbænda er óásættanleg en þó nokkuð mismunandi milli bænda.  Gæðastýring er grundvöllur framfara og afkomubaráttu í framtíðinni. Eitt er að ákvarða stuðning við greinina og annað að skipta honum milli aðila. Taka þarf mið af mörgum sjónarmiðum. Jafn tekjulaus grein og sauðfjárræktin er, hefur ekki burði til að kaupa framleiðslurétt. Á nýliðnum ríkisstjórnarfundi var rætt um að leiðirnar væru í raun aðeins tvær. Sala ríkisstuðnings eða uppkaup á rétti.

           

Gerði grein fyrir niðurstöðum nefndar undir forystu Einars Odds Kristjánssonar um möguleika á útflutningi sauðfjárafurða.

    

Almenningsálitið væri m.a. grunnur fyrir þróunarmöguleika greinarinnar.  Allsæmileg sátt þéttbýlis við núverandi stuðning væri nauðsynleg og sömuleiðis skilningur þéttbýlisbúa á þörf fyrir hann. Ekki má þó mikið út af bera til að rifta þeirri sátt og leita verður leiða til að tryggja hana betur til framtíðar.

b)  Andrés Arnalds gerði grein fyrir samstarfi bænda og Landgræðslunnar um uppgræðslu lands undir merkjum "Bændur græða landið". Hann ræddi möguleika á að binda gróðurhúsalofttegundir með landgræðslu og möguleika Íslands á að standa undir kröfu KYOTO bókunarinnar. Óskaði fundinum velfarnaðar í vandasömu verki er fyrir honum liggur.

c)  Ari Teitsson ávarpaði fundinn og þakkaði gott samstarf á liðnum árum. Kvaðst hafa áhyggjur af því að afurðastöðvar o.fl. fáist ekki til að nýta mögulegan stuðning til framþróunar. Hvatti hann fundarmenn til að hvetja þessa aðila til að nýta sér stuðning þann sem í boði er, en hefur ekki verið nýttur sem skildi. Hann kvað "Fjárvís" vera gott verkfæri og í góðri þróun til notkunar við gæðastýringu í framleiðslunni.

Hann ræddi erfiðleika á markaðinum, m.a. minnkandi sölu og ásókn í ferska kjötvöru. Þá vék hann að samningamálum. Mörg mál væru ófrágengin og í mörg horn að líta. Sauðfjárbændur væru útverðir byggðar og svo þurfi að vera áfram.  Tryggja þurfi sess bænda sem vörslumenn landsins.

5. Kjörbréf

     Kjörbréfanefnd starfaði í upphafi fundarins. Guðbrandur Hannesson kynnti fulltrúa og fram kom að mæting væri 100%.

Fulltrúar sauðfjárbændafélaga

Félag sauðfjárbænda í Borgarfirði

       Finnbogi Leifsson, formaður, Hítardal

       Skúli Kristjónsson, Svignaskarði

       Sigurgeir S. Sigurgeirsson, Bakkakoti

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu

       María G. Líndal, Neðri Hundadal

       Hörður Hjartarson, formaður, Vífilsdal

       Guðrún Kristjánsdóttir, Dunki

Félag sauðfjárbænda í Strandasýslu

       Guðbrandur Sverrisson, formaður, Bassastöðum

       Sigurður Jónsson, Stóra-Fjarðarhorni

       Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum

Félag sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu

       Þorsteinn Sigurjónsson, Reykjum

       Eyjólfur Gunnarsson, Bálkastöðum II

Félag sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu

       Gunnar Kristjánsson, Akri

       Björn Þ. Björnsson Ytra Hóli

       Jóhanna Pálmadóttir, formaður, Akri    

Félag sauðfjárbænda í Skagafirði

       Jóhann Már Jóhannsson, formaður, Keflavík                 

       Bjarni Egilsson, Hvalnesi

       Jóhannes Ríkharðsson, Brúnastöðum

Félag sauðfjárbænda við Eyjafjörð

       Þorsteinn Jónsson, Samkomugerði

       Birgir Arason, formaður,Auðnum

Félag sauðfjárbænda í S-Þingeyjarsýslu

       Hermann R. Herbertsson, formaður, Sigríðarstöðum

       Tryggvi Óskarsson, Þverá

       Snorri Kristjánsson, Stafni

Félag sauðfjárbænda á Fljótsdalshéraði og Fjörðum

       Magnús Karlsson, Hallbjarnarstöðum

       Sævar Sigbjarnarson, formaður, Rauðholti

       Benedikt Arnórsson, Hofteigi

Félag sauðfjárbænda á Suðurfjörðum

       Lárus Sigurðsson, Gilsá

Félag sauðfjárbænda í V-Skaftafellsýslu

       Sólrún Ólafsdóttir, Kirkjubæjarklaustri II          

       Margrét Einarsdóttir, Mörk

Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu

       Baldur Björnsson, formaður, Fitjamýri

       Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti

       Stefán Sigurðsson, Meiri Tungu

Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu

       Árni Þorvaldsson, formaður, Bíldsfelli

       Halldór Guðmundsson, Nautaflötum

       Ásgeir Gestsson, Kaldbak

       Haraldur Sveinsson, Hrafnkelsstöðum

Fulltrúar Búnaðarsambanda

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Austurlands

       Þórður Pálsson, Refsstað I       

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Snæfellinga

       Sigurður Helgason, Hraunholtum          

       Gísli Þórðarson, Mýrdal           

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi N-Þingeyinga

       Einar Ófeigur Björnsson, Lóni

       Jóhannes Sigfússon, Gunnarsstöðum

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi A-Skaftfellinga

       Helgi Sigurgeirsson, Fagurhólsmýri

       Bjarni Sigjónsson, Fornustekkjum

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Vestfjarða

       Þorvaldur H. Þórðarson, Stað

       Björn Birkisson, Botni

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Kjalarnesþings

       Guðbrandur Hannesson, Hækingsdal

6. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

     a) Jóhann Már Jóhannsson kvað samtökin bera keim stéttarinnar og vera rekin með tapi. Hann spurði hvar kjarabaráttan væri og kvaðst vonast til að heyra í fundarmönnum síðar á fundinum. Hann benti á að 100.000 krónur hefðu verið notaðar til kaupa á blaðinu Frey, til að senda það bændum sem ekki keyptu það fyrir. Þetta væri óþarfi.

     b) Jóhannes Sigfússon þakkaði framkomnar skýrslur. Hann sagði að staða sauðfjárbúanna væri vonlaus, sama hver bústærðin væri og hversu vel þau væru rekin. Þau væru að éta sig upp. Verulega fjármuni vantaði inn í greinina. Hann benti á að ýmsir sláturleyfishafar hafa fært niður greiðslur fyrir einstaka verðflokka og flutt þannig fé frá bændum til sín. Hann benti á að matvæli hafa hækkað um allt að 8% en landbúnaðarvörur hins vegar staðið í stað. Hann vildi að gerð yrði úttekt á þróun stuðnings við landbúnað á liðnum árum.

     c) Þorvaldur  Þórðarson þakkaði erindi og skýrslur. Hann gerði innanlandsmarkaðinn að umtalsefni. Sala væri að dragast saman og deyfð væri í sauðfjárbændum og forsvarsmönnum þeirra. Eina vonin væri sögð útflutningur.  Finnst ástandið þannig að LS verði að stórauka átak í markaðsmálum innanlands. Bændur treysti afurðasölum of vel til að markaðssetja lambakjöt, en sömu aðilar eru einnig að selja aðrar kjötvörur. Sölumenn þeirra leggi ekki sérstaka áherslu á lambakjötið. Gerði að umtalsefni auglýsingar með kjötafurðir; svín, naut og lamb.  Fjárhagur LS sé ekki góður og útvega þurfi fjármagn í markaðsstarfið. Vildi ráða einn mann í að sinna eingöngu innanlandsmarkaði. Vildi safna upplýsingum um markaðsstarf á lambakjöti erlendis og nýta þá þekkingu.

     d) Sigurður Helgason þakkaði framkomin erindi og skýrslu stjórnar.  Hann varpaði fram þeirri spurningu til Ásbjarnar hvort fylgt hafi verið eftir framlagðri viðmiðunarverðskrá samtakanna og hvað vitað væri um hvernig henni hafi verið framfylgt hjá afurðastöðvunum. Hann taldi kjarabaráttuna ekki hafa skilað tilætluðum árangri, að kjör stéttarinnar væru alls óviðunandi og fari versnandi.  Verið væri að éta upp eignirnar.  Þá hafi opinber stuðningur minnkað um 50%.  Hann sagði að frá 1991 hafi vísitala kaupmáttar bænda minnkað um 19,9% en á sama tíma hafi kjör launþega batnað um 14,8%. Þannig hafi munurinn aukist um 34,7%. Fróðlegt væri að vita hver munurinn hafi verið árið 1991. Þá kynnti hann hugmynd um fyrirkomulag á beingreiðslum sem færi minnkandi með aukinni bústærð.  Búsetustyrkur á 200 ærgildi, beingreiðslur jafnar á 200-500 ærgildi en fari síðan stiglækkandi að 800 ærgildum.

     e) Sólrún Ólafsdóttir kvaðst ánægð með að stjórnarmenn fengju fundargerðir sendar heim og vill fá úrdrátt í Bændablaðið. Sláturleyfishafa vantar meiri hvata til að selja lambakjöt. Ef þeir ekki selja, eykst útflutningur og laun bænda lækka.  Finnst hörmulegt ef fækka þarf bændum, því þá fer grundvöllurinn fyrir þjónustu og öðru slíku. Bændur verða að geta sótt vinnu annað. Stjórnvöld verða sjálf að ákveða hvaða byggðir á að leggja í eyði.  SS sendi afreikning í haust vegna 90 lamba sem gerði 330-400 þús. með 4% álagi fyrir vistvæna framleiðslu. Kvaðst þurfa 2,2 bíla af lömbum í áburð, flutning á áburði og rúlluplast og 1 bíl af lömbum í eignaskatta, fasteignaskatta og búnaðargjald. Afurðaverð væri alltof lágt og því verði neytendur að borga hærra verð strax.

     f) Ásbjörn Sigurgeirsson skýrði halla samtakanna. Hann sagði að ekki hefði náðst fullt samkomulag við sláturleyfishafa varðandi verðlagningu á R4. Það hafi þó komið honum á óvart hversu margir þeirra hafi lækkað verð á R4 og þá ekki síður á kjöti af fullorðnu fé.

g) Aðalsteinn Jónsson greindi frá því að aðalfundur LS 1998 hafi kostað krónur 1,2 milljónir á móti krónum 600.000 árið áður. Kjarabaráttan er fyrst og fremst fólgin í því að skapa fyrirtækjum, þ.e. sauðfjárbúum, rekstrarskilyrði. Kröfur um verðhækkanir á afurðum bænda þýða sölusamdrátt innanlands og þar með aukinn útflutning. Fundurinn er haldinn í Reykjavík vegna erfiðleika á vetrarsamgöngum. Svaraði fyrirspurn um deyfð hjá forsvarsmönnum sauðfjárbænda varðandi sölu kindakjöts innanlands.  Benti á að unnið væri í þessum málum. Starfsmaður er í ½ starfi hjá LS og ½ hjá Markaðsráði kindakjöts. Nefndi hann góð störf starfsmanns. Sauðfjárbændur selja kjötið á haustin og eiga vöruna þar með ekki lengur.  Afurðastöðvar verður að hvetja með einhverjum ráðum en þar vantar meiri kraft til að koma kjötinu á markað. SS hefur öðrum fremur tekið þátt í sameiginlegum  auglýsingum Markaðsráðs og sláturleyfishafa. Höfuðverkefni þessa fundar að breyta og bæta stöðu bænda, ef hægt er.

h) Þórður Pálsson kvaðst telja að verulega aukið fjármagn vanti til greinarinnar.  Hann taldi að á liðnum árum hefði verið rétt að hækka kjötið ögn ár hvert, fremur en að halda verðinu að heita má óbreyttu um árabil. Ekki sé þó skynsamlegt að stórhækka verðið á afurðunum á innanlandsmarkaði þar sem það myndi koma síðar í bakið á bændum sjálfum. Hann kvað þörf á að notfæra sér sérstöðu og gæði kjötsins, t.d. varðandi Omega-3 fitusýrur o.fl. til að styrkja markaðsstöðuna.

     Hann sagði að vaxta- og geymslugjöld þau sem sláturleyfishafar fái dugi ekki til að standa undir vaxta- og geymslukostnaði þeirra.

i) Hörður Hjartarson vakti athygli á gæruhluta skýrslunnar. Hann talaði um skrýtna viðskiptahætti og spurði formanninn af hverju 50 þús. gærur voru ekki handbærar í haust til sölu og af hverju skinnaiðnaðurinn gat borgað 175 kr. fyrir gæruna þegar það verð bauðst annars staðar frá.

j) Aðalsteinn Jónsson  svaraði Herði varðandi gærumálið og kvaðst óttast að þarna væri í gangi einhver hráskinnaleikur og e.t.v. væri rétt að segja sem minnst um málið. Hugsanlegt væri þó að hækkandi heimsmarkaðsverð á gærum ætti einhvern hlut að máli og því hefði skinnaiðnaðurinn hér getað hækkað sitt verð. Hann kvað enn alveg óvíst hvernig sláturleyfishafar ætla almennt að gera upp gærurnar við bændur.

7. Atkvæðagreiðsla um ársreikning LS fyrir árið 1998

     Ársreikningar voru bornir undir atkvæði og samþykktir samhljóða (þeir fylgja með fundargögnum).

8. Skipan nefnda

     Fundarstjóri kynnti tillögu stjórnar að nefndaskipan og var hún samþykkt eftirfarandi án athugasemda. Fundarstjórum er heimilt að velja sér nefndir til að starfa með:

     Markaðs- og kjaranefnd                                       Fjárhagsnefnd

     Lárus Sigurðsson, formaður                          Gunnar Kristjánsson, formaður

     Gísli Þórðarson                                                        Tryggvi Óskarsson

     Einar Ófeigur Björnsson                                           Þorsteinn Jónsson

     María G. Líndal

     Björn Birkisson                                           

     Jóhann Már Jóhannsson

     Þórður Pálsson

     Hermann Herbertsson                                              Fagráðsnefnd

     Sævar Sigbjarnarson                                                Skúli Kristjónsson, formaður

     Árni Þorvaldsson                                                     Guðbrandur Björnsson

     Guðrún Stefánsdóttir                                                Björn Björnsson

     Finnbogi Leifsson                                                     Jóhannes Ríkharðsson

                                                                                    Stefán Sigurðsson

                                                                                    Haraldur Sveinsson

                                                                                    Bjarni Sigjónsson

     Allsherjarnefnd                                                      Framleiðslunefnd

     Þorsteinn Sigurjónsson, formaður                             Sólrún Ólafsdóttir, formaður

     Hörður Hjartarson                                                   Sigurgeir Sigurgeirsson

     Jóhanna Pálmadóttir                                     Guðbrandur Sverrisson

     Snorri Kristjánsson                                                  Birgir Arason

     Baldur Björnsson                                                     Magnús Karlsson

     Benedikt Arnórsson                                     Ásgeir Gestsson

     Sigurður Jónsson                                                      Sigurður Helgason

     Jóhannes Sigfússon                                      Eyjólfur Gunnarsson

     Umhverfisnefnd

     Guðbrandur Hannesson, formaður

     Guðrún Kristjánsdóttir

     Bjarni Egilsson                                                         Kjörbréf

     Margrét Einarsdóttir                                     Guðbrandur Hannesson

     Halldór Guðmundsson                                              Haraldur Sveinsson

     Þorvaldur Þórðarson                                               Sigurður Jónsson

     Helgi Sigurgeirsson

9. Erindi

     a) Afkoma sauðfjárbúa 1994-1998 skv. úrtaki sömu búa í búreikningum

     Ketill A. Hannesson

     b) Kjötmat kindakjöts og samræming þess haustið 1999

     Sigurður Örn Hansson 

     c) Evrópuverkefni um lambakjöt

     Guðjón Þorkelsson

     Umræður:

     Sigurður Helgason spurðist fyrir um frávik í mati hjá kjötmatsmönnum.

     Guðrún Stefánsdóttir spurði hvort kjötmatið skilaði sér til neytenda.

     Lárus Sigurðsson gerði grein fyrir frávikum kjötmats í sláturhúsum og sagði að ef óskað væri yfirmats á kjöti félli allur kostnaður af því á yfirmatsbeiðanda.

     Sigurður Jónsson spurði um nýja kjötmatið. Af hverju var tækifærið ekki notað til að breyta söluflokkun skrokkanna, en þar er enn verið að nota gamlar merkingar.

     Þórður Pálsson svaraði fyrirspurnum um söluflokka og sagði að kjötmatið skilaði sér til neytenda þegar þeir kaupa í heilum skrokkum.  Hann kvað mest spurt um fituflokka en minna um vaxtarlag og þyngd.  Sumir kaupendur vilja þó ákveðna stærðarflokka, t.d. hangikjötsframleiðendur sem vilja staðlaðar stærðir.

     Sigurður Örn Hansson svaraði spurningum varðandi það hvort kjötmatið skilaði sér alla leið til neytenda. Kjötmat er lýsing á kjöti en verðlagning er eitthvað allt annað. Á þá góður og slæmur ræktandi að fá sama verð? (innskot Guðrúnar).  Hægt að beita yfirmati en ekki gert nema að takmörkuðu leyti og hefur lítið verið notað hér. Kostnaður við yfirmat fellur á bóndann eða þann sem biður um matið, nema kostnaður vegna yfirmatsmanns, sem ríkið ber. Erfitt er að framkvæma yfirmat á kindakjöti vegna þess að kjötkælar eru tæmdir að morgni og kjötið þar með farið. Hann kvaðst ekki vilja ræða mál einstakra sláturleyfishafa. Svaraði Sigurði Jónssyni varðandi söluflokkun kjöts sem fylgir enn gamla matinu og finnst miður að nýja matið skuli ekki vera notað við sölu og dreifingu á kjötinu.

     Guðjón Þorkelsson kvað kjötmatið vera óháð verðlagningunni en eiga að vera lýsandi fyrir skrokkana og nýtast þannig í ræktuninni. Verðlagningin sé svo annað mál sem byggjast eigi á verðmæti vörunnar í augum kaupenda.

     d) Drög að nýjum sauðfjársamningi

     Ari Teitsson

Ari gerði grein fyrir því vegarnesti sem samninganefndin fékk frá aðalfundi LS á Sauðárkróki sl. ár. Nú er stefnt að 7 ára samningstíma og farið er fram á aukinn stuðning frá því sem nú er. Þá verði ullarniðurgreiðslur nánast í óbreyttri mynd svo og vaxta- og geymslugjald. Hann gerði grein fyrir afgreiðslu Búnaðarþings 1999 á tillögu aðalfundar LS frá 1998.

    

Hann sagði að óvissa um ráðherradóm landbúnaðarráðherra í upphafi árs hefði tafið mjög viðræður um nýjan búvörusamning og lítið hefði þokast í u.þ.b. ár.

     Hann kvað nokkuð gott samkomulag ríkja um að tryggja þurfi framtíð greinarinnar. Þar með þarf að tryggja viðunandi tekjur sauðfjárbænda. Það verði að gera með faglegri þróun í búrekstri, þróun í búskaparháttum og vöruþróun. Leiða megi líkur að því að bæta megi rekstur víða og framleiða enn betri vöru en nú er. Auka þurfi áætlanagerð. Greininni er nauðsyn að viðhalda markaðinum í landinu. Tryggja þarf þjóðarsátt um greinina og inn í þá þjóðarsátt fléttast málefni sem lúta að landnýtingu og landvörslu. Bændur þurfa að vera gæslumenn landsins og ná sátt um greiðslu fyrir það hlutverk. Hvað varðar stöðu samningamála þá mætti sem oftar segja að samningar séu á viðkvæmu stigi og takmarkað hægt að segja til um einstakar fjárhæðir. Hann sýndi þó vinnuplagg sem verið hefur til umfjöllunar og sýnir hugmyndir um breytingar á hlutfallslegri skiptingu greiðslna, á einstaka þætti, á árunum 2001-2007. Sýnir einnig hugmyndir um gæðastýringu og framleiðslutengingu og þá fjármuni sem varið yrði til uppkaupa. Varðandi gæðastýringu er átt við einstaklingsmerkingu alls sauðfjár, viðurkennt kynbóta- og afurðaskýrsluhald á búunum og skráningu helstu þátta í meðferðarferli fjárins allan ársins hring. Vottorð um fóðrun og ástand búfjár við vorskoðun. Lyfjagjöf verði skráð, áburðaráætlanir verði gerðar og öll notkun áburðar verði skráð á grundvelli túnkorta. Einnig verði uppskera og nýting hennar skráð. Loks verði landnýting skráð og mat gert á ástandi afrétta og heimalands.

     Framlagðar hugmyndir um framleiðslutengingu beingreiðslna hafa vakið ugg hjá fulltrúum ríkisins um framleiðsluaukningu. Rætt hefur verið um að setja einhverja varnagla, t.d. þann að öll framleiðsluaukning býlis, umfram t.d. 3% á ári, fari í útflutning, en á þessari hugmynd hafa fundist ýmsir vankantar sem skoða þarf betur.

    

Fundurinn þarf að skoða þessi mál öll og reyna að finna leið sem um næst sæmileg sátt.

10. Fyrirspurnir og umræður

Sigurður Jónsson vill fara allt aðrar leiðir en tillögur Ara segja til um. Hann spurði hvaðan vandinn vegna útflutnings kæmi. Er hann frá þeim sem seldu réttinn, en framleiða þó enn? Finnst samninganefnd það eðlileg þróun að kollvarpa alltaf fyrri samningum við gerð nýrra? Af hverju vilja menn stuðning við útflutning þegar framleiðslan stefnir í óefni með útflutningi? Til hvers var verið að kaupa menn út, sem svo framleiða enn þann dag í dag? Á enn að fara sömu leið? Sagðist geta sagt Ara allt um sína búskaparhætti sl. 10 ár, en telur vafasamt að aukið skýrsluhald gefi hærra verð fyrir afurðirnar. Hvers vegna leyfa mönnum að fjölga um 3% þegar lögmálið virðist vera að salan dragist árlega saman? Finnst bragðdauft hvernig við auglýsum heilnæma vöru þegar litið er til kampýlóbakter og salmonellu hjá öðrum kjötgreinum. Of mikið tómlæti varðandi markaðsmálin.

     Sævar Sigbjarnarson ræddi vandamál vegna seinagangs í mati á beitarþoli og vandamál vegna óljósra landamerkja og taldi að hraða þyrfti úrbótum.  Hann sagðist ánægður með að sjá að fallið virðist vera frá því að gera beingreiðslur að söluvöru þar sem honum líki ekki verslun með ríkisstyrki.  Hann lagði til að tekið yrði upp eins konar áunnið greiðslumark eftir ákveðnum reglum, sem byggðu t.d. á 3 síðustu árum. Hann kvaðst telja að þeir bændur sem selt hafa kvótann, en hafa getað framleitt alla tíð síðan, hljóti að hafa bæði góðar framleiðsluaðstæður og kunna að búa.  Þá varaði hann við því að tengja um of beingreiðslurnar við kröfur um mikið skýrsluhald.

     María G. Líndal spurði Ara Teitsson hvort hann hefði upplýsingar um það hversu stór hluti af 15 bestu sauðfjárbúum væru í 0,7 reglunni og hversu stór hluti þeirra 15 verstu væru búnir að selja greiðslumarkið.  Hún kvaðst vinna búreikninga fyrir bændur og að þeir skiptust í þrjá hópa.  Þá sem væru í 0,7 reglunni og hefðu einhver laun, þá sem hefðu greiðslumark, framleiddu umfram og þraukuðu, og síðan þá sem selt hafa greiðslumark sitt og væru á fullu í annarri atvinnu sér til framfæris.

     Guðrún Stefánsdóttir þakkaði Ara fyrir yfirlitið um samninginn. Gluggaði í skýrsluna um útflutning á dilkakjöti og fjallaði um hana. Spurði hvort ekki mætti nýta fiskútflytjendur til að selja kjötið?

Talaði um byggðaskýrsluna og nefndi að þar væri að finna ástæðu tekjuleysis bænda, þ.e. minnkandi stuðning ríkisins. Ræddi síðan um einstakar greinar skýrslunnar. Telur uppkaupin og endurúthlutun á 9-10 ærgildum óviðunandi, meira þurfi að koma til að bæta afkomuna. 

    

Vill að framleitt verði upp í styrkinn, þ.e. ekki 60-70% heldur verði a.m.k. framleitt upp í 90% af styrk. Vill frjálst framsal til að hægt verði að hagræða. Vill að ályktanir sauðfjárbænda séu virtar. Hvar á að meta landgæði og hvernig á að gera það? Er það hægt í dag? En eftir 2 ár?

     Þórður Pálsson flutti tillögur sauðfjárbænda í Vopnafirði. Ljóst er að afkoma sauðfjárbænda er í mikilli hættu. Það þarf a.m.k. 10-15% af niðurskurði ríkisstuðnings að koma til baka inn í greinina. Núverandi beingreiðslur mega ekki lækka og ef til kæmi meiri stuðningur þá ætti hann að fara á framleitt kíló.  Uppkaup ríkisins verði að fjármagna með sérstöku fjármagni og sparnaði við það í beingreiðslum ætti að endurúthluta til þeirra bænda sem eftir verða. Frjáls viðskipti með greiðslumark - hvernig geta tekjulág bú keypt rétt til að bæta stöðuna? Mikill meirihluti bænda í Vopnafirði vill ekki gefa viðskipti með greiðslumark frjáls.  Bendir á að margir sem seldu öðrum bændum beingreiðslurnar framleiði enn. Þeir ættu ekki að eiga rétt á endurúthlutun. 0,7 reglan getur ekki gengið til lengdar.

     Guðbrandur Sverrisson þakkaði Ara fyrir að opna umræðuna um nýja samninginn en sagðist ekki vera honum í öllu sammála. Hann kvaðst telja að mun vitlegra væri að kaupa hlutabréf í OZ eða Íslenskri erfðagreiningu, heldur en kaupa peningagreiðslur í formi beingreiðslna. Reynslan væri sú að greiðslumarks- og kvótakaup mörkuðust af getu stuðningsgreina til kaupanna fremur en getu greinarinnar sjálfrar. Hann notaði tækifærið og afþakkaði tilboð um opnun á sölu á greiðslumarki. Það auðveldaði t.d. ekki kynslóðaskipti. Nóg væri fyrir nýja bændur að kaupa jarðir, bú, bústofn og vélar, þó þeir þurfi ekki að kaupa peningagreiðslurnar í þokkabót. Hann kvaðst óttast framleiðslusprengingu með framleiðslutengingu beingreiðsla. Nú þegar væru teikn á lofti um framleiðsluaukningu. Hann kvað líklegra til árangurs að leita leiða til að taka helstu agnúana af gamla samningnum, heldur en að kollvarpa honum.

     Jóhannes Sigfússon taldi ræðu landbúnaðarráðherra umtalsefni. Á mörgum  svæðum á landinu er sauðfjárrækt best til þess fallin að halda landinu í byggð og er einnig ódýrasta leiðin.  Ef stjórnvöld meina eitthvað með byggðastefnu sinni þá nýta þau sauðfjárræktina henni til framdráttar.

     Nýliðun verður að geta átt sér stað. Framleiðslutenging jafnar aðstöðu milli manna en sé hún í of miklum mæli þá kallar hún á mjög aukna framleiðslu.  Framleiðslutenging hlýtur að kalla á hömlur. Ef uppkaup verða frjáls núna verða það aðrir, en þeir sem þurfa á því að halda að stækka, sem kaupa. Vill uppkaup ríkisins og endurúthlutun til þeirra sem hafa verið að framleiða sl. þrjú ár alveg eins og til hinna sem hafa greiðslumark. Varast að falsa markaði, t.d. með sumarslátrun því aukagreiðslur fyrir hana koma ekki frá neytendum heldur úr sjóðum bænda. Ræddi um að góð ull væri framleidd með ærnum tilkostnaði án þess að verðið sé nokkuð sérstakt. Eru íslenskir bændur í stöðu til að drepa niður innlenda áburðarframleiðslu með því að kaupa innfluttan áburð? Varar við kaupum á innfluttum áburði.

     Jóhann Már Jóhannsson tók undir orð Jóhannesar varðandi áburðarkaupin.  Einnig kvaðst hann sammála málflutningi Guðrúnar Stefánsdóttur.  Hann lýsti sig sammála aukinni gæðastýringu. Hann kvað það hafa verið slys á síðasta aðalfundi að óska eftir framleiðslutengingu beingreiðslna og það væri því ekki gott vegarnesti fyrir samninganefndina. Hann taldi það vantraust á búfræðimenntun í landinu að bændur gætu ekki reiknað út hversu hátt gjald þeir megi greiða fyrir greiðslumark til að hafa af því hag. Hann kvaðst í nánast öllu sammála tillögum Byggðastofnunar varðandi sauðfjárræktina. Hann kvað það kaldhæðnislegt að aumasta stétt landsins ætti að halda uppi byggðastefnu stjórnvalda. Hann taldi ekki mögulegt að halda öllum bændum inni og bæta jafnframt kjör þeirra. Taldi að bændum yrði að fækka og að það væri best gert með frjálsum viðskiptum með greiðslumarkið. Kvaðst treysta bændum vel til þeirra viðskipta.

     Bjarni Egilsson fjallaði um áhersluatriði hins tilvonandi samnings.  Landbúnaðarráðherra og formaður BÍ gáfu ákveðinn tón. Frjáls sala greiðslumarks mun flýta fyrir þróun til hagsbóta fyrir sauðfjárbændur. Finnst að landbúnaðarráðherra útiloki þessa leið, sem hljóti að þýða loforð um aukna peninga inn í greinina. Glaður yfir því að Ari segist ekki hafa áhyggjur af peningamálum ef uppkaupaleiðin verði farin. Ef mikið fjármagn fer til uppkaupa hlýtur greinin að taka því, miðað við núverandi stöðu. Erfitt að setja reglur sem allir reyna svo að komast framhjá. Ekki svigrúm til aukinnar framleiðslu, því er framleiðsluhvati neikvæður. Greinin hefur ekki efni á að hafna auknu fjármagni.  Vill að á seinni hluta samningstímans verði opnað fyrir frjálsa sölu.  Beingreiðslumarkshafar ættu fyrst og fremst að eiga rétt á auknum beingreiðslum því þeir hafa tapað þeim, þ.e. í vísitöluskriði undanfarin ár. Þeir sem seldu en "gleymdu" að hætta framleiðslu ættu ekki að fá neitt. Gæðastýring er framtíðin. Öll vottun hlýtur að flytja sauðfjárrækt fram á við.

     Eyjólfur Gunnarsson sagði að ef menn ná ekki tökum á sölu- og markaðsmálum skipti litlu máli hvað stendur í nýjum búvörusamningi, því allt verði hrunið eftir 2-3 ár. Sagði að aðrar kjötgreinar hefðu fulltrúa inni í stærri verslunum sem verðu hag sinna umbjóðenda. Hann kvaðst telja að arðsemiskrafa þeirra sem lagt hefðu fjármagn í stóru sláturhúsin kæmi í veg fyrir að þau gætu greitt bændum meira en litlu húsin. Hann kvaðst telja rangt að hafa útflutningsskyldu á sumarslátrun fyrr en eftir 20. ágúst og vaxandi til 15. september og síðan aftur þrepaða niður eftir 1. nóvember.

     Aðalsteinn Jónsson minnti á fréttatíma fyrir 2-3 kvöldum síðan þar sem rætt var um að kvótaverð á mjólk væri allt að 205 kr/lítra. Hafa sauðfjárbú efni á að bíða 2-6 ár eftir tekjum af því greiðslumarki sem þau myndu kaupa? Eða efni á að leggja beingreiðslur inn í bankakerfið til að greiða niður skuldir? 1% af framleiðslunni eru hjá greiðslumarkslausum bændum. Vill meina að verið sé að endurbæta núverandi samning. Vill að samninganefndin fái gott og traust bakland frá aðalfundinum til að vinna eftir. Tók heilshugar undir hjá Jóhanni Má og fleirum um að styðja Áburðarverksmiðjuna hf. Tillagan um framleiðslutengingu á síðasta aðalfundi LS getur ekki verið "slys" ef engin mótbókun hefur átt sér stað frá fulltrúum sauðfjárbænda.

     Guðbrandur Hannesson varaði við að sett yrði inn ákvæði í nýjan samning sem kölluðu á aukinn tilkostnað við framleiðsluna. Gæta yrði vel að öllu í sambandi við mat á gróðurfarsástandi jarða. Benti á alvarleg mistök í því sambandi þar sem ofbeit að vori væri kennt um slæmt ástand gróðurs á landi sem er undir snjó fram á sumar. Hann bað menn að tala ekki eins og þeir hafi næga fjármuni til greiðslumarkskaupa.

     Hörður Hjartarson byrjaði á að varpa fram spurningum til Ara. Spyr hvort hann geti upplýst fundinn um það hversu mikið fjármagn fer í uppkaup, hvert er verð fyrir ærgildið? Hvað fækkar um marga greiðslumarkshafa? Hvað verður til úthlutunar? Ef ungur bóndi kaupir jörð með greiðslumarki verður þá greiðslumarkið ekki verðlagt? Sannfærður um frjálsa sölu og vill alls ekki framleiðslutengingu. Þeir sem seldu eiga rétt á að kaupa aftur.

     Margrét Einarsdóttir fylgdi úr hlaði framlögðum tillögum frá Félagi sauðfjárbænda í Vestur-Skaftafellssýslu.

     Þorvaldur Þórðarson hvetur samninganefnd bænda og þennan fund til að fara vel yfir öll mál varðandi gerð nýs samnings. Telur óskynsamlegt að greiða jafnt á hvert kg einhvern stuðning. Vill að stuðningurinn fari beint til bænda en ekki til sláturleyfishafa. Varðandi vistvæna vottun/gæðastýringu er spurning hvort hægt væri að ávinna sér punkta sem greitt væri eftir, eða hvernig verður umbun vegna hennar háttað? Óttast að framleiðslutenging sé framleiðsluhvetjandi.

     Gunnar Kristjánsson spurði hvort kominn væri einhver staðall sem kallaðist gæðastýrð framleiðsla.  Hann varpaði fram þeirri spurningu hvort ekki væri rétt að minnka vægi beingreiðslna á innlagt magn í tillögum Ara, en auka þess í stað vægi gæðastýringarþáttarins.

     Sigurður Helgason segir marga hafa talað í kross. Gerði að umtalsefni tvær skýrslur Byggðastofnunar. Viljum ekki meiri vinnutíma heldur hærri laun og telur að þau eigi ekki að koma með auknu vinnuálagi. Hvaða bændur á að "drepa"? Ari nefndi skussana - sauðfjárræktin á að standa undir byggðunum. Ef fækka á bændum ætti að gera það með því að taka ákveðið landssvæði en ekki hengja alla hægt og jafnt. Allir sammála um offramleiðslu í kindakjöti. Ef greiðslur verða frjálsar hljóta þær að fara sömu leið og mjólkin. Varar við að einhverjir séu útilokaðir frá næsta samningi.

     Finnbogi Leifsson "Ég er vottaður og vistvænn

                                                og verulega lífrænn.

                                                Ég er gæðastýrður greiðslumarkshafi

                                                á því getur ekki leikið vafi."

     Guðbrandur Sverrisson sagði frá grein sem birt var í Viðskiptablaðinu, þar sem fullyrt var að opinber stuðningur væri 396.000 krónur á rollu, eins og það var orðað. Kvaðst síðan ekki vilja lesa meira upp úr greininni því hún væri svo vitlaus.  Sagðist hafa haft samband við greinarhöfund til að fá skýringar en fátt hafi verið um svör. Þá gerði hann grein fyrir umræðum sem urðu á síðasta aðalfundi LS varðandi framleiðslutengingu beingreiðslna og las upp ummæli manna úr fundargerð.

     Jóhanni Má Jóhannssyni þykir formaðurinn verða hörundssár og hvumpinn ef hann segi eitthvað. Er málflutningur manna lúalegur ef þeir eru ekki á sama máli og formaðurinn? Ef meirihluti Markaðs- og kjaranefndar fer í bága við vilja formanns eru fundarmenn þá lúalegir?

     Þorsteinn Sigurjónsson sagði að sama væri hversu vel bændur semja því allt muni hrynja ef ekki nást betri tök á sölu- og markaðsmálunum. Ýmis teikn væru á lofti um sölusamdrátt sauðfjárafurða. Seljendur annarra kjötvara fylgja sinni afurð alla leið til neytenda og kindakjötsframleiðendur verða að svara á sömu nótum.

     Hann kvaðst vel sáttur við þær hugmyndir að samningi sem kynntir voru á fundinum. Þá væri útflutningur nauðsynlegur og hafa yrði allstöðugt magn á boðstólum til að anna honum.

     Sólrún Ólafsdóttir Upp á nefið Alli stökk

                                                eins og ekkert væri,

                                                þegar út úr Jóa hrökk

                                                "Ég kaupa vil þig kæri."

     Sigurður Jónsson bað um orðið vegna þvælu formannsins um að fundarmenn væru að vinna á bak við samninganefnd bænda. Talaði um að fyrsti formaður LS, sem nú rekur hótel, hefði talað um mismun á markaðssetningu mjólkur og kjöts. Mjólkurkælir væri alltaf fylltur vikulega og hann reglulega spurður hvaða vín hann vildi en honum hins vegar aldrei verið boðið kjöt.

     Hvað áburðarmál snertir var hann sannfærður um það, í fyrra, að Ísafold væri slæmur kostur og ekki væri hann skárri nú. Taldi kjör Áburðarverksmiðjunnar hf. verri til bænda nú en hjá fyrri eigendum. Vill meina að áburður hafi hækkað um 2%. Tæpti á samningarnefndarmálum. Er svo gáttaður að honum verður orðfall. Vill meina að 44% af innleggi verði greitt á framleiðslu verði farið að núverandi tillögum. Getur með engu móti séð að hægt sé að gera tillögur um skiptingu peningaköku sem ekki er vitað hversu stór verður. Skussarnir gera minnstar kröfur um afkomu og því engar líkur á að þeir hætti á undan öðrum. Vill meina að tillögur þær sem fram hafa komið hér séu of mikið stökk út í óvissuna.

     Sigurgeir Sigurgeirsson kvað þurfa meiri umræður um nýliðun í greininni og hvernig hún komi út í nýjum samningi. Sagði að sér litist nokkuð vel á þær hugmyndir sem sýndar hafa verið varðandi nýjan samning. Þá væru hugmyndir um gæðastýringu að sínu skapi. Hann kvað umræðuna um að þörf sé á að huga að markaðsmálunum orðna allgamla og spyr af hverju ekkert gerist. Þá vék hann að áburðarmálum og sagði það hafa verið mikla dirfsku hjá Áburðarverksmiðjunni hf. að hafa gengið fram hjá kaupfélögunum en margir bændur fylgdu þeim fast. Hann kvaðst vera mikill kaupfélagsmaður, af svo ungum manni að vera, og ætla að bíða til vors með áburðarkaupin í þeirri von að verðið falli, ella kaupa Ísafoldaráburð.

     Ari Teitsson svaraði fyrirspurnum. Áburðaverksmiðjan hf. ber af sér að hafa lokað á kaupfélögin. Gerði þeim tilboð en hefur engin svör fengið. Nokkuð til í því að ekki sé nóg að gert í markaðsmálum, en benti þó á góð störf Kristínar Kalmansdóttur. Krónum 25 millj. veitt til auglýsingastarfs af fé sauðfjárbænda. 

Hefur velt vöngum yfir því hvort skynsamlegt væri að framleiðslutengdar greiðslur á hvert kg yrðu misháar eftir árstíma og jafnvel gæðaflokkum. 1% sauðfjárbænda eru án greiðslumarks. Er það þess virði að útiloka þá frá nýjum samningi?  Gæðastýring hugsuð til þess að bóndinn framleiði vottaða gæðavöru í sátt við landið. Framleiðslutengingu fylgja ákveðin vandamál vegna hættu á aukinni framleiðslu. Hvernig ætti að útfæra hömlur á framleiðslu í samningnum? Þær hugmyndir sem upp hafa komið þar að lútandi geta orkað tvímælis.

    

Hvers vegna á að styðja útflutning? Innlendi markaðurinn er þröngur. Um 1.500 tonn þarf að selja erlendis. Ef skera á niður sem þessu nemur verður það of stór biti að kyngja fyrir sauðfjárbændur. Spurning hvort það fær betri hljómgrunn hjá þjóðinni að greiða ákveðið verð á hvert framleitt kg, t.d. 50 kr. Veit ekki hversu margir eru í 0,7 reglunni á bestu búum, en þau bú eru þó með meira greiðslumark en önnur.

     Er 0,7 reglan viðvarandi ástand? Þau bú eru með 250-350 kr. á hvert framleitt kg í beingreiðslur. Virðist þó vera það sem til þarf. Spurning hversu margar leiðir á að fara til að styðja við sumarslátrun. Er gott að hafa þær margar? Hverju eru menn að tapa í magni við að slátra léttari lömbum og á þá að bæta þeim það tap?

     Umræða er að þyngjast í þjóðfélaginu um nýtingu sauðfjárbænda á löndum sem þeir eiga ekki rétt á að nýta.

    

Til uppkaupa á að nota kr. x til að kaupa upp 10% af framleiðslunni.  Til dæmis 16 þús. á ærgildi. Við jarðakaup er eðlilegt að verðið ráðist af þeim tekjumöguleikum sem eru í fjárfestingunni. Varðandi markaðssetningu erlendis þá er ekki mikill ávinningur fólginn í því að eiga samskipti við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Iceland Seafood hefur aðstoðað við kjötútflutning á Hornafirði, en hann er samt að dragast saman. Gæðastaðlar eru ekki til, en horft er til gæðastaðla Norðmanna.

     Erna Bjarnadóttir birti þrjár greinar í Morgunblaðinu vegna rangfærslna Viðskiptablaðsins um stuðning í sauðfjárrækt.

     Þakkaði hann fundarmönnum málefnalega umræðu.

11. Mál lögð fram og vísað til nefnda

     Engar athugasemdir komu fram.

    

Fundi frestað, kl. 23:00, til miðvikudagsins 8. desember nk., kl. 13:00.

Miðvikudagur 8. desember 1999

Framhald fundar hófst kl. 14.08

12. Afgreiðsla mála

Aðalsteinn Jónsson kvaddi sér hljóðs og fór yfir liði í ársreikningi síðasta árs.

          Ásbjörn Sigurgeirsson tók undir orð Aðalsteins.

          Björn Birkisson greindi frá breytingu á fundargerð gærdagsins.

Allsherjar- og félagsmálanefnd

Flutningsmaður:  Jóhanna Pálmadóttir

Fréttir LS í Bændablaðinu

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík dagana     7. - 8. desember 1999, samþykkir að beina því til stjórnar LS að samtökin komi fréttum til bænda af starfi sínu og öðru því er sauðfjárbændur varðar í Bændablaðið. Mætti t.d. hugsa sér að LS kæmi sér upp blaðhaus (fréttahaus) með merki samtakanna. Væri þá hægt að ganga að fréttum er stéttina varðar á einum stað í blaðinu.

          Samþykkt samhljóða.

Allsherjar- og félagsmálanefnd

Flutningsmaður:  Þorsteinn Sigurjónsson

Girðing með öllum stofnbrautum

Aðalfundur LS áréttar mikilvægi þess að gert verði átak í að girða með öllum stofnbrautum og fjárveitingar verði auknar í því sambandi. Jafnframt tekur fundurinn undir ályktun Búnaðarþings 1999 um áfangaskýrslu Vegsvæðanefndar um leiðir til að halda búfé frá helstu þjóðvegum landsins.

           

Umræður:

Gísli Þórðarson benti á misræmi það sem er á greiðslum til bænda og verktaka, en  verktakarnir fá mun hærri greiðslur fyrir sín verk.

Guðrún Stefánsdóttir sagði að girðingar við þjóðveg falli alfarið á bónda og finnst að Vegagerðin eiga að girða og síðan viðhalda girðingunum á sinn kostnað.

Sigurður Jónsson gerði grein fyrir því að lagfæringa væri að vænta varðandi bæði atriðin sem nefnd voru af Gísla Þórðarsyni og Guðrúnu Stefánsdóttur hér að ofan.

Jóhann Már Jóhannsson benti á að girðingar væru teknar út af Vegagerðinni og sveitarfélagi og kostnaður skiptist hlutfallslega milli bónda og Vegagerðar.

Samþykkt samhljóða.

Umhverfisnefnd

Flutningsmaður: Guðbrandur Hannesson

Umhverfissjónarmið í nýjum sauðfjársamningi

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, mælir með eftirfarandi vinnutilhögun við mat á landnýtingu vegna gæðastýringar:

Bóndi sem sækir um að fá gæðastýrða vottun á sauðfjárframleiðslu sína þarf að sýna fram á að á beitilandi því er sauðféð gengur sé gróður í jafnvægi eða framför.

Til að sýna fram á að beitiland sé nóg og búfé sem á því gengur raski ekki eðlilegu jafnvægi í gróðurfari, skal bóndi leggja fram tiltæk gögn, svo sem gróðurfarslega úttekt eða vottorð þar til bærra aðila.

Sé um afrétti eða annað sameiginlegt beitiland að ræða skulu þeir er það nýta, sveitarstjórn, afréttarmálafélag eða annar aðili, sem hefur umsjón með nýtingu beitilandsins, leggja fram greinargerð um beitarþol landsins og hlutdeild hvers bónda í nýtingu þess.

Þar sem umbóta er þörf getur bóndi, eða samtök um sameiginlegt beitiland, gert áætlun, staðfesta af viðurkenndum aðila, sem miðar að því að bæta gróðurfarslegt ástand beitilandsins, og getur hann þá fengið gæðastýrða vottun þegar framkvæmd þeirrar áætlunar er hafin.

Sérstök úrskuðarnefnd í hverju héraði, skipuð fulltrúum félagasamtaka bænda, Landgræðslu ríkisins og búfjáreftirlits búnaðarsambands skal úrskurða hverja umsókn.

Vilji bóndi ekki una úrskurði nefndarinnar getur hann skotið honum til landsúrskurðarnefndar.

Lögð er áhersla á að bændur beri ekki neinn verulegan kostnað af þessari framkvæmd og þeir fái aðstoð við umbætur, þar sem þeirra er þörf.

          Umræður:

Sigurður Helgason kom með breytingartillögu. Hann er sáttur við tillöguna en hnýtur um neðstu málsgrein hennar og vill breyta henni í ".....beri ekki kostnað af þessari framkvæmd....."

         

Þórður Pálsson lagði til í seinni helming síðustu setningar tillögunnar verði orðið "umbætur" fellt út.

Arnór Karlsson kvað þessa ályktun ekki hafa átt að innihalda refsireglur heldur vísa veg til umbóta og að aðstoð gæti verið í ýmsu formi.

          Guðbrandur Sverrisson varaði við því að gengið yrði of langt í eftirlitsiðnaðinum.  Benti á kostnað sem af því gæti hlotist og vísaði til vottorðafargans í smábátaútgerð sem víti til varnaðar.

          Björn Björnsson spurði hver ætti að gera gróðurfarslega úttekt og votta hana.  Einnig hver ætti að bera kostnaðinn.

          Arnór Karlsson taldi einhverja vottun vera nauðsynlega og að ekki nægði að notast við fullyrðingu viðkomandi bónda.

          Ásbjörn Sigurgeirsson kvað það ekki hafa verið ætlunin að koma með íþyngjandi ákvæði fyrir bændur. Ætlunin hafi ekki verið að færa sönnunarbyrðina á bóndann.

          Gunnar Kristjánsson benti á að sönnunarbyrði á gæðastýrðri framleiðslu hljóti að liggja á bóndanum.

          Bjarni Egilsson kvaðst sammála síðasta ræðumanni. Gróðurfar sé oftast í góðu lagi og því geti t.d. ráðunautar vottað það án mikils kostnaðar. Í vissum tilfellum séu þó mál flóknari og vafasamari og gera þurfi úttekt og jafnvel fara í umbætur.

Ásbjörn Sigurgeirsson vakti athygli á að sönnunarbyrði væri komin á bóndann.  Benti einnig á að verkefnið "Nytjaland" væri að hefjast og að í framtíðinni ætti að verða gagn af því.

          Sigurður Helgason tók undir að það væru bændur sem nú bæðu um mat á landi. Það gæti hins vegar farið svo að krafa yrði sett á þá síðar um að láta gera þetta mat. Þar með væri ekki lengur um þeirra ákvörðun að ræða.

Breytingartillagan í endanlegri mynd:

Umhverfissjónarmið í nýjum sauðfjársamningi

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, mælir með eftirfarandi vinnutilhögun við mat á landnýtingu vegna gæðastýringar:

Bóndi sem sækir um að fá gæðastýrða vottun á sauðfjárframleiðslu sína þarf að sýna fram á að á beitilandi því er sauðféð gengur sé gróður í jafnvægi eða framför.

Til að sýna fram á að beitiland sé nóg og búfé sem á því gengur raski ekki eðlilegu jafnvægi í gróðurfari, skal bóndi leggja fram tiltæk gögn, svo sem gróðurfarslega úttekt eða vottorð þar til bærra aðila.

Sé um afrétti eða annað sameiginlegt beitiland að ræða skulu þeir er það nýta, sveitarstjórn, afréttarmálafélag eða annar aðili, sem hefur umsjón með nýtingu beitilandsins, leggja fram greinargerð um beitarþol landsins og hlutdeild hvers bónda í nýtingu þess.

Þar sem umbóta er þörf getur bóndi, eða samtök um sameiginlegt beitiland, gert áætlun, staðfesta af viðurkenndum aðila, sem miðar að því að bæta gróðurfarslegt ástand beitilandsins, og getur hann þá fengið gæðastýrða vottun þegar framkvæmd þeirrar áætlunar er hafin.

Sérstök úrskuðarnefnd í hverju héraði, skipuð fulltrúum félagasamtaka bænda, Landgræðslu ríkisins og búfjáreftirlits búnaðarsambands skal úrskurða hverja umsókn.

Vilji bóndi ekki una úrskurði nefndarinnar getur hann skotið honum til landsúrskurðarnefndar.

Lögð er áhersla á að bændur beri ekki kostnað af þessari framkvæmd og að þeir fái aðstoð við umbætur, þar sem þeirra er þörf.

Breytingartillagan samþykkt með 13 atkv.  gegn 9.

Framleiðslunefnd

Flutningsmaður: Magnús Karlsson

Söluhvati kindakjöts innanlands

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, samþykkir að beina eftirfarandi ályktun til stjórnar LS og Landssamtaka sláturleyfishafa:

Fundurinn lýsir yfir áhyggjum yfir því að eftir að ákveðið var að taka upp útflutningsprósentu á kindakjöti eftir birgðastöðu kjöts um mitt sumar, vanti sláturleyfishafa söluhvata til að selja kjötið innanlands.

Þegar útflutningsprósenta á kindakjöt var ákveðin til að losna við kjötbirgðir, kom sú staða upp að ef lítið hafði selst af kjöti síðastliðið ár, þá hækkaði prósentan sjálfkrafa.

Innanlandsmarkaðurinn hefur alltaf gefið bændum besta verðið. Þar sem erfitt er að ná upp viðunandi verði fyrir íslenskt kjöt á mörkuðum erlendis, er þetta verulegt áhyggjuefni fyrir bændur.

Umræður:

Þorsteinn Sigurjónsson kvað botninn vanta í tillöguna og hún væri því marklítil.

Samþykkt samhljóða.

Framleiðslunefnd

Flutningsmaður: Ásgeir Gestsson

0,7 reglan

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, beinir því til fulltrúa LS í samninganefnd um nýjan búvörusamning að leggja niður 0,7 regluna, að ásetningshlutfall verði 80% og að aðlögunartími verði 1 ár.

Umræður:

Hörður Hjartarson lagði til að tillögunni yrði breytt þannig að 0,7 reglan verði lögð niður á samningstímanum og fellt verði út úr tillögunni orðið "ásetningshlutfallið".

Sigurður Jónsson varaði við stökkbreytingum með nýjum samningi. Má ekki halda í neitt í gamla samningum, verður að breyta því öllu? Á virkilega að keyra afurðamestu búin inn á meiri framleiðslu en þau hafa verið með?

Þorsteinn Kristjánsson gerði  tillögu um að aðlögunartími yrði 2 ár.

Sævar Sigbjarnarson taldi tillöguflutning koma á óvart og finnst undarlegt ef undanþága á að vera á hluta bænda til útflutnings. Leggur til að tillagan verði dregin til baka og að allir taki á sig sömu ábyrgð í þessu máli.

Bjarni Egilsson kvað tillöguna ættaða úr Skagafirði. Þar hafi hún ekki verið gerð með fullri samstöðu og lagði til að hún yrði dregin til baka.

Þórður Pálsson vildi ekki að tillagan yrði dregin til baka, heldur að hún yrði stytt í samræmi við það sem fram kom hér að ofan.

Sigurður Jónsson benti á að með niðurfellingu 0,7 reglunnar væri einnig verið að pressa á framleiðsluaukningu með 80% ásetningshlutfalli. Þetta skyti skökku við þegar offramleiðsla væri í greininni með fallandi útflutningsverði. Hann sagðist hafa heyrt að samninganefnd ríkisins vildi halda 0,7 reglunni inni.

Björn Björnsson kvað kröfu um 80% ásetningshlutfall vera algjört rugl ofan í 25% útflutning.

Samþykkt að vísa ályktuninni frá gegn 2 atkv.

Framleiðslunefnd

Flutningsmaður: Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson

Tvær ályktanir:

Vaxta- og geymslugjald

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, samþykkir að stefna beri að því, að innan tveggja ára verði vaxta- og geymslugjald einungis greitt út á það ærkjöt sem er grófbrytjað eða úrbeinað við slátrun. Mundi það auðvelda mjög sölu kjötsins.

og

Ullarniðurgreiðslur og vaxtagjald

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, beinir því til samningarnefndar nýs sauðfjársamnings að ekki verði breytt fyrirkomulagi á ullarniðurgreiðslum og vaxtagjaldi.

Umræður:

Þórður Pálsson kvað vaxta- og geymslugjald vera greitt til allra sláturleyfishafa.

Undir eins og það væri fellt niður myndi það lækka greiðslugetu húsanna um sömu fjárhæð. Hann kvað erfitt að fá mannskap til að úrbeina kjöt í sláturtíð, jafnvel ófært, og lagðist því gegn kröfu um grófbrytjun eða úrbeiningu ærkjöts í sláturtíð sem skilyrði til að fá vaxta- og geymslugjaldið greitt út. Þórður gerði ekki athugasemdir við tillögu þá sem ber heitið ullarniðurgreiðslur og vaxtagjald. Útskýrði geymslugjald (14 kr/kg).

Sigurður Jónsson taldi Þórð búin að segja allt sem hann sjálfur ætlaði að segja og benti til eigin afurðastöðvar sem bjó við sama vandamál við að fá kjötið unnið. Benti á að margt af starfsfólki væri sveitafólk sem hefði atvinnutækifæri af þessari vinnu. Benti einnig á ullarmatið og atvinnutækifærin þar. Vill málið um vaxta- og geymslugjald út til frávísunar.

Jóhannes Sigfússon kvað tillöguna um að gera kröfu um grófbrytjun og úrbeiningu ærkjöts óheppilega. Hún hefði kostnaðarhækkanir í för með sér, næði hún fram að ganga.

Ásgeir Gestsson taldi mun auðveldara að úrbeina kjötið ferskt og taldi rétt að flytja inn Pólverja til verksins.

Bjarni Egilsson benti á þá leið sem Skagfirðingar hafa beitt, að lengja sláturhúsaár og slátra ákveðnum skammti á mun lengri tíma.

Sigurgeir S. Sigurgeirsson bar fram tillögu um að málinu um vaxta og geymslugjald yrði vísað frá.  Jafnframt bar hann upp tillögu að breytingu á málinu um ullarniðurgreiðslur og vaxtagjald, þannig að síðasta málsgreinin endaði "ullarniðurgreiðslum né vaxta- og geymslugjaldi".

Tillögu um Vaxta- og geymslugjald vísað frá

 Samþ. samhljóða.

Breytingartillagan um ullarniðurgreiðslur og vaxtagjald í endanlegri mynd:

Ullarniðurgreiðslur og vaxta- og geymslugjald

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, beinir því til samningarnefndar nýs sauðfjársamnings að ekki verði breytt fyrirkomulagi á ullarniðurgreiðslum né vaxta- og geymslugjaldi.

Breytingartillagan samþykkt samhljóða.

Framleiðslunefnd

Flutningsmaður:  Guðbrandur Sverrisson

Tímasetning ákvörðunar útflutningshlutfalls o.fl.

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, samþykkir að ákvörðun um útflutningshlutfall liggi fyrir í síðasta lagi 1. júní ár hvert .

Umræður:

Þórður Pálsson benti á atriði sem tengjast tillögunni og sagði að ef þetta væri ákveðið fyrir 1. júní þá þyrfti að vera til staðar heimild til að endurskoða hlutfallið til lækkunar síðar á árinu, t.d. 1. september. Margt getur breyst í markaðsmálum á þremur mánuðum.

Aðalsteinn Jónsson kom með tillögu um að í stað "samþykki" í tillögunni verði sett "leggur til".

Þorvaldur H. Þórðarson nefndi að samþykkt hefði verið tillaga um söluhvata á kindakjöti. Álítur að með þessu máli sé verið að draga enn meira úr söluhvatanum með því að ákveða útflutningshlutfall fyrr en nú er.

Sigurður Jónsson taldi það söluhvata innanlands að þurfa að flytja út. Fyrir útflutninginn fái sláturhúsin minna. Því styðji hann framkomna tillögu.

Björn Björnsson taldi þetta ekki rökrétt, því framundan væri þriggja mánaða grillsala sumarsins og finnst ekki liggja á að ákveða útflutning svo fljótt.

Sólrún Ólafsdóttir kvað tillögu frá sláturleyfishöfum hafa legið fyrir nefndinni um að ákvörðun um útflutningshlutfall lægi fyrir strax eftir sláturtíð. Hún taldi að betra væri fyrir alla að ákvarða útflutningshlutfallið tímanlega.

Þórður Pálsson vildi útfæra tillöguna og bæta við hana: "verði sala meiri en áætlað er þá beri að lækka útflutningshlutfallið."

Sólrún Ólafsdóttir lagði tillöguna fram með breytingum.

Guðbrandur Sverrisson taldi vafasamt að skilyrða lækkun útflutningsprósentu, frá  ákvörðun 1. júní, þó að um sölubata yrði að ræða. Betra væri að hafa lækkunarheimild.

Breytingartillaga borin upp og samþykkt með 15 atkv. gegn 13

Kaffihlé.

Fundarstjóri tók afgreiðslu breytingartillögu um tímasetningu ákvörðunar útflutningshlutfalls o.fl.

Breytingatilllagan í endanlegri mynd:

Tímasetning ákvörðunar útflutningshlutfalls o.fl.

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, leggur til að ákvörðun um útflutningshlutfall liggi fyrir í síðasta lagi 1. júní ár hvert. Verði söluaukning umfram áætlun síðustu 3 mánuði verðlagsársins lækki útflutningsprósentan sem því nemur.

Breytingartillagan samþykkt með 2 mótatkvæðum

Framleiðslunefnd

Flutningsmaður:  Sigurður Helgason

Kjötflokkar

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, samþykkir að beina því til Landssambands sláturleyfishafa að þeir noti nýja kjötmatið í gegnum allan söluferil kjötsins. 

Samþykkt með 1 mótatkvæði

Markaðs- og kjaranefnd

Flutningsmaður: Lárus Sigurðsson

Nýr sauðfjársamningur

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, samþykkir að beina eftirfarandi áhersluatriðum til samninganefndar bænda um nýjan búvörusamning:

•1.                  Fundurinn telur lífsnauðsynlegt fyrir íslenska sauðfjárbændur að stóraukið viðbótarfjármagn fáist til greinarinnar með nýjum búvörusamningi, sbr. afkomu- og lífskjaranefndarskýrslur.

•2.                  Fundurinn leggur áherslu á að nýr samningur verði a.m.k. til 7 ára, vísitölutryggður.

•3.                  Fundurinn leggur áherslu á að um uppkaup ríkisins á beingreiðslurétti verði að ræða. Uppkaup geti hafist haustið 2000 og verði lokið í árslok 2002.

•4.                  Lagt er til að engin viðskipti, hvorki uppkaup ríkisins, né framsal verði árið 2003.

•5.                  Frá ársbyrjun 2004 verði heimilt frjálst framsal milli bænda á lögbýlum.

•6.                  Lagt er til að núverandi beingreiðslur haldist óbreyttar að því tilskildu að liður 1, hér að ofan, gangi eftir.

•7.                  Viðbótarfjármagn í samningi, þ.m.t. fjármagn sem inn kemur við uppkaup, verði nýtt til eftirfarandi:

•a)                  til jöfnunar mismunar á greiðslumarki og framleiðsluverðmæti, m.v. framleiðslu tveggja af þremur síðustu ára.

•b)                  til gæðastýringar í sauðfjárrækt .

•c)                  Framleiðsluviðmiðun skv. lið a) verði endurreiknuð eftir 3 ár.

Gísli Þórðarson og Sævar Sigbjarnarson hafa fyrirvara um samþykki við 5. og 6. lið.

Lagði Lárus áherslu á að nefndarálitið byggðist á mörgum málamiðlunum nefndarmanna.

Einar Ófeigur Björnsson gerði grein fyrir afstöðu sinni til einstakra liða ályktunarinnar. Hann sagðist vera óánægður en lagði áherslu á að ályktunin væri málamiðlun allra óánægðra í nefndinni. Vonaði að fundurinn samþykkti þetta óbreytt svo að samninganefndin hefði bakland til að vinna eftir.

Sævar Sigbjarnarson þakkaði samstarfið í nefndinni og sagði að niðurstaðan væri málamiðlun sem menn þar hefðu sættst á.

Sólrún Ólafsdóttir þakkaði skammlausa vinnu nefndarinnar. Vildi þó bæta við d) lið "vegna nýliðunar í sauðfjárbúskap".

Guðbrandur Sverrisson saknaði þess að ekkert væri um stuðning til nýliðunar í ályktuninni. Hann taldi einnig vafasamt að hafa inni ákvæði um að bæta á þá sem fjölguðu og ykju þar með framleiðslu.

Gunnar Kristjánsson skilur 6. liðinn þannig að beingreiðslur - uppkaup verði ekki framleiðslutengd en uppkaup og aukið fjármagn fari í framleiðslutenginguna. Spyr hvort þetta sé réttur skilningur.

Jóhann Már Jóhannsson kvað samningsvilja nefndarmanna hafa verið mikinn þrátt fyrir mikinn ágreining. Lagði til að ályktunin yrði samþykkt óbreytt.

Þórður Pálsson tekur undir við aðra fundarmenn og vonar að þetta gangi í gegn. Telur nauðsynlegt að fjármagn komi til nýliðunar. Taldi að þriggja ára viðmiðun yrði ekki framleiðsluhvetjandi nema að mjög litlu leyti. Styður það sem Sólrún lagði til um lið d).

Bjarni Egilsson lagði til að í engu yrði hróflað í tillögu nefndarinnar. Hann sagði að engin ástæða væri til að örva nýliðun í grein sem ekki gæti boðið ásættanleg kjör. Með bættum rekstrarskilyrðum yrði nýliðun auðvelduð.

Aðalsteinn Jónsson gerði að umtalsefni grein í DV í dag þar sem m.a. er viðtal við Gunnar á Hýrumel. Hefur setið samningarnefndarfund í dag. Skynjar stöðuna þannig að hann vill breyta tillögunni á eftirfarandi hátt:

Breytingatillaga:

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, samþykkir að beina eftirfarandi áhersluatriðum til samninganefndar bænda um nýjan búvörusamning:

•8.                  Fundurinn telur lífsnauðsynlegt fyrir íslenska sauðfjárbændur að aukið fjármagn fáist til greinarinnar með nýjum búvörusamningi, sbr. afkomu- og lífskjaranefndarskýrslur.

•9.                  Fundurinn leggur áherslu á að nýr samningur verði a.m.k. til 7 ára, vísitölutryggður.

•10.              Fundurinn leggur áherslu á að um uppkaup ríkisins á beingreiðslurétti verði að ræða. Uppkaup geti hafist haustið 2000, keypt verði allt að 15% af heildargreiðslumarki.

•11.              Lagt er til að þegar 15% markinu er náð verði skoðaður möguleiki á frjálsri sölu eða áframhaldandi uppkaupum.

•12.              Fjármagn samningsins verði nýtt með eftirfarandi hætti:

•d)                  samkvæmt núverandi greiðslumarki.

•e)                  til gæðastýringar í sauðfjárrækt .

•f)                    til jöfnunar mismunar á greiðlumarki og framleiðsluverðmæti m.v. framleiðslu tveggja af þremur síðustu ára.

Sigurður Helgason kvað nýju tillöguna kollvarpa málinu ef samþykkt yrði. Hann spurði hver afstaða þeirra bænda sem seldu sinn beingreiðslurétt yrði ef tillaga nefndarinnar næði fram að ganga.

Sigurður Jónsson þakkaði nefndarmönnum vel unnin störf og taldi það afrek sem nefndin kom sér saman um. Vill að það sé vegarnesti fyrir samninganefnd að það sé vilji fundarins að reyna að greiða fyrir nýliðun. Fannst Aðalsteinn leggja til breytingartillögu sína sem hálfgerða hótun við fundinn og að það væri hún sem ætti að samþykkja en ekki sú sem nefndin kom sér saman um.

Lárus Sigurðsson lagði til að málinu væri aftur vísað til nefndar.

Allsherjar- og félagsmálanefnd

Flutningsmaður:  Jóhannes Sigfússon

Atkvæðagreiðsla bænda vegna nýs sauðfjársamnings

Allsherjar- og félagsmálanefnd vísar til samþykkis aðalfundar LS frá Sauðárkróki 1998, um hvaða reglur skuli gilda við atkvæðagreiðslu um væntanlegan búvörusamning, og vill að sú samþykkt standi óbreytt en hún var svohljóðandi:

Aðalfundur LS haldinn á Sauðárkróki, dagana 17. - 18. ágúst 1998, samþykkir að svohljóðandi reglur gildi við atkvæðagreiðslu meðal sauðfjárbænda sem væntanlega verður efnt til vegna næsta samnings um framleiðslu sauðfjárafurða:

Atkvæðisrétt skulu hafa allir skráðir félagar í Bændasamtökum Íslands, hvaða aðildarfélagi sem þeir tilheyra, að því tilskildu að þeir reki sauðfjárbú á lögbýli og eigi a.m.k. 50 kindur á vetrarfóðrum.

Þá leggur nefndin til að atkvæðagreiðsla verði skrifleg og atkvæðaseðill sendur hverju og einu í pósti. Stjórn LS skal láta gera kjörskrá vegna kosninganna í samráði við BÍ.

Nefndin telur að vel geti farið saman að greiða atkvæði um verkaskiptasamning BÍ og LS. Við þá atkvæðagreiðslu verði atkvæðisréttur af hálfu LS bundinn við aðild að samtökunum.

Jóhannes fór síðan með eftirfarandi vísu:

                        Ekki skyldi undra neinn

                        þó eitthvað hvessi á fundum.

                        Óvarlega Aðalsteinn

                        umgengst konur stundum.

Umræður:

Ari Teitsson benti á að eðlilegt mætti telja að allir sauðfjárbændur, en ekki aðeins félagsmenn í LS, fái að taka afstöðu til verkaskiptasamnings.

Þorsteinn Sigurjónsson kvað nefndina telja að ljúka bæri gerð samnings um verkaskiptingu áður en hann yrði borinn undir félagsmenn.

Guðbrandur Hannesson kvaðst telja að hann sem fulltrúi búnaðarsambands væri fulltrúi allra sauðfjárbænda á sambandssvæðinu, þótt fjáreign væri innan við viðmiðunartölu samþykkta LS.

Sigurður Jónsson kvaðst telja að allir sauðfjárbændur eigi að hafa atkvæðisrétt um samning.

Eyjólfur Gunnarsson, fór yfir þau ákvæði í samþykktum Bændasamtaka Íslands sem varða atkvæðisrétt.

Jóhannes Gunnarsson bar fram, fyrir hönd nefndarinnar, breytingatillögu við síðustu málsgrein tillögunnar, sem var samþykkt samhljóða.

Breytingatillaga í endanlegri mynd:

Atkvæðagreiðsla bænda vegna nýs sauðfjársamnings

Allsherjar- og félagsmálanefnd vísar til samþykkis aðalfundar LS frá Sauðárkróki 1998, um hvaða reglur skuli gilda við atkvæðagreiðslu um væntanlegan búvörusamning, og vill að sú samþykkt standi óbreytt en hún var svohljóðandi:

Aðalfundur LS haldinn á Sauðárkróki, dagana 17. - 18. ágúst 1998, samþykkir að svohljóðandi reglur gildi við atkvæðagreiðslu meðal sauðfjárbænda sem væntanlega verður efnt til vegna næsta samnings um framleiðslu sauðfjárafurða:

Atkvæðisrétt skulu hafa allir skráðir félagar í Bændasamtökum Íslands, hvaða aðildarfélagi sem þeir tilheyra, að því tilskildu að þeir reki sauðfjárbú á lögbýli og eigi a.m.k. 50 kindur á vetrarfóðrum.

Þá leggur nefndin til að atkvæðagreiðsla verði skrifleg og atkvæðaseðill sendur hverju og einu í pósti. Stjórn LS skal láta gera kjörskrá vegna kosninganna í samráði við BÍ.

Nefndin telur að vel geti farið saman að greiða atkvæði um verkaskiptasamning BÍ og LS og nýjan sauðfjársamning.

Breytingatillagan samþykkt samhljóða

Allsherjar- og félagsmálanefnd

Flutningsmaður: Sigurður Jónsson

Drög að reglugerð um vörslu búfjár

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, beinir því til Landbúnaðarráðuneytisins að gera eftirfarandi breytingar á drögum að reglugerð um vörslu búfjár:

Þar sem stendur "Lausaganga er þegar búfé getur gengið á annars manns landi í óleyfi" komi "Lausaganga er þegar búfé gengur laust utan vörslugirðingar".

Þar sem stendur "Lausagöngubann er bann sem sveitarstjórn samþykkir fyrir sveitarfélagið í heild eða afmarkaða hluta þess til að koma í veg fyrir lausagöngu og búfjár" verði næst síðasta orðið "og" fellt niður.

6. gr.

Kröfur um vörslu.

A og B verði endurskrifað eftirfarandi:

•A.                 Fjárheld girðing

•1.      Netgirðing með 5 strengja vírneti, einum gaddavírsstreng neðan við netið og minnst einum ofan við það. Hæð girðingar verði 1,10 m. Jarðfastir tré-, járn- eða plaststaurar skulu verð með mest 4 m millibili. Þegar notaðar eru renglur skal mesta bil á milli jarðfastra staura vera 9 m enda sé það bil á milli rengla mest 3 m.

•2.      Gaddavírsgirðing með 6 gaddavírsstrengjum. Hæð girðingar skal vera 1,10 m. Jarðfastir tré-, járn- eða plaststaurar skulu vera með mest 4 m millibili. Þegar notaðar eru renglur skal mesta bil á milli jarðfastra staura vera 9 m enda sé bil á milli rengla mest 3 m.

•3.      Rafgirðing háspennt og varanleg með 5 þanvírsstrengjum. Hæð girðingar skal vera 0,9 m. Jarðfastir tréstaurar, þar með úr harðviði, og plaststaurar, skulu vera með mest 10 m millibili. Þegar notaðar eru renglur skal mesta bil á milli jarðfastra staura vera 50 m enda sé bil á milli rengla mest 10 m. Um uppsetningu, búnað og frágang rafgirðingar fer að öðru leyti eftir reglugerð nr. 121/1999 um breytingu á reglugerð nr. 264/1971 um raforkuvirki, með áorðnum breytingum.

•4.      Girðingar úr ýmsu efni s.s. tré, steinsteypu, stáli, áli, plasti, grjóti og torfi sem teljast fjárheldar að mati héraðsráðunauta eða landsráðunauta.

•5.      Skurðir með 3 eða fleiri gaddavírsstrengjum á skurðbakka. Um staura gilda sömu reglur og fyrir gaddavírsgirðingar.

•B.                  Hrossheld girðing

•1.                  Allar fjárheldar girðingar, sbr. ákvæði A. lið 6. gr. reglugerðar þessarar.

•2.                  Gaddavírsgirðing með 3 gaddavírsstrengjum. Hæð girðingarinnar skal vera 1,10 m. Jarðfastir tré-, járn- eða plaststaurar skulu vera með mest 4 m millibili. Þegar notaðar eru renglur skal mesta bil á milli jarðfastra staura vera 9 m enda sé bil á milli rengla mest 3 m.

•3.                  Rafgirðing háspennt og varanleg, með 2 þanvírsstrengjum. Hæð girðingarinnar skal vera 0,90 m. Jarðfastir tréstaurar þar með úr harðviði og plaststaurar, skulu vera með mest 10 m millibili. Þegar notaðar eru renglur skal mesta bil á milli jarðfastra staura vera 50m enda sé bil á milli rengla mest 10 m. Um uppsetningu, búnað og frágang rafgirðingar fer að öðru leyti eftir reglugerð nr. 121/1999 um breytingu á reglugerð nr. 264/1971 um raforkuvirki, með áorðnum breytingum.

•4.                  Skurðir með 2 eða fleiri gaddavírsstrengjum á skurðbakka. Um staura gilda sömu reglur og fyrir gaddavírsgirðingar.

Óheimilt er að nota gaddavír og háspenntar rafgirðingar umhverfis gerði eða hólf þar sem hross hafa ekki aðgang að beit sbr. ákvæði 2. gr. reglugerðar um aðbúnað og heilbrigðisskoðun hrossa nr. 132/1999.

Samþykkt samhljóða

Fagráðs- og sauðfjárræktarnefnd

Flutningsmaður: Haraldur Sveinsson

Gæðastýring

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, beinir því til stjórnar Landssamtaka sauðfjárbænda að sem mest af sauðfjárframleiðslu á Íslandi verði upprunavottuð og vistvæn í síðasta lagi í lok næsta samningatímabils.

Greinargerð:

Við slíkar aðgerðir fækkar sjálfkrafa þeim bændum sem stunda sauðfjárrækt án þess að eiga til þess jarðnæði (næg beitilönd og tún) eða hafi aðgang að slíku. Það verður með einhverjum hætti að taka á neikvæðri ímynd sauðfjárræktarinnar í hugum almennings. Það á t.d. ekki að eiga sér stað að bændur séu að reka fé sitt á örfoka land að vori, í trássi við Landgræðsluna af því að heimalönd eru ekki næg fyrir fjárfjöldann. Slíkt veldur reiði og neikvæðni í garð sauðfjárbænda almennt, líka þeirra sem stunda sauðfjárrækt í sátt við umhverfi sitt. Þá myndi slík vottun vera sauðfjárræktinni til framdráttar markaðslega séð þegar neytandinn veit hvaðan hann er að kaupa vöruna og styrkja stöðu sauðfjárbænda á erlendum mörkuðum, þar sem nú er vaxandi áhugi neytenda á að kaupa hreina, holla og gæðavottaða matvöru.

Umræður:

Guðbrandur Hannesson kvaðst algjörlega mótfallinn tillögunni. Vildi meira frjálsræði en þar er gert ráð fyrir og taldi að í núverandi stöðu ættu sauðfjárbændur ekki að taka á sig slíkar kvaðir.

Bjarni Egilsson benti á að ekki væri samræmi í andstöðu við tillögu þessa og þess að samþykkja greiðslur fyrir gæðastýrða framleiðslu og því væri best að sleppa meðfylgjandi greinargerð sem væri óþarflega stóryrt.

Gunnar Kristjánsson vildi ekki nota orðið "vistvæn" heldur "gæðastýrða framleiðslu".

Björn Björnsson kvaðst ekki hafa litið svo á að greinargerð þessi ætti að fylgja tillögunni.

Skúli Kristjónsson kvað greinargerð með tillögunni óþarfa.

Hörður Hjartarson kvað upphafsmenn tillögunnar hafa litið á greinargerðina sem vinnuplagg.

Sigurður Helgason vildi sleppa greinargerð tillögunnar og nota orðið "gæðastýrð" í stað "vistvæn" framleiðsla.

Haraldur Sveinsson féllst á þá málsmeðferð sem aðrir hér á undan.

Breytingartillaga sú "að vinna bæri að því" í stað "að sem mest af" og orðin "gæðastýrð eða vistvæn" komi inn, var samþykkt samhljóða. Einnig var samþykkt samhljóða að fella niður greinargerð tillögunnar.

Breytingartillaga í endanlegri mynd:

Gæðastýring

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, beinir því til stjórnar Landssamtaka sauðfjárbænda að vinna að því að  sem mest af sauðfjárframleiðslu á Íslandi verði upprunavottuð og gæðastýrð eða vistvæn í síðasta lagi í lok næsta samningatímabils.

Breytingatillagan samþykkt samhljóða

Fagráðsnefnd

Flutningsmaður: Skúli Kristjónsson

Gæðastýring

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, beinir því til Fagráðs í sauðfjárrækt að útfæra nýtt gæðastýringarkerfi í sauðfjárframleiðslu á grundvelli eftirfarandi þátta.  Sú vinna skal gerð í samráði við

samninganefnd um nýjan sauðfjársamning.

Einstaklingsmerking alls sauðfjár

Hér er átt við að allt fullorðið fé  sé auðkennt með litar, bæjar og sveitarfélagsmerkingu auk einstaklingsnúmers fyrir hverja á og annað ásett fé. Öll lömb séu með marki býlisins auk einstaklingsnúmers.

Viðurkennt kynbóta og afurðaskýrsluhald á búinu.

Hér er átt við að skýrsluhald búsins sé þannig upp sett að það geti verið grunnur að ræktunarstarfi innan bús bæði að því er varðar afurðasemi og kjötgæði. Auk þess skili skýrsluhaldið upplýsinum um heildarafurðir búsins.

                                                                                                                                               

Skráning helstu þátta í meðferðarferli fjárins.  ( smölun, haustbeit, húsvist, rúningur, vorbeit, flutningur, sleppt á fjall osfrv.).

Hér er gert ráð fyrir að hægt sé að rekja hvernig staðið hefur verið að umönnun og vörslu fjárins allan ársins hring.

Vottorð um fóðrun og ástand við vorskoðun.

Hér er gert ráð fyrir að forðagæslan framkvæmi það sem í raun hefur átt að gerast á hverju vori en víða misbrestur á að framkvæmt væri.

Skráning á lyfjagjöf.

            Hér er átt við að skráð sé lyfjanotkun þannig að unnt sé að sýna fram á

hvaða einstaklingar hafa fengið hvaða lyf og jafnframt að sú skráning sé í samræmi við afhent lyf eða notuð af dýralækni.

Gerð áburðaráætlun og öll áburðargjöf skráð á grundvelli túnkorta. Uppskerumagn og nýting skráð.

Gert er ráð fyrir að hægt sé að sjá áburðarnotkun og uppskeru hverrar túnspildu og fá þannig yfirlit yfir alla jarðrækt búsins.

 Skráning á fóðurefnum og fóðrun

Reiknað er með að skráð sé magn og notkunartími alls kjarnfóðurs og steinefna, en einnig sé skráð heygjöf svo rekja megi allan fóðrunarferil.

Upplýsinga um stærð gæði og nýtingu beitilands aflað, þær metnar og skráðar.

Staðfest að nægilegt beitiland sé tiltækt fyrir allt búfé á býlinu.

Skúli Kristjónsson greindi frá því að nefndin hefði fengið Sigurð Sigurðsson, dýralækni, til viðræðna og gerði nokkra grein fyrir ályktuninni.

Samþykkt samhljóða

Framleiðslunefnd

Flutningsmaður:  Sólrún Ólafsdóttir

Snyrting kjötskrokka

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999,  fagnar því átaki sem gert var sl. haust til að samræma kjötmat yfir allt landið. Jafnframt leggur fundurinn áherslu á að því starfi verði haldið áfram svo matið verði sem jafnast í öllum sláturhúsum.

Einnig beinir fundurinn því til kjötmatsformanns að gefnar verði út verklýsingar um snyrtingu og sundurhlutun, sbr. reglugerð nr. 484, frá 28. júlí 1998.

Samþykkt samhljóða

Framleiðslunefnd

Flutningsmaður:  Birgir Arason

Gærumál

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, samþykkir að stefna beri að útflutningi á einhverjum hluta á óunnum gærum. Einnig verður þess gætt að gærur verði ávallt seldar þar sem markaðurinn býður best verð.

Umræður:

Þorsteinn Sigurjónsson taldi tillöguna ekki nógu markvissa varðandi það magn sem flytja ætti út og bjóða þyrfti það magn á heimsmarkaði.

Samþykkt með einu mótatkvæði

Umhverfisnefnd

Flutningsmaður: Guðbrandur Hannesson

Reglur varðandi lífræna vottun

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, leggur til að fundið verði fjármagn til að styrkja bændur sem vilja og geta stundað lífrænt vottaða sauðfjárframleiðslu, enda sé þetta nýtt fjármagn inn í greinina.

Samþykkt samhljóða

Markaðs- og kjaranefnd

Flutningsmaður: Lárus Sigurðsson

Seinni ályktun

Nýr sauðfjársamningur

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, samþykkir að beina eftirfarandi áhersluatriðum til samninganefndar bænda um nýjan búvörusamning:

•1.      Fundurinn telur lífsnauðsynlegt fyrir íslenska sauðfjárbændur að stóraukið fjármagn fáist til greinarinnar með nýjum búvörusamningi, sbr. afkomu- og lífskjaranefndarskýrslur.

•2.      Fundurinn leggur áherslu á að nýr samningur verði a.m.k. til 7 ára, vísitölutryggður.

•3.      Fundurinn leggur áherslu á að um uppkaup ríkisins á beingreiðslurétti verði að ræða. Uppkaup geti hafist haustið 2000, keypt verði allt að 15% af heildargreiðslumarki.

•4.      Lagt er til að þegar 15% markinu er náð, þó ekki seinna en árið 2004, verði heimil frjáls viðskipti með beingreiðslur milli bænda á lögbýlum.

•5.      Lagt er til að núverandi beingreiðslur haldist óbreyttar að því tilskildu að liður 1, hér að ofan, gangi eftir.

•6.      Viðbótarfjármagn í samningi, þ.m.t. fjármagn sem inn kemur við uppkaup, verði nýtt til eftirfarandi:

•a)      til jöfnunar mismunar á greiðslumarki og framleiðsluverðmæti, m.v. framleiðslu tveggja af þremur síðustu ára.

•b)      til gæðastýringar í sauðfjárrækt og nýliðunar.

•c)      Framleiðsluviðmiðun skv. lið a) verði endurreiknuð eftir 3 ár.

Gísli Þórðarson og Sævar Sigbjarnarson hafa fyrirvara um samþykki við 4. og 5. lið.

Umræður:

Aðalsteinn Jónsson dró til baka breytingartillögu samninganefndarmanna LS.

Guðrún Stefánsdóttir samþykkir ályktunina með fyrirvara um gerræðisleg vinnubrögð formanns.

María Líndal kvaðst, eins og Guðrún, skrifa undir ályktunina með fyrirvara um gerræðisleg vinnubrögð formanns.

Þorsteini Sigurjónssyni finnst tillagan ekki hafa breyst mikið. Margir bændur komnir á þann aldur að þeir fari að hætta. Þeir sem selja greiðslumark fara með peningana út úr greininni og hinir sem eftir eru verða einskis bættari. Hætta ekki á að núverandi greiðslumark verði ekki skert við kaup. Allt annað mál ef verslað hefði verið með pakkann strax.

Bjarni Sigjónsson kvaðst helst halda að hann væri á fundi ávísanaþega en ekki á aðalfundi sauðfjárbænda. Hann kvað alla sauðfjárframleiðendur eiga jafnan rétt á greiðslum hvort sem þeir væru núverandi greiðslumarkshafar eða ekki. Hann myndi aldrei samþykkja þessa tillögu.

Birgir Arason spyr hvað á að gera við lið 5 ef liður 1 gengur ekki eftir. Biður einhvern um svör. Mikið talað um að nýliðun geti ekki átt sér stað nema með því að setja beingreiðslur á framleiðsluna. Vill meina að ef það er gert sé verið að afhausa þá sem nú er með beingreiðslur. Búið að draga menn á asnaeyrunum í gegn um tíðina. Kom inn á gylliboð tengd útflutningi. Bóndi með 100 ærgildi byggði fjárhús. Framleiðir 300 upp í útflutning og fær ekkert fyrir. Segir sögu af bónda á Norðurlandi. 25% útflutningsskylda og verðfall á gærum er slíkur niðurskurður að rétt er hægt að draga fram lífið. Er þó með 350 ær og beingreiðslur. Engin leið fyrir ungt fólk að búa og skulda jafnframt 20-30 milljónir. Eina leiðin er að fækka bændum í þessari grein. Þeir sem eiga að gera það eru forystumenn bænda. Bóndi með 200 þús. mjólkurlítra á ekki að vera með neina sauðfjárframleiðslu. Þetta verður ekki lífvænleg grein fyrr en henni hefur verið lokað og fáir menn framleiða það sem landinn étur.

Árni Þorvaldsson sagði að ályktunin væru drög til að leggja fyrir samninganefndina. Vafalaust yrði um einhverjar breytingar að ræða við samningagerðina. Hann taldi það vera stuðning við nýliðun að fá greiðslu til jöfnunar mismunar á greiðslumarki og framleiðsluverðmæti. Nefndin hafi þurft að sætta ólík sjónarmið og taldi að það hafa tekist að mörgu leyti og rétt að samþykkja ályktunina.

Þórður Pálsson tók við af Lárusi Sigurðssyni, sem þurfti að taka flug, sem framsögumaður ályktunarinnar. Hann svaraði næstsíðasta ræðumanni. Þjónar litlum tilgangi að dreifa beingreiðslum til annarra en þeirra sem greinina stunda. Benti á að víst væri gert ráð fyrir nýliðun. Leggur ekki þann skilning í nýliðun að verið sé að taka upp búskap á jörð þar sem búskapur er aflagður, heldur að verið sé að taka við af öðrum.

Björn Björnsson spurði við hvaða vísitölu væri meiningin að miða í nýjum samningi. Þá spurði hann hversu mikið 15% væri í ærgildum. Þá spurði hann út í það hvað væri átt við með viðbótarfjármagni í lið 6.

Magnús Karlsson. Finnst að nefndin hafi "lent" sæmilega fyrir rest. Er á móti uppkaupum á rétti. Saknar að fá að vita hvernig menn ætla að fækka bændum. Vill reyna að ýta, í rólegheitum, við þessum "litlu" búum.

Þorvaldur H. Þórðarson taldi vont að sífellt væri verið að breyta um viðmiðanir og launa þeim sem fara á skjön við gildandi samninga. Hann bar fram breytingartillögu við lið 6a.

Gunnar Krisjánsson. Varðandi 6. lið b; vill storka úr "og nýliðunar" því hann heldur að við eigum eftir að lenda í vandræðum með þetta.

Ásgeir Gestsson var ekki sáttur við að menn gætu náð í greiðslumark með ýmsum hætti og selt síðan.

Þórður Pálsson svaraði fyrirspurnum um vísitölutryggingu. Það verði samninganefndar að ákveða það og eins það að viðbótarfjármagn sé aukalega. Það var ekki hlutverk nefndarinnar að útfæra leiðir að tillögum. Er á móti breytingartillögunni. Ver lið 6a með því að þetta sé eins lítil framleiðslutenging og hægt er. Benti loks á að ályktunin væri einungis vinnuplagg.

Margrét Einarsdóttir taldi lið 6a vera framleiðsluhvetjandi og fannst skírskotun til nýliðunar ekki vera nógu skýra. Þá lýsti hún efasemdum um að greiðslumark hefði átt, eða ætti, að geta gengið kaupum og sölum

Björn Björnsson. Ásgeir Gestsson sagði að þetta væru sníkjupeningar. Er hann búinn að gleyma að þeir væru helmingur af afurðaverði sem lækkaði um helming. Vill meina að allir sem ekki fara að samningnum hljóti alltaf umbun við hvern nýjan samning.

Guðrún Stefánsdóttir sagði að mikill ágreiningur hefði verið um 6. lið en farið hefði verið bil beggja til samkomulags. Lagði hún til að tillagan yrði samþykkt óbreytt.

Guðbrandur Sverrisson tekur undir það sem Björn og Þorvaldur hafa sagt. Samning eftir samning hafa verið tilmæli um að halda í við framleiðsluna. Til hvers var 0,7 reglan? Átti hún ekki að takmarka framleiðsluna? Tók dæmi um þá sem keyptu sig frá útflutningi með 0,7 reglunni og það væri þeim að "þakka" að hinir þurfi að flytja meira út. Finnst forkastanlegt að leggja alltaf til breytingar við hvern nýjan samning sem ganga þvert gegn þeim fyrri.

Sólrún Ólafsdóttir lagði til að umræðum yrði lokið og sagði að samningamenn væru nú búnir að heyra álit fundarins og vildi treysta þeim til þess að fara með málin.

Tryggvi Óskarsson vill meina að framleiðslan ætti að vera framleiðslutengd og telur tillögur Ara Teitssonar um samning vera það skársta sem fyrir fundinum liggur núna. Segir fundarumræðuna vera eins og fyrir 30 árum. Hvað halda fundarmenn að ólögleg heimaslátrun sé mikil? Vill meina að hún sé hluti af vandanum. Er þó ekki hissa þó menn séu í heimaslátrun vegna afkomunnar. Vill setja inn ákvæði í nýjan sauðfjársamning að heimaslátrunarmenn verði útilokaðir frá næsta samningi.

Breytingartillaga Þorvaldar H. Þórðarsonar borin upp og felld með 7 atkvæðum gegn 17.

Breytingartillaga um að fella út úr lið 6b ".... og nýliðunar" felld með meginþorra atkvæða gegn 7.

Einstakir liðir seinni ályktunarinnar bornir upp:

Liður 1.            Samþykkt samhljóða

Liður 2             Samþykkt með meginþorra atkvæða gegn 1

Liður 3             Samþykkt samhljóða

Liður 4             Samþykkt með 24 atkvæðum gegn 13

Liður 5             Samþykkt með 30 atkvæðum gegn 4

Liður 6             Samþykkt með meginþorra atkvæða gegn 1

Seinni ályktun í heild sinni samþykkt

með meginþorra atkvæða gegn 2

Fagráðsnefnd

Flutningsmaður: Skúli Kristjónsson

Örmerkingar

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, samþykkir að fela stjórn LS að kanna framboð á örmerkingum í sauðfé og eða láta hanna handhægar örmerkingar í fullorðið fé.

Samþykkt samhljóða

Fagráðsnefnd

Flutningsmaður:  Jóhannes Ríkharðsson

Kynbótamat sauðfjár

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, beinir því til stjórna BÍ og LS, að sjá til þess að lokið verði endurforritun afurðabókhaldsins Fjárvísar fyrir árslok 2000.  Séð verði til þess að í forritinu verði hægt að skrá ákveðin atriði varðandi gæðastýringu í sauðfjárbúskap.

            Samfara þessu verkefni verði unnið að gerð nýs kynbótamatskerfis fyrir sauðfé, þannig að þær upplýsingar sem nú þegar liggja fyrir um ræktun sauðfjár nýtist hverjum og einum ræktanda sem best.

Samþykkt samhljóða

Fagráðsnefnd

Flutningsmaður: Haraldur Sveinsson

Stuðningur Framleiðnisjóðs við afkvæmarannsóknir

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana 7. -8. desember 1999, þakkar og metur þann stuðning Framleiðnisjóðs við afkvæmarannsóknir sem nú hefur staðið í tvö ár.

Einnig óskar fundurinn eftir áframhaldandi stuðningi sjóðsins.

Samþykkt samhljóða

Fagráðsnefnd

Flutningsmaður: Haraldur Sveinsson

Lambhrútadagur

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, beinir því til stjórnar LS að fylgjast vel með niðurstöðum rannsóknarverkefnis um hrútabragð af dilkakjöti, sem er í framkvæmd nú í haust.

Niðurstöður rannsóknarinnar kunna að gefa tilefni til endurskoðunar á reglugerð um gæðamat og flokkun nr. 484/1998, í þá veru að endurskoða mætti dagsetningu svokallaðs lambhrútadags.

Haraldur greindi frá framkvæmd þess rannsóknarverkefnis um hrútabragð og lykt sem nú er í gangi á Suðurlandi.

Samþykkt samhljóða

Markaðsnefnd

Flutningsmaður:  Jóhann Már Jóhannsson

Útflutningur dilkakjöts

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, mælir með því að skoðaðar verði hugmyndir varðandi útflutning dilkakjöts sem fram koma í lið 2 í tillögum nefndar um útflutning dilkakjöts og í lið 2, bls. 23, í tillögum Byggðastofnunar. Tryggja verði þó að þeir sem bestum árangri ná í sölu dilkakjöts hafi forgang að því fjármagni sem til ráðstöfunar er.

Jóhann Már skýrði þær tvær tillögur sem vikið er að í þessari ályktun.

Samþykkt samhljóða

Markaðs- og kjaranefnd

Flutningsmaður: Jóhann Már Jóhannsson

Vöruþróun hjá afurða- og vinnslustöðvum

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, samþykkir að beina því til stjórnar LS að beita sér fyrir því að vöruþróun aukist hjá afurða- og vinnslustöðvum.

Tillaga kom frá Þórði Pálssyni um að bæta inn í seinustu setninguna og hún hljóði því "........ að vöruþróun í kindakjöti aukist hjá afurða- og vinnslustöðvum" og var sú breyting samþykkt samhljóða.

Breytingatillagan í endanlegri mynd:

Vöruþróun hjá afurða- og vinnslustöðvum

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, samþykkir að beina því til stjórnar LS að beita sér fyrir því að vöruþróun í kindakjöti aukist hjá afurða- og vinnslustöðvum.

Breytingatillagan samþykkt samhljóða

Markaðs og kjaranefnd        

Flutningsmaður:  Jóhann Már Jóhannsson

Lækkun gjalda

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, samþykkir að beina því til stjórnar Landssamtaka sauðfjárbænda að LS beiti sér fyrir því að  bændum verði endurgreitt tryggingargjald að hluta og raforkuverð lækki til landbúnaðar. Þá skorar fundurinn á stjórnvöld að leiðrétta nú þegar fasteignagjöld í dreifbýli þannig að þau verði lögð á fasteignamat eigna.

Greinargerð:

Það er hlálegt að bændur skuli þurfa að borga tryggingargjald af því litla sem þeir hafa út úr búskapnum, en hafa ekki út á það nein réttindi þegar tekjur þeirra dragast stöðugt saman. Þá eru fasteignagjöld úti á landi allt of há miðað við markaðsvirði eigna bænda. Það ætti að vera hægt að lækka raforku til íslenskrar atvinnustarfsemi (landbúnaðar) ekkert síður en til erlendrar stóriðju í landinu.

Umræður:

Guðbrandur Sverrisson lagði til að lækkun eignarskatta yrði bætt inn í tillöguna.

Þorsteinn Sigurjónsson telur að fasteignamat sé of hátt miðað við söluverð úti í sveitum, auk þess sem fasteignaskattur reiknist af uppreiknuðu verði m.v. höfuðborgarsvæðið.

Orðið "fasteignamat" eigna breytt í "raunvirði" eigna.

Breytingatillagan í endanlegri mynd:

Lækkun gjalda

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana    7. - 8. desember 1999, samþykkir að beina því til stjórnar Landssamtaka sauðfjárbænda að LS beiti sér fyrir því að  bændum verði endurgreitt tryggingargjald að hluta og raforkuverð lækki til landbúnaðar. Þá skorar fundurinn á stjórnvöld að leiðrétta nú þegar fasteignagjöld í dreifbýli þannig að þau verði lögð á raunvirði eigna.

Greinargerð:

Það er hlálegt að bændur skuli þurfa að borga tryggingargjald af því litla sem þeir hafa út úr búskapnum, en hafa ekki út á það nein réttindi þegar tekjur þeirra dragast stöðugt saman. Þá eru fasteignagjöld úti á landi allt of há miðað við markaðsvirði eigna bænda. Það ætti að vera hægt að lækka raforku til íslenskrar atvinnustarfsemi (landbúnaðar) ekkert síður en til erlendrar stóriðju í landinu.

Breytingartillagan samþykkt samhljóða

Jóhann Már Jóhannsson kynnti tillögu frá Skagfirðingum þess efnis að kjör sauðfjárbænda yrðu ekki verri en svo að þeir ættu fyrir útför sinni. Tillögunni var ekki vísað til atkvæðagreiðslu.

Fjárhagsnefnd

Flutningsmaður: Gunnar Kristjánsson

Fjárhagsáætlun LS árið 2000

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn í Reykjavík, dagana 7. - 8. desember 1999, samþykkir svohljóðandi fjárhagsáætlun fyrir Landssamtök sauðfjárbænda árið 2000.

Fjárhagsáætlun LS árið 2000

Tekjur

Búnaðarmálasjóðsgjald (hugsanleg ofgreiðsla árið 1999)            Kr.       3.500.000.-

Bændasamtök Íslands (Verkaskiptasamningur)              Kr.       1.900.000.-

Fjármagnstekjur                                                                        Kr.          300.000.-

            Samtals                                                                       Kr.       5.700.000.-

Gjöld

Laun formanns                                                              Kr.          660.000

Laun stjórnar                                                                            Kr.          280.000

Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður                                            Kr.       3.600.000

Greiðsla til aðilarfélaga (400 kr. per félaga)                                Kr.          700.000

Annar kostnaður                                                                       Kr.          460.000

            Samtals                                                                       Kr.       5.700.000

Forsendur tekna frá BÍ eru þær að samningur milli BÍ og LS verði með svipuðum hætti og verið hefur milli FL og LS, hvað fjárhæðir varðar.

Samþykkt samhljóða

Fulltrúar Vesturlands viku af fundi vegna uppstillingar.

13. Önnur mál

a)         Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson kvaddi sér hljóðs og kvaðst hafa til sölu geisladisk.

•b)                  Hörður Hjartarson leggur til við stjórn að á næsta aðalfundi verði fengnir ritarar aðrir en úr röðum fulltrúa því þeir séu gerðir að nokkru óvirkir í öðrum fundarstörfum.

•c)                  Árni Þorvaldsson vill að fundargögn séu send fulltrúum viku fyrir fund.

•d)                  Ásbjörn Sigurgeirsson sagði að það væri sérstök tilfinning að vera orðinn úreltur í stjórn samtakanna. Hann þakkaði samstarfið í stjórninni, bauð nýja stjórnarmenn velkoma og óskaði samtökunum velfarnaðar í framtíðinni.

•e)                  Jóhannes Sigfússon, Ásbjörn Sigurgeirsson, Sólrún Ólafsdóttir og Jóhann Már Jóhannsson sögðu stuttar gamansögur á meðan Vestlendingar ræddu val á stjórnarmanni.

14. Kosningar

Ásbjörn Sigurgeirsson, fulltrúi Vestlendinga í stjórn samtakanna, hafði lokið setutíma í stjórn þeirra.

Fram kom tillaga frá fulltrúum Vestlendinga um Hörð Hjartarson í Vífilsdal, sem aðalmann í stjórn og Sigurð Helgason, Hraunholtum, sem varamann hans, og töldust þeir því réttkjörnir.

15. Fundarslit

Aðalsteinn Jónsson þakkaði fundarmönnum góða fundarsetu og kvaðst vona að menn færu ósárir af fundi og að störf fundarins verði stéttinni til góðs. Þá þakkaði hann Ásbirni Sigurgeirssyni samstarfið á liðnum árum og bauð nýja stjórnarmenn velkomna. Loks þakkaði hann starfsmönnum fundarins og sleit fundi kl. 19:55.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar