Fundargerð aðalfundar 2004

Aðalfundur Eiðum
27.-28. júní 2004
FUNDARGERÐ


1. Setning

Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Jóhannes Sigfússon, setti fund kl. 13.30. Hann bauð fundarmenn velkomna og bar fundinum kveðju varaformanns samtakanna sem var fjarverandi vegna veikinda og lagði til að henni yrði sendur blómvöndur og góðar kveðjur fundarins og var það samþykkt með lófataki. Formaður gerði fundartímann að umtalsefni sem hentaði mörgum illa þar sem margir væri komnir á kaf í heyskap en þetta væri vel til fundið að ræða á fundinum þar sem samþykktir LS eru einmitt til umfjöllunar nú. Hann vitnaði í orð roskinnar húsfreyju sem eitt sinn hefði spurt: Eru ekki alltaf góðir tímar? Jóhannes gerði að umtalsefni þær þrengingar á kjötmarkaði sem hefðu verið sauðfjárbændum erfiðar ekki síður en öðrum og margvíslegar kostnaðarhækkanir sem orðið hafa að undanförnu. Hann spurði einnig hvort það væru frjáls viðskipti þegar annar aðilinn kæmist upp með að ákveða verð vöru. Jóhannes minnti á að þegar erfiðleikar koma upp er um tvennt að gera; sættast við þá eða sigrast á þeim. Þetta er barátta okkar allra og við megum aldrei missa sjónar af því að sigur er okkar takmark.


2. Starfsmenn fundarins

Formaður lagði til að fundarstjórar verði Aðalsteinn Jónsson og Örn Bergsson og tóku þeir við stjórn fundarins. Fundarritarar voru samþykktir:
Bjarni Ásgeirsson
Þórarinn Pétursson
Álfhildur Ólafsdóttir

Eftirtaldir fulltrúar voru samþykktir til starfa í kjörbréfanefnd:
Jóhann Már Jóhannsson, formaður
Guðbrandur Sverrisson
Guðbrandur Hannesson


3. Ávörp gesta

a) Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, .ræddi stöðu landbúnaðarins almennt. Sagðist stundum kalla sauðfjárræktina sigurvegara því hún hefði haldið stöðu sinni á kjötmarkaði nokkuð vel. Haraldur ræddi varasaman samanburð matvælaverðs milli landa og sagði enga eina skattalækkun eins mikilvæga og lækkun virðisaukaskatts á matvælum. Hann lýsti áhyggjum á fyrirkomulagi útflutnings landbúnaðarvara sem ætti skilyrðislaust að halda utan um með markvissum hætti. Útflutningsaðilar eru of margir og til vansa að hægt er að þrátta um "staðreyndir" varðandi útflutninginn. Haraldur spurði hvort ekki væri rétt að huga að frekari þróun staðbundinna sláturhúsa og heimavinnslu hvers konar afurða á bændabýlum. Hann vék síðan að væntanlegum nýjum sauðfjársamningi og lagði áherslu á að breytt umhverfi kalli á heildstæða samninga fyrir landbúnaðinn. Að lokum óskaði Haraldur aðalfundinum heilla í störfum.

b) Stefán Vilhjálmsson, kjötmatsformaður, minntist skólaveru á Eiðum fyrir 40 árum og flutti fundinum eftirfarandi vísu
 •  
  •  
   •  
     Hér var yfir öllu bjart
     á unglings menntaleiðum
     og fróðleik ennþá fæ um margt
     á fundi bænda á Eiðum.

4. Skýrslur og ársreikningur

a) Skýrsla stjórnar
Formaður LS flutti skýrslu stjórnar, sem lá prentuð fyrir fundinum og er vísað til hennar. Jóhannes gerði sérstaklega grein fyrir fyrirliggjandi hugmyndum um útflutningsskyldu næsta haust. Þar er gert ráð fyrir 10% útflutningsskyldu fram að síðustu viku ágúst, þá 17% í fyrstu viku september, 24% í annarri vikunni, 31% í þriðju viku september og eftir það 36-38% fram í lok nóvember þegar hún verður 24% til 1. mars.

b) Þórhildur Jónsdóttir, búnaðarþingsfulltrúi LS sagði frá afdrifum þeirra mála sem LS sendi til búnaðarþings.
1. Um lækkun Lánasjóðshluta búnaðargjalds.
2. Úrvinnslugjald á plast.
3. Gæði íslensks kjöts.
Að lokum vakti Þórhildur athygli á ályktun búnaðarþings um stefnumótun í landbúnaði.

c) Guðjón Kristinsson, framkvæmdastjóri Ístex gerði grein fyrir störfum fyrirtækisins á undanförnum árum. Reksturinn var í jafnvægi fyrstu árin en frá árinu 1997 hafa verið viðvarandi erfiðleikar og eru helstu ástæður þess gjaldþrot viðskiptafélaga, hrun heimsmarkaðsverðs á ull, hrun markaðar fyrir gólfteppaband og hátt gengi íslensku krónunnar. Guðjón kynnti tölur um ullargreiðslur og tillögur um breytingar á söfnun ullar sem ullarmatsnefnd, Ístex og LS hafa lagt fram og nýlega voru kynntar í Bændablaðinu. Hann lagði áherslu á að ef ekki tekst að hagræða og ná fram sparnaði leggjast ullarviðskipti af. Guðjón sagði að þar sem gæði ullar hefðu aukist þyrfti ekki svo strangt mat sem viðhaft hefur verið og ullarflokkun væri ekki flókið mál. Bændur hefðu því að hans áliti óþarfa áhyggjur af þessari breytingu.

d) Starfsemi Markaðsráðs kindakjöts
Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Markaðsráðs kindakjöts, flutti skýrslu um starfsemi ráðsins. Þrátt fyrir að árið 2003 hafi verið með því erfiðasta markaðslega séð jókst sala dilkakjöts um 1,1% og markaðshlutdeild kindakjöts var 29%. Útflutningur gekk mjög vel og meðalverð útflutts dilkakjöts árið 2003 var kr. 301. Özur greindi frá auglýsingastarfsemi, áherslu á unga neytendur, uppskriftavefnum lambakjot.is og bæklingaútgáfu. Gallupkönnun leiddi í ljós að lambakjötsauglýsingarnar virðast hafa hitt í mark og sýndu jafnframt afar jákvætt viðhorf fólks til lambakjöts og mikla trú á hollustu þess.

e) Ársreikningur 2003
Gjaldkeri samtakanna, Hörður Hjartarson, gerði grein fyrir endurskoðuðum ársreikningum LS fyrir árið 2003 (sjá fundargögn). Rekstrartekjur voru kr. 8.232.152 en tekjur umfram gjöld, að teknu tilliti til fjármagnsliða, voru kr. 921.709. Eignir alls 31.12.2003 voru kr. 5.618.667og peningaleg staða kr. 4.779.886. Þessar niðurstöður sýna ánægjulegan viðsnúning á rekstri samtakanna.


5. Álit kjörbréfanefndar

Kjörbréfanefnd starfaði í upphafi fundarins. Jóhann Már Jóhannsson gat þess að það gerði kjörbréfanefnd erfitt fyrir að almennt hafa félögin ekki sent inn félagatöl sín og kynnti síðan eftirfarandi réttkjörna fulltrúa á fundinum:

Félag sauðfjárbænda í Borgarfirði
Sindri Sigurgeirsson, Bakkakoti
Jón Eyjólfsson, Kópareykjum
Einar G. Örnólfsson, Sigmundarstöðum

Félag sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu
Ari G. Guðmundsson, Bergsstöðum
Böðvar S. Böðvarsson, Mýrum II

Félag sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu
Birgir Ingþórsson, Uppsölum
Gunnar Kristjánsson, Akri

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu
Guðrún Kristjánsdóttir, Dunki
Bjarni Ásgeirsson, Ásgarði
Ágúst G. Pétursson, Hjarðarholti

Félag sauðfjárbænda í Strandasýslu
Guðbrandur Sverrisson, Bassastöðum
Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum

Félag sauðfjárbænda í Skagafirði
Smári Borgarsson, Goðdölum I
Jóhann Már Jóhannsson, Keflavík

Félag sauðfjárbænda við Eyjafjörð
Birgir H. Arason, Gullbrekku
Þórarinn Pétursson, Laufási

Félag sauðfjárbænda í S-Þingeyjarsýslu
Ragnar Þorsteinsson, Sýrnesi
Halldór Sigurðsson, Sandhólum
Ketill Tryggvason, Hallgilsstöðum

Félag sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum
Sævar Sigbjarnarson, Rauðholti
Baldur Grétarsson, Kirkjubæ
Aðalsteinn Jónsson, Klausturseli

Félag sauðfjárbænda á Suðurfjörðum
Friðrik Steinsson, Hafranesi

Félag sauðfjárbænda í V-Skaftafellsýslu
Margrét Einarsdóttir, Mörk
Þórhildur Jónsdóttir, Ketilsstöðum

Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu
Baldur Björnsson, Fitjarmýri
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti
Ragnar Lárusson, Stóra-Dal

Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Gunnar Þórisson, Fellsenda
Sigríður Jónsdóttir, Arnarholti
Kjartan Lárusson, Austurey

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi A-Skaftfellinga
Örn Bergsson, Hofi
Þorsteinn Sigjónsson, Bjarnarnesi

Félag sauðfjárbænda í Snæfells og Hnappadalssýslu
Sigurður Helgason, Hraunholtum
Þóra Sif Kópsdóttir, Ystu-Görðum
Albert Guðmundsson, Heggsstöðum

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Kjalarnesþings
Guðbrandur Hannesson, Hækingsdal

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Vestfjarða
Þorvaldur H. Þórðarson, Stað
Halldóra Ragnarsdóttir, Brjánslæk

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Austurlands
Bragi Vagnsson, Bustarfelli (fyrri fundardag)
Grétar Jónsson, Einarsstöðum (síðari fundardag)

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi N-Þingeyinga
Einar Ófeigur Björnsson, Lóni
Jóhannes Sigfússon, Gunnarsstöðum


6. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

1. Jóhann Már Jóhannsson kvaðst vilja ræða nokkra punkta sem honum þóttu miður frá síðasta aðalfundi. Kjör okkar fara alltaf niður á við. Beingreiðslur fara minnkandi. Þetta er kjaraskerðing. Snyrting á skrokkum, nárabandið skorið af en verðið hækkaði ekki, þetta er kjaraskerðing. Fækkun sláturhúsa hefur ekki skilað sér til bænda með betra verði. Flutningskostnaður hefur hækkað þannig að kjör okkar versna. Ullarmat og flutningur komið á okkur þannig að kjörin versna enn. Fulltrúar sauðfjárbænda á búnaðarþingi stóðu sig ekki nógu vel því þeir börðust fyrir því að mál sem snerta sauðfjárbændur yrðu tekin af þinginu.

2. Aðalsteinn Jónsson þakkaði fyrir framlagðar skýrslur og fundargögn. Einnig fagnaði hann bættum fjárhag LS. Ræðumaður tók undir orð Haraldar Benediktssonar, formanns BÍ, þess efnis að ekki væru vandamál í landbúnaði heldur verkefni sem þyrfti að leysa. Að því búnu talaði Aðalsteinn um sláturhúsamálin og nefndi þann mikla vanda sem sauðfjárbændur á Norðvesturlandi standa frammi fyrir vegna gjaldþrots Ferskra afurða. Flutningskostnaður hækkar við fækkun sláturleyfishafa. Breyting á flokkun og verðlagningu ullar er ekki til bóta. Standa þarf betur að útflutningi kindakjöts og markaðssetningu þess innanlands. Að lokum sagði Aðalsteinn að umræður og ályktanir um sauðfjársamning ættu fyrst og fremst heima á aðalfundum LS.

Kaffihlé 15.35 til 16.05.

3. Guðrún Stefánsdóttir minnti á að núverandi tímasetning aðalfundar LS hefði á sínum tíma verið valin til þess að tækifæri gæfist til að ræða útflutningshlutfallið og það hefði mátt gera nú. Útflutningshlutfallið þarf að vera lægra í byrjun sláturtíðar og einnig í nóvember. Guðrún telur að menn verði að vera duglegri að koma fénu til slátrunar utan hefðbundins sláturtíma. Hún vill fá meiri umræðu um sauðfjársamninginn en fulltrúar LS á búnaðarþingi vildu ekki hleypa honum í almenna umræðu þar og telur Guðrún að stjórnarmenn LS vilji ekki ræða samninginn. Kjör sauðfjárbænda skerðast ár frá ári en nú er lag að reyna að sækja verðhækkanir því almenningur er jákvæður í garð sauðfjárbænda. Loks óskaði Guðrún eftir að formaður BÍ útskýrði frekar hvað hann hefði átt við með að snið nýs sauðfjársamnings þyrfti að vera í takt við nýgerðan mjólkursamning.

4. Stefán Vilhjálmsson þakkaði fyrir skýrslur og fundargögn. Fjallaði siðan um samræmingu á mati dilkakjöts. Ræðumaður benti fundarmönnum á að hægt væri að finna efni á netinu frá Fræðaþingi landbúnaðarins um kjötmat og samræmingu á því. Unnið er að því að kjötmatsmenn verði færanlegir milli sláturhúsa. Stefán sagðist reyna að fylgjast með þróun kjötmats í nágrannalöndum okkar.

5. Gunnar Þórisson þakkaði fyrir þær skýrslur sem komið hafa fram. Það er ansi þungt fyrir samtökin að halda fundinn á dýrasta tíma ferðaþjónustunnar. Hann vék að gæðastýringunni þar sem menn þurfa að skrá allt vel og vandlega en þegar sláturleyfishafar geta ekki staðið almennilega að skráningu á því fé sem þeir slátra þá er gæðastýringin ekki að virka.

6. Gunnar Kristjánsson bar fundarmönnum kveðju frá konu sinni, Jóhönnu Pálmadóttur. Einnig bar hann kveðju frá Ara Teitssyni fyrrum formanni BÍ. Síðan fjallaði hann um ullarmálin. Taldi hann að breytt ullarmat kallaði á það að flokka féð í hópa áður en rúið er.

7. Þórhildur Jónsdóttir sagði frá þeim samningi sem gerður var í Mýrdalshreppi vegna merkinga og girðinga við vegi. Þessi samningur er andskotans klúður. Þórhildur er búnaðarþingsfulltrúi og er á þeirri skoðun að ekki eigi að ræða samning sauðfjárbænda á búnaðarþingi.

8. Birgir Ingþórsson þakkaði Jóhannesi Sigfússyni fyrir að vinna að því að koma sauðfjárbændum saman í eina heild. Ræðumaður gagnrýndi síðan fundartíma aðalfundar LS. Ófært er að hafa hann á dýrasta tíma ársins. Sauðfjárbændur eiga sjálfir að fjalla um og bera ábyrgð á sínum málum en ekki láta aðra hafa áhrif á það. Slæmt að ekki tókst að breyta sauðfjársamningnum. Nauðsynlegt er að hefja vinnu við undirbúning nýs samnings sem bætir kjör bænda og þjappar þeim saman um kjör sín. Aðalmálið er samt að ná góðum samningum við sláturleyfishafa um verð á sauðfjárafurðum. Að lokum fjallaði hann um ullarmál, flutning á sláturfé og girðingar meðfram vegum.

9. Ragnar Þorsteinsson lýsti ánægju sinni að vera kominn á þennan fund. Ragnar er sammála Birgi um mikilvægi þess að koma sauðfjárbændum í einn samheldinn hóp fyrir næsta samning. Vill fá fundargögnin send fyrir fund, gjarnan með rafrænum hætti. Hann lýsti ánægju sinni með sjúkrasjóðinn en telur vel athugandi að lækka tryggingargjaldið. Girðingar með vegum eru mál sem þarf að koma í þann farveg að Vegagerðin sjái um að vegirnir verði fjárlausir. Gæðastýringin er af hinu góða og þéttbýlisbúinn kann að meta hana. Vonandi að breytingin með Ístex verði til góðs því þó svo að vinnan verði aðeins meiri þá eru líkurnar meiri á að fá eitthvað fyrir ullina. Vefur LS er ekki merkilegur og brýn þörf að bæta hann.

10. Sævar Sigbjarnarson. Eftir stuttan formála fjallaði ræðumaður um ullarmat og flokkun ullar. Hann telur að um eftirgjöf sé að ræða bæði í flokkun og verðlagningu ullar. Áhyggjuefni er ef gæði kjöts versna vegna langra flutninga fjár í sláturhús. Efla þarf samstöðu sauðfjárbænda og vinna að nýjum samningi í þeim anda.

11. Sindri Sigurgeirsson þakkaði greinargóða ræður og skýrslur. Ánægjulegt að sjá viðsnúning á rekstri samtakanna. Ánægður með störf markaðsráðs við auglýsingar á lambakjöti. 1,1% aukning á sölu er varnarsigur og enn er lambakjötið á toppnum. Óþarfi að hræðast útflutning því mikið magn á markaði er góð auglýsing á kjöti. Stjórn LS á að vinna að því að verð hækki í haust. Sindri minnti einnig á að stjórnarfundir afurðastöðvar eru ekki kaffisamkomur þar sem stjórnarmenn eiga bara að þiggja upplýsingar frá framkvæmdastjóranum sínum og skrifa svo undir það sem að þeim er rétt. Það er skiljanlegt að Ístex vilji ná að hagræða í sínum rekstri. Sindri beindi nokkrum spurningum til framkvæmdastjóra Ístex m.a. varðandi snoðull 2004, hvenær mætti senda hana og eftir hvaða reglum hún yrði metin. Sindri er á þeirri skoðun að sauðfjársamninginn eigi að ræða á búnaðarþingi

12. Bjarni Ásgeirsson þakkaði framkomnar skýrslur og fundargögn en hádegisverðinn minna (pasta með hænsnakjötsræmum). Lagði áherslu á að menn vinni sig út úr því að stuðningur ríkisins við sauðfjárbændur sé söluvara. Nauðsynlegt sé að finna aðra leið s.s. að greiða út á hvern grip upp að vissum fjölda. Varaði við að fjármunir sem ætlaðir eru sauðfjárræktinni séu notaðir til að bjarga einu fyrirtæki.

13. Jóhann Már Jóhannsson. Ræðumaður gagnrýndi málflutning þeirra fundarmanna sem telja að ekki eigi að ræða sauðfjársamning á búnaðarþingi. Kom síðan inn á aukinn flutningskostnað sláturgripa og undirbúning nýs sauðfjársamnings.

14. Kjartan Lárusson. Það er gott þetta nýja kjötmat sem við höfum en það skilar sér ekki til neytenda. Við eigum að ræða kosti og galla búvörusamnings þannig að þeir sem fara að vinna fyrir okkur í næsta búvörusamningi hafi veganesti.

15. Þorvaldur Þórðarson sagði að það væru vonbrigði að útflutningshlutfallið skuli ekki lækka þegar birgðir minnka. Verðlagning, flokkun og greiðslur fyrir ull þurfa að vera í betri farvegi.

16. Þorsteinn Sigjónsson óskaði þess að fundarritarar skrifuðu bara það gáfulega sem frá honum kæmi. Ullarmatið í höndum bænda á ekki að vera vandamál en bændur verða þá líka að standa almennilega að matinu. Þorsteinn var einn af þeim sem var á móti því að samningnum yrði breytt.

17. Þóra Sif Kópsdóttir þakkaði framlagðar skýrslur og fundargögn. Ræðumaður gagnrýndi síðan að ekki væri gerð nægilega góð grein fyrir afdrifum tillagna frá síðasta aðalfundi LS. Gera þarf átak í að halda sauðfé frá vegum, það er sameiginlegt hagsmunamál sauðfjárbænda og vegfarenda. Þóra Sif minnti á hlut kvenna í landbúnaði og nefndi að rannsókn sem gerð var á heilsufari bænda hefði eingöngu verið beint að körlum. Ræðumaður fagnaði því að breytingar á sauðfjársamningi voru ekki ræddar á búnaðarþingi.

18. Guðbrandur Sverrisson þakkaði fyrir framkomnar skýrslur. Lýst ekki vel á hinar nýju ullarmatsreglur. Hann telur að besta ullin tapist saman við hina ullina og í framtíðinni óttast Guðbrandur að meðalgóð ull verði allsráðandi. Guðbrandur spurði Guðjón Kristinsson að því hvort ullarstöðinni í Hveragerði nægi að fá annars flokks ull í stað fyrsta flokks.

19. Ari G. Guðmundsson. Ræðumaður gagnrýndi fundartíma aðalfundar LS. Sláttur er víða hafinn og bændur í önnum. Rétt er að hefja undirbúning að nýjum sauðfjársamningi. Sauðfjárbændur mega passa sig á því að barma sér ekki of mikið, það getur verkað öfugt á kjör þeirra.

20. Guðjón Kristinsson þakkaði fyrir þær ábendingar sem komið hafa fram. Hann vill benda bændum á að menn fái greitt fyrir heimamatið. Ístex ætlast til þess að hægt verði að treysta bændum fyrir matinu á eigin ull. Það á að vera nóg að flokka ærnar fyrir rúning og tína síðan gallana frá. Það er alveg ljóst að ef Ístex hættir starfsemi sinni þá falla ullarniðurgreiðslur niður. Samið hefur verið um að taka við snoðullinni frá í vor á Blönduósi um miðjan ágúst og að hún verði greidd í janúar 2005. Það er alls ekki gott mál að geta ekki staðið í skilum en vonandi mun það batna með hagræðingu í rekstri. Við erum þvinguð út í þessa breytingu til þess að spara. Vonandi kemur verð til með að hækka eftir þær breytingar sem nú standa fyrir dyrum. Guðjón lagði að lokum áherslu á að starfsmenn Ístex ætla að treysta bændum og vinna með þeim.

21. Þórhildur Jónsdóttir telur að það sé áhyggjuefni ef Vegagerðin stendur sig ekki að gera við girðingar meðfram vegum þegar búið er að semja við hana um uppsetningu og viðhald. Það skapar hugsanlega bótaskyldu hjá búfjáreigendum ef lausaganga er bönnuð á viðkomandi vegsvæði. Að lokum flutti Þórhildur eftirfarandi vísu um hádegisverðinn:
Aldrei mun ég lambakjöt lasta
líka má snæða smávegis fisk
en hænsnakjötshræ og hrúgu af pasta
helvíti skítt er að fá á sinn disk.

22. Birgir Arason þakkaði góð erindi og skýrslur. Er ánægður með að nú er ljóst hvert útflutningshlutfallið verður í haust. Bændur verða að vanda sig á frágangi á ullinni en ekki ganga um hana eins og hvert annað rusl. Nú verður að ná upp verðskerðingunum á dilkakjötinu í haust því botninum er náð. Birgir lauk máli sínu á upprifjun gamallar fundargerðar og yfirfærði hana á núverandi fund:
Í fundargerðum flest er bannað
og fundarmönnum heitt.
Þorsteinn óð úr einu í annað
og enginn skildi neitt.

23. Hörður Hjartarson svaraði framkomnum spurningum um laun starfsmanns LS. Fram kom hjá Herði að landssamtökin greiða 40% af launum hans en Markaðsráð kindakjöts 60%.

24. Haraldur Benediktsson skýrði út fyrir fundarmönnum hvernig kúabændur unnu að sínum samningi og taldi að hægt væri að gera álíka samning fyrir sauðfjárbændur. Opinber stuðningur sem tekur mið af flokkun WTO samningsins í gular, grænar og bláar greiðslur er það sem koma skal.

25. Jóhannes Sigfússon svaraði spurningum sem til hans hafði verið beint. Um störf nefndar sem fjallaði um flutningsjöfnun sláturfjár, útflutningsprósentu, breytingar á búvörusamningi, meðaltalsútreikninga á kjörum sauðfjárbænda og hærra verð frá sláturleyfishöfum vegna hagræðingar í rekstri sláturhúsa. Við hljótum að gera kröfu á sláturleyfishafa um hækkað verð í haust. Hljóðið í sláturleyfishöfum bendir til þess að það sé eitthvert svigrúm. Annað mál hvernig gengur að ná þeim að samningaborðinu. Jóhannes brýndi menn á að beita því valdi sem framleiðendur hafa víða í stjórnum afurðastöðva. Formaður staðfesti að fulltrúum bæði frá landbúnaðarráðuneyti og Landgræðslunni hefði verið boðið til fundarins. Tillögu um námsefni í sauðfjárrækt var vísað til LBH.

Reikningar LS voru bornir upp og samþykktir athugasemdalaust.


7. Erindi

Sauðamenn fyrri tíðar á Jökuldal. Aðalsteinn Aðalsteinsson frá Vaðbrekku flutti.


8. Skipan nefnda

Fundarstjóri vísaði til fundargagna um nefndaskipan og var hún samþykkt eftirfarandi án athugasemda:

Fjárhagsnefnd: Gunnar Kristjánsson, formaður, Gunnar Þórisson, Margrét Einarsdóttir og Þorsteinn Sigjónsson.
Allsherjarnefnd: Þórhildur Jónsdóttir, formaður, Birgir Arason, Þorvaldur Þórðarson, Örn Bergsson, Baldur Grétarsson, Baldur Björnsson, Bjarni Ásgeirsson og Sigurður Helgason.
Fagráðsnefnd: Aðalsteinn Jónsson, formaður, Guðrún Stefánsdóttir, Þóra Sif Kópsdóttir, Guðbrandur Björnsson, Halldór Sigurðsson, Ari G. Guðmundsson og Jón Eyjólfsson.
Markaðs- og kjaranefnd: Einar Ófeigur Björnsson, formaður, Einar G. Örnólfsson, Jóhann Már Jóhannsson, Kjartan Lárusson, Þórarinn Pétursson, Halldóra Ragnarsdóttir, Friðrik Steinsson og Albert Guðmundsson.
Umhverfisnefnd: Guðbrandur Hannesson, formaður, Sævar Sigbjarnarson, Ragnar Lárusson, Ragnar Þorsteinsson, Ágúst Pétursson, Böðvar Böðvarsson og Sigríður Jónsdóttir.
Framleiðslunefnd: Sindri Sigurgeirsson, formaður, Guðbrandur Sverrisson, Guðrún Kristjánsdóttir, Smári Borgarsson, Grétar Jónsson, Birgir Ingþórsson og Ketill Tryggvason.

Jóhannes Sigfússon kynnti að í vændum væri kvöldverður þar sem skemmtiatriði verða í boði sveitarfélagsins Austur-Héraðs og KB-banka á Egilsstöðum og fordrykkur í boði Kaupfélags Héraðsbúa. Formaður sagði stjórn LS mikið hafa rætt væntanlega skipan starfshóps til undirbúnings nýjum sauðfjársamningi. Hann kynnti síðan tillögu stjórnar sem ekki er ætlað að vera vísað til nefndar en verður til umræðu á fundinum á morgun. Formaður sagði þurfa að leggja áherslu á að þessi nefnd skili af sér fyrir næsta aðalfund. Síðan eigum við að stefna að því að nýr samningur liggi fyrir snemma árinu 2006. Það verður síðan samningsatriði hvort hann tekur gildi fyrr en núverandi samningur rennur út. Alla vega á þetta að gefa möguleika á að breytingar liggi fyrir með góðum fyrirvara. Tillaga stjórnar er svohljóðandi: "Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda leggur til að eftirfarandi einstaklingar skipi starfshóp sem hafi það hlutverk að móta stefnu fyrir nýjan sauðfjársamning. Nefndin skili áliti fyrir næsta aðalfund samtakanna. Hörður Hjartarson Vífilsdal, formaður, Baldur Björnsson Fitjarmýri, Þórhildur Jónsdóttir Ketilsstöðum, Baldur Grétarsson Kirkjubæ, Einar Ófeigur Björnsson Lóni, Smári Borgarsson Goðdölum og Jóhann Ragnarsson Laxárdal."

Sigurður Helgason leiðrétti áður senda tillögu frá Félagi sauðfjárbænda í Snæfells- og Hnappadalssýslu varðandi samþykktir BÍ sem fyrir misgáning hafði ekki borist rétt til samtakanna fyrir fundinn. Hann lagði einnig fram tvær aðrar tillögur sem ekki höfðu náð í tæka tíð.

Fundi frestað kl. 19.30.

Fundi var framhaldið 28. júní kl. 13.12.


12. Afgreiðsla mála

Gunnar Kristjánsson gerði grein fyrir störfum fjárhagsnefndar
og bar upp eftirfarandi tillögu hennar:

1.1. Fjárhagsáætlun.

Jafnframt lagði Gunnar til að skipting launakostnaðar framkvæmdastjóra milli LS og markaðsráðs komi skýrar fram í reikningum samtakanna framvegis en verið hefur.
Fjárhagsáætlun samþykkt samhljóða.

Guðrún Stefánsdóttir kynnti tillögur fagráðsnefndar .

3.1. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27. - 28. júní 2004, skorar á stjórn samtakanna að vera með virkan frétta og upplýsingavef um málefni sauðfjárbænda, L.S. og aðildarfélaga þess.
Samþykkt samhljóða.

3.2. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27. - 28. júní 2004, felur stjórn L.S. í samvinnu við Landbúnaðarráðuneytið og Yfirdýralækni að leita leiða til að tryggja nægt fjármagn til niðurskurðar á sauðfé og annarra aðgerða í tengslum við hreinsun og fjárskipti vegna riðu. Hvergi verði hvikað frá markmiðum um að útrýma riðuveiki.
Greinargerð:
Um áratugaskeið hefur niðurskurður sauðfjár á riðusvæðum verið helsta aðferðin í baráttunni við útbreiðslu riðuveiki í íslensku sauðfé. Þrátt fyrir að enn sé margt óljóst um það hvernig riðan breiðist út og enn komi upp ný tilfelli er ljóst að ef niðurskurði hefði ekki verið beitt væri riðan landlæg um allt land og ástandið komið algerlega úr böndunum. Því er nauðsynlegt að samræma aðgerðir í förgun, og að tryggt sé það fjármagn sem þarf til bótagreiðslna og annarrar eftirfylgni vegna riðuniðurskurðar í Árnessýslu nú og tilfella er upp kunna að koma í framtíðinni.
Samþykkt samhljóða.

3.3. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27. - 28. júní 2004, beinir því til Yfirdýralæknis og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins að gera markvissa rannsókn á hverjar séu helstu hugsanlegar orsakir dauðfæddra lamba, sem virðist vera sívaxandi vandamál.
Samþykkt samhljóða.

3.4. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27. - 28. júní 2004, samþykkir að beina því til stjórnar samtakanna að hún skoði hvort hægt sé að fá reglugerð um búfjárslátrun breytt í þá vegu að kjötmatsmenn verði starfsmenn yfirkjötmatsins en ekki sláturleyfishafa.

Örn Bergsson kvaðst setja spurningarmerki við þá breytingu sem tillaga 3.4 leggur til. Hún gæti leitt af sér aukinn kostnað. Gunnar Kristjánsson lýsti sig ósammála Erni. Birgir Ingþórsson mælti gegn tillögunni. Sævar Sigbjarnarson lagði til að nefndin skoðaði tillöguna betur. Umræðu um tillöguna frestað um sinn.

Einar Ófeigur Björnsson gerði grein fyrir tillögum markaðs- og kjaranefndar.

4.1. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27.-28. júní 2004, felur stjórn LS að meta hvort ástæða sé til að endurskoða verkaskiptasamning LS og BÍ.
Guðrún Stefánsdóttir skýrði tillöguna og var hún síðan samþykkt samhljóða.

4.2. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27.-28. júní 2004, telur æskilegt að samið sé á hverju ári við sláturleyfishafa um viðmiðunarverð sauðfjárafurða sem og greiðslukjör.
Samþykkt með öllum þorra atkvæða gegn einu.

4.3. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27.-28. júní 2004, telur nauðsynlegt að útflutningsskylda sé staðfest fyrr en verið hefur undanfarin ár. Fundurinn felur stjórn LS að þrýsta á landbúnaðarráðherra að staðfesta útflutningshlutfall fyrir 15. júlí ár hvert.
Samþykkt samhljóða.

4.4. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27.-28. júní 2004, telur nauðsynlegt að ná fram nú í haust verulegri verðhækkun á afurðum okkar. Fundurinn felur stjórn að ná til baka að lágmarki þeirri verðlækkun sem varð á síðastliðnu ári bæði á innlendum og erlendum markaði.
Greinargerð:
Á síðasta hausti varð veruleg fækkun á sláturhúsum í landinu. Bændur hljóta að gera kröfur um að fá hlutdeild í þeirri hagræðingu sem við það skapaðist. Einnig hefur sala gengið vel bæði á innlendum og erlendum markaði á síðasta ári. Því er einsýnt að töluvert svigrúm hlýtur að vera til verðhækkana.
Tillaga 4.4. samþykkt samhljóða.

4.5. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27.-28. júní 2004, mælir með að lækkun virðisaukaskatts á matvælum hafi forgang í skattalækkunaráformum ríkisstjórnarinnar.

Birgir Ingþórsson lagði til að skorað yrði á ríkistjórnina í stað þess að mæla einungis með og var breytingartillaga hans samþykkt með öllum þorra atkvæða gegn einu
Tillagan síðan samþykkt samhljóða svo breytt:
4.5. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27.-28. júní 2004, skorar á ríkisstjórnina að lækkun virðisaukaskatts á matvælum hafi forgang í skattalækkunaráformum hennar.

Breytingartillaga Sævars Sigbjarnarsonar við tillögu 3.4. kynnt og samþykkt með öllum þorra atkvæða gegn einu. Tillagan síðan samþykkt samhljóða svohljóðandi:
3.4. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27. - 28. júní 2004, samþykkir að beina því til stjórnar samtakanna að hún skoði hvort hægt sé að tryggja betur samræmt kjötmat hjá öllum afurðastöðvum en nú er og að matsmenn séu sem óháðastir sláturleyfishöfum í störfum sínum.

Guðbrandur Hannesson kynnti tillögur umhverfisnefndar.

5.1. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27.-28. júní 2004, skorar á landbúnaðarráðherra að sjá til þess að staðið verði að fullu við fjárveitingar til landbótasjóðs samkvæmt landgræðsluáætlun 2003 til 2014 svo unnt verði að vinna áfram að eðlilegum framgangi gæðastýringar í sauðfjárrækt eins og kveðið er á um í sauðfjársamningnum.
Samþykkt samhljóða.

5.2. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27.-28. júní 2004, lítur svo á að fjöldi hreindýra á Austurlandi sé öllu meiri en ákjósanlegt getur talist með tilliti til þeirra landbóta sem unnið er að. Einnig er varað við að leyfa dýrunum að helga sér land í Suðursveit og Öræfum þar sem sauðfjársjúkdómar eru í algjöru lágmarki.
Aðalsteinn Jónsson upplýsti um landbótaverkefni í tengslum við virkjanaframkvæmdir á Austurlandi og tillaga 5.2. var síðan samþykkt samhljóða.

Tillaga 5.3. kynnt. Til máls tóku: Sigríður Jónsdóttir, Guðrún Stefánsdóttir, Þórhildur Jónsdóttir, Sævar Sigbjarnarson og Kjartan Lárusson sem lagði til breytingu sem var samþykkt með 19 atkvæðum gegn 4.
Tillagan síðan samþykkt svohljóðandi með einu mótatkvæði:
5.3. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27.-28. júní 2004, hvetur bændur til að huga enn frekar að ásýnd sveitabýla og bæta umgengni og frágang á heyrúllum þar sem þess er þörf.
Greinargerð:
Plastaðar heyrúllur eru nýtilkomnar í atvinnumenningu íslenskra bænda. Margir bændur ganga um hey sín og býli svo sómi er að en aðrir þurfa að gera betur.

Gunnar Kristjánsson lagði fram breytingatillögu við tillögu 5.4. og var hún samþykkt samhljóða. Tillagan síðan samþykkt samhljóða svohljóðandi:
5.4. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27.-28. júní 2004, krefst þess að Landgræðslan virði viljayfirlýsingu sauðfjársamningsins vegna mats á landnýtingarþætti "gæðastýringar".

Sindri Sigurgeirsson gerði grein fyrir tillögum framleiðslunefndar. Hann sagði nefndina hafa verið sammála um að óþarfi væri að leggja fram tillögu varðandi ullarmál eins og F.S.H.F. lagði til í apríl sl.

6.1 Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27. - 28. júní 2004, leggur áherslu á að ekki verði lagt gjald á bændur til flutningsjöfnunar sláturfjár. Leitað verði annarra leiða til að fjármagna aukna flutningsjöfnun vegna fækkunar sláturhúsa.

Til máls tóku Jóhannes Sigfússon, Gunnar Kristjánsson, Guðrún Stefánsdóttir, Smári Borgarsson, Sindri Sigurgeirsson, Sævar Sigbjarnarson og Aðalsteinn Jónsson. Umræðu um tillögu 6.1. frestað um sinn.

6.2. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27. - 28. júní 2004, fagnar þeim árangri sem náðst hefur í útflutningi á lambakjöti. Fundurinn telur nauðsynlegt að það fjármagn sem fæst til markaðssetningar erlendis fari til þeirra aðila sem nú standa að útflutningi.

Guðrún Stefánsdóttir lagði fram breytingartillögu. Til máls tóku Þórhildur Jónsdóttir, Þorvaldur Þórðarson, Jóhann Már Jóhannsson, Smári Borgarsson, Gunnar Kristjánsson, Guðbrandur Sverrisson og Sævar Sigbjarnarson sem lagði fram breytingartillögu. Næst talaði Kjartan Lárusson, sem lagði til að tillögunni yrði vísað aftur til nefndar. Nefndarformaður óskaði eftir að taka tillöguna aftur til umræðu í nefndinni og var umræðu um hana frestað um sinn.

Sindri kynnti tillögu 6.3. og Örn Bergsson skýrði hana frekar. Þá talaði Jóhann Már Jóhannsson og benti á að til þess að ná fram neðangreindri tillögu yrði að taka upp sauðfjársamninginn, en þar sem stjórn og formannafundur samþykktu að fengnum tillögum aðildarfélaga LS að taka ekki upp samninginn yrði þessu ekki breytt. Tillagan var síðan samþykkt svohljóðandi með þorra atkvæða gegn einu:
6.3 Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27. - 28. júní 2004, felur stjórn að kanna hvort aðilaskipti greiðslumarks í sauðfé geti farið fram oftar en einu sinni á ári.

Þórhildur Jónsdóttir gerði grein fyrir störfum allsherjarnefndar m.a. að tillaga Snæfellinga varðandi samþykktir BÍ kæmi ekki úr nefnd. Hún kynnti síðan tillögur að endurskoðuðum samþykktum samtakanna.

Kaffihlé 15.27 til 15.59.

Fundarstjóri opnaði umræðu um eina grein tillagna að breyttum samþykktum í einu og bar undir fundinn.

Breytingatillaga um starfshætti aðalfunda LS samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri upplýsti að 19 aðildarfélög ættu samtals 42 fulltrúa á fundinum en 44 eiga seturétt á honum. Fundarstjóri bar undir fundinn að bera samþykktirnar upp í einu lagi með þeim breytingatillögum sem búið var að samþykkja og var það fyrirkomulag samþykkt samhljóða. Samþykktirnar voru síðan samþykktar með 40 atkvæðum eins og þær fara hér eftir. Breytingar frá fyrri samþykktum eru skáletraðar eftir því sem við varð komið:
Samþykktir Landssamtaka sauðfjárbænda

I. kafli. Almenn ákvæði

1. gr.Samtökin heita Landssamtök sauðfjárbænda, skammstafað LS. Þau eru aðili að Bændasamtökum Íslands (BÍ). Heimili þeirra og varnarþing er á skrifstofu samtakanna.
2. gr.Landssamtök sauðfjárbænda eru samtök sjálfstæðra svæðisfélaga sauðfjárbænda og deilda sauðfjárbænda innan búnaðarsambanda og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna.
Aðildarfélög LS eru eftirtalin:
Félag sauðfjárbænda í Borgarfjarðarhéraði
Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu
Félag sauðfjárbænda í Snæfellsnes og Hnappadalssýslu
Félag sauðfjárbænda í Strandasýslu
Félag sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu
Félag sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu
Félag sauðfjárbænda í Skagafirði
Félag sauðfjárbænda í Eyjafirði
Félag sauðfjárbænda í Suður-Þingeyjarsýslu
Félag sauðfjárbænda á Héraði og í Fjörðum
Félag sauðfjárbænda á Suðurfjörðum
Félag sauðfjárbænda í Vestur-Skaftafellssýslu
Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu
Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Austur-Skaftafellssýslu
Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Norður-Þingeyinga
Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Kjalarnesþings
Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Vestfjarða
Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Austurlands
3. gr.Félagar í einstökum aðildarfélögum sauðfjárbænda geta verið þeir einstaklingar og lögaðilar sem reka sauðfjárbú á lögbýlum þar sem eru að lágmarki 50 kindur á vetrarfóðrum, samkvæmt könnun LS. Þegar bú er rekið sem lögaðili skal félagsaðild annaðhvort bundin við lögaðilann eða þá sem að búrekstrinum standa. Bændum sem lenda í tímabundnu fjárleysi skal heimil áframhaldandi þátttaka í félaginu með fullum réttindum, hafi þeir búsetu á viðkomandi lögbýli. Aðrir sauðfjáreigendur geta verið aukafélagar í viðkomandi aðildarfélagi með málfrelsi og tillögurétti. Einungis fullgildir félagar skulu atkvæðisbærir þegar kemur til almennrar atkvæðagreiðslu meðal sauðfjárbænda.
4. gr.Aðalfundur LS skal staðfesta aðild og samþykktir nýrra aðildarfélaga með minnst 2/3 hluta atkvæða aðalfundarfulltrúa en stjórn LS staðfestir breytingar á samþykktum þeirra. Í héruðum þar sem sauðfjárbændafélög starfa ekki, geta búnaðarsambönd starfrækt innan sinna vébanda deildir sauðfjárbænda, sem eru aðilar að LS og hafa sömu skyldur og njóta sömu réttinda og félögin. Þær skulu hafa sérstaka stjórn, sem sér um að skrá félaga og halda árlega aðalfund. Heimilt er, ef aðalfundur búnaðarsambandsins og sauðfjárbændadeildarinnar samþykkir, að stjórn þess gegni jafnframt störfum stjórnar deildar sauðfjárbænda. Lágmarksfjöldi fullgildra félaga í aðildarfélagi skal vera 15.
Fyrir aðalfundi hvers árs skal ávallt liggja fullnægjandi félagaskrá samkvæmt ákvæðum í 4. grein samþykkta BÍ.
5. gr.Aðalfundur LS getur með minnst 2/3 hluta atkvæða aðalfundarfulltrúa vikið aðildarfélagi úr LS ef samþykktir þess eða starfsemi er ekki í samræmi við lög LS eða ef það þykir óhjákvæmilegt af öðrum ástæðum.
6. gr.Tilgangur LS er að gæta hagsmuna sauðfjárbænda á eftirfarandi hátt:
A. Að beita sér fyrir bættum kjörum sauðfjárbænda á öllum sviðum.
B. Að vera málsvari aðildarfélaga og einstakra félagsmanna og koma fram fyrir þeirra hönd.
C. Að vinna að sölumálum sauðfjárafurða á innlendum sem erlendum markaði með það að markmiði að auka verðmæti afurðanna.
D. Að vinna ötullega að mótun ræktunarstefnu í samvinnu við BÍ, þar með talin þátttaka í Fagráði.
E. Að stuðla að umhverfisvernd og skynsamlegri landnýtingu.
F. Að skapa tengsl og auka samstöðu framleiðenda til eflingar sauðfjárræktinni.
G. Að koma til móts við óskir neytenda um vöruval og vörugæði.
LS starfa í samráði við Bændasamtök Íslands í samræmi við verkaskiptasamning LS og BÍ.
. 7. gr.Tekjur LS eru lögbundin hlutdeild þess í búnaðargjaldi, árlegt gjald af hverjum félagsmanni eftir ákvörðun aðalfundar og aðrar tekjur sem til falla. Heimilt er að greiða styrk til aðildarfélaganna eftir ákvörðun aðalfundar hverju sinni. Greitt skal til félaganna á fyrsta ársfjórðungi að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
a. Hafa sent fulltrúa á síðasta aðalfund LS.
b. Vera skuldlaus við LS eða hafa samið um skuld sína við stjórn LS.
c. Halda félagaskrá og senda eintak af henni til stjórnar LS.
d. Hafa haldið aðalfund á liðnu ári og sent stjórn LS greinargerð um hann.
Gjald sem ekki kemur til útborgunar vegna þess að félag fullnægir ekki settum skilyrðum skal renna til LS.
8. gr.Samtökin skulu halda sem bestum tengslum við aðildarfélögin, m.a. með því að senda út fundargerðir til formanna aðildarfélaganna til dreifingar meðal stjórnarmanna og aðalfundarfulltrúa. Einnig skal stjórn LS senda fulltrúa stjórnar á aðalfundi aðildarfélaganna ef þess er óskað.
II. kafli. Aðalfundur

9. gr.Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum LS. Hann skal halda eigi síðar en í ágúst mánuði ár hvert. Aðalfund skal halda til skiptis í hverjum landsfjórðungi eftir því sem við verður komið.

Til aðalfundar skal boða með minnst 4 vikna fyrirvara á sannanlegan hátt. Í fundarboði skal aðildarfélögum tilkynntur frestur til að senda inn mál sem leggja á fyrir fundinn. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað og meirihluti kjörinna fulltrúa mættur. Fundargögn skulu berast formönnum aðildarfélaga í síðasta lagi viku fyrir aðalfund.

Á aðalfundi skulu eftirfarandi mál tekin fyrir:

1. Skýrsla stjórnar um starfsemi samtakanna frá síðasta aðalfundi.

2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu.

3. Gerð fjárhagsáætlunar.

4. Ákveða laun stjórnar.

5. Kosningar í stjórn og varastjórn.

6. Kosning fulltrúa á Búnaðarþing samkvæmt samþykktum BÍ.

7. Kosning endurskoðanda, skoðunarmanns og varamanna þeirra.

8. Önnur mál.

Aðalfundur kýs sér tvo fundarstjóra, sem stjórna fundinum og taka ákvörðun um málsmeðferð og atkvæðagreiðslur. Fundarstjórar tilnefna tvo fundarritara.

Í upphafi fundar skal kjósa kjörbréfanefnd, skipaða þrem mönnum. Hún fer yfir kjörbréf og leggur fram tillögur sínar áður en almennar umræður hefjast.

Á aðalfundi skulu eftirfarandi nefndir starfa:
1. Fjárhagsnefnd.
2. Allsherjar- og félagsmálanefnd.
3. Fagráðs- og sauðfjárræktarnefnd.
4. Umhverfis- og jarðræktarnefnd.
5. Markaðs- og kjaranefnd.
6. Framleiðslunefnd.
Heimilt er að sameina nefndir og kjósa aðrar ef ástæða er til.

10. gr.Aukafundi skal halda þegar stjórn LS telur nauðsyn vera til svo og þegar 1/3 hluti aðildarfélaga krefst þess bréflega, enda hafi þau tilkynnt í hvaða tilgangi krafist er aukafundar. Skal fundur haldinn eigi síðar en 30 dögum eftir að krafan berst stjórninni í hendur og skal hann boðaður með minnst viku fyrirvara á sannanlegan hátt. Á aðal- og aukafundum gilda almenn fundarsköp í þeim atriðum sem meðfylgjandi reglur um starfshætti LS taka ekki til.
11. gr.Hvert aðildarfélag kýs einn fulltrúa úr hópi fullgildra félagsmanna á aðal- og aukafundi LS fyrir fyrstu 50 fullgilda félagsmenn sína. Tvo fulltrúa séu fullgildir félagsmenn 51-100, þrjá menn séu fullgildir 101-200 og þannig áfram. Fjöldi fulltrúa miðast við félagaskrá 1. janúar og er atkvæðisréttur þeirra bundinn því að skráin hafi borist LS fyrir 1. mars. Aðal- og aukafundir skulu opnir til áheyrnar öllum félagsmönnum LS.
12. gr.Kjörnir fulltrúar hafa einir atkvæðisrétt á fundum LS og ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða úrslitum í afgreiðslu mála, nema þar sem samþykktir þessar mæla fyrir um aukinn meirihluta. Séu atkvæði jöfn í kosningu trúnaðarmanna skal hún endurtekin. Séu atkvæði enn jöfn skal hlutkesti ráða.
13. gr.Stjórn LS er heimilt að boða formenn aðildarfélaga saman til fundar. Fundurinn skal vera stjórn til samráðs og ráðgjafar og er ályktunarhæfur sé meirihluti formanna á fundi, en stjórn er ekki bundin af ályktunum hans.
III. Kafli. Stjórn og starfsemi LS

14. gr.Stjórn LS skipa fimm menn og fjórir til vara kjörnir úr hópi fullgildra félagsmanna samtakanna og ganga þeir úr stjórn á víxl. Kosning fer þannig fram: Fyrst skal kosinn formaður til þriggja ára beinni skriflegri kosningu óháð búsetu. Fái enginn meira en helming atkvæða skal kosið aftur bundinni kosningu á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Því næst skulu kjörnir til þriggja ára stjórnarmaður og varamaður úr hverjum landsfjórðungi, þannig:
Vesturland og Vestfirðir frá Hvalfjarðarbotni að Hrútafjarðarbotni, fulltrúi næst kjörinn árið 2005.
Norðurland frá Hrútafjarðarbotni að Gunnólfsvíkurfjalli, fulltrúi næst kjörinn árið 2004.
Austurland frá Gunnólfsvíkurfjalli að Skeiðará, fulltrúi næst kjörinn árið 2007.
Suðurland frá Skeiðará að Hvalfjarðarbotni, fulltrúi næst kjörinn árið 2006.
Fulltrúar úr viðkomandi landsfjórðungi mynda uppstillingarnefnd. Hún hefur tvo valkosti hvað varðar uppstillingu:
a. Stilla upp fjórum mönnum úr sínum fjórðungi sem kjósa skal á milli. Varamaðurinn er síðan kosinn úr þeim þremur sem eftir eru.
b. Koma sér saman um einn aðalmann og einn varamann og skulu þeir þá sjálfkjörnir.

Kjörtímabil stjórnarmanna er þrjú ár og mega þeir ekki sitja lengur í stjórn en tvö kjörtímabil samfellt. Verði formaður kosinn úr hópi stjórnarmanna, skerða þau ár sem hann starfaði sem almennur stjórnarmaður ekki starfstíma hans sem formanns, sem er að hámarki þrjú kjörtímabil. Falli formaður frá eða verði að hætta störfum tekur varaformaður sæti hans fram að næsta aðalfundi, en þá skal kosinn formaður til loka kjörtíma fráfarandi formanns. Seta hans þann tíma bætist við seturétt í þrjú kjörtímabil. Falli stjórnarmaður frá eða verði að hætta störfum í stjórninni skal varamaður hans taka sæti sem aðalmaður út kjörtímabilið en nýr varamaður kosinn á næsta aðalfundi til loka kjörtímabils. Taki varamaður sæti í stjórn, bætist sá tími við seturétt hans í tvö kjörtímabil. Stjórn skal að loknum aðalfundi kjósa úr sínum hópi varaformann, ritara og gjaldkera sem er prókúruhafi samtakanna, sjá þó 15. gr.
15. gr.Stjórn LS fer með mál samtakanna milli aðalfunda og fylgir ályktunum þeirra eftir. Heimilt er stjórn að ráða framkvæmdastjóra er annist daglega stjórn samtakanna í samræmi við ákvarðanir stjórnar. Framkvæmdastjóri er prókúruhafi samtakanna. Stjórn getur skipað starfsnefndir í einstaka málaflokka sem gera þá tillögur til aðalfundar sé það talið henta.
16. gr.Formaður boðar stjórnarfundi. Stjórnarfundir skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir. Í fjarveru stjórnarmanns skal kalla til varamann. Formaður stýrir fundum stjórnar og er málsvari samtakanna út á við. Stjórnarfundi skal einnig boða ef tveir stjórnarmenn krefjast þess, enda hafi þeir tilkynnt formanni þá kröfu sína og getið þess í hvaða tilgangi beðið er um fundinn. Á stjórnarfundum skal einfaldur meirihluti ráða úrslitum mála og falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Stjórnin ritar fundargerð. Stjórnarfundur er lögmætur sé meirihluti stjórnar á fundi.
17. gr.Aðalfundur skal á ári hverju kjósa einn löggiltan endurskoðanda LS og annan til vara. Þá skal kjósa einn skoðunarmann reikninga og annan til vara. Reikningsár samtakanna er almanaksárið.
18. gr.Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundi LS og þarf til þess minnst 2/3 hluta atkvæða aðalfundarfulltrúa. Tillögur til lagabreytinga skulu sendar stjórn í tæka tíð og sendar til aðildarfélaga með fundarboði.
19. gr.LS hættir störfum ef það er samþykkt í formi lagabreytinga. Eignir samtakanna skulu þá afhentar Bændasamtökum Íslands er ráðstafa þeim í þágu þeirra bænda er sauðfjárrækt stunda.

 

Samþykkt á aðalfundi LS árið 2004

 


Starfshættir aðalfunda LS
1. Formaður setur fund og stjórnar kosningu kjörbréfanefndar og stýrir fundi þar til kosning fundarstjóra hefur farið fram.

2. Að afloknum kosningum starfsmanna, flutningi skýrslu stjórnar, framlagningu ársreikninga og almennum umræðum skulu skipaðar starfsnefndir fundarins samkv. 9. gr. II. kafla. Stjórn LS skipar fulltrúum í nefndir og ákveður hver er nefndarformaður. Í hverri nefnd skulu sitja að lágmarki þrír fulltrúar. Enginn má eiga sæti í fleiri en einni nefnd. Stjórnarmenn LS eru undanþegnir setu í nefndum, en starfa með þeim eftir því sem þurfa þykir. Fulltrúar sem óska eftir setu í einhverri sérstakri nefnd komi þeim óskum á framfæri við stjórn minnst tveimur dögum fyrir aðalfund.

3. Öll mál sem taka skal til meðferðar á fundinum skulu komin í hendur stjórnar LS eigi síðar en 2 vikum fyrir aðalfund. Þó getur fundurinn samþykkt að taka fyrir mál sem síðar koma fram.

4. Starfsnefnd lætur uppi álit sitt og skal fjölrita það og útbýta því meðal fulltrúa áður en málið er tekið til umræðu. Nefndarálit skal undirritað af nefndarmönnum og tilgreint hver sé framsögumaður. Stjórn LS getur fengið sérfræðinga til að starfa með nefndum ef hún telur það nauðsynlegt.

5. Fundarritarar færa fundargerð undir stjórn fundarstjóra. Auk tveggja ritara tilnefndra úr hópi fulltrúa skal stjórn ráða fundinum tölvuritara. Fundargerð skal dreifa til fulltrúa svo fljótt sem kostur er, eftir að fundi lýkur. Stjórn er heimilt að hljóðrita aðal- og formannafundi, enda sé það tilkynnt í upphafi fundar.

6. Málum sem lögð eru fyrir fundinn skal vísa til nefnda umræðulaust. Fundarstjóra er þó heimilt að leyfa flutningsmanni að reifa málið með stuttri ræðu. Eftir að nefndir hafa skilað áliti skal fara fram umræða um hvert mál. Komi fram fyrirspurnir til stjórnar eða starfsmanna LS má fundarstjóri ákveða umræðu um þær. Sá sem fyrirspurn er beint til, hefur sama rétt til ræðutíma og framsögumenn nefnda.

7. Skylt er fulltrúum að sækja alla fundi, nema nauðsyn banni. Varafulltrúar taka sæti aðalfulltrúa í forföllum þeirra með samþykki fundarstjóra.

8. Stjórn LS ræður fundinum skrifstofustjóra. Skrifstofustjóri fundarins er m.a. fundarstjóra til aðstoðar. Hann annast m.a. skráningu fundarskjala, umsjón með skrifstofuvinnu vegna fundarhaldsins, útgáfu og dreifingu fundarskjala. Þá skal hann í samráði við stjórn hlutast til um nauðsynlega gagnasöfnun vegna afgreiðslu þeirra mála er berast á tilsettum tíma fyrir fundarsetningu.

Samþykkt á aðalfundi LS árið 2004


Þórhildur Jónsdóttir gerði grein fyrir tillögu 2.2. frá allsherjarnefnd.

2.2. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27. - 28. júní 2004, hvetur stjórn LS til að kynna sér vel tilskipanir EES sem varða sauðfjárrækt með það að markmiði að fylgjast með því hvort skylt er að taka þær upp eða ekki.
Samþykkt samhljóða.

Sindri Sigurgeirsson kynnti endurskoðaðar tillögur framleiðslunefndar. Tillaga 6.1 var svæfð á síðasta nefndarfundi en tillaga 6.2. lögð fyrir óbreytt.

Þorvaldur Þórðarson lagði fram breytingartillögu um að bæta inn "en harmar lágt skilaverð til bænda." Guðrún Stefánsdóttir endurflutti breytingartillögu sína um að sleppa "fagnar þeim árangri sem náðst hefur í útflutningi á lambakjöti. Fundurinn " Til máls tóku Sævar Sigbjarnarson og Sindri Sigurgeirsson. Því næst lagði Sigríður Jónsdóttir fram breytingartillögu. Þorsteinn Sigjónsson talaði næstur. Einar Ófeigur Björnsson lagði fram breytingartillögu um að bæta inn "en bendir þó á að enn er langt í land að verð til bænda sé viðunandi." Baldur Grétarsson lagði fram breytingartillögu. Þorvaldur Þórðarson kvaðst tilbúinn að draga tillögu sína til baka ef stuðningur væri við tillögu Baldurs. Þá töluðu Sævar Sigbjarnarson, Gunnar Kristjánsson, Kjartan Lárusson.

Fundarstjóri bar breytingartillögu Baldurs undir fundinn og var hún samþykkt með meginþorra atkvæða gegn þremur svohljóðandi.
6.2. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27. - 28. júní 2004, telur nauðsynlegt að það fjármagn sem fæst til markaðssetningar lambakjöts erlendis fari til þeirra aðila sem nú standa að útflutningi.
Greinargerð:
Fundurinn er hlynntur áframhaldandi markaðsstarfi sem skilað hefur árangri í útflutningi á lambakjöti.
Tillagan borin upp aftur og samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri las tillögu stjórnar um starfshóp til að móta stefnu fyrir nýjan sauðfjársamning sem kynnt var í gær.

Kjartan Lárusson stakk upp á Jóhann Má Jóhannssyni sem áttunda manni í hópinn.

Birgir Ingþórsson lagði fram svohljóðandi breytingartillögu: "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Eiðum 27. - 28. júní 2004 felur stjórn LS að móta stefnu fyrir nýjan sauðfjársamning. Stjórnin skili áliti fyrir næsta aðalfund samtakanna." Næstur talaði Sævar Sigbjarnarson. Jóhannes Sigfússon skýrði sjónarmið stjórnar varðandi tillögu hennar.

Breytingartillaga Birgis borin upp og var hún felld með 14 atkvæðum gegn 13.

Fundarstjóri bar undir fundinn hvort kjósa skyldi sjö menn í hóp til að undirbúa gerð nýs sauðfjársamnings og var það samþykkt.

Niðurstaða leynilegrar kosningar í hópinn varð eftirfarandi:
Hörður Hjartarson 32 atkvæði
Smári Borgarsson 29 atkvæði
Þórhildur Jónsdóttir 29 atkvæði
Baldur Grétarsson 28 atkvæði
Baldur Björnsson 27 atkvæði
Einar Ófeigur Björnsson 26 atkvæði
Jóhann Ragnarsson 21 atkvæði

Næstir komu Jóhann Már Jóhannsson með 11 atkvæði og Jóhannes Sigfússon með 9 atkvæði.


13. Önnur mál

Ragnar Þorsteinsson ræddi um þungaskatt af díselbílum og þá breytingu sem orðin er. Hann hvetur stjórn LS til þess að mótmæla kröftuglega því að endurgreiðsla þungaskatts til bænda hefur verið felld niður en þar er um verulega kjaraskerðingu að ræða.


14. Kosningar

Fulltrúar Norðurlands tilkynntu kjör stjórnarmanns af sínu svæði til þriggja ára:
Jóhanna Pálmadóttir, Akri, og varamaður Einar Ófeigur Björnsson, Lóni.

Löggiltur endurskoðandi:
Eymundur Sveinn Einarsson hjá Endurskoðun og ráðgjöf. Kjörið með lófataki.

Skoðunarmaður og varamaður hans:
Gunnar Þórisson, Fellsenda, aðalmaður, og Albert Guðmundsson, Heggsstöðum, varamaður, kjörnir til eins árs með lófataki.


15. Fundarslit

Aðalsteinn Jónsson þakkaði fundarmönnum fyrir fundinn.

Jóhannesi Sigfússyni fannst fundurinn hafa verið góður og málefnalegur. Framtíðin væri það sem skipti síðan öllu máli og sá sem aldrei væntir neins kemur ekki til með að öðlast neitt. Jóhannes óskaði mönnum síðan góðrar heimferðar og sleit fundi kl. 17.55.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar