Fundargerð aðalfundar 2006

Aðalfundur L.S. Bændahöllinni v/Hagatorg
dagana 30. - 31. mars 2006

Fundarsetning
Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Jóhannes Sigfússon, setti fund kl. 13.05. Rakti ástæður þess að hann gerðist sauðfjárbóndi fyrir 34 árum og mikilvægi þess að festast ekki í kyrrstöðu og varnarbaráttu. Rakti stöðu þeirra sem hyggja á sauðfjárbúskap, m.t.t. greiðslumarks- og jarðakaupa. Vakti einnig máls á breyttum aðstæðum til sveita með uppkaupum jarða.
Benti á að gildismat ungs fólks á lífskjör og vinnuaðstöðu séu önnur og hagfræðileg rök vega meira nú en áður. Ef ekki tekst að bjóða sauðfjárbændum framtíðarinnar uppá sambærileg kjör og annars staðar í þjóðfélaginu, þá sé framtíðin ekki of björt. Þó má ekki vanmeta tilfinningaleg gildi þess að velja sér starf sem sauðfjárbóndi, og líklegast hefur Landbúnaðarráðherra hitt naglann á höfuðið í lýsingu sinni á íslensku bændarómantíkinni. Taldi birgðastöðu lambakjöts gefa tilefni til kjaraleiðréttinga.

Kosning fundarstjóra og fundarritara
Formaður lagði til að fundarstjórar verði Aðalsteinn Jónsson og Guðrún Stefánsdóttir. Fundarstjórar tóku við stjórn og lögðu til að Lárus Sigurðsson og Halla Steinólfsdóttir yrðu fundarritarar. Tillagan samþykkt samhljóða.

Kosning kjörbréfanefndar
Eftirfarandi fulltrúar voru samþykktir til starfa í kjörbréfanefnd:
Örn Bergsson, Eggert Kjartansson, Þórarinn Pétursson

Ávörp gesta

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Þakkaði formanni fyrir setningarræðu og sagði hann hafa náð að segja það sem margir væru að hugsa. Rakti starfsemi útgáfu- og kynningarsviðs. Áhugi er á að hafa nánara samstarf við afurðastöðvar í landbúnaði í sambandi við skólaheimsóknir grunnskólabarna.
Sagði frá því að búið væri að halda fyrsta fund við gerð nýs sauðfjársamnings. Í stuttu máli sagt er það vilji nefndarinnar að útbúa sauðfjársamning sem skilur sauðfjárbændur eftir sem einn hóp, og varaði í því sambandi við sundrungu í röðum sauðfjárbænda.

Drífa Hjartardóttir, formaður landbúnaðarnefndar Alþingis. Bar kveðju þingflokks Sjálfstæðisflokks og þakkaði samtökunum fyrir gott samstarf við landbúnaðarnefnd. Óskar samtökunum til hamingju með stöðuna sem er í dag á kjötmarkaðinum þar sem eftirspurn eftir lambakjöti hefur stóraukist. Mikilvægt er að samningar við ríkið verði góðir þannig að lífvænlegt verði að stunda sauðfjárrækt til framtíðar. Hvatti sauðfjárbændur til að standa saman í samningagerðinni, þannig næðist besti samningurinn fyrir greinina í heild.

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna. Flutti kveðju frá þingflokki Vinstri grænna. Tók undir orð Drífu um að landbúnaðarnefnd Alþingis væri ein skemmtilegast nefnd þingsins.
Tók einnig undir orð formanns LS, um áhyggjur af þróun í jarðaverði og uppkaupum á jörðum sem falla um leið úr hefðbundinni landbúnaðarframleiðslu. Rakti takmarkanir á aflaheimildum í sjávarútvegi sem dæmi um hvernig þurfi að setja reglur um samþjöppun á eignarhaldi á greiðslumarki í sauðfjárrækt. Telur að samþjöppunin veiki atvinnuveginn í heild og mikilvægt sé að taka á málinu sem allra fyrst. Óskaði í lokin fundarmönnum góðra starfa og bjartrar framtíðar.

Fleiri höfðu ekki hvatt sér hljóðs og lokaði fundarstjóri mælendaskrá, þó með þeirri undantekningu að veita Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra orðið óski hann þess við komu á fundinn.

Skýrslur og ársreikningar

Skýrsla stjórnar, Jóhannes Sigfússon flutti skýrslu stjórnar, sem lá prentuð fyrir fundinum.

Gunnar Kristjánsson, fulltrúi LS í stjórn Ístex, gerði grein fyrir störfum fyrirtækisins á liðnu ári. Skýrslan lá prentuð fyrir fundinum.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Markaðsráðs kindakjöts, gerði grein fyrir störfum ráðsins á árinu. Skýrslan lá prentuð fyrir fundinum.

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, gjaldkeri LS, gerði grein fyrir reikningum LS. Reikningarnir liggja fyrir í gögnum fundarins.


Skýrsla kjörbréfanefndar - kynning fulltrúa
Örn Bergsson, starfsmaður kjörbréfanefndar kynnti störf nefndarinnar.

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Kjalarnesþings
Guðbrandur Hannesson, Hækingsdal

Félag sauðfjárbænda í Borgarfirði
Einar G. Örnólfsson, Sigmundarstöðum
Jón Eyjólfsson, Kópareykjum
Árni B. Bragason, Þorgautsstöðum

Félag sauðfjárbænda í Snæfells og Hnappadalssýslu
Þóra Sif Kópsdóttir, Ystu-Görðum
Eggert Kjartansson, Hofsstöðum
Brynjar Hildibrandsson, Bjarnarhöfn

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu
Ásmundur Daðason, Lambeyrum
Halla Steinólfsdóttir, Ytri-Fagradal
Guðbrandur Þorkelsson, Skörðum

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Vestfjarða
Karl Kristjánsson, Kambi
Þorvaldur Þórðarson, Stað

Félag sauðfjárbænda í Strandasýslu
Guðbrandur Sverrisson, Bassastöðum
Sigurður Jónsson, Stóra-Fjarðarhorni

Félag sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu
Ólafur Benediktsson, Miðhópi
Böðvar S. Böðvarsson, Mýrum II

Félag sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu
Birgir Ingþórsson, Uppsölum
Jón Kristófer Sigmarsson, Hæli
Gunnar Kristjánsson, Akri

Félag sauðfjárbænda í Skagafirði
Smári Borgarsson, Goðdölum I
Agnar Gunnarsson, Miklabæ
Jónína Stefánsdóttir, Stóru Gröf ytri

Félag sauðfjárbænda við Eyjafjörð
Þórarinn Pétursson, Laufási
Birgir H. Arason, Gullbrekku

Félag sauðfjárbænda í S-Þingeyjarsýslu
Ragnar Þorsteinsson, Sýrnesi
Vagn H. Sigtryggsson, Hriflu
Sigurður Atlason, Ingjaldsstöðum

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi N-Þingeyinga
Einar Ófeigur Björnsson, Lóni
Jóhannes Sigfússon, Gunnarsstöðum

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Austurlands
Bragi Vagnsson, Burstarfelli

Félag sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum
Baldur Grétarsson, Kirkjubæ
Aðalsteinn Jónsson, Klausturseli
Anna Bryndís Tryggvadóttir, Brekku

Félag sauðfjárbænda á Suðurfjörðum

Lárus Sigurðsson, Gilsá

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi A-Skaftfellinga
Örn Bergsson, Hofi
Sigurbjörn Karlsson, Smyrlabjörgum

Félag sauðfjárbænda í V-Skaftafellsýslu
Ólafur Björnsson, Reyni
Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri

Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu
Margrét Eggertsdóttir, Köldukinn
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti
Ágúst Rúnarsson, Vestra-Fíflholti

Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Jóhannes Sveinbjörnsson, Heiðarbæ
Gunnar Þórisson.

Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

Ásmundur Daðason, þakkaði skýrslu stjórnar. Gerði grein fyrir ástæðum þess að hann ákvað að bjóða sig fram til formanns LS og þeim hugmyndum sem hann hefur um framtíðar hlutverk samtakanna og hvernig beri að vinna að þeim. Hann sagði markmið framboðsins hafa verið að efla og víkka starfsemi LS en vegna þeirra samsæriskenninga sem af stað hafa farið vegna framboðs hans til formanns þá hafi hann ekki séð fram á að stefnumál hans yrðu litin réttum augum og því ákveðið að draga framboð sitt til baka. Þakkaði í lokin þeim sem hann ræddi við í aðdraganda fundarins og minnti á að LS snúist um meira en ríkisstuðning og að hagsmunamál samtakanna liggi víða og nauðsynlegt væri að sýna samstöðu og virkja innra starf samtakanna til að þau verði sem öflugust í hagsmunabaráttu sauðfjárbænda. Sagði máltækið "Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér" eiga mjög vel við um stöðu samtakana í dag og ítrekaði að framtíð þeirra væri í höndum félagsmanna.


Sigurður Jónsson, þakkaði skýrslur og ávörp. Sagðist sammála formanni LS að það væri lítil hagfræðileg glóra í sauðfjárbúskapi. Sagðist hafa verið í Bændahöllinni fyrir 20 árum þegar grunnur að samtökunum var lagður og einnig á stofnfundinum sem haldinn var á Hvanneyri. Á þeim fundi var samþykkt tillaga um að lækka eins og kostur væri verð til neytenda. Tillagan var síðan send á aðalfund S.B. en mætti þar harðri andstöðu fundarmanna. Nokkrum árum síðar voru undirritaðir "þjóðarsáttar"-samningar þar sem neytendur fengu verulega lækkun á dilkakjöti. En bændur fengu helming tekna sinna sem beinar greiðslur frá ríkinu, en var jafnframt gert að taka á sig 20% framleiðniaukningu sem þeim var ætlað að ná með hagræðingu. Sauðfjárbændur höfðu þá þegar hagrætt hjá sér eins og þeir gátu og hefur því alla tíð síðan vantað þessi 20% á sínar tekjur. Þetta hefur m.a. blasað við í minna viðhaldi útihúsa í sveitum landsins. Á fyrstu árum samtakanna voru helstu verkefnin fólgin í að berjast fyrir hagsmunum félagsmanna sem heildar. Telur mikilvægt nú að menn standi saman um að sækja meiri stuðning til ríkisvaldsins og hætti að einbeita sér að því hvernig þeir nái til sín peningum sem eiga renna til nágrannans samkvæmt gildandi samningum hverju sinni.

Birgir Ingþórsson, þakkaði framkomnar skýrslur. Leggur til að sauðfjárbændur breyti hugsunarhættinum frá því sem verið hefur undanfarin 20 ár. Sammála síðasta ræðumanni um að 20% úr þjóðarsáttinni sitji enn í mönnum. Telur ákveðin tímamót í dag hvað varðar sölumál og leggur áherslu á að tekið verði á málunum á líðandi stundu, og reyna að auka bjartsýni í greininni. Nauðsynlegt fyrir samninganefndina að vinna útfrá þeirri forsendu að sauðfjárrækt verði samkeppnisfær við aðrar atvinnugreinar hvað launin varðar. Sauðfjárbændur þurfa að geta sýnt fram á við ríkið og sláturleyfishafa hvaða laun sauðfjárbændur hafa í dag til að miða við. Launin fara hins vegar tæpast upp nema við það að framleiðslumagn á hvert ársverk hækki. Í því sambandi er mikilvægt að skoðað verði hvernig hægt er að spara í húsbyggingum og vinnuhagræðingu. Telur hluta af ástæðu fyrir gagnrýni á LS að BÍ hafi verið með puttana of mikið í þeirra starfi.
Telur að setja þurfi upp módel þannig að hægt sé að sýna framá launaþátt greinarinnar. Telur að sauðfjárbændur eigi inni hjá sláturleyfishöfum hvað varðar hagræðingu af fækkun sláturhúsa, og telur að sláturleyfishafar þurfi að hagræða meira í sínum rekstri. Vill að hagræðingarkröfu á sláturhúsin verði beitt þegar farið verði í verðumræður fyrir haustið.

Fleiri kváðu sér ekki hljóðs og bar forseti því upp reikninga félagsins. Reikningarnir samþykktir samhljóða.

Erindi:
Kynning á kennslu- og rannsóknaraðstöðu LBHÍ í sauðfjárrækt. Snorri Sigurðsson, framkv.stj. búrekstrarsviðs Landbúnaðarháskólans, flutti erindi um starfsemi Landbúnaðarháskólans á svið sauðfjárræktar.


Ávörp gesta frh.
Guðni Ágústsson, ávarpaði samkomuna og óskaði sauðfjárbændum til hamingju með stöðu íslensks landbúnaðar í dag. Rifjaði upp þann orðróm að sauðfjárbúskapur myndi leggjast af í hans tíð, en það hefur aldeilis ekki orðið raunin. Lambakjötið er "inn" í dag og það á mikla möguleika á að vaxa enn frekar. Leggur til að næsti samningur verði ekki til styttri tíma en 7 ára þannig að stöðugleiki greinarinnar verði tryggður. Telur mikilvægt að nýr sauðfjársamningur verði samþykktur á næsta haustþingi.
Mikilvægt fyrir íslenskan landbúnað að hlúa að ungum neytendum og þakkar sveitarfélögum fyrir að hafa tekið upp skólamáltíðir í skólum landsins þar sem boðið er uppá hollan íslenskan mat. Að þessu samstarfi þurfa bændur landsins að hlúa.
Hvatti sauðfjárbændur til samstöðu og vonaðist eftir nýjum samningi fyrir næstu jól.
Óskaði í lokin fundarmönnum góðs fundar og þakkaði samstarfið undanfarin ár.

Kaffihlé

Erindi frh:

Framleiðslukostnaður í sauðfjárrækt.
Dr. Daði Már Kristófersson, hagfræðingur BÍ, flutti erindi um samanburð á framleiðslukostnaði í sauðfjárrækt. Borinn var saman kostnaður við framleiðslu per. kg af lambakjöti, í Noregi, Bretlandi og Íslandi. Niðurstaða erindisins sú að íslenskir sauðfjárbændur eru fyllilega samkeppnisfærir við kollega sína í Bretlandi hvað varðar kostnað við framleiðsluna.

Breyttar aðferðir og eftirlit við kjötmat.
Stefán Vilhjálmsson fagsviðsstjóri kjötmats, flutti erindi um starf kjötmatsins. Uppi eru hugmyndir að hafa starfandi 1 kjötmatsmann í hverju húsi sem flyttust á milli sláturhúsa yfir sláturtíðina. Þessir starfsmenn yrðu kostaðir af yfirkjötmatinu. Því miður þá virðist útlit fyrir að ekki takist að manna þessa hugmynd í næstu sláturtíð. Leggur til eftirfarandi breytingar til að styrkja kjötmatið:
· Fjölgað verði yfirmatsmönnum um ca. 2 þannig að starfandi verði 5 yfirmatsmenn.
· Kjötmatsmenn fari á milli sláturhúsa í styttri tíma í senn, 1-2 daga.
· Niðurstöður kjötmats liggi fyrir á meðan á sláturtíð stendur yfir.
Með þessu móti á að reyna að koma til móts við þær gagnrýnisraddir sem hljómuðu eftir síðustu sláturtíð.
Sjálfvirkt kjötmat er til skoðunar hjá KS. Tækið sem til skoðunar er mælir kjöt- og fituhlutfall í skrokknum en skilar ekki EUROP-flokkun skrokksins.

Kynning á rannsókn á orsökum dauðfæddra lamba
Jón Viðar Jónmundsson, gerði grein fyrir stöðu á verkefni því sem ætlað er að rannsaka ástæður fyrir dauðfæddra lamba. Hjalti Viðarsson, dýralæknir, hefur verið fenginn til samstarfs um að rannsaka ástæður fyrir lambadauða. Verkefnið byggir á því að bændur hafi samband við Hjalta, verði vart við óeðlileg vanhöld. Hann ásamt Sigurði Sigurðarsyni mun sjá um krufningu hræja. Hjalti mun verða á vakt frá lokum apríl og til 20.maí, en eftir þann tíma er gert ráð fyrir að farið verði í vettvangsferðir þar sem vart verður við óeðlileg lambavanhöld. Mikilvægt er að menn sameinist um að auglýsa verkefnið útí sveitum landsins, því að verkefnið skilar engum árangri ef bændur ekki taka þátt.

Fyrirspurnir og umræður um erindi.
Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, þakkaði fróðleg erindi. Fannst erindi Daða einkar áhugavert og varpaði fram þeirri spurningu til Daða hvort að sauðfjárræktin myndi hagnast á því að taka upp annan gjaldmiðil, t.d. Evru. Spurði einnig hvort að íslenskir sauðfjárbændur hefðu samkvæmt hans tilfinningu ekkert að óttast, gangi Ísland í Evrópusambandið.

Guðrún Stefánsdóttir, þakkaði góð erindi. Spyr Daða hvort að stærðin í Bretlandi skili ekki auknum hagnaði ? Spyr hvort að inní tölunum séu styrkgreiðslur vegna vegagerða, girðinga o.fl. ? Hvernig er fóðurkostnaðurinn fundinn í Bretlandi, meira og minna útigangandi fé ?
Spyr Stefán hver eðlileg vikmörk við kjötmat séu ?
Spyr Hjalta hvort þeir ætli að skoða myglu í rúllum á þeim tíma sem að lambalátið átti sér stað ?

Þorvaldur Þórðarson, fannst vinna Daða vera upphaf að meiri vinnu sem þurfi að fara í að skoða, s.s. slátur- og vinnslukostnað og kostnað í smásölunni. Fannst liggja beinna við að sameinast Noregi heldur en að ganga í Evrópusambandið. Fagnar vinnu kjötmatsins til samræmingar, en telur ljóst að aldrei verði fullkomið samræmi.

Smári Borgarson, þakkaði fróðleg erindi. Skoraði á þá sem ætla að skoða lambavanhöld að hafa samband við fósturtalningafólk sem fer um landið, það búi yfir heilmiklum fróðleik um þetta mál. Vísaði til áhugaleysis dýralækna með mál sem snéri að lambadauða.

Daði Már, svaraði framkomnum spurningum.

Sigurgeir Þorgeirsson, sagði frá því að verið væri að skoða verðmyndun á lambakjöti alla leið, þó að ekki væri víst að næðist að skoða tölur úr smásölugeiranum.
Sagði tölurnar sem notaðar voru við athugunina vera sambærilegar í heild sinni.

Bragi Vagnsson, vildi frá leiðbeiningar frá dýralæknunum hvernig meðhöndla eigi þau dauðfæddu lömb sem fæðast í vor. Sagðist hafa orðið hissa á kostnaðartölum á milli landa, og taldi skýringu Sigurgeirs á launaliðnum trúverðuga.

Þóra Sif Kópsdóttir, þakkaði góð erindi. Sagðist óhress með að ekki hafi náðst að hafa flökku-matsmenn í sláturhúsunum, því þannig hefði verið hægt að ná ákveðinni sátt um málið. Spurðist fyrir um hver borgi þann kostnað sem til fellur vegna rannsókna á lambshræjum.

Fanney Ólöf Lárusdóttir, þakkaði góð erindi. Tók undir orð Þóru um að hún væri ósátt með að ekki hefði náðst að fjölga matsmönnunum. Vildi að skoðað yrði hvort að frávik í mati séu ekki of víð þannig að menn komist upp með að meta of lágt eða of hátt.

Jóhannes Sveinbjörnsson, þakkaði fróðleg erindi. Vildi að lambalát væri flokkað sem fósturlát og síðan einnig sem dauðfædd lömb. Taldi hægt að nota fósturtalningar til aðstoðar í því. Vill að tekið sé á holdafari þeirra áa sem bera dauðum/líflitlum lömbum. Ef að ærnar eru ekki farnar að tapa holdum við burð þá eru þær ekki að fá e-vítamín úr fituvef. Vildi að menn skoðuðu að nota ekki útrunnin vítamín þar sem verið væri að gefa steinefni og vítamín til ánna.

Böðvar Böðvarsson, sagði frá baráttu lambadauða hjá nágranna sínum sem hefði sprautað allar sínar ær með 5 ml af selen nokkrum vikum fyrir burð með góðum árangri. Sagðist feginn því að ekki væri verið að rótera matsmönnum á milli sláturhúsanna og velta þannig upp nýjum fleti til að rífast um.

Jón Viðar Jónmundsson, svaraði Þóru því til að kostnaður vegna greiningar á lömbum félli á verkefnið. Þess vegna væri mikilvægt að öll samskipti væru í gegnum Hjalta sem mun stýra verkefninu. Hann mun meta útfrá samtölum hvert framhaldið verði í hverju tilfelli.

Baldur Grétarsson, þakkaði fróðleg erindi. Spyr hvort ekkert hafi komið fram á þeim tíma sem lambadauði hefur verið í gangi, sem aðstoða geti við lausn málsins. Sjálfur hafi honum verið bent á hugsanlega J-skort, og hafið að gefa þangmjöl sem hafi slegið mjög á lambadauða.

Smári Borgarson, fagnar því að mál það sem hann nefndi hefði farið í réttan farveg.

Sigurður Sigurðarson¸ sagði að verið væri að skoða blóðsýni sem tekin hafa verið úr bæði gemlingum og eldra fé. Ekki hafi mælst mótefni við toxoblasmín (kattafár) en sést hafi breytingar á fylgjunni sem bendi til þeirrar eitrunar.

Einar Ófeigur Björnsson, mælti með því að mynd efni það sem væri hugsað fyrir kjötmatsmenn yrði sett á netið þannig að bændur gætu skoðað það til glöggvunar. Sagði ljóst að kjarabætur yrðu ekki sóttar í afurðaverð eða til ríkisins heldur yrði að fækka bændum og stækka búin til að auka tekjurnar.

Jóhannes Sigfússon, sagðist áhugasamur um lambadauðamálið. Eldri bændur segja að ekki hafi orðið vart við jafn mikinn lambadauða hér áður fyrr. Lenti sjálfur í því í vor að senda suður tvö lömb sem greindust með skemmda eða ónýta lifur, sem líklegast sé að hafi gerst í móðurkviði. Trúir því varla að slíkt eigi við um 40-50 ær hjá sér síðastliðið vor.

Jónína Stefánsdóttir, sagðist kannast við lambadauða úr eigin búrekstri. Hjá henni hafi verið greint kattafár í lömbum og enginn köttur staðsettur á búinu. Spyr Sigurð hvort að kattafár tengist köttum ?

Sigurður Sigurðarson, sagði að algengasta ástæða fósturláts væri kattafár. Sníklar þeir sem valda því lifa mánuðum saman í umhverfinu. Til að staðfesta smitið er hægt að taka blóðsýni úr móðurunni. Ímyndar sér að fósturdauði í gemlingum sé af völdum kattafárs. Ráðleggur mönnum að taka ekki á fóstrum berum höndum, leiki grunur á að um kattafár sé að ræða, þar sem það getur borist í menn.

Stefán Vilhjálmsson, svaraði framkomnum ábendingum. Svaraði því til að búið væri að þrengja vikmörk mats. Leyfileg hliðrun er 15% en við 10% hliðrun eru gerðar athugasemdir við matið. Vinnureglan er sú að falli menn á mati, þá er eftirlit með viðkomandi matsmanni aukið og bil á milli eftirlitsferða stytt. Ekki hefur komið til þess að matsmaður hafi fallið á 3 úttektum þannig að enginn hefur verið settur af enn sem komið er.
Í haust verður í fyrsta sinn tilnefndur einn kjötmatsmaður í hverju húsi sem er ábyrgur fyrir kjötmati hússins.

Fundarstjóri kynnti tillögu stjórnar að uppstillingarnefnd fyrir kosningar til formanns og búnaðarþingsfulltrúa: Einar Ófeigur Björnsson, Guðrún Stefánsdóttir, Anna Bryndís Tryggvadóttir, Karl Kristjánsson.
Sunnlenskir fulltrúar á fundinum þurfa sömuleiðis að ákveða sinn fulltrúa í stjórn LS.

Mál lögð fram og vísað til nefnda.
Fundarstjóri og framkvæmdastjóri LS kynntu formenn og fundarstaði starfsnefnda fundarins og er nefndarskipan eftirfarandi:

Allsherjarnefnd: Ásmundur Daðason (formaður), Jón Kristófer Sigmarsson, Agnar Gunnarsson, Ágúst Rúnarsson, Þóra Sif Kópsdóttir, Örn Bergsson, Þorvaldur Þórðarson.

Fagráðsnefnd: Aðalsteinn Jónsson (formaður), Árni B. Bragason, Ólafur Benediktsson, Halla Steinólfsdóttir, Vagn H. Sigtryggsson, Margrét Eggertsdóttir, Eggert Kjartansson.

Fjárhagsnefnd: Gunnar Kristjánsson (formaður), Jón Eyjólfsson, Böðvar S. Böðvarsson, Guðbrandur Þorkelsson, Sigurður Atlason.

Framleiðslunefnd: Lárus Sigurðsson (formaður), Einar G. Örnólfsson, Birgir Ingþórsson, Guðbrandur Sverrisson, Þórarinn Pétursson, Sigurbjörn Karlsson, Fanney Ólöf Lárusdóttir.

Markaðs- og kjaranefnd: Einar Ófeigur Björnsson (formaður), Sigurður Jónsson, Smári Borgarsson, Birgir Arason, Ragnar Þorsteinsson, Ólafur Steinar Björnsson, Guðrún Stefánsdóttir, Jóhannes Sveinbjörnsson, Baldur Grétarsson.

Umhverfisnefnd: Guðbrandur Hannesson (formaður), Jónina Stefánsdóttir, Anna Bryndís Tryggvadóttir, Ragnar Lárusson, Brynjar Hildibrandsson, Bragi Vagnsson, Karl Kristjánsson.


föstudagurinn 31. mars
Fundur settur að nýju 10:25.

Gunnar Kristjánsson, kynnti tillögur Fjárhagsnefndar og bar upp tillögur hennar að fjárhagsáætlun fyrir árið 2006.

Forseti gaf orðið laust um málið og kvaddi sér enginn sér hljóðs. Tillagan var síðan samþykkt samhljóða.

Tillaga 3.1
Margrét Eggertsdóttir, framsögumaður Fagráðsnefndar kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 skorar á Landbúnaðarháskóla Íslands að hefja nú þegar undirbúning að vinnslu kennslubókar í sauðfjárrækt líkt og unnið er að í nautgriparækt."

Forseti gaf orðið laust en enginn kvað sér hljóðs. Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 3.2
Árni B. Bragason, framsögumaður Fagráðsnefndar kynnti tillögu 3.2, sem er svohljóðandi:
"Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 leggur áherslu á að efldar verði rannsóknir á sviði sauðfjárræktar hjá LBHÍ. Forgangsverkefni verði vinnuhagræðing á sauðfjárbúum og aukin hagkvæmni í rekstri."  Forseti gaf orðið laust en enginn kvað sér hljóðs. Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 3.3
Vagn Sigtryggsson, framsögumaður Fagráðsnefndar kynnti tillögu 3.3 sem er svohljóðandi:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 skorar á Yfirdýralækni að heimila endurnýtingu eyrnamerkja úr sláturlömbum, án þess að hver einstakur bóndi þurfi að sækja um það sérstaklega. Viðkomandi sláturhús beri ábyrgð á sótthreinsun allra lambamerkja."

Greinargerð:Árleg merkjakaup valda umtalsverðum kostnaði hjá sauðfjárbændum. Fái bændur merkin heim geta þeir í mörgum tilfellum leiðrétt skekkjur í skráningu innlagðra dilka. Í takti við vaxandi umhverfisvernd er sjálfsagt að bændur taki þátt í að draga úr mengun. Endurnýting lambamerkja er einn liður í því.

Forseti gaf orðið laust en enginn kvaddi sér hljóðs. Tillagan samþykkt samhljóða.


Tillaga 3.4
Eggert Kjartansson, framsögumaður Fagráðsnefndar kynnti tillögu 3.4 sem er svohljóðandi.
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 lýsir yfir ánægju sinni yfir þeim lagfæringum sem hafa náðst á merkingareglugerðinni en beinir því jafnframt til stjórnar LS að halda áfram að fylgjast með því máli með það fyrri augum að aðlaga hana betur að vinnufyrirkomulagi og hagsmunum bænda."
Greinargerð:Nægjanlegt ætti að vera að reglugerðin uppfylli þær kröfur að hægt sé að rekja hvert dýr frá uppruna til neytanda.

Forseti gaf orðið laust.

Bragi Vagnsson gerði tillögu að orðalagsbreytingum hvað varðar rekjanleika.

Málið sent til skoðunar í nefndinni.

Tillaga 3.5
Ólafur Benediktsson, framsögumaður Fagráðsnefndar kynnti tillögu 3.5 sem er svohljóðandi.
"Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 beinir því til Landbúnaðarháskóla Íslands að stefna markvisst að því að efla búfræðinám og gera það eftirsóknarvert fyrir ungt fólk.  Það er nauðsynlegt að skólinn aðlagi sig ætíð þeim miklu breytingum sem verða ár frá ári og styrkja þannig landbúnaðinn í heild sinni."
Forseti gaf orðið laust en enginn kvaddi sér hljóðs. Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 3.6
Halla Steinólfsdóttir, framsögumaður Fagráðsnefndar kynnti tillögu 3.6 sem er svohljóðandi.
"Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 fagnar þeirri vinnu sem er farin af stað við nýjan Fjárvís og hvetur til áframhaldandi þróunar. Þó lýsir fundurinn áhyggjum á óviðunandi nettengingum víða um land.  Fundurinn beinir því til LS og BÍ að beita sér fyrir því að netsamband á bændabýlum verði bætt. Tryggðar verði áfram viðunandi lausnir varðandi skýrsluhald í sauðfjárrækt, þar til allir hafa fengið ásættanlega nettengingu."
Forseti gaf orðið laust.

Þóra Sif Kópsdóttir, sagði hugmyndina að tillögunni hafa verið þá að möguleiki væri á að vinna í Fjárvís án þess að vera tengd allan tímann.

Guðrún Stefánsdóttir, tók undir orð Þóru um áhyggjur af því að þurfa að vera nettengd á meðan á vinnu stendur.

Gunnar Kristjánsson, sagði tillögunni gera ráð fyrir fjárbókunum áfram.

Sigurður Kristjánsson, óskaði eftir því að nefndin tæki málið til endurskoðunar og gerði tillöguna mun nákvæmari. Taldi mikla afturför fólgna í því að ekki væri hægt að gera upp afkvæmarannsóknir beint.

Einar Ófeigur Björnsson, sagðist kannast við málið þar sem hann væri í prófunarhópi forritsins. Hans skoðun væri hins vegar sú að menn hafi flýtt sér fullmikið í að senda forritið út til kynningar. Enn vantaði mikið á skýrslur og fleira praktískt inní forritið. Það væri þó helsti löstur forritsins hversu hægt það ynni og ef ekki yrði gerð bragarbót á því þá myndi þetta forrit aldrei komast í almenna notkun hjá sauðfjárbændum.

Aðalsteinn Jónsson, sagði tillöguna hafa fengið þessa niðurstöðu eftir fund með Jóni Baldri og Jóni Viðari.

Lárus Sigurðsson, sagðist ekki hafa ætlað að blanda sér í umræðuna, þar sem hann hafi í raun ekkert útá tillöguna að setja. Hann hefur hins vegar verið lengi ósáttur við það hvernig staðið hefur verið að málinu í heild sinni. Það er algerlega aftan úr forneskju að bændur þurfi áfram að vinna með gamla Fjárvís og með öllu óskiljanlegt að ekki skuli vera til hugbúnaðarfyrirtæki sem geti tekið að sér að útbúa viðunandi lausn í þessu máli.

Ásmundur Daðason, þakkaði fyrir þarfa umræðu um þetta mál. Sagði frá verkefni sem Lambeyrarbændur eru að vinna að verkefni sem felur í sér lófatölvulausn sem tengist við Fjárvís á netinu.

Guðbjartur Sverrisson, sagðist hafa misst af kynningarfundi á sínu svæði þannig að hann er kannski ekki fullkomlega inní málinu. Hann sér hins vegar ekki fram á að gamla Fjárvís verði mikið viðhaldið þegar komið er nýtt kerfi í notkun. Sér ekki fyrir sér annað en að flestir fundarmenn verði orðnir rosknir þegar komnar verði viðunandi lausnir í nettenginum til sveita.

Einar Ófeigur Björnsson, sagði málið orðið allgamalt þar sem það hefði m.a. verið afgreitt af Búnaðarþingi fyrir 6 árum. Vill að skoðaðar verði lausnir þar sem upplýsingar verði skráðar, t.d. í Excel, og gögnin send inní Net-Fjárvís sem textaskrá.

Forseti vísaði tillögunni til nefndar til endurskoðunar.

Tillaga 3.4 frh.
Eggert Kjartansson, framsögumaður Fagráðsnefndar kynnti tillögur að breytingum á tillögu 3.4 .

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, gerði tillögur að orðalagsbreytingum á tillögunni.

Böðvar Böðvarsson, gerði tillögur að orðalagsbreytingum á tillögunni.

Baldur Grétarsson, tillögur að orðalagsbreytingum á tillögunni.

Jóhanna Pálmadóttir, gerði grein fyrir umræðum á Alþingi um rekjanleika afurða. Leggur til að nefndin taki tillöguna til endurskoðunar.

Karl Kristjánsson, lagði til að greinargerðin yrði felld út þar sem tillagan segði það sem segja þar.

Þorvaldur Þórðarson, gerði tillögur að orðalagsbreytingum á greinargerðinni.

Birgir Ingþórsson, lagði til að greinargerðin yrði felld út.

Lárus Sigurðsson, formaður framleiðslunefndar gerði grein fyrir störfum nefndarinnar og þeim málum sem ekki komu úr nefndinni.
Tillögur frá Snæfellingum um úttekt á stöðu kjötmarkaðar kemur ekki úr nefnd. Frá Dalamönnum kom tillaga um rekjanleika afurða. Ekki þótti ástæða til að flytja tillöguna á fundinum þar sem merkingarreglugerðin tekur á málinu.

Tillaga 4.1
Fanney Ólöf Lárusdóttir, framsögumaður Framleiðslunefndar kynnti tillögu 4.1 sem er svohljóðandi.
  "Aðalfundur Landsamtaka sauðfjárbænda haldinn 30.-31. mars 2006 samþykkir að skora á Landbúnaðarstofnun að vinna að samræmingu á kjötmati og fitusnyrtingu dilkaskrokka í sláturhúsum landsins. "
Greinargerð:Of mikið ósamræmi er í kjötmati milli sláturhúsa og jafnvel matsmanna í sömu sláturhúsum. Með fækkun sláturhúsa hafa bændur farið að senda sláturlömb í fleiri en eitt sláturhús og hefur verið töluvert ósamræmi á þeim hópum í mati eftir því í hvaða sláturhúsi lömbunum er slátrað. Jafnframt er samræming kjötmats mikilvægur þáttur ræktunarstarfs sauðfjárbænda. Karl Kristjánsson, gerði grein fyrir því að Yfirkjötmat er ekki lengur til, er nú hluti af Landbúnaðarstofnun.

Guðrún Stefánsdóttir, saknar þess að fram komi í tillögunni að meðalfrávik sé of mikið eins og það er í dag.

Böðvar Böðvarsson, gerði athugasemdir við orðalag.

Forseti bað nefndina um að skoða framkomnar athugasemdir.

Tillaga 4.2
Þórarinn Pétursson, framsögumaður Framleiðslunefndar kynnti tillögu 4.2 sem er svohljóðandi.
  "Aðalfundur Landsamtaka sauðfjárbænda haldinn 30.-31. mars 2006 samþykkir að beina því til stjórnar Landsamtaka sauðfjárbænda að skoða hvort hagræði verði af því að flutningskostnaður verði færður inn í sláturkostnað við uppgjör sláturleyfishafa við sauðfjárbændur."
Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, spurði hvort ekki væri eðlilegt að beina tillögunni beint til Landsamtaka sláturleyfishafa.

Agnar Gunnarsson, bendir á það að margir bændur hafi hagsmuni af því að keyra sitt fé sjálfir til slátrunar og því sé þetta ekki hagsmunamál skagfirðinga.

Einar Ófeigur Björnsson, leggur til að tillagan verði dregin til baka.

Sigurður Jónsson, tók undir orð Einars Ófeigs um að tillagan verði dregin til baka, sérstaklega þar sem gott er í viðræðum við sláturleyfishafa að hafa allar kostnaðartölur uppá borðinu.

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, sagði tillöguna ekki fela í sér afstöðu, heldur að skoðað hvort hagræði sé af því að breyta þessum hlutum.

Guðbrandur Hannesson, sagðist fylgjandi því að tillagan verði dregin til baka.

Birgir Ingþórsson, sagði að um málamiðlun væri að ræða. Óhagræðið við að setja flutningskostnað inn í sláturkostnað væri að hafa ekki kostnaðartölur sjáanlegar. Segir sláturfélögin ekki vera að rukka raunverð fyrir flutningskostnað og þetta verði verulegt óhagræði fyrir þá sem flytja sitt fé sjálfir. Ákvörðunartakan í málinu er hins vegar ekki hjá fundinum heldur hjá sláturleyfishöfum.

Baldur Grétarsson, segir ljóst að þar sem einhverjir hafi óhagræði af málinu þá samþykki hann að tillagan verði dregin til baka.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða.

Fylgjandi: 11
Á móti: 14

Tillagan því felld með 14 atkvæðum gegn 11.

Forseti leitaði eftir afstöðu fundarins um að taka upp mál 4.3. á fundinum þar sem það kemur nýtt úr nefnd.


Tillaga 4.3
Fanney Ólöf Lárusdóttir, framsögumaður Framleiðslunefndar kynnti tillögu 4.3 sem er svohljóðandi.
"Aðalfundur Landsamtaka sauðfjárbænda haldinn 30.-31. mars 2006 beinir því til stjórnar að leita leiða til að halda skinnaiðnaði og verkþekkingu sem honum tengist í landinu. Þótt illa ári nú er mjög slæmt að láta verðmæti sem felast í verkþekkingu og vélum skinnaiðnaðar hverfa."

Aðalsteinn Jónsson, sagði ótækt að sauðfjárbændur létu ekkert í sér heyra gagnvart þeirri þróun sem hefur orðið í skinnaiðnaðinum undanfarin misseri. Ekki væri óeðlilegt að leggja hluta af þeim gærum sem til eru frá síðustu sláturtíð, sem hlutafélag í endurreisn skinnaiðnaðar í aðstöðu Loðskinns á Sauðárkróki. Þannig skapast störf í dreifbýli sem alltaf er þörf fyrir.

Bragi Vagnsson, tók undir orð Aðalsteins. Nauðsynlegt er að halda öllum möguleikum opnum, því aldrei er að vita hvenær skinnin verði eftirsótt vara að nýju.

Smári Borgarson¸ segir að undirbyggja þurfi málið vel þar sem sveitarfélagið Skagafjörður telur sig hafa lagt miklar fjárhæðir í þennan málaflokk nú þegar. Leggur til að reynt verði að ná inn nýju fjármagni í þetta mál í gegnum nýjan sauðfjársamning.

Birgir Ingþórsson, tók undir orð Smára. Telur lag að sækja aukið fjármagn í þetta verkefni. Beinir því til stjórnarinnar að fá verkalýðshreyfinguna í lið með sér í þessu máli þar sem um endurvakningu starfa er að ræða. Leggur áherslu á að sóttir verði nýjir fjármunir í verkefnið, en ekki tekið af núverandi samningi.

Fleiri kváðu sér ekki hljóðs og var tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 5.1
Einar Ófeigur Björnsson, framsögumaður Markaðs- og kjaranefndar kynnti tillögu 5.1 sem er svohljóðandi:
  "Aðalfundur landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 30. og 31. mars 2006, átelur embætti yfirdýralæknis fyrir óviðunandi vinnubrögð við gerð samninga og uppgjör vegna riðuniðurskurðar. Fundurinn krefst þess að bætt verði nú þegar úr þeim brotalömum sem orðið hafa á gerð og efndum samninga við sauðfjárbændur sem skorið hafa niður í baráttunni við riðuveiki."
Greinargerð:Bændum hefur verið mismunað við samningsgerð, og eiga að fá lögboðnar bætur útreiknaðar og greiddar án eftirgangsmuna. Nógu erfitt er að láta fjárstofn sinn, umturna húsum, eyða heyjum og farga eigum, þó að annað komi ekki til.
Veruleg breyting þarf að verða á starfsháttum embættisins til að endurvinna traust sauðfjárbænda.
Eigi bændur í framtíðinni að vera fúsir til samstarfs í baráttunni gegn riðuveiki, þarf hið opinbera að standa mun betur að málum en verið hefur.
Aðalfundur LS hefur ekki efasemdir um að halda beri áfram á þeirri braut að skera niður fé ef riða kemur upp.

Forseti gaf orðið laust.

Karl Kristjánsson, spurði hvort Yfirdýralæknir væri ekki hluti af landbúnaðarstofnun.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga 5.2
Einar Ófeigur Björnsson, framsögumaður Markaðs- og kjaranefndar kynnti tillögu 5.2 sem er svohljóðandi:
  "Aðalfundur landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 30.- 31. mars 2006 felur stjórn LS að semja um breytingar á útreikningum á tjónabótum Bjargráðasjóðs þannig að bætur taki mið af afurðum á viðkomandi búi næstu ár á undan."
Forseti gaf orðið laust.

Karl Kristjánsson, vildi vekja athygli á því að hluti sauðfjárræktarinnar í Bjargráðasjóði er í verulegum mínus. Hvatti menn til að fara að huga að þessum málum.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga 5.3
Einar Ófeigur Björnsson, framsögumaður Markaðs- og kjaranefndar kynnti tillögu 5.3 sem er svohljóðandi:
  "Aðalfundur landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 30.- 31. mars 2006 brýnir stjórn LS á að ná samkomulagi við sláturleyfishafa um verulega hækkun á afurðaverði umfram verðlagsþróun á komandi hausti.."
Greinargerð:Síðustu misseri hefur verið mjög góð sala á kindakjöti á innanlandsmarkaði. Hækkun afurðaverðs til bænda á síðasta hausti hefur ekki komið niður á sölunni. LS telur að hækkunarmöguleikar á afurðaverði umfram verðlagshækkanir séu verulegir við þessar aðstæður.

Forseti gaf orðið laust.

Birgir Ingþórsson, leggur til að setning um að hækkun á afurðaverði hafi ekki komið niður á sölu, verði felld útúr greinargerð. Telur tæplega ástæðu til að senda þannig setningar í fjölmiðla.

Jóhannes Sigfússon, beindi því til nefndarinnar að skoða orðalag tillögunnar, sérstaklega hvað varðar að ná samkomulagi um verð.

Baldur Grétarsson, tók undir með Jóhannesi að orðalag tillögunnar sé að mörgu leiti stórhættulegt.

Einar Ófeigur Björnsson, sagði sjálfsagt að taka tillöguna til endurskoðunar. Sagði frá því að uppi hafi verið hugmyndir um að ekki fylgdi með greinargerð með tillögunni og gera síðan smávægilegar breytingar á tillögunni sjálfri.

Forseti vísaði málinu aftur til nefndar.

Tillaga 5.4
Einar Ófeigur Björnsson, framsögumaður Markaðs- og kjaranefndar kynnti tillögu 5.4 sem er svohljóðandi:
"Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 30.-31. mars 2006 beinir eftirfarandi til samninganefndar um nýjan sauðfjársamning:  Sauðfjárbændur komu verulegum hluta af sínum ríkisstuðningi árið1995 í "grænt box" samkvæmt WTO. LS krefst þess að við njótum þess þegar kemur til skerðingar og búgreinaskiptingar á "gulum stuðningi".
  Tryggt þarf að vera að útflutningsþörf sé uppfyllt til að halda jafnvægi á innanlandsmarkaði, komi til þess að ráðherraábyrgð á henni verði afnumin."
Forseti gaf orðið laust. Enginn kvaddi sér hljóðs.

Aðalsteinn Jónsson, gerði mönnum grein fyrir alvarleika málsins og þeim umræðum sem m.a. urðu um það á Búnaðarþingi.

Baldur Grétarsson, sagðist treysta samninganefndinni til að taka rétt á málum.

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, leiðrétti það að útflutningsskyldan væri ekki framleiðslustuðningur, heldur það að landbúnaðarráðherra ákveði útflutningsskylduna.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri gerði hádegishlé.


Afgreiðsla mála frh.

Tillaga 6.1
Guðbrandur Hannesson, framsögumaður Umhverfisnefndar kynnti tillögu 6.1. sem er svohljóðandi:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 beinir því til stjórnar að láta gera úttekt á öllu er varðar dýralæknakostnað. Leitað verði eftir samstarfi fleiri aðila um málið og leitað eftir fjármagni til verkefnisins. Markmiðið er að kanna lyfjaverð og kostnað við dýralæknaþjónustu milli héraða, mismun milli Íslands og nágrannalanda, og einnig aðgang bænda að lyfjum í sömu löndum. "
Forseti gaf orðið laust.

Jóhanna Pálmadóttir, gerði grein fyrir fyrirspurn sinni sem hún lagði fyrir á Alþingi. Svara við fyrirspurnum hennar er að vænta eigi síðar en eftir mánuð. Hún mun kynna svarið á stjórnarfundi samtakanna.

Birgir Ingþórsson, spyr hvort dýralæknum sé stætt á því að neita bóndanum um lyfseðil til kaupa á lyfjum sem bændur sjá sjálfir um að gefa ? Sagðist hafa kannað málin og hann hefði getað fengið lyfin á mun hagstæðara verði með því að kaupa það annars staðar heldur en hjá viðkomandi héraðsdýralækni. Beinir því til sjórnar LS að skoða þessi mál.

Fleiri kváðu sér ekki hljóðs og var ályktunin samþykkt samhljóða.


Tillaga 6.2
Bragi Vagnsson, framsögumaður Umhverfisnefndar kynnti tillögu 6.2. sem er svohljóðandi:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 skorar á stjórnvöld að tryggja fjármagn til viðhalds á nauðsynlegum sauðfjárveikivarnarlínum."
Greinargerð:Algerlega er ólíðandi að vörslu og viðhaldi varnargirðinga Sauðfjárveikivarna sé ekki sinnt fyrr en langt er liðið á sumar og í sumum tilfellum eru girðingar alls ekki reistar við. Ekki má slaka á í baráttunni við búfjársjúkdóma, eins og riðu, garnaveiki, tannlos, kýlapest og kláða eða veikja varnir landsins um of gagnvart sjúkdómum sem borist geta til landsins.

Forseti gaf orðið laust.

Guðbrandur Sverrisson, segir bændur á Ströndum hafa orðið fyrir verulegum búsifjum vegna línubrjóta. Þær þrjár girðingar sem skilja að hólf í Strandasýslu eru meira og minna í lamasessi og verulegur kostnaður sem hlýst af því að borga bætur vegna línubrjóta, fjármunum sem væri mun betur varið í viðhald girðinganna. Segir ólíðandi að bændur sem búa nærri þessum girðingum hafi af þessu verulegan óhagræði og kostnað.

Lárus Sigurðsson, tók fram í upphafi máls að hann er samþykkur tillögunni, en velti fyrir sér hvort að menn væru of mikið að velta sér uppúr því að herinn væri á leiðinni heim. Sá fyrir sér að YD myndi taka yfir varnir landsins.

Jóhanna Pálmadóttir, sagðist hafa tekið þetta mál upp á Alþingi og væntir svara fljótlega. Segir mikið atriði að í þessu máli, að fylgja því vel eftir í þeirri nefnd sem er að endurskoða þessi mál. Leggur til að flokkun tækja sem fara á milli svæða verði eftir þeirri áhættu sem í þeim er fólgin.

Ágúst Rúnarsson, sagði frá vinnu og tillögu um sama mál á Búnaðarþingi. M.a. kom fram hjá Gunnari Sæmundssyni sem vinnur í endurskoðunarnefndinni að óhjákvæmilegt væri að fækka girðingum eitthvað því að fjármagn fengist ekki til að viðhalda þeim öllum.

Þóra Sif Kópsdóttir, sagðist algerlega sammála tillögunni, en vildi að bætt yrði við tillöguna að girðingum væri ekki aðeins haldið við heldur einnig endurnýjaðar.

Aðalsteinn Jónsson, vill að fyrir liggi rökstuttar ástæður fyrir því að varnarlínum verði fækkað. Leggur til að nefndin skoði tillöguna betur og kveði fastar að orði.

Guðbrandur Hannesson, sagði nefndina hafa rætt þetta mál rækilega og m.a. fengið til liðs við sig Sigurð Sigurðarson. Í ljósi þess að málið væri í vinnslu í endurskoðunarnefnd á vegum ríkisins og um það hefði verið ályktað á Búnaðarþingi þá taldi nefndin tillöguna nægjanlega skýra eins og nefndin legði hana fram.

Guðrún Stefánsdóttir, sagðist sakna þess að hafa ekki Gunnar Sæmundsson á staðnum til að ræða málið. Í nefnd þeirri sem vann að málinu á Búnaðarþingi þá hafi komið skýrt fram að betra væri að girðingarnar væru fjarlægðar frekar en að hafa þær gangslausar. Sagðist sakna þess að sjá ekkert um flokkun búvéla sem fara á milli varnarhólfa.

Jón Eyjólfsson, sagðist ánægður með tillöguna. Nefndi dæmi um viðhald á varnargirðingu í Borgarfirði þar sem ekki hafi verið til nægt fjármagn til að klára verkið. Lagði áherslu á að meira fjármagn yrði sótt í verkefnið.

Guðbrandur Sverrisson, sagði mikilvægt, að ef svo færi að girðingar yrðu lagðar niður, að þær væru þá fjarlægðar með fullnægjandi hætti. Sagði flutningsmál véla fyrst og fremst vera í höndum bænda sjálfra, að flytja ekki heim pestir.

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, lagði til breytingartillögu á greinargerðina fyrir nefndarmenn að hafa í huga við endurskoðun tillögunnar.

Sigurður Jónsson, sagði frá því að landbúnaðarráðherra hefði óskað eftir afgerandi stuðningi frá sauðfjárbændum til að sækja meira fé í málaflokkinn.

Bragi Vagnsson, sagði umræðuna hafa leitt í ljós að þunginn í málinu væri fjármagnsleysi og leggja þurfi áherslu á að ná meira fjármagni í málaflokkinn. Nefndin mun skoða framkomnar tillögur. Ástæðan fyrir upptalningum á sjúkdómum í greinargerðinni er að leggja áherslu á það að það eru fleiri sjúkdómar heldur en riðu- og garnaveiki sem verið er að verja svæðin fyrir.

Forseti vísaði tillögunni til endurskoðunar í nefndinni.


Tillaga 6.3
Bragi Vagnsson, framsögumaður Umhverfisnefndar kynnti tillögu 6.3. sem er svohljóðandi:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 beinir því til stjórnar að athuga hvort þörf sé á endurskoðun laga um afréttamál, fjallskil og fleira."
Forseti gaf orðið laust, enginn kvað sér hljóðs.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga 6.4
Brynjar Hildibrandsson, framsögumaður Umhverfisnefndar kynnti tillögu 6.4 sem er svohljóðandi:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 skorar á Ístex að skipuleggja betur ullarsöfnun."
Greinargerð:Það hefur sýnt sig á undanförnum misserum að nauðsynlegt er að bæta úr þjónustu við bændur svo þeir sitji ekki uppi með ull í lengri tíma í misgóðum geymslum. Það er beggja hagur að bragarbót verði gerð á þessu til að minnka líkur á skemmdum á ull í lélegum geymslum.

Forseti gaf orðið laust.

Þóra Sif Kópsdóttir, fannst vanta inní tillöguna að Ístex auglýsi betur hvar sé tekið á móti ull á þeirra vegum.

Gunnar Kristjánsson, tók undir að ákveðnir hnökrar hafi verið á ullarsöfnun. Í fyrra var leitað eftir tilboði sem því miður virkaði ekki. Niðurstaðan er sú að söfnunin verður að vera samstarfsverkefni á milli Ístex og heimamanna á hverjum stað. Vakti athygli á því að hver bóndi getur keyrt sína ull og fengið greitt fyrir. Sömuleiðis sagði hann frá því að flutningurinn er niðurgreiddur af fé sem annars færi í ullarverðið.

Guðbrandur Sverrisson, segir Ístex greinilega hafa fullan vilja til að leysa þessi mál vel og hvetur menn til að hafa samband við stjórnendur fyrirtækisins ef eitthvað er athugavert við þessa hluti.

Þórarinn Pétursson, sagði nauðsynlegt að Ístex gæti tekið við ull þegar hún kæmi í hús, en Eyfirðingar lentu í því að skipuleggja og safna saman ull sem síðan ekki var hægt að taka við þegar á staðinn kom.

Einar Guðmann Örnólfsson, sagði tillöguna upphaflega hafa komið frá borgfirðingum þar sem málin hafi verið í algjörum ólestri. Staðan í Borgarfirði í dag er betri en líklegast er það þó þannig að enn má ýmislegt bæta í þessu og því er tillögunni haldið til streitu.

Gunnar Kristjánsson, tók undir með Þórarni að finna þurfi lausn á geymslu ullarinnar hjá Ístex. Það væri hins vegar best að bændur sem sjálfir sjá um ullarsöfnun létu ullarþvottastöðina vita af því þegar von væri á ullarsendingum. Tók undir með Guðbrandi að bændur létu vita ef að hlutirnir væru ekki að ganga eins og til væri ætlast.

Tillögunni vísað aftur til nefndar.

Tillaga 6.5
Anna Bryndís Tryggvadóttir, framsögumaður Umhverfisnefndar kynnti tillögu 6.5 sem er svohljóðandi:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 beinir því til yfirdýralæknis að kynna sem fyrst í Bændablaðinu, þær hættur sem steðjað geta að landbúnaði vegna hugsanlegrar komu fuglaflensu til landsins."
Forseti gaf orðið laust.

Jóhanna Pálmadóttir, styður tillöguna og segir nauðsynlegt að fá fram upplýsingar frá yfirvöldum í þessum málum.

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, hefur áhyggjur af umfjöllun um fuglaflensuna. Segir að hugsanlegar áættur sem kunnu að stafa af fuglaflensunni séu stórlega ofmetnar og geti að óþörfu skaðað okkar framleiðsluvörur.

Guðbrandur Sverrisson¸ segist sammála Sindra um að áhættan sé minni en oft er látið í veðri liggja. Telur ekki áhættu fólgna í því að óska eftir viðbrögðum Yfirdýralæknis þar sem þeir fagmenn sem hafa tjáð sig um málið hafi undantekningalítið dregið úr áhættunni sem sjúkdómnum fylgir.

Guðbrandur Hannesson, taldi tillögunni setta fram til að draga úr þeirri hræðslu sem er í þjóðfélaginu við fuglaflensuna. Telur að koma þurfi í fjölmiðla jákvæðri umfjöllun og þar sé best til fallin Yfirdýralæknir og hans sérfræðingar.

Guðrún Stefánsdóttir, kom með tillögur að orðalagsbreytingu.

Baldur Grétarsson, tók undir orð Guðbrandar um að tilgangur tillögunnar væri að fræða almenning um raunverulega hættu veikinnar.

Jón Viðar Jónmundsson, benti á að nýlokið er kynningarherferð um málið á vegum Yfirdýralæknis.

Forseti vísaði málinu til nefndarinnar til endurskoðunar.

Ásmundur Daðason, gerði grein fyrir tillögu frá Eyfirðingum sem ekki kom úr Allsherjarnefnd. Tillagan fjallaði um að aðalfundur yrði haldinn til skiptis í landsfjórðungunum.

Tillaga 2.1
Ásmundur Daðason, framsögumaður Allsherjarnefndar kynnti tillögu 2.1 sem er svohljóðandi:
  Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 ítrekar ályktun frá síðasta aðalfundi þar sem þeirri kostnaðarhækkun sem hlaust að breyttri löggjöf um innheimtu þungaskatts í gegnum olíugjald var mótmælt. Fundurinn beinir því til stjórnar BÍ að ljúka samningum við fjármálaráðuneytið hið fyrsta.
Forseti gaf orðið laust.

Aðalsteinn Jónsson, segist fagna tillögunni og hvetur stjórnina til að beita sér í málinu. Um er að ræða verulega aukna skattheimtu fyrir íbúa í dreifbýli. Bitnar einnig á landflutningum sem hækka verulega við þessa breytingu.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga 2.2
Ásmundur Daðason, framsögumaður Allsherjarnefndar kynnti tillögu 2.2 sem er svohljóðandi:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 mótmælir hækkun á raforkuverði, sem er tilkomið með nýjum raforkulögum og bitnar illa á bændum. Fundurinn hvetur stjórn BÍ til að standa fast á hagsmunum bænda að þessu máli."
Forseti gaf orðið laust. Enginn kvaddi sér hljóðs.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga 2.3
Ásmundur Daðason, framsögumaður Allsherjarnefndar kynnti tillögu 2.3 sem er svohljóðandi:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 beinir því til stjórnar LS að hefja viðræður við sláturleyfishafa um að þeir taki þátt í kostnaði bænda vegna örmerkja í sláturlömbum."
Forseti gaf orðið laust. Enginn kvaddi sér hljóðs.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga 2.4
Ásmundur Daðason, framsögumaður Allsherjarnefndar kynnti tillögu 2.4 sem er svohljóðandi:
"Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 hvetur stjórn LS til að vera meira áberandi í fjölmiðlum vegna hagsmuna- og ímyndarbaráttu sauðfjárbænda. Landsamtökin þurfa að nýta sér bændablaðið betur til að kynna sína starfsemi. Einnig þarf að leggja aukna áherslu á að koma fram í fjölmiðlum og vekja máls á sauðfjárrækt með jákvæðum hætti auk þess sem nauðsynlegt er að koma greininni til varnar þegar á þarf að halda.
  Samtökin verða að vera meira áberandi gagnvart sauðfjárbændum og reyna eftir fremsta megni að efla tengsl við starfandi félög um landið. Því er jafnframt beint til stjórnar að fylgjast vel með og taka virkan þátt í uppbyggingu á nýrri vefsíðu Bændasamtaka Íslands. "
Forseti gaf orðið laust. Enginn kvaddi sér hljóðs.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga 2.5
Ásmundur Daðason, framsögumaður Allsherjarnefndar kynnti tillögu 2.5 sem er svohljóðandi:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 hvetur stjórn LS til að vinna að samstarfi milli systursamtaka í nágrannalöndum en markmiðið með því yrði tvíþætt. Annarsvegar eflir þetta samstöðu sauðfjárbænda sem búa við sambærilegar aðstæður hvað framleiðsluferli varðar og hinsvegar getur þetta stuðlað að auknu samstarfi á ýmsum sviðum."
Forseti gaf orðið laust. Enginn kvaddi sér hljóðs.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga 2.6
Ásmundur Daðason, framsögumaður Allsherjarnefndar kynnti tillögu 2.6 sem er svohljóðandi:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 beinir því til stjórnar BÍ að fylgja því eftir að flýtt verði sem mögulegt er að bæta aðgengi fólks í hinum dreifðu byggðum landsins að háhraða internet tengingum."
Greinargerð:Í ljósi breyttra áherslna í skýrsluhaldi og aukinni notkun bænda á interneti til framtalsgerðar og ýmissa aðdrátta til fróðleiks og búbóta er nauðsynlegt að koma á betra sambandi sem fyrst til handa dreifbýlisbúum.

Forseti gaf orðið laust. Enginn kvaddi sér hljóðs.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Forseti gerði kaffihlé þar sem gert var ráð fyrir tíma til að endurbæta þær tillögur sem vísað var aftur til nefnda.

Afgreiðsla mála frh.

Tillaga 3.4 - 2
Eggert Kjartansson, framsögumaður Fagráðsnefndar kynnti tillögu 3.4 sem er svohljóðandi eftir breytingar nefndarinnar:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 lýsir ánægju sinni með þær lagfæringar sem hafa náðst á merkingareglugerðinni en beinir því jafnframt til stjórnar LS að halda áfram að fylgjast með því máli, með það fyrri augum að laga hana betur að vinnufyrirkomulagi og hagsmunum bænda."
Greinargerð:Nægjanlegt er að reglugerðin uppfylli kröfur um rekjanleika afurðanna.

Forseti gaf orðið laust.

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, lagði til að í greinargerðinni kæmi í stað "afurðanna" , "vörunnar".

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga 3.6 - 2
Halla Steinólfsdóttir, framsögumaður Fagráðsnefndar kynnti tillögu 3.6 sem er svohljóðandi eftir breytingar nefndarinnar:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 fagnar þeirri vinnu sem er farin af stað við nýjan Fjárvís og hvetur til áframhaldandi þróunar í samvinnu við bændur. Tryggðar verði áfram viðunandi lausnir varðandi skýrsluhald í sauðfjárrækt, þar til allir hafa fengið ásættanlega nettengingu."
Forseti gaf orðið laust. Enginn kvaddi sér hljóðs.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga 5.3 - 2
Einar Ófeigur Björnsson, framsögumaður Markaðs- og kjaranefndar kynnti tillögu 5.3 sem er svohljóðandi eftir breytingar nefndarinnar:
  "Aðalfundur landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 30.- 31. mars 2006 brýnir stjórn LS að ná fram verulegum hækkunum á afurðaverði, umfram verðlagsþróun, á komandi hausti. "
Forseti gaf orðið laust.

Þóra Sif Kópsdóttir, hefði viljað sleppa því að fram komi að hækkunin yrði umfram verðlagsþróun.

Guðrún Stefánsdóttir, er ósammál Þóru um orðalagið og telur nauðsynlegt að stjórnin fái skýr skilaboð að hverju skuli stefnt að.

Þóra Sif Kópsdóttir, vill fyrst og fremst að neytendur fái ekki þau skilaboð að sauðfjárbændur séu að sækja sér meiri leiðréttingu en sem nemur verðlagsþróun.
Lagði fram breytingartillögu þar sem aftasta hluta tillögunnar yrði sleppt.

S. Sindri Sigurgeirsson, telur það styrk fyrir þá sem fara í viðræður við sláturleyfishafa að fundurinn sendi skýr skilaboð. Biður Þóru að draga til baka breytingartillögu sína.

Þóra Sif Kópsdóttir, samþykkti að draga til baka breytingartillöguna.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga 6.2 - 2
Einar Ófeigur Björnsson, framsögumaður Markaðs- og kjaranefndar kynnti tillögu 6.2 sem er svohljóðandi eftir breytingar nefndarinnar:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 skorar á stjórnvöld að tryggja fjármagn til viðhalds og endurnýjunar á sauðfjárveikivarnarlínum."
Greinargerð:Algerlega er ólíðandi að vörslu og viðhaldi varnargirðinga Sauðfjárveikivarna sé ekki sinnt fyrr en langt er liðið á sumar og í sumum tilfellum eru girðingar alls ekki reistar við. Ekki má slaka á í baráttunni við búfjársjúkdóma, eins og riðu, garnaveiki, tannlos, kílapest og kláða eða veikja varnir gagnvart sjúkdómum sem borist geta til landsins. Forseti gaf orðið laust.
Gunnar Kristjánsson, spyr hvort ekki megi fella út orðið "nauðsynlegum" í tillögunni.

Baldur Grétarsson, vildi ítreka að upptalning á sjúkdómum verði felld útúr greinargerðinni.

Einar Guðmann Örnólfsson, segist sáttur við tillöguna, en kom með vísu til að hnykkja á hlutverki YD og IS í vörnum landsins.

Guðbrandur Hannesson, sagði það skýr skilaboð frá Sigurði Sigurðarsyni dýralækni að mikilvægt væri að fram kæmi að um væri að ræða fleiri sjúkdóma en garnaveiki og riðu.

Birgir Ingþórsson, er á margan hátt sammála tillögunni en vill að menn sýni smá biðlund í málinu þar sem það er í vinnslu. Varaði hins vegar eindregið við þeim hugmyndum sem uppi væru um að sveitarfélögin sæju um viðhald girðinganna en ríkið endurgreiddi síðan áfallinn kostnað. Sagðist sammála þeim sem sett hafa fram athugasemdir við upptalningu á sjúkdómum.

Þorvaldur Þórðarson, fannst fundarmenn orðnir full viðkvæmir fyrir því sem fram kemur frá fundinum. Segist sammála Gunnari um að fella út orðið "nauðsynlegum".

Fundarstjóri bar upp breytingartillögu frá Gunnari Kristjánssyni þar sem fellt verði út orðið "nauðsynlegum".
Breytingartillagan samþykkt með 19 atkvæðum gegn 17.

Fundarstjóri bar upp breytingartillögu frá Baldri Grétarssyni þar sem felld er út upptalning á sjúkdómum úr greinargerðinni.
Breytingartillagan felld með 24 atkvæðum gegn 9.

Tillagan að lokum samþykkt samhljóða með samþykktri breytingartillögu frá Gunnari Kristjánssyni.

Tillaga 6.4- 2
Einar Ófeigur Björnsson, framsögumaður Markaðs- og kjaranefndar kynnti tillögu 6.4 sem er svohljóðandi eftir breytingar nefndarinnar:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 skorar á Ístex að skipuleggja og kynna betur ullarsöfnun í samráði við bændur."
Greinargerð:Það hefur sýnt sig á undanförnum misserum að nauðsynlegt er að bæta þjónustu við bændur svo þeir sitji ekki uppi með ull í lengri tíma í misgóðum geymslum. Það er beggja hagur að bragarbót verði gerð á þessu til að minnka líkur á skemmdum á ull í lélegum geymslum.

Bragi Vagnsson, gerði tillögur að orðalagsbreytingum.

Guðrún Stefánsdóttir, gerði tillögur að orðalagsbreytingum sem voru samþykktar.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.


Tillaga 6.5- 2
Einar Ófeigur Björnsson, framsögumaður Markaðs- og kjaranefndar kynnti tillögu 6.5 sem er svohljóðandi eftir breytingar nefndarinnar:
  "Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn í Bændahöllinni, 30. og 31. mars 2006 beinir því til yfirdýralæknis að kynna sem fyrst í Bændablaðinu, viðbrögð við fuglaflensu berist hún til landsins."
Forseti gaf orðið laust. Enginn kvaddi sér hljóðs.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga 4.1- 2
Fanney Ólöf Lárusdóttir, framsögumaður Framleiðslunefndar kynnti tillögu 4.1 sem er svohljóðandi eftir breytingar nefndarinnar:

"Aðalfundur Landsamtaka sauðfjárbænda haldinn 30.-31. mars 2006 samþykkir að skora á fagsviðsstjóra kjötmats Landbúnaðarstofnunar að vinna að samræmingu á kjötmati og fitusnyrtingu dilkaskrokka í sláturhúsum landsins.
  Jafnframt verði skoðað að leyfileg frávik kjötmatsmanna verði þrengd frá því sem nú er. "
Greinargerð:Of mikið ósamræmi er í kjötmati milli sláturhúsa og jafnvel matsmanna í sama sláturhúsi. Með fækkun sláturhúsa hafa bændur farið að senda sláturlömb í fleiri en eitt sláturhús og hefur verið töluvert ósamræmi á þeim hópum í mati eftir því í hvaða sláturhúsi lömbunum er slátrað. Jafnframt er samræming kjötmats mikilvægur þáttur ræktunarstarfs sauðfjárbænda.

Forseti gaf orðið laust. Enginn kvaddi sér hljóðs.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Önnur mál

Þóra Sif Kópsdóttir, sagði fundarmönnum frá verkefni um sauðaost sem unnið er í samstarfi LBHÍ, Búnaðarsamtaka Vesturlands og matvælarannsókna á Keldnaholti. Hún hefur verið við mjaltir síðan 2004 og er m.a. búin að koma sér færanlegum mjaltabás sem hún hefur notað til að mjólka hjá nágrönnum sínum eftir að lömbin eru tekin undan. Mikilvægasta atriðið í þessu verkefni er þó að möguleikar á heimavinnslu verði fyrir hendi. Nauðsynlegt er, fyrir framhald verkefnisins, að fjölga þeim bændum sem gefa sig út fyrir að mjólka.

Jóhannes Sigfússon, segir stöðuna á kjötmarkaði þannig að verulegur þrýstingur verði á sauðfjárbændum að koma með fé til slátrunar fyrr en vanalega. Í því skyni er fyrirhugað að auka verulega á álagsgreiðslur vegna sumarslátrunar. Vill sömuleiðis að bændur hugi að því að ná sem mestu útúr þeim lömbum sem fæðast með því að huga tímanlega að haustbeitinni. Tekur sömuleiðis undir með Þóru Sif um að mjöltun áa sé spennandi kostur sem menn eigi að gefa gaum.

Guðbrandur Sverrisson, fór með vísu um sauðamjólk.

Jóhannes Sveinbjörnsson, vakti athygli á tilraun sem var gerð að Hesti um kálbeit og var hluti af mastersverkefni Þóreyjar Bjarnadóttur. Markmið tilraunarinnar var að skoða áhrif síðsumarbeitarinnar með möguleika á mjöltun áa samhliða. Nánari grein verður gerð fyrir verkefninu á næstunni í Frey.

Jónína Stefánsdóttir, tók undir orð Jóhannesar um sumarslátrun. Leggur hins vegar til að áhersla verði lögð á að birta töflur um álagsgreiðslur það snemma að bændur séu ekki búnir að reka á fjall þegar þessar upplýsingar koma.

Birgir Arason, sagðist vilja ítreka vilja Eyfirðinga um að aðalfundur og árshátíð verði haldin víðar á landinu heldur en í Reykjavík. Það sé ódýr tími í gistingu í mars út á landi eins og í Reykjavík og það ætti því ekki að vera vandamál. Í Eyjafirði hafa nokkrir bændur tekið sig saman um að slátra snemma, og mælir hiklaust með því að bændur skoði þann möguleika það hafi skilað þeim öllum hærra verði en ella.

Kosningar

Kosning formanns.
Jóhannes Sigfússon, Gunnarsstöðum hlaut 36 atkvæði, 5 voru auðir og 1 ógildur. Hann telst því réttkjörinn formaður samtakanna til næstu 3ja ára.

Kosning fulltrúa Suðurlands í stjórn LS
Guðbrandur Hannesson, gerði grein fyrir niðurstöðu sunnlenskra fulltrúa. Fanney Ólöf Lárusdóttir verður stjórnarmaður og Guðrún Stefánsdóttir varamaður hennar.

Forseti gaf nýkjörnum formanni orðið.

Jóhannes Sigfússon, þakkaði góða kosningu. Óskaði eftir áframhaldandi góðu samstarfi við grasrót samtakanna, og að félagsmenn haldi áfram að veita honum og öðrum í stjórninni aðhald og leiðbeiningar í þeim málum sem framundan eru.

Kosning endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækis
Stjórnin gerir tillögu að óbreyttum endurskoðendum, Endurskoðun og ráðgjöf efh. Tillaga að skoðunarmönnum reikninga er Gunnar Þórisson Fellsenda og varamaður hans Albert Guðmundsson á Heggsstöðum.

Kosning búnaðarþingsfulltrúa.
Þórhildur Jónsdóttir núverandi búnaðarþingsfulltrúi gefur ekki kost á sér áfram og þakkaði þingið henni vel unnin störf.

Karl Kristjánsson skýrði frá störfum uppstillingarnefndar, en fjórir aðilar hafa gefið kost á sér til starfans og mælir nefndin með því að kosið verði á milli þeirra:
 • Aðalsteinn Jónsson, Klausturseli
 • Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri,
 • Jóhannes Sigfússon, Gunnarsstöðum,
 • Þórarinn Pétursson, Laufási.

Niðurstöður kosninga urðu eftirfarandi:

 • Jóhannes Sigfússon, Gunnarsstöðum, 38 atkv
 • Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri 36 atkv,
 • Aðalsteinn Jónsson, Klausturseli 30 atkv,
 • Þórarinn Pétursson, Laufási 19 atkv.
Tillaga uppstillinganefndar að varamönnum er eftirfarandi:
Jóhanna Pálmadóttir Akri, Eggert Kjartansson Hofsstöðum og Jóhannes Sveinbjörnsson Heiðarbæ.

Tillaga uppstillinganefndar samþykkt samhljóða.

Aðalsteinn Jónsson, þakkaði traustið við kosningar til búnaðarþings og fulltrúum fyrir góðan fund.

Jóhannes Sigfússon, þakkaði fulltrúum fyrir góðan fund og þakkaði starfsmönnum fundarins fyrir þeirra störf. Óskaði sauðfjárbændum ánægjulegs sauðburðar og sleit með þeim orðum fundi.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar