Fundargerð aðalfundar 2007

Aðalfundur L.S. Bændahöllinni v/Hagatorg
dagana 12. - 13. apríl 2007

Fundarsetning
Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Jóhannes Sigfússon, setti fund kl. 13:05. Fór hann með vísu eftir Sigurð Hansen á Kringlumýri í Skagafirði við setningu. Í ræðu sinni fór hann yfir ýmis málefni og byrjaði á að tala um nýjan sauðfjársamning, lækkun matarskatts og um yfirvofandi harðari samkeppni á kjötmarkaði vegna lækkunar tolla á innfluttar landbúnaðarafurðir. Formaðurinn lýsti áhyggjum sínum af eignarhaldi á landi og sagði: „þar sem peningahyggja og sýndarmennskuþörf auðmanna ráða allri för, mun smátt og smátt þrengja að hefðbundnum landbúnaði og því byggðamunstri sem við sjáum í dag." Einnig kom Jóhannes inn á umræður um meðferð lands og landnýtingu og svaraði gagnrýnni nýlegra blaðagreina um landeyðingu af völdum sauðfjárbeitar. Hann benti á að bændur séu víða orðnir öflugasta liðssveit Landgræðslunnar við landgræðslu og landbætur. Hann hvatti sauðfjárbændur til að ganga á undan með góðu fordæmi og lýsti áhyggjum sínum yfir of mikilli notkun torfæruhjóla við smalamennsku. Áður en Jóhannes setti fundinn minnti hann starfsbræður sína á að halda á lofti öllum jákvæðum þáttum við starf sauðfjárbóndans sem erfitt er að meta til fjár.

Kosning fundarstjóra og fundarritara
Formaður lagði til að fundarstjórar verði Aðalsteinn Jónsson og Halla Steinólfsdóttir. Fundarstjórar tóku við stjórn og lögðu til að Lárus Sigurðsson og Þóra Sif Kópsdóttir yrðu fundarritarar. Tillagan samþykkt samhljóða. Ráðinn var fundarritari Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Kosning kjörbréfanefndar
Eftirfarandi fulltrúar voru samþykktir til starfa í kjörbréfanefnd:

Karl Kristjánsson Kambi, formaður

Anna Bryndís Tryggvadóttir Brekku

Ragnar Lárusson Stóradal
 

Ávörp gesta
G
uðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra
Hann óskaði sauðfjárbændum til hamingju með sitt starf nú sem áður. Hann sagðist hafa sótt þessa fundi í átta ár og sér er hann lítur yfir salinn að aldur sauðfjárbænda fer lækkandi og segir það fagnaðarefni. „Það ríkir gróska og bjartsýni við íslenskan landbúnað í dag og aldrei hefur ríkt jafnmikil samstaða og í dag en það vitnar skoðanakönnun BÍ, sem unnin var í vetur, best um. Könnunin hefur haft þýðingarmikil áhrif til upplýsinga fyrir þjóðfélagið og fyrir stjórnmálaflokka. Ég hef fundið það að þjóðin styður íslenska bændur og íslenska matvælaframleiðslu sem samanstendur af afl- og dugmiklu fólki. Það hefur mikla þýðingu að íslensk sveit vaxi og dafni."

Landbúnaðarráðherra kom inn á styrki sem ríkisstjórnin hefur gert við loðdýra - og nautgripabændur og benti á nauðsyn þess að styðja og styrkja við íslenska bændur. Einnig talaði hann um deiluna hvað þjóðlendurnar varðar og sagði að sinn flokkur hafi ekki farið í þá vegferð að taka eignarlönd af bændum, heldur tryggja að þeir hafi afnotarétt sinn áfram.

„Nú ég vil óska ykkur til hamingju með sauðfjársamninginn. Auðvitað var tekist á um hann en þið eigið marga vini í dag og eruð á réttri leið. Við bættum inn 300 milljónum á ári því útflutningsskyldan leggst niður en mín skoðun er sú að það hafi verið mikilvægt fyrir atvinnugreinina því vegna WTO-samnings hefði útflutningsskyldan getað dottið út strax á þessu ári. Þetta er stuðningur upp á 20 milljarða á tímabilinu til að efla bændurna og búgreinina og ég skora á ykkur að nota þessi ár vel. Ég hef trú á því að íslensk sauðfjárframleiðsla verði sterkari en nokkru sinni fyrr.

Enn fremur vil ég óska ykkur til hamingju með ykkar starf sem skilar neytendum fágætrar afurðar, þið haldið á einu af gulleggjum þessarar þjóðar. Ég vona að landbúnaðurinn í heild sinni haldi áfram á þeirri sterku þróunarbraut sem hann er á í dag, gangi ykkur allt í haginn."

Haraldur Benediktsson, formaður BÍ
Óskar LS heilla í sínum störfum og flytur kveðju BÍ til fundarins. Bendir á að hér séu fyrstu bændurnir til að vígja nýuppgerða fundarsali á Hótel Sögu. 

Haraldur sagði að aðalfundir LS og Landssamtaka kúabænda beri upp á sama tíma og nefnir hvað þessar búgreinar eiga sameiginlegt. Sauðfjárafurðir hafi til að mynda greitt leið fyrir nautgripaafurðir þar sem hafinn er útflutningur á mjólkurvörum til Bandaríkjanna í kjölfar lambakjötsútflutnings. Þetta sýni að bændur eiga að standa saman og segir að það sé fyrst og fremst fyrir samstöðu íslenskra bænda sem við höfum náð góðri niðurstöðu í viðhorfskönnun BÍ á árinu.

„Verkefni aðalfundarins er að slípa sauðfjársamninginn en það skiptir ekki öllu máli hvað stendur í samningum, heldur markaðurinn og hvernig við högum okkur þar. Helstu kjarabætur sem allir bændur á Íslandi sækja næstu misserin er að fá í sinni hlut stærri hlut sem er á milli bóndans og neytandans.

Það skiptir miklu máli hvernig við tölum um okkur sjálf, ekki bara útávið heldur líka heima hjá okkur, en það vitnar nýleg könnun Samtaka atvinnulífsins um þar sem unglingar sjá sig ekki fyrir sér sem bændur eða sjómenn en þetta eru atvinnugreinar sem verða áfram undirstaða íslensks þjóðlífs. Okkur vantar til starfa ungt fólk í landbúnaði, verðugt verkefni okkar, LBHÍ og Háskólans á Hólum að laða fleira fólk til náms.

Haraldur talaði í lokinn um nýjan bækling BÍ fyrir frambjóðendur um landbúnaðarmál og fundi í hverju kjördæmi tengdum þessu málefni. Hann ítrekaði óskir um góðan aðalfund.

Jón Bjarnason, alþingismaður
Jón ávarpaði samkomuna og þakkaði fyrir boð á fundinn. Hann skýrði frá því að í landbúnaðarnefnd Alþingis hefðu fjórir málaflokkar verið teknir til meðferðar í þinginu í vetur sem snertir sauðfjárbændur. Sérstaklega átti hann við sauðfjársamninginn sem hann óskaði sauðfjárbændum til hamingju með að ná honum fram þó að þar væru atriði sem hann hefði viljað sjá öðruvísi.

„Þessi búgrein þarf langan aðdraganda ef það á að breyta forsendum fyrir rekstrarumhverfi hennar, undirstrikar mikilvægi sem lagt er upp úr öflugri sauðfjárrækt, samningurinn er pólitískur sáttmáli milli búgreinarinnar og þjóðarinnar allrar. Frumskylda okkar er að tryggja öfluga framleiðslu, framboð á góðum og hollum landbúnaðarvörum fyrir neytendur og að þessi trygging sé fyrir hendi. Þetta er sáttmáli sem þjóðin er tiltölulega sátt um, þó að hún vilji eðlilega fá lægra verð en það vilja allir neytendur."

Jón hvatti sauðfjárræktendur til að vera vakandi fyrir innflutningi og benti á að við verðum að gera sömu kröfur til gæða, öryggis og verðs, því við eigum á hættu að innflutningsaðilar reyni að misbjóða í þessum efnum. Einnig kom hann inn á þjóðlendumál og sagði að ríkisstjórnin bæri sameiginlega ábyrgð á ákvörðunum sem voru teknar nú í lok þings. Að lokum óskaði Jón stéttinni alls góðs og farsældar.

Stefán Vilhjálmsson, fagsviðsstjóri kjötmats hjá Landbúnaðarstofnun
Óskar fundinum árnaðar og endar á að fara með vísu.

Erindi - Ágúst Sigurðsson, rektor LBHÍ
Fór yfir skipulag og starfsemi skólans. Síðan fræddi hann fundarmenn um sauðfjárræktarmál innan háskólans svo sem rannsóknir og kennslu og kom inn á rannsóknarbúið Hest í Borgarfirði þar sem stundaðar hafa verið afkvæmarannsóknir í 50 ár. Ágúst sagði frá nýrri kennslubók Árna Bragasonar í sauðfjárrækt sem er í smíðum og verður tilbúin í byrjun ársins 2008.

Að endingu talaði Ágúst um íslenska forystuféð og stakk upp á að kannað yrði betur atferli skepnanna og hvort hægt væri að gera meira úr og jafnvel flytja til útlanda eins og íslenska hestinn.

Fyrirspurnir og umræður um erindi

Þóra Sif Kópsdóttir:
Þakkar fyrir öll erindi og ávörp. Spurði Ágúst Sigurðsson um hvort enginn áhugi sé á sauðamjólkinni og -mjöltum innan skólans. Tók upp umræðu um forystukindina og vildi jafnframt benda á sérstöðu ferhyrnds sauðfés hérlendis. 

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson: Þakkar Ágústi erindi og segist hafa orðið þess áskynja að það eru að vakna hjá sauðfjárbændum umræður um erfðabreytingu og að hann hafi áhyggjur af þessari umræðu. Mér finnst erfðabreyting eins og skýrsla en það er birtingarform af ræktun. Hann vildi fá álit Ágústar hvort þetta sé umræða sem þarf að hafa áhyggjur af.

Ágúst svarar því til að með sauðamjólkina að fyrrum starfsmaður, Sveinn Hallgrímsson, kom að verkefninu í upphafi og sinnir enn. Við höfum áfram og enn þá verið með stuðning við þetta verkefni, lítum á okkur sem bakhjarla við það sem Búnaðarsamtök Vesturlands hafa tekið við. Tengjumst þessum óbeint miðað við sem var en höfum vissulega áhuga á þessu. Sveinn hættur störfum formlega en ófáanlegur til að hætta alveg og sinnir þessu svolítið.

Stórt mál sem Sindri kom að og tengist mörgu af því sem við erum að gera. Erfðabreytt og erfðabætt er eitt form af ræktun en engu að síður er þetta aðeins annað form þegar eiginleikar eru færðir milli tegunda. Þá setur fólk upp krítískar spurningar hvort það hafi alvarlegar afleiðingar en engar vísindalegar niðurstöður segja að það sé hættulegt að borða erfðabreytt korn eða að fóðra skepnur á því. Við þurfum að fara varlega í þessu, þetta tengist lífrænni framleiðslu, það er ákveðinn markaður og ákveðin trú til lengri tíma hjá ákveðnum hópi fólks og á það verður að hlusta því þar felast möguleikar í að selja afurðir. Held að ekki sé til já eða nei við þinni spurningu Sindri, vísindalegar sannanir eru ekki til í þeim erfðabreytingum sem við erum að gera í dag. Áhætta sem við gerum er að hlusta ekki á þessar raddir, nýta okkur hvoru tveggja, fara varlega og selja vörur undir þeim formerkjum. Við þyrftum að leggjast í stefnumótun fyrir íslenskan landbúnað en það er svo stórt mál,

Skýrslur og ársreikningar
Skýrsla stjórnar, Jóhannes Sigfússon flutti skýrslu stjórnar, sem lá prentuð fyrir fundinum.

Gunnar Rúnar Kristjánsson, fulltrúi LS í stjórn Ístex, gerði grein fyrir störfum fyrirtækisins á liðnu ári og sýndi myndir af mismunandi gæðum ullar. Skýrslan lá prentuð fyrir fundinum.

Björn Elísson, framkvæmdastjóri Markaðsráðs kindakjöts, gerði grein fyrir störfum ráðsins á árinu. Skýrslan lá prentuð fyrir fundinum.

Kom inn á nýjan vef landsamtakanna, www.saudfe.is, og sýndi fundarmönnum vefinn, verður vettvangur allra sauðfjárbænda um það sem er í gangi hverju sinni, óskaði eftir greinum, fréttum frá fundarmönnum til að halda honum lifandi.

Björn Elísson, framkvæmdastjóri LS, gerði grein fyrir reikningum LS. Reikningarnir lágu fyrir í gögnum fundarins.

Skýrsla kjörbréfanefndar - kynning fulltrúa
Karl Kristjánsson
, starfsmaður kjörbréfanefndar kynnti störf nefndarinnar.

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Kjalarnesþings

Guðbrandur Hannesson, Hækingsdal


Félag sauðfjárbænda í Borgarfirði
Einar G. Örnólfsson, Sigmundarstöðum
Jón Eyjólfsson, Kópareykjum
Baldvin Björnsson, Skorholti

Félag sauðfjárbænda í Snæfells og Hnappadalssýslu
Þóra Sif Kópsdóttir, Ystu-Görðum
Ragnhildur Sigurðardóttir, Álftavatni
Brynjar Hildibrandsson, Bjarnarhöfn

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu
Ásmundur Daðason, Lambeyrum
Halla Steinólfsdóttir, Ytri-Fagradal
Guðbrandur Þorkelsson, Skörðum

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Vestfjarða
Karl Kristjánsson, Kambi
Þorvaldur Þórðarson, Stað

Félag sauðfjárbænda í Strandasýslu
Jóhann Ragnarsson, Laxárdal
Sigurður Jónsson, Stóra-Fjarðarhorni

Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum

Félag sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu
Gunnar Þorgeirsson, Efri fitjum
Böðvar S. Böðvarsson, Mýrum II

Félag sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu
Jón Kristófer Sigmarsson, Hæli

Einar Svavarsson, Hjallalandi
Gísli Geirsson, Mosfelli

Félag sauðfjárbænda í Skagafirði
Smári Borgarsson, Goðdölum I
Agnar Gunnarsson, Miklabæ
Halldóra Björnsdóttir, Keta

Félag sauðfjárbænda við Eyjafjörð
Þórarinn Pétursson, Laufási
Birgir H. Arason, Gullbrekku

Félag sauðfjárbænda í S-Þingeyjarsýslu
Ragnar Þorsteinsson, Sýrnesi
Vagn H. Sigtryggsson, Hriflu
Arnór Erlingsson, Þverá

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi N-Þingeyinga
Einar Ófeigur Björnsson, Lóni

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Austurlands
Grétar Jónsson, Einarsstöðum

Félag sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum
Baldur Grétarsson, Kirkjubæ
Aðalsteinn Jónsson, Klausturseli
Anna Bryndís Tryggvadóttir, Brekku

Félag sauðfjárbænda á Suðurfjörðum
Lárus Sigurðsson, Gilsá

Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi A-Skaftfellinga
Sigurbjörn Karlsson, Smyrlabjörgum
Bjarni Sigjónsson, Fornustekkum

Félag sauðfjárbænda í V-Skaftafellsýslu
Ólafur Steinar Björnsson, Reyni
Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri

Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu
Erlendur Ingvarsson, Skarði
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti
Ragnar Lárusson, Stóra-Dal

Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Jóhannes Sveinbjörnsson, Heiðarbæ
Sigríður Jónsdóttir, Arnarholt

Kaffihlé

Ávarp Baldvins Jónssonar,starfsmanns Áforma
Ávarpaði fundarmenn, þakkaði fyrir góð orð í sinn garð og sagðist afar þakklátur fyrir tækifærið að ræða sínar hugleiðingar um það sem gerst hefði í hans starfi síðustu mánuði og ár.

„Íslendingar hafa mikla sérstöðu sem felst í legu landsins, þetta er stórt land með fáum íbúum, höfum einstakttungumál, eigum langa og merkilega sögu og okkur hefur tekist að vernda dýrastofna. Sauðfjárrækt hérlendis á sér algjöra sérstöðu í veröldinni en eftir samstarf við Whole Foods í Bandaríkjunum hef ég fengið tækifæri til að sjá Ísland með þeirra augum. Þetta er glæsilegasta verslanakeðja í veröldinni sem er afgerandi í forystu á sviði umhverfismála og dýraverndar og þar eru miklar gæðakröfur. Það er viðurkenning fyrir Ísland að vera inni í þessari verslun.

Það er ykkar að vernda einn merkasta sauðfjárstofn sem til er í veröldinni í dag. Við stöndum fyrir eitthvað sem er merkilegt, að vera Íslendingar. Ég hef haft mikla ánægju af þessu starfi og sé ekkert annað en bjart framundan í íslenskum landbúnaði. Verkefnið Áform sem beinist að sölu landbúnaðarvara erlendis fær úthlutað 25 milljónum á ári en í Whole Foods-verslanirnar koma 500 þúsund neytendur á dag. Stærstu fyrirtæki hér á landi eru með um 200 milljónir á ári fyrir markaðs- og auglýsingastarfsemi fyrir 300 þúsund manns. Í ykkar grein dugar ekkert nema samstaða, þá komist þið miklu hraðar af stað. Við höfum aldrei gefist upp og þolinmæði þrautir vinnur allar. Við ætlum ekki að framleiða mikið fyrir lítið heldur framleiða lítið fyrir mikið og það er lykilmálið. Gangi ykkur vel og takk fyrir mig."


Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Guðrún Stefánsdóttir:
Þakkaði Baldvini fróðlegt erindi.  Spurði Baldvin til hvaða ráða hann teldi að sauðfjárbændur ættu að grípa, til að tryggja nauðsynlegan útflutning  þegar útflutningsskyldan fellur niður?
 
Þóra Sif Kópsdóttir: Þakkaði Baldvini fyrir frábært erindi og segir þetta eins og talað út úr sínu hjarta. Langar að forvitnast um það hvort við þurfum að hafa áhyggjur af erfðabreyttri ræktun með tilliti til útflutnings?

Sigurður Jónsson: Þakkaði góða fyrirlestra á fundinum.
Talaði um búvörusamning og að hann þyrfti að ræða frekar. Var einn af þeim sem gagnrýndi samninginn sem búið er að binda í lögum. Ósáttur við margt í honum þar sem hægt er að túlka atriði með mismunandi hætti. Kom einnig inn á gæðastýringu þar sem Sigurði finnst menn hafa farið offari í skráningu og sagði að við ættum frekar að einbeita okkur að sauðfjárrækt- og búskap en að einblína á tölur sem við gerum ekkert með. Gæðastýring er góðra gjalda verð ef er innan skynsamlegra marka. Sagði jafnframt að nauðsynlegt væri að knýja á við sláturleyfishafa að fá hækkun á afurðaverði, við þurfum að komast myndarlega áfram með það.

Verðum einnig að ræða viðhald varnarhólfa, veit að tillaga um að gera Vestfirði alla að einu varnarhólfi sem er þrjú í dag, í einu þeirra var riðuveiki um áratuga skeið um 1980, verðum að fara varlega með að þessar girðingar verði lagðar af. Í sambandi við kjaramálaumræðu finnst kominn tími til að gera kröfu á að sláturleyfishafar og smásalar taki sinn þátt í að lækka vöruverð.

Aðalsteinn Jónsson: Þakkaði Özuri Lárussyni fyrir sín störf og lagði til að samtökin sendu honum blóm og eitthvað með því í þakkarskyni. Fannst ánægjulegt að rekstur LS sé í ágætu jafnvægi og lýsir ánægju með hvernig hefur til tekist að reka samtökin. Púðrið farið í nýjan sauðfjársamninginn á síðari hluta síðasta árs, gerum aldrei samning sem hentar öllum, finnst mikilvægt að samningur skyldi nást og fór í gegnum Alþingi svo til mótatkvæðalaust. Útflutningsdæmið er mönnum ákveðið áhyggjuefni en verkefni sem við verðum að vinna á í samvinnu við afurðastöðvar. Skorar á markaðsráðið og stjórnina að taka á þessum málum, hvernig við ætlum að standa að markaðssetningu á okkar framleiðsluvörum árið 2009.

Kjötgreinar eiga að standa saman, eigum möguleika á að halda þeirri framleiðslu sem við treystum okkur til að framleiða. Heimtökurétturinn, spurt hvort ætti að afnema hann, finnst það varhugavert, vara við því að gefa það eftir að þessi réttur verði til staðar. Hagræðing í sláturhúsum, afkoma í sláturhúsum var mjög bágborin, hagræðing var nauðsynleg en við þurfum að ganga lengra í hagræðingunni. Með lækkun á tollum og afnámi innflutningshafta þurfum við að ná samstöðu sem er í mjólkuriðnaði í dag. Það er þakkarvert hvernig Áform hefur unnið markaðsstarfið í Bandaríkjunum.

Ragnar Þorsteinsson: Þakkaði stjórninni fyrir vel unnin störf á árinu. Lýsti ánægju með að rekstrarafkoma sambandsins hefur lagast enn meir en það sem verið hefur. Tekur undir orð Aðalsteins um að senda þakkir til Özurar um leið og hann bauð nýjan framkvæmdastjóra til starfa. Þakkaði fyrir nýja heimasíðu og ítrekar að halda þurfi vel við með efni og uppfærslur. Þakkaði einnig Baldvini Jónssyni og Áform fyrir stórkostlegt verk sem verið er að vinna vestanhafs og óskar honum áframhaldandi velfarnaðar í starfi.

Böðvar Böðvarsson: Byrjar á að þakka framkomin erindi. Vitnar í bréf frá 26. febrúar um að laga tillögufrestinn. Varðandi heimtökuréttinn, sat formannafund á Laugum í haust og sjá má á Netinu. Vonast til að fundargerð aðalfundar fari sem fyrst inn á heimasíðuna. Ræddi um hagræðingu í sláturhúsum.

Þorvaldur Þórðarson: Þakkaði stjórninni og öðrum þeim sem komu að gerð hins nýja sauðfjársamnings. Taldi mikilvægt að hann væri kominn á, þó að þar séu atriði sem hann er ekki sáttur við og deilir áhyggjum varðandi það að útflutningsskyldan sé felld niður. Samningurinn liggur fyrir og nú er að vinna úr honum, hver á sínu býli og við sem sauðfjárbændur. Gott ef stjórnin tæki sér fyrir hendur í samstarfi við aðra aðila, til dæmis LBHÍ, BÍ, að láta vinna heildarúttekt á sóknarfærum sauðfjárræktarinnar þannig að við hefðum traustari grunn að byggja á með aðalmarkmiði að bæta hag greinarinnar og sauðfjárræktar. Það hefur dregið úr sölu á lambakjöti undanfarna mánuði. Ég fór eitt sinn af stað með tillögu varðandi sölumálin að komið yrði á embætti sölumanns lambakjöts innanlands, starfsmaður sem hefði aðalmarkmið að selja lambakjöt innanlands. Tillagan féll en ég held að þróun hafi verið sú á undanförnum árum að menn hafi hugsað æ meira um þessi sölumál, afurðastöðvar geta ekki einar og sér leyst þetta mál og bændur þurfa að hugsa um þetta. Það er til lítils ef þúsundir framleiða en engir eru í því að selja. Einnig hefur mér dottið í hug hvort ekki væri hægt að koma á fót hugmyndabanka fyrir sauðfjárbændur.

Sigríður Jónsdóttir: Ávarpar fundinn. Fór á fundinn full af fítonskrafti með kraftmiklar ræður í maganum og segir að búið sé að halda þær margar hér á fundinum í dag og þakkar fyrir þær. Fagnar nýrri heimasíðu og við verðum að efla tengsl okkar við fjölmiðla, því það heldur enginn fram okkar sjónarmiðum nema við sjálf. Það sem Ágúst sagði hér áðan er að setja landbúnaði ákveðna stefnu er það sem við verðum að fara gera. Erum búin að vera berjast hvert gegn öðru fyrir baráttumálum sem verður ekki tapað nema einu sinni, við höfum barist um búfjárstofnana, líftæknimálið verður ekki tapað nema einu sinni, svona höldum við áfram svo lengi sem við setjum okkur ekki stefnu. Þurfum að taka ákvarðanir sem við getum staðið við, það er löngu tímabært og í raun fáránlegt að ég sé að halda þessa ræðu árið 2007. Hér eru menn að berjast hver við sinn sláturleyfishafa, held að við þurfum að hlaupa upp í rúm með hvert öðru í kvöld ef við ætlum að geta fengið meira en 100 krónur fyrir kjötið hér (hlátur úr sal) og ég er að tala í alvöru. Takk fyrir.

Baldur Grétarsson: Ávarpar fundinn, þakkar framkomin góð erindi. Tekur upp hanskann fyrir stjórnina vegna fyrirspurnar um tillagnafrest. Bendir á að gott sé að vera með dagsetningu til að ýta á menn og minna á að frestur sé að koma. Lítum svo á að það séu óskráð lög að félögin geta komið með tillögur fram að aðalfundi, það hafa orðið til tillögur í nefndum á aðalfundi og mér finnst þetta ágætis fyrirkomulag.

Baldvin Jónsson: Spurning um breytinguna sem verður þegar útflutningsskyldan verður lögð af, það er áhyggjuefni. Við verðum að sjá raunveruleikann eins og hann er og athuga hvort í þessu liggi sóknarfæri. Ekki er útilokað að sjá fyrir sér breytingar ef samningurinn stefnir í þrot. Við höfum velt upp þeirri hugmynd að stofna útflutningsfyrirtæki fyrir íslensk matvæli.

Ég, persónulega, hrekk í kút þegar ég heyri orðið erfðabreytt en ég hvet fólk til að taka þessari umræðu með fyrirvara. Við vorum öll hrædd þegar Dollí fæddist en slíka umræðu þarf að taka málefna- og vísindalega. Ég fagna gæðastýringunni, hún verður ekki trúverðug nema hún sé sönn og það á að fylgja henni eftir. Trúverðugleiki gæðastýringarinnar er algjör forsenda þess að fólk beri jákvætt viðhorf til bænda áfram. Aðalsteinn talar um samstöðu og ég tek undir það. Það kom hér áðan umræðu um að hafa hugmyndabanka en það sem mér finnst er að það þurfa að vera leiðbeiningar í verslunum fyrir unga fólkið sem kann ekki að elda og vera jafnvel með tilbúna kjötrétti í ofninn til sölu.

Jóhannes Sigfússon: Þakkaði fyrir ágætar umræður. Ræddi um sauðfjársamninginn og 7500 ærgildin og benti á að þeim verði ekki úthlutað, það sé búið. Þetta var tekið pólitískt inn eftir að síðasti samningur var gerður og við vorum síður en svo hrifin af því. Við mátum það svo að engin trygging væri fyrir því að halda þessum peningum áfram inni, við vildum ekki standa frammi fyrir því að þið vilduð ekki þessa peninga og þá koma þeir ekki. Þetta er gamla úthlutunin eins og hún var með aðeins breyttum reglum en ég mun ekki taka ákvörðun um gömlu úthlutunina því ég var aldrei sáttur við það kerfi.

Í sambandi við viðmiðunarverðið að þá þóttumst við nokkuð góðir að ná 10% hækkun en það er alls ekki. Við fórum af stað með annan ásetning en þetta var niðurstaðan eftir að hafa farið yfir þetta mjög vel. Varðandi tillögurnar að þá hefur fresturinn farið meira úr böndunum en undanfarin ár, við höfum kannski verið of linir á því að taka þetta inn en við verðum að hafa skýrari tillögur og að þetta fari út til aðildarfélaganna fyrir aðalfund svo menn geti skoðað fyrir fundinn. Stríðið ekki tapað nema einu sinni var vel sagt hér áðan. Það kom upp umræða um hvalveiðar, af hverju mótmælum við sauðfjárbændur því ekki? Er ekki tímabært að sauðfjárbændur móti sér stefnu í erfðabreyttum matvælum?

Sigurður Jónsson: Kannski hef ég kveðið fullfast að orði við upphaf ræðu minnar áðan en hugur minn til samningsins er eitthvað á þessa leið og er það áfram. Baldvin talaði um að það vantaði samstöðu, ég ræddi það á aðalfundi fyrir ári að þá vorum við eingöngu að berjast fyrir að fá meiri tekjur inn í greinina en núna erum við að berjast fyrir hver fær stærstan bita hvert og eitt. Varðandi 7500 ærgildin þá veit ég það vel sjálfur að Einar Oddur Kristjánsson og Stefán Guðmundsson komu því inn í síðasta búvörusamning að koma þessum peningum inn í greinina. BÍ neituðu að taka að sér að úthluta og því var Byggðastofnun falið að úthluta. Við verðum að sjá um að þeir sem eiga rétt á þessu í dag uppfylli skilyrði í reglunum og ég ætlast til að stjórn LS fylgi því eftir.

Fleiri kváðu sér ekki hljóðs og bar fundarstjóri því upp reikninga félagsins. Reikningarnir samþykktir samhljóða.

Mál lögð fram og vísað til nefnda.
Fundarstjóri og framkvæmdastjóri LS kynntu formenn og fundarstaði starfsnefnda fundarins og er nefndarskipan eftirfarandi:

1.      Allsherjarnefnd: Fanney Ólöf Lárusdóttir (formaður), Agnar Gunnarsson, Ásmundur Daðason, Baldur Grétarsson, Brynjar Hildibrandsson, Einar Ófeigur Björnsson, Einar Svavarsson, Kjartan Lárusson, Smári Borgarsson, Þórarinn Pétursson, Þorvaldur Þórðarson, Örn Bergsson.

2.      Fagráðsnefnd: Aðalsteinn Jónsson (formaður), Baldvin Björnsson, Erlendur Ingvarsson, Gísli Geirsson, Gunnar Þorgeirsson, Halla Steinólfsdóttir, Halldóra Björnsdóttir, Vagn H. Sigtryggsson, Þóra Sif Kópsdóttir.

3.      Markaðs- og kjaranefnd: Lárus Sigurðsson (formaður), Birgir Arason, Bjarni Sigjónsson, Einar G. Örnólfsson, Guðrún Stefánsdóttir, Jón Kristófer Sigmarsson, Karl Kristjánsson, Ólafur Steinar Björnsson, Ragnar Þorsteinsson, Sigríður Jónsdóttir, Sigurður Jónsson.

4.      Umhverfisnefnd: Guðbrandur Hannesson (formaður), Anna Bryndís Tryggvadóttir, Grétar Jónsson, Guðbrandur Björnsson, Ragnar Lárusson, Ragnhildur Sigurðardóttir, Gunnar Þórisson, Jóhannes Sigfússon, S. Sindri Sigurgeirsson, Jóhanna Pálmadóttir.

5.      Fjárhagsnefnd: Jóhann Ragnarsson (formaður), Böðvar S. Böðvarsson, Guðbrandur Þorkelsson, Jón Eyjólfsson, Sigurður Atlason.

Samþykkt samhljóða að leyfa að taka fyrir tillögur þó þær hafi borist seinna en lagt var upp með. Kynntu fulltrúar seinkomnar tillögur í framhaldinu.

Fanney Ólöf Lárusdóttir, Félagi sauðfjárbænda í Vestur-Skaftafellssýslu, kynnti tillögu um gæðastýringu í sauðfjárrækt og endurskoðun á reglugerð og handbók samkvæmt nýjum sauðfjársamningi sem lá fyrir í gögnum fundarins. Samþykkt samhljóða að taka tillöguna fyrir.

Sigríður Jónsdóttir, Félagi sauðfjárbænda í Árnessýslu, kynnti tillögu um úttekt á Landbúnaðarstofnun. Biskupstungnamenn og fleiri Sunnlendingar eru komnir í öngstræti í samskiptum við Landbúnaðarstofnun. Þarf að taka stofnunina í gegn af Ríkisendurskoðun eða álíka stofnun og gerir tillögu um að yfirvöld kanni starfshætti Landbúnaðarstofnunar. Samþykkt samhljóða að taka tillöguna fyrir.

Gunnar Þorgeirsson, Félagi sauðfjárbænda í V-Húnavatnssýslu, beinir því til fundarins að taka U4 og E4 inn í gæðastýringarálagið.

Þóra Sif Kópsdóttir kynnti tillögu frá Félagi sauðfjárbænda í Snæfells- og Hnappadalssýslu, hún beinir því til LS að vera með á alheimsmatarsýningunni Salone Del Gusto á Ítalíu á næsta ári þar sem íslenska lambakjötið verður í fararbroddi og draga aðra með. SlowFood-samtök halda sýninguna sem er andsvar við FastFood-keðjurnar. Í fyrra mættu sex þúsund manns á ráðstefnuna en 150 þúsund á matarsýninguna.


Föstudagurinn 31. mars

 

Fundur settur að nýju 10:15.

Einar Örnólfsson fylgir eftir ritinu Smalanum sem gefið er út af Félagi sauðfjárbænda í Borgarfjarðarhéraði í 7. sinn. Einar þakkaði ritstjóra, Þórhildi Þorsteinsdóttur að Brekku, klappað var fyrir henni og hennar störfum.

Sigurður Sigurðarson hélt erindi um rannsóknir á fóstur- og lambadauða. Þar lagði hann áherslu á hversu brýnt er að beina sjónum að því af hverju lömb deyja rétt fyrir eða rétt eftir burð. Sýndi myndir af dauðum fóstrum ásamt heilbrigðum og óheilbrigðum legum úr kindum.

Fyrirspurnir um erindi:

Jón Eyjólfsson: Er mikið um kattasmit enn þá og fósturlát út af því?

Svar: Já, það er það og langalgengasta orsök fósturláts og er líka þekkt erlendis. Yfirleitt verður sýking í eitt ár en ekki ár eftir ár. Ungir kettir bera þetta með sér í stórum stíl.

Sigríður Jónsdóttir : Bendir þetta ekki til að hægt væri að þróa bóluefni miðað við það sem þú sagðir?

Karl Kristjánsson: Eru vísbendingar um að selenskortur í ám leiði til þess að lömb fæðist líflítil og drepist fljótlega eftir fæðingu?

Svar: Já, og vegna þess hefur verið mælt selen í ám og kúm. Komið hefur verið af stað notkun á bóluefni en það hafa verið ákveðnir vankantar á því.

Jóhannes Sigfússon: Innvortis blæðingar í nýfæddum lömbum skýra að lambið hafi orðið fyrir hnjaski í móðurkviði en ég kem því ekki heim og saman á óbreyttu búi frá ári til árs, að það komi upp eitt ár en sjáist svo ekki næsta ár. Er ekki eitthvað í gangi með snefilefni eða annað sem kemur þessu af stað?

Svar: Rétt hjá þér með þetta. Snefilefnaskortur getur orsakað þetta og sýkingar í lifur þarf að athuga líka. Það þarf að leita að snefilefnum. Þetta er eins og með kálfana og kannski eitthvað sérstakt vandamál hérlendis en það hefur verið talað um að rúlluvæðing gæti hafa framkallað efnabreytingar í þessa veru.

Sigríður Jónsdóttir: Nú höfum við verið að sjá offóðrun hjá kúnum fyrir burð, getur það verið skýring?

Svar: Það getur verið og að það sé misræmi í efnum sem ánum vantar. Það er vandmeðfarið að gefa nákvæmlega rétt, það þarf að vera samræmi í því.

Jóhannes Sveinbjörnsson: E-vítamín safnast upp í fituvef sem þarf að vera til staðar í fóðrinu til að brjóta niður á móti seleni. Ef þær eru ekki að leggja af rétt fyrir burðinn þá eru kindurnar ekki að taka E-vítamín úr fitunni og því þyrfti að bæta því við í fóðrinu í staðinn.

Gunnar Þorgeirsson: Varðandi ígerð í móðurlífi, kemur hún þegar hildarhnapparnir fara að kalka eða verður ákveðin sýking?

Svar: Þetta er ákveðin sýking. Við höfum séð fóstur með slíkar skemmdir en þetta er sýking sem kemur utan frá sem móðirin hefur sýkst af og hefur borist með blóðinu í sambandið milli móður og fósturs.

Gunnar Kristjánsson: kynnti tillögur Fjárhagsnefndar og bar upp tillögur hennar að fjárhagsáætlun fyrir árið 2006.

 
Afgreiðsla mála

 Tillaga 4.1

Grétar Jónsson, framsögumaður Umhverfisnefndar kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu skorar á stjórn LS að hún hlutist til um að tekið verði á því samkvæmt hörðustu viðurlögum ef sannanleg dæmi koma upp um að aðbúnaður og fóðrun búfjár sé stórlega ábótavant. 

Fundarstjóri gaf orðið laust.

Sigurður Jónsson: Ég nefndi í gær varðandi gæðastýringuna að mér finnst ekki nógu hart tekið á því. Ef menn verða uppvísir að slæmum aðbúnaði og fóðrun þá á að láta menn hætta búskap en ekki gefa skilyrði um úrbætur.

 

Lárus Sigurðsson: Lýsti ánægju með tillöguna, vildi láta rétta orðalag.

 

Guðbrandur Hannesson: Talar um störf umhverfisnefndar varðandi málið. Þau leituðu til Ólafs Dýrmundssonar og rak ráð hans og skýrslu sem hann hafði gert. Þetta er ekki í lagi og þarf að endurskoða.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 4.2

Guðbrandur Hannesson, framsögumaður Umhverfisnefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu skorar á fjárveitingavaldið að tryggja nægt fjármagn til viðhalds sauðfjárveikivarnalína. Miklu skiptir að dreifingarsvæði sauðfjársjúkdóma verði ekki stækkuð með því að vanrækja eða leggja niður varnarlínur. Einnig er mjög brýnt að verja hreinu svæðin með öllum tiltækum ráðum.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust.

 

Sigurður Jónsson: Mér þykir vænt um að þessi tillaga kom fram, hef verið í baráttusveit með Sigurði Sigurðarsyni undanfarna áratugi varðandi varnarlínurnar. Mér þykir glannalegt að ætla að sameina fimm hólf, þar sem í tveimur hólfum hafa ekki verið þekktir sjúkdómar. Þar hefur verið hreinn fjárstofn sem hægt er að flytja á svæði sem hafa lent í því óláni að verða fyrir sjúkdómum. Finnst við eiga það inni að halda uppi þessum vörnum okkar, dýrmætt að þessi hólf hljóti verðmæti áfram. Þykir glannalegt að fara opna allt svæðið, hefur verið tómlæti í þessu hjá Landbúnaðarstofnun. Vill hvetja stjórnina að halda uppi harðri baráttu fyrir því að varnarhólfum verði ekki fækkað eins mikið og tillögur gera ráð fyrir.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 


Tillaga 4.3

Guðbrandur Hannesson, framsögumaður Umhverfisnefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu beinir því til stjórnar LS að kanna möguleika á því að aðalfundir samtakanna verði skipt á landsfjórðungana eins og áður var og stefna að því sama með árshátíð sauðfjárbænda.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust.

 

Lárus Sigurðsson: Ég ætla ekki standa fyrir alvarlegum mótmælum þessarar tillögu en mér finnst það hafa gefist vel að halda aðalfundinn á þessum árstíma á þessum stað. Ég hef ekki slæma reynslu af öðru fyrirkomulagi en oft á tíðum er dýrt að halda fundi á ferðamannatíma úti á landi. Ég lýsi því andstöðu við að breyta þessu nema það séu virkilega góð rök fyrir því.

 

Aðalsteinn Jónsson: Ég tek undir orð Lárusar, við eigum ekki að breyta því sem vel gengur. Vil benda á opna húsið á Hesti en það væri sniðugt að samræma fundinn við þann tíma. Það væri þá í leiðinni fræðsla fyrir okkur að njóta þess að fá kynningu á þessu búi.

 

Jóhann Ragnarsson: Félögin eiga mismunandi langt að sækja hingað, kostnaður lendir misjafnlega að senda sína félaga á fundinn. Er ekki athugandi fyrir stjórn LS að jafna ferðakostnað ef fyrirkomulagið verður áfram óbreytt?

 

Birgir Arason: Tillagan kom frá okkur Eyfirðingum í annað sinn en við ætlum ekki að gefast upp þó að hún verði felld. Við höfum lagt upp með það að fundurinn verði í nánari sambandi við landsbyggðina. Kostnaðurinn hefur verið mönnum þyrnir í augum í gegnum tíðina, við höfum lítinn samanburð á að halda fundinn í apríl úti á landi eða hér í Reykjavík. Fólk er ósátt við þetta fyrirkomulag og menn ættu að kanna hvort dýrara sé að halda fundinn úti á landi í apríl. Ef landssambönd vilja ekki koma heim í héruð og vera sýnileg þar þá vorkenni ég þeim ekki að þau eigi erfitt.

 

Tillagan felld, með 17 atkv. gegn 8 atkv.   

 

 

 

Tillaga 4.4

Ragnhildur Sigurðardóttir, framsögumaður Umhverfisnefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu beinir því til stjórnar LS og BÍ að hafa forgöngu um að mótuð verði, í tengslum við gæðastýringu í sauðfjárrækt, framtíðarstefna fyrir íslenskan sauðfjárbúskap með sjálfbæra þróun, góða búskaparhætti og umhverfisvernd að leiðarljósi.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust. Tillögunni  vísað aftur til nefndar, frestað.

 

 

Guðrún Stefánsdóttir: Ég var að velta fyrir mér á hvaða fundi við værum þegar ég las tillöguna, langar að fá nánari útskýringu á umhverfisvernd að leiðarljósi. Finnst tillagan tala niður til okkar og ég legg til að við fellum hana.

 

Agnar Gunnarsson: Ég var dolfallinn þegar ég las þessa tillögu. Ég hélt að við værum að berjast fyrir gæðastýringu síðustu ár, þetta er tóm vitleysa, eigum að fella tillöguna.

 

Arnór Erlingsson: Ég vil fá frekari útskýringar á sjálfbærri þróun, ég skil ekki alveg tillöguna.

 

Jóhannes Sveinbjörnsson: Það er góð hugsun í þessari tillögu og ekki vanmeta það. Ég tel að við höfum þetta nú þegar í gæðastýringunni og að við þurfum að halda áfram að laga hana.

 

Lárus Sigurðsson: Mér finnst tillagan óþörf, við erum nú þegar í gæðastýringunni og mér finnst að það mætti frekar hnykkja á þáttum í henni. Ég óska eftir að nefndin taki tillöguna til frekari skoðunar og komi með hana fram seinna í dag.

 

Sigríður Jónsdóttir: Það er ekki gott til afspurnar að taka tillöguna fyrir og fella hana en mér dettur í hug að skynsamlegra væri að breyta orðalagi hennar sem fælist í því að við héldum áfram þeim góða þætti sem felst í gæðastýringunni með þessi atriði að leiðarljósi.

 

Guðbrandur Hannesson: Hugmyndin að tillögunni er komin frá kennara á umhverfisbraut á Hvanneyri. Nefndarmenn tóku henni fyrst með varúð en síðan náði kennarinn að tala alla til.

 

Karl Kristjánsson: Ég bið nefndina að taka tillöguna aftur til skoðunar. Stefnumörkun í sauðfjárræktinni er gæðastýringin.

 

Ragnhildur Sigurðardóttir framsögumaður svarar fyrir tillöguna: Ég árétta að í þessu er ekki falin nein árás á núverandi sauðfjárbúskap í landinu. Tillagan er hugsuð með sóknarfæri að leiðarljósi og á að vera stefnuplagg fyrir LS í stefnu um umhverfismál.

 

Eftir að nefndin hafði tekið tillöguna aftur fyrir kom hún til fundarins eins og hún birtist hér að ofan og var þá afgreidd með eftirfarandi hætti.

Tillagan samþykkt með 17 atkvæðum á móti 3.

 

 

Tillaga 2.1

Gunnar Þorgeirsson, framsögumaður Fagnefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu beinir því til Fagráðs í sauðfjárrækt að leggja meiri áherslu heldur en verið hefur á mjólkurlagni og frjósemi í kynbótastarfinu. Einni verði það skoðað hvort hægt sé að taka tillit til arðsemi við útreikning afurðarstigs ánna.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust en enginn kvað sér hljóðs. Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 2.2

Baldvin Björnsson, framsögumaður Fagnefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu beinir því til stjórnar LS að kanna hjá  framleiðendum eða innflutningsaðila merkja fyrir sauðfé hvort litasamsetning merkjanna geti verið þannig að álestur verði sem auðveldastur.

 

Forseti gaf orðið laust.

 

Böðvar Böðvarsson: Gerir athugasemdir við orðalag.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 2.3

Halla Steinólfsdóttir, framsögumaður Fagnefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu beinir því til stjórnar LS að leita leiða til að lækka kostnað fjáreigenda vegna greiningar riðu arfgerðar sérstaklega á þeim bæjum sem selja líffé til fjárskipta.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust.

 

Einar Örnólfsson: Tillagan er góð en mælir með örlitlum orðalagsbreytingum.

 

Guðrún Stefánsdóttir: Langar að spyrja um riðuarfgerð, er eitthvað til sem hamlar gegn riðu? Þeir komust að því í Noregi að svona hlutir eru ekki marktækir.

 

Sigurður Jónsson: Ég ræddi þessi mál við nafna minn í vetur og hann vakti athygli á því að í Noregi væru til tveir ólíkir stofnar riðu. Hann vildi meina að við værum að ganga of langt í því að rannsaka allt fé sem væri endurnýjað eftir riðuniðurskurð.

 

Jón Viðar Jónmundsson svarar spurningu Guðrúnar: Ég vil vekja athygli ykkar á því að í öllum löndum ESB er í gangi viðamikið rannsóknarverkefni í þessu. Við verðum að átta okkur á sérstöðu íslenska sauðfjárins en mest verndandi aðgerð gegn riðuveiki hefur aldrei fundist í íslensku fé en það er eina fjárkynið þar sem þessi arfgerð finnst ekki. Varðandi riðuveiki í Noregi að þá er ekki verið að tala um smitandi riðu heldur nýtt afbrigði; Noregsriða. Menn eru ekki klárir á því hvort þetta er smitandi afbrigði en þetta virðist vera öldrunarfyrirbæri sem kemur fram í gömlu fé. Í smitandi riðuveiki eru það arfgerðir sem stjórna því mikið hvort fé sýkist yfir höfuð.

 

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson: Hvetur framsögumenn að reifa lítillega það sem skiptir máli í tillögunum. Spyr hverjir framkvæma þessar rannsóknir er kemur fram í tillögunum? Er þetta nauðsynlegt?

 

Sigríður Jónsdóttir: Fagnar tillögunni. Segir raunsögu úr sinni heimabyggð við kaup og sölu á fé. Greindi alla hrútana sem þeir tóku, samstaða um það.

 

Jóhannes Sigfússon: Varðandi arfgerðarmál, ég veit ekki hversu mikilvægt þetta er gagnvart vörnum gegn riðunni en það er þekkt hvernig þetta erfist, þannig að það er tiltölulega einfalt að rækta þetta út úr hjörðinni. Búið er að greina alla hjörðina á Hesti og fagráð býður að greiða niður til helmings arfgerðagreiningu.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 2.4

Vagn H. Sigtryggsson, framsögumaður Fagnefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu krefst þess að Landbúnaðarstofnun birti í Bændablaðinu niðurstöður úr efnagreiningum á áburði hjá hverjum og einum áburðarinnflytjanda svo fljótt sem kostur er.

Greinagerð´.

Í fréttahlekk á heimasíðu Aðfangaeftirlits, má lesa að árið 2004 voru tekin 31 sýni úr innfluttum áburði frá nokkrum innflytjendum, þar af reyndust 8 sýni ekki standast uppgefið efnainnihald á áburðarsekkjum.

Í frétt árið 2005 segir að það ár hafi verið tekin 45 sýni, úr áburði og þar af stóðu 10 sýni ekki uppgefin efnagildi.

Engar upplýsingar hafa borist eftir að Aðfangaeftirlitið flutti til Landbúnaðarstofnunar 2006.

Sýni úr áburði eru tekin þegar hann kemur til landsins og niðurstöður þeirra efnagreininga hafa ekki legið fyrir, fyrr en bændur hafa að meginhluta borið á þann áburð sem þeir hafa keypt. Það er óviðunandi.

Því er í raun verið að hlunnfara þá bændur sem lenda í því, óafvitandi, að kaupa vöru sem ekki stenst það efnainnihald sem skráð er á áburðarpokana.

Það er því réttmæt krafa okkar bænda að Landbúnaðarstofnun flýti sýnatöku og birti niðurstöður efnagreininga hið fyrsta svo ljóst sé hvort sá áburður sem bændur eru að kaupa uppfylli lágmarkskröfur um efnainnihald og hver flytur hann inn.

 

 

Fundarstjóri gaf orðið laust.

 

 

Jóhann Ragnarsson: Finnst að það gæti misskilnings í tillögunni því að ef sýni aðfangaeftirlitsins úr áburði standast ekki kröfur má hann ekki fara í dreifingu. Þetta er viðkvæm vara og erfitt að eiga við sýni.

 

Guðrún Stefánsdóttir: Það sem Jóhann segir er ekki rétt. Einhversstaðar er pottur brotinn, menn eru að reka sig á annað. Við eigum heimtingu á að þetta komi í Bændablaðinu og birtist opinberlega. 

 

Aðalsteinn Jónsson: Ég átti samtal við Ólaf Guðmundsson útaf sýnatöku og hvernig rannsóknum væri háttað og hann staðfesti það sem Guðrún sagði. Aðfangaeftirlitið tók ekki sýni fyrr en áburður kom til landsins og niðurstöður efnagreiningar tók nokkrar vikur að fá.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 2.5

Gísli Geirsson, framsögumaður Fagnefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu beinir því til BÍ að unnið verði að auknum leiðbeiningum um fóðrun sauðfjár, einkum varðandi prótein, steinefni, snefilefni og vítamín.

 

Greinargerð:

Með breyttri heyverkun á síðari árum og stórfelldri hækkun á verði fiskimjöls nýverið, sem talið er að verði varanleg, hafa forsendur breyst varðandi fóðrun sauðfjár, og vísbendingar hafa aukist um að skortur efna eins og selen og E vítamíns geti verið valdur að ýmsum kvillum eins og fósturdauða eða líflitlum lömbum.  Bændur verða að leita annarra leiða en fiskimjölsgjafar til að tryggja rétt jafnvægi ýmissa efna í fóðrun.  Setja þyrfti því saman uppskrift að a.m.k. einni steinefnablöndu sem hæfði til að gefa sauðfé með heyi sem hefði meðalgildi af steinefnum, snefilefnum og vítamínum.  Þá væri þörf á leiðbeiningum um áhrif forþurrkunar rúlluheys til að draga úr þörf fyrir annað prótein en það sem fæst úr heyi.

 

 

Fundarstjóri gaf orðið laust en enginn kvað sér hljóðs. Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 2.6

Þóra Sif Kópsdóttir, framsögumaður Fagnefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu skorar á stjórnvöld að tryggja að allir landsmenn sitji við sama borð varðandi háhraðatengingu svo að sauðfjárbændur beri ekki aukakostnað vegna fjárvís.is eða annarra forrita.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust en enginn kvað sér hljóðs. Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 2.7

Erlendur Ingvarsson, framsögumaður Fagnefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu lýsir áhyggjum sínum af fyrirkomulagi og kostnaði vegna dýrarannsókna. Svo virðist sem Tilraunastöðin að Keldum taki ekki lengur við skepnum til rannsóknar nema með úrskurði dýralæknis og að bóndi skuli greiða fyrir rannsóknina að fullu. Sá kostnaður er margfalt ærverð. Verði þessi háttur hafður á til frambúðar, er ljóst að mjög mun draga úr vilja manna til að grafast fyrir um dauðaorsök einstakra skepna á búum sínum. Mun það efalaust koma niður á baráttunni gegn smitsjúkdómum. Einnig beinir aðalfundur því til stjórnar að sjá til þess að greiningum á heilasýnum vegna riðu verði hraðað.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust en enginn kvað sér hljóðs. Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 1.1

Fanney Ólöf Lárusdóttir, framsögumaður Alsherjarnefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu lýsir fullum stuðningi við ályktanir sem Bændasamtök Íslands hafa látið frá sér um þjóðlendumál. Fundurinn hvetur stjórn BÍ til að beita sér af fullri hörku í þessu máli hér eftir sem hingað til.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust en enginn kvað sér hljóðs. Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 1.2

Sigríður Jónsdóttir, framsögumaður Alsherjarnefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Hótel-Sögu 12. - 13. apríl 2007, mælist til þess við Alþingi að starfshættir og stjórnsýsla Landbúnaðarstofnunar verði tekin til athugunar af til þess bærum aðilum.

 

Landbúnaðarstofnun ber að vinna eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993 eins og öðrum stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Vandséð er að þannig hafi verið unnið hjá stofnuninni við málsmeðferð vegna riðuniðurskurðar undanfarin ár. Má þar sérstaklega nefna leiðbeiningarskyldu stjórnvalds,  ákvæði um málshraða og ákvæði um jafnræði í lagalegu tilliti.

 

Greinargerð:

Dæmi eru um að ekki hafi verið gengið frá samningum um niðurskurð við bændur fyrr en löngu eftir niðurskurðinn, þó að ágreiningsefni hafi ekki verið uppi.

 

Ef gögn hefur vantað, til að unnt væri að ganga frá eða framfylgja samningum, hefur Landbúnaðarstofnun (áður Embætti yfirdýralæknis) í flestum eða öllum tilfellum látið hjá líða að veita upplýsingar um það eða afla þeirra gagna að eigin frumkvæði.

 

Landbúnaðarstofnun hefur ítrekað dregið að ganga frá útreikningum og greiðslum til bænda þó að öll gögn hafi legið fyrir.

 

Bændum hefur verið mismunað verulega við samningsgerð og fullnustu samninga.

 

Töluverð brögð eru að því að bréfum og öðrum erindum sem send hafa verið til Landbúnaðarstofnunar sé ekki svarað innan tilskilins tíma og mánuðir líða eða jafnvel allt að ár, án þess að svör berist eða gerð sé grein fyrir afdrifum mála.

 

Þar sem Landbúnaðarstofnun fer með almannafé, er handhafi stjórnvalds og fer með breiðan flokk málefna sem varða landbúnað, skiptir miklu fyrir alla sem starfa að landbúnaðarmálum að stofnunin verði starfi sínu vaxin og njóti trausts og virðingar innan bændastéttar sem utan. Þar sem fyrrgreind vandkvæði hafa vakið stórar spurningar um starfshæfni þessarar mikilvægu stofnunar, telur fundurinn tímabært að fram fari opinber úttekt á stjórn og starfsháttum Landbúnaðarstofnunar.

 

 

Fundarstjóri gaf orðið laust.

 

Ragnar Þorsteinsson: Það er ansi víðtækt að vísa til stjórnvalda, væri betra að setja til dæmis Alþingi inn í stað stjórnvalda.

 

Karl Kristjánsson: Ég ætla ekki að gera lítið úr samskiptum fólks við stofnunina en mér finnst þetta ansi svakaleg tillaga.

 

Gunnar Þórisson: Þó að ekki væri nema helmingur satt en allt er satt að þá er ástæða til að láta kanna þetta.

 

Jóhannes Sveinbjörnsson: Ég tel að þetta sé ekki svo svakalega orðuð tillaga því ég held að það sé fullreynt með aðrar leiðir. Ég legg til að tillagan verði samþykkt.

 

Jóhannes Sigfússon: Ég mæli með að eitt orð verði lagfært, breyta úr rannsókn í úttekt.

 

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson: Ég fagna tillögunni, mér finnst hún traustlega orðuð og ég er tilbúinn að standa að því. Sagði reynslusögu af heimsókn félaga sinna í Landbúnaðarstofnun.

 

Lárus Sigurðsson: Ég skil Karl vel að honum finnist tillagan ákveðin og hvöss, en ég  tel gott að slíkt erindi fari frá fundi sem þessum. Ég þekki þessar aðstæður og þetta er síst ofmælt í tillögunni.

 

Agnar Gunnarsson: Mér leist ekki á tillöguna þegar ég las hana fyrst en ég tek það fram að ég þekki ekki slíkt mál af eigin raun en eftir að ég hef heyrt betur tel ég sjálfsagt að styðja svona tillögu.

 

Þóra Sif Kópsdóttir: Ég styð tillöguna heilshugar, mér finnst að bæta mætti við Landbúnaðarráðuneyti, því þá stofnun þyrfti líka að skoða.

 

Guðrún Stefánsdóttir: Mér finnst ekki vera sagt of mikið í tillögunni, við stöndum með þeim sem eiga í þessu og það er okkar allra.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 1.3

Fanney Ólöf Lárusdóttir, framsögumaður Alsherjarnefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu samþykkir eftirfarandi tillögu vegna endurskoðunar á reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og gæðahandbók

 

1.      Staðfesting gæðastýringar og gjalddagar:

a.      Staðfesting gæðastýringar skal liggja fyrir eigi síðar en 30. júní.

b.      Fyrsta álagsgreiðsla skal vera 15. júlí og verður allt að 35% af álagsgreiðslu síðasta árs. Tekið skal mið af breytingum á sauðfjáreign. Gjalddagi fyrir framleiðslu í janúar til október verði 25. nóvember. Gjalddagi fyrir framleiðslu í nóvember skal vera 20. desember.

c.       Lokauppgjör ársins skal fara fram fyrir 5. febrúar.

Samþ. samhljóða

 

2.      Umsóknarfrestur og námskeið:

a.      Nýjar umsóknir hafi borist fyrir 1. desember vegna framleiðslu næsta árs. Tekið skal tillit til þess þegar ábúendaskipti verða á jörðum.

b.      Umsækjandi eða fulltrúi hans hafi sótt eins dags námskeið sem boðið skal upp á árlega.

Samþ. samhljóða

 

3.      Greitt verði álag á alla gæðaflokka dilkakjöts nema vöðvaflokk P og fituflokk 5.

Samþ. 20 með og 12 móti

 

4.      Gæðahandbók, skýrsluhald og landnotkun

a.      Eftirfarandi skráningar verði áfram með svipuðu sniði:

1)      Viðurkennt skýrsluhald í sauðfjárrækt þar sem síðasti skiladagur haustbókar er 1. febrúar.

2)      Skrá áburðarnotkun. Felld verði út skylduskráning á magni búfjáráburðar.

3)      Uppskeruskráning

4)      Skrá lyfjakaup

5)      Skrá lyfjanotkun. Í fjárbók verði hópskráning á sérblað og einstaklingslyfjagjöf hjá viðkomandi grip.

6)      Landnýting. Sé ekki nægjanlegt beitiland fyrir hendi þarf að gera áætlun um úrbætur. Þær geti verið fyrir einstakar eða margar jarðir. Refsiákvæði þurfa að bitna á þeim einstaklingum sem brotlegir eru án þess að snerta aðra sem að vikomandi áætlun standa. Nánari útfærslu þarf að vinna í samráði við Landgræðslu ríkisins.

 

b.      Eftirfarandi skráningar verði í breyttri mynd:

1)      Grunnupplýsingar verði uppfærðar eftir því sem við á.

2)      Beitarskráning. Fyrirkomulag beitar verður hluti af grunnupplýsingum.

3)      Aðstæður 1-A og 2-A verða grunnupplýsingar.

4)      Atburðaskráning verði valskráning

5)      Fóðurkaup og fóðrun. Skráð verði gróffóðurkaup og heildarfóðurnotkun á búinu.

Samþ. með meginþorra atkv. gegn 2

 

 

5.      Umsjón og eftirlit með gæðastýringu

a.      Framkvæmdanefnd búvörusamninga  hefur ein vald til að taka framleiðendur inn í gæðastýringuna sem og vísa þeim úr henni.

b.      BÍ hafa umsjón með eftirtöldum þáttum.

1)      Halda skrá yfir þátttakendur. Það eru þeir sem uppfylla skilyrði gæðahandbókar, búfjáreftirlits, landnýtingar og skýrsluhalds.

2)      Koma eyðublöðum til þátttakenda, í síðasta lagi í desember vegna skráningar næsta árs.

3)      Auglýsa skiladaga í tíma, minna á skráningar, upplýsa um áætlaðar álagsgreiðslur á hverju ári og fleira sem tengist gæðastýringunni.

4)      Upplýsi bændur ef breytingar verða á reglugerðum tengdum sauðfjárbúskap, t.d. með stuttum greinum í Bændablaðinu.

 

 

 

 

 

 

Í tillögu 1.3 var borinn upp hver liður sérstaklega.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust um 1. lið.

 

Þóra Sif Kópsdóttir: Er hægt að hafa allar dagsetningar í tillögunum sama dag?

 

Guðrún Stefánsdóttir: Þetta er plagg sem við setjum inn í nefnd á vegum Landbúnaðarráðuneytisins. Mér finnst að fundurinn eigi að álykta um að LS skuli ekki líka hafa fengið fulltrúa inn og BÍ. Finnst skammt gengið í breytingum á þessu, stingur upp á breytingum.

 

Fanney Ólöf Lárusdóttir: Í sambandi við dagsetningarnar kemur með tillögu að breyta einni dagsetningu í tillögunni.

 

Fyrsti liður samþykktur samhljóða.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust um 2. lið en enginn kvað sér orðs.

 

Liður 2 samþykktur samhljóða

 

Fundarstjóri gaf orðið laust um 3. lið.

 

Karl Kristjánsson: Er þeirrar skoðunar að það eigi að greiða gæðastýringu á alla flokka, verðmyndun á að vera fyrir utan þetta. Held að þetta sé röng leið.

 

Bjarni Sigjónsson: Hef ekki séð svona tillögu, ósáttur við hana.

 

Arnór Erlingsson: Finnst nóg að bændur séu að missa verð út í afurðastöð út af þessum flokkum.

 

Grétar Jónsson: Er ekki áfram um að hafa hömlur á greiðslu til gæðastýringar en líka sammála að horkjöt er vont kjöt. Ég skildi það í gær að tilmæli væru til bænda með þessu að slátra fyrr til að minnka fitu inn á markaðinn.

 

Guðrún Stefánsdóttir: R4 er VSOP sem er eðalkjöt SS. Ég legg til að við greiðum atkvæði um að gæðastýrt kjöt sé allt kjöt en ekki tæta þetta svona.

 

Þorvaldur Þórðarson: Ef við borgum jafnt yfir alla flokka þá erum við að breyta hlutföllum. Ekki er hægt að ganga lengra en þetta eins og tillagan ber með sér nema að fara borga hlutfallslega meira á flokkana. Það er verið að víkka út sem var.

 

Jóhannes Sigfússon: Það er eðlilegt að menn ræði þetta hér og að það séu skiptar skoðanir og álitamál. Ég út af fyrir sig tek undir það sem Karl sagði. Ég hygg að fyrir sláturleyfishafa að nota OB í álegg sé mjög verðmætt. Að greiða á alla flokka, við þurfum að vara okkur á fitunni.

 

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson: Kom með breytingartillögu við 3. lið.

 

Liður 3 samþykktur með breytingartillögum. 

 

 

 

Fundarstjóri gaf orðið laust um 4. lið.

 

Sigurður Jónsson: Gerir athugasemd við tillöguna, færa skilin á Fjárbókinni fram um einn málaflokk. Beitarskráningin er fráleit og vill fá skilgreiningu á því.

 

Einar Örnólfsson: Ef man rétt er gæðastýring okkar tæki til að búa til gott kjöt og sýnir fram á að við búum vel. Gerir ýmsar athugasemdir við innihald liðsins.

 

Birgir Arason: Gerir athugasemdir við innihald liðsins, skil á Fjárbókinni. En fagnar tillögunum í 4. lið, þar er verið að einfalda skráningu og gera aðgengilegra.

 

Guðrún Stefánsdóttir: Alls ekki sammála Einari en ef mönnum finnst þeir græða á skráningu er gott að þeir geri það fyrir sig. Að krefja menn um ómerkilega skráningu er ekki rétt leið, hafa þetta satt og einfalt. Uppskeruskráningin, kemur forðagæslumaður og finnst eðlilegt að forðagæsluskýrslan sé inni í gæðastýringunni. Grunnupplýsingar að fara yfir búið og skrá hvort allt sé í lagi. Legg til að b-liður verði valskráningar en ekki skylda.

 

Einar Ófeigur Björnsson: Hægt að karpa um hvað á að vera skylduskráning og hvað ekki í óratíma. Þetta er málamiðlunarplagg sem fór í gegnum 13 manna nefnd. Fór yfir spurningar sem upp höfðu komið í umræðum varðandi tillöguna.

 

Bjarni Sigjónsson:  Talar um lið 6 um landnýting, sættir sig ekki við liðinn og vill fá hann út.

 

Arnór Erlingsson: Sáttur við tillöguna, tekur undir með Einari Ófeigi. Ímynd og trúverðugleiki skiptir máli.

 

Smári Borgarsson: Með ólíkindum hvernig hægt var að koma gæðastýringunni á í upphafi 2000. Varðandi lið 6, fullur ásetningur hjá mér að hafa hann inni og hafa hann harðorðan.

 

Sigríður Jónsdóttir: Ekki ræða liðina heldur gæðastýringuna. Tvennt sem kemur til greina að skrifa í gæðastýringuna, vísindapappírar sem eigum á nótum, síðan er það skáldskapur en það er það sem við töldum okkur vita. Er ekki í vandræðum með að blanda vísindum og ljóðlist saman. Við eigum að vera stolt af gæðastýringunni. Besta kaup sem ég fæ er að fylla út gæðastýringarpappírana.

 

Sigurður Jónsson: Talar um að færa í fjárbók og skil á henni. Ásamt skráningu á heyfeng.

 

Grétar Jónsson: Fellst á allan 4-lið fyrir sína parta og fyrir sveitunga sína. Er býsna sáttur við flest allt þarna og sérstaklega b-liðurinn er mikið til bóta.

 

Jóhannes Sigfússon: Til í því að menn þurfi að vera skáldmæltir til að stunda gæðastýringu. Nokkuð sáttur við þessa liði eins og þeir liggja fyrir. Reynir helst á landnýtingarþáttinn og mun reyna á Fanneyju í viðræðum við Landgræðsluna.

 

Liður 4 samþykktur samhljóða.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust um 5. lið en enginn kvað sér orðs.

 

Liður 5 samþykktur samhljóða.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 3.1

Guðrún Stefánsdóttir, framsögumaður Markaðs- og kjaranefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu felur stjórn L.S að beita sér fyrir því að allt íslenskt kindakjöt verði auðkennt sem íslenskt (merki,logo)frá sláturleyfishöfum og kjötvinnslum í verslunum. Einnig sé gerð krafa um að upprunaland kjötvöru sé greinilega skráð. Eðlilegt er að allar íslenskar landbúnaðarafurðir séu auðkenndar með sama merkinu.

 

Greinargerð:

Með auknum innflutningi á kjöti er nauðsynlegt að neytendur séu upplýstir um uppruna þeirra kjötvöru sem er í boði í verslunum og íslenskt kjöt verði greinilega auðkennt svo neytandinn geti haft upplýst val.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust en enginn kvað sér hljóðs. Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 3.2

Karl Kristjánsson, framsögumaður Markaðs- og kjaranefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu felur stjórn L.S. að hefja nú þegar viðræður við sláturleyfishafa um undirbúning að skipulegri nýtingu útflutningsmarkaða fyrir kindakjöt, eftir að opinberri ákvörðun um útflutningsskyldu lýkur 2009.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust en enginn kvað sér hljóðs. Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 3.3

Jóhannes Sveinbjörnsson, framsögumaður Markaðs- og kjaranefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu skora á sláturleyfishafa að birta uppgjör um framlegð mismunandi afurða, þar með talið gæru, sláturs, og mismunandi verðflokka kindakjöts á komandi hausti. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja að bændur geri sér sem best grein fyrir verðmæti afurða sinna á hverjum tíma.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust.

 

Þorvaldur Þórðarson: Líst vel á byrjun tillögunnar en ef á að gera upp hvern gæðaflokk kindaflokks fyrir sig er þetta orðið býsna mikið verð, ég held að sláturleyfishafar muni hrista hausinn. Gengur ekki upp svona.

 

Einar Ófeigur Björnsson: Lýsi ánægju með hvaða afgreiðslu þetta mál hefur fengið.

 

Jóhannes Sigfússon: Ábending um eitt orð.

 

Þórarinn Pétursson: Ef skil rétt snýst ekki um uppgjör til okkar bænda. Á að vera eitt verð fyrir hvern dilk.

 

Jóhannes Sveinbjörnsson: Rétt skilið hjá Þórarni, birta á uppgjör fyrir framleiðslu afurða sem um ræðir. Lítið mál að reikna tölur út, aðalmálið að fá tölurnar upp á borðið, jafnvel þó við fáum ekki verðið hjá afurðastöðunum. Bendir á nýlega skýrslu Matís.

 

Sigurður Jónsson: Það sem vakti fyrir okkur með þessu er að fá upplýsingar um framlegð fram og að það skapi stjórn LS svigrúm til að fá breytingar á verðflokkum sem eru í dag.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 3.4

Lárus Sigurðsson, framsögumaður Markaðs- og kjaranefndar, kynnti tillögu nefndarinnar sem er svohljóðandi:

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn 12. - 13. apríl 2007 á Hótel Sögu samþykkir að fela stjórn L.S. að útfæra reglur um nýliðunarstyrki samkvæmt eftirfarandi drögum.

 

Skilyrði fyrir nýliðunarstyrkjum

  • Að viðkomandi einstaklingur eða lögaðili hafi ekki áður rekið sauðfjárbú í eigin nafni.
  • Að viðkomandi eigi eða leigi lögbýli til búreksturs og hafi lögheimili þar.
  • Að ábúandi sé eigandi lögaðila að meirihluta, eða ráði sannanlega yfir meirihluta atkvæða.
  • Að viðkomandi leggi fram vottorð frá viðkomandi sveitarfélagi um að hann sé að hefja búskap.
  • Að viðkomandi sé þátttakandi í gæðastýringu.
  • Að fyrir liggi búrekstraráætlun til þriggja ára, samþykkt af héraðsráðunaut.
  • Að fyrir liggi kaupsamningur bústofns þar sem kemur fram verð og fjöldi.
  • Greitt verði framlag á að hámarki 500 kindur til handa sama aðila. Ef keyptar eru færri en 100 kindur fæst ekki framlag.

 

Gerður verði samningur um nýliðunarframlag. Þar skal koma fram að nýliðunarframlag fyrnist á fimm árum. Láti handhafi að framlagi af búskap á samningstímanum skal semja um skil á hlutfallslegum eftirstöðvum.

 

Greinagerð:

Í nýjum samningi um starfskilyrði í sauðfjárrækt er í grein 4.5 kveðið á um nýliðun. Orðrétt segir:

" Til nýliðunar í stétt sauðfjárbænda verði varið 35 m.kr., m.a. í formi styrkja til bústofnskaupa, bæði til frumbýlinga og við ættliðaskipti á bújörðum."

 

 

Fundarstjóri gaf orðið laust.

 

Böðvar Böðvarsson: Velti fyrir sér að ekki er greiddur styrkur oftar en einu sinni til sama aðila, verður viðkomandi að kaupa 500 ær strax fyrsta ár. Leggur til breytingartillögur

 

Agnar Gunnarsson: Líst ágætlega á þetta. Geta ellilífeyrisþegar fengið nýliðunarstyrk? Hvergi kveðið á um aldur.

 

Erlendur Ingvarsson: Leggur til breytingartillögur.

 

Einar Ófeigur Björnsson: Bendir á síðustu þrjú orð í fyrstu málsgrein, mætti koma inn tæknilegum breytingum.

 

Guðrún Stefánsdóttir: Nauðsynlegt að rætt sé vel tillagan og komi með sjónarmið í þetta, erfitt þegar svona er því misnotkun er alltaf fyrir hendi. Spurning með nýliða, ertu átta ár samningstímans nýliði, finnst að mætti vera skemmri tími.

 

Agnar Gunnarsson: Varðandi fyrsta liðinn, athugasemdir við það.

 

Með breytingartillögunni í síðasta punkti var tillagan borinn upp.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Tillaga 5.1

Jóhann Ragnarsson, framsögumaður Fjárhagsnefndar, kynnti tillögu nefndarinnar um fjárhagsáætlun fyrir árið 2007.

 

Fundarstjóri gaf orðið laust og enginn kvaddi sér hljóðs. Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Önnur mál

 

 

Þóra Sif Kópsdóttir: Vil ekki gefast upp. Ég hélt að ég hefði talað nóg fyrir markaðs- og kjaranefnd að grípa tækifærin þegar þau gefast, þau líða líka út. Varðandi tillögu átta sem var felld út sem barst markaðs- og kjaranefnd bið ég um að tekið verði þátt í matvælasýningunni Salone del Gusto sem er haldin annað hvert ár á Ítalíu. Langar því að bera upp tillögu.

Tillagan verður að bíða næsta landsfundar.

 

 

Kosningar

 

Kosning endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækis
Stjórnin gerir tillögu að óbreyttum endurskoðendum, Endurskoðun og ráðgjöf ehf. Tillaga að skoðunarmönnum reikninga er Gunnar Þórisson Fellsenda og varamaður hans Albert Guðmundsson á Heggsstöðum.

Samþykkt samhljóða

 

 

Kosning fulltrúa

 

Austurlandi, tillaga um óbreyttan stjórnarmann - Baldur Grétarsson og Lárus Sigurðsson sem varamann.

 

Norðlendingar - Þórarinn Pétursson í Laufási og Ragnar Þorsteinsson í Sýrnesi og Einar Ófeigur Björnsson Lóni. (Kosið á milli þeirra sem aðalmenn í stjórn LS sem fulltrúa Norðurlands). Þórarinn Pétursson sigraði með 32 atkvæðum, Ragnar 5 atkvæði, 2 auðir.

(Kosning um varamann) . Einar Ófeigur sigraði með 22 atkvæðum á móti 17 atkvæðum Ragnars, 1 auður seðill.

 

Jóhanna Pálmadóttir: Kæru vinir og félagar. Ég vil þakka kærlega fyrir liðin sex ár og vil óska þremur félögum mínum til hamingju með kosninguna sem var tvísýn en skemmtileg. Þegar ég byrjaði í LS var Aðalsteinn formaður á hægri hönd og Jóhannes núverandi formaður á vinstri hönd. Sendi heim í héruð bestu kveðjur til allra samstarfsmanna.

Ég var fyrsta kona í stjórn LS. Nafna mín sagði eitt sinn Minn tími mun koma en nú segi ég minn tími er liðinn. Þetta var alltaf gaman en oft erilsamt starf og lærdómsríkt. Ég þakka ykkur viðkynnin, þið eruð einstök og skemmtileg að vinna með.

 

Aðalsteinn Jónsson: sagði lokaorð í lok fundarins. Það er áhugavert að fylgjast með skoðunum manna í mismunandi héruðum og mér sýnist vera að færast ró yfir fundarsköpin. Ég þakka tillitssemi til fundarstjóra og þakka fyrir samstarfið.

 

Jóhannes Sigfússon: Legið hafa fyrir fundinum nokkur mikilvæg málefni sem hafa fengið málefnalega og góða umræðu. Við stefnum á árshátíð í kvöld og ég vona að fólk skemmti sér vel. Ég býð nýjan stjórnarmann velkominn til starfa, ég tel það ávinning fyrir stjórnina að fá hann inn og fyrir barinn einnig. Jóhanna er að ljúka sinni þátttöku í stjórn, hún hefur verið góður og ráðhollur félagi í gegnum árin og ekki síður öflugur talsmaður samtakanna. Hún hættir hér á toppnum. Ég þakka starfsmönnum fundarins, riturum og fundarstjórum fyrir vel unnin störf. Ég óska fundarmönnum hóflegra timburmanna og hóflegrar heimkomu. Ég segi þessum fundi slitið.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar