Print

Fagráðsfundur 29. mars 2010

Fundur í fagráði í sauðfjárrækt, haldinn 29. mars 2010.

Fagráðið kom saman til fundar í fundarsal í Bændahöllinni kl 10 mánudaginn 29. mars. Allir fagráðsmenn mættir, nema Jóhannes Sigfússon sem var í símasambandi og Baldur Grétarsson var ekki kominn úr flugi í byrjun fundar. Einnig sátur Emma Eyþórsdóttir og Sigurður Eyþórsson fundinn.

 

1. Fanney Ólöf, formaður setti fundinn og var gengið til afgreiðslu mála samkvæmt dagskrá sem hún lagði fram.

 

2. Frá síðasta fundi hefur fagráðið afgreitt til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins umsögn vegna tveggja umsókna sem sjóðnum höfðu borist. Önnur var frá Matís og samstarfsaðilum og hét "Verðmæti úr hliðarafurðum í slátrun og kjötvinnslu" og var mælt með í forgangsflokk. Hin umsóknin var frá Tilraunastöð HÍ  á Keldum og hét "Riðuveiki í sauðfé; faraldsfræði, umfang smits og smitnæmar arfgerðir." Faglega mjög vönduð umsókn en var talið eðlilegt að viki í forgangi vegna þess að takmarkaðar líkur væru fyrir hagnýtum niðurstöðum þessa verkefnis í bráð. (Umsagnirnar liggja fyrir í málaskrá hjá fundargerðum).

 

3. Framhaldsumsóknir vegna verkefna sem áður hafa fengið jákvæða afgreiðslu hjá fagráðinu um styrk af þróunarfé í búvörusamningi.

a. Lögð var fram framvinduskýrsla vegna verkefnisins um framleiðslu á sauða- og geitaostum, sem ábyrgðamaður verkefnisins Sigríður Bjarnadóttir hafði tekið saman. Framvinda verkefnisins hefur í megindráttum verið samkvæmt áætlun. Fagráðið mælir því með að verkefnið verði unnið eins og upphafleg umsókn gerði ráð fyrir og mælir með að veittur verði styrkur að upphæð 3 miljónir króna til þess á árinu 2010.

b. Verkefnisáætlun varðandi nýsköpunar- og markaðsátak hjá Glófa ehf. Á árinu 2009 veitti fagráðið styrk til þessa verkefnis og gerði sú umsókn einnig ráð fyrir að það yrði styrkt áfram á árinu 2010. Fyrir lá skýrsla um framgang áætlunarinnar og samkvæmt henni er framgangurinn allur í þeim farvegi sem ráð var fyrir gert.. Fagráðið telur mikilvægt að sá meðbyr sem ullarvöruframleiðslan nýtur verði nýttur til hins ítrasta. Mælt er með styrk að upphæð 3 miljónir króna.

c. Umsókn frá Loðskinn ehf. og E. Jóhannsson ehf.  vegna þróunar á vinnslu á smálambaskinnum. Á síðasta ári var veittur styrkur frá fagráðinu til þessa verkefnis og viðbrögð bænda voru mjög góð þannig að umfang verkefnisins varð eins og björtustu vonir höfðu leyft. Nú er sótt um styrk þar sem er gert ráð fyrir að fyrirtækið komi af meiri þunga inn með greiðslu fyrir skinnin. Umsóknin gerir ráð fyrri að styrkurinn greiði 600 króna framlag á hvert keypt skinn í stað 1000 króna á síðasta ári. Samþykkt er að mæla með að ábyrgst verði styrkgreiðsla vegna þessa verkefnis allt að krónum 3 miljónir á árinu 2010.

d. Styrkur til afkvæmarannsókna á hrútum á vegum búnaðarsambandanna haustið 2010. Þetta verkefni hófs fyrst haustið 1998 og var í mörg ár styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins en síðustu árin af þróunarfé í búvörusamningi. Fram kom í umræðum í fagráðinu að nauðsynlegt væri að skerpa á framkvæmdaatriðum og taka það til endurskoðunar með áherslu á samræmi í framkvæmd og enn árangursríkari framkvæmd gagnvart framhaldi þess. Samþykkt að mæla með styrk að upphæð 2.300 þúsund krónur á árinu 2010.

e. Styrkur vegna arfgerðagreiningar á hrútum. Gert er ráð fyrir að styrknum verði á árinu 2010 nær eingöngu beint að arfgerðagreiningum vegna sæðingastöðvahrúta til að fullnægja samþykktum fagráðsins um að þar séu ekki notaðir hrútar með áhættuarfgerð. Samþykkt að mæla með 800 þúsund króna styrks til þessa verkefnis á árinu 2010.

f. Styrkur til greiðslu á notendagjöldum FJARVIS.IS. Frá því að notendagjöld voru tekin upp þegar FJARVIS.IS skýrslugrunnurinn var tekinn í notkun árið 2007 hafa notendagjöldin verið greidd af fagfé samkvæmt búvörusamningi. Sótt er um sama styrk og á síðasta ári eða 4.950.000 krónur sem samþykkt var að mæla með að yrðu veittar til þessa.

 

4. . Umsóknir um styrki til nýrra verkefna sem veittir yrðu af fagfé sauðfjárræktarinnar

a. Umsókn frá Ingibjörgu Hönnu Pétursdóttur til verkefnisins "Þróun á þæfðu íslensku ullarefni". Þetta verkefni gengur út á þróunarvinnu eins og titill verkefnisins segir til um. Gert er ráð fyrir að leita faglegrar þekkingar erlendis bæði í Noregi og eins úr vinnslu á alpaca ull í Perú. Síðan verði unnið að þróun fyrir íslenska ull og hönnunarvinna þar í framhaldi. Ljóst er að takist þetta verður til mjög verðmæt framleiðsluvara á þennan hátt sem skapar möguleika í þróun og hönnun á tískuvörum. Ekki er að fullu ljóst hvernig það þróunarstarf sem þarna væri unnið nýtist mögulega öðrum aðilum. Fagráðið mælir með að til þessa verkefnis verði veittur styrkur að upphæð 1 miljón krónan, að því tilskildu að niðurstöðurnar verði öllum aðgengilegar.

b. Umsókn frá LBHÍ sem Snorri Sigurðsson er ábyrgðarmaður fyrir. Verkefnið heitir "Húsvist í fjárhúsum á Íslandi". Gerir það ráð fyrir að koma á heilstæðu yfirliti yfir fjárhúsbyggingar í landinu. Slíkur grunnur getur komið að miklum notum við skipulag rannsókna og athuganir í sambandi við vinnuskipulag og vinnuhagræðingu í fjárbúskap auk margvíslegra fleiri upplýsinga um þróunarmöguleika í greininni. Í umræðum komu fram ábendingar um að gera verkefnið ögn víðtækara þannig að um leið væri leitað upplýsinga um vinnuaðstöðu í sambandi við fjárrag að hausti og meðferð fjár á sauðburði. Fagráðið metur að sú upplýsingaöflun sem verkefnið gerir ráð fyrir eigi að geta nýst vel og mælir því með að umbeðinn styrkur að upphæð krónur 1.350.000 verði veittur.

c. Umsókn frá LBHÍ þar sem Snorri Sigurðsson er ábyrgðarmaður. Heiti verkefnisins "Sauðburðarhjálpin". Verkefnið gerir ráð fyrir að safnað verði upplýsingum um mismundandi sauðburðaraðstoð, aðferðir við að venja lömb á milli áa og fleiri þætti við sauðburð á völdum fjárbúum. Þeirri reynslu yrði síðan miðlað til annarra fjárbænda. Það er mat fagráðsmanna að í þessum efnum hafi fjárbændur tamið sér mismunandi vinnulag og verklag á grunni eigin reynslu og annarra. Oftast hafi menn þar fundið það vinnulag sem henti þeirra aðstæðum. Gagnsemi slíkrar upplýsingaöflunar er því dregin nokkuð í efa þar sem enginn möguleiki er til að meta raunverulegan árangur mismunandi aðferða. Fagráðið mælir því ekki með styrk til þessa verkefnis.

d. .Umsókn frá Guðmundi Hallgrímssyni á Hvanneyri fyrir hönd starfsfólks Ullarselsins á Hvanneyri. Ullarselshópurinn ráðgerir kynnisferð til Wales í júlí á komandi sumri. Þar á að leita þekkingar hjá áhugafólki á þessu sviði þarlendis. Sótt hefur verið um styrk til ferðarinnar frá Leonardo áætluninni og munu þátttakendur greiða kostnað sinn sjálfir fáist þessi styrkur ekki. Fari svo þá er sótt um styrk vegna farastjórnar í ferðinni. Þessi hópur hefur unnið verðmætt starf í markaðssetningu á ullarvörum og má vænta að í ráðgerðri ferð megi sækja verðmæta þekkingu. Fagráðið mælir því með að ef á þarf að halda þá verði umbeðinn styrkur 220.000 krónur veittur.

e. Umsókn þar sem Torfi Jóhannesson er verkefnisstjóri. Heiti verkefnisins er "Arctic-Eco vottunarkerfi fyrir landbúnað á Norðurslóðun". Verkefnið gerir ráð fyrir grunnvinnu við þróun á sérstöku vottunarkerfi fyrir landbúnaðarvörur frá Norðurslóðum. Vinnan yrði síðan boðin markaðsaðilum og framleiðendum á þessum svæðum. Fagráðið telur að frumkvæði að slíku starfi væri eðlilegast að kæmi frá slíkum aðilum en ekki kemur fram að slíkur áhugi liggi sem hvati hér. Verkefni þetta snýr frekar beint að markaðsfærslu en fræðslu, kennslu eða rannsóknum. Þar sem þetta hlyti einnig eftir lýsingu að vera verkefni sem næði til framleiðslu landbúnaðar á umræddu svæði telur fagráðið ekki eðlilegt að styrkur til þess komi öðru fremur frá einni búgrein.  Fagráðið mælir því ekki með að styrkur verði veittur af fagfé til þessa verkefnis..

 

5. Önnur mál

 

a. Sigurður Eyþórsson hafði yfirfarið verklagsreglur um styrki við kennslu, rannsóknir, leiðbeiningar og þróun í sauðfjárrækt. BÍ mun leita eftir að fá reglur þessar staðfestar sem varanlegar reglur hjá ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar. Engar efnislegar breytingar eru frá þeim vinnureglum sem fagráðið hefur unnið eftir nema að gildistími þeirra er lengdur. Fagráðið hefur engar athugasemdir um þær orðalagsbreytingar sem gerðar eru og samþykkir reglurnar fyrir sína hönd.

b. Jón Viðar minnti á að samkvæmt búnaðarlögun ætti fagráðið að fjalla um áherslur í ræktunarstarfinu á hverjum tíma. Ræddi sérstaklega hugmyndir í sambandi við breyttar áherslur á einstök afurðaár í BLUP kynbótamati fyrir frjósemi þar sem nú er lögð jöfn áhersla á öll fjögur fyrstu afurðaárin. Þess í stað lagði hann til að heildareinkunn væri byggð upp með megináherslu á frjósemi ánna tvævetluárið. Fagráðið lýsti samþykki sínu við þessar hugmyndir.Baldur greindi einnig frá umræðum á fundum sauðfjárbænda á Austurlandi þar sem áhersla hefði verið lögð á að ullargæðum væri áfram sinnt við val á hrútum fyrir sæðingastöðvarnar.

c. Samkvæmt búnaðarlögum ber fagráðinu að móta meginreglur um opinbert skýrsluhald í sauðfjárrækt. Þegar búfjárræktarlög féllu úr gildi og búnaðarlög tóku við var samþykkt af fagráðinu að áfram skyldi byggt á eldri starfsreglum. Rétt þykir að meginreglur verði bókaðar og var því í ljósi þessa eftirfarandi samþykkt sem meginreglur skýrsluhaldsins:

"Þátttakendur eru skráðir í fjárræktarfélag.

Lágmarksskráning byggir á að skráðar séu upplýsingar um lambafjölda og þunga lamba undan skýrslufærðum ám sem gera mögulegt að reikna út frjósemi og framleiðslu eftir skýrslufærða gripi á búinu.

Niðurstöður um stöðu einstakra búa eru opnar til birtingar á samanburðarskýrslum og -yfirlitum bæði fyrir einstök félög, héruð og fyrir allt landið.

Þeim aðilum sem þurfa að færa skýrsluhald vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt samkvæmt búvörusamningi en óska að standa utan fjárræktarfélaga er slíkt heimilt að uppfylltum skilyrðum um lágmarksskráningu en opin birting á niðurstöðum frá þeim aðilum er háð samþykki."

d. Farið yfir undirbúning að málþingi um sauðfjárrækt í tilefni 25 ára afmælis LS 9. apríl næstkomandi.

e. Plötumerkingar sauðfjár. Fundað var með Halldóri Runólfssyni og Þorsteini Ólafssyni frá Mast í byrjun mars og í framhaldi þess skrifað bréf til ráðuneytisins þar sem ítrekaðar voru kröfur um að leitað yrði eftir undanþágum frá ákveðnum ákvæðum EB-reglna um merkingar. Fagráðsmenn lögðu áherslu á að málinu þyrfti áfram að fylgja eftir.

 

Fleira ekki tekið til meðferðar og fundi slitið um kl 12.15.