Print

Fagráðsfundur 2. september 2010

Fundur í fagráði í sauðfjárrækt, haldinn 2. september 2010.
Fagráðið kom saman til fundar þriðjudaginn 2. september 2010 kl 9.40  í fundarsal Bsb, Suðurlands á Selfossi. Þar voru mætt Fanney Ólöf Lárusdóttir, Jón Viðar Jónmundsson og Sigurður Eyþórsson. Norðan fjalla í símasambandi voru síðan Jóhannes Sigfússon, Sigurður Þór Guðmundsson og Þórarinn Pétursson.  Emma Eyþórsdóttir var fjarverandi vegna fundarhalda erlendis.

 

1. Fanney Ólöf setti fund og lagði fram dagskrá

 

2. Sigurður Eyþórsson lagði fram yfirlit um stöðu peningamála samkvæmt bókhaldi. Um 40 miljónir eru til ráðstöfunar á árinu og er um 20% af því fé enn óráðstafað.

 

3.  Umsóknir sem borist hafa um styrkveitingar:

 

a. Verkefni undir heitinu Nýliðunarráðgjöf BÍ. Umsækjandi B.Í og forsvarsmaður Gunnar Guðmundsson. Fagráðið telur að í umsókninni séu margar áhugaverðar hugmyndir. Hins vegar vantar að markmið verkefnisins séu nægjanlega skýr, þó eru mjög almenn í umsókninni og skýra ekki nægjanlega hver sá markhópur sé sem eigi að sinna. Skilgreining á verksviði er einnig ákaflega almenn og þar af leiðandi óljós. Fagráðið telur hins vegar áhugavert að unnið væri að ákveðnum skýrt skilgreindum verkefnum sem þarna er vikið að og væri þar eðlilegasti farvegurinn að vinna slíkt skipulag í samvinnu við fagráðið. Fagráðið bendir t.d. á þá hugmynd að byggður sé upp "skilgreindur þekkingarpakki" sem væri verkefni sem þeir aðilar sem fengju nýliðunarstyrk færu í gegnum. Fagráðið mælir ekki með styrkveitingu til þessa verkefnis á því formi sem umsóknin er nú.

 

b. Umsókn frá Eyjólfi Ingva Bjarnasyni vegna lokaverkefnis hans í meistaranámi við háskólann í Ási í Noregi. Verkefnið heitir Hagnýtasta umfang sæðinga fyrir ræktunarskipulag íslensks sauðfjár. Fyrir liggur ítarleg lýsing á verkefninu, fjárhagsáætlun og staðfestingar frá háskólanum. Fagráðið telur hér um að ræða verkefni sem eigi að koma að góðum notum í íslensku sauðfjárræktarstarfi. Fagráðið mælir því eindregið með að styrkur að upphæð 800 þúsund krónur verði veittur.

 

c. Umsókn frá Smalahundafélagi Íslands um styrk til uppbyggingar á miðlægum gagnagrunni fyrir Border Collie hunda sem verði staðsettur hjá BÍ. Í umsókninni er gerð skýr grein fyrir núverandi stöðu málsins.  Fagráðið telur að hér sé um þarft mál að ræða vegna þess að bætt notkun smalahunda á að geta skilað verulegri hagræðingu við fjárrag hjá miklum fjölda bænda. Umsóknin eins og hún liggur fyrir uppfyllir hins vegar tæplega kröfur um verklýsingu og fjárhagsáætlun sem reglur gera ráð fyrir en með endurbótum á því mælir fagráðið með að veittur verði 500 þúsund króna styrkur til þessa verkefnis.

 

d. Umsókn um styrk frá SAH Afurðum ehf á Blönduósi til kaupa á vél til að hreinsa ull af lambahausum og lambafótum. Sótt er um 4 miljón króna styrk. Fagráðið lítur svo á að þegar kemur að styrkveitingum til tækja eða húsnæðis hjá samkeppnisfyrirtækjum sé komið út yfir verksvið þau sem stuðningi af fagfé sé ætlað að sinna. Af þeirri ástæðu leggur fagráðið til að þessari styrkumsókn verði hafnað.

 

e. Umsókn frá BÍ um styrk vegna kaupa á merkjum vegna skyldumerkinga á ásetningsfé.  Hér er um að ræða verkefni sem notið hefur styrks á þennan hátt frá byrjun. Fagráðið mælir með að styrkur verði áfram veittur á sama formi og verið hefur.

 

f. Umsókn um styrk til sveitarfélaga vegna úttekta á gæðastýringahandbókum, sent af BÍ. Óskað er eftir heimild til að þessi vinna verðu greidd af þessu fé á sama hátt og verið hefur undangengin ár og samþykkir fagráðið það.

 

4. Efni til kynningar.

 

a. Loftþurrkað lambakjöt. Lokaskýrsla um verkefnið frá MATÍs.

 

b.. Afföll lamba á sauðburði í Norður-Þingeyjarsýslu vorið 2009.

 

Í sambandi við umfjöllun um þetta mál kom fram að nauðsynlegt væri að stefna að því að koma margvíslegum niðurstöðum lambadauðaverkefnisins sem fagráðið hleypti af stokkunum fyrir nokkrum árum betur á framfæri. Þar er saman komin feikilega mikil þekking sem miklu skiptir að komist til sem allra flestra fjárbænda.

 

5. Önnur mál

 

a. Lagður fram til kynningar stjórnsýslusamningur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, MAST og Landgræðslunnar vegna eftirlits með landnýtingu samkvæmt reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.. Samkvæmt því fær Landgræðslan 4,6 miljónir króna greiddar af nýliðunar- og átaksverkefnalið sauðfjársamnings.

 

b.  Farið yfir ályktanir frá aðalfundi LS á liðnu vori

 

1. Ályktun um FJARVIS.IS  Jón Viðar gerði grein fyrir stöðu mála.  Á þessu ári hefur endurbótum og uppbyggingu lítið verið sinnt en að því verður farið að vinna. Hann lagði til að kallaður yrði til vinnuhópur bænda/ráðunauta til að vinna með starfsfólki BÍ að forgangsröðun verkefna. Lagt til að fá Önnu Margréti Jónsdóttur, Fanneyju Ólöfu og Sigurð Þór til verkefnisins.

 

2. Ályktun um að breyta áherslum milli vöðva og fitu í kynbótamati hrúta. Málið rætt og flest rök hníga til að eigi að breyta þá sé það til meiri áherslu á fitu en það telur fagráðið samt ekki rétt að gera. Ástæða er að minna á það að í FJARVIS.IS haf notendur alla möguleika til að skoða þetta með breytilegum áherslum.

 

3. Tvær ályktanir um samstarf við LBHÍ  önnur um almennt samstarf en hin um kennslubókagerð. Fagráðið leggur áherslu á áframhaldandi mikið og gott samstarf líkt og verið hefur og skoðaður verði möguleiki til sameiginlegs fundar snemma vetrar.

 

c. Sigurður Eyþórsson skýrði frá hugmyndum um að koma á námskeiðum í haust til að skerpa á áherslum meðal bænda í ullarmati. Fagráðið hvetur til slíkrar starfsemi. Það veitir um leið LS heimild til að millifæra fé, sem enn er ónotað vegna verkefnis um söfnun á búreikningum og veitt var á síðasta ári, til þessa verkefnis.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 11.10.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar