Print

Fagráðsfundur 8. mars 2016

Símafundur 8. Mars 2016 kl. 9:00.

Fagráð í sauðfjárrækt

Mætt: Oddný Steina Valsdóttir (OV) formaður fagráðs, Atli Már Traustason (AT), Eyþór Einarsson (EE), Fanney Ólöf Lárusdóttir (FL) og Böðvar Baldursson (BB).

Dagskrá:

 1. Umsagnir við umsóknir er varða þróun í sauðfjárrækt til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.Samkvæmt bréfi frá 9. febrúar sl. óskaði framleiðnisjóður eftir umsögnum um neðantalin erindi er varða þróun í sauðfjárrækt.
 2. Umsögn: Fagráð telur mjög brínt að þróa snjall-lausn fyrir skráningar í skýrsluhald sauðfjárræktarinnar.  Þó er settur sá fyrirvari að þróun á forritinu og þjónusta við notendur sé tryggð til framtíðar. Er þessi fyrirvari settur í ljósi þess að eignarhald á forritinu verður ekki á hendi Bændasamtakanna líkt og hingað til hefur tíðkast um skýrsluhaldsforrit sauðfjárræktarinnar.
 3. Umsögn: Fagráð telur verkefnið jákvætt og líklegt til að gagns. Verkefnið telst ekki til forgangsverkefnis en athygli er vakin á hóflegri upphæð umsóknarinnar.
 4. Umsögn: Fagráðið telur verkefnið mjög mikilvægt enda áhrif beitar á minna gróin svæði óstaðfest en ýmsar kenningar uppi. Í þessari tilraun liggur beitarþungi fyrir en  fagráð bendir á að mikilvægt er að horfa einnig til beitartíma. Tilhögun beitar getur ráðið úrslitum þegar áhrif hennar eru metin, að til þess sé litið hefur oft skort á, í ræðu og riti.
 1. Erindi frá BÍ um rannsóknaverkefni.

Erindið var tekið fyrir á síðasta fundi fagráðs, þann 4. febrúar 2016. Fagráð samþykkti að afgreiða erindið á eftirfarandi hátt:

Fagráð í sauðfjárrækt fagnar auknu framlagi til rannsókna á sviði landbúnaðar. Jafnframt bendir fagráð á mikilvægi þess að Landbúnaðarháskólinn sé í stakk búinn til að framkvæma og fylgja eftir efldu rannsóknarstarfi. Undanfarin ár hefur starfsfólki fækkað og endurnýjun tækja og aðstöðu setið á hakanum vegna niðurskurðar. Mannekkla hefur í einhverjum tilfellum hamlað því að mikilvægum verkefnum hafi verið fylgt eftir eins og æskilegt hefði verið. Virkt rannsóknarstarf í sauðfjárrækt er greininni lífsnauðsynlegt, enda forsenda framþróunar og nýsköpunar.

Tillögur um rannsóknarverkefni:
Rannsóknir á fósturdauða í veturgömlum ám –  Þetta mikilvæga verkefni er í gangi.  Lögð er áhersla á að þessu verkefni verið sinnt áfram þar sem hér er um brýnt úrlausnarefni að ræða.  Ekki er búist við að sú rannsókn sem nú er í gangi leysi vandann en á grunni hennar þarf að ákveða næstu skref.  Sé raunhæfur kostur að halda áfram rannsóknum á þessu sviði telur fagráð það mikilvægt.
Fóðurrannsóknir (fóður- og beitarrannsóknir) –  Undir þessum lið er margt sem bæði er þarft og áhugavert að sé rannsakað.  Fyrst má nefna að setja þarf fram auknar leiðbeiningar um  um vítamína-, steinefna- og snefilefnaþarfir sauðfjár, hvort sem það er gert með yfirfærslu þekkingar úr erlendum rannsóknum eða að gerðar séu athuganir hérlendis.  Þá eru á lista fagráðs í sauðfjárrækt verkefni er varða fóðrun sem bíða þessa að verða unnin en ekki hefur verið svigrúm hjá LBHÍ að sinna.  Þá má nefna fleiri áhugverð og þörf fóðurtengd verkefni s.s. mælingar á átgetu sauðfjár og fóðrunarkostnaði m.t.t. stærð gripa.  Undir þessum lið má einnig nefna þörf á auknum leiðbeiningum varðandi beitarstjórnun með það að markmiði að fá sem besta nýtingu á bæði ræktað land og úthaga.  Víða hafa bú stækkað sem hefur trúlega í för með sér aukan þörf fyrir gott beitarskipulag meðal annars m.t.t. snýkjudýravarna.  Þetta málefni var tekið fyrir á fagráðstefnu fagráðs í sauðfjárrækt á sl. ári en þar kom fram að lítið hefur verið rannsakað í þessum geira á síðustu áratugum.
Beitarsaga síðustu aldar- áhrif og ummerki vetrarbeitar á gróðurfar. Leitast við að greina hver áhrif af breyttu beitarskipulagi hafa orðið á gróðurfar og gróðurframvindu. Landnotkun vegna sauðfjárræktar hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina. Allt fram yfir miðja 20. öld var vetrarbeit sauðfjár almenn á landinu. Eftir 1960 breyttust beitarnot mikið með breyttum búskaparháttum. Farið var að vetrarrýja fé og innistaða sauðfjár varð almennari. Möguleikar til að afla heyja jukust með aukinni ræktun og bættri heyöflunartækni. Um 1980 var þó talið að vetrarbeit væri enn mikið notuð í um 10% sveitarfélaga (Ólafur Dýrmundsson, Freyr). Eldri bændur muna sumir vel þessa tíma og upplifðu sjálfir þessar breytingar á sínum búskaparferli. Óumflýjanlega fækkar þeim þó og hætt er við að eftir 5 ár verður mikið af þessari þekkingu glötuð. Allt of lítið er skjalfest um vetrarbeit og ummerki þeirrar beitar, sem gæti gagnast til að meta áhrif vetrarbeitar vs. sumarbeitar.
Rannsóknir á fitueiginleikanum – Þörf er á að skoða áhrif úrvals fyrir minni fitu á aðra þætti. Hér er sérstaklega verið að horfa til afurðagetu ánna, endingu þeirra og bragðgæða/kjötgæða lambakjöts.

 1. Afgreiðsla lokaskýrslu
  Endurbætur á aðstöðu fyrir tilraunakindur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
  Fagráð samþykkir lokaskýrlsu verkefnisins, enda hefur öllum vekþáttum verið lokið skv. skýrlsunni.  
 1. Verkefni um framleiðslu á sértæku bóluefni
  Í des 2015 var flutt út lungnasýni, frá búinu Höfnum í A-Hún, til Dýralæknaháskólans í Hannover í Þýskalandi, var þetta gert að frumkvæði bænda og Björns Steinbjörnssonar dýralæknis. Þar var lungnakregðusýkillinn einangraður og ræktaður upp örverustofn sem tilbúinn er  í bóluefnaframleiðslu. Nú liggur fyrir áætlun um samanburðartilraun þar sem að koma Kristján Ó Eymundsson ráðunautur, Matvælastofnun og Keldur. Prófa á bóluefnið á nokkrum búum og áhrif á heilbrigði fjárins og afurðir. Fagráð lýsir yfir ánægju með verkefnið enda mikilvægt að leita allra leiða til að lágmarka þann mikla skaða sem hlýst af lungnasjúkdómum í sauðfé hérlendis.
 1. Kjötgæðaflokkun
  Rætt var um kjötgæðaflokkun og þörf á að taka upp + og – flokkun á þá holdfyllingarflokka og fituflokka sem hæst hlutfall dilka fellur í. Telur fagráð að ótvíræð sóknarfæri fyrir ræktunarstarfið, felast í ítarlegri flokkun og beinir því til LS að taka málið upp.
 1. Ómmælingar og lærastig í kynbótauppgjör
  Ómmælingar og lærastig hafa ekki verið notaðar í kynbótauppgjöri. Þessar mælingar gefa þó verðmætar upplýsingar um kynbótagildi gripa, einkum fyrir þá gripi sem mikið er sett á undan og þ.a.l. litlu slátrað undan að tiltölu. Ákveðið að beina því til BÍ að taka þessa eiginleika inn í uppgjör.

 

 1. Fyrirspurn til sláturleyfishafa um verðmæti vörunnar
  Nú stendur yfir vinna við mat á hagrænu vægi eiginleika í sauðfjárrækt. Að því tilefni leitaði fagráð eftir upplýsingum, hjá afurðastövðum, um verðmæti framleiðslunnar einkum m.t.t. fallþunga og mismunandi skrokkhluta. Sendar voru eftirfarandi spurningar á allar afurðastöðvar:

  Hver er æskileg dreifing á fallþunga dilka og/eða á hvaða þungabili ligga verðmætustu dilkarnir?
  Hvert er vægi milli skrokkhluta m.t.t. verðmæta (ódýrasti hluti skrokksins=1)?
  Í hvaða fituflokka er æskilegast að megnið af framleiðslunni fari m.t.t. þess að fá sem verðmætasta vöru (samkvæmt undirflokkum)?
  Eru þættir sem snúa að bragðgæðum, s.s. innanvöðvafita, atriði sem ástæða er til að fara að fylgjast betur með í ljósi framfara í ræktun fyrir aukinni vöðvasöfnun og minni fitu?
  Annað sem þið viljið láta koma fram sem snýr að verðmæti afurðanna sen gæti gagnast í vinnu við skoðun á stefnu og áherslum í kynbótum fyrir bættum kjötgæðum.

 

 1. Önnur mál
  Sammælst um að halda næsta fagráðfsfundi 6. Apríl í Reykjavík. Rætt var um bragðgæði lambakjöts og hugsanlegar leiðir til að mæla og jafnvel vakta þann eiginleika. Ákveðið var að freista þess að fá fulltrúa frá Matís til viðræðu um þetta á næsta fundi. Þá var ákveðið var að bjóða Þorberg sviðstjóra tölvudeildar og Eyjólf Ingva til næsta fundar til að fara yfir stöðu á örmerkjamála. Fleira ekki rætt og fundi slitið 10:15

Fundargerð ritaði Oddný Steina Valsdóttir

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar