Print

Fagráðsfundur 11. ágúst 2009

Fundur í fagráði í sauðfjárrækt, haldinn 11. ágúst 2009

Fagráðið kom saman til fundar í fundarsal á þriðju hæð í Bændahöllinni þriðjudaginn 11. ágúst kl. 10.30. Baldur Grétarsson og Jóhannes Sigfússon sátu fundinn sem símafund, en aðrir fagráðsmenn, Fanney Ólöf, Þórarinn Ingi og Jón Viðar voru á fundarstað og einnig Emma Eyþórsdóttir og Sigurður Eyþórsson.

   

   1. Formaðurinn, Fanney Ólöf, setti fund. Byrjað var á að yfirfara stöðu mála í sambandi við úthlutun af þróunarfé á árinu 2009. Ljóst er að nokkru fé er óraðstafað, sem áætlað var til þessa liðar á árinu 2008, auk þess sem ljóst virðist að verulegur afgangur verði af fé sem er á þessum fjárlagalið á árinu 2009 sem styrkir til frumbýlinga. Samkvæmt fjárlögum má ætla að fé til þróunarverkefna á árinu 2009 sé um 35 milljónir, en fagráðið hefur þegar samþykkt fjárveitingar að upphæð um 20 milljónir króna. Við afgreiðslu mála á fundinum er horft til þess að aukið fé verði mögulegt að flytja af þeim liðum sem þegar eru nefndir, en stærsta verkefnið, styrkur til bænda vegna merkjakaupa, er í nokkurri óvissu vegna þróunar í gengismálum.

   Síðan var gengið til afgreiðslu á fyrirliggjandi málum vegna umsókna um þróunarfé.

 

      a. Umsókn frá samtökunum "Beint frá býli". Á síðasta ári þegar samtökin voru að hefja starfsemi sína veitti fagráðið 500 þúsund króna styrk til starfsemi samtakanna. Nú er sótt um sömu upphæð vegna ársins 2009. Fram komu aðeins skiptar skoðanir um málið hjá fagráðsmönnum, en ljóst er samkvæmt umsókninni að starfsemi samtakanna virðist í megindráttum byggja á styrktarfé.

   Samþykkt var að árið 2009 yrði umbeðinn 500 þúsund króna styrkur veittur með því skilyrði að fyrir lægi að hliðstætt framlag kæmi frá kúabændum. Um leið er því beint til samtakanna að til framtíðar hljóti rekstur þeirra að verða borinn uppi af öðru en framlögum annarra samtaka.

 

     b. Umsókn frá Glófa ehf. um styrk vegna átaks í framleiðslu á íslenskri ull. Þetta fyrirtæki mun nú það sem sinnir framleiðslu á vörum úr íslenskri ull af mestum krafti. Lagðar eru fram ítarlegar áætlanir um uppbyggingu framleiðslunnar og markaðsátak til að koma vörum á framfæri og er þar gert ráð fyrir umtalsverðri framleiðsluaukningu á næstu misserum.

   Fagráðið fagnar því að markaðsátak sé unnið fyrri íslenskar ullarvörur. Þróun á atvinnumarkaði og tískuþróun virðist vera slíkum störfum hagstætt sem stendur og mæla með þessu verkefni.

   Fagráðið mælir því með að styrkurinn fyrir árið 2009 að upphæð 3 milljónir verði veittur. Frekari styrkveiting vegna ársins 2010 mun síðan ráðast af framgangi starfsins á árinu 2009 og þarf því fagráðinu að berast greinargerð þar um í byrjun næsta árs vegna slíkrar afgreiðslu.

 

   c. Umsókn frá kvikmyndafélaginu Skottu vegna gerðar á heimildarmynd fyrir sjónvarp um sauðfjárbúskap á Íslandi og Nýja-Sjálandi. Fagráðið telur að hér sé áhugavert verkefni að ræða. Umsóknin uppfyllir hins vegar ekki skilyrði umsókna og verður því haft samband við umsækjanda og honum gefinn kostur á að koma fullgildri umsókn til fagráðsins sem þá mun tekin til afgreiðslu.

 

   d. Á fundi stjórnar BÍ 8. júní sl. var því beint til fagráðs að heimild yrði veitt til greiðslu á 1.200 króna framlagi til sveitarfélaga vegna yfirferðar á hverri gæðastýringarhandbók sem er sama framlag og árið 2008. Fagráðið samþykkir að þessi heimild yrði veitt. Rétt er að benda á að á árinu 2008 hefur tiltölulega lítill hluti af þessum styrk verið sóttur af sveitarfélögunum

 

   e. Stjórn BÍ hafði leitað til fagráðsins um greiðslu á 4,6 milljón kr framlagi vegna eftirlits og ráðgjafar Landgræðslu ríkisins á árinu 2009 vegna búvörusamnings. Mál þetta byggir á stjórnsýslusamningi ráðuneytisins (sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins), MAST og Landgræðslu ríkisins um eftirlit Landgræðslunnar vegna gæðastýringaþáttar búvörusamnings á árinu 2009.

   Fagráðið samþykkir heimild til greiðslu á þessu fé. Um leið vill fagráðið koma á framfæri þeirri skoðun að það telur það óhæfa stjórnsýslu að framvísa á þennan hátt kostnaði einnar ríkisstofnunnar á framkvæmd samnings þar sem ríkið er annar samningsaðilinn á hinn samningsaðilann með þessum hætti.

 

   f. Merki í ásetningsfé haustið 2009. Fagráðið hefur veitt styrk á undanförnum árum til greiðslu á merkjunum í ásetningsfé. Lagður fram tölvupóstur frá Gunnari Guðmundssyni með upplýsingum um þá óvissum sem nú er um verðlag merkjanna vegna óvissu í gengismálum. Nú er reiknað með að verð merkjanna verði 60-62 krónur fyrir hvert merki á komandi hausti. Fagráðið leggur áherslu á að allra leiða verði leitað til að áfram verði mögulegt að styrkja þessi merkjakaup líkt og verið hefur undanfarin ár, þ.e. að merkin verði greidd með styrk af þróunarfé.

 

   2. Farið var yfir samþykktir aðalfundar LS á síðasta vetri sem beint hafði verið til fagráðs.

      

          a. Um lungnakregðu. Rannsóknir eru í gangi á vegum Tilraunastöðvarinnar á Keldum, en Framleiðnisjóður veitti styrk til þess verkefnis.

 

          b. Áhrif rafmengunar á vanhöld og vanheilsu búfjár. Fagráðið beitti sér fyrir fjölsóttum fundi á Akureyri með þeim aðilum sem mest hafa komið að þessum málum á síðustu árum. Þar var ákveðið að fela Bjarna Guðleifssyni, Jóni Viðari og Brynjólfi Snorrasyni að mynda vinnuhóp til að varpa frekara ljósi á mögulegt samband þessara þátta. Beðið er eftir að Brynjólfur hafi tilbúin þau gögn sem þarf frá "rafmagnshliðinni" til þessarar athugunar.

 

          c. Ályktun um Fjárvis.is. Upplýst var að ör fjölgun er á skýrsluhöldurum sem nota sér þessa leið í skýrsluhaldinu. Unnið er að frekari þróun kerfisins og nýjasta verkefnið þar er tenging á úrvinnslu sæðingaskýrslna við kerfið.

 

    3. Í framhaldi af umræðum á síðasta fundi var leitað til MAST um fulltrúa í vinnuhóp við uppbyggingu á vef um sauðfjársjúkdóma og hefur Þorsteinn Ólafsson verið tilnefndur til þeirrar vinnu. Fagráðið hvetur til að áfram verði unnið að málinu og munu Jón Viðar og Emma sinna því máli.

 

   4. Samþykkt var að vinna að því að koma á fagfundi um sauðfjárrækt í tengslum við aðalfund LS á komandi vetri. Fanneyju Ólöfu, Emmu og Jóni Viðari var falið að vinna drög að dagskrá fyrir slíkan fund.

 

   5. Kynnt var handrit að bæklingi Landgræðslu ríkisins um mat á sauðfjárhögum sem fagráðið styrkti, en það barst fagráðinu 10. ágúst.

 

   Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið um kl. 12.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar