Print

Fagráðsfundur 26. janúar 2010

Fundur í fagráði í sauðfjárrækt, haldinn 26. janúar 2010.

Fagráð kom saman til fundar í húsnæði LBHÍ á Hvanneyri þriðjudaginn 26. janúar kl 15. Allir fagráðsmenn voru mættir og einnig Emma Eyþórsdóttir og Sigurður Eyþórsson. Áður en þessi fundur hófst hafði verið sameiginlegur fundur fagráða í sauðfjárrækt og nautgriparækt þar sem Ágúst Sigurðsson ásamt samstarfsfólki kynnti meginþætti í starfi LBHÍ á sviði nautgripa- og sauðfjárræktar og fundarmenn ræddu leiðir til að örva og efla rannsóknarstarf sem snýr að þessum búgreinum. Gerð var grein fyrir skipulagsbreytingum í búrekstri stofnunarinnar og frá hendi talsmanna fagráðs í sauðfjárrækt var áhersla lögð á að staðinn yrði vörður um starfsemi fjárræktarbúsins á Hesti.

   1. Fanney Ólöf setti fund og gengið til dagskrár.

    2. Fanney kynnti drög að dagskrá fyrir ráðstefnu fagráðsins 9. apríl næstkomandi í tilefni af 25 ára afmæli LS. Einnig er stefnt að kynningu á sem allra flestum verkefnum sem fagráðið hefur stutt með framlögum af þróunarfé á síðustu árum, bæði með birtingu veggspjalda og á annan hátt. Farið var yfir ýmis framkvæmdaatriði vegna ráðstefnunnar.

    3. Lögð var fyrir umsókn frá Skottu ehf. (Árni Gunnarsson) vegna kvikmyndagerðar um sauðfjárbúskap og -framleiðslu hér á landi og á Nýja-Sjálandi en þetta mál hafði verið kynnt á síðasta fundi fagráðsins. Fagráðið telur hér um verulega áhugavert verkefni að ræða sem geti haft margvíslega þýðingu fyrir íslenska sauðfjárrækt ef vel tekst til, þó að verkefnið falli mögulega ekki beint að reglum sem kveða á um styrkveitingar af þróunarfé. Fyrir liggur fjárhagsáætlun. Fagráðið mælir með því að veittur verði styrkur til þessa verkefnis að upphæð 1.000.000 krónur (sótt um 1,5 milljónir) en jafnframt liggi fyrir nánari skýringar á því hvað falið sé í aðgangi kostunaraðila að öllu myndefni sem fellur til við gerð myndarinnar

   4. Lagt fram bréf frá Sveini Rúnari Ragnarssyni í Akurnesi í Hornafirði til fagráðsins, sem fjallar um verkefni um framleiðslu sauðamjólkur. Fagráðið fól formanni að svara bréfinu, en þar sem það fjallar um atriði sem snúa að framkvæmd verkefnisins ber honum að leita upplýsinga hjá framkvæmdaaðila þess þar sem hann er skráður þátttakandi í því. Það er ekki hlutverk fagráðsins að svara slíkum atriðum.

   5. Vegna fyrirspurnar frá samtökunum "Beint frá býli" vegna skilyrða fyrir styrkveitingu ítrekar fagráðið að þau standi óbreytt.

   Fleira ekki til umfjöllunar og fundi slitið um kl 16.30.