Print

Skýrsla stjórnar

Skýrsla stjórnar Landssamtaka sauðfjárbænda starfsárið 2007-2008

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 10.-11. apríl 2008

Skýrsla stjórnar

Segja má að s.l. starfsár hafi verið með nokkuð venjubundnum hætti hjá stjórn samtakanna og meiri ró yfir störfum hennar en á síðasta starfsári þegar nýr sauðfjársamningur var undir. Þó voru mál sem snertu gildistöku hans nokkuð í brennidepli s.s. endurskoðun gæðastýringarreglugerðar og setning reglna um nýliðunarstuðning.  Stjórn hefur haldið 8 stjórnarfundi á starfsárinu,  þ.a. 1 símafund með Búnaðarþingsfulltrúum.  Á fyrsta fundi stjórnar var Fanney Ólöf Lárusdóttir kosin varaformaður samtakanna, en verkaskipting að öðru leiti óbreytt. Þá lagði Björn Elíson, framkvæmda- stjóri fram uppsagnarbréf þar sem hann af persónulegum ástæðum óskaði að láta af störfum vegna væntanlegra búferlaflutninga erlendis.

Stjórn ákvað að auglýsa  ekki alveg að sinni, en horfa fyrst eftir manni í starfið. 8. júní var síðan núverandi framkvæmdastjóri ráðinn, og  hóf  hann vinnu hjá samtökunum 1. júlí. Um leið og Birni Elísyni eru þökkuð góð kynni og störf fyrir samtökin bjóðum við Sigurð Eyþórsson velkominn í framvarðasveit sauðfjárbænda og væntum góðs af hans störfum. Í nóvember óskaði síðan Sindri Sigurgeirsson eftir leyfi frá stjórnarsetu fram á vorið, vegna námsdvalar erlendis, og hefur varamaður hans, Þorvaldur Þórðarson  gegnt stjórnarsetu á meðan. Sindri er væntanlegur aftur til landsins nú um helgina og bað fyrir bestu kveðjur til fundarins og sagðist sakna þess verulega að ná ekki að vera með okkur hér á aðalfundi og árshátíð.

Á þessum fyrsta stjórnarfundi, sem haldinn var 3. maí,  voru síðan allar tillögur síðasta aðalfundar teknar fyrir og rætt hvernig þeim yrði best fylgt eftir. Að sjálfsögðu setja tillögur hvers aðalfundar mark sitt á störf stjórnar næsta starfsár. Sumar eru lóð á vogarskál þeirrar umræðu sem þegar er í gangi. Aðrar beinast að nýjum verkefnum.

Tillaga 1.1. um þjóðlendumál  var send B.Í., enda beint þangað af fundinum, en stjórn B.Í. hefur með ráðum og dáð reynt að standa við bakið á bændum gegn þeim óskiljanlegu og ósvífnu kröfum sem Fjármálaráðuneytið f.h. ríkisins hefur víðast hvar sett fram.

Tillaga 1.2. um stjórnsýsluúttekt á Landbúnaðarstofnun. Um þessa tillögu var samþykkt svohljóðandi bókun. “Samþykkt að bíða með frekari eftirfylgni þessarar tillögu þangað til álit umboðsmanns Alþingis liggur fyrir, en senda hana til Landbúnaðarstofnunar og Landbúnaðarráðuneytis. Jafnframt lýsir stjórn yfir að L.s. séu reiðubúin til frekari viðræðu um málið”. Fyrir þennan fund hafði forstöðumaður Landbúnaðarstofnunar eindregið óskað eftir að fá að koma á fund stjórnar og ræða þessi mál. Við því var orðið og fyrr þennan sama dag var haldinn fundur stjórnar L.s. með 5 fulltrúum frá Landbúnaðarstofnun og þeim Sigríði Jónsdóttur í Arnarholti og Jóhannesi Sveinbjörnssyni í Heiðarbæ, sem mættu að ósk  stjórnar L.s. Mjög hreinskiptar umræður urðu, þar sem fulltrúar Landbúnaðarstofnunar viðurkenndu að einhverjir ágallar kynnu að vera á gerð og framkvæmd niðurskurðarsamninga, en töldu tillöguna eigi að síður vera mjög óvægna í sinn garð. 11. desember  átti svo stjórn L.s. aftur fund með Landbúnaðarstofnun  um þessi mál og fleiri. Þar kynnti stofnunin m.a. drög að endurbættum reglum um riðuniðurskurðarmál, en því miður lá þá álit umboðsmanns Alþingis ekki enn fyrir, en það var ekki birt fyrr en nú daginn fyrir aðalfund.

Tillaga 1.3. um endurskoðun á reglugerð um gæðastýrða sauðfjár-framleiðslu og gæðahandbók. Fanney Ólöf, stjórnarmaður okkar fékk það viðamikla hlutverk að vera fulltrúi B.Í. í stjórnskipaðri nefnd um þessa endurskoðun og jafnframt að fylgja tillögunni þar eftir af okkar hálfu. Nú hefur ný reglugerð litið dagsins ljós og þó öll okkar áhersluatriði hafi ekki náð fram að ganga hafa þó mörg þeirra gert það. Það verður þó að segjast að á lokastigi fannst okkur gæta lítt skiljanlegrar tregðu hjá fulltrúum ríkisins að taka inn tillögur okkar og B.Í.  um breytingar s.s. um fituflokk 4 og landnýtingarþáttinn. Fanney Ólöf vann allar götur að málinu í góðu samráði við stjórn. Hún hélt einarðlega á okkar málstað og á þakkir samtakanna skyldar þar fyrir.

Tillaga 2.1. um gildi mjólkurlagni og frjósemi í kynbótastarfi var send Fagráði í sauðfjárrækt. Málið var rætt í fagráði og þar talið að BLUP kynbótamatið fyrir frjósemi og mjólkurlagni, sem bændur fengu í hendur á síðasta ári, væri mikilvægur áfangi í þessa átt.

Tillaga 2.2. um litasamsetningu sauðfjármerkja með tilliti til álestrar. Framkvæmdastjóra falið að safna upplýsingum og ræða við Markanefnd.

Tillaga 2.3. um kostnað við greiningu riðuarfgerðar var send Fagráði í sauðfjárrækt. Málið var rætt í Fagráði og bent á að með samningum sem náðust við Prokaría (nú Matís) var kostnaður við riðuarfgreiningu stórlækkaður. Þá taldi Fagráð varla gerlegt að ganga lengra en nú er gert í að greiða niður riðuarfgreiningu á fjársölusvæðum.

Tillaga 2.4. um birtingu niðurstaðna úr efnagreiningum á áburði var send Landbúnaðarstofnun og til kynningar Landssambandi kúabænda og B.Í. Deilur hafa verið milli áburðarsala og aðfangaeftirlitsins um þessi mál og sér í lagi hafa einstakir áburðarsalar gagnrýnt hvernig aðfangaeftirlitið hefur staðið að sýnatöku og  trúverðugleika þeirra niðurstaðna, en vitna til alþjóðlegra staðla og gæðaeftirlits með þeim áburði sem þeir selja. Síðastliðið haust lagði einn áburðarinnflytjandi síðan fram stjórnsýslukæru vegna birtingu niðurstaðna Landbúnaðarstofnunar á efnagreiningunum.  Ráðuneytið úrskurðaði fyrr á þessu ári að stofnunin hefði ekki lagastoð til að birta niðurstöðurnar og því liggur fyrir að hún mun ekki standa fyrir frekari birtingum að óbreyttum lögum.

Tillaga 2.5. um auknar leiðbeiningar varðandi fóðrun sauðfjár með tilliti til efnaskipta var send B.Í. og Fagráði. Nú hefur Fagráð samþykkt að mæla með styrkveitingu til rannsóknarverkefnis á vegum LBHÍ, sem fara mun fram á Hesti undir verkstjórn Jóhannesar Sveinbjörnssonar. Verkefnið heitir: Áhrif holdafars áa og orku og próteinfóðrunar seinni hluta meðgöngu á efnaskiptavægi áa, fæðingarþunga, lífsþrótt og vaxtarhraða lamba. Má vænta þess að þetta verkefni geti bætt við þann þekkingarforða sem til staðar er um þessi mál. Við þetta má svo bæta að Búnaðarþing samþykkti að fela stjórn B.Í í samvinnu við LBHÍ og Matvælastofnun að tilnefna starfshóp til að skoða með hvaða hætti vænlegt er að bæta upp skort á seleni og öðrum snefilefnum í gróffóðri hér á landi.

Tillaga 2.6. um aðgang landsmanna að háhraðanettengingum var send samgönguráðherra og B.Í. Með útboði Fjarskiptasjóðs á háhraða- tengingum í dreifbýli hillir svo loksins undir verulegar úrbætur í þessum efnum.

Tillaga 2.7. um fyrirkomulag og kostnað vegna dýrarannsókna var send Landbúnaðarstofnun. Fulltrúar L.s. lögðu málið einnig fyrir Búnaðarþing, sem tók einarðlega undir það.

Tillaga 3.1. um upprunamerkingar á íslensku kindakjöti á markaði var send Landssamtökum sláturleyfishafa, búgreinafélögum, B.Í. og Markaðsráði. Nú er unnið að því að allar íslenskar landbúnaðarvörur noti sameiginlegt upprunamerki, sem er fánarönd garðyrkjubænda. Mikið var fjallað um málið á síðasta Búnaðarþingi og hefur framkvæmdastjóri okkar, Sigurður Eyþórsson leitt þetta vinnuferli og getur sagt ykkur allt um stöðu þess.

Tillaga 3.2. um nýtingu útflutningsmarkaða við afnám útflutningsskyldu var send Markaðsráði kindakjöts. Þar hefur málið talsvert verið rætt, einkum í sambandi við endurnýjun á samningi um vaxta og geymslugjald s.l. haust. Alveg er ljóst að málið er snúið og mjög vandmeðfarið.
Tillaga 3.3. um birtingu uppgjörs framlegðar á einstökum sauðfjárafurðum var send Markaðaráði og öllum sláturleyfishöfum. Ekki er vitað hvort einstakir sláturleyfishafar verða við þessu við uppgjör fyrir s.l. ár en þessu þurfa bændur einfaldlega að fylgja eftir á aðalfundum þeirra félaga sem þeir skipta við.

Tillaga 3.4. um útfærslu reglna um nýliðunarstyrk var send B.Í. með ósk um frekari útfærslu. Stjórn B.Í. vann síðan endanlega tillögu og sendi Landbúnaðarráðuneytinu til staðfestingar. Mjög óheppilegt var hve lengi dróst að fá þá staðfestingu þannig að hægt væri að opinbera reglurnar. Nú er hins vegar ljóst að umsóknir samkvæmt þeim eru færri en vænta hefði mátt og nægir fjármunir til að sinna öllum gildum umsóknum. Reglurnar ber að endurskoða fyrir næsta ár og taka mið af þeirri reynslu sem fengist hefur.

Tillaga 4.1. um viðurlög við ófullnægjandi aðbúnaði og fóðrun búfjár var send Landbúnaðarstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og B.Í. Það virðist vera eitthvað mismunandi eftir landssvæðum hversu vel lögum og reglum í þessum efnum er fylgt eftir. Sé það gert þá eiga þessi mál að vera í lagi.

Tillaga 4.2. um fjármagn til viðhalds sauðfjárveikivarnalína var send Landbúnaðarnefnd Alþingis og Landbúnaðarstofnun. Málið fór einnig fyrir Búnaðarþing sem skoraði á Matvælastofnun og Landbúnaðar- ráðuneyti að ljúka endurskoðun á varnarlínum og hafa samráð við heimaaðila um breytingar á girðingum og fleira.

Tillaga 4.4. um mótun framtíðarstefnu fyrir íslenskan sauðfjárbúskap með sjálfbæra þróun, góða búskaparhætti og umhverfisvernd að leiðarljósi var send B.Í. Skoðun stjórnar B.Í. er að gæðastýring í sauðfjárrækt sé sú stefna sem mörkuð hafi verið og unnið sé eftir.

Hér hefur verið drepið á allar tillögur síðasta aðalfundar og reynt í sem stystu máli að greina frá afdrifum þeirra. Því sem óljóst er eða ábótavant má reyna að gera betri skil í almennum umræðum ef óskað er. En að fleiru skal víkja.

Á stjórnarfundi 8. júní var tillaga Markaðsráðs um 16%  útflutningsskyldu í sláturtíð og 10% þar utan samþykkt. Skiptari skoðanir voru meðal sláturleyfishafa um hver væri þörf útflutningsskyldu, en áður hafa verið. Það sem af er frá sláturtíð hefur sala þó haldist og miðað við síðustu tölur í lok febrúar er sala á dilkakjöti 1.1% meiri miðað við 12 m. tímabil en sala á fullorðnu talsvert minni þannig að heildarsala er 1.1% minni. Verði ekki samdráttur í sölu það sem eftir lifir fram að sláturtíð, sem auðvitað er talsverð óvissa um, má ætla að ekki hafi verið skotið langt frá  markinu  við útgáfu útflutningsskyldunnar s.l. ár.

Á þessum sama stjórnarfundi 8. júní var svo endanlega gengið frá ákvörðun um lágmarksviðmiðunarverð sem  hækkaði um 7.5% á milli ára. Á þeim tímapunkti hafði neysluvísitala hækkað um tæp 5% frá útgáfu viðmiðunarverðs 2006 og alveg ljóst að ekki yrði lengra komist, með nokkurri vissu fyrir að viðmiðunarverð yrði virt af sláturleyfishöfum. Síðar kom svo á daginn að yfirborganir þeirra urðu minni en verið hafði, og í raun sáralitlar, sem staðfesti að þeir töldu bogann fullspenntan með því viðmiðunarverði sem gefið var út.

Útflutningur til Bandaríkjanna var helmingi minni s.l. haust en verið hefur, eða um 43 tonn af unnu kjöti. Sá útflutningur gekk samt vel og áfallalaust þrátt fyrir að nýir aðilar, S.S og KVH stæðu nú að verkefninu í stað Norðlenska áður. Næsta haust áætla þessir sömu aðilar að flytja út a.m.k. helmingi meira magn og eru þokkalega bjartsýnir á framhaldið. Annar útflutningur s.s. til Noregs, Bretlands og Færeyja gekk líka samkvæmt vonum og segjast sláturleyfishafar nú verða varir við vaxandi áhuga á að kaupa dilkakjöt frá Íslandi. Þá hefur gengisskráning krónunnar líka veruleg áhrif í þessum efnum.

8. nóvember var gengið frá árlegum ullarsamningi við Ístex sem fól í sér sömu verð og greiðslufresti og árið áður. Það felur í raun í sér 32. m. kr. lækkun á ullarverði til bænda, að teknu tilliti til hækkunar á niðurgreiðslu ullar og vísitöluhækkun. Ljóst var að verulegur halli yrði á rekstri Ístex á árinu 2007 og þessi kostur valinn frekar en keyra allt í strand. Það er þó skoðun stjórnar L.s. að ekki sé réttlætanlegt að ganga lengra í þessum efnum. Nú eru hins vegar betri fréttir af rekstri Ístex, bæði hvað verð og sölu snertir, enda hefur gengi krónunnar mikil áhrif á rekstur þess. Verðum við að sjálfsögðu að vænta þess að næsta haust geti Ístex samið um ullarverð til bænda sem felur í sér verðlagshækkanir að viðbættum þeim 15 milljónum sem eru í hækkuðum niðurgreiðslum.

Formannafundur var haldinn í Skúlagarði í Norður-Þingeyjarsýslu í aflíðandi ágústmánuði. Meginmál þess fundar voru reglur um nýliðunarstuðning og endurskoðun gæðastýringar. Auk þess flutti Sigurður Jóhannesson, formaður sláturleyfishafa erindi og svaraði fyrirspurnum. Þótti okkur Norður-Þingeyingum heiður að því að fá að halda þennan fund og kunnum öllum bestu þakkir fyrir komuna.

Rannsóknarverkefni á orsökum fósturdauða og dauðfæddum lömbum var fram haldið á s.l. vori, þó ekki hafi komið þar fram neinar haldbærar skýringar. Verkefninu er haldið  áfram og hefur Fagráð samþykkt að það muni áfram njóta forgangs til fjárframlaga af fagfé sauðfjárræktarinnar.

Á árinu var sett á laggirnar heimasíða fyrir samtökin undir heitinu sauðfe.is. Síðan hefur að flestra dómi farið mjög vel af stað og vakið verðskuldada athygli, þó kostnaður við hana hafi ekki verið mikill, enda er hún fyrst og síðast verk okkar nýja framkvæmdastjóra. Heimsóknir eru nú um 100 á dag, alla daga vikunnar.

Góðir fundarmenn. Í skýrslu sem þessari verða málum ekki gerð tæmandi skil. Vona þó að hún drepi á því helsta sem verið hefur á döfinni og veki upp spurningar, jafnvel fleiri en hún svarar.

Nú hef ég gengt stjórnarformennsku í þessum samtökum í fimm ár og næsta vor rennur út mitt annað kjörtímabil. Það myndi ég telja hæfilegan tíma, bæði fyrir samtökin og mig persónulega.

Að lokum vil ég þakka sauðfjárbændum öllum vítt um land, meðstjórnar- mönnum, sem og framkvæmdastjórum fyrir einkar góð og notaleg samskipti.

Jóhannes Sigfússon, formaður LS
 

 

 

 

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar