Print

Setningarræða formanns

Hér að neðan má lesa ræðu Jóhannesar Sigfússonar formanns Landssamtaka sauðfjárbænda við setningu aðalfundar samtakanna 2008

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 10.-11. apríl 2008
Setningarræða Jóhannesar Sigfússonar formanns LS

Góðir aðalfundarfulltrúar og ágætu gestir

Þegar við fulltrúar sauðfjárbænda í landinu komum nú saman til aðalfundar árið 2008 eru meiri umbrotatímar í íslensku efnahagslífi en verið hafa um langt árabil. Verðbólga er á uppleið, þau vaxtakjör sem almennt bjóðast með þeim hætti að hreint okur má kallast og hækkanir á innfluttum rekstrarvörum til landbúnaðar stórfelldari en við höfum trúlega nokkru sinni staðið frammi fyrir í sögunni.

Þessu til viðbótar liggja svo Bændasamtök Íslands og einstök búgreinafélög undir ámæli samkeppnisyfirvalda fyrir að hafa á þessu skoðanir og ræða innan sinna vébanda hvernig hægt sé að bregðast við þessum aðstæðum. Ræða það hvernig hægt sé að  verjast afkomuhruni í íslenskum landbúnaði án þess að ofbjóða verðþoli eða kaupgetu neytenda. Það er sérkennilegt ef hagsmunasamtök einstakra stétta í landinu geta ekki lengur komið saman og rætt sín mál án þess að vera grunuð um ólöglegt athæfi. En ef Bændasamtökin og búgreinafélögin eru ekki grunuð um annað en starfa fyrir bændur, eins og sagði í blaðagrein á dögunum, þá skulum við glaðir gangast við því. Til þess eru og verða þessi samtök.

Nýafstaðið Búnaðarþing ályktaði m.a. að við þessar aðstæður bæri að fresta niðurfellingu útflutningsskyldu af dilkakjöti  og fara ekki í frekari tollalækkanir á innfluttu kjöti eða mjólkurvörum. Frestun á niðurfellingu útflutningsskyldunnar er að flestra dómi sjálfsögð aðgerð nú, miðað við gjörbreyttar forsendur frá því síðasti sauðfjársamningur var undirritaður og meðan ekki alþjóðasamningar þvinga okkur til þess. Sú aðgerð kostar í raun ekki bein fjárútlát, en snýst um að viðhalda núverandi skipulagi lengur en ætlað var. Þá hefðu sauðfjár- bændur einfaldlega fastara land undir fótum til að mæta aðsteðjandi vanda.
Frekari niðurfelling tolla á innflutt kjöt mundi svo virka eins og olía á þann eld sem við er að glíma, og barnaskapur að halda öðru fram. Lækkun eða niðurfelling tolla á innflutt svína og kjúklingakjöt hefur í raun sára lítið vægi til lækkunar á neysluvísitölunni  nema þá samfara verulega breyttum neysluvenjum. Þarna er um að ræða í dag 1.4% af útgjöldum heimilanna í landinu. En aukin innflutningur á erlendu svína- og kjúklingakjöti á litlum sem engum tollum myndi skapa algert uppnám í öllum greinum  á  innlendum kjötmarkaði, samfara atvinnuleysi hjá öllum þeim þúsundum  manna sem þar starfa við framleiðslu og úrvinnslu. Forherðing þeirra stjórnmálamanna sem ætla að leysa einhvern efnahagsvanda með slíkum sjónhverfingum er með ólíkindum og minnir mest á söguna góðu um flagarann sem eldaði naglasúpuna handa kerlingunni forðum.

Þó ég hafi hér dregið hér upp all dökka mynd af ástandi og horfum í rekstraraðstæðum okkar sauðfjárbænda er þó ekki svo að allt sé á hverfanda hveli. Nýr sauðfjársamningur gekk í gildi 1. janúar 2008 og samkvæmt honum er opinber stuðningur við greinina  fyrirséður og verðtryggður næstu sex árin. Það er í sjálfu sér mikils virði hafa þá enda fasta þegar allt annað rekur á reiðanum. Það má þó öllum ljóst vera að gífurlegar hækkanir á rekstrarliðum  undanfarið s.s. áburði, olíu og fjármagnskostnaði hljóta að kalla á verulega hækkun á afurðaverði til sauðfjárbænda. Sauðfjárræktin byggir afkomu sína nær eingöngu á innlendri fóðurframleiðslu. Nálægt 80% hækkun áburðarverðs kemur því afar illa við hana og kallar ein og sér á um 64 kr. hækkun viðmiðunarverðs á öllu kindakjöti, bæði á innlendan og erlendan markað.

Að sjálfsögðu eru þetta hrikalegar upphæðir og ekki að undra þó margir sauðfjárbændur séu nú uggandi um sinn hag. Hafi hreinlega ekki trú á að sú afurðaverðshækkun náist sem dugar til að ná endum saman. Hitt vitum við líka, að sauðfjárbændur almennt hafa ekki af öðru að taka. Hafa hvorki geð í sér, né hreinlega getu til að herða sultarólina enn og aftur.
Í ljósi þessarar stöðu telur stjórn L.S. því afar mikilvægt að gefa út viðmiðunarverð fyrr en verið hefur, og mun leggja um það tillögu fyrir þennan fund, þannig að bændur fái eitthvað að vita um hvers er að vænta. Síðan verðum við auðvita að treysta því að aðrir aðilar sem að koma við slátrun og úrvinnslu taki á málum af ábyrgð og skilningi.

Það er alveg ljóst að það verður á brattann að sækja í þessum efnum og mörgum spurningum ósvarað þar um. Hvaða árif mun verðhækkun hafa á markaðsstöðu kindakjöts?  Hverju mun fram vinda um kaupmátt og stöðu efnahagsmála í landinu?  Hvaða áhrif mun ný matvælalöggjöf Evrópusambandsins hafa sem nú stendur til að innleiða hér? Hitt skulum við líka hafa í huga að sá sem vonast ekki eftir sigri, vonast ekki eftir að ná sínum markmiðum, hann hefur þegar tapað leiknum.

Góðir fundarmenn. Ég hef það sem af er ræðu þessari talað hér eins og hvert annað markaðshyggjudýr, sem lætur mér ekkert of vel. Miklu nærtækara er mér að fjalla um það jákvæða og mikilvæga hlutverk sem íslenskur landbúnaður gegnir til ómældra hagsbóta fyrir land og þjóð. Fjalla um samskipti okkar við náttúruna og varðveislu hennar. Fjalla um þá sterku tengingu sem landbúnaðurinn hefur við menningararfleifð þjóðarinnar, sögu hennar og uppruna. “Sígandi lukka er best” segir gamalt máltæki. Þegar glæsihallir nýríkra útrásarburgeisa hrynja eins og spilaborgir ein af annarri og herkostnaðurinn í formi erlendrar skuldasöfnunar verður að drápsklyfjum í einu vettugi stendur “hnípin þjóð í vanda.”

Er þá ekki nærtækt að spyrja hver séu hin raunverulegu verðmæti þjóðarinnar sem mölur og ryð fá ekki grandað? Eru það ekki einmitt þær stórkostlegu auðlindir sem við eigum, bæði til sjávar og sveita, til að brauðfæða okkur sem allra mest af eigin rammleik. Sá sem þarf sér brauðs að biðja heldur aldrei reisn sinni til lengdar. Það er alla vega keppikefli okkar sauðfjárbænda og sameiginleg hugsjón að nýta gæði landsins sem best, en þó á sjálfbæran hátt, til að framleiða holl og ómenguð matvæli sem þjóðin getur verið stolt og ánægð með að hafa nægan aðgang að.

Rétt í lokin langar mig svo að gefa ykkur ofurlitla innsýn í minn persónulega hugarheim  og lesa ykkur ljóð sem tengist þessu nú efnislega og ég kalla einfaldlega  Vornótt heima.

Að svo mæltu óska ég  að þessi aðalfundur okkar sauðfjárbænda
megi verða okkur til framdráttar í alla staði.

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda árið 2008 er settur

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar