Print

Skýrsla stjórnarmanns í Ístex

Skýrsla Sigurðar Eyþórssonar, stjórnarmanns í Íslenskum textíliðnaði hf, lögð fram á aðalfundi LS 10. apríl 2008

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 10.-11. apríl 2008

Skýrsla stjórnarmanns í Ístex

Á aðalfundi Ístex 10. janúar sl. lét Gunnar R. Kristjánsson af störfum sem fulltrúi LS í stjórn fyrirtækisins. Honum eru hér með þökkuð góð störf fyrir LS í stjórninni.  Í stað hans tók sæti Sigurður Eyþórsson.  Á stjórnarfundi að loknum aðalfundi var hann kjörinn varaformaður stjórnar.  Formaður stjórnar er Ari Teitsson en aðrir í stjórn eru Gunnar Sæmundsson, Guðjón Kristinsson og Jón Haraldsson.

Hluthafar í félaginu eru 1.854.  Fimm stærstu hluthafarnir eiga samtals 61.2% hlutafjár.  Stöðugildi eru 39 alls.  Fyrirtækið rekur verksmiðju í Mosfellsbæ og þvottastöð á Blönduósi.

Stjórnarfundur er áætlaður í þessum mánuði en við Ari Teitsson stjórnarformaður höfum tvisvar heimsótt fyrirtækið og farið yfir mál með framkvæmdastjóra og öðrum stjórnendum.

Rekstur Ístex h.f. var erfiður á árinu 2007.  Rekstrarniðurstaða var tap upp á 32.6 milljónir króna sem er versta afkoma frá því að Ístex tók til starfa.  Rekstrarkostnaður var svipaður og á fyrra ári og reyndar lækkaði fjármagnskostnaður verulega. Tapið skýrist að mestu af því að sölutekjur drógust saman um 40 milljónir króna á milli ára, sem er samdráttur um tæp 16%.  Meginástæður þess voru hátt gengi krónunnar og lágt heimsmarkaðsverð á ull.

Í ljósi þessara staðreynda var samið um óbreytt ullarverð til bænda sl. haust sem þýðir verulega raunlækkun á verði til Ístex í ljósi aukinna niðurgreiðslna.

Áætlanir um sölu fyrir árið 2008 gerðu ráð fyrir svipuðum tekjum og 2007.  Það sem af er árinu fer þó fram úr því.  Sala er bæði meiri, heimsmarkaðsverð á ull örlítið hærra og gengi krónunnar hefur veikst sem eykur tekjur útflutningsfyrirtækja eins og Ístex.  Verði ekki breyting á þessum aðstæðum er því líklegt að niðurstaðan verðu allt önnur og betri í ár en í fyrra.  Enda var sú niðurstaða óásættanleg. 

Ístex er nú að stúka af hluta af húsnæði sínu í Mosfellsbæ í því skyni að leigja það út til tekjuauka. Stefnt er að því að koma því í leigu sem fyrst.

Útlitið er því betra nú.  Væntingar eru jafnframt um hækkanir á ullarafurðum til bænda eins og öðrum afurðum í haust í ljósi mikilla aðfangahækkana til þeirra undanfarnar vikur og mánuði.  Takist ekki að standa undir þeim væntingum er líklegt að menn muni vilja taka alla söfnun og úrvinnslu ullar í landinu til gagngerrar endurskoðunar.

Sigurður Eyþórsson
varaformaður stjórnar Ístex.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar