Print

Skýrsla framkvæmdastjóra Markaðsráðs

Skýrsla Sigurðar Eyþórssonar, framkvæmdastjóra Markaðsráðs kindakjöts, lögð fram á aðalfundi LS 10. apríl 2008

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 10.-11. apríl 2008

Skýrsla framkvæmdastjóra Markaðsráðs kindakjöts

Starfsemi Markaðsráðs kindakjöts hefur verið með öðrum hætti undanfarna mánuði heldur en venja er.  Skömmu eftir að núverandi framkvæmdastjóri tók til starfa var ákveðið að taka úr birtingu auglýsingar með klippikarlinum svonefnda sem hefur verið í notkun undanfarin misseri.  Ákveðið var að skoða alla hugmyndavinnu aftur og var leitað til þriggja auglýsingastofa í því skyni, NM auglýsingastofu, Vatikansins og HN markaðssamskipta.  Eftir að hafa hitt þær allar var ákveðið að ganga til samninga við HN markaðssamskipti.  Þeir hafa síðan verið að þróa nýtt auglýsingaefni í samvinnu við Markaðsráð.  Nú er sú vinna á lokastigi og efni fyrir prent- og netmiðla verður tilbúið til birtingar í næstu viku (13.-19. apríl) og nýjar sjónvarpsauglýsingar í byrjun maí.  Samhliða því er verið að endurhanna uppskriftavefinn lambakjot.is með hliðsjón af nýrri markaðsherferð og því verki verður einnig lokið í næstu viku.  Mun meiri kraftur mun því færast í þessi mál á næstu dögum og vikum.

Birtingar almennra auglýsinga voru því færri en oft áður seinni hluta síðasta árs. Unnar voru þó tvær nýjar prentauglýsingar í samstarfi við Friðgeir Inga Eiríksson yfirmatreiðslumann á Hótel Holti sem hafa verið að birtast m.a. fyrir jól og fyrir páskana.  Hinsvegar hafa verið unnar vandaðar lambakjötskynningar í samstarfi við Gestgjafann.  Úlfar Eysteinsson matreiðslumeistari vinnur nýjar uppskriftir úr lambakjöti sem birtast fyrst í Gestgjafanum en hafa einnig birst í öðrum tímaritum eins og Vikunni og Séð og heyrt.  Einnig hefur verið auglýst í ýmsum öðrum tímaritum og ferðabæklingum og í útvarpi við sérstök tilefni eins og í kringum sprengidaginn.

Stutt hefur verið við bakið á Quiznos skyndibitakeðjunni við markaðssetningu á skyndibitum úr lambakjöti í ljósi þess að fáir slíkir réttir úr lambakjöti eru á boðstólnum á íslenskum markaði.

Hinn árlegi kjötsúpudagur var haldinn fyrsta vetrardag, nú í fimmta sinn.  Dagskráin var með hefðbundnum hætti.  Boðið var upp á kjötsúpu á Skólavörðustígnum í Reykjavík í samstarfi við verslunareigendur.  Dagskráin er skipulögð af verslunareigendum en Markaðsráð útvegar hráefnið og auglýsir hana.  Greint var frá deginum í öllum fjölmiðlum og umfjöllunin var mjög jákvæð.

Útflutningsskylda síðasta árs var ákveðin 16% í sláturtíð en 10% utan hennar.  Útflutningur árið 2007 var tæp 1.100 tonn sem er minna en mörg undanfarin ár.  Mikilvægustu markaðirnir að magni til eru Bretland, Noregur og Færeyjar.  Besta verðið er sem fyrr í Bandaríkjunum, en magnið er ekki mikið þar.  Ágætt verð er einnig í Noregi og Færeyjum og gengisfall krónunnar hjálpar einnig upp á allan útflutning.  Nú er mikið rætt um hvort að frestað verði að fella niður útflutningsskylduna eins og m.a. Búnaðarþing ályktaði um fyrir skömmu.  Ekki er ljóst hvort stjórnvöld bregðast við því.  Markaðsráð hafði áður markað þá stefnu að ákveðin yrði ein prósenta á útflutningsskyldu fyrir allt tímabilið á þessu ári, en endanleg tillaga mun auðvitað taka mið að því hvort að stjórnvöld munu vilja fresta niðurfellingunni eða ekki.
Sala innanlands árið 2007 var 6.936 tonn.  Það er samdráttur um 2.1%.  Sú þróun að kindakjöt gefi heldur eftir fyrir alifugla- og svínakjöti hefur því haldið áfram.  Árið 2007 var fyrsta árið sem alifuglakjöt hafði meiri markaðshlutdeild en kindakjöt.  Fyrstu tveir mánuðir ársins 2008 eru þó ágætir.  1.2% aukning er í dilkakjötssölu miðað við 12 mánuði en vegna mikils samdráttar í sölu á kjöti af fullorðnu er 1.1% samdráttur í heild.  Þess ber að geta að gögn um kjötsölu í heildsölu sem við vinnum útfrá geta verið mjög sveiflukennd og óvarlegt er að fullyrða mikið um neyslubreytingar útfrá þeim nema til lengri tíma.

Nokkur óvissa er nú framundan af ýmsum ástæðum.  Fyrst ber að telja útflutningsskylduna sem áður er nefnd. Í öðru lagi er ljóst að afurðaverð til bænda verður að hækka verulega í haust til að mæta aðfangahækkunum. Óvíst er hvaða áhrif það hefur á kjötmarkaðinn í heild.  Í þriðja lagi eru uppi óljósar hugmyndir hjá stjórnvöldum um tollalækkanir á innfluttu kjöti.  Engin svör er enn að hafa um hvernig þær hugmyndir verða útfærðar, ef af verður, en ljóst er að mikill innflutningur á tollfrjálsu kjöti mun valda uppnámi á kjötmarkaðinum í heild, hvort sem um er að ræða kindakjöt eða annað kjöt.  Í fjórða lagi er nú verið að innleiða matvælalöggjöf Evrópusambandsins sem þýðir að landbúnaðarvörur verða í frjálsu flæði á öllu EES svæðinu, en því fylgir þó ekki breyting á tollum.  Áhrif þess eru einnig ókunn en það ætti einnig að skapa tækifæri til aukins útflutnings.

En hvað sem gerist verða framleiðendur kindakjöts að standa saman og draga ekki af sér við að vera öflugir talsmenn sinnar greinar og sinnar framleiðslu hvar sem þeir koma.  Markaðsstarf er ekkert annað en þrotlaus vinna.  Ég mun leggja mitt af mörkum sem framkvæmdastjóri Markaðsráðs en betri árangur næst eftir því sem fleiri leggjast á árarnar. 

Almenn starfsemi.
Markaðsráð kindakjöts er samstarfsvettvangur Landssamtaka sauðfjárbænda, Landssamtaka sláturleyfishafa og Bændasamtaka Íslands.  Í ráðinu sitja fyrir hönd LS. Jóhannes Sigfússon sem er jafnframt formaður ráðsins og S.Sindri Sigurgeirsson (Þórarinn Ingi Pétursson hefur sinnt því í námsleyfi Sindra sl. 4 mánuði). Fyrir hönd sláturleyfishafa Steinþór Skúlason og Sigmundur Ófeigsson.  Fyrir hönd Bændasamtaka Íslands Þorsteinn Kristjánsson..  Framkvæmdastjóri er Sigurður Eyþórsson.

Markmið ráðsins er að vinna að markaðs og sölumálum á kindakjöti, aðallega innanlands og er það gert með beinum auglýsingum frá Markaðsráði.  Ráðið fylgist með söluþróun á kindakjöti, kemur að ákvörðun um útflutningshlutfall, álagsgreiðslna, samstarfsverkefnum varðandi þróun á vörum framleiddum úr kindakjöti ásamt öðrum málum sem eru sameiginleg sauðfjárbændum og sláturleyfishöfum.

Tekjur og gjöld
Tekjur Markaðsráðs voru á árinu 2007 40.0 milljónir samanborið við 43.1 m árið 2006. Gjöld voru á árinu 2007  34.4 m. kr. samanborið við 34.9 m árið 2006.  Af þeim var auglýsingakostnaður 28.9 mi. kr. árið 2006 en 29.7 mi. kr. 2006.

Sigurður Eyþórsson
framkvæmdastjóri Markaðsráðs kindakjöts

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar