Print

Tillögur sem lagðar voru fyrir fundinn

Tillögur sem aðildarfélög LS sendu aðalfundinum 2008.  Þær eru alls 49 að tölu.  Að auki eru tvær tillögur sem stjórn samtakanna lagði fyrir fundinn. Þetta eru tillögurnar áður en aðalfundurinn tók þær til afgreiðslu, ekki samþykkt stefna samtakanna.

Tillögur frá aðildarfélögum til aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda 10.-11. apríl 2008

Frá félagi sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu

1. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í V-Hún  haldinn að Staðarflöt
17. mars 2008 samþykkir að beina eftirfarandi tillögu til aðalfundar L.S.

Aðalfundur L.S. beinir þeim tilmælum til stjórna L.S. og  B.Í að við endurskoðun á reglugerð um  nýliðunarstyrk til handa sauðfjárbændum verði sú breyting gerð að veitt verði framlag vegna  fjölgunar á bústofni og gildi þá einu hvort um kaup eða ásetning af eigin stofni er að ræða

Greinargerð:
Það verður að teljast mjög óeðlilegt að  greiða aðeins styrki vegna kaupa á bústofni en ekki vegna fjölgunar af eigin stofni.
Frumbýlingur sem kaupir t.d. 300 kindur á fyrsta ári og fjölgar svo um 100 á ári næstu tvö ár með ásetningi af eigin stofni ætti ekkert síður að fá styrk vegna þeirrar fjölgunar en sá sem slátrar öllum sínum lömbum og  kaupir fé annars staðar.  Er það okkar mat að þeir einstaklingar sem uppfylla skilirði til að teljast nýliðar eigi að fá styrk vegna sannanlegrar fjölgunar á sínum bústofni og yrðu forðagæsluskýrslur sá grunnur sem farið yrði eftir.  Tilgangur með stuðningi við frumbýlinga hlýtur að vera sá að styðja við þá af fremsta megni fremur en hafa hagsmuni bænda á fjársölusvæðum í forgrunni.

2. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í V-Hún. haldinn 17.mars 2008 í Staðarflöt beinir því til fagráðs B.Í. í sauðfjárrækt að við umbreytingu á fituflokkum í ræktunarstarfinu verði tölugildi  3+    11 í stað 9,  fituflokkur 4 verði 14, fituflokkur 5 verði 17 eða fituflokkar 4 og 5 hafi sama tölugildi (14)

3. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í V-Hún, haldinn 17. mars 2008 í Staðarflöt samþykkir að beina því til fagráðs í sauðfjárrækt og aðalfundar L.S. að forsendur útreikninga á mjólkurlagni ánna verði þannig að tekið sé mið af raunverulegri mjólkurlagni en áhrif haustbötunar lamba á þá einkunn lágmörkuð.

Frá félagi sauðfjárbænda í Strandasýslu

4.  Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Strandasýslu haldinn að Sævangi 19. mars 2008 samþykkir að beina því til stjórnar L.S. og aðalfundar L.S. að gera nýtt samkomulag við afurðastöðvar varðandi snyrtingu og léttingu skrokka í sláturhúsum þar sem fallið verði frá því að náraband sé skorið af skrokkum fyrir vigtun.

5.  Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Strandasýslu haldinn að Sævangi 19. mars 2008 samþykkir að beina því til stjórnar L.S. og aðalfundur L.S. að vinna að því að fá breytingar á fituflokkun kjöts á þann veg að tillit sé tekið til skrokkþunga við fitumælingar þannig að þungir skrokkar megi vera þykkari á síðu en þeir sem léttari eru.

6.  Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Strandasýslu haldinn að Sævangi 19. mars 2008 telur að mjög brýnt sé að ákvörðun um viðhald varnargirðinga verði tekin án tafar og þegar í vor verði gert átak í úrbótum á girðingum.

7.  Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Strandasýslu haldinn að Sævangi 19. mars 2008 samþykkir að skora á stjórn L.S. að standa dyggan vörð um hagsmuni sauðfjárbænda vegna þeirrar holskeflu hækkana á aðföngum sem nú dynur á bændum.

Frá félagi sauðfjárbænda í Snæfellssness- og Hnappadalssýslu

8. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Snæfells-og Hnappadalssýslu, haldinn á Breiðabliki 10. mars 2008 beinir því til stjórnar LS að hún sjái til þess að afurðir sauðfjárbænda hækki í haust. Afurðaverð þarf að endurspegla þær miklu hækkanir á aðföngum sem orðið hafa að undanförnu.

9. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Snæfells-og Hnappadalssýslu, haldinn á Breiðabliki 10. mars 2008 beinir því til stjórnar LS að hún kanni möguleika á því að bændur megi nota litaða olíu á vinnubíla sína.

10. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Snæfells-og Hnappadalssýslu, haldinn á Breiðabliki 10. mars 2008 óskar eftir því við stjórn LS að hún taki þátt í ferðakostnaði fulltrúa sauðfjárbænda á matvælasýningu Salone del gusto sem verður haldin í október á Ítalíu.

Greinargerð:
Matvælasýningin Salone del gusto er haldin annað hvert ár á Ítalíu. Samtökin Slow food standa að sýningunni sem er fjölsótt og vekur mikla athygli um allan heim. Árið 2006 fóru þrír fulltrúar sauðfjár- og geitabænda frá Íslandi á sýninguna og nú í ár bjóða skipuleggjendur fleiri fulltrúum að koma og kynna það sem við erum að gera. Þeir borga uppihald en eftir stendur kostnaður við ferðir. Þátttaka í sýningu af þessu tagi opnar nýja möguleika fyrir markaðssetningu íslenskra landbúnaðar afurða erlendis.

11. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Snæfells-og Hnappadalssýslu, haldinn á Breiðabliki 10. mars beinir því til LS að þeir athugi hversu öruggt eftirlit er með gæðum á innfluttum matvælum.

Frá félagi sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu

12. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Rangárvallarsýslu haldinn á Hvolsvelli 26 mars 2008, hefur þungar áhyggjur af afkomu greinarinnar og vill benda landbúnaðarráðherra á að vonlaust verði að sækja þær miklu verðhækkanir sem orðið hafa á aðföngum í hærra afurðarverði, leggi stjórnvöld niður útflutningsskyldu eða tolla á innfluttar kjötvörur.

Greinargerð:
Áburðarverð hefur hækkað um 80% milli ára, sem þýðir að miða við meðal sauðfjárbú yrði afurðarverð að hækka um 70 kr/kg af framleiddu dilkakjöti. Einnig hefur dieselolía  hækkað um 26,3% frá feb. ´07 til feb. ´08 sem er 5-6kr/kg svo og önnur aðföng og vaxtarkostnaður en ljóst er að afurðarverð yrði að hækka um 25% til að halda í við hækkun aðfanga og þá er launaliðurinn ekki tekinn inn í . Með aukinni samkeppi á kjötmarkaðinum, með afnámi útflutningssyldunar eða auknum innflutningi yrði vonlaust að ná þessum nauðsynlegu verðhækkunum og án þeirra er forsendur brostnar fyrir rekstri sauðfjárbúa.

13. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu haldinn á Hvolsvelli 26 mars 2008 skorar á fjármálaráðherra að lækka gjöld og skattaálögur á díselolíu og vera sjálfum sér samkvæmur í að draga úr koltvísýringslosun í samræmi við Kyoto-samþykktina. Og koma á móts við dreifbýlisbúa sem oft eiga um langan veg að fara eftir nauðsynjum.

Greinargerð:
Díselbílar eru taldir menga minna en bensínbílar. Og fólk á landsbyggðinni þurfa að eiga jeppa til að komast leiðar sinnar og oft um erfiða fjallvegi að fara. Lækkun á verði á díselolíu væri mikið hagsmunarmál og stuðlaði einngi að notkun díselbíla, sem myndi draga úr koltvísýringsmengun.

14. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu haldinn á Hvolsvelli 26 mars 2008 lýsir furðu á framfylgni Matvælastofnunar á reglugerð um merkingu búfjár no 289/2005. Fundurinn skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gera breytingar á reglugerðinni þar um að lágmarksfrávik þurfi til að til afskipta komi.

Greinargerð:
Fjöldi ábendinga hefur borist frá bændum um bréf frá Matvælastofnun, þar sem bændum hefur verið hótað meðferð hjá sýslumanni ef vantað hefur eyrnamerki í lömb í sláturhúsi. Teljum við að hér fari Matvælastofnun offari þar sem það er þekkt að gripir hafi glatað merki á sláturbíl eða í sláturrétt. Lágmarksfrávik (td. 2-3% af heildarfjölda fjár af bæ) frá reglugerð gæti komið í veg fyrir óþægindi og óþarfa rannsókn á eðlilegum afföllum merkja.

Frá félagi sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum

15. Aðalfundur FSHF haldinn í Brúarási 25. mars 2008, skorar á stjórn LS að endurskoða verðlagningu á ull. 

Greinargerð:
Meiri verðmunur þarf að vera á fyrsta og öðrum flokki hvítrar ullar svo hvati verði til markvissari kynbóta og betri flokkunar á ullinni.

16. Aðalfundur FSHF haldinn í Brúarási 25. mars 2008, skorar á stjórn LS að láta endurskoða ullarmat á lifandi haustlömbum til að afstýra því að mórauð, grá og svört lömb falli í stigun þrátt fyrir að ullargæði séu í lagi.

17.  Aðalfundur FSHF haldinn í Brúarási 25. mars 2008, beinir því til fagráðs í sauðfjárrækt að gengið sé eftir því að allir sem nota sauðfjársæðingar skili inn skýrslu um árangur sæðinganna.

 


Greinargerð:
Hjá Búnaðarsambandi Austurlands er gengið eftir fullum skilum á árangri sæðinganna, en mikill misbrestur virðist vera á því í öðrum héruðum að svo sé.  Fram kemur hjá BsA að þeir sem skila fyrstir eru með besta árangur, sem fer síðan stiglækkandi eftir því sem fleiri skila.  Má reikna með sömu hlutföllum á öðrum svæðum, sem gefur þar af leiðandi skakka mynd af árangri sæðinga á landsvísu, þegar aðeins hluti upplýsinganna er lagður til grundvallar.

18.  Aðalfundur FSHF haldinn í Brúarási 25. mars 2008, hvetur stjórn Ls að sjá til þess að gerð verði ítarleg úttekt á meðferð lambakjöts við slátrun, þá sérstaklega við aflífun og kælingu.

Greinargerð:
Fundurinn telur nauðsynlegt að könnuð verði hugsanleg áhrif þessara tveggja þátta á gæði kjötsins.  Hætta er á að skrokkar nái ekki að blóðrenna nægilega við aflífun með rafmagni og eins er hætt við kæliherpingu með of snöggri kælingu eða frystingu.  Grunur er um að fyrrgreindir þættir geti spillt gæðum kjötsins og þar með vinsældum þess.

Frá félagi sauðfjárbænda í Eyjafirði

19. Aðalfundur F.S.E  fer fram á við stjórn L.S að hún beiti sér fyrir því  að núverandi skipan hvað varðar útflutningsskyldu á dilkakjöti verði beitt áfram. En ekki að hún verði aflögð samkvæmt núgildandi lögum 1. júní 2009.

20. Aðalfundur F.S.E fer fram á við stjórn Ístex að meðferð og flutningur ullar verði tekin til gagngerar endurskoðunnar.

21. Aðalfundur F.S.E tekur heilshugar undir ályktun Búnaðarþings mál 08020038 um endurskoðun á varnarlínum.

22. Aðalfundur F.S.E skorar á Matvælastofnun að efla rannsóknir á fósturdauða hjá sauðfé.

23. Aðalfundur F.S.E tekur heilshugar undir ályktun Búnaðarþings mál 08020044 um kjaramál bænda.

Frá félagi sauðfjárbænda í Árnessýslu

24. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Árnessýslu, haldinn að Þingborg 17. mars 2008, lýsir áhyggjum vegna fyrirhugaðs afnáms á útflutningsskyldu. Falli útflutningsskyldan niður, verður væntanlega uppnám á kjötmarkaði, sem kæmi niður á öllum kjötframleiðendum, ekki aðeins sauðfjárbændum. Að óbreyttu kæmi það í kjölfar mikilla verðhækkana á aðföngum og óvíst að bændur stæðu af sér slíkar þrengingar.
Fundurinn skorar á stjórn LS og aðalfund samtakanna að beita sér fyrir því að útflutningsskyldan verði ekki felld niður að svo stöddu.

25. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Árnessýslu, haldinn að Þingborg 17. mars 2008, skorar á LS, sláturleyfishafa, ÍSTEX og aðra sem koma að verðlagningu á sauðfjárafurðum að vinna að því öllum árum að bændur fái afurðaverðshækkanir til móts við þá verðsprengingu sem orðið hefur á öllum aðföngum að undanförnu. Augljóst er að framleiðsla ársins 2008 verður til muna dýrari fyrir bændur en haustið 2007 og því verður varla  mætt nema með hækkunum á verði til neytenda. Nú þegar telja neytendur að vöruverð hafi hækkað mikið. Dragist mikið lengur að veita auknum framleiðslukostnaði út í verðlagið, geta neytendur túlkað það sem enn eina verðhækkun, skellurinn af umræðum um verðhækkanir orðið meiri og tækifæri til leiðréttingar á kjörum bænda runnið úr greipum.

26. Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu fer fram á heimild Landssamtaka sauðfjárbænda til að auka réttindi aukafélaga FSÁ, þannig að allir félagar hafi atkvæðisrétt og kjörgengi í félaginu, með þeirri undantekningu að formaður og aðrir fulltrúar á aðalfund LS uppfylli fyrri skilyrði um að eiga a.m.k. 50 kindur á vetrarfóðrum.

Greinargerð:
Þeim bændum sem hafa 50 kindur eða fleiri fer fækkandi í Árnessýslu en smábændur eru margir. Við sem höfum sauðfjárrækt að atvinnu að eitthverju leyti erum sárafá í hverri sveit. Aðrir sem halda kindur verða okkur sífellt mikilvægari, þegar sjónarmið annarra í samfélaginu þrengja að okkur á margan hátt. Við teljum að Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu verði sterkara og þjóni markmiðum sínum betur með því að veita þeim sem eiga fáar kindur meiri réttindi í félaginu og ekki síður að fleiri geti gegnt trúnaðarstörfum fyrir félagið.
Mjög erfitt er að halda yfirsýn yfir hverjir geti talist fullgildir félagar og hverjir ekki, þar sem formlegar upplýsingar um sauðfjáreign manna eru venjulegu fólki óaðgengilegar. Forðagæsluskýrslur eru meðhöndlaðar sem leynileg gögn og stjórnarmenn félagsins hafa ekki aðgang að þeim.

27. Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu  ítrekar fyrri tillögur sínar um að almennilega verði staðið að viðhaldi sauðfjárveikivarnarlína. Miklu skiptir að dreifingarsvæði sauðfjársjúkdóma verði ekki stækkuð með því að vanrækja eða leggja niður varnarlínur. Einnig er mjög brýnt að verja hreinu svæðin með öllum tiltækum ráðum.

28. Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu  beinir því til Bændasamtaka Íslands og sauðfjársæðingastöðvanna að auka framboð á hrútum á sauðfjársæðingstöðvunum sem gefa mikinn fallþunga og mjólkurlagnar og frjósamar ær.

Frá deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Norður Þingeyjarsýslu

29. Aðalfundur sauðfjárbændadeildar BSNÞ haldin á Raufarhöfn 26. mars 2008 telur brýnt að fullt samræmi sé á milli sláturleyfishafa um vinnulag við snyrtingu kjötskrokka fyrir vigtun.
 
Greinargerð:
Komið hefur fram vísbending um að sumir sláturleyfishafar gangi lengra en aðrir við snyrtingu.  Slíkt ósamræmi er algerlega óásættanlegt.
 
30. Aðalfundur BSNÞ haldin á Raufarhöfn 26. mars 2008 beinir því til aðalfundar LS að samtökin komi því til leiðar að gerð verði stór og marktæk könnun á bragðgæðum lambakjöts eftir því af hvernig haga þau eru tekin í sláturhús.


Frá deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Austur Skaftafellssýslu

31. Aðalfundur deildar sauðfjárbænda í Austur-Skaftafellssýslu, haldinn að Hrollaugsstöðum 12.03.2008 samþykkir að beina því til aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda að aðalfundur og árshátíð L.S verði framvegis haldin í síðasta lagi fyrstu helgina í apríl.

Greinargerð:
Brýnt er að aðalfundur sé ekki haldinn seinna þar sem það er orðið mjög stutt í sauðburð, þar sem menn láta bera snemma og getur verið erfitt fyrir kjörna fulltrúa að mæta á fundinn og bændur að mæta á árshátíðina.

32. Aðalfundur deildar sauðfjárbænda í Austur-Skaftafellssýslu, haldinn að Hrollaugsstöðum 12. mars 2008, ítrekar fyrri tillögu um að sauðfjárveikivarnir greiði bætur fyrir kindur sem færðar eru til slátrunar vegna línubrots eftir venjulega sláturtíð.

Greinargerð:
Sauðfjárveikivarnir hafa ekki bætt tjón bænda þegar lambhrútar hafa
verið færðir til slátrunar vegna línubrota eftir hrútadag en það að geta
ekki geymt hrútinn og slátrað honum síðan er sannarlega skaði fyrir
viðkomandi bónda.

33. Aðalfundur deildar sauðfjárbænda í Austur-Skaftafellssýslu haldinn að Hrollaugsstöðum 12. mars 2008 fagnar framkomnum hugmyndum um áburðarframleiðslu

34. Aðalfundur deildar sauðfjárbænda í Austur-Skaftafellssýslu, haldinn að Hrollaugsstöðum 12. mars 2008 beinir því til Landssamtaka sauðfjárbænda að viðhalda útflutningsskyldu á lambakjöti svo ekki komi til offramboðs á kjötmarkaði.

Frá félagi sauðfjárbænda í Skagafirði

35. Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Skagafirði haldinn að Löngumýri 26. febrúar 2008 beinir því til stjórnar Landsamtaka sauðfjárbænda að viðmiðunarverð haustsins verði í takti við þær verðhækkanir sem verið hafa.  Jafnframt verði lögð áhersla á verðhækkanir á þá verðflokka sem megnið af kjötinu fer í eins og R3.

Greinagerð:
Sauðfjárbændur eru mjög uggandi um sinn hag eftir allar þær verðhækkanir sem verið hafa á síðustu misserum má þar nefna áburðarverð, olíuverð, og fjármagnskostnaðarhækkanir og eru þar bara stærstu útgjaldaliðir taldir.  Ef rekstrarforsendur fjárbúa eiga ekki að bresta er brýnt að þessi aukni kostnaður lendi ekki á bændum.

Frá félagi sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu

36. Aðalfundur FSAH, haldinn á Blönduósi þann 27.03.2008 samþykkir að beina því til Landssamtaka sauðfjárbænda að taka fullt tillit til þeirra kostnaðarhækkana, sem orðið hafa á rekstrarliðum frá fyrra hausti áður en þeir gefa í viðmiðunarverð fyrir haustið 2008.
 Einnig skorar fundurinn á Landssamtök sauðfjárbænda að vinna að því við alla sláturleyfishafa að þeir standi eðlilega að verðmyndum dilkakjöts á smásölumarkaði.

37. Aðalfundur FSAH, haldinn á Blönduósi þann 27.03.2008 lýsir þungum áhyggjum af þeim stórfelldu aðfangahækkunum og hækkunum á fjármagnskostnaði sem hafa orðið að undaförnu og fyrirsjáanlegar eru í nánustu framtíð.
Fundurinn skorar á Landsamtök sauðfjárbænda, Landssamtök sláturleyfishafa, Bændasamtök Íslands og landbúnaðarráðherra að sjá til þess að afurðaverð til sauðfjárbænda hækki á komandi hausti til samræmis við áðurnefndar kostnaðarhækkanir svo rekstrargrundvelli sé ekki kippt undan sauðfjárbúskap á Íslandi

Frá félagi sauðfjárbænda í Suður Þingeyjarsýslu

38. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í S-Þingeyjarsýslu haldinn að Ýdölum 13. mars 2008 telur algerlega óviðunandi að uppfærslur á DK-Búbót til skattframtalsgerðar berist notendum forritsins jafn seint og verið hefur undanfarin ár. Fundurinn krefst þess að uppfærsla til skattauppgjörs verði tilbúin jafnhliða uppgjöri vegna virðisaukaskatts þar sem þá liggja fyrir allar upplýsingar frá skattayfirvöldum um gerð framtala.

39. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í S-Þingeyjarsýslu haldinn að Ýdölum 13. mars 2008.  Fundurinn skorar á stjórn LS að leita allra leiða til að leysa þann mikla rekstrarvanda sem blasir við sauðfjárbændum í kjölfar gríðarlegra hækkana á aðföngum sem orðið hafa á undanförnum mánuðum og enn sér ekki fyrir endann á.

Frá félagi sauðfjárbænda í Dalasýslu

40. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Dalasýslu haldin í Dalabúð þriðjudaginn 18. mars 2008 lýsir þungum áhyggjum vegna mikillar hækkunar á aðföngum til dilkakjötsframleiðslu og beinir því til stjórnar LS, afurðastöðva, og annarra er málið varða, að ef ekki komi til mikilla hækkana á dilkakjöti er ljóst að margir bændur munu neyðast til hætta búskap.

Greinargerð:
Miklar hækkanir hafa orðið á áburði, olíu, kjarnfóðri og fleiri aðföngum til bænda. Litlar líkur eru á því að þetta gangi til baka og má frekar gera ráð fyrir meiri hækkunum. Ljóst er að miklar hækkanir þurfa að verða á afurðum sauðfjárbænda næsta haust til að vega upp þessar hækkanir. Benda má á að landbúnaðarafurðir á heimsmarkaði fara hækkandi og dilkakjötið er þar engin undantekning.

41. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Dalasýslu haldinn í Dalabúð þriðjudaginn 18. mars 2008 lýsir yfir áhyggjum vegna aukinnar villu í sláturgögnum sem berast frá afurðastöðvum til bænda.

Greinargerð:
Rétt sláturgögn eru grunnforsenda skýrsluhalds í sauðfjárrækt og því er gríðarlega mikilvægt að þær upplýsingar sem þar fara inn séu réttar og á þær sé treystandi. Þetta ætti að vera hagsmunamál afurðastöðva því aukin kjötgæði sem byggja á kynbótastarfi ætti að vera eftirsóknarvert fyrir þær. Örmerki í sauðfé munu að einhverju leyti koma í veg fyrir þetta.

42. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Dalasýslu haldinn í Dalabúð þriðjudaginn 18. mars 2008 lýsir áhyggjum yfir því að lömb virðast í auknu mæli vera lögð inná ranga innleggjendur og beinir því til afurðarstöðva að það sé lágmarksþjónusta að menn geti treyst því að lömb rati á rétta innleggjendur.

Greinagerð:
Þegar lömb eru lögð inn á ranga innleggjendur er oftar en ekki um mistök af hálfu bænda  eða afurðastöðva að ræða. Vegna fækkunar sláturhúsa er oft um langan veg að fara og því hafa margir ekki séð sér fært að fylgja fé til slátrunar. Það er krafa bænda að fækkun og stækkun sláturhúsa bitni ekki á mönnum með þessum hætti.

43. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Dalasýslu haldinn í Dalabúð þriðjudaginn 18. mars 2008 beinir því til stjórnar LS að láta meira á sér bera í opinberri umræðu um sauðfjárrækt. Til að gera LS að öflugri hagsmunaaðila þá er mikilvægt að samtökin séu virt og láti á sér bera á opinberum vettvangi. Á þetta hefur skort á undanförnum árum og er því beint til stjórnar LS að taka þennan þátt til ítarlegrar skoðunar. Fundurinn fagnar því þó hversu virk vefsíðan saudfe.is er orðin og hvetur umsjónarmann hennar til frekari uppbyggingar.

44. Aðalfundur félags sauðfjárbænda í Dalasýslu haldinn í Dalabúð þriðjudaginn 18. mars 2008 skorar á framkvæmdanefnd búvörusamninga að hækka ásetningsskyldu í 1,0 strax. Tilgangur þess er að auka jafnrétti í atvinnugreininni.

Frá félagi sauðfjárbænda í Borgarfirði

45. Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Borgarfjarðarhéraði haldinn á Hvanneyri 4. apríl 2008 beinir því til aðalfundar LS að hann beiti sér fyrir því að unnið verði að því að mynda verðmyndunargrunn fyrir afurðir sauðfjárbænda. Þar sem tekið verði mið af rekstrarkostnaði sauðfjárbúa og launaþróun í landinu.

Greinargerð:
Það er alveg ljóst að sauðfjárbændur verða að koma sér upp einhverju tæki til að verja hagsmuni sýna í verðmyndun á afurðum sínum bæði gagnvart sláturleyfishöfum sem og hinum almenna neytanda. Á undanförnum misserum ætti mönnum að hafa orðið ljós nauðsyn þess að geta sýnt svart á hvítu hvaða áhrif hækkanir á aðföngum hafa á rekstur sauðfjárbúa líkt og annarra búgreina.

46. Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Borgarfjarðarhéraði haldinn á Hvanneyri 4. apríl 2008 beinir því til aðalfundar LS að hann beiti sér af fullri hörku fyrir því að sauðfjárveikivarnragirðingum sem hugsanlega á að leggja niður verði skilað fjárheldum til viðkomandi sveitarfélaga eða bænda og fjármagn aukið til viðhalds á þeim girðingum  sem eiga að standa áfram.

47. Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Borgarfjarðarhéraði haldinn á Hvanneyri 4. apríl 2008 beinir því til aðalfundar LS að hann beiti sér fyrir því að aukið fjármagn og kraftur verði lagður í  rannsóknir á lambadauða í gemlingum og ungum ám.

48. Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Borgarfjarðarhéraði haldinn á Hvanneyri 4. apríl 2008 beinir því til aðalfundar LS að hann beiti sér fyrir því að rannsóknir verði hafnar að nýju á áburðarþörf íslenskra túna, efnainnihalds og nýtingu búfjáráburðar.

49. Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Borgarfjarðarhéraði haldinn á Hvanneyri 4. apríl 2008 beinir því til aðalfundar LS að hann beiti sér fyrir því að rannsóknir verði gerðar á efnainnihaldi íslenskra heyja með tilliti til snefilefna svo unnt sé að greina þörf á viðbótargjöf.

Frá stjórn LS

50. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda varar eindregið við hugmyndum stjórnvalda um tollalækkanir á svína- og kjúklingakjöti.  Verði tollar felldir niður á þessum kjöttegundum mun það skapa mikið uppnám á innlendum kjötmarkaði í öllum greinum, auk þess að stefna fjölda starfa í úrvinnsluiðnaði í hættu.  Þessi aðgerð mun því einnig koma niður á sauðfjárbændum og íslenskum landbúnaði almennt þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.  Aðalfundurinn vísar til ályktunar nýliðins Búnaðarþings um kjaramál og lýsir yfir fullum stuðningi við þær aðgerðir sem þar eru lagðar til.

51. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 felur stjórn LS að gefa sem fyrst út viðmiðunarverð sem hækki verð á dilkakjöti til sauðfjárbænda um 27% frá reiknuðu meðaltalsverði á dilkakjöti allra sláturleyfishafa haustið 2007.  Verð fyrir útflutning og kjöt af fullorðnu hækki að lágmarki jafnmikið hlutfallslega.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar