Print

Samþykktir aðalfundar

Alls voru samþykktar 31 tillaga um margvísleg atriði er snerta sauðfjárrækt og starfsemi LS. Hér að neðan er yfilit yfir tillögurnar og texti þeirra í heild.

Hér má einnig nálgast Word skjal með öllum tillögunum
doc samthykktatillogur 64.50 Kb

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 10.-11. apríl 2008

Samþykktir

Yfirlit yfir tillögurnar er eftirfarandi:
1.1. Um nýliðunarreglur
1.2. Um framkvæmd reglugerðar um merkingar búfjár
1.3. Um tímasetningu aðalfundar
1.4. Um áburðarframleiðslu
1.5. Um uppfærslur á dk-Búbót
1.6. Um þátttöku í opinberri umræðu
1.7. Um endurskoðun á starfsháttum og stjórnsýslu Matvælastofnunar
1.8. Um tollalækkanir
1.9. Um Landbótasjóð
2.1. Um sæðingaskýrslur
2.2. Um meðferð lambakjöts við slátrun
2.3. Um framboð á hrútum á sæðingastöðvum
2.5. Um snyrtingu á skrokkum í sláturhúsum
2.6. Um fósturdauða hjá sauðfé
2.7. Um rannsóknir á áburði og fóðri
2.8. Um aflestur og innslátt á númerum sláturfjár
2.9. Um ullarmat á haustlömbum
2.10. Um útreikninga á mjólkurlagni
2.11. Um fituflokkun kjöts
3.1. Um innflutning á hráu kjöti
3.2. Um bætur fyrir lambhrúta vegna línubrots
3.3. Um viðhald varnarlína
3.4. Um varnir gegn búfjársjúkdómum
4.1. Um viðmiðunarverð á afurðum
4.2. Um útflutningsskyldu á dilkakjöti
4.3. Um álögur á dieselolíu
4.4. Um verðlagningu á ull
4.5. Um verðmyndunargrunn fyrir sauðfjárbú
5.1. Um sýninguna Salone del gusto
5.2. Um þóknun til formanns
5.3. Fjárhagsáætlun 2008    

1.1. Um nýliðunarreglur
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 beinir þeim tilmælum til stjórna L.S. og  B.Í að við endurskoðun á reglum um nýliðunarstyrk til handa sauðfjárbændum verði sú breyting gerð að veitt verði framlag vegna  fjölgunar á bústofni og gildi þá einu hvort um kaup eða ásetning af eigin stofni er að ræða.

Greinargerð:
Það verður að teljast mjög óeðlilegt að  greiða aðeins styrki vegna kaupa á bústofni en ekki vegna fjölgunar af eigin stofni.
Frumbýlingur sem kaupir t.d. 300 kindur á fyrsta ári og fjölgar svo um 100 á ári næstu tvö ár með ásetningi af eigin stofni ætti ekkert síður að fá styrk vegna þeirrar fjölgunar en sá sem slátrar öllum sínum lömbum og  kaupir fé annars staðar.  Er það okkar mat að þeir einstaklingar sem uppfylla skilyrði til að teljast nýliðar eigi að fá styrk vegna sannanlegrar fjölgunar á sínum bústofni og yrðu búfjáreftirlitsskýrslur sá grunnur sem farið yrði eftir.  Tilgangur með stuðningi við frumbýlinga hlýtur að vera sá að styðja við þá af fremsta megni.

1.2. Um framkvæmd reglugerðar um merkingar búfjár
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 skorar á Matvælastofnun að endurskoða verkferla varðandi framkvæmd reglugerðar um merkingu búfjár númer 289/2005.

Greinargerð:
Fjöldi ábendinga hefur borist frá bændum um bréf frá Matvælastofnun, þar sem bændum hefur verið hótað meðferð hjá sýslumanni ef vantað hefur eyrnamerki í lömb í sláturhúsi. Teljum við að hér fari Matvælastofnun offari þar sem það er þekkt að gripir hafi glatað merki á sláturbíl eða í sláturrétt. Lágmarksfrávik (td. 2-3% af heildarfjölda fjár af bæ) frá reglugerð gæti komið í veg fyrir óþægindi og óþarfa rannsókn á eðlilegum afföllum merkja.

1.3. Um tímasetningu aðalfundar
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 samþykkir að beina því til stjórnar að aðalfundur verði haldinn eigi síðar en fyrstu helgina í apríl. Jafnframt samþykkir fundurinn að stjórn LS tilkynni framvegis á aðalfundum hvar og hvenær aðalfundur næsta árs verði haldinn.

1.4. Um áburðarframleiðslu
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 fagnar framkomnum hugmyndum um áburðarframleiðslu hér á landi.

1.5. Um uppfærslur á dk-Búbót
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 telur algerlega óviðunandi að uppfærslur á dk-Búbót til skattframtalsgerðar berist notendum forritsins jafn seint og verið hefur undanfarin ár. Fundurinn krefst þess að uppfærsla til skattauppgjörs verði tilbúin jafnhliða uppgjöri vegna virðisaukaskatts þar sem þá liggja fyrir allar upplýsingar frá skattayfirvöldum um gerð framtala.

1.6. Um þátttöku í opinberri umræðu
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008  beinir því til stjórnar LS að láta meira á sér bera í opinberri umræðu um sauðfjárrækt. Til að gera LS að öflugri hagsmunaaðila þá er mikilvægt að samtökin séu virt og láti á sér bera á opinberum vettvangi. Á þetta hefur nokkuð skort á undanförnum árum og er því beint til stjórnar LS að taka þennan þátt til ítarlegrar skoðunar. Fundurinn fagnar því þó hversu virk vefsíðan saudfe.is er orðin og hvetur umsjónarmann hennar til frekari uppbyggingar.

1.7. Um endurskoðun á starfsháttum og stjórnsýslu Matvælastofnunar
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 mælist til þess við Alþingi að starfshættir og stjórnsýsla Matvælastofnunar, dýraheilbrigðissvið, (áður Landbúnaðarstofnun) verði tekin til athugunar af til þess bærum aðilum, í ljósi álits Umboðsmanns Alþingis frá 7. apríl 2008 um mál nr. 4917/2007.

1.8. Um tollalækkanir
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 varar stjórnvöld eindregið við hugmyndum um tollalækkanir á svína- og kjúklingakjöti.  Verði tollar lækkaðir á þessum kjöttegundum mun það skapa mikið uppnám á innlendum kjötmarkaði í öllum greinum, auk þess að stefna fjölda starfa í úrvinnsluiðnaði í hættu.  Þessi aðgerð mun því einnig koma niður á sauðfjárbændum og íslenskum landbúnaði almennt þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.  Aðalfundurinn vísar til ályktunar nýliðins Búnaðarþings um kjaramál og lýsir yfir fullum stuðningi við þær aðgerðir sem þar eru lagðar til.

1.9. Um Landbótasjóð
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2008 skorar á Alþingi og umhverfisráðherra að auka fjármagn í Landbótasjóð í 45 milljónir króna til að hann geti úthlutað fjármagni í þær landbótaáætlanir sem bændur og Landgræðsla ríkisins hafa gert sín á milli.

2.1. Um sæðingaskýrslur
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því til BÍ að sæðingaskýrslur séu framvegis skráðar í Fjárvís.

2.2.  Um meðferð lambakjöts við slátrun
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því til stjórnar LS að gerð verði ítarleg úttekt á meðferð lambakjöts við slátrun, þá sérstaklega við aflífun og kælingu.

Greinargerð:
Fundurinn telur nauðsynlegt að könnuð verði hugsanleg áhrif þessara tveggja þátta á gæði kjötsins. Þegar skepnan er aflífuð með rafmagni er hætt við að skrokkar nái ekki að blóðrenna nægilega og eins er hætt við kæliherpingu með of snöggri kælingu eða frystingu.  Grunur er um að fyrrgreindir þættir geti spillt gæðum kjötsins.

2.3. Um framboð á hrútum á sæðingastöðvum
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því til Bændasamtaka Íslands og sauðfjársæðingastöðvanna að auka framboð á hrútum á sauðfjársæðingastöðvunum sem gefa mikinn fallþunga, mjólkurlagnar og frjósamar dætur.

2.5. Um snyrtingu á skrokkum í sláturhúsum
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því til stjórnar LS og Markaðsráðs kindakjöts að gera nýtt samkomulag við afurðastöðvar varðandi snyrtingu og léttingu skrokka í sláturhúsum, þar sem fallið verði frá því að náraband sé skorið af skrokkum fyrir vigtun.  Að öðru leyti er brýnt að fullt samræmi sé milli sláturleyfishafa um vinnulag við snyrtingu.

2.6. Um fósturdauða hjá sauðfé
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 hvetur til markvissari vinnubragða í áframhaldandi rannsóknum á fósturdauða hjá sauðfé.

2.7. Um rannsóknir á áburði og fóðri
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því til stjórnar LS að hún beiti sér fyrir því að rannsóknir verið hafnar að nýju á áburðarþörf  túna, efnainnihaldi og nýtingu búfjáráburðar og einnig á efnainnihaldi heyja með tilliti til snefilefna svo unnt sé að greina þörf á viðbótagjöf

2.8. Um aflestur og innslátt á númerum sláturfjár
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því til stjórnar LS að ítreka við afurðastöðvar að vandað verði til aflestrar og innsláttar á númerum á sláturfé.

2.9. Um ullarmat á haustlömbum
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 skorar á stjórn LS að láta endurskoða ullarmat á lifandi haustlömbum til að afstýra því að litur hafi áhrif á stigun þrátt fyrir að ullargæði séu í lagi.

2.10. Um útreikninga á mjólkurlagni
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því  til fagráðs í sauðfjárrækt að leiðrétta útreikninga á mjólkurlagni ánna, þannig að tekið sé mið af raunverulegri mjólkurlagni en áhrif haustbötunar lamba á þá einkunn lágmörkuð.

2.11. Um fituflokkun kjöts
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 beinir því til fagráðs í sauðfjárrækt að kannað hvort ekki sé ástæða til breytinga á fituflokkun kjöts þannig að tekið sé tillit til skrokkþunga við fitumælingu.

3.1. Um innflutning á hráu kjöti
Aðalfundur LS, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 krefst þess að leyfi til innflutnings á hráu kjöti sé bundið sömu skilyrðum í framleiðslu og innlend framleiðsla.

Greinargerð:
Gerðar eru meiri heilbrigðiskröfur til innlendrar framleiðslu heldur víða erlendis. Það er nauðsynlegt að jafnræðis sé gætt og innflutningur lúti sömu kröfum og innlend framleiðsla.

3.2. Um bætur fyrir lambhrúta vegna línubrots
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 skorar á Matvælastofnun að greiða bætur fyrir lambhrúta sem færðir eru til slátrunar vegna línubrots eftir venjulega sláturtíð.

Greinargerð:
Matvælastofnun hefur ekki bætt tjón bænda þegar lambhrútar hafa verið færðir til slátrunar vegna línubrota eftir hrútadag en það að geta ekki geymt hrútinn og slátrað honum síðan er sannarlega skaði fyrir viðkomandi bónda.

3.3. Um viðhald varnarlína
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 krefst þess að varnarlínum sauðfjárveikivarna verði haldið við samkvæmt lögum þar um. Fundurinn skorar á Alþingi og ríkisstjórn að tryggja nægt fjármagn til þess.

Greinargerð:
Það er mikið hagsmunamál fyrir sauðfjárbændur að útbreiðsla sauðfjársjúkdóma sé heft með varnargirðingum. Þá styðja öruggar varnargirðingar við bakið á sauðfjárbændum við að útrýma búfjársjúkdómum.

3.4. Um varnir gegn búfjársjúkdómum
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008 skorar á Matvælastofnun að slaka hvergi á í vörnum gegn búfjársjúkdómum á Íslandi.

4.1. Um viðmiðunarverð á afurðum
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008, felur stjórn LS að gefa sem fyrst út viðmiðunarverð, sem hækki verð á öllu dilkakjöti til sauðfjárbænda að lágmarki um 98 kr. á kg frá reiknuðu meðalverði sláturleyfishafa haustið 2007. Verð fyrir kjöt af fullorðnu hækki að lágmarki hlutfallslega jafn mikið.

Greinargerð:
Kostnaðarhækkanir frá síðasta hausti hafa verið gríðarlegar, samkvæmt útreikningum LS.
Nægir þar að nefna:
• Áburður 64 kr. á kg
• Olía 14 kr. á kg.
• Fjármagnskostnaður 20 kr. á kg.
Þá er ótalin hækkunarþörf sem er til staðar vegna verðbólgu og annara kostnaðarhækkana.

4.2. Um útflutningsskyldu á dilkakjöti
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008, skorar á landbúnaðarráðherra að fresta um tvö ár gildistöku lagaákvæðis um útflutningsskyldu  sem taka á gildi 1. júní 2009.
Greinargerð:
Vegna gríðarlegra breytinga  á rekstrarumhverfi landbúnaðarins sem orðið hafa á síðustu mánuðum, telur fundurinn nauðsynlegt að halda inni um sinn ákvæði um útflutningsskyldu. Einnig eru fyrirhugaðar lagabreytingar sem munu hafa veruleg áhrif á kjötmarkaðinn. Afnám útflutningsskyldu á dilkakjöti veldur uppnámi á kjötmarkaði við þessar aðstæður.

4.3. Um álögur á dieselolíu
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008, skorar á ríkisstjórn Íslands að lækka gjöld og skattaálögur á díselolíu og vera sjálfri sér samkvæm í að draga úr koltvísýringslosun í samræmi við Kyoto samþykktina.
Greinargerð:
Íbúar á landsbyggðinni þurfa að sækja þjónustu um langan veg, jafnvel um erfiða fjallvegi. Díselbílar eru taldir menga minna en bensínbílar.   Lækkun á verði díselolíu væri mikið hagsmunamál allra íbúa landsbyggðarinnar og stuðlaði einnig að notkun díselbíla sem myndi draga úr koltvísýringslosun.

4.4. Um verðlagningu á ull
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008, leggur áherslu á að þegar svigrúm gefst til ullarverðshækkana, verði aukinn verðmunur á milli haust- og vetrarrúinnar ullar svo hvati fáist til bættrar meðferðar og flokkunar á ull.

4.5. Um verðmyndunargrunn fyrir sauðfjárbú
Aðalfundur Landssamtaka Sauðfjárbænda, haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl 2008, beinir því til stjórnar LS að láta gera verðmyndunargrunn fyrir rekstur sauðfjárbúa.
5.1. Um sýninguna Salone del gusto
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl mælir með því að stjórn LS taki þátt í ferðakostnaði fulltrúa sauðfjárbænda á matvælasýninguna Salone del gusto sem verður haldin í október á Ítalíu.

Greinargerð:
Matvælasýningin Salone del gusto er haldin annað hvert ár á Ítalíu. Samtökin Slow food standa að sýningunni sem er fjölsótt og vekur mikla athygli um allan heim. Árið 2006 fóru þrír fulltrúar sauðfjár- og geitabænda frá Íslandi á sýninguna og nú í ár bjóða skipuleggjendur fleiri fulltrúum að koma og kynna það sem við erum að gera. Þeir borga uppihald en eftir stendur kostnaður við ferðir. Þátttaka í sýningu af þessu tagi opnar nýja möguleika fyrir markaðssetningu íslenskra landbúnaðar afurða erlendis.

5.2. Um þóknun til formanns
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda haldinn á Hótel Sögu 10.-11. apríl samþykkir að þóknun til formanns skuli vera kr. 70.000 á mánuði frá og með aprílmánuði 2008.

    
5.3: Fjárhagsáætlun 2008   
    2008  2007
Tekjur   
Búnaðargjald   7.700.000 7.690.332
Framleiðsluráðssjóður  3.000.000 2.851.790
Vaxtatekjur   1.000.000 911.522
Aðrar tekjur   4.500.000 4.643.892
    16.200.000 16.097.536
    
Gjöld   
Laun og launatengd gjöld 9.000.000 11.075.335
Skrifstofu- og stjórnunarkostn. 4.000.000 3.577.313
Annar kostnaður   250.000  37.691
    13.250.000 14.690.339
    
(Tap)/Hagnaður   2.950.000 1.407.197

 

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar