Print

Niðurstöður aðalfundar

Hér að neðan má nú lesa samþykktir aðalfundar LS 2009.  Samþykktirnar eru birtar með fyrirvara um prentvillur. Fundurinn samþykkti alls 34 tillögur um margvísleg efni sem tengjast málefnum sauðfjárræktarinnar.

Einnig má sækja hér Word skjal með tillögunum:doc tillogursamthykktar2009

Stjórn LS 2009-2010 skipa
S. Sindri Sigurgeirsson, formaður
Fanney Ólöf Lárusdóttir
Þorvaldur Þórðarson
Þórarinn Ingi Pétursson
Baldur Grétarsson
Varastjórn:
Einar Ófeigur Björnsson
Lárus H. Sigurðsson
Ásmundur Daðason
Oddný Steina Valsdóttir

Fulltrúar LS á Búnaðarþingi 2010-2012
S. Sindri Sigurgeirsson
Jóhannes Sigfússon
Fanney Ólöf Lárusdóttir
Til vara:
Þórarinn Ingi Pétursson
Aðalsteinn Jónsson
Þóra Sif Kópsdóttir

 

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2.-3. apríl 2009
Samþykktar tillögur


1.1.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 krefst þess að slátuleyfishafar  birti  fyrir lok hvers árs endanlegt verð á hverjum verðflokki kindakjöts sem notað var í uppgjöri til bænda.


1.2.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 skorar á  sláturleyfishafa að gefa út verðskrár minnst 3 vikum áður en slátrun hefst.


1.3.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 hvetur sláturleyfishafa að nýta útflutningsmöguleika sauðfjárafurða til fulls svo ná megi jafnvægi á birgðastöðu fyrir haustslátrun.


1.4.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009  hvetur  sláturleyfishafa til að veita  framleiðendum aðgengi að upplýsingum um hvað einstakir hlutar sauðfjárafurða, svo sem slátur og gæra, skila sláturleyfishöfum í tekjur. Einnig að sauðfjárbændur fái aðgang að upplýsingum um skilaverð af dilkakjötssölu innanlands og utan.


1.5.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 hvetur sauðfjárbændur sem færa bókhald í dk-Búbót  til að senda bókhaldsupplýsingar í "verðgrunninn" til að hægt verði að ljúka vinnu við hann sem fyrst og gefa út viðmiðunarverð í kjölfarið.

1.6.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009   beinir því til stjórnar L.S. að hún beiti sér fyrir endurskoðun á uppgjöri á ull, með það að markmiði að stytta greiðslufresti.


1.7.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 mótmælir harðlega ákvörðun fyrri ríkisstjórnar að afnema verðtryggingu búvörusamninga og skorar á núverandi ríkisstjórn að leiðrétta þetta samningsbrot.

Tryggja verður festu í framkvæmd samninga sem ríkisvaldið gerir við samtök bænda.

1.8.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 lýsir yfir mikilli óánægju með að sláturleyfishafar greiddu ekki  sauðfjárbændum viðmiðunarverð LS haustið 2008. Jafnframt lýsir fundurinn furðu sinni á því að ekki hafi verið greidd uppbót á útflutningsverð haustsins vegna hagstæðrar gengisþróunar.

Fundurinn hvetur stjórn L.S. að beita sér af fullri hörku við að ná leiðréttingu á verðlagi afurða sauðfjárbænda.

2.1.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 lýsir ánægju með að stjórnvöld hafi loksins hafið uppbyggingu á háhraðanetsambandi á landsbyggðinni með samningi fjarskiptasjóðs við Símann. Fundurinn skorar á stjórnvöld að fylgja málinu eftir af festu til að tryggja að öllum íbúum á landsbyggðinni verði ávallt tryggður aðgangur að upplýsingasamfélaginu með sömu gæðum og kjörum eins og íbúum á stærstu þéttbýlisstöðunum.

2.4.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 harmar vinnubrögð ASÍ vegna fundarherferðar síðastliðið haust um inngöngu Íslands í ESB. Mikilvægara væri fyrir samtökin að standa vörð um þau störf sem landbúnaðurinn skapar. 

2.6.
Aðalfundur Landsamtaka sauðfjárbænda 2009 skorar á ríkisvaldið að falla frá þjóðlendukröfum og skila því landi sem tekið hefur verið af landeigendum.

2.7.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 tekur undir með ályktun Búnaðarþings 2009 um að leggjast eindregið gegn því að Ísland gerist aðili að ESB og hafnar aðildarviðræðum við sambandið og skorar jafnframt á ríkisvaldið að gera slíkt hið sama.

2.8.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 mótmælir harðlega þeirri miklu skerðingu sem varð á niðurgreiðslu á rafkyndingarkostnaði í dreifbýli um síðustu áramót. Ennfremur mótmælir fundurinn hækkun á dreifingarkostnaði rafmagns í dreifbýli.

2.10.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 skorar á stjórn Bændasamtaka Íslands að skoða hagkvæmni heildarútboðs á áburði og rúlluplasti. Með það að markmiði að tryggja bændum þessi aðföng á hagkvæmara verði en nú er í boði.


2.12.
Aðalfundur Landsamtaka sauðfjárbænda 2009 skorar á stjórnvöld að endurskoða jarðalög, m.a. með tilliti til þess setja inn ákvæði um ábúðarskyldu á lögbýlum.

2.13.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 skorar á stjórn LS að leita leiða til að efla félagsvitund sauðfjárbænda. Það myndi styrkja hagsmunabaráttu þeirra.

2.14.
Aðalfundur Landsamtaka sauðfjárbænda 2009 styður að skipuð verði nefnd til að endurskoða innheimtu búnaðargjalds. Þeirri nefnd yrði falið að skoða leiðir til að lækka búnaðargjald og komast hjá sveiflum í innheimtu milli ára, samhliða því að finna farveg til að fjármagna félagskerfi bænda með öðrum hætti og koma með tillögur um breytingar á félagskerfinu í tengslum við þær hugmyndir.

2.15.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 minnir á mikilvægi sauðfjárræktar og annarrar innlendrar matvælaframleiðslu í landinu.

Fundurinn hvetur stjórnvöld til þess að gæta sérstaklega að rekstrarumhverfi landbúnaðarins á komandi mánuðum, til þess að tryggja fæðuöryggi landsmanna, standa vörð um innlend störf í greininni og spara gjaldeyri.

Það er forgangsmál að ná niður vöxtum og verðbólgu í landinu.  Eiginfjárstaða bænda, afurðastöðva og annars atvinnulífs í landinu hefur rýrnað stórlega undanfarna mánuði.  Ólíklegt er að bændur og afurðastöðvar sem þurfa að fjármagna birgðir og framleiðslu langt fram í tímann, hafi svigrúm til þess áfram, nema að vaxtakjör batni verulega innan fárra vikna.

3.1.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 skorar á sláturleyfishafa að tryggja sem best alla meðhöndlun við slátrun og kælingu dilkakjöts, svo neytendur geti ávallt treyst því að gæði íslenska lambakjötsins séu sem mest.

Greinargerð:
Í reglugerð um „Slátrun og meðferð afurða" nr. 461/2003 er ekkert tekið á gæðamálum, þ.e. hitastig og geymslutíma kindakjöts í kjötsal, líkt og gert var í eldri reglugerð nr. 188/1988 13. grein í 1. kafla, heldur er einungis tekið á þáttum sem snúa að hollustu og matvælaöryggi. Þetta getur valdið því að í einhverjum tilfellum sé kjöt fryst áður en dauðastirðnun er yfirstaðin sem rýrir verulega gæði kjötsins.


3.2.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 skorar á stjórn L.S að beita sér fyrir því að fram fari rannsókn á lungnakregðu í sauðfé með það að markmiði að finna bóluefni gegn henni.

Greinargerð:
Ljóst er að lungnakregða í sauðfé er vaxandi vandamál og veldur bændum afurðatjóni. Hamlar hún vexti lamba sem bera veikina og þau verða viðkvæmari fyrir ýmsum kvillum og sýkingum sem leiðir oft til þess að þeim er hent í sláturhúsi.  Nauðsynlegt er að þetta verði rannsakað hið fyrsta með það að markmiði að finna bóluefni gegn þessum vágesti í íslensku sauðfé.


3.3.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 krefst þess að komið verði á virkum rekjanleika á dilkakjöti.

 
3.4.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 beinir því til Matvælastofnunar og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis að gerð verði breyting á reglugerð um garnaveikibólusetningu.  Eðlilegt er að   garnaveikibólusetningar fullorðins fjár í þeim varnarhólfum þar sem veikin kemur upp verði greiddar af þeim sem það boðar samkvæmt reglugerð en ekki af búfjáreigendum. Að öðru leyti tekur fundurinn undir ályktun Búnaðarþings 2009 um sjúkdómavarnir.

Greinargerð:
Í þeim tilvikum þar sem garnaveiki kemur upp í ósýktum varnarhólfum er allsendis óeðlilegt að velta öllum kostnaði yfir á búfjáreigendur enda oft á tíðum varnarhólf mjög stór og samgangur fjár lítill sem enginn. Þá er þess að gæta að með bólusetningu er líka verið að verja nærliggjandi varnarhólf og aðrar dýrategundir sem eru móttækilegar fyrir sjúkdómnum. Ef kostnaði er velt yfir á búfjáreigendur er ákveðin hætta á að fénaði verði skotið undan og hjarðónæmi verði ekki sem skyldi. Fyrir liggur að komi upp riðuveiki bætir ríkissjóður tjónið og raunar gildir um flesta alvarlega búfjársjúkdóma að opinberir aðilar koma þar að málum.

3.5.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 beinir til stjórnar LS að sjá til þess að hert verði verðlagseftirlit á dýralyfjum og þjónustu dýralækna. Lagt er til að útsöluverð dýralyfja og gjaldskrá dýralækna fyrir algengustu þjónustuliði verði birt bændum á aðgengilegan hátt og geti um leið veitt aðhald gegn óeðlilegum álögum ef þær eru til staðar.

3.7.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 beinir því til stjórnar LS að farið verði að rannsaka áhrif rafmengunar á vanhöld og vanheilsu búfjár. 

3.8.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 fagnar þeim jákvæðu áföngum sem náðst hafa í þróun skýrsluhaldskerfisins Fjarvis.is, en leggur jafnframt áherslu á að þróun kerfisins haldi áfram.

Greinargerð:
Meðal þess brýnasta er að hið fyrsta verði gert mögulegt að skrá fósturtalningu.  Einnig væri mikilvægt að gera alla skráningu fljótvirkari.  Gera þarf leitarmöguleika fjölbreyttari og hópamyndun auðveldari. 

Þá væri æskilegt að útbúa fyrir notendur Fjarvis.is skrár sem reikna út verðmæti afurða hjá hverri á og búinu í heild. 

3.9.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 krefst þess að sett verði  í lög eða reglugerð að innflutt matvæli verði merkt framleiðslulandi, frá hvaða landi þau eru flutt inn og hver innflytjandinn er, svo rekjanleiki þeirra sé tryggður líkt og krafa er gerð um með íslenska matvælaframleiðslu.

3.10.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 beinir því til stjórnar LS að samtökin láti vinna með skipulögðum hætti  heildarúttekt á möguleikum sauðfjárræktarinnar til að bæta reksturinn, með það að markmiði að auka hagkvæmni og samkeppnisstöðu.

Greinargerð:  
Við sauðfjárræktinni blasir stöðugt vaxandi samkeppni, til að greinin standist hana þarf að nýta öll úrræði. Með því að afla með skipulögðum hætti vitneskju um sérhvern rekstrarlið og leiða fram hagkvæmustu lausnir, má bæta stöðu sauðfjárræktarinnar.

4.1.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 ítrekar við Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að vinnu við endurskipulagningu varnarhólfa verði lokið sem fyrst, í samráði við hagsmunaaðila, þ.e. bændur, landeigendur og sveitarstjórnir.
Fundurinn leggur einnig áherslu á að sauðfjárveikivörnum verði almennilega sinnt samkvæmt núverandi kerfi, þann tíma sem tekur að koma á framtíðarskipan varnarhólfa.

4.2.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 telur mikilvægt að fram fari almenn umræða um ræktun erfðabreyttra afurða og áhrif hennar á ímynd og hreinleika íslenskra landbúnaðarafurða.

4.3      
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 beinir því til hlutaðeigandi aðila að þeim bændum sem eru í landbótaþætti gæðastýringar sauðfjár verði gefið svigrúm til aðlögunar á þessu ári vegna efnahagsástandsins. Það er krafa fundarins að þeim bændum sem þess óska verði veitt undanþága frá landbótaáætlunum sumarið 2009.


4.4.     
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2009 skorar á stjórnvöld að marka heildarstefnu varðandi refaveiðar og að fjárhagsstuðningur við sveitarfélög vegna þeirra verði aukinn.

5.1.
Aðalfundur LS 2009 samþykkir reikninga samtakanna fyrir árið 2008 eins og þeir liggja fyrir fundinum.


5.2.
Aðalfundur LS 2009 samþykkir eftirfarandi fjárhagsáætlun fyrir samtökin vegna ársins 2009

Fjárhagsáætlun 2009

Áætlun

Raun

Áætlun

2008

2008

2009

Tekjur

Búnaðargjald

      7.700.000 kr.

      8.756.337 kr.

      8.150.000 kr.

Framleiðsluráðssjóður

      3.000.000 kr.

      1.589.716 kr.

      2.200.000 kr.

Vaxtatekjur

      1.000.000 kr.

      1.763.748 kr.

      2.000.000 kr.

Aðrar tekjur

      4.500.000 kr.

      6.616.256 kr.

      6.900.000 kr.

    16.200.000 kr.

    18.726.057 kr.

    19.250.000 kr.

Gjöld

Laun og launatengd gjöld

      9.000.000 kr.

      9.557.562 kr.

      9.800.000 kr.

Skrifstofu- og stjórnunarkostn.

      4.000.000 kr.

      4.187.087 kr.

      4.500.000 kr.

Annar kostnaður

         250.000 kr.

                  -   kr.

                  -   kr.

    13.250.000 kr.

    13.744.649 kr.

    14.300.000 kr.

(Tap)/Hagnaður

      2.950.000 kr.

      4.981.408 kr.

      4.950.000 kr.

5.3.
Aðalfundur LS samþykkir 2009 að framvegis taki laun formanns samtakanna árlegum breytingum í samræmi við hækkun launavísitölu Hagstofu Íslands.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar