Print

Samþykktar stefnur

Neytendastefna, samþykkt á aðalfundi LS 2017

Bætt upplýsingagjöf til neytenda
1. Upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með því að styrkja verulega regluverk um vandaðar og greinargóðar upprunamerkingar matvæla með eftirfarandi hætti :
a. Skylt verði að merkja með upprunalandi allar afurðir sem standa neytendum til boða, hvort sem er í verslunum, veitingastöðum og mötuneytum.
b. Upprunamerkingar verði settar fram með áberandi og skýrum hætti og m.a. gerðar kröfur um leturstærð o.fl.
c. Upprunalegt framleiðsluland vörunnar komi skýrt fram þótt henni sé umpakkað annars staðar. Þetta eigi líka við um vörur frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

2. Upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með því að bæta verulega innihaldslýsingar matvöru þar sem m.a. komi fram hvort - og þá hvaða - hormónar, lyf, eitur- eða varnarefni voru notuð við framleiðsluna.
3. Upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með því að umhverfisfótspor matvöru komi fram með skilmerkilegum og skýrum hætti m.t.t. kolefnislosunar, áburðarnotkunar, erfðabreytts fóðurs, sýklalyfjanotkunar, hormónanotkunar, notkunar á illgresis- eða skordýraeitri o.s.frv.
4. Upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með sérstökum merkingum á dýraafurðum m.t.t. dýravelferðar. Taka skal sérstaklega fram með áberandi hætti ef ekki er tryggt að afurðir séu af dýrum sem alin eru við sambærilegar dýravelferðarreglur og gilda hér á landi.

Sérstök neytendavernd fyrir börn, aldraða og sjúklinga
5. Sérstakt átak verði gert í koma ítarlegum og greinargóðum upplýsingum til foreldra um þann mat sem boðið er upp á í skólum og leikskólum m.t.t. þeirra þátta sem greinir í lið 1 – 4.
6. Sérstakt átak verði gert í koma ítarlegum og greinargóðum upplýsingum til sjúklinga, aldraðra og annarra sem dvelja um lengri eða skemmri tíma á sjúkrastofnum, dvalarheimilum og viðlíka stöðum um þann mat sem þeim er boðið upp á m.t.t. þeirra þátta sem greinir í lið 1 – 4.

Bætt eftirlit í þágu neytenda
7. Neytendavernd verði bætt með skilvirkara og auknu eftirliti og strangari viðurlögum gegn brotum.
a. Bætt og reglulegt eftirlit í a.m.k. hverjum mánuði verði með merkingum í verslunum, veitingastöðum og mötuneytum m.t.t. þeirra þátta sem greinir í lið 1 – 4.
b. Hafin verði regluleg sýnataka úr öllum innfluttum matvælum og sýnataka úr innlendri framleiðslu uppfærð m.t.t. þeirra þátta sem greinir í lið 1 – 4.
c. Gerð verði krafa um fullnægjandi vottorð með innlendri og innfluttri matvöru m.t.t. þeirra þátta sem greinir í lið 1 – 4.
8. Neytendavernd verði bætt með skilvirkari og harðari viðurlögum við rangri og villandi upplýsingagjöf m.t.t. þeirra þátta sem greinir í lið 1 – 6.

Fordæmi hins opinbera við neytendavernd með siðlegri innkaupastefnu
9. Gerð verði skýlaus krafa um að fyrir liggi upplýsingar um uppruna, dýravelferð, umhverfisfótspor, hormóna-, lyfja- og eiturefnainnihald við öll opinber innkaup m.t.t. þeirra þátta sem greinir í lið 1 – 4. Það sé forsenda innkaupa bæði ríkis og sveitarfélaga að matvörur standist ströngustu gæðakröfur í þessu tilliti.
10. Hollusta, hreinleiki og umhverfisfótspor m.t.t. sýklalyfjanotkunar, dýravelferðar, hormóna-, lyfja- og eiturefnanotkunar verði metin a.m.k. jafn þýðingarmikil við opinber útboð og innkaup á matvælum og verð eða hæfi bjóðenda. Þetta gildi um ríki, sveitarfélög og allar opinberar stofnanir og félög.

Samþykkt á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda 2017.

Stefna til 2027

Inngangur
Víðtæk stefnumótunarvinna var unnin hjá Landssamtökum sauðfjárbænda í aðdraganda búvörusamninga sem undirritaðir voru 19. febrúar 2016. Þessi vinna var nauðsynleg við mótun samningsmarkmiða þar sem sérstök áhersla var lögð á jafnrétti, nýliðun, verðmætasköpun og umhverfismál. Byggt var á eldri stefnu og samþykktum um leið og lagðar voru nýjar áherslur á fjölmörgum sviðum. Að baki liggja úttektir, minnisblöð, skýrslur og vinna bænda, starfsfólks, ráðgjafa og sérfræðinga. Fyrir árið 2027 vilja samtökin ná tíu markmiðum fyrir greinina:
Kolefnisjöfnun
Afurðir án erfðabreytts fóðurs
Vottuð dýravelferð
Rekjanlegar afurðir
Sjálfbærni til framtíðar
Lágmarks umhverfisfótspor
Sanngjörn viðskipti
Vottuð umhverfisstefna
Stefna um samfélagsábyrgð
Alþjóðlega viðurkennd sérstaða
Með þessu eru festar í sessi þær áherslur sem hafa rutt sér til rúms í starfsemi samtakanna og íslenskri sauðfjárrækt á undanförnum misserum og árum. Tilgangurinn er að efla íslenska sauðfjárrækt í sátt við samfélag og náttúru þar sem sérstaða, sjálfbærni, fjölbreytni og verðmætasköpun eru höfð að leiðarljósi. Markmiðunum verður einungis náð með því að hlúa að þeirri einstöku menningu sem tengist sauðfjárrækt um leið og stuðlað er að framþróun, nýsköpun, nýliðun og eflingu byggðar. Bændur eru vörslumenn landsins og vita að sjálfbær nýting auðlinda og virðing fyrir náttúrunni er forsenda farsællar framþróunar lands og byggðar.

Kolefnisjöfnun
Fyrir árið 2027 skal íslensk sauðfjárrækt verða kolefnisjöfnuð. Þetta verður gert með landgræðslu, skógrækt, endurheimt votlendis, eldsneytisskiptum og fleiri leiðum samkvæmt aðgerðaáætlun Umhverfisráðgjafar Íslands ehf. frá mars 2017 sem unnin var fyrir Landssamtök sauðfjárbænda. Leitað verður samstarfs og stuðnings stjórnvalda og annarra aðila. Stefnt er að því að allar afurðir frá íslenskum sauðfjárbændum verði vottaðar sem kolefnishlutlausar eins fljótt og kostur er.

Án erfðabreytts fóðurs
Fyrir árið 2027 skulu allar íslenskar sauðfjárafurðir verða vottaðar sem afurðir sem framleiddar eru án erfðabreytts fóðurs. Með því er sérstaða þeirra sem náttúrulegra og hreinna afurða undirstrikuð. Í kjölfar samþykkta aðalfunda Landssamtaka sauðfjárbænda var erfðabreytt fóður bannað í íslenskri sauðfjárrækt. Bannið tók gildi 26. október 2016 með undirritun og gildistöku reglugerðar nr. 878/2016 um bann við notkun á erfðabreyttu fóðri í sauðfjárrækt. Þá var grundvöllur bannsins styrktur enn frekar 15. desember 2016 með reglugerð nr. 1229/2016 um breytingu á reglugerð nr. 1160/2013 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Frá og með haustinu 2017 er hægt að fullyrða að allt íslenskt lambakjöt, gærur og ull, eru af dýrum sem aldrei hafa fengið erfðabreytt fóður eða mjólk úr dýrum sem alin eru á erfðabreyttu fóðri. Stefnt er að því að þessi sérstaða verði alþjóðlega vottuð fyrir árið 2019.

Vottuð dýravelferð
Fyrir árið 2027 skal dýravelferð í íslenskri sauðfjárrækt verða alþjóðlega vottuð. Íslenskt sauðfé er alið á einstaklega umhverfisvænan og náttúrulegan hátt. Velferð fjárins er tryggð með vönduðum lögum og reglum sem standast allan alþjóðlegan samanburð. Sauðfjárbændur ætla að viðhalda þessu í samvinnu við neytendur, stjórnvöld, samtök og sérfræðinga. Stefnt er að því að regluverk og eftirlitskerfi með íslenskri sauðfjárrækt verði alþjóðlega vottað með tilliti til dýravelferðar fyrir árið 2020.

Allar afurðir rekjanlegar
Fyrir árið 2027 skulu allar íslenskar sauðfjárafurðir verða rekjanlegar beint til bónda. Endanlegar unnar neysluvörur þar sem notaðar eru afurðir af fleiri en einu dýri eins og t.d. lopi, slátur eða pylsur eru þó undanskildar. Skýrsluhaldskerfi íslenskrar sauðfjárræktar er til fyrirmyndar og nú þegar eru bæði lömb og fullorðin dýr skráð og rekjanleg. Það er sjálfsögð þjónusta við neytendur að lambakjöt og aðrar afurðir séu rekjanlegar beint til bónda eins og mögulegt er, hvort sem er í verslunum, mötuneytum eða á veitingastöðum. Sauðfjárbændur ætla að leita samvinnu við afurðastöðvar, kjötvinnslur, verslanir, sérfræðinga, stjórnvöld og fleiri til að tryggja að þetta markmið náist sem fyrst.

Sjálfbærni til framtíðar
Fyrir árið 2027 skulu allar íslenskar sauðfjárafurðir verða vottaðar sem sjálfbær framleiðsla.
Nær allur húsdýraúrgangur sem fellur til í íslenskri sauðfjárrækt er nýttur til áburðar og nær öll raforka sem greinin notar er framleidd með grænum orkugjöfum. Allir hlutar íslenskra sláturlamba eru nýttir, utan mænu og heila, en fullnýting afurða er umhverfisvæn og stuðlar að sjálfbærni.
Nú þegar eru um 95% íslenskrar kindakjötsframleiðslu undir hatti gæðastýringar sem er eitt öflugast sjálfbærniverkefni landsins. Nær allir íslenskir sauðfjárbændur hafa unnið með Matvælastofnun eða Landgræðslunni og tekið þátt í landbótaverkefnum eða staðið að verndun, landbótum eða uppgræðslu allt að 350 þúsund hektara lands í gegnum gæðastýringuna eða landbótaverkefnið Bændur græða landið.
Á næstu árum verða gróðurauðlindir landsins kortlagðar í öflugu samvinnuverkefni sauðfjárbænda, stjórnvalda, Landgræðslunnar og fleiri aðila. Tilgangurinn er meðal annars að bæta vísindalegan grunn undir öfluga og sjálfbæra beitarstjórnun til framtíðar. Stefnt er að því að öll framleiðslan verði undir hatti gæðastýringar, sem verði hið algilda viðmið, og greinin í heild verði alþjóðlega vottuð sem sjálfbær fyrir árið 2023.

Sanngjörn viðskipti
Fyrir árið 2027 skulu allar íslenskar sauðfjárafurðir framleiddar og meðhöndlaðar í anda jafnréttis og hugmyndafræði sanngjarnra viðskipta. Hún felur í sér að bændur og aðrir í virðiskeðjunni fái sanngjarnt endurgjald fyrir afurðir sínar og vinnu. Jafnframt að tekið sé jafnt tillit til efnahagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra áhrifa við ákvarðanir sem varða greinina eða framleiðsluna og að bændur eða fulltrúar þeirra komi að sem flestum þáttum framleiðsluferilsins frá bónda til neytenda. Stefnt er að því að gera sérstaka samninga við öll íslensk sauðfjársláturhús um sanngjörn viðskipti fyrir árið 2021. Nú þegar standa bændur, sláturleyfishafar og ríkið að sérstöku verkefni sem miðar að því að auka virði sauðfjárafurða með markvissri markaðssetningu erlendis og til erlendra ferðamanna. Stefnt er að því að árið 2027 komi helmingur tekna greinarinnar frá erlendum ferðamönnum eða erlendis frá.

Umhverfisfótspor

Fyrir árið 2027 skulu allar íslenskar sauðfjárafurðir verða vottaðar sem afurð með lágmarks umhverfisfótspori. Nú þegar er íslenskt sauðfé alið án hormóna eða vaxtahvetjandi lyfja og erfðabreytt fóður hefur verið bannað. Notkun á sýklalyfjum í íslenskum landbúnaði er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Vegna veður- og loftslagsskilyrða er ekki sérstök þörf á eitur- eða hjálparefnum í íslenskri sauðfjárrækt og áburðarnotkun er lítil í alþjóðlegum samanburði. Öll íslensk sauðfjárbú eru háð ströngu regluverki, eftirliti og fyrirvaralausum skoðunum Matvælastofnunar. Framleiðslan er umhverfisvæn og einstaklega náttúruvæn og nær öll raforka sem greinin notar er framleidd með grænum orkugjöfum og unnið er að fullri kolefnisjöfnun. Stefnt er að því að lágmarks umhverfisfótspor íslenskrar sauðfjárræktar verði alþjóðlega vottað fyrir árið 2023.

Vottuð umhverfisstefna

Fyrir árið 2027 skulu Landssamtök sauðfjárbænda og öll fyrirtæki sem þau koma að vera með vottaða umhverfisstefnu samkvæmt ISO staðli. Hluti af því ferli er að samtökin setji sér eigendastefnu varðandi hlutafjáreign í fyrirtækjum. Þannig vilja sauðfjárbændur ganga á undan með góðu fordæmi og hvetja aðra í virðiskeðjunni til að fylgja á eftir. Stefnt er að fyrstu vottuninni árið 2018.

Stefna um samfélagsábyrgð

Fyrir árið 2027 skulu Landssamtök sauðfjárbænda og öll fyrirtæki sem þau koma að vera með stefnu um samfélagsábyrgð samkvæmt ISO staðli. Samtökin og fyrirtæki sem þau koma að skulu starfa eftir ábyrgum stjórnarháttum og vera í fararbroddi í umhverfismálum. Drög að stefnu um samfélagsábyrgð skulu lögð fyrir aðalfund Landssamtaka sauðfjárbænda 2018 og stefnt er að fyrstu vottuninni í kjölfarið.

Alþjóðlega viðurkennd sérstaða

Fyrir árið 2027 skal sérstaða íslensks sauðfjár og afurða þess vera alþjóðlega viðurkennd. Jafnframt skal leita alþjóðlegrar viðurkenningar á einstæðum búskaparháttum. Íslenskt lambakjöt er þjóðarréttur Íslendinga að mati landsmanna sjálfra og menningarleg sérstaða sauðfjárræktarinnar, afurðanna og hefðanna sem tengjast er einstök í veröldinni. Mikilvægi íslensku sauðkindarinnar vegna erfðafræðilegs fjölbreytileika er alþjóðlega viðurkennd af hinum virtu Slow Food samtökum og unnið er að alþjóðlegri afurðaheitavernd á vettvangi Evrópusambandsins með vísan til uppruna og sérstöðu.

Samþykkt á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda 2017.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar