Print

Samþykktir Landssamtaka sauðfjárbænda

pdfSamþykktir Landssamtaka saufjárbænda

 

SAMÞYKKTIR LANDSSAMTAKA SAUÐFJÁRBÆNDA

I. kafli. Almenn ákvæði

1. gr.

Samtökin heita Landssamtök sauðfjárbænda (hér eftir LS). Þau eru aðili að Bændasamtökum Íslands (hér eftir BÍ). Heimili þeirra og varnarþing er á skrifstofu samtakanna.

2. gr.

LS eru samtök sjálfstæðra svæðisfélaga sauðfjárbænda og deilda sauðfjárbænda innan búnaðarsambanda og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna.

Aðildarfélög LS eru eftirtalin: Félag sauðfjárbænda í Borgarfjarðarhéraði, Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu, Félag sauðfjárbænda á Snæfellsnesi, Félag sauðfjárbænda í Strandasýslu, Félag sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu, Félag sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu, Félag sauðfjárbænda í Skagafirði, Félag sauðfjárbænda við Eyjafjörð, Félag sauðfjárbænda í Suður-Þingeyjarsýslu, Félag sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum, Félag sauðfjárbænda á Suðurfjörðum, Félag sauðfjárbænda í Vestur-Skaftafellssýslu, Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu, Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu, Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Austur-Skaftafellssýslu, Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Norður- Þingeyinga, Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Kjalarnesþings, Félag sauðfjárbænda á Vestfjörðum og Félag sauðfjárbænda í Vopnafirði

3. gr.

Fulla aðild að LS geta haft þeir einstaklingar sem þess óska og reka sauðfjárbú á lögbýlum enda hafi þeir fulla aðild að einhverju aðildarfélaga samtakanna, sbr. 2. gr. Þegar bú er rekið sem lögaðili skal félagsaðild bundin við þá einstaklinga sem að búrekstrinum standa. Bændum sem lenda í tímabundnu fjárleysi skal heimil áframhaldandi þátttaka í félaginu með fullum réttindum, hafi þeir búsetu á viðkomandi lögbýli. Félagsgjald á hvert bú er ákveðið skv. 7. gr. og felur í sér fulla aðild fyrir tvo einstaklinga.

Standi fleiri en tveir aðilar að búrekstri, skal full aðild heimil þeim sem þess óskar, enda fullnægi viðkomandi að öðru leyti skilyrðum fyrir fullri aðild, sbr. 1.mgr. Með því er átt við að makar rekstraraðila, eigendur félagsbúa eða lögaðilar sem standa fyrir búrekstri eða aðrir þeir einstaklingar sem standa sannanlega að búrekstrinum, geta haft fulla aðild gegn greiðslu aukagjalds sem ákveðið er skv. 7. gr.

Aukaaðild að LS geta átt þeir einstaklingar, 18 ára og eldri, sem búsettir eru á Íslandi og styðja markmið samtakanna. Félagsgjöld vegna aukaaðildar eru ákveðin skv. 7. gr.

Einungis félagsmenn með fulla aðild skv. 1. og 2. mgr., teljast fullgildir félagsmenn.

4. gr.

Aðalfundur LS skal staðfesta aðild og samþykktir nýrra aðildarfélaga með minnst 2/3 hlutum atkvæða aðalfundarfulltrúa, en stjórn LS staðfestir breytingar á samþykktum þeirra. Í héruðum þar sem sauðfjárbændafélög starfa ekki, geta búnaðarsambönd starfrækt innan sinna vébanda deildir sauðfjárbænda, sem eru aðilar að LS og hafa sömu skyldur og njóta sömu réttinda og félögin. Þær skulu hafa sérstaka stjórn, sem sér um að skrá félaga og halda árlega aðalfund. Heimilt er, ef aðalfundur búnaðarsambandsins og sauðfjárbændadeildarinnar samþykkir, að stjórn þess gegni jafnframt störfum stjórnar deildar sauðfjárbænda. Lágmarksfjöldi fullgildra félaga í aðildarfélagi skal vera 15. Fyrir aðalfundi hvers árs skal ávallt liggja fullnægjandi félagaskrá samkvæmt ákvæðum í 4. grein samþykkta BÍ.

5. gr.

Aðalfundur LS getur, með minnst 2/3 hlutum atkvæða aðalfundarfulltrúa, vikið aðildarfélagi úr LS ef samþykktir þess eða starfsemi er ekki í samræmi við lög LS eða ef það þykir óhjákvæmilegt af öðrum ástæðum.

6. gr.

Tilgangur LS er að gæta hagsmuna sauðfjárbænda á eftirfarandi hátt: A. Að beita sér fyrir bættum kjörum sauðfjárbænda á öllum sviðum. B. Að vera málsvari aðildarfélaga og einstakra félagsmanna og koma fram fyrir þeirra hönd. C. Að vinna að sölumálum sauðfjárafurða á innlendum sem erlendum markaði með það að markmiði að auka verðmæti afurðanna. D. Að vinna ötullega að mótun ræktunarstefnu í samvinnu við BÍ, þar með talin þátttaka í Fagráði. E. Að stuðla að umhverfisvernd og skynsamlegri landnýtingu. F. Að skapa tengsl og auka samstöðu framleiðenda til eflingar sauðfjárræktinni. G. Að koma til móts við óskir neytenda um vöruval og vörugæði.

LS starfar í samráði við Bændasamtök Íslands í samræmi við verkaskiptasamning LS og BÍ.

7. gr.

Aðilar að LS, sbr. 3. gr., skulu greiða félagsgjald. Stjórn samtakanna skal gera tillögur um fjárhæðir félagsgjalda á aðalfundi ár hvert. Gerðar skulu tillögur að fjárhæðum búsgjalds, sbr. 1. mgr. 3. gr, aukagjalds, sbr. 2. mgr. 3. gr. og gjalds vegna aukaaðildar, sbr. 3. mgr. 3. gr. Tillögur stjórnar um fjárhæðir félagsgjalda eru háðar samþykki einfalds meirihluta fulltrúa á aðalfundi samtakanna.

Einungis þeir sem ekki skulda gjaldfallin félagsgjöld eða hafa samið um greiðslu þeirra njóta réttinda sem félagsmenn með fulla aðild eða aukaaðild að LS.

8. gr.

Samtökin skulu halda sem bestum tengslum við aðildarfélögin, m.a. með því að birta fundargerðir stjórnar á heimasíðu samtakanna. Einnig skal stjórn LS senda fulltrúa stjórnar á aðalfundi aðildarfélaganna ef þess er óskað. Eftir aðalfund hvers aðildarfélags skal stjórn þess senda LS skýrslu um störf félagsins á liðnu ári, upplýsingar um kosningar í stjórn og annað sem máli kann að skipta, eins fljótt og auðið er. Stjórn LS skal boða formenn aðildarfélaga til fundar að lágmarki einu sinni á ári. Fundurinn skal vera stjórn til samráðs og ráðgjafar og er ályktunarhæfur sé meirihluti formanna á fundinum, en stjórn er ekki bundin af ályktunum hans.

II. kafli. Aðalfundur

9. gr.

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum LS. Hann skal halda eigi síðar en í aprílmánuði ár hvert. Aðalfundur gerir tillögu að tíma- og staðsetningu aðalfundar næsta árs.

Til aðalfundar skal boða með minnst 4 vikna fyrirvara á sannanlegan hátt. Í fundarboði skal aðildarfélögum tilkynntur frestur til að senda inn mál sem leggja á fyrir fundinn. Aðalfundur getur þó ákveðið að taka til afgreiðslu mál sem kunna að koma fram síðar. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað og meirihluti kjörinna fulltrúa mættur. Fundargögn skulu berast formönnum aðildarfélaga í síðasta lagi viku fyrir aðalfund.

Á aðalfundi skulu eftirfarandi mál tekin fyrir:

1. Skýrsla stjórnar um starfsemi samtakanna frá síðasta aðalfundi.

2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu.

3. Gerð fjárhagsáætlunar.

4. Ákveða laun stjórnar.

5. Kosningar í stjórn og varastjórn.

6. Kosning fulltrúa á Búnaðarþing/ársfund BÍ; Formaður er sjálfkjörinn. Fjöldi búnaðarþingsfulltrúa fer eftir samþykktum Bændasamtaka Íslands. Þeir skulu kosnir á aðalfundi LS til tveggja ára. Niðurstöður kosninga skal tilkynna stjórn BÍ a.m.k. 30 dögum fyrir Búnaðarþing.

7. Kosning endurskoðanda, skoðunarmanns og varamanna þeirra.

8. Önnur mál.

Aðalfundur kýs sér tvo fundarstjóra, sem stjórna fundinum og taka ákvörðun um málsmeðferð og atkvæðagreiðslur. Fundarstjórar tilnefna tvo fundarritara.

Í upphafi fundar skal kjósa kjörbréfanefnd, skipaða þrem mönnum. Hún fer yfir kjörbréf og leggur fram tillögur sínar áður en almennar umræður hefjast. Þá skal fundarstjóri gera grein fyrir úr hvaða hólfum kjósa skal um stjórnarmenn.

Stjórn ákveður heiti starfsnefnda og fjölda þeirra á hverjum aðalfundi. Stjórn raðar fulltrúum í nefndir og skipar formenn þeirra.

10. gr.

Aukafundi skal halda þegar stjórn LS telur nauðsyn vera til svo og þegar 1/3 hluti aðildarfélaga krefst þess bréflega, enda hafi þau tilkynnt í hvaða tilgangi aukafundar er krafist. Skal fundur haldinn eigi síðar en 30 dögum eftir að krafan berst stjórninni í hendur og skal hann boðaður með minnst viku fyrirvara á sannanlegan hátt. Á aðal- og aukafundum gilda almenn fundarsköp í þeim atriðum sem meðfylgjandi reglur um starfshætti LS taka ekki til.

11. gr.

Hvert aðildarfélag kýs einn fulltrúa úr hópi fullgildra félagsmanna á aðal- og aukafundi LS fyrir fyrstu 50 fullgilda félagsmenn sína. Tvo fulltrúa séu fullgildir félagsmenn 51-100, þrjá séu fullgildir félagsmenn 101-200 o.s.frv. Fjöldi fulltrúa hvers aðildarfélags skal miðast við fjölda félagsmanna í LS sem ekki skulda gjaldfallin félagsgjöld eða hafa samið um greiðslu í félagaskrá 1. febrúar ár hvert og skal atkvæðisréttur og kjörgengi fulltrúa miðast við þá félagsmenn LS sem ekki skulda gjaldfallin félagsgjöld eða hafa samið um greiðslu tveimur vikum fyrir aðalfund. Aðal- og aukafundir skulu opnir til áheyrnar öllum félagsmönnum LS. Þó er heimilt að loka fundinum fyrir öðrum en stjórn og kjörnum fulltrúum, um einstök málefni. Heimilt er að senda aðalfund beint út fram að nefndarstörfum.

12. gr.

Kjörnir fulltrúar hafa einir atkvæðisrétt á fundum LS og ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða úrslitum í afgreiðslu mála, nema þar sem samþykktir þessar mæla fyrir um aukinn meirihluta. Séu atkvæði jöfn í kosningu trúnaðarmanna skal hún endurtekin. Séu atkvæði enn jöfn skal hlutkesti ráða.

III. Kafli. Stjórn og starfsemi LS

13. gr.

Stjórn LS skipa fimm menn og þrír til vara, kjörnir úr hópi fullgildra félagsmanna samtakanna og ganga þeir úr stjórn á víxl. Kosning fer þannig fram:

a) Formaður. Tilkynna skal framboð til formanns til fundarstjóra aðalfundar á fyrri degi aðalfundar LS. Sé enginn eða einn sem tilkynnir framboð skal kjósa óbundinni kosningu milli allra félagsmanna LS. Séu tveir eða fleiri sem tilkynna framboð skal einungis kosið bundinni kosningu milli þeirra sem tilkynna framboð. Hljóti enginn meira en helming atkvæða í fyrstu umferð skal kosið aftur milli tveggja efstu manna. Séu fleiri en tveir efstir með jafnmörg atkvæði skal kosið milli þeirra allra. Sé enn jafnt að lokinni annarri umferð skal draga um hver sé réttkjörinn formaður.

b) Almennir stjórnarmenn. Landið skiptist í eftirfarandi hólf:

Hólf 1 - Vesturhólf: Félag sauðfjárbænda í Borgarfjarðarhéraði, Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu, Félag sauðfjárbænda á Snæfellsnesi og Félag sauðfjárbænda á Vestfjörðum.

Hólf 2 - Norðvesturhólf: Félag sauðfjárbænda í Strandasýslu, Félag sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu, Félag sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu og Félag sauðfjárbænda í Skagafirði.

Hólf 3 - Norðausturhólf: Félag sauðfjárbænda við Eyjafjörð, Félag sauðfjárbænda í Suður- Þingeyjarsýslu, Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Norður-Þingeyinga, Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Austurlands, Félag sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum og Félag sauðfjárbænda á Suðurfjörðum.

Hólf 4 - Suðurhólf: Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Austur-Skaftafellssýslu, Félag sauðfjárbænda í Vestur-Skaftafellssýslu, Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu, Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu og Deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Kjalarnesþings.

Hvert hólf á einn stjórnarmann.

Kosning fer fram með sama hætti og á formanni.

c) Varastjórn. Varastjórn er skipuð þremur mönnum. Varastjórn er kosin til eins árs í senn. Landið er eitt hólf í kjöri á varastjórn. Sá sem flest atkvæði hlýtur á aðalfundi, í varastjórn er 1. varamaður og svo koll af kolli. Ekki er gert ráð fyrir að menn tilkynni sérstaklega framboð til varastjórnar en það er þó heimilt. Varastjórn er alltaf kosin úr hópi allra félagsmanna LS.

Forfallist aðalmaður eða segi af sér áður en kjörtíma hans lýkur í stjórn tekur 1. varamaður sæti hans fram að næsta aðalfundi, en þá skal kosinn nýr fulltrúi í stjórn sem situr út kjörtíma þess sem forfallaðist.

Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár og mega þeir ekki sitja lengur í stjórn en þrjú kjörtímabil samfellt. Verði formaður kosinn úr hópi stjórnarmanna, skerða þau ár sem hann starfaði sem almennur stjórnarmaður ekki starfstíma hans sem formanns, sem er að hámarki þrjú kjörtímabil. Falli formaður frá eða verði að hætta störfum tekur varaformaður sæti hans fram að næsta aðalfundi, en þá skal kosinn formaður til loka kjörtíma fráfarandi formanns. Seta hans þann tíma bætist við seturétt í þrjú kjörtímabil. Taki varamaður sæti í stjórn, bætist sá tími við seturétt hans í þrjú kjörtímabil. Stjórn skal að loknum aðalfundi kjósa úr sínum hópi varaformann og ritara.

14. gr.

Stjórn LS fer með mál samtakanna milli aðalfunda og fylgir ályktunum þeirra eftir. Heimilt er stjórn að ráða framkvæmdastjóra er annist daglega stjórn samtakanna í samræmi við ákvarðanir stjórnar. Framkvæmdastjóri er prókúruhafi samtakanna. Sé ekki starfandi framkvæmdastjóri ber formaður ábyrgð á fjármálum samtakanna og er prókúruhafi þeirra. Stjórn getur skipað starfsnefndir í einstaka málaflokka, sem gera þá tillögur til aðalfundar sé það talið henta.

15. gr.

Formaður boðar stjórnarfundi. Stjórnarfundir skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir. Í fjarveru stjórnarmanns skal kalla til varamann. Formaður stýrir fundum stjórnar og er málsvari samtakanna út á við. Stjórnarfundi skal einnig boða ef tveir stjórnarmenn krefjast þess, enda hafi þeir tilkynnt formanni þá kröfu sína skriflega og getið þess í hvaða tilgangi beðið er um fundinn. Á stjórnarfundum skal einfaldur meirihluti ráða úrslitum mála og falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Stjórnin ritar fundargerð. Stjórnarfundur er lögmætur sé meirihluti stjórnar á fundi.

16. gr.

Aðalfundur skal á ári hverju kjósa einn löggiltan endurskoðanda LS og annan til vara. Þá skal kjósa einn skoðunarmann reikninga og annan til vara. Reikningsár samtakanna er almanaksárið.

17. gr.

Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundi LS og þarf til þess minnst 2/3 hluta atkvæða aðalfundarfulltrúa. Tillögur til lagabreytinga skulu sendar stjórn í tæka tíð og sendar til aðildarfélaga með fundarboði.

18. gr.

LS hættir störfum ef það er samþykkt í formi lagabreytinga. Eignir samtakanna skulu þá afhentar Bændasamtökum Íslands er ráðstafa þeim í þágu þeirra bænda er sauðfjárrækt stunda.

 

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar